Mál 24 2009
Ár 2010, mánudaginn 15. nóvember, er haldinn fundur í úrskurðarnefnd lögmanna að Álftamýri 9, Reykjavík. Mættir eru undirritaðir nefndarmenn.
Fyrir er tekið málið nr. 24/2009:
N
gegn
S, hrl.
og kveðinn upp svofelldur
Ú R S K U R Ð U R :
Með bréfi L, hrl., fyrir hönd N, kæranda, dags. 25. september 2009, til úrskurðarnefndar lögmanna er kvartað yfir vinnubrögðum S, hrl., kærða, vegna skipunar hans sem málsvara V við skipti dánarbús föður V er lést [...] 2008. U, hrl., sendi nefndinni greinargerð af hálfu kærða þann 1. desember 2009. Af hálfu kæranda voru gerðar athugasemdir við greinargerðina í bréfi, dags. 22. janúar 2010, en þeim var svarað af hálfu kærða í bréfi, dags. 26. mars 2010. Nefndin sendi kærða tvívegis fyrirspurnir um atriði sem þörfnuðust nánari skýringar við að hennar mati, í síðara skiptið þann 6. september 2010. Svar við þeirri fyrirspurn barst 26. október 2010.
Málsatvik og málsástæður.
I.
Málsatvik eru í stuttu máli þau að þann 15. febrúar 2007 var undirrituð sátt fyrir dómstóli á [K]í Bandaríkum Norður-Ameríku er laut að lögráðamennsku fyrir V. Hann hafði lent í slysi á árinu 1982 og verið ófær um að gæta hagsmuna sinna frá þeim tíma. Tilefni sáttarinnar var framkomin krafa hálfbróður hans, B, um að sér yrði falin lögráðamennska fyrir V í stað kæranda, sem hafði verið lögráðamaður frá [...] 1983.
Með sáttinni var krafa B um breytingu á lögræðinu felld niður auk þess sem staðfest var samkomulag um dvöl V í 6 mánuði ár hvert á Íslandi hjá B og ýmis atriði er lutu að eftirliti með heilsufari V og fjármálum hans.
V var og er skráður með lögheimili í [Xlandi].
Í [...] 2008 lést F, faðir V. Til arfs stóðu V að 2/3 hlutum sem skylduerfingi og B að 1/3 sem bréferfingi. B fól kærða að aðstoða þá bræður við skipti dánarbúsins. Af því tilefni ritaði kærði bréf til sýslumannsins í H þann 8. ágúst 2008 þar sem þess var farið á leit að hann, kærði, yrði skipaður málsvari V við skipti dánarbúsins samkvæmt 2. mgr. 13. gr. laga um skipti dánarbúa o.fl., nr. 20/1991. Upplýst var í bréfinu að V ætti af heilsufarsástæðum erfitt með að beita penna til skrifta. Tekið var fram að kærði þekkti vel til aðstæðna V og að kærði hefði fram að því veitt aðstoð vegna dánarbússkiptanna og að hann teldi sig því vera vel til þess fallinn að sinna hlutverki málsvara. Með erindinu til sýslumanns fylgdi meðal annars læknisvottorð, dags. 21. júlí 2008. Sýslumaður féllst á erindið. Skiptum dánarbúsins lauk í desember 2008.
Þann 26. maí 2009 ritaði L, hrl., bréf til kærða og tilkynnti að lögmannsstofu hans hefði verið falið af kæranda að gæta hagsmuna V. Upplýst var í bréfinu að nýlega hefðu borist fregnir af því að V hefði tæmst arfur úr dánarbúi F og að búskiptum hefði lokið í desember 2008 án þess að tilkynning hefði borist lögmannsstofunni þar að lútandi. Var farið fram á að kærði upplýsti þegar um framgang búskiptanna og allan útlagðan kostnað vegna þeirra, þar á meðal þóknun kærða, svo og að kærði afhenti þegar öll gögn er hann hefði undir höndum og vörðuðu búskiptin.
Kærði hafnaði erindinu í bréfi til lögmannsins þann 3. júní 2009 og kvað gögn hafa verið afhent lögmönnum kæranda í K fyrir nokkru síðan. Ekki yrði séð að lögmannsstofan hefði umboð kæranda til þess að gæta hagsmuna V hér á landi.
Að loknum frekari bréfaskriftum var erindi kæranda sent úrskurðarnefnd lögmanna til úrlausnar.
II.
Í erindi sínu til nefndarinnar krefst kærandi þess að erindið verði tekið til þóknanlegrar athugunar og meðferðar, sbr. 27. gr. lögmannalaga nr. 77/1998. Þá er þess krafist að kærða verði gert að greiða kæranda málskostnað vegna reksturs málsins fyrir nefndinni. Loks er þess krafist að nefndin taki til sérstakrar athugunar þá kröfu sem fram kom í bréfi lögmanns kæranda til kærða um að kærði upplýsti um framgang búskiptanna og allan útlagðan kostnað eða annan kostnað sem kærði hefði áskilið sér, þar á meðal þóknun lögmannsins. Jafnframt að kæranda yrðu afhent öll gögn sem kærði hefði undir höndum og sem vörðuðu búskiptin.
Kærandi heldur því fram að kærði hafi brotið gegn ákvæðum í siðareglum lögmanna, einkum 20. og 21. gr., sbr. 24. gr. reglnanna, sem varða samskipti lögmanna og dómstóla, enda hefði hann án nokkurs umboðs komið fram fyrir hönd kæranda við skipti dánarbús F hjá sýslumanninum í H. Væri í því sambandi einkum vísað til bréfs lögmannsins til sýslumanns þann 8. ágúst 2008, þar sem hann hefði farið fram á að verða skipaður málsvari V við skipti dánarbúsins á grundvelli 13. gr. laga um skipti dánarbúa o.fl., þrátt fyrir að hafa átt að vera fullkunnugt um að [...] lögfræðistofunni hefði verið falið að annast hagsmunagæslu vegna V. Þá hefði þess ekki verið getið í erindinu til sýslumanns að V hefði verið sviptur lögræði og að kærandi hefði verið skipaður lögráðamaður hans. Í beiðni kærða til sýslumanns hefði verið að finna alvarlegar rangfærslur um persónulega stöðu V.
Af þessu sæist berlega að kærða hefði verið fullljóst hver lagaleg staða V var að þessu leyti þegar farið var fram á við sýslumann að kærði yrði skipaður málsvari hans.
Kærandi bendir á að þrátt fyrir að hin tilgreindu ákvæði siðareglnanna ættu samkvæmt orðanna hljóðan eingöngu við um samskipti lögmanna og dómstóla og úrskurðar- og kærunefnda, yrði ekki annað séð en að þau ættu, eftir atvikum með lögjöfnun, einnig við um samskipti lögmanna við aðra opinbera aðila, svo sem sýslumenn, enda hefðu ákvæði III. kafla siðareglnanna ekki að geyma tæmandi talningu, sbr. 44. gr. siðareglnanna.
III.
Kærði krefst þess aðallega að málinu verði vísað frá en til vara að úrskurðarnefndin úrskurði að kærði hafi í störfum sínum ekki gert á hlut kæranda með háttsemi sem stríðir gegn lögum eða siðareglum lögmanna. Þá krefst kærði greiðslu kærumálskostnaðar úr hendi kæranda vegna tilhæfulauss málareksturs.
Aðalkröfu sína, um frávísun málsins, styður kærði þeim rökum að hin tilgreindu ákvæði siðareglnanna í erindi kæranda taki einungis til samskipta lögmanna og dómstóla. Einu undantekningarnar komi fram í 24. gr. reglnanna þar sem fjallað er um úrskurðar- og kærunefndir. Í samræmi við lögskýringarsjónarmið skuli skýra undantekningarreglur þröngt. Af því leiði að efnisreglur III. kafla siðareglnanna taki aðeins til samskipta lögmanna og dómstóla og samskipta lögmanna og kæru- og úrskurðarnefnda. Um tæmandi talningu sé að ræða og að fleiri tilvik verði ekki felld undir kaflann.
Kærði bendir á að III. kafla siðareglnanna sé augsýnilega ætlað að gilda um samskipti lögmanna og úrskurðaraðila. Sýslumaður sé stjórnvald í skilningi laga en ekki úrskurðaraðili. Geti störf hans því ekki fallið undir ákvæði kaflans. Þar sem siðareglurnar taki ekki til samskipta lögmanna og sýslumanna sé nefndin ekki bær um að fjalla um kvörtun kæranda og beri þegar af þeirri ástæðu að vísa henni frá nefndinni.
Að því er varakröfu sína varðar kveðst kærði hafa farið þess á leit við sýslumanninn í H að verða skipaður málsvari V og að þar hafi mestu ráðið að hann hafi gjörþekkt aðstæður V. Þá hafi það verið eindregin skoðun [...], læknis, að V yrði skipaður málsvari.
Kærði kveðst hafna þeirri málsástæðu kæranda að hann hefði komið fram fyrir hönd V við skipti dánarbúsins án þess að hafa til þess gilt umboð. Alrangt sé að kærandi sé einn bær um að annast hagsmunagæslu fyrir V, á grundvelli dómssáttarinnar í K í febrúar 2007. Í sáttinni segi orðrétt: „The guardianship and the Ward‘s residence shall remain in [K], and no guardianship shall be established in Iceland." Með þessu orðalagi séu tekin af öll tvímæli um að ekki skuli skipa V sérstakan lögráðamann á Íslandi. Af ákvæðinu leiði að enginn sé skipaður lögráðamaður hans á Íslandi og því fari sýslumaður, sem yfirlögráðandi, með málefni hans hér á landi. Efni dómssáttarinnar sé ekki bindandi fyrir aðra en þá sem eru aðilar að henni. Hún taki þar af leiðandi ekki til málsvara samkvæmt skiptalögum, en hlutverk málsvara sé afmarkað við það að aðstoða menn sem ekki geti sjálfir gætt hagsmuna sinna við skipti. Vegna reynslu kærða og þekkingar á málefnum V hafi yfirlögráðandi ákveðið að skipa hann sem málsvara við dánarbússkiptin. Til þess hafi yfirlögráðandi hvorki þurft formlega heimild né samþykki kæranda. Að sama skapi yrði ekki með nokkru móti séð að kærða hafi verið skylt að lögum að leita sérstaklega eftir umboði kæranda til að koma fram fyrir hönd V við skipti dánarbúsins. Því beri að hafna öllum kröfum kæranda.
Kærði telur að kærandi hafi með athafnaleysi sínu samþykkt skipun sína sem málsvara V. Eftirá skýringu kæranda, um að hann hafi í ársbyrjun 2007 eða 2008 falið [...], lögfræðistofunni hf. hagsmunagæslu fyrir sína hönd vegna skipta dánarbúsins, sé alfarið mótmælt sem rangri og ósannaðri. Kærði kveður einu samskipti sín við lögmannsstofuna, áður en starfsmenn hennar hófu ofsóknir á hendur sér vegna síns þáttar í búskiptunum, hafi verið eitt símtal sem hann hafi átt við fulltrúa lögmannsstofunnar í maí 2008 og hafi það símtal varðað ráðningu tveggja lækna til eftirlits með V þá mánuði sem hann hafi dvalist hérlendis. Hafi lögmannsstofan ekki haft frekari afskipti af málinu, heldur hafi þau öll farið gegnum lögmenn kæranda á K. Kærði kveður lækni þann, sem fenginn hafi verið til þess að hafa eftirlit með V, ekki hafa haft neitt samband við [...], lögfræðistofuna. Öll hans samskipti hafi verið beint við kæranda eða lögmann hans í [...]landi.
Kærði bendir á að um mánaðamótin maí-júní 2008, fljótlega eftir andlát F, hafi B, hálfbróðir V, upplýst kæranda og lögmenn hans um andlátið. Þá vísar kærði til þess að hann hafi sjálfur, í mars 2008, haft samband við lögmann kæranda í K og upplýst um alvarlegt ástand F, en það hafi verið gert í tengslum við komu V hingað til lands. Þrátt fyrir upplýsingarnar hafi hvorki kærandi né lögmenn hans viljað hafast að í málinu.
Kærði kveðst hafa sent kæranda upplýsingar um reikningsnúmer og fjárhæðir á bankareikningum V, eftir að skiptum lauk. Þrátt fyrir það hafi kærandi hvorki gert tilkall til hlutar V né krafist þess formlega að innistæður yrðu millifærðar á bankareikning hans í Bandaríkjunum. Það eitt og sér sé staðfesting á því fyrirkomulagi að meðan V dvelst hér á landi sé hann að öllu leyti í umsjá B, hálfbróður síns. Telur kærði athafnaleysi kæranda í þessum efnum verða lagt að jöfnu við samþykki hans, jafnt á fyrirkomulagi sem framkvæmd dánarbússkiptanna.
Kærði tekur fram að skiptum í dánarbúi F heitins sé lokið og að eignum þess hafi verið ráðstafað til erfingja. Hafi yfirlögráðandi staðfest lögmæti skiptanna með undirritun erfðafjárskýrslu. Kærði tekur einnig fram að telji kærandi B hafa brotið gegn ákvæðum dómssáttar, sem þeir undirrituðu 15. mars 2007, sé honum frjálst að bera slíkan réttarágreining undir þann dómstól sem skjalið heyrir undir, þ.e. dómstól í K, ekki úrskurðarnefnd lögmanna.
IV.
Í athugasemdum kæranda við greinargerð kærða er frávísunarkröfu kærða mótmælt. Þar kemur meðal annars fram að samkvæmt 44. gr. siðareglnanna geyma þær ekki tæmandi talningu á því hvað teljist vera góðir lögmannshættir. Að auki verði að telja sýslumenn til úrskurðaraðila, enda úrskurði þeir iðulega í málum, til dæmis vegna aðfarargerða og í sifjamálum.
Kærandi leggur áherslu á að sýslumaður hafi ekki verið upplýstur um stöðu mála, svo sem um skipun kæranda sem lögráðamanns. Í erindi kærða til sýslumanns hafi þessa ekki verið getið, heldur hafi kærði eingöngu vísað til þess að V ætti erfitt með að beita penna til skrifta en að hann væri að öðru leyti heill heilsu. Kærandi telur þannig að kærða hafi borið að upplýsa sýslumann, í samræmi við góða lögmannshætti, um lagalega stöðu V, þar á meðal um það að hann væri lögræðissviptur og að honum hefði verið skipaður lögráðamaður. Álítur kærandi þetta skýrt brot á tilvísuðum ákvæðum siðareglna lögmanna.
Kærandi hafnar því að úrskurður bandarískra dómstóla feli það í sér að lögráðin hafi ekki tekið til málefna V á Íslandi.
Kærandi hafnar því að hafa samþykkt skipan kærða sem málsvara V, enda hafi hann ekki verið upplýstur um skipan kærða sem málsvara fyrr en gögn bárust vegna skiptanna, að þeim loknum.
Kærandi ítrekar að kærða hafi verið kunnugt um að tilteknum lögmanni hér á landi hafi snemma árs 2008 verið falið að hafa milligöngu um skipun læknis til eftirlits með V á meðan dvöl hans stæði hér á landi, auk annarra tilfallandi verkefna.
Kærandi ítrekar að hann telji kærða hafa gerst brotlegan við ákvæði siðareglna lögmanna, einkum III. kafla þeirra er lýtur að samskiptum lögmanna og dómstóla. Telur kærandi tilgreind ákvæði siðareglnanna taka einnig til samskipta lögmanna við aðra opinbera aðila, svo sem sýslumenn.
Kærandi telur kærða ekki hafa verið heimilt að áskilja sér þóknun vegna dánarbússkiptanna, enda hafi hagsmunagæsla hans við búskiptin ekki verið unnin á grundvelli umboðs kæranda og því óheimil.
V.
Í athugasemdum sínum hafnar kærði túlkun kæranda á III. kafla siðareglnanna að því er gildissvið kaflans varðar. Telur kærði að samkvæmt ótvíræðu orðalagi gildi reglur kaflans um framkomu lögmanna og málflutningsstörf fyrir dómstólum og úrskurðar- og kærunefndum. Reglurnar taki ekki til samskipta lögmanna og sýslumanna eða framkomu lögmanna fyrir sýslumönnum. Af því leiði að úrskurðarnefndin sé ekki bær til þess að fjalla um kvörtunina. Beri því að vísa henni frá nefndinni.
Kærði telur dómssáttina frá K hafa falið það í sér að enginn sérstakur lögráðamaður fyrir V yrði skipaður hér á landi. Kærði telur skipun dómstóls á K á lögráðamanni ekki hafa lagalega þýðingu hér á landi. Því hafi sýslumaður, sem yfirlögráðandi, verið í fullum rétti þegar hann skipaði kærða málsvara V við dánarbússkiptin.
Kærði bendir einnig á að B, hálfbróðir V, sjái um öll fjárhagsleg málefni hans hér á landi. Hann hafi meðal annars full umráð yfir bankareikningi í nafni V og sé það fyrirkomulag með fullu samþykki kæranda, sem hafi sjálfur ekki neinar heimildir yfir bankareikningnum. Þá bendir kærði á að kærandi hafi komið hingað til lands sumarið 2008 og rætt við V og B um stöðu mála, þar á meðal andlát F. Telur kærði enga þörf hafa verið á að upplýsa kæranda um skipun kærða sem málsvara þegar af þeirri ástæðu að yfirlögráðandi hafi metið hann hæfan til starfans. Kærði bendir jafnframt á að eftir að skiptum dánarbúsins lauk hafi hann afhent kæranda skilríki yfir þær eignir sem V fékk í sinn hlut við skiptin. Jafnframt hafi upplýsingar sem innihéldu reikningsnúmer og fjárhæðir sem komu í hlut V verið sendar lögmönnum kæranda á K.
VI.
Í tölvupósti úrskurðarnefndar til kærða þann 7. júní 2010 var hann inntur eftir því hvort honum hafi verið kunnugt um lögráðamennsku kæranda þegar beiðnin um málsvara var sendi sýslumanni þann 8. ágúst 2008. Þá var kærði inntur eftir því hvort sýslumanni hafi verið kunnugt um að V hafði verið skipaður lögráðamaður á K, um það leyti sem erindi kærða barst embættinu og meðan á afgreiðslu þess stóð. Loks var þess óskað að kærði upplýsti um gögn og upplýsingar vegna skiptaloka í dánarbúi F og hvort þau hefðu verið send lögmanni kæranda á K.
Í svari sínu kvaðst kærði hafa vitað um lögráðamennsku kæranda og að samkvæmt dómssátt hafi hún takmarkast við K.
Þá kvað kærði sýslumanni hafa verið kunnugt um lögræðissviptingu V, en í samskiptum við embættið hafi verið farið rækilega yfir stöðu V hér á landi og á K, þar á meðal lögráðamennsku. Þá hafi verið sérstaklega óskað eftir afstöðu embættisins til þess atriðis, eftir að skiptum lauk, hvort sýslumaður eða málsvari ætti að senda lögráðamanni öll nauðsynleg gögn er vörðuðu skiptin. Hafi sýslumaður talið það vera hlutverk málsvara.
Loks fylgdu svari kærða upplýsingar um gögn sem send voru lögmanni kæranda á K um skipti dánarbúsins.
Í athugasemdum af hálfu kæranda þann 18. júní 2010 var dregin í efa sú fullyrðing kærða að sýslumanni hefði verið tilkynnt sérstaklega um lögræðissviptingu V og að honum hefði verið skipaður lögráðamaður samkvæmt títtnefndri dómssátt hins ameríska dómstóls. Var meðal annars vísað um það til beiðni kærða um að vera skipaður málsvari, en þar hafi komið fram að V ætti „erfitt með að beita penna til skrifta" sem afleiðing slyss er hann hefði orðið fyrir 1983. Væri í umræddu bréfi kærða vísað til læknisvottorðs. Þá hafi í beiðninni komið fram að „samkvæmt athugasemdum með frumvarpi til laga nr. 20/1991 er tilgangur heimildarinnar í 2. mgr. 13. gr. að koma í veg fyrir að svipta þurfi hlutaðeigandi lögræði við aðstæður sem þessar en slík aðgerð er viðurhlutamikil". Loks hafi í umræddu læknisvottorði komið fram að V væri bæði „lögráða og fjárráða". Af þessu sæist berlega að sýslumanni hafi verið veittar villandi upplýsingar um persónulega hagi V hvað þetta varðaði. Hefði fulltrúi sýslumannsins í H staðfest þetta í samtali við lögmann kæranda, enda hefði sýslumaður þá ekki heimilað skipun málsvara ad hoc með vísan til 13. gr. laga nr. 20/1991, þar sem í 1. mgr. ákvæðisins væri beinlínis mælt fyrir um að eingöngu skyldi skipa ólögráða erfingja sérstakan málsvara, hefði lögráðamaður hans sjálfur hagsmuna að gæta við skiptin. Með öðrum orðum mælti ákvæðið fyrir um að alla jafna skyldi lögráðamaður sjálfur annast hagsmunagæslu ólögráða erfingja. Í málinu lægi fyrir annars vegar að V hefði verið sviptur lögræði og hins vegar að honum hefði verið skipaður lögráðamaður, þ.e. kærandi. Um þetta hefði kærða borið að upplýsa sýslumann í samræmi við meginreglur laga nr. 20/1991, sem hann hefði þó ekki gert.
Vegna efasemda þeirra sem fram komu í athugasemdum kæranda óskaði úrskurðarnefndin eftir því við kærða að hann aflaði staðfestingar sýslumanns um að réttilega hefði verið staðið að upplýsingagjöf til embættisins um hagi og stöðu V þegar leitað var eftir skipun sérstaks málsvara. Með tölvupósti frá lögmannsstofu kærða þann 26. október 2010 fylgdu tölvupóstsamskipti löglærðs starfsmanns á lögmannsstofunni við deildarstjóra sifja- og skiptadeildar sýslumannsembættisins þann 10. júlí 2008. Fjölluðu þau samskipti um hvort ekki væri óeðlilegt að skipa samerfingja málsvara á grundvelli 2. mgr. 13. gr. laga nr. 20/1991 vegna hugsanlegra hagsmunaárekstra. Upplýsti starfsmaðurinn að fyrirspurn þar að lútandi væri beint til embættisins vegna dánarbús er þar væri til meðferðar, þar sem skipa þyrfti málsvara vegna þess að einn erfingja væri mjög mikið veikur og gæti ekki skrifað. Svar embættisins var að það gengi ekki að hafa samerfingja. Nægilegt væri að senda örstutt erindi og læknisvottorð. Hægt væri að leggja gögnin inn með einkaskiptabeiðni.
Niðurstaða.
I.
Erindi kæranda snýst um það hvort kærði hafi með vinnubrögðum sínum brotið gegn ákvæðum siðareglna lögmanna, meðal annars við upplýsingagjöf í erindisrekstri til embættis sýslumannsins í H, og að hafa rekið þar erindið, þrátt fyrir að honum hefði átt að vera kunnugt um að kærandi hefði falið [...] lögfræðistofunni hagsmunagæslu vegna V. Vísar kærandi einkum til 20., 21. og 24. gr. siðareglnanna máli sínu til stuðnings. Kærði telur erindið ekki falla undir tilgreind ákvæði III. kafla siðareglna lögmanna og því beri að vísa málinu frá nefndinni. Kærandi aftur á móti hafnar frávísunarkröfunni og bendir á að samkvæmt 44. gr. siðareglnanna megi ekki skoða þær sem tæmandi taldar um góða lögmannshætti.
Efnislega varðar erindi kæranda það álitaefni hvort kærði hafi staðið rétt að verki þegar hann sóttist eftir því að verða skipaður málsvari V samkvæmt 2. mgr. 13. gr. laga nr. 20/1991, nánar tiltekið hvort hann hafi upplýst sýslumann um lögræðissviptingu V og að kærandi hefði verið skipaður lögráðamaður hans af dómstóli á K.
Að mati úrskurðarnefndar er ekki ágreiningur um hvers efnis erindið er. Telur nefndin það ekki varða frávísun erindisins þótt einkum séu tilgreind, í dæmaskyni, 20., 21. og 24. gr. siðareglnanna. Fleiri ákvæði siðareglnanna koma til greina, þótt þau séu ekki sérstaklega tilgreind í erindinu, þar á meðal ákvæði um skyldur lögmanna gagnvart öðrum lögmönnum. Er frávísunarkröfu kærða hafnað.
II.
Í greinargerðum málsaðila til nefndarinnar koma fram ólík sjónarmið um þýðingu þess að dómssátt var gerð á K þann 15. febrúar 2007 er fól í sér staðfestingu á skipun kæranda sem lögráðamanns V. Snýst ágreiningur aðila að þessu leyti um það hvort lögráðamennska kæranda taki til hagsmunagæslu hér á landi eða hvort í henni felist landfræðileg takmörkun. Nefndin telur það falla utan lögbundins valdsviðs síns að leysa úr lögfræðilegu álitaefni af þessu tagi, að því marki sem á það kann að reyna í málinu.
Í erindi kæranda er því haldið fram að kærða hafi verið kunnugt um að [...] lögfræðistofunni hefði verið falið að annast hagsmunagæslu fyrir kæranda vegna V. Fram hefur komið af hálfu kærða að honum var kunnugt um að [...] lögfræðistofunni hafði verið falið að annast milligöngu um skipan læknis til eftirlits með V, en að hann, kærði, hefði ekki fengið upplýsingar um hagsmunagæslu [...] lögfræðistofunnar vegna dánarbússkiptanna. Um þetta atriði stangast fullyrðingar aðila á og stendur þar staðhæfing gegn staðhæfingu. Er því ekki unnt, að mati úrskurðarnefndar, að skera úr þessi ágreiningsatriði í málinu.
Af þeim gögnum, sem lögð hafa verið fyrir úrskurðarnefndina, er ljóst að kærða var kunnugt um að V hafði verið lögræðissviptur og að kærandi væri lögráðamaður hans á K, á þeim tíma þegar hann sendi erindi sitt til sýslumanns um að verða skipaður málsvari V við skipti á dánarbúi föður hans. Ekki verður séð að kærði hafi í samskiptum sínum við sýslumannsembættið upplýst um stöðu og hagi V hvað lögræðissviptinguna snertir, en eins og fram hefur komið telur kærði hana ekki hafa lagalega þýðingu hérlendis. Telur kærði jafnframt að ekkert hefði komið fram af hálfu kæranda, frá því faðir V lést þann 15. maí 2008, og fram í júlí-ágúst, að hann hafi ætlað að skipta sér af dánarbússkiptum. Telur kærði því bróður V hafa verið það fullheimilt að fela sér að fara þess á leit við sýslumann að verða skipaður málsvari, svo sem gert var.
Ráðstöfun á högum V er með óvenjulegu móti, eftir því sem ráða má af gögnum málsins. Hann er með skráð lögheimili í [Xlandi], hann var sviptur lögræði og honum skipaður lögráðamaður á K, lögmaður lögráðamanns hans er staðsettur í [...]landi, en sjálfur er V í umsjá B bróður síns hér á Íslandi hálft árið, [...]. Þótt ekki liggi það ljóst fyrir hvort lögráðasviptingin og skipan lögráðamanns á K gildi hér á landi telur úrskurðarnefndin þó að rétt hefði verið af hálfu kærða að upplýsa sýslumann um þessi atriði, sem vörðuðu mikilsverða, persónulega hagi V, þegar sótt var um skipun sem málsvari hans, enda yrði það hlutverk málsvarans meðal annars, ef á reyndi, að gæta hagsmuna V gagnvart meðerfingja hans, B. Gat rétt og fullnægjandi upplýsingagjöf til sýslumanns einnig skipt máli fyrir kæranda við rækslu hlutverks síns sem lögráðamanns V. Telur nefndin að erindi kærða til sýslumanns um að vera skipaður málsvari V hafi að þessu leyti verið ábótavant.
Að teknu tilliti til þess sem að framan greinir og að virtum öllum gögnum málsins er það mat úrskurðarnefndar að aðgæsluleysi kærða við að veita sýslumanni fullnægjandi upplýsingar við umsókn um skipun málsvara fyrir V samrýmist ekki góðum lögmannsháttum og sé því aðfinnsluvert.
Rétt þykir að málskostnaður falli niður.
Ú R S K U R Ð A R O R Ð :
Ófullnægjandi upplýsingagjöf kærða, S, hrl., til sýslumannsins í H við umsókn um skipun málsvara fyrir V, er aðfinnsluverð.
Málskostnaður fellur niður.