Mál 17 2009
Ár 2010, mánudaginn 15. nóvember, er haldinn fundur í úrskurðarnefnd lögmanna að Álftamýri 9, Reykjavík. Mættir eru undirritaðir nefndarmenn.
Fyrir er tekið málið nr. 17/2009:
R
gegn
S.
og kveðinn upp svofelldur
Ú R S K U R Ð U R :
Með bréfi R, fyrirtækis sem staðsett er í Kaliforníu í Bandaríkjum Norður-Ameríku, sóknaraðila, til úrskurðarnefndar lögmanna, dags. 31. júlí 2009, voru gerðar athugasemdir við starfshætti S, varnaraðila, er lutu að því að varnaraðili hefði gætt andstæðra hagsmuna í tilteknu máli sem hann vann að fyrir sóknaraðila. Varnaraðili sendi nefndinni greinargerð þann 8. október 2009. Sóknaraðila var gefinn kostur á að tjá sig um greinargerðina, en engar athugasemdir bárust frá honum.
Málsatvik og málsástæður.
I.
Málsatvik eru í stuttu máli þau að 12. maí 2008 leitaði sóknaraðili til varnaraðila og bað hann um að innheimta kröfu á hendur íslensku fyrirtæki, T hf., og tryggingafélagi þess, Vátryggingafélagi Íslands hf., en krafa þessi var til komin vegna sölu á raftækjum til T hf. Samkomulag var gert um að varnaraðili tæki málið að sér. T hf. hafnaði allri bótaskyldu og var ljóst að sækja þyrfti málið fyrir íslenskum dómstólum. Hinn 18. september 2008 var sóknaraðila sendur áætlaður kostnaður fyrir hið fyrirhugaða dómsmál. Sóknaraðili vildi ekki borga tímagjald heldur vildi að varnaraðili tæki málið upp á hlut. Þessu hafnaði varnaraðili og leitaði sóknaraðili því í kjölfarið til annarra lögmanna til að sjá um málið.
Sóknaraðili hafði aftur samband við varnaraðila um mánaðamótin október/nóvember 2008 og vildi fá aðstoð við annað mál. Í því máli hafði sóknaraðili selt vörur 1., 8. og 19. september 2008 til dansks fyrirtækis, U A/S, sem var í 100% eigu T, fyrir 124.101,65 bandaríska dali. Rétt um viku síðar var sóknaraðila tjáð að U A/S gæti ekki greitt þar sem að félagið væri illa statt fjárhagslega og var félagið gefið upp til gjaldþrotaskipta skömmu síðar. Taldi sóknaraðili að stjórnendur U A/S, sem að hluta til voru sömu stjórnarmenn og í T hf., hefðu valdið sér tjóni, þar sem þeir hafi vitað eða mátt vita þegar þeir pöntuðu vörurnar frá sóknaraðila, að þeir gætu aldrei greitt fyrir þær.
Varnaraðili sendi kröfubréf á hendur stjórnendum U A/S, en því var ekki svarað.
Hinn 12. janúar 2009 sendi varnaraðili sóknaraðila tölvupóst þar sem hann upplýsti að ekkert svar hefði borist við kröfubréfinu og að huga þyrfti að því að höfða dómsmál. Sóknaraðili svaraði tölvupóstinum samdægurs og vildi að varnaraðili tæki málið upp á hlut. Varnaraðili hafnaði því alfarið en vísaði í tímagjöld stofu varnaraðila í Danmörku, ef sóknaraðila hugnaðist að höfða mál þar.
Hinn 16. janúar 2009 barst tölvupóstur frá sóknaraðila, þar sem hann skýrði frá því að V, lögmaður varnaraðila í Danmörku, hefði við annan mann verið skipaður skiptastjóri U, sem tekið hefði verið til gjaldþrotaskipta í Danmörku 17. desember 2008. Taldi sóknaraðili að um hagsmunaárekstra væri að ræða.
Hinn 19. janúar 2009 ítrekaði síðan sóknaraðili afstöðu sína um meinta hagsmunaárekstra og dró í efa þá ráðgjöf sem hann hafði fengið frá varnaraðila, er laut að því að ráðleggja honum að bíða og ekki fara í mál við fólkið á bak við U A/S persónulega.
II.
Í erindi sínu til nefndarinnar krefst sóknaraðili þess að varnaraðili endurgreiði sér þá reikninga sem greiddir höfðu verið, að upphæð 3000 dollarar, og að ógreiddir reikningar verði felldir niður. Sóknaraðili vísar til þess að varnaraðili hafi setið báðum megin borðs í sambandi við mál U A/S þar sem lögmaður frá varnaraðila hafi verið skipaður skiptastjóri þrotabús félagsins.
III.
Í greinargerð sinni til úrskurðarnefndar krefst varnaraðili þess að endurgreiðslukröfu R verði synjað. Því er mótmælt að varnaraðili hafi gert eitthvað á hlut sóknaraðila.
Varnaraðili telur staðhæfingar sóknaraðila rangar og sé tveimur verkefnum, sem varnaraðili hafi unnið fyrir sóknaraðila, blandað saman. Umrædd lögmannsþóknun, að fjárhæð 3.000 dollarar, sem sóknaraðili vilji fá endurgreidda, hafi verið þóknun fyrir lögmannsþjónustu í þágu sóknaraðila vegna allt annars máls, eða vegna innheimtu fyrir sóknaraðila á hendur fyrirtækinu T á Íslandi. Varnaraðili kveðst hafa lokið störfum vegna þessa máls í september 2008. Hafi því verið um að ræða greiðslu samkvæmt reikningum útgefnum í maí, júní, ágúst og september 2008 vegna vinnu við það mál.
Varðandi kvörtun sóknaraðila vegna máls þeirra gegn stjórnendum U A/S, þá hafnar varnaraðili því alfarið að hann hafi setið beggja megin borðs í því máli eða að hann hafi gert nokkuð á hlut sóknaraðila eða brotið siðareglur lögmanna í því sambandi.
Varnaraðili kveður þetta síðara mál hafa komið til vegna beiðni sóknaraðila um mánaðamótin október-nóvember 2008 um aðstoð við að fá greiðslu fyrir vöru sem sóknaraðili hafði í september 2008 selt fyrirtækinu U A/S fyrir samtals 124.101,65 danskar krónur. U hafi ekki getað greitt og fengið greiðslustöðvun 27. október sama ár. Hafi reksturinn síðan verið seldur á greiðslustöðvunartímanum og félagið úrskurðað gjaldþrota 17. desember 2008. Vegna ógjaldfærni U og að ósk forstjóra sóknaraðila, Þ, hafi kröfum verið beint að stjórnendum U og þeim sent formlegt kröfubréf 15. desember 2008. Hafi ætlunin verið að reyna að byggja upp skaðabótamál á hendur stjórnendum U persónulega á þeim grunni að þeir hafi vitað eða mátt vita, þegar þeir pöntuðu vörurnar frá sóknaraðila, að U gæti aldrei greitt fyrir þær.
Varnaraðili kveður að áður en komið hafi til málsóknar eða frekari aðgerða af hálfu varnaraðila hafi Þ, forstjóri sóknaraðila, þann 16. janúar 2009, tilkynnt varnaraðila að V hjá útibúi varnaraðila í Danmörku, hafi verið skipaður annar af tveimur skiptastjórum í þrotabúi U og að hann teldi að um hagsmunaárekstur væri að ræða. Í kjölfarið hafi varnaraðili hætt að starfa fyrir sóknaraðila, sem réði sér annan lögmann til að gæta hagsmuna sinna.
Varnaraðili kveður skaðabótakröfunni, sem varnaraðili hafi haft upp fyrir sóknaraðila, ekki hafa verið beint að þrotabúi U A/S heldur að stjórnendum fyrirtækisins persónulega. Hafi því ekki verið um að ræða neinn hagsmunaárekstur við þrotabú U A/S og skiptastjóra þess og því rangt að varnaraðili hafi verið beggja megin borðs í skaðabótamálinu.
Að því leyti sem sóknaraðili átti kröfu í þrotabúið vegna vörukaupanna, þá telur varnaraðili það hafa verið lögmælt hlutverk skiptastjóra búsins að gæta hagsmuna kröfuhafanna í búið, þar á meðal sóknaraðila. Hagsmunir sóknaraðila hefðu því aldrei getað verið fyrir borð bornir við það eitt að lögmaður frá varnaraðila í Danmörku hafi verið skipaður skiptastjóri í þrotabúi U A/S á sama tíma og varnaraðili á Íslandi beindi bótakröfu að stjórnendum U A/S persónulega.
Varnaraðili kveðst ekki hafa vitað af gjaldþroti U A/S þann 17. desember 2008 né af skipun V, sem annars af tveimur skiptastjórum búsins, fyrr en 16. janúar 2008 þegar Þ tilkynnti varnaraðila um þetta og taldi kominn upp hagsmunárekstur.
Varnaraðili kveður vinnu sína fyrir sóknaraðila vegna vörukaupa U A/S, þ.e. ráðgjöf, kröfugerð og undirbúning að málsókn, sem beindist að stjórnendum fyrirtækisins persónulega en ekki að þrotabúinu, hafa átt sér stað áður en lögmaður frá varnaraðila í Danmörku var skipaður skiptastjóri þrotabúsins og varnaraðili hafi aldrei gætt hagsmuna sóknaraðila gagnvart þrotabúinu.
Varnaraðili kveðst hafa hætt öllum afskiptum af málinu í kjölfar upplýsinga Þ um skipun V sem skiptastjóra og þeirrar afstöðu sóknaraðila að um hagsmunaárekstur væri að ræða.
Niðurstaða.
Í 2. mgr 22.gr. lögmannalaga, nr. 77/1998 er sagt:
Áður en lögmaður tekur að sér verk ber honum að vekja athygli þess sem til hans leitar ef hann telur einhverja hættu á að hagsmunirnir sem í húfi eru kunni að rekast á hagsmuni hans sjálfs, venslamanna sinna eða annars umbjóðanda, eða að samsvarandi tormerki geti risið við rækslu starfans.
Ljóst er af gögnum málsins að varnaraðili vann að tveimur verkefnum fyrir sóknaraðila.
Kvörtun sóknaraðila varðar ekki fyrra málið sem snérist um innheimtu fjárkröfu sóknaraðila á hendur T hf.
Síðara málið snýst um ætlaða persónulega ábyrgð stjórnarmanna dansks dótturfélags T hf., U A/S, á fjárhagsskuldbindingum dótturfélagsins gagnvart sóknaraðila vegna viðskipta við sóknaraðila skömmu fyrir úrskurð um greiðslustöðvun dótturfélagsins. Eins og málið liggur fyrir úrskurðarnefndinni veitti varnaðili sóknaraðila ráðgjöf varðandi persónulega ábyrgð stjórnarmannanna og gerði jafnframt fjárkröfur á hendur stjórnarmönnunum fyrir hönd sóknaraðila. Voru fjárkröfurnar gerðar með bréfum dagsettum 15. desember 2008. Eftir að sóknaraðili tilkynnti varnaraðila, þann 16. janúar 2009, að U A/S hefði verið tekið til gjaldþrotaskipta 17. desember 2008 og lögmaður hjá útibúi varnaraðila í Danmörku væri annar skiptastjóra þrotabúsins, sagði varnaraðili sig frá verkinu og sóknaraðili fékk annan lögmann til þess að gæta hagsmuna sinna. Varnaraðili fullyrðir að hann hafi hvorki vitað um gjaldþrot U A/S né af skipan skiptastjóra þrotabúsins fyrr en 16. janúar 2009 þegar sóknaraðili hafi upplýst um þetta.
Af gögnum málsins verður ekki annað ráðið en að varnaraðili hafi unnið það verk sem þóknunar er krafist fyrir áður en bú U A/S var tekið til gjaldþrotaskipta. Fyrir liggur að varnaraðili lét af störfum fyrir sóknaraðila um leið og fyrir honum lá að lögmaður frá útibúi varnaraðila í Danmörku hefði verið skipaður annar skiptastjóri þrotabúsins. Þegar af þessari ástæðu telst varnaraðili ekki hafa gerst brotlegur gagnvart sóknaraðila með háttsemi sem varðar við 2. mgr. 22. gr. lögmannalaga.
Ú R S K U R Ð A R O R Ð :
Varnaraðili, S, hefur í störfum sínum fyrir sóknaraðila, R, ekki gert á hlut sóknaraðila með háttsemi sem stríðir gegn lögum eða siðareglum lögmanna.
ÚRSKURÐARNEFND LÖGMANNA