Mál 9 2009
Ár 2010, fimmtudaginn 25. mars, er haldinn fundur í úrskurðarnefnd lögmanna að Álftamýri 9, Reykjavík. Mættir eru undirritaðir nefndarmenn.
Fyrir er tekið málið nr. 9/2009:
X
gegn
Y, hrl.
og kveðinn upp svofelldur
Ú R S K U R Ð U R :
Með bréfi X, kæranda, til úrskurðarnefndar lögmanna, mótteknu 16. apríl 2009, kvartaði kærandi yfir vinnubrögðum Y, hrl., kærða, í tengslum við hagsmunagæslu kærða í þágu kæranda í slysamáli. Kærði sendi nefndinni greinargerð þann 28. maí 2009 og henni fylgdu ýmis gögn í slysamálinu. Kærandi gerði nokkrar athugasemdir við greinargerðina í bréfi, dags. 17. ágúst 2009. Kærði hefur ekki tjáð sig frekar um málið.
Málsatvik og málsástæður.
I.
Málsatvik eru í stuttu máli þau að í nóvember 2003 lenti kærandi í slysi og ári síðar gekk kærði frá bótauppgjöri fyrir hans hönd gagnvart Z hf., með fyrirvara. Til stóð að leita frekari bóta vegna afleiðinga slyssins, en til þess þurfti að afla nýs örorkumats og gagna frá Svíþjóð um tekjur kæranda þar. Þá mun kærði hafa ætlað að sækja um gjafsóknarheimild fyrir kæranda vegna fyrirhugaðra málaferla.
II.
Kærandi kveðst hafa árangurslaust reynt að fá upplýsingar frá kærða um gang og stöðu málsins. Í júlí 2008 hafi hann sent kærða beiðni um að fá send þau gögn sem kærði hafði aflað frá Svíþjóð um tekjur kæranda þar, en ekkert svar hafi borist. Telur kærandi að kærði hafi ekkert aðhafst í málinu, þrátt fyrir ítrekaðar óskir sínar um að fá upplýsingar um stöðu málsins. Kveðst kærandi óttast að af þessu geti leitt tjón fyrir sig.
Kærandi kveður vera erfitt að fá aðra lögmenn til að taka málið að sér, meðan ekki sé ljóst hvort og þá hvað hafi verið gert í málinu. Með því að afhenda sér ekki gögnin sé kærði því að valda kæranda verulegum óþægindum og hugsanlega tjóni. Kveðst kærandi telja að þetta hljóti að vera í andstöðu við skyldur kærða sem lögmanns samkvæmt lögmannalögum og siðareglum lögmanna.
Kærandi krefst þess að úrskurðarnefnd lögmanna taki málið til meðferðar og skyldi kærða til að upplýsa um stöðu málsins og að afhenda sér gögn. Þá krefst kærandi þess að úrskurðað verði hvort framferði kærða gagnvart sér feli í sér brot gegn ákvæðum laga um lögmenn og siðareglum lögmanna.
III.
Í greinargerð sinni til nefndarinnar kveðst kærði hafa tekið við bótum fyrir hönd kæranda með fyrirvara á sínum tíma. Hins vegar hafi kærandi ekki viljað draga málið og ekki hafi hann viljað biðja um yfirmat, þótt hann væri óánægður með fjárhæð bótanna. Kærði kveður vandamál sitt hafa falist í árslaunaviðmiði kæranda. Hann hafi verið nýkominn frá Svíþjóð og ekki haft nema takmarkaða tekjureynslu hér á landi.
Kærði telur sig hafa náð viðunandi niðurstöðu og hafi tryggingafélögin fallist á nokkuð hærri launaviðmið en þau hefðu getað gert og geri oft í þessum málum.
Þegar farið var að vinna í því að afla frekari bóta fyrir kæranda hafi þurft að fá upplýsingar um tekjur frá Svíþjóð. Loks þegar upplýsingar bárust þaðan hafi komið í ljós að þar hafi kærandi aðallega verið á atvinnuleysisbótum. Hafi kærandi þó upplýst kærða um að hann hafi unnið fyrir meiri tekjum en fram kæmu á framtölum. Telur kærði það þá hafa verið svarta vinnu.
Kærði kveður það einnig hafa komið í ljós að kærandi var kominn á 75% örorku hjá Tryggingastofnun, meðal annars vegna þeirra áverka sem hann hlaut, en þá kæmi til kasta 4. mgr. 5. gr. skaðabótalaga.
Þá kveður kærði læknisvottorð sem hann aflaði ekki hafa verið nægilega traust að sínu áliti.
Kærði kveðst hafa útskýrt þetta allt saman fyrir kæranda. Hafi kæranda verið sent bréf vegna þessa, þar sem hann var meðal annars beðinn um að greiða kostnað vegna læknisvottorðs Þ, geðlæknis, og vottorð frá heimilislækni, en það hafi ekki fallið í frjóan jarðveg að vera með slíkar kröfur.
Kærði kveður kæranda um þetta leyti hafa leitað til Æ, sem hafi hringt mikið í sig vegna málsins og beðið um gögn, sem send hafi verið til hans. Kveðst kærði ekki muna betur en að Æ ætti að vera kominn með öll þau gögn er fylgdu greinargerð kærða til nefndarinnar.
Með greinargerð kærða fylgdu margvísleg gögn er tengdust hagsmunagæslunni fyrir kæranda í slysamálinu.
IV.
Í athugasemdum kæranda við greinargerð kærða kveðst hann mótmæla fullyrðingum og málavaxtalýsingu sem fram komi í bréf kærða um samskiptin við kæranda. Kærði hafi ítrekað hvað eftir annað að staða málsins væri sú að hann væri að sækja um gjafsóknarheimild vegna fyrirhugaðra málaferla. Hann hafi aldrei gert kæranda grein fyrir því hvernig gengið hafði verið frá uppgjörinu við Z, hvað þá að hann hefði sagt kæranda að hann teldi að niðurstaðan í uppgjörinu væri viðunandi.
Kærandi kveður það vera rétt að hann hafi rætt við Æ, sem ekki hafi viljað taka málið að sér meðan kærandi hefði engin gögn í höndunum. Kveðst kærandi margsinnis hafa óskað eftir því við kærða að gögnin yrðu afhent, en það hafi fyrst verið nú sem hann hafi fengið þau send með bréfi úrskurðarnefndarinnar.
Með bréfi kæranda fylgdi afrit bréfs Æ, hrl., en þar kemur meðal annars fram að hann hafi lofað kæranda að kanna hverja hann teldi vera réttarstöðu kæranda. Kveðst Æ ekki hafa treyst sér til að taka afstöðu án þess að sjá skjöl málsins, en þau hafi verið í vörslum kærða. Hafi hann þá ráðlagt kæranda að hafa samband við kærða og óska eftir gögnunum. Þá kveðst Æ í nokkur skipti hafa haft samband við kærða og ítrekað beiðni kæranda um að fá gögnin send. Hafi kærði lofað í hvert skipti að senda gögnin.
Æ kveður það vera rangt sem fram komi í bréfi kærða að sér hafi verið send þau gögn sem fylgdu bréfi hans til úrskurðarnefndarinnar. Þá hafi sér ekki borist önnur gögn um mál kæranda.
Niðurstaða.
Með erindi kæranda til úrskurðarnefndar lögmanna fylgdi afrit bréfs hans til kærða, dags. 2. júlí 2008, þar sem hann óskaði eftir því að kærði sendi á tilgreint heimilisfang ljósrit af tekjuupplýsingum sem aflað hafði verið frá Svíþjóð. Haft yrði síðan samband við kærða um framhald málsins. Skömmu áður, eða þann 29. maí 2008, hafði kærði ritað bréf til W, þar sem hann staðfesti að hann færi með mál kæranda gegn Z hf. Um endurupptökumál væri að ræða vegna áverka sem kærandi hefði hlotið í umferðarslysi. Hefði kærandi verið óvinnufær vegna þessa undanfarin ár. Kvaðst kærði í niðurlagi bréfsins vonast eftir lyktum málsins næsta haust.
Draga má af þessum bréfaskriftum þá ályktun að kærði hafi enn gætt hagsmuna kæranda í slysamálinu að minnsta kosti fram á mitt ár 2008. Ekki liggur neitt fyrir um það hvenær kærandi leitaði til nýs lögmanns með málið eða hversu oft eða á hvaða tíma sá lögmaður leitað eftir gögnum málsins frá kærða. Æ, hrl., fullyrðir þó í bréfi sínu að hann hafi í nokkur skipti haft samband við kærða og ítrekað beiðni kæranda um að fá gögn málsins afhent, en án árangurs.
Að mati úrskurðarnefndar lögmanna hafði kærandi hagsmuni af því að fá afrit gagna málsins, meðal annars vegna áforma sinna um að leita til annars lögmanns með það. Þótt kærða væri ef til vill ekki kunnugt um áform kæranda í þessa veru, þá telur nefndin að kærða hafi borið að sinna beiðni kæranda um gögn málsins, svo sem hann átti rétt til. Telur nefndin vinnubrögð kærða aðfinnsluverð að þessu leyti.
Ú R S K U R Ð A R O R Ð :
Dráttur kærða, Y, hrl., á að afhenda kæranda, X, gögn í slysamáli hans samkvæmt beiðni hans er aðfinnsluverður.
ÚRSKURÐARNEFND LÖGMANNA