Mál 8 2009
Ár 2010, miðvikudaginn 9. júní, er haldinn fundur í úrskurðarnefnd lögmanna að Álftamýri 9, Reykjavík. Mættir eru undirritaðir nefndarmenn.
Fyrir er tekið málið nr. 8/2009:
A
gegn
B, hrl.
og kveðinn upp svofelldur
Ú R S K U R Ð U R :
Með bréfi A, kæranda, til úrskurðarnefndar lögmanna, dags. 20. mars 2009, kvartaði kærandi yfir vinnubrögðum B, hrl., kærða, við innheimtu í tveimur skuldamálum á hendur kæranda. Kærði sendi nefndinni greinargerð þann 25. maí 2009. Kærandi gerði nokkrar athugasemdir við greinargerðina í bréfi, dags. 17. júlí 2009. Kærði tjáði sig um skrif kæranda í bréfi, dags. 3. september 2009. Þá gerði kærandi frekari athugasemdir í bréfi þann 6. október 2009.
Málsatvik og málsástæður.
I.
Málsatvik eru í stuttu máli þau að kærða var falið að innheimta kröfu sem var í vanskilum, en krafan var samkvæmt bílaláni, sem C veitti kæranda. Lánið hvíldi sem veð á bifreið sem kærandi keypti. Kærandi seldi bifreiðina í janúar 2008 en kaupandinn yfirtók ekki áhvílandi lánið. Kaupandinn seldi sjálfur bifreiðina þriðja aðila og enn fylgdi lánið, sem var á nafni kæranda. Erindi kæranda til úrskurðarnefndar lögmanna snýst um starfsaðferðir kærða við innheimtu á kröfunni gagnvart sér, svo og innheimtu á annarri kröfu sem hvíldi sem veð á annarri bifreið, en kærandi hafði samið við C um greiðslufyrirkomulag á þeirri skuld.
II.
Í erindi sínu til nefndarinnar krefst kærandi þess að kærði verði áminntur fyrir brot gegn siðareglum lögmanna. Telur kærandi kærða ekki hafa gætt lögmætra hagsmuna sinna í málinu sem hann rak fyrir C vegna bifreiðarinnar XX-ZZZ. Hafi kærði haldið áfram innheimtu gegn sér, þrátt fyrir að kærandi hafi verið búinn að selja bifreiðina og að gert hafi verið samkomulag milli aðila, þ.e. kæranda, kærða, C og nýs eiganda bifreiðarinnar í júlí 2008 um að nýi eigandinn tæki nýtt lán á bifreiðina hjá C. Því láni hafi átt að ráðstafa til greiðslu láns sem kærandi hafði tekið, ásamt gjaldföllnum afborgunum. Þá hafi hinn nýi eigandi átt að greiða lögmannskostnað til kærða, 160 þúsund krónur. Greiddar hefðu verið 100 þúsund krónur og samið um eftirstöðvarnar.
Kærandi telur málarekstur hafa haldið áfram gegn sér og telur hann það hafa stafað frá því að hinn nýi eigandi bifreiðarinnar hafi ekki greitt eftirstöðvar lögmannskostnaðarins til kærða. Kærandi kvartar yfir því að sér hafi ekki verið gefinn kostur á að greiða þessa fjárhæð til kærða til þess að losna undan skyldum sínum samkvæmt eldra láninu.
Þá telur kærandi kærða hafa reynt að ná sér niðri á kæranda í öðru máli, sem hann rak fyrir C vegna veðkröfu á bifreiðinni ZZ-XXX. Kveðst kærandi hafa gert greiðslusamkomulag við C og hafi hann staðið við þann samning. Kærandi kveður kærða hafa krafist þess að bifreiðin yrði afhent sér vegna fyrirhugaðs uppboðs, þrátt fyrir að hafa móttekið greiðslu frá kæranda nokkrum dögum fyrr. Þegar kærði hafi tekið við greiðslunni hafi hann ekki látið kæranda vita af þeirri ætlun sinni að taka bifreiðina nokkrum dögum síðar og selja hana á uppboði og valda kæranda þar með gríðarlegu fjárhagslegu tjóni.
III.
Kærði kveðst hafa fengið til innheimtu tvær kröfur á hendur kæranda, hann hafi verið skuldari í báðum tilvikum þótt hann væri einungis skráður eigandi annarrar bifreiðarinnar af þeim tveimur sem kröfurnar hvíldu á.
Kærði kveðst fyrst hafa fengið til innheimtu kröfuna vegna bifreiðarinnar XX-ZZZ. Hann kveðst ekki geta borið um það hvað fór í milli kæranda og C. Þó hafi umsókn um skuldskeytingu tvívegis verið samþykkt og hafi C útbúið gögn þar að lútandi til undirskriftar. Gögnin hafi hins vegar aldrei verið undirrituð, hvorki af kæranda né nýjum skuldara. Þá hafi lánið ekki verið greitt í skil, en það var skilyrði af hálfu C. Telur kærði þetta vera á ábyrgð kæranda og/eða viðsemjanda hans, ekki C eða sína.
Kærði kveðst vera með uppboðskröfu í gangi vegna XX-ZZZ. Þar sem bifreiðin hefði ekki fundist og kærandi, sem hefði upplýst að hann væri með hana í sinni vörslu, hefði neitað að afhenda hana, hafi verið óskað eftir aðför í eignum kæranda til þess að ná fram tryggingu fyrir kröfunni. Áður en til aðfarar hafi komið hafi kærandi flutt fasteign sína yfir á nafn konu sinnar. Nú væri verið að reyna að ná fram árangurslausu fjárnámi hjá kæranda, sem ekki mætti til sýslumanns þrátt fyrir boðanir.
Kærði kveðst síðar hafa fengið annað skuldabréf til innheimtu hjá kæranda vegna bifreiðarinnar ZZ-XXX. Kærði kveður kröfuhafann, C, ekki kannast við að hafa gert greiðslusamkomulag við kæranda, enda hefði bréfið þá ekki verið sent í innheimtu.
Kærði kveður kæranda hafa óskað eftir samkomulagi við sig um þessa síðari kröfu eina og sér. Kveðst kærði hafa tjáð kæranda og síðar þáverandi lögmanni hans að ekkert væri því til fyrirstöðu að semja um uppgjör, en það yrði að semja um heildarskuldir kæranda til C, þ.e. að semja yrði um bæði málin í einu. Þeir hafi verið ósáttir við að fá ekki samkomulag um eina kröfuna sérstaklega. Síðar hefði kærandi skipt um lögmann og hefði sá fengið sömu svör og áður, þ.e. að semja yrði um bæði málin í einu. Þá hefði lögmaðurinn verið upplýstur um það í símtali, að gerð væri krafa um að bifreiðin XX-ZZZ yrði afhent og þá fengist strax heimild til að koma hinu skuldabréfinu í skil. Kveður kærði lögmanninn hafa hringt í kæranda meðan hann sjálfur beið á hinni línunni og hafi lögmaðurinn ráðlagt kæranda að ganga í málið. Hafi kærandi fallist á það.
Kærði kveðst ekki hafa krafið kæranda um annan kostnað en innheimtukostnað samkvæmt gjaldskrá lögmannsstofu sinnar. Hann hafi aldrei krafist þess að kærandi afsalaði sér rétti til að halda uppi efnislegum vörnum í málum sem að honum sneru, hvað þá að hann hefði krafist þess að kærandi drægi erindi sitt til úrskurðarnefndar lögmanna til baka. Kærði kveðst hins vegar ekki hafa viljað sætta sig við annað en að bifreiðin XX-ZZZ yrði afhent þannig að koma mætti fram uppboði á henni. Þegar uppboðssalan hefði farið fram yrði öruggt að einhverjar eftirstöðvar yrðu af skuldinni. Þegar til innheimtu eftirstöðvanna kæmi gæti kærandi auðvitað haldið uppi öllum þeim vörnum sem honum stæðu til boða. Kærði kveður skráningu á nafni kæranda á vanskilaskrá hjá Lánstrausti hafa farið fram samkvæmt þeim reglum sem gilda þegar um aðfararhæfar kröfur er að ræða.
Kærði kveður aldrei hafa verið gert samkomulag við kæranda um að hann yrði leystur undan kröfu C vegna bifreiðarinnar XX-ZZZ á annan hátt en þann að skuldskeyting hafi verið samþykkt með tilteknum skilmálum. Kærandi hafi hins vegar ekki séð til þess að frá skuldskeytingunni yrði gengið.
Kærði kveður kæranda hafa marg ítrekað neitað að afhenda bifreiðina XX-ZZZ nema hann fengi skriflega yfirlýsingu um að eftirstöðvar kröfunnar, eftir uppboðssölu, yrðu felldar niður. Kærði kveðst ekki hafa viljað fallast á þá kröfu, heldur hafi hann fremur viljað að uppboðssalan færi fram vegna vanskila á láninu og síðan gæti kærandi haldið uppi þeim vörnum sem hann vildi vegna heimtu eftirstöðva lánsins.
Kærði kveður kjarna málsins vera þann að hann teldi sér ekki skylt að semja við skuldara á þá leið að heimilt yrði að koma gjaldfelldum skuldabréfum í skil og/eða á hvaða hátt sem það yrði gert. Kröfuhafi gæti sett skilyrði fyrir skilum, til dæmis um að gert yrði heildarsamkomulag um uppgjör annarra krafna sinna á sama aðila. Kærandi hafi ekki viljað sætta sig við venjulegar leikreglur og þess vegna væri kærumál hans til úrskurðarnefndarinnar orðið til.
IV.
Í athugasemdum kæranda við greinargerð kærða kemur meðal annars fram sú skoðun hans að unnt hefði verið að leysa úr hvoru málinu fyrir sig, enda væri um ósamrættar kröfur að ræða er vörðuðu tvær bifreiðar og tvo mismunandi lánasamninga. Telur kærandi að kærða hafi ekki verið stætt á því að gera það að skilyrði fyrir greiðslu inn á kröfuna vegna bifreiðarinnar ZZ-XXX að semja þyrfti um bæði málin samtímis. Kærandi telur sig hafa átt rétt til að gæta hagsmuna sinna vegna bifreiðarinnar XX-ZZZ, en að hann hefði verið þvingaður með óréttmætum hætti til samningagerðar vegna þeirrar bifreiðar með kröfunni um að samkomulag yrði gert um báðar bifreiðarnar. Telur kærandi þetta ekki standast og vísar m.a. til 35. gr. siðareglna lögmanna í því sambandi. Kveðst kærandi aldrei hafa samþykkt að ganga að þeim skilmálum um bifreiðarnar tvær sem haldið væri fram í skrifum kærða.
Kærandi telur að um ólögmæta þvingun hafi verið að ræða og að það hafi verið andstætt 1. mgr. 36. gr. siðareglnanna að neita algjörlega samkomulagsgerð vegna síðari lánssamningsins. Slík viðskipti hefðu ekki verið í samræmi við hagsmuni sína og þau hefðu heldur ekki verið í samræmi við hagsmuni kröfueigandans eftir að eignaleysi kæranda var staðreynt.
Kærandi tekur fram að það hafi ekki verið við sína sölu á bifreiðinni sem C skuldbreytti láninu, heldur hafi það gerst þegar bifreiðin var seld áfram þriðja aðila. Þá hafi C fallist á að útbúið yrði nýtt skuldabréf, útgefið af skráðum eiganda bifreiðarinnar, sem myndi greiða upp eftirstöðvar lánsins, vanskil og kostnað. Kveðst kærandi hafa séð til þess að skuldabréfið yrði undirritað og hann hafi skilað því inn til C. Taldi hann sig þar af leiðandi lausan allra mála vegna kröfunnar.
Kærandi kveðst fyrst hafa vitað af því að útgefandi skuldabréfsins stóð ekki við sína skuldbindingu þegar hann, kærandi, fékk rukkun vegna upphaflega skuldabréfsins.
Kærandi telur kærða hafa mátt vera það ljóst að skuldabréfið var undirritað og því var skilað inn til C. Það sé frumskylda í öllum viðskiptum að gæta hagsmuna viðsemjenda sinna að einhverju marki. Með framferði sínu hafi kærði hins vegar orðið til þess að hvorki kröfuhafinn né skuldarinn gætu verið sáttir um störf hans. Þannig hefði kröfuhafinn fengið minna upp í sína kröfu og óvíst væri hvort hann myndi nokkurn tíma fá hana endurgreidda að fullu. Kveður kærandi kærða hafa valdið sér talsverðu tjóni, enda hefði bifreið sín verið seld á uppboði vegna aðgerða kærða.
Kærandi kveðst vera ósáttur við þær leikreglur sem kærði virðist hafa sett upp á sitt eindæmi og sem væru oft á tíðum í engu samræmi við þær eiginlegu leikreglur sem íslenskt réttarkerfi byggðist á.
V.
Í athugasemdum kærða kemur meðal annars fram að ekkert lægi fyrir um að náðst hefði samkomulag milli kæranda og C um bifreiðina ZZ-XXX, þótt afhending á XX-ZZZ hefði ekki staðið því í vegi. Aldrei hefði reynt á slíkt en þær hugmyndir sem kærandi hefði lagt fram í upphafi hefðu ekki verið til samkomulags fallnar.
Niðurstaða.
Kærða var falið að innheimta hjá kæranda tvær kröfur, sem voru í vanskilum. Í þeim störfum sínum var hann umboðsmaður kröfueigandans, C, og bar fyrst og fremst að gæta hagsmuna umbjóðanda síns í samskiptum við skuldarann eða skuldarana. C hefur ekki kvartað yfir störfum kærða og verður að líta svo á að kröfueigandinn telji kærða hafa sinnt skyldum sínum gagnvart sér við innheimtustörfin.
Það er meginregla í íslenskum kröfurétti að skuldskeyting, þ.e. að nýr skuldari komi í stað eldri skuldara, fer ekki fram nema með samþykki og heimild kröfuhafans. Samkvæmt gögnum málsins komust áform um skuldskeytingu á bílaláninu vegna XX-ZZZ á rekspöl og var meðal annars gengið frá sérstakri yfirlýsingu um skuldskeytinguna sem kröfueigandinn og nýr skuldari undirrituðu 14. apríl 2008. Á skjalið var áritað að vanskil væru vegna mars og apríl greiðslna. Í bréfi lögmanns kæranda til kærða, dags. 15. janúar 2009, var því haldið fram að C hefði ekki staðið við yfirlýsinguna og hafi virst bera fyrir sig að ógreiddar væru afborganir þessa tvo tilgreindu mánuði.
Að mati úrskurðarnefndar má ráða af gögnum málsins að kröfueigandinn, en ekki kærði, hafi staðið í vegi fyrir að skuldskeytingin næði fram að ganga, svo sem haldið er fram í fyrrnefndu bréfi lögmanns kæranda. Telur nefndin því ekki verða séð að kærði hafi að þessu leyti gert á hlut kæranda með háttsemi sem stríðir gegn lögum eða siðareglum lögmanna.
Samkvæmt lýsingu kærða voru bæði bílalánin gjaldfelld. Við þær aðstæður gat kröfuhafinn sett skilyrði um að málin yrðu gerð upp og/eða að lánunum yrði komið í skil. Að mati úrskurðarnefndar var krafan um uppgjör sett fram af kærða í hlutverki umboðsmanns kröfueigandans. Ekki heldur að þessu leyti hafi kærði gert á hlut kæranda með háttsemi sem stríðir gegn lögum eða siðareglum lögmanna.
Kærandi tilgreindi sérstaklega 35. og 36. gr. siðareglna lögmanna í erindi sínu til úrskurðarnefndar. Samkvæmt 35. gr. reglnanna má lögmaður ekki, til framdráttar málum skjólstæðings síns, beita gagnaðila ótilhlýðilegum þvingunum, en það teljast meðal annars ótilhlýðilegar þvinganir að kæra eða hóta gagnaðila kæru um atferli sem óviðkomandi er máli skjólstæðings, að ljóstra upp eða hóta gagnaðila uppljóstrun um atferli, sem getur valdið gagnaðila hneykslisspjöllum, og að leita án sérstaks tilefnis til óviðkomandi vernslamanna gagnaðila með mál skjólstæðings síns eða hóta gagnaðila slíku.
Samkvæmt 36. gr. reglnanna skal lögmaður jafnan fyrir lögsókn kynna gagnaðila framkomna kröfu skjólstæðings síns og gefa kost á að ljúka máli með samkomulagi. Þetta gildir þó ekki ef lögsókn má ekki bíða vegna yfirvofandi réttarspjalla eða annars tjóns á hagsmunum skjólstæðings, eða ef atvikum að öðru leyti hagar svo til að rétt sé og nauðsynlegt að hefja lögsókn án tafar.
Miðað við fyrirliggjandi gögn og lýsingu málsatvika í greinargerðum málsaðila telur úrskurðarnefndin að háttsemi kærða í störfum sínum fyrir C við innheimtu bílalánanna hjá kæranda feli ekki í sér brot gegn þessum ákvæðum siðareglnanna, sem tilgreind voru.
Að öllum atvikum málsins, gögnum og upplýsingum virtum telur nefndin kærða ekki hafa gert á hlut kæranda með háttsemi sem stríðir gegn lögum eða siðareglum lögmanna í innheimtustörfum sínum fyrir C.
Ú R S K U R Ð A R O R Ð :
Kærði, B, hrl., hefur ekki, við innheimtu tveggja bílalána fyrir C hjá kæranda, B, gert á hlut hans með háttsemi sem stríðir gegn lögum eða siðareglum lögmanna.
ÚRSKURÐARNEFND LÖGMANNA