Mál 10 2009
Ár 2010, fimmtudaginn 25. mars, var haldinn fundur í úrskurðarnefnd lögmanna að Álftamýri 9, Reykjavík. Mættir voru undirritaðir nefndarmenn.
Fyrir var tekið mál nr. 10/2009:
E ehf.
gegn
F, hdl.
og kveðinn upp svohljóðandi
Ú R S K U R Ð U R :
Í erindi G, fyrir hönd E ehf., sóknaraðila, mótteknu á skrifstofu Lögmannafélags Íslands þann 5. maí 2009, er meðal annars leitað eftir endurgreiðslu þóknunar F, hdl., varnaraðila, sem hann áskildi sér fyrir málarekstur fyrir sóknaraðila. Greinargerð varnaraðila er dagsett 29. maí 2009, en sóknaraðili gerði nokkrar athugasemdir við hana í bréfi til nefndarinnar, dags. 8. júlí 2009. Varnaraðili tilkynnti að hann sæi ekki ástæðu til að tjá sig frekar um málið.
Málsatvik og málsástæður.
I.
Málsatvik eru í stuttu máli þau að á árunum 2003 og 2004 sótti sóknaraðili um leyfi umhverfisráðuneytisins til útflutnings á hvalakjöti til Ö, en sóknaraðili hafði þá um nokkurt skeið aflað þar viðskiptasambanda og lagt mikla vinnu í kynningarstarf. Að lokinni nokkurri undirbúningsvinnu gaf ráðuneytið leyfi til útflutnings á 10 tonnum af hrefnukjöti þann x. febrúar 200x. Stuttu síðar sótti sóknaraðili um útflutningsleyfi fyrir einu tonni af hrefnukjöti til W. Þann x. apríl 200x tilkynnti ráðuneytið að það hefði ógilt útflutningsleyfið frá x. febrúar með vísun til þess að nauðsynlegt væri að samningurinn um alþjóðaverslun með tegundir sem væru í útrýmingarhættu yrði framkvæmdur eins og til væri ætlast.
Í kjölfar ógildingar á leyfinu varð sóknaraðili af viðskiptum með hvalaafurðirnar. Um mitt ár 2004 fór sóknaraðili þess á leit við umhverfisráðuneytið að viðurkennd yrði bótaskylda gagnvart sér. Erindinu var hafnað og leitaði sóknaraðili þá til umboðsmanns Alþingis, sem taldi í áliti í apríl 200x að verulegir annmarkar hefðu verið á meðferð málsins og afgreiðslu þess af hálfu ráðuneytisins. Í kjölfar álits umboðsmanns Alþingis krafði lögmaður sóknaraðila íslenska ríkið enn um skaðabætur en þeirri kröfu var hafnað.
Sóknaraðili leitaði til varnaraðila í upphafi árs 2006 um aðstoð við að sækja bótakröfu sína á hendur íslenska ríkinu. Hafði sóknaraðili áður þegið ráðgjöf frá varnaraðila á fyrri stigum málsins. Þeir gerðu með sér samning 8. maí 2006 um lögmannsþóknun, en samkvæmt þeim samningi tók varnaraðili að sér að gæta hagsmuna sóknaraðila vegna væntanlegrar málsóknar gagnvart umhverfisráðuneytinu og ríkissjóði til heimtu skaðabóta. Þóknun fyrir verkið skyldi tengd niðurstöðu dómsmálsins og var tilgreind sú ástæða að verkkaupi, sóknaraðili, ætti takmarkaða fjármuni til þess að greiða þóknun varnaraðila. Varnaraðili skyldi í fyrsta lagi fá allan tildæmdan málskostnað til sín. Í öðru lagi skyldi varnaraðili fá 40% af fyrstu tveimur milljónunum sem dæmdar yrðu umfram málskostnað. Af næstu 5 milljónum króna sem tildæmdar kynnu að verða skyldu 20% renna til varnaraðila, en af því sem umfram væri skyldu 10% renna til varnaraðila. Tapaðist málið skyldi sóknaraðili einungis greiða útlagðan kostnað auk fastrar þóknunar varnaraðila, 150.000 króna auk virðisaukaskatts. Þá skyldi sóknaraðili greiða allan útlagðan kostnað vegna reksturs málsins.
Bótamálið var höfðað gegn íslenska ríkinu þann x. janúar 200x og dómur var kveðinn upp x. júní 200x. Niðurstaða héraðsdóms var sú að dæma sóknaraðila bætur að álitum, að fjárhæð 1.500.000 krónur ásamt dráttarvöxtum frá þingfestingu málsins. Að auki var íslenska ríkinu gert að greiða hluta málskostnaðar sóknaraðila, 700.000 krónur.
Vegna innheimtuaðgerða lánardrottna sóknaraðila veðsetti sóknaraðili varnaraðila kröfu sína á hendur ríkissjóði. Einn lánardrottna sóknaraðila gerði fjárnám í dómkröfunni, áður en hún kom til útborgunar. Að loknum nokkrum samskiptum varnaraðila við lögmann fjárnámshafans var ákveðið að varnaraðili fengi, á grundvelli handveðsyfirlýsingar, alls 2.112.690 krónur af þeim 2.893.027 krónum sem ríkissjóður greiddi samkvæmt niðurstöðu héraðsdóms. Mismunurinn rann upp í kröfu fjárnámshafans.
II.
Í erindi sínu til úrskurðarnefndar kveðst sóknaraðili telja rétt að samningur sinn við varnaraðila um lögmannsþóknun verði ógiltur og að varnaraðila yrði greiddur hin tildæmdi málskostnaður, eða 700.000 krónur, enda hefði sóknaraðila ekki verið sýnd nein sundurliðun á dæmdum og greiddum bótum, hvorki með yfirliti né reikningi.
Sóknaraðili telur samning sinn og varnaraðila ekki hafa verið í sína þágu. Samningurinn hafi verið gerður af varnaraðila og hann hafi verið sóknaraðila í versta falli mjög ósanngjarn. Sóknaraðili telur tafir hafa orðið á því að málinu yrði stefnt fyrir dómstóla og að málsmeðferðin hafi verið þar óvenjulega löng. Sóknaraðili telur varnaraðila hafa hagað vinnu sinni svo að hann hafi ekki lagt í að finna út raunverulegt tap sóknaraðila og leggja það fyrir dóminn. Sóknaraðili telur varnaraðila einungis hafa hugsað um eigin hagsmuni. Þá hafi varnaraðili enn ekki sent sér reikning þótt hann hefði reiknað og tekið sér virðisaukaskatt af bótafjárhæðinni sem greiðslu til sín.
III.
Í greinargerð sinni til úrskurðarnefndar kveðst varnaraðili hafa talið sóknaraðila hafa haft óraunhæfar væntingar um bætur úr ríkissjóði í málinu. Kveðst varnaraðili hafa reynt að gera sóknaraðila grein fyrir því að raunhæft væri að gera sér vonir um bætur að fjárhæð 300 þúsund til 2 milljónir króna. Varnaraðili kveðst hafa tjáð sóknaraðila að ef gera ætti tilraun til þess að fara fram á bætur vegna tapaðra tekna og viðskiptasambanda þyrfti að láta dómkveðja matsmenn til að meta slíkt. Sóknaraðili hafi hins vegar útilokað að leggja út í kostnað við dómkvaðningu matsmanna, enda hefði fyrirtækið ekki átt neitt fé.
Varnaraðili kveður sóknaraðila hafa leitað til sín í ársbyrjun 2006. Hann hafi lagt til að varnaraðili tæki málið að sér út á hlut, með skiptingunni 50-50. Varnaraðili kveðst hafa verið efins um það í fyrstu, en hann hafi látið til leiðast en lagt til að hlutur sinn yrði minni og að sóknaraðili yrði að greiða ákveðna lágmarksþóknun ef málið ynnist ekki. Þá skyldi sóknaraðili greiða allan útlagðan kostnað. Varnaraðili kveður samning um lögmannsþóknun hafa verið gerðan í maí 2006 og að sóknaraðili hafi verið mjög ánægður með þann samning, svo sem fram komi í tölvupóstsamskiptum þeirra.
Varnaraðili telur sóknaraðila hafa verið ánægðan með þjónustu sína, hann hafi verið ánægður með stefnuna í dómsmálinu og hann hafi ekki gert neinar athugasemdir þótt hann hefði stundum kosið að málið gengi hraðar fyrir sig. Varnaraðili kveðst hafa gert honum grein fyrir að á brattann væri að sækja í málinu. Varnaraðili telur þann annmarka hafa verið á málinu að ekki hafi legið fyrir nein gögn um tjón sóknaraðila. Hann hafi ekki viljað leggja út í kostnað við dómkvaðningu vegna peningaskorts.
Varnaraðili kveður niðurstöðu dómsmálsins hafa komið þægilega á óvart, sigur hafi unnist og bætur hafi verið dæmdar að álitum. Fallist hefði verið á kröfu um bótaskyldu ríkissjóðs þótt dómurinn hefði vísað frá hluta kröfugerðarinnar. Varnaraðili telur sóknaraðila hafa verið ánægðan með niðurstöðuna og hann hafi virst skilja hvað í dóminum hafi falist og því ekki séð ástæðu til að áfrýja málinu.
Varnaraðili hafnar því algjörlega að um ósanngjarna gjaldtöku af sinni hálfu hafi verið að ræða. Hún hafi verið nákvæmalega sú sem samið hafi verið um að beiðni sóknaraðila. Varnaraðili telur vera fráleitar fullyrðingar um að hann hafi ekki gætt hagsmuna sóknaraðila til fulls í málinu.
IV.
Í athugasemdum sóknaraðila við greinargerð varnaraðila nefnir sóknaraðili meðal annars að enginn raunverulegur undirbúningur hafi legið að baki bótakröfu í dómsmálinu. Gögn sem áttu að styðja hana hafi verið illa unnin. Telur sóknaraðili að það hafi verið á ábyrgð varnaraðila að leggja fram fullnægjandi gögn til stuðnings bótakröfunni.
Niðurstaða.
Samkvæmt 1. mgr. 24. gr. lögmannalaga, nr. 77/1998, er lögmanni rétt að áskilja sér hæfilegt endurgjald fyrir störf sín og skal umbjóðanda hans, eftir því sem við verður komið, gert ljóst hvert það gæti orðið í heild sinni. Þar á meðal getur lögmaður áskilið sér hluta af þeirri fjárhæð sem umbjóðandi fær greitt í máli, svo og hærra endurgjald ef mál vinnst en ef það tapast. Loforð um ósanngjarnt endurgjald fyrir starf lögmanns bindur ekki umbjóðanda hans sbr. 2. mgr. 24. greinar.
Aðilar máls þessa gerðu með sér samning um lögmannsþjónustu varnaraðila við sóknaraðila í tilteknu máli. Er aðdraganda þessa samnings lýst nánar hér að framan. Aðferð þeirri, sem ákveðin var um ákvörðun þóknunar varnaraðila, er nánar lýst í 3. gr. samningsins. Er aðferðin í samræmi við lagaheimildir, sbr. áðurnefnd ákvæði lögmannalaga. Samkvæmt 4. gr. samningsins skyldi sóknaraðili meðal annars standa straum af kostnaði, svo sem kostnaði við öflun matsgerðar.
Samningurinn fól í sér áhættu beggja aðila. Ekki verða fyrirliggjandi upplýsingar þó skildar á annan hátt en þann að báðir aðilar hafi verið sæmilega upplýstir um áhættuþætti og kosti og ókosti þess fyrirkomulags um þóknun sem samið var um.
Að mati úrskurðarnefndar var samningurinn ekki ósanngjarn í garð sóknaraðila, miðað við aðstæður í málinu og möguleika hans til að sækja bætur úr hendi ríkissjóðs á öðrum grundvelli. Að mati nefndarinnar verður ekki séð að varnaraðili hafi beitt misneytingu gagnvart sóknaraðila við samningsgerðina eða beitt öðrum, vafasömum aðferðum til þess að ljúka samningsgerðinni.
Samkvæmt þessu telur nefndin áskilda þóknun varnaraðila samkvæmt 3. gr. samningsins við sóknaraðila, 1.568.426 krónur auk virðisaukaskatts, vera hæfilegt endurgjald í skilningi 1. mgr. 24. gr. lögmannalaga.
Ú R S K U R Ð A R O R Ð :
Hæfilegt endurgjald varnaraðila, F, hdl., fyrir málflutningsstörf í þágu sóknaraðila, E ehf., er 1.568.426 krónur auk virðisaukaskatts.
ÚRSKURÐARNEFND LÖGMANNA