Mál 15 2009

 

Ár 2010, fimmtudaginn 25. mars, er haldinn fundur í úrskurðarnefnd lögmanna að Álftamýri 9, Reykjavík. Mættir eru undirritaðir nefndarmenn.

Fyrir er tekið málið nr. 15/2009:

L, hrl.

gegn

M, hrl.

og kveðinn upp svofelldur

Ú R S K U R Ð U R :

Með bréfi L, hdl., kæranda, til úrskurðarnefndar lögmanna, dags. 24. júlí 2009, kvartaði kærandi yfir vinnubrögðum M, hrl., kærða, við öflun viðskiptavina í slysamálum. N, hrl., sendi nefndinni greinargerð fyrir hönd kærða þann 5. október 2009. Kærandi gerði nokkrar athugasemdir við greinargerðina, en þeim athugasemdum var svarað af hálfu kærða í bréfi til nefndarinnar þann 21. janúar 2010.

Málsatvik og málsástæður.

I.

Málsatvik eru í stuttu máli þau að þann 26. maí 200x veitti sjómaður nokkur, O að nafni, kæranda og samstarfsmanni hans á lögmannsstofu umboð til innheimtu slysabóta, en O hafði tvívegsi slasast um borð í togara, annars vegar um miðjan febrúar 2005 og hins vegar í lok september 2007. Gagnaöflun fór fram á vegum lögmannsstofunnar næstu mánuði. Þar á meðal var reynt að finna vitni að síðara slysinu þar sem ekkert hafði verið skráð um það.

Í byrjun júní 2009 tilkynnti O kæranda að bróðir hans vildi að bótamálin yrðu falin öðrum lögmanni. Bróðirinn hafði samband við kæranda nokkrum dögum síðar og staðfesti frásögnina. Kærandi átti viðræður við bróður O um málið og kom þá fram að við málinu tæki löglærður fulltrúi á lögmannsstofu kærða. Að kröfu kæranda var gengið frá greiðslu vegna útlagðs kostnaðar og vinnu að slysamálinu og voru gögn málsins afhent. Gengið var frá formlegri afturköllun umboðsins þann 12. júní 200x. Afturköllun umboðsins varð kæranda tilefni erindis þessa til úrskurðarnefndar lögmanna.

II.

Í erindi sínu til nefndarinnar vísar kærandi til fyrri, sambærilegra mála, sem hann hefur sent nefndinni til umfjöllunar og rökstuðnings sem þar hefur komið fram um vinnubrögð kærða. Hefur kærandi meðal annars talið sig hafa getað merkt breytingu á viðmóti umbjóðenda sinna um það leyti sem þeir hafa afturkallað umboð sín til hans. Þannig hafi jákvætt viðmót breyst í kuldalegt, jafnvel fjandsamlegt viðmót. Telur hann lítið vera gert úr kunnáttu sinni og vinnubrögðum í slysamálum og að um atvinnuróg sé að ræða gagnvart sér.

Kærandi krefst þess að kærði verði beittur hörðustu viðurlögum sem úrskurðarnefndin hefur yfir að ráða. Bendir kærandi á að ferill kærða í þessum efnum sé langur og hafi hann staðið í á annan tug ára. Engin teikn séu á lofti um að kærði muni láta af þessari óheiðarlegu iðju sinni í náinn framtíð og breyti þannig veiðieðli sínu. Kærandi telur áminningu eða aðfinnslur af hálfu nefndarinnar engin áhrif hafa, ekki dugi að slegið sé í mesta lagi á puttana á kærða. Telur kærandi að þessi vinnubrögð kærða muni halda áfram þangað til hann verði beittur þeim hörðustu viðurlögum sem nefndin hefur yfir að ráða samkvæmt 14. gr. lögmannalaga nr. 77/1998.

III.

Kærði krefst þess að úrskurðarnefndin úrskurði að hann hafi í störfum sínum ekki gert á hlut kæranda með háttsemi sem stríðir gegn lögum eða siðareglum lögmanna. Þá krefst kærði greiðslu málskostnaðar úr hendi kæranda.

Kærði bendir í greinargerð sinni á að samkvæmt 5. mgr. 21. gr. lögmannalaga nr. 77/1998 sé umbjóðanda lögmanns ætíð heimilt að kalla aftur umboð sitt sem hann hefur áður veitt lögmanninum. Sömu reglu sé að finna í 28. gr. siðareglna lögmanna, en samkvæmt því ákvæði skuli lögmaður ekki hefja vinnu við verkefni sem annar lögmaður hefur áður sinnt fyrr en hann hefur fullvissað sig um að hagsmunagæslu fyrri lögmannsins sé lokið eða verði lokið án tafar. Umbjóðendur lögmanna hafi þannig alveg í hendi sér  hvort sá lögmaður sem þeir upphaflega veittu umboð til að fara með mál sitt reki það til enda eða hvort nýr lögmaður sé fenginn til starfans. Eina skilyrðið, sem sett sé, varði innbyrðist samskipti lögmannanna. Nýi lögmaðurinn megi þannig ekki hefja störf fyrr en hann hefur fullvissað sig um að hagsmunagæslu fyrri lögmannsins sé lokið. Öruggasta leiðin í þeim efnum sé að styðjast við afturköllun umboðs.

Kærði kveðst, í samræmi við ófrávíkjanlega verklagsreglu sem hann hafi ávallt fylgt, með engri undantekningu, hafa sett það sem skilyrði að áður en hann tæki að sér slysamál O þyrfti að liggja fyrir afturköllun á umboði hans til kæranda. Að því loknu hafi kærði samþykkt að taka slysamálið að sér. Telur kærði vinnubrögð sín hafa uppfyllt í hvívetna skilyrði laga og reglna sem gilda um störf lögmanna. Engin efni væru því til að taka til greina kröfur kæranda.

Að því er málskostnaðarkröfu sína varðar bendir kærði á að samkvæmt 3. mgr. 28. gr. lögmannalaga nr. 77/1998 sé úrskurðarnefndinni heimilt að skylda málsaðila til að greiða gagnaðila sínum málskostnað vegna reksturs máls fyrir nefndinni. Nærri láti að við ákvörðun um málskostnað styðjist nefndin við þau almennu sjónarmið, sem fram koma í ákvæðum laga um meðferð einkamála og miða að því að gera málsaðila skaðlausan af því að hafa þurft að standa að rekstri máls. Kveðst kærði styðja kröfu sína um málskostnað á þeirri reglu sem fram komi í 131. gr. laga nr. 91/1991 og sem markast af svonefndum refsisjónarmiðum er snúi einkum að þeim tilvikum þar sem mál hafi verið höfðað að þarflausu.

IV.

Í athugasemdum kæranda við greinargerð kærða kemur meðal annars fram að hann telji kjarna málsins ekki snúast um það hvernig ganga eigi frá formsatriðum varðandi tilkynningarskyldu, eftir að glæpurinn hafi verið framinn. Málið snúist alfarið um það að sami lögmaður sé að hirða viðskiptavini annars lögmanns lon og don og árum saman og fái þá með einhverjum ótilgreindum gylliboðum til að koma heldur í viðskipti við sig. Þá ekki bara með tilheyrandi tekjutapi fyrir sig heldur einnig álitshnekki.

Kærandi telur það ekki geta verið neina tilviljun að hver skjólstæðingur lögmannsstofu sinnar í skaðabótamálum á fætur öðrum, alls níu talsins, sem vitað sé sannanlega um, hverfi úr viðskiptum við lögmannsstofuna á öllum stigum málanna og við taki í öllum tilvikum kærði. Aldrei annar lögmaður. Ástæðan sé augljóst. Telur kærandi kærða ekki hafa hikað við að stinga undan starfsbræðrum sínum til að afla sér viðskipta í þessum efnum. Ljóst sé að hann hafi einhvers staðar aðgang að upplýsingum um slasaða og á grundvelli þeirra hafi hann samband við þessa aðila og fái þá til að koma til sín með fortölum. Kærandi telur þurfa að stoppa slík vinnubrögð og siðblindu. Lögmaður sem geti ekki látið vera að hegða sér svona, hvað sem reynt sé að stoppa hann, eigi ekkert erindi í stétt lögmanna. Grípi félag lögmanna ekki í taumana og setji lögmönnum stólinn fyrir dyrnar, þá munu aðrir fara að hegða sér eins og kærði og frumskógarlögmálið muni þá gilda.

V.

Í athugasemdum kærða kemur meðal annars fram að hann telji kæranda vega með afar ósmekklegum og ærumeiðandi hætti að mannorði sínu og hann hiki ekki við að beita ósannindum í því sambandi. Ítrekað hefði verið beint þeirri áskorun til kæranda að hann færði fram sönnur fyrir því hvernig öflun kærða á viðskiptavinum í slysamálum væri ósamþýðanleg lögum eða siðareglum lögmanna. Kærandi hafi ekki orðið við þeirri áskorun, heldur hafi hann tönnlast sýnt og heilagt á því að kærði hirti viðskiptavini annarra lögmanna. Ekki væri hægt að segja annað en að málatilbúnaður kæranda væri grátbroslegur, sérstaklega þegar haft væri í huga að úrskurðarnefndin hefði margsinnis í úrskurðum sínum, síðast í málinu nr. 6/2009, komist að þeirri niðurstöðu að kærði hefði í störfum sínum ekki gert á hlut kæranda með háttsemi sem stríddi gegn lögum eða siðareglum lögmanna.

Kærði telur kæranda enn á ný í skrifum sínum hafa orðið uppvísan að því að hafa endaskipti á sannleikanum. Raunar séu fullyrðingar hans svo fráleitar að þær séu á mörkum þess að vera svaraverðar. Eitt sé þó víst. Aðdróttanir kæranda í sinn garð séu að verða sífellt svæsnari eftir því sem kvörtunum hans fjölgi.

Kærði telur sig hafa sýnt fram á það með haldbærum rökum, í greinargerð sinni til nefndarinnar í fyrsta málinu (máli nr. x/200x), og raunar einnig í öðrum málum sem á eftir fylgdu, að í engu þeirra tilvika sem kærandi hafi kvartað yfir hafi kærði átt frumkvæði að því að skjólstæðingar kæranda leituðu til sín eftir aðstoð. Í öllum tilvikum, með engri undantekningu, hafi skjólstæðingar kæranda verið búnir að afturkalla umboð sitt til hans áður en kærði hóf hagsmunagæslu fyrir þá. Þetta sé grundvallaratriði málsins. Svo virðist sem kærandi hvort heldur sem er átti sig ekki eða vilji ekki átta sig á því að umbjóðandi lögmanns getur á hvaða stigi máls afturkallað umboð sitt til lögmannsins. Slíkt sé heimilt lögum samkvæmt. Fjölmargar ástæður geti legið að baki afturköllun. Sú algengasta sé líklega óánægja umbjóðandans með störf lögmannsins.

Kærði telur nafn sitt vera orðið vel þekkt á sviði skaðabótaréttar, en hann hafi starfað á því sviði í um 20 ár. Það skyldi því engan undra þótt skjólstæðingar kæranda leituðu til sín. Kærði telur ásakanir kæranda, um að hann, kærði, hafi haft af kæranda skjólstæðinga hans með einhverjum ótilgreindum gylliboðum og hafi haft einhvers staðar aðgang að upplýsingum um slasaða, vera til vitnis um að hugarburður kæranda hafi náð nýjum hæðum í málinu. Kærði telur ásakanir kæranda ekki einvörðungu vera fjarstæðukenndar, heldur hreinan og ómengaðan tilbúning.

Niðurstaða.

Samkvæmt gögnum málsins afturkallaði O, sem hafði veitt lögmannsstofu kæranda umboð til að annast slysamál fyrir sig, það umboð og fól kærða að reka málið fyrir sig. Umbjóðanda kæranda var að lögum heimil afturköllun umboðsins samkvæmt 5. mgr. 21. gr. lögmannalaga, nr. 77/1998. Að mati úrskurðarnefndar liggur ekkert fyrir í málinu sem bendir til þess að kærði hafi haft frumkvæði að afturköllun umboðsins eða að hann hafi að öðru leyti haft afskipti af þeirri ákvörðun O umfram þá eðlilegu ábendingu að O þyrfti að afturkalla umboð sitt til kæranda svo annar lögmaður gæti tekið við málinu.

Nefndin telur ekkert vera fram komið í málinu sem bendir til þess að kærði hafi í störfum sínum fyrir O og/eða í samskiptum sínum við kæranda, gert á hlut kæranda með háttsemi sem stríðir gegn lögum eða siðareglum lögmanna.

Að öllu því virtu, sem fram er komið í málinu, telur úrskurðarnefnd lögmanna að kærði hafi í störfum sínum að slysamáli fyrir O og í samskiptum sínum við kæranda í tengslum við það ekki gert á hlut hans með háttsemi sem stríðir gegn lögum eða siðareglum lögmanna.

Rétt þykir að málskostnaður falli niður.

Ú R S K U R Ð A R O R Ð :

Kærði, M, hrl., hefur í samskiptum sínum við kæranda, L, hdl., við vinnu að slysamáli fyrir O, ekki gert á hlut kæranda með háttsemi sem stríðir gegn lögum eða siðareglum lögmanna.

Málskostnaður fellur niður.

ÚRSKURÐARNEFND LÖGMANNA