Mál 11 2009

 

Ár 2010, þriðjudaginn 9. febrúar, var haldinn fundur í úrskurðarnefnd lögmanna að Álftamýri 9, Reykjavík. Mættir voru undirritaðir nefndarmenn.

Fyrir var tekið mál nr. 11/2009:

Þ

gegn

Ö, hdl.

og kveðinn upp svohljóðandi

Ú R S K U R Ð U R :

Úrskurðarnefnd lögmanna barst erindi þann 6. maí 2009 frá Æ fyrir hönd Þ, kæranda, þar sem kvartað var yfir vinnubrögðum Ö, hdl., kærða, við innheimtu á verklaunakröfu kæranda. Af hálfu kærða var erindinu svarað með greinargerð Z, hdl., dags. 26. júlí 2009. Kærandi gerði nokkrar athugasemdir við greinargerð kærða í bréfi, dags. 28. ágúst 2009. Nokkrar athugasemdir bárust frá lögmanni kærða í bréfi, dags. 16. nóvember 2009. Þá liggur fyrir bréf kæranda, dags. 6. janúar 2010.

Málsatvik og málsástæður.

I.

Málsatvik eru í stuttu máli þau að í júní 2008 gaf kærandi út 2 verklaunareikninga, samtals að fjárhæð 501.604 krónur, vegna vinnu við breytingar á eignaskiptasamningi fyrir fjöleignarhús, sem honum var falið að annast. Reikningarnir fengust ekki greiddir og setti kærandi þá í innheimtu, fyrst hjá innheimtufyrirtækinu X, en síðar í löginnheimtu hjá Y. Kærði annaðist þar rekstur málsins.

Að undangengnu innheimtubréfi var gefin út stefna í málinu 19. ágúst 200x, sem var þingfest í Héraðsdómi Reykjavíkur þann x. september sama ár. Mætt var við þingfestingu málsins af hálfu stefnda og fenginn greinargerðarfrestur til 16. október 200x. Stefndi fékk þrívegis viðbótarfrest en honum var neitað um frekari frest í reglulegu þinghaldi þann 20. nóvember 200x. Kröfu stefnda um viðbótarfrest og synjun stefnanda átti að taka til úrskurðar 25. nóvember 200x, en þann dag var greinargerð skilað af hálfu stefnda. Krafðist stefndi frávísunar málsins en til vara sýknu.

Eftir úthlutun málsins til dómara fór fyrsta fyrirtaka þess fram 14. janúar 200x. Málinu var frestað til sáttaumleitunar til 28. janúar. Samkomulag varð með lögmönnum aðila að fresta málinu enn, utan réttar, þ.e. til 9. febrúar 200x. Í þinghaldi þann dag var málinu frestað til 23. mars 200x til flutnings um frávísunarkröfu stefnda. Í fyrirtöku málsins þann dag var ekki mætt af hálfu stefnda, en lögmaður hans tilkynnti að hann hefði sagt sig frá málinu. Kærði, fyrir hönd kæranda (stefnanda), fékk frest til 31. mars 200x til þess að skila sókn í málinu og til framlagningar gagna. Við fyrirtöku málsins þann dag krafðist kærði þess að fá að leggja fram viðbótargögn auk sóknar. Var krafan um framlagningu viðbótargagna tekin samstundis til úrskurðar og henni hafnað með vísan til 3. töluliðar 96. gr. laga um meðferð einkamála, nr. 91/1991. Sókn var hins vegar skilað í málinu.

Í úrskurði Héraðsdóms Reykjavíkur, uppkveðnum x. apríl 200x, var málinu vísað frá dómi ex officio þar sem málatilbúnaðurinn af hálfu stefnanda (kæranda) var ekki talinn hafa verið í samræmi við þau gögn sem málsóknin byggðist á, auk þess sem málið hefði verið vanreifað. Var málatilbúnaðurinn talinn bæði rangur og ófullnægjandi og í andstöðu við ákvæði e- og g-liða 1. töluliðar 80. gr. laga nr. 91/1991. Rúmum mánuði síðar boðaði kærði að hann hygðist stefna málinu fyrir héraðsdóm á ný, en kærandi var þá búinn að fá það öðrum lögmanni í hendur.

II.

Kærandi krefst þess í erindi sínu til úrskurðarnefndar lögmanna að skorið verði úr um það hvort kærði hafi brotið gegn siðareglum lögmanna, lögum um upplýsingaskyldu innheimtuaðila og reglum um hraða málsmeðferð. Kærandi krafðist þess jafnframt að kærði færði fram rök fyrir því hvers vegna langur frestur hefði verið veittur stefnda til þess að skila greinargerð í héraðsdómsmálinu, hvers vegna stefna hefði verið gefin út án þess að kærði kynnti sér málsatvik og hvers vegna málið hefði ekki verið fellt niður þegar kærða mátti vera það ljóst að stefnan væri ófullnægjandi.

Kærandi er ósáttur við að stefnda í héraðsdómsmálinu hafi ítrekað verið veittir frestir til að skila greinargerð, eftir að upphaflegur greinargerðarfrestur rann út, án þess að samráð hefði verið haft við kæranda. Þá er kærandi ósáttur við það að málinu hafi verið frestað nokkrum sinnum eftir að því hafði verið úthlutað til dómara. Þá er hann mjög ósáttur við frávísun málsins og vill kenna um óvönduðum undirbúningi af hálfu kærða við útgáfu stefnu. Loks finnur kærandi að því að þriðji reikningurinn, að fjárhæð 75.410 krónur, sem hann gaf út til stefnda í ágúst 200x, hafi verið í innheimtumeðferð hjá kærða frá ágúst án þess að þeirri reikningskröfu hefði verið stefnd fyrir héraðsdóm.

III.

Í greinargerð sinni til úrskurðarnefndar krefst kærði þess að hafnað verði öllum kröfum kæranda um að hann, kærði, hafi vanrækt skyldur sínar og brotið gegn siðareglum lögmanna og öðrum reglum í tengslum við meðferð innheimtumálsins.

Kærði kveðst hafa svarað fyrirspurn Æ dóttur kæranda, í tölvupósti 27. október 200x um stöðu málsins þannig að stefnda yrði synjað um frekari frest þann 30. október. Kærði kveðst á þeim tíma ekki hafa haft bein fyrirmæli frá kæranda um að synja beiðni um frekari frest ef stefndi skilaði ekki greinargerðinni 30. október. Kærði kveðst hafa síðan veitt viðbótarfresti eftir þetta til 20. nóvember, en að þann dag hafi verið synjað um frekari frest. Kveðst kærði á þeim tíma hafa haft væntingar um að samkomulag gæti náðst um uppgjör kröfunnar og að slíkt samkomulag myndi í senn auka líkur á því að kærandi fengi kröfu sína greidda og jafnframt að uppgjör kröfunnar færi þá fyrr fram en ef bíða þyrfti niðurstöðu héraðsdóms.

Kærði telur meðferð málsins eftir úthlutun þess til dómara hafa verið eðlilega og í sjálfu sér hvorki á valdi lögmanna eða málsaðila að hraða meðferðinni frekar.

Kærði kveðst hafa litið svo á, þegar kærandi sendi 2 reikninga í innheimtumeðferð, að um einföld viðskipti hefði verið að ræða, þ.e. kaup á þjónustu arkitekts og greiðslufall á reikningunum. Engin gögn hefðu fylgt reikningunum og engar upplýsingar um grundvöll þeirra eða samskipti að baki þeim. Engar forsendur hafi því verið fyrir því að ætla að ágreiningur hafi verið um málavexti eða aðild. Hvorki gögn né upplýsingar hafi komið frá kæranda. Þá hafi hvorki athugasemdir né mótmæli borist frá skuldara við útsendingu innheimtubréfs. Kærði kveður málinu því hafa verið stefnt inn eins og hverju öðru skuldamáli, þar sem gerðar hefðu verið kröfur, málavextir reifaðir stuttlega og viðeigandi gögn lögð fram.

Kærði kveðst hafa séð það á greinargerð stefnda, sem var lögð fram í héraðsdómi þann 25. nóvember 200x, að kærandi hefði ekki upplýst sig um tilurð viðskiptanna, ágreininginn sem var þar að baki og ágreininginn um hver væri greiðsluskyldur. Kveðst kærði fyrst í desember hafa fengið upplýsingar um þessi atriði. Telur hann að þessar upplýsingar hefðu betur borist sér samhliða reikningunum sem sendir voru í innheimtu.

Fram kemur hjá kærða að eftir að greinargerð stefnda lá fyrir, þar sem meðal annars var krafist frávísunar málsins, hafi verið of seint að leggja fram ítarlegri gögn af hálfu kæranda. Það hefði þó verið reynt ásamt því að sókn var lögð fram í málinu eftir útivist af hálfu stefnda.

Kærði kveðst hafa viðhaft eðlilega málsmeðferð í samræmi við það tilefni sem málsgögn fólu í sér.

III.

Í athugasemdum kæranda við greinargerð kærða er meðal annars ítrekuð sú skoðun kæranda að leitað hafi verið til kærða sem sérfræðings í innheimtumálum. Telur kærandi það hafa verið skyldu kærða að afla þeirra upplýsinga sem þyrfti áður en farið yrði með mál fyrir dómstóla. Telur kærandi að kærði hefði meðal annars getað flett upp í innheimtukerfi X og skoðað athugasemdir þar, en skráð hefði verið 11. júlí 200x að skuldari hefði haft samband og sagt að ágreiningur væri um reikninginn og að hann hafi ætlað að tala við kröfuhafa um málið.

IV.

Í athugasemdum kærða er bent á það að í útprentun úr innheimtukerfi X, þar sem skráð hafði verið að skuldari hefði haft samband þann 11. júlí 200x, hefði einnig verið skráð að kröfuhafinn, kærandi, hefði haft samband 24. og 29. júlí 200x. Einu skilaboðin sem þá hefðu verið skráð frá honum hefðu verið þau að setja skyldi málið áfram. Engar upplýsingar hefðu verið veittar um ágreininginn, tilurð eða umfang hans, heldur aðeins að málið skyldi fara í hefðbundna lögfræðiinnheimtu.

Kærði kveðst hafa beðið með að gefa út stefnu vegna þriðja reikningsins frá kæranda, enda hafi fjárhagsstaða skuldarans ekki verið ljós og kostnaður af málarekstri talsverður. Kveðst kærði jafnframt hafa áformað að stefna í þessu máli með tveimur fyrri reikningunum ef svo færi að höfða þyrfti mál að nýju.

Þá kveður kærði allan rekstur málsins hafa verið í samræmi við góðar venjur og að málatíminn hafi á engan hátt verið óeðlilegur miðað við það sem almennt tíðkaðist. Telur kærði kæranda ekki hafa orðið fyrir tjóni eða réttarspjöllum vegna reksturs dómsmálsins. Bendir kærði á að árangurslaust fjárnám hafi verið gert hjá stefnda þann x. júní 200x og að félagið hefði verið úrskurðað gjaldþrota. Eins og útprentun frá Lánstrausti bæri með sér hefði þar verið skráður fjöldi vanskila allt frá upphafi árs 200x.

Niðurstaða.

Umkvörtun kæranda í máli þessu lýtur einkum að málsmeðferðartímanum á tveimur tímabilum í rekstri málsins, að málatilbúnaðinum í dómsmálinu og að innheimtu þriðja reikningsins.

Að lögum á stefndi, sem heldur uppi vörnum við þingfestingu dómsmáls, rétt á fresti til að skila greinargerð af sinni hálfu í málinu. Að jafnaði er veittur 4-5 vikna frestur í þessu skyni til að byrja með, en ekki er óalgengt að veittir séu viðbótarfrestir. Ræðst það nokkuð af atvikum hversu oft og lengi slíkir viðbótarfrestir eru veittir. Ekki er fram komið í málinu að sérstök fyrirmæli eða óskir af hálfu kæranda hafi legið fyrir um að synja frestbeiðnum stefnda. Það er mat úrskurðarnefndar að tíminn frá því upphaflegi greinargerðarfresturinn rann út 16. október 200x og þar til synjað var um frekari frest þann 20. nóvember sama ár, hafi ekki falið í sér óhæfilegan drátt á málinu af hálfu kærða.

Eftir að málinu hafði verið úthlutað til dómara, væntanlega í byrjun desember 200x, var boðað til fyrsta þinghalds, sem fór fram þann 14. janúar 200x. Málinu var síðan frestað til sáttaumleitana til 28. janúar og aftur til 9. febrúar 200x. Í því þinghaldi var ákveðin dagsetning fyrir flutning málsins um frávísunarkröfu stefnda, þann 23. mars 200x. Úrskurðarnefndin telur þessa lýsingu á rekstri málsins frá fyrsta þinghaldi ekki bera með sér að óhæfilegur dráttur hafi orðið á framgangi málsins fyrir héraðsdómi.

Svo sem gögn málsins bera með sér mátti kæranda vera ljóst, þegar hann fól kærða að taka kröfu sína í löginnheimtu, að verulegur ágreiningur var um reikningskröfuna, aðallega um hver bæri ábyrgð á greiðslu hennar. Að mati úrskurðarnefndar hefði mátt búast við að kærandi upplýsti um bakgrunn málsins, sem hlaut að hafa þýðingu fyrir árangur af innheimtunni. Á það ber hins vegar að líta, að þótt í sjálfu hefði verið unnt að stefna í málinu eingöngu með afrit reikninganna að vopni, svo fremi sem þeir væru að formi til réttilega frágengnir og enginn ágreiningur væri um aðild eða kröfufjárhæð, var nauðsynlegt við samningu stefnu í málinu að vanda svo til frágangsins að öll skilyrði í 80. gr. laga um meðferð einkamála, nr. 91/1991, væru uppfyllt. Það var mat héraðsdómara að stefnan hefði ekki uppfyllt lágmarkskröfur e- og g-liða 1. mgr. 80. gr. laganna og því var málinu vísað frá dómi ex officio. Á þessu ágöllum á málatilbúnaðinum bar kærði ábyrgð gagnvart kæranda. Telur úrskurðarnefndin vinnubrögðin að þessu leyti aðfinnsluverð.

Úrskurðarnefndin gerir ekki athugasemdir við skýringar kærða á því hvers vegna ekki var gefin út stefna vegna þriðja reikningsins.

Ú R S K U R Ð A R O R Ð :

Ágalli í málatilbúnaði af hálfu kærða, Ö, hdl., við rekstur dómsmáls fyrir kæranda, Þ, er aðfinnsluverður.

ÚRSKURÐARNEFND LÖGMANNA