Mál 16 2009

 

Ár 2010, föstudaginn 11. júní, er haldinn fundur í úrskurðarnefnd lögmanna að Álftamýri 9, Reykjavík. Mættir eru undirritaðir nefndarmenn.

Fyrir er tekið málið nr. 16/2009:

A

gegn

B, hrl.

og kveðinn upp svofelldur

Ú R S K U R Ð U R :

Með bréfi A, fyrirtækis sem staðsett er í Kaliforníu í Bandaríkjum Norður-Ameríku, sóknaraðila, til úrskurðarnefndar lögmanna, dags. 31. júlí 2009, voru gerðar athugasemdir við reikningsgerð B, hrl., varnaraðila, vegna verkefna sem hún vann að fyrir sóknaraðila veturinn 2008-2009. Varnaraðili sendi nefndinni greinargerð þann 24. september 2009. Sóknaraðila var gefinn kostur á að tjá sig um greinargerðina, en engar athugasemdir bárust frá honum.

Málsatvik og málsástæður.

I.

Málsatvik eru í stuttu máli þau að í september 2008 leitaði sóknaraðili til varnaraðila og bað hann um að innheimta kröfu á hendur íslensku fyrirtæki, C hf., og tryggingafélagi þess, D hf., en krafa þessi var til komin vegna sölu á raftækjum til C hf. Samkomulag var gert um að varnaraðili tæki málið að sér. Tafir urðu á því að varnaraðili hæfist handa þar sem sóknaraðili átti eftir að gera upp við fyrri lögmannsstofu, sem sinnt hafði sama verkefni.

Dómsmál var höfðað með stefnum, birtum 7. og 10. nóvember 200x. Dómur féll x. febrúar 200x, þar sem stefndu voru sýknaðir af kröfum stefnanda (sóknaraðila).

Undir rekstri dómsmálsins, nánar tiltekið í desember 200x, gerðu aðilar með sér samkomulag um þóknun til handa varnaraðila, þ.e. eftir hvaða aðferð varnaraðili reiknaði verklaun sín. Varnaraðili áskildi sér þannig þóknun er tæki mið af heildarupphæð („... on contingent basis, that is 30% off the total amount, ..."), þó að lágmarki 180.000 krónur.

Að fenginni dómsniðurstöðunni lét varnaraðili þýða hana yfir á ensku og sendi sóknaraðila. Sóknaraðili ákvað að láta áfrýja málinu til Hæstaréttar Íslands og annaðist varnaraðili áfrýjun þess, lét útbúa ágrip málsins og annað sem nauðsynlegt var í því skyni. Áfrýjunarstefna var gefin út x. maí 200x.

Um miðjan janúar 2009 tók varnaraðili að sér annað mál fyrir sóknaraðila, en það varðaði vörusölu sóknaraðila til danska fyrirtækisins E A/S. Taldi sóknaraðili stjórnendur þess fyrirtækis, sem að hluta til voru sömu stjórnarmenn og í C hf., hafa valdið sér fjárhagslegu tjóni með því að kaupa af sér vörur fyrir 130 þúsund bandaríkjadali skömmu áður en félagið var gefið upp til gjaldþrotaskipta. Varnaraðili ritaði af þessu tilefni lögfræðilega álitsgerð í lok maí 2009 um hugsanlega skaðabótaábyrgð stjórnendanna gagnvart sóknaraðila og möguleika hans að sækja bætur úr hendi þeirra.

Varnaraðili gaf út nokkra reikninga til sóknaraðila vegna þjónustu sinnar. Vegna reksturs héraðsdómsmálsins gegn C hf. var gefinn út reikningur að fjárhæð 180.000 krónur auk þingfestingargjalds, samtals 183.900 krónur. Fyrir þýðingu á dómi héraðsdóms yfir á ensku var gefinn út reikningur vegna útlagðs kostnaðar, að fjárhæð 54.384 krónur. Fyrir vinnu að áfrýjun héraðsdómsins var gefinn út reikningur að fjárhæð 279.100 krónur. Þar af nam kostnaður vegna útgáfu áfrýjunarstefnu, þingfestingar málsins og ágripsgerðar 196.600 krónum, en þóknun nam 82.500 krónum. Loks var gefinn út reikningur vegna vinnu að málinu gegn stjórnendum E A/S að fjárhæð 432.000 krónur. Byggðist reikningurinn á 27 klukkustunda vinnu en tímagjaldið var 16.000 krónur. Allir reikningarnir voru gefnir út án virðisaukaskatts.

II.

Í erindi sínu til nefndarinnar krefst sóknaraðili þess að varnaraðili endurgreiði sér þá reikninga sem greiddir höfðu verið og að ógreiddir reikningar verði felldir niður. Sóknaraðili vísar til þess að samið hafi verið um árangurstengda þóknun (contingent fee) varnaraðila auk útlagðs kostnaðar í málinu gegn C hf. og D hf. Að því er síðara málið varðar vísar sóknaraðili til tölvupósts síns til varnaraðila þann 16. janúar 2009, þar sem sóknaraðili kvaðst gera ráð fyrir að sama fyrirkomulag gilti um þóknun varnaraðila og í fyrra málinu, þ.e. að varnaraðili fengi 30% af því sem innheimtist í málinu. Kveðst sóknaraðili ekki hafa haft nein samskipti við varnaraðila síðar er breyttu þessu fyrirkomulagi um verklaunin. Sóknaraðili kveður ekkert í gögnum frá sér benda til þess að hann hafi samþykkt að greiða varnaraðila þóknun er miðaðist við tímagjald í dómsmáli eða annars konar lögfræðilegri vinnu gegn stjórnarmönnum í E A/S.

III.

Í greinargerði sinni til úrskurðarnefndar kveðst varnaraðili hafa gert samkomulag við sóknaraðila um að taka að sér málið gegn C hf. og D hf. gegn hagsmunatengdri þóknun, þó þannig að lágmarksþóknun fyrir störf sín yrði 180.000 krónur án tillits til niðurstöðu héraðsdóms, og að sóknaraðili greiddi allan útlagðan kostnað. Varnaraðili kveðst hafa látið þýða dóm héraðsdóms yfir á ensku, að beiðni sóknaraðila. Jafnframt kveðst varnaraðili ekki hafa mælt með áfrýjun málsins til Hæstaréttar. Þrátt fyrir það hafi sóknaraðili ákveðið að áfrýja dóminum og hafi varnaraðili annast það verkefni. Gerður hefði verið reikningur vegna þessa, að fjárhæð 279.100 krónur, sem að verulegu leyti hafi verið vegna útlagðs kostnaðar. Áður, eða þann 11. mars 2009, hefði verið gefinn út reikningur vegna reksturs héraðsdómsmálsins, að fjárhæð 183.900 krónur.

Varnaraðili kveður sóknaraðila hafa greitt fyrsta reikning sinn þann 6. maí 2009, eftir nokkrar ítrekanir af sinni hálfu. Aðrir reikningar væru ógreiddir, fyrir utan óverulega innborgun á reikninginn vegna þýðingarkostnaðarins.

Varnaraðili kveðst hafa sagt sig frá hæstaréttarmálinu, með tilkynningu til sóknaraðila, Hæstaréttar Íslands og lögmanna stefndu. Ástæður þess hefðu einkum verið erfið samskipti við forsvarsmann sóknaraðila, sem hefði jafnvel mætt greiðsluítrekunum starfsmanna lögmannsstofunnar með hótunum um að hefja mál gegn þeim sjálfum, héldu þeir áfram að senda honum erindi.

Varnaraðili kveðst mótmæla því að hafa oftekið þóknun vegna málsins gegn C hf. og D hf. Kveðst varnaraðili hafa verið reiðubúinn til að taka málið að sér gegn hagsmunatengdri þóknun, þó með lágmarksgreiðslu, vegna þess að málið hefði verið undirbúið af fyrri lögmönnum sóknaraðila og hafi sú vinna nýst vel við málshöfðunina. Aldrei hafi komið til greina að reka málið fyrir öðru dómstigi fyrir sömu fjárhæð, og því síður að láta lögmannsstofuna bera kostnað vegna áfrýjunar málsins. Kveður varnaraðili reikningsgerð sína í málinu byggjast á samkomulagi aðila, þ.e. lágmarksþóknun auk útlagðs kostnaðar í héraði. Þá hafi reikningurinn vegna áfrýjunarinnar verið sanngjarn og eðlilegur með tilliti til þeirrar vinnu og kostnaðar sem almennt fylgdi áfrýjun einkamála. Kröfur um þóknun í þessu máli hefðu aldrei byggst á tímagjaldi, svo sem reikningarnir bæru með sér.

Að því er síðara málið varðar kveðst varnaraðili hafa komist að þeirri niðurstöðu í lok maí 2009, eftir skoðun á málinu, að sóknaraðili ætti enga kröfu á hendur stjórnarmönnum E A/S persónulega. Hafi forsvarsmanni sóknaraðila verið kynnt niðurstaðan og jafnframt hafi verið útbúin samantekt um málið og hún send sóknaraðila. Sama dag hefði borist frá sóknaraðila nýtt eintak af viðskiptasamningi við E A/S, sem átti að bera með sér undirritun tveggja forsvarsmanna þess fyrirtækis á ábyrgðaryfirlýsingu gagnvart sóknaraðila vegna viðskipta fyrirtækjanna tveggja. Þessari ábyrgðaryfirlýsingu hefði verið mótmælt af hálfu forsvarsmannanna og því haldið fram að undirskriftir þeirra væru falsaðar. Varnaraðili kveðst hafa gengið eftir því að fá frumrit yfirlýsingarinnar, en þá hafi forsvarsmaður sóknaraðila óskað eftir því að kröfur sínar yrðu ekki reknar á grundvelli ábyrgðaryfirlýsingarinnar. Varnaraðili kveðst eftir þetta hafa fellt niður vinnu við málið. Gengið hefði verið eftir greiðslum frá sóknaraðila, án árangurs.

Varnaraðili kveðst mótmæla því að samið hefði verið um það við sóknaraðila í síðara málinu að þóknun sín yrði reiknuð á hagsmunatengdum grunni. Samið hefði verið um það fyrirkomulag í fyrra málinu af sérstökum ástæðum. Aldrei hefði komið til greina að semja um þess háttar fyrirkomulag í síðara málinu. Vísar varnaraðili í þessu sambandi einkum til tölvupósts síns frá 18. desember 2008, þar sem staðfest hefði verið að varnaraðili færi með málið gegn C hf. og D hf. á grundvelli hagsmunatengdrar þóknunar, sbr. orðalagið „the case", sem vísi eingöngu til þess máls og annarra ekki. Varnaraðili kveðst ekki kannast við að hafa samþykkt að taka öll hugsanleg mál sóknaraðila með sömu þóknun, enda væri slíkt fráleit ráðstöfun. Þá kveðst varnaraðili mótmæla því að nokkru máli skipti að forsvarsmaður sóknaraðila hafi lýst því yfir í tölvupósti til fulltrúa varnaraðila 16. janúar 2009 að hann gerði ráð fyrir að lögmannsstofan annaðist málið gegn hagsmunatengdri þóknun. Við því hefði hann aldrei fengið samþykki eða staðfestingu frá lögmannsstofunni, enda hefði það aldrei staðið til. Varnaraðili kveðst ekki hafa haft vitneskju um þennan tölvupóst fyrr en nýlega.

Varnaraðili kveður reiknireglu þá, sem sóknaraðili vísar til í tölvupósti sínum, ekki vera í samræmi við það sem samið hafi verið um í fyrra málinu. Þar hafi ekki aðeins verið samið um hagsmunatengda þóknun, heldur lágmarksgjald einnig. Þá kveður varnaraðili sóknaraðila enga ástæðu hafa haft til að ætla að unnt yrði að staðfesta samkomulag með þessari aðferð, enda hefði sóknaraðili sjálfur gengið ríkt á eftir því áður að fá staðfestingu í tölvupósti frá varnaraðila um samkomulag um þóknun í fyrra málinu. Þannig hafi sóknaraðili mátt gera ráð fyrir að slíka staðfestingu þyrfti hann einnig að fá í síðara málinu. Slík staðfesting hefði aldrei verið veitt, enda hefði það aldrei staðið til. Þá bendir varnaraðili á að sóknaraðili sé ekki einu sinni samkvæmur sjálfum sér um það hvað hafi verið samið um í síðara málinu.  Hann hafi haldið því fram í tölvupósti til varnaraðila þann 30. júní 2009 að samið hefði verið um 25% hagsmunatengda þóknun, en 30% ef miðað væri við tölvupóstinn þann 16. janúar 2009, og um 30% auk lágmarksþóknunar ef miðað væri við erindi hans til úrskurðarnefndar, þar sem hann héldi því fram að um þóknunina í síðara málinu ætti að fara eins og í fyrra málinu.

Varnaraðili kveðst í lokin vilja taka fram að sér hefði fyrst, eftir móttöku á bréfi úrskurðarnefndar til sín, verið kunnugt um að sóknaraðili hefði falið annarri lögmannsstofu að vinna að málinu um kröfuna gegn E A/S og stjórnarmönnum þar, á sama tíma og sér. Kveðst varnaraðili aldrei mundu hafa komið að málinu hefði þær upplýsingar legið fyrir í upphafi. Þá kveðst varnaraðili hafa fengið kvörtun frá öðrum málsaðilanna í E-málinu um að sóknaraðili hefði falið öðrum aðilum en lögmönnum eða öðrum viðurkenndum innheimtuaðila, að innheimta sömu kröfu á hendur málsaðilanum.

Niðurstaða.

I.

Samkvæmt 1. mgr. 24. gr. lögmannalaga, nr. 77/1998, er lögmanni rétt að áskilja sér hæfilegt endurgjald fyrir störf sín og skal umbjóðanda hans, eftir því sem unnt er, gert ljóst hvert það gæti orðið í heild sinni. Þar á meðal getur lögmaður áskilið sér hluta af þeirri fjárhæð sem umbjóðandi fær greitt í máli, svo og hærra endurgjald ef mál vinnst en ef það tapast.

Í grófum dráttum má skipta verkefnum þeim, sem varnaraðili tók að sér að sinna fyrir sóknaraðila, í tvennt: annars vegar fyrra málið, gegn C hf. og D hf., en hins vegar síðara málið, gegn E A/S eða öllu heldur gegn stjórnarmönnum þess fyrirtækis. Deilt er um rétt varnaraðila til endurgjalds fyrir störf sín í báðum verkefnunum og fjárhæð þess í báðum tilvikum.

II.

Að því er fyrra málið varðar er það óumdeilt að varnaraðili samþykkti að taka að sér málarekstur gegn C hf. og D hf. vegna innheimtu á reikningskröfu og að um þóknun varnaraðila færi samkvæmt því sem nefnt var „contingent basis, that is 30% off (svo) the total amount ... except for the minimal cost, isk 180.000" í tölvupósti varnaraðila til sóknaraðila þann 18. desember 2008.

Dómsmálið gegn C hf. og D hf. tapaðist fyrir héraðsdómi þann x. febrúar 200x, en málskostnaður var látinn niður falla. Að mati úrskurðarnefndar lögmanna var reikningur varnaraðila, útgefinn 11. mars 2009, í samræmi við samkomulag aðila, þ.e. lágmarksþóknun 180.000 krónur auk útlagðs kostnaðar vegna þingfestingar málsins. Þessi reikningur var greiddur 6. maí 2009 en ekki liggja fyrir upplýsingar um að greiðsla hafi verið innt af hendi með fyrirvara eða athugasemdum um fjárhæðina. Þá telur nefndin reikning vegna þýðingarkostnaðar, útgefinn 3. apríl 2009, að fjárhæð 54.384 krónur, eiga rétt á sér, en að baki þeim reikningi er reikningur þýðandans til varnaraðila. Þá staðfestir sóknaraðili í erindi sínu til nefndarinnar að í samkomulagi sínu við varnaraðila hafi falist skuldbinding um að greiða hæfilegan, útlagðan kostnað. Sóknaraðili hefur greitt smávegis inn á þennan reikning.

Þann 8. júní 2009 gaf varnaraðili út reikning að fjárhæð 279.100 krónur vegna útlagðs kostnaðar og vinnu við áfrýjun dómsins. Að sögn varnaraðila mælti hann ekki með áfrýjun málsins en sóknaraðili tók ákvörðun þar að lútandi og fól varnaraðila að annast verkið. Að mati nefndarinnar ber sóknaraðila að greiða útlagðan kostnað vegna áfrýjunar málsins. Að því er þóknunarþáttinn varðar nemur áskilin þóknun varnaraðila 82.500 krónum fyrir vinnu að ritun áfrýjunarstefnu og öðru sem þarf til að koma áfrýjun máls á rekspöl fyrir Hæstarétti Íslands. Ekki liggur fyrir að í þóknuninni sé falin vinna við ritun greinargerðar, enda átti ekki að þingfesta málið fyrr en 24. júní 2009.

Varnaraðili kveðst hafa sagt sig frá málinu og tilkynnt það sóknaraðila, Hæstarétti Íslands og lögmönnum gagnaðila. Ástæður verklokanna hafi einkum verið erfið samskipti við forsvarsmann sóknaraðila, sem hafi mætt ítrekuðum greiðslutilmælum starfsmanna lögmannsstofunnar með hótunum. Þessari lýsingu hefur ekki verið andmælt af hálfu sóknaraðila. Við þessar aðstæður er ekki, að mati nefndarinnar, hægt að beita þeirri aðferð sem samkomulag aðila um ákvörðun endurgjalds til varnaraðila fól í sér. Nefndin telur áskilda þóknun varnaraðila, 82.500 krónur, fela í sér hæfilegt endurgjald í skilningi 1. mgr. 24. gr. lögmannalaga nr. 77/1998, fyrir vinnuna að áfrýjuninni.

III.

Að því er síðara málið varðar gaf varnaraðili út reikning þann 8. júní 2009, að fjárhæð 432.000 krónur. Að baki reikningnum var tímafjöldi upp á 27 klukkustundir og tímagjaldið var 16.000 krónur.

Sóknaraðili heldur því fram að einnig í þessu máli hafi samkomulag verið um „contingent fee" til handa varnaraðila, en flokka má þessa tegund endurgjalds sem árangurstengda þóknun fremur en hagsmunatengda þóknun. Vísar sóknaraðili til þess að hann hafi, í tölvupósti 16. janúar 2009, sagst gera ráð fyrir að sama fyrirkomulag gilti um endurgjald varnaraðila og í fyrra málinu. Engin svör hafi fengist við þessum tölvupósti frá varnaraðila.

Verkefni það, sem sóknaraðili fól varnaraðila í síðara málinu, var ekki innheimta reikningskröfu heldur rekstur máls um skaðabætur utan samninga. Varnaraðili kannaði fyrst bótagrundvöllinn og möguleika sóknaraðila til þess að fá tjón sitt að einhverju leyti bætt með lögsókn gegn stjórnarmönnum E A/S. Að þeirri könnun lokinni var niðurstaðan kynnt sóknaraðila og honum var jafnframt send skriflegt lögfræðiálit varnaraðila um málið. Vegna vafasamrar ábyrgðaryfirlýsingar sem varnaraðila barst frá sóknaraðila, og afturköllunar sóknaraðila á skjalinu, sagði varnaraðili sig frá málinu.

Fyrir liggur í gögnum málsins að þegar fulltrúi varnaraðila hafði í tölvupósti til sóknaraðila þann 16. janúar 2009 staðfest að varnaraðili tæki málið að sér sendi sóknaraðili tölvupóst þar sem hann kvaðst gera ráð fyrir beitt yrði sama fyrirkomulagi um endurgjald varnaraðila eins og í fyrra málinu. Að mati úrskurðarnefndar bar varnaraðila að leiðrétta þennan skilning sóknaraðila, teldi hann þann skilning ekki vera réttan eða ef hann hafði aðrar hugmyndir um gjaldtöku sína. Að mati nefndarinnar mátti sóknaraðili að öllu jöfnu þannig mega gera ráð fyrir að sama fyrirkomulagið gilti um gjaldtöku varnaraðila.

Í samræmi við góða lögmannshætti kannaði varnaraðili og greindi réttarstöðu sóknaraðila gagnvart stjórnarmönnum E A/S. Niðurstaðan var sú að sóknaraðili ætti ekki eða tæplega nokkra skaðabótakröfu á hendur stjórnarmönnunum. Ráðlegging varnaraðila var því sú að fella málið niður. Þar við bættist að eftir að varnaraðili fékk í hendur ábyrgðaryfirlýsingu frá sóknaraðila, sem sögð var með fölsuðum undirskriftum, sagði hann sig frá málinu. Það er mat úrskurðarnefndar að við þessar aðstæður hafi verið réttlætanlegt að víkja frá fyrra fyrirkomulagi, sem miðaðist fremur við málsókn fyrir dómi, en sú var ætlun sóknaraðila frá upphafi að stjórnarmönnunum yrði stefnt fyrir dóm.

Samkvæmt framangreindu er það niðurstaða nefndarinnar að varnaraðila hafi verið rétt að gera reikning fyrir vinnu sína að síðara málinu sem byggðist á tímagjaldi fremur en árangurstengdri þóknun. Fjárhæð endurgjaldsins telst hæfileg að mati nefndarinnar.

Ú R S K U R Ð A R O R Ð :

Áskilin þóknun varnaraðila, B, hrl., fyrir rekstur héraðsdómsmálsins fyrir sóknaraðila, A, gegn C hf. og D hf., 180.000 krónur auk útlagðs kostnaðar, telst vera hæfilegt endurgjald.

Áskilin þóknun varnaraðila fyrir vinnu að áfrýjun málsins gegn C hf. og D hf., 82.500 krónur auk útlagðs kostnaðar, telst vera hæfilegt endurgjald.

Áskilin þóknun varnaraðila fyrir greiningu og mat á réttarstöðu sóknaraðila í E-málinu, 432.000 krónur, telst vera hæfilegt endurgjald.

ÚRSKURÐARNEFND LÖGMANNA