Mál 13 2009

 

Ár 2010, mánudaginn 15. nóvember, er haldinn fundur í úrskurðarnefnd lögmanna að Álftamýri 9, Reykjavík. Mættir eru undirritaðir nefndarmenn.

Fyrir er tekið málið nr. 13/2009:

L

gegn

M, hrl.

og kveðinn upp svofelldur

Ú R S K U R Ð U R :

Með bréfi L, kæranda, til úrskurðarnefndar lögmanna, mótteknu 11. júní 2009, kvartaði kærandi yfir vinnubrögðum M, hrl., kærða, í tengslum við lögfræðiráðgjöf vegna galla í bifreið er kærandi hafði keypt í apríl 2008. Kærði sendi nefndinni greinargerð þann 3. júní 2010. Kærandi hefur ekki tjáð sig frekar um málið.

Málsatvik og málsástæður.

I.

Samkvæmt lýsingu kæranda voru málsatvik þau að í apríl 2008 keypti hann bifreið, sem síðar reyndist vera biluð eða gölluð. Hann kveðst hafa leitað til kærða og óskað aðstoðar gagnvart seljanda bifreiðarinnar. Kærði hafi lesið yfir gögn málsins, meðal annars gögn frá N hf., sem hafi sýnt að bifreiðin hafði verið biluð fyrir kaupin. Hafi kærði upplýst að um leyndan galla hefði verið ræða. Kærandi kveður kærða hafa ráðlagt sér að láta gera við bifreiðina á eigin kostnað en hann skyldi síðan innheimta kostnaðinn þegar reikningar bærust. Kærandi kveður reikning hafa borist 29. október 2008.

Kærandi kveðst, þrátt fyrir ítrekaðar heimsóknir og símhringingar á lögmannsstofu kærða næstu vikur og mánuði, ekki hafa náð sambandi við hann. Þann 9. janúar 2009 kveðst kærandi hafa farið á lögmannsstofuna til þess að sækja gögn málsins. Þá hafi rætt við sig ungur lögmaður, O, sem hafi upplýst að sér hefði verið falið að annast málið. Jafnframt hafi O beðist afsökunar á því að komum og hringingum hefði ekki verið sinnt. Kveðst kærandi hafa verið ósáttur við að nýgræðingur hefði verið fenginn í málið.

Kærandi kveður O síðan hafa unnið í málinu, með engum árangri. Kærandi kveðst hafa fengið reikning í hendur þann 21. apríl 2009, að fjárhæð 177.744 krónur. Á reikninginn væru skráðar heimsóknir sínar á dagsetningum, sem ekki stæðust.

Kærandi kveðst vera mjög ósáttur við þá meðferð sem hann telur mál sitt hafa fengið hjá kærða. Nefnir kærandi þar meðal annars til að ítrekuðum símhringingum sínum og heimsóknum hafi ekki verið sinnt. Kærandi kveður kostnað af viðgerðum bifreiðarinnar nema um 200 þúsund krónum. Hann kveðst vera ósáttur við hvers vegna ekki hafi verið haft samband við forsvarsmann bílasölunnar, sem hafði milligöngu um kaupin, svo og N hf., sem hafi tekið myndir af viðgerðum á bifreiðinni.

Kærandi kveðst hafa rætt við forsvarsmann á lögmannsstofu kærða vegna dráttar á málinu og daginn eftir hefði hann fengið dónalegt símtal frá kærða. Skömmu síðar hefði sér borist reikningur kærða.

Með erindi kæranda fylgdu reikningur kærða ásamt tímaskýrslu, afrit kaupsamnings, útprentun N á þjónustusögu fyrir bifreiðina fyrir kaupin, afrit 5 reikninga, útgefinna á tímabilinu 8. október 2008 til 10. febrúar 2009, samtals að fjárhæð 277.139 krónur, afrit bréfs kærða til seljanda bifreiðarinnar, dags. 28. janúar 2009, afrit svarbréfs seljandans, dags. 3. mars 2009, afrit bréfs kærða til bifreiðasölunnar, dags. 25. mars 2009 og afrit svarbréfs lögmanns bifreiðasölunnar, dags. 1. apríl 2009.

II.

Í greinargerð sinni til úrskurðarnefndar kveður kærði það vera rangt hjá kæranda, að ekkert hefði verið gert í hans málum. Strax á fyrsta fundi með kæranda hafi orðið sammæli um þau skref sem tekin yrðu. Þá þegar hafi hann vitað hvernig ferlið yrði og að vegna lágrar kröfufjárhæðar og að teknu tilliti til laga um lausafjárkaup, væri óvíst hvort og þá hver árangurinn yrði. Kveður kærði bæði hafa verið rætt um möguleika á riftun sem og möguleika á skaðabótum.

Kærði kveður það hafa orðið ljóst, eftir yfirlestur gagna frá kæranda sem borist hefðu í lok árs 2008, að málið væri ekki eins einfalt og kærandi hefði látið í veðri vaka þegar hann hefði fyrst rætt það. Hafi kæranda verið gerð grein fyrir þeirri stöðu mála á fundi hans með starfsmanni lögmannsstofunnar í byrjun janúar 2009. Engu síður hafi kærandi viljað láta reyna á það reyna.

Kærði kveður seljanda bifreiðarinnar hafa verið sent ítarlegt bréf vegna riftunar kaupsamningsins, sem og greiðslu skaðabóta. Einnig hefði bifreiðasölunni verið sent ítarlegt bréf vegna skaðabóta. Báðum bréfunum hefði verið svarað, með höfnun á kröfum. Kærði kveður seljandann þó hafa verið tilbúinn til að taka þátt í viðgerðarkostnaði að hluta til, en kærandi hafi hunsað það boð.

Kærði kveður málið hafa verið yfirfarið að nýju með kæranda, í kjölfar bréfaskriftanna. Kæranda hefði verið gerð grein fyrir því að næsta skref væri að fara með málið fyrir kærunefnd í lausafjár- og þjónustukaupum eða að stefna málinu fyrir héraðsdóm, sem krefist frekari vinnu og málskostnaðar. Á þessum tímapunkti hafi kærandi verið orðinn mjög óhress með framgang málsins, þar sem ekki hefði náðst sá óraunhæfi árangur sem hann óskaði eftir. Í kjölfarið hefði kærandi óskað eftir að fá öll gögn sín í hendur þar sem hann væri kominn með annan lögmann til að sinna málinu. Hafi kærandi fengið öll gögnin afhent.

Kærði kveður reikning sinn vegna vinnu að máli kæranda vera mjög hóflegan miðað við þá vinnu, sem innt hafi verið af hendi. Burtséð frá bréfum, sem send hafi verið og samskiptum vegna þeirra, hafi símhringingar kæranda verið ótalmargar auk þess sem hann hafi komið margoft til fundar á skrifstofuna, án þess að gera boð á undan sér. Ekki hafi verið tekið tillit til þeirra samskipta við reikningsgerðina nema að litlu leyti.

Kærði telur óhjákvæmilegt að vísa á bug ýmsum fullyrðingum kæranda. Vísaði hann meðal annars til fullyrðingar kæranda um að ekki hefði verið haft samband við N og einnig að skráningar í tímaskýrslu væru rangar. Kærði tekur fram að starfsmaður lögmannsstofunnar, sem vann að málinu, sé mjög reynslumikill og hefði mikla þekkingu á kaupum og sölu bifreiða. Rangt sé að kærandi hafi mótmælt því að starfsmaðurinn ynni að málinu.

Niðurstaða.

Samkvæmt framlögðum gögnum lét kærandi gera við bifreið sína, sem er af árgerðinni 1999 og ekin 107 þúsund kílómetra, í október og desember 2008. Reikningar fyrir viðgerð eru dagsettir 8. og 29. október og 30. desember 2008. Kærði kveðst hafa fengið gögn frá kæranda í árslok 2008, en fundur starfsmanns á lögmannsstofu kærða með kæranda var haldinn 8. eða 9. janúar 2009, þar sem farið var yfir málið. Virðist kærandi hafa fallið frá áformum sínum um að afturkalla málið frá kærða á þessum fundi eða um svipað leyti.

Ítarlegt riftunarbréf kærða til seljanda bifreiðarinnar var ritað undir lok janúar og seljandinn staðfesti í svarbréfi sínu að það hefði borist honum 3. febrúar 2009. Í svarbréfinu, sem dagsett er 3. mars 2009, var lýst afstöðu seljandans og samskiptum hans og kæranda, þar á meðal að seljandinn vikist ekki undan því að taka þátt í greiðslu hluta þess kostnaðar, sem kærandi hafði orðið fyrir.

Kærði ritaði skömmu síðar kröfubréf til bílasölunnar er hafði milligöngu um kaupin og krafðist skaðabóta úr hendi fyrirtækisins vegna vanrækslu við að gæta hagsmuna kæranda við kaupin. Þeirri kröfu var hafnað í bréfi þann 1. apríl 2009.

Samkvæmt tímaskrá er fylgdi reikningi kærða til kæranda átti starfsmaður lögmannsstofu kærða, er annaðist þetta mál, og kærandi í nokkrum samskiptum í febrúar og mars 2009, meðan á bréfaskriftum stóð. Þrátt fyrir nokkrar athugasemdir kæranda við tímaskráninguna í einstaka tilfelli, virðist mega styðjast við tímaskýrsluna í megindráttum við mat á umfangi verkefnisins og hvernig unnið var að því.

Það er mat úrskurðarnefndar, að virtum öllum gögnum málsins, að málsmeðferðin gefi ekki tilefni til sérstakra athugasemda af hálfu nefndarinnar. Þá telur nefndin mega styðjast við fyrirliggjandi tímaskýrslu um umfang verksins og hvernig að því var staðið af hálfu kærða og starfsmanns hans. Telur nefndin því kærða, í störfum sínum fyrir kæranda, ekki hafa gert á hlut kæranda með háttsemi sem stríðir gegn lögum eða siðareglum lögmanna.

Ú R S K U R Ð A R O R Ð :

Kærði, M, hrl., hefur í störfum sínum fyrir kæranda, L, við könnun á möguleikum kæranda til riftunar kaupsamnings og/eða skaðabóta úr hendi seljanda eða bílasölu, ekki gert á hlut kæranda með háttsemi sem stríðir gegn lögum eða siðareglum lögmanna.

ÚRSKURÐARNEFND LÖGMANNA