Mál 23 2009

Ár 2011, fimmtudaginn 7. apríl, var haldinn fundur í úrskurðarnefnd lögmanna í húsnæði Lögmannafélags Íslands að Álftamýri 9, Reykjavík.

Fyrir var tekið málið nr. 23/2009:

B

gegn

L hrl.

og kveðinn upp svofelldur

Ú R S K U R Ð U R :

Í erindi F hrl. f.h. B, kæranda, til úrskurðarnefndar lögmanna, dags. 2. september 2009, var kvartað yfir vinnubrögðum L hrl., kærða, við skiptastjórn á búi kæranda og eiginkonu hans. Lýtur kvörtunin sérstaklega að því að kærði hafi þann 20. júlí 2009 greitt konunni kr. 15.900.000.-, en kærandi telur að kærða hafi brostið heimild til að greiða svo háa upphæð. Kærandi telur að með þessari útgreiðslu hafi hann orðið af möguleika á því að koma að við skiptin, kröfum, sem með réttu hefði átt að draga frá greiðslunni

Kærði sendi nefndinni greinargerð um málið þann 8. september 2009 og var kæranda gefinn kostur á að gera athugasemdir við hana. Athugasemdir við greinargerð kærða bárust 6. apríl 2011.

Málsatvik og málsástæður.

I.

Málsatvik eru þau, eftir því sem fram kemur í kvörtun kæranda, greinargerð kærða og gögnum málsins, að kærði fór með skiptastjórn í opinberum skiptum á búi kæranda og þáverandi eiginkonu hans, X, en búið var tekið til opinberra skipta með úrskurði héraðsdóms [í] janúar 2009. Á skiptafundi [í] mars 2009 tókst samkomulag um fjárskipti og skiptalok. Var skrifað undir samning sem fól m.a. í sér að kærandi leysti til sín eignarhlut konunnar í sameiginlegri fasteign. Skyldi kærandi samkvæmt samningnum greiða 12 milljónir króna við undirritun hans en 6 milljónir króna eigi síðar en 1. október 2009.

Þessi samningur varð þó ekki endir allra deilna um fjárskiptin. Gáfu hjónin út sérstaka yfirlýsingu, dags. 22. júní 2009, þar sem nánar er kveðið á um framkvæmd einstakra atriða við skiptin. M.a. var þá fjárhæð áhvílandi veðskulda slegið fastri og þar með þeirri fjárhæð sem kærandi skyldi greiða konunni fyrir hennar eignarhluta í fasteigninni. Skyldi maðurinn greiða 15.963.550 fyrir eignarhlutann. 14,5 milljónir skyldu greiðast við undirritun yfirlýsingarinnar, en eftirstöðvarnar, kr. 1.463.550, eigi síðar en 1. ágúst 2009. Er ágreiningslaust að konan ritaði undir samkomulagið 22. júní, en kærandi fyrst daginn eftir eða síðar í sömu viku, eftir að hafa skoðað fasteiginina í fylgd skiptastjóra.

Kærandi fékk afgreitt lán frá íbúðalánasjóði 17. júlí 2009 að fjárhæð kr. 16.335.000 og var það lagt beint inn á reikning skiptastjóra, sem ráðstafaði 15.900.000 krónum til konunnar, en hélt eftir 63.550 krónum vegna ágreinings um garðtæki og leikföng sem kærandi taldi vanta í fasteignina.  Kærandi taldi hins vegar að aðeins 14,5 milljónir hefðu verið afhentar til konunnar og sendi kærða tölvupóst 29. júlí 2009 þar sem hann gerði kröfu um að 294.000 krónur yrðu greiddar sér af eignum búsins vegna muna sem hefðu átt að fylgja fasteigninni, en hefði vantað.

Á skiptafundi [í] ágúst 2009 var m.a. fjallað um þessar kröfur kæranda. Kemur fram að kærði freistaði þess að ná samkomulagi um hana. Bauð konan fram þá sátt um málið að kærandi héldi eftirstöðvum greiðslunnar, kr. 63.550 og lyki þar með öllum ágreiningi er viðkæmi afhendingu á fasteigninni og því sem henni átti að fylgja. Féllst kærandi á þessa tillögu.

Á þessum sama skiptafundi var jafnframt bókað að skiptastjóri (kærði) hafi farið „ásamt kæranda og skoðaði eignina eftir að konan hafði rýmt hana. Taldi maðurinn þá að hún væri í umsömdu ástandi, utan þess sem vantaði af tækjum og leikföngum í garð og áður hafði verið rætt um."

II.

Í greinargerð sinni til úrskurðarnefndar kveðst kærandi hafa reiknað með því að lokagreiðslan til konunnar yrði greidd við útgáfu afsals og færi þá jafnframt fram uppgjör á milli aðila. Hann hafi því verið í góðri trú um að uppgjör hefði enn ekki farið fram þegar hann sendi kærða kröfugerð sína 29. júlí 2009. Á skiptafundinum [í] ágúst hefði hins vegar komið fram að kærði hefði þá þegar verið búinn að greiða konunni nánast alla upphæðina. Hefðu þær skýringar einar komið fram á fundinum að þar sem fyrri greiðslan (14.5 milljónir) hefðu í reynd ekki verið greiddar við undirritun samkomulagsins 22. júní heldur fyrst 17. júlí væri ekki óeðlilegt að lokagreiðslan væri greidd aðeins fyrr en samkomulagið gerði ráð fyrir. Kærandi byggir á því að umrætt fé hafi verið vörslufé, sem kærða hafi verið óheimilt að ráðstafa án sérstaks samþykkis frá sér. Slíkt samþykki hafi ekki legið fyrir að því er varðar síðari greiðsluna til konunnar, þ.e. greiðslu á 1.400.000 þann 20. júlí 2009.

III.

Kærði rekur í greinargerð sinni tilurð þess samkomulags sem undirritað var af aðilum og dagsett er 22. júní 2009. Kærandi hafi ekki undirritað það fyrr en hann hefði verið búinn að skoða eignina og staðfest að allt væri eins og um var rætt varðandi ástand eignarinnar utan að garðtæki og leikföng vantaði, en það hafi hann vitað fyrir. Hafi maðurinn gjörþekkt eignina enda hafi hann búið í henni um árabil. Því næst hafi kærandi ritað undir samkomulagið að kærða viðstöddum. Þann 29. júlí hafi svo borist tölvupóstur frá kærða þar sem hann gerði kröfu um samtals 294.000 krónur vegna lausafjármuna, sem hann taldi vanta með fsteigninni. Á skiptafundi [í] ágúst 2009 hafi svo að fullu verið lokið öllum ágreiningi er viðkom afhendingu fasteignarinnar. Hafi kærandi notið aðstoðar lögmanns síns, F hrl., í þessu eins og í skiptaferlinu öllu.

Kærði telur rangt að líta svo á að það fé sem lagt var inn á reikning hans hafi verið vörslufé í eigu kæranda. Um hafi verið að ræða endurgjald til konunnar fyrir hlutdeild hennar í fasteign. Það hefði ekki samrýmst störfum hans sem skiptastjóra að halda eftir tæplega einni og hálfri milljón króna af tilliti til samningsstöðu mannsins vegna krafna um rólu og sláttuorf.

Kærði gerir í greinargerð sinni athugasemd við að jafnframt kvörtun til úrskurðarnefndar lögmanna hafi F hrl., kært hann til Héraðsdóms [...] fyrir brot á starfsskyldum skiptastjóra og lögmanna. Samkvæmt 31. gr. siðareglna lögmanna beri lögmanni, sem hyggist kæra lannan lögmann fyrir yfirvöldum eða dómstólum, að gera honum og stjórn LMFÍ aðvart áður og gefa þeim kost á að tjá sig um málefnið. Það hafi ekki verið gert. Með þessu og þeirri tilefnislausu kvörtun sem hér um ræðir, hafi F gerst sek um brot á góðum lögmannsháttum, sbr. 25. gr. siðareglna lögmanna. Gerir kærði þá kröfu að lögmaðurinn sæti áminningu vegna þessa og verði gert að greiða hæfilegan málskostnað vegna reksturs málsins fyrir nefndinni.

Lögmaður kæranda hefur vegna þessa áréttað að kvörtunin og erindið í heild sinni sé erindi umbjóðanda hennar til úrskurðarnefndar en ekki hennar sjálfrar. Sé erindið sett fram f.h. kæranda og hafnar lögmaðurinn  því að vera samkennd umbjóðanda mínum með þeim hætti sem gert er í greinargerð kærða.  Engar kröfur séu gerðar af hennar hálfu í málinu og því er hafnað að í því verði fjallað um kröfur á hendur henni persónulega.

Niðurstaða.

Sá sem telur lögmann hafa í störfum sínum gert á sinn hlut með háttsemi sem stríðir gegn lögum eða siðareglum lögmanna getur sent kvörtun til úrskurðarnefndar lögmanna, sbr. 1. mgr. 27. gr. lögmannalaga, nr. 77/1998. Í afgreiðslu á erindi sem berst nefndinni getur hún fundið að vinnubrögðum lögmanns eða veitt honum áminningu, ef um stórfelld eða ítrekuð brot er að ræða, sbr. 28. gr. lögmannalaga. Ef sakir eru miklar eða lögmaður hefur ítrekað sætt áminningu getur nefndin í rökstuddu áliti lagt til við ráðherra að réttindi lögmannsins verði felld niður tímabundið eða hann sviptur réttindum.

Í máli þessu verður ekki fjallað um hversu störf kærða sem skiptastjóri samræmast lögum og reglum sem um skiptastjórn gilda, enda á ágreiningur um það undir héraðsdóm og hefur raunar þegar verið felldur í þann farveg.

Það er kjarni þess máls sem hér um ræðir hvort kærði hafi brotið gegn góðum lögmannsháttum, siðareglum lögmanna og reglum um meðferð vörslufjár, þegar hann, þann 20. júlí 2009, greiddi fyrrum eiginkonu kæranda út 1.4 milljónir umfram þær 14,5 milljónir sem greiða átti við undirritun, en samkvæmt samkomulagi, sem gert hafði verið um þessar greiðslur átti lokagreiðsla að fara fram „eigi síðar en 1. ágúst 2009".

Nærtækast virðist, m.t.t. þessa orðalags að líta svo á að greiðslan hafi öll verið gjaldfallin, enda þótt eindaga hluta hennar hafi verið frestað til 1. ágúst. Verður þegar af þessari ástæðu að hafna því að kærði hafi sýnt af sér ámælisverða háttsemi við hina umdeildu útgreiðslu fjárins. Þá verður hér að líta til þess að kærandi hafði skrifað án fyrirvara undir samkomulag um fjárgreiðslur vegna umræddrar fasteignar. Ekkert liggur fyrir um að hann hafi þá látið á sér skiljast, gagnvart kærða að hann áskildi sér rétt til að koma að frekari kröfum, ef undan eru skildar einhliða yfirlýsingar hans eftir að uppgjör fór fram. Verður sönnunarbyrðin um að hann hafi gert slíkan áskilnað að hvíla á honum í ljósi fyrirvaralausrar undirritunar hans undir samkomulagið. Samkvæmt þessu verða ekki gerðar aðfinnslur við störf kærða.

Varðandi þann þátt málsins sem lýtur að kvörtun kærða yfir tilefnislausri kæru lögmanni kærða, F hrl. í máli þessu og til Héraðsdóms [...] verður að fallast á það með F að það sé rangt að líta svo á að kvörtunin stafi frá henni og að 31. grein siðareglna lögmanna um innbyrðis deilur lögmanna eigi við, enda ljóst að kvörtunin er sett fram f.h. umbjóðanda hennar, B.

Eftir atvikum þykir rétt að málskostnaður falli niður.

Ú R S K U R Ð A R O R Ð :

Kærði, L hrl., hefur í störfum sínum ekki gert á hlut kæranda, B, með háttsemi sem stríðir gegn lögum eða siðareglum lögmanna. Lögmaður kæranda, F, hrl. hefur með kvörtun í máli þessu og öðrum störfum sínum f.h. kæranda, ekki gert á hlut kærða, með háttsemi sem stríðir gegn lögum eða siðareglum lögmanna.