Mál 6 2009

 

Ár 2009, fimmtudaginn 31. desember, var haldinn fundur í úrskurðarnefnd lögmanna að Álftamýri 9, Reykjavík. Mættir voru undirritaðir nefndarmenn.

Fyrir var tekið mál nr. 6/2009:

H, hrl.

gegn

E, hrl.

og kveðinn upp svohljóðandi

Ú R S K U R Ð U R :

Í erindi H, hrl., kæranda, mótteknu á skrifstofu Lögmannafélags Íslands þann 19. mars 2009, er kvartað yfir vinnubrögðum E, hrl., kærða, við öflun viðskiptavina í slysamálum. B, hrl., sendi úrskurðarnefndinni greinargerð af hálfu kærða þann 15. maí 2009. Málsaðilar tjáðu sig frekar um málið í bréfum til nefndarinnar þann 25. júní 2009 (kærandi) og þann 26. ágúst 2009 (kærði).

Málsatvik og málsástæður.

I.

Málsatvik eru í stuttu máli þau að þann 13. september 200x veitti sjómaður, A, sem slasast hafði um borð í fiskiskipi, kæranda og syni hans, I, hdl., en þeir reka saman lögmannsstofu, umboð til þess að gæta hagsmuna sinna, þar á meðal að innheimta slysabætur sem sjómanninum bar að lögum og samkvæmt kjarasamningsbundnum rétti. Á næstu mánuðum var af hálfu lögmannsstofunnar hafist handa við að afla gagna vegna þessa slysamáls. Sonur kæranda hafði umsjón með málinu.

Í lok janúar 2009 kom sjómaðurinn að máli við kæranda og kvaðst vilja fara með bótamál sitt til lögmanns, sem væri sérfræðingur í skaðabótamálum og reiknaði hærri bætur en aðrir. Með yfirlýsingu, dags. 12. febrúar 2009, afturkallað svo sjómaðurinn formlega umboð sitt til lögmannsstofunnar, þar sem hann hefði falið kærða að annast innheimtu bótanna fyrir sig. Varð það tilefni þess að kærandi sendi erindi það til úrskurðarnefndar lögmanna sem hér er til úrlausnar.

II.

Kærandi kveður erindi sitt til nefndarinnar vera vegna sjöunda tilviksins þar sem kærði hefði náð til sín viðskiptavinum frá kæranda. Vinnubrögðin væru alltaf þau sömu hjá kærða. Haft væri samband við viðkomandi viðskiptavin, því lýst yfir að kærði, gagnstætt kæranda, væri sérfræðingur í skaðabótamálum og að hann reiknaði hærri bætur. Hann ætti greiðan aðgang að tryggingafélögunum o.s.frv. Kærandi telur jafnframt vera ljóst af því hvernig viðmót viðskiptavina breytist skyndilega, úr því að vera jákvætt og yfir í það að vera kuldalegt, jafnvel fjandsamlegt, að sá sem taka skal við málinu sé ekki einungis búinn að mæra eigið ágæti í vinnu að slysamálum, heldur hafi um leið verið búið að gera lítið úr kunnáttu og vinnubrögðum þeirra feðganna. Hér sé um hreinan atvinnuróg að ræða.

Kærandi telur vera greinilegt í mörgum tilvikum að búið sé að hjálpa viðskiptavinum að undirbúa brottförina, enda hafi þeir oftast ekki viljað gefa neinar vitrænar skýringar á brottförinni, jafnvel þótt sumir hafi þakkað fyrir gott samstarf en samt viljað afturkalla skyndilega umboðið til lögmannsstofunnar. Í langfæstum tilvikum vilji viðskiptamenn segja til um það til hvaða lögmanns þeir séu að fara. Slíkar upplýsingar hafi þurft að fá eftir öðrum leiðum. Greinilegt sé að reynt sé að fela slóðina af fremsta megni.

Kærandi krefst þess að úrskurðarnefnd lögmanna beiti kærða hörðustu viðurlögum sem hún hafi yfir að ráða. Sé í því sambandi lögð rík áhersla á að ferill kærða í þessum efnum sé langur og að hann hafi staðið í á annan tug ára. Kærandi kveður engin teikn vera á lofti um að kærði muni láta af þessari óheiðarlegu iðju sinni í náinni framtíð og breyti þannig veiðieðli sínu. Kærandi kveðst áætla að tekjutap lögmannsstofu sinnar sé þegar orðið 4-6 milljónir króna.

Kærandi telur að áminning eða aðfinnslur af hálfu nefndarinnar muni engin áhrif hafa á að þessi ólíðandi vinnubrögð kærða hætti. Hann telur að það dugi engan veginn að slegið sé á puttana á hinum margbrotlega þegar litið sé til þess að hinn brotlegi haldi eftir tekjum af undanstungunni, sem í slysamálum geti numið allt að einni milljón króna vegna einstaks skaðabótamáls. Telur kærandi það enga furðu að þessi vinnubrögð kærða haldi áfram, þar til hann verði beittur þeim hörðustu viðurlögum sem nefndin hafi yfir að ráða, sbr. 14. gr. lögmannalaga nr. 77/1998.

III.

Í greinargerð sinni til úrskurðarnefndar krefst kærði þess að nefndin úrskurði að hann hafi í störfum sínum ekki gert á hlut kæranda með háttsemi sem stríðir gegn lögum eða siðareglum lögmanna. Þá krefst kærði málskostnaðar úr hendi kæranda.

Kærði mótmælir harðlega lýsingu kæranda á fyrstu afskiptum sínum af málinu sem hreinum ósannindum. Tilgangurinn sé augsýnilega sá að gera störf sín tortryggileg og láta líta svo út sem hann hafi hafið störf fyrir sjómanninn án þess að búið væri að afturkalla umboðið til kæranda, líkt og lög gera ráð fyrir. Það, að kærandi skuli hagræða sannleikanum líkt og hann geri og víli ekki fyrir sér að fara kolrangt með staðreyndir, lýsi best hversu langt kærandi seilist til að koma sök á kærða.

Kærði kveður sjómanninn hafa, með yfirlýsingu þann 3. febrúar 2009, reynt að afturkalla formlega umboð sitt til kæranda. Eins ótrúlega og það virðist hljóma hafi kærandi neitað að taka við yfirlýsingunni af þeirri ástæðu að sjómaðurinn hafi ekki veitt fullnægjandi skýringar á afturköllun umboðsins. Kærði telur þetta vera illskiljanlegt framferði af hálfu kæranda, enda hafi sjómaðurinn ekki skuldað honum neinar skýringar á því hvers vegna hann hafi viljað afturkalla umboðið. Kærði kveður kæranda hafa sett það sem skilyrði fyrir samþykki sínu fyrir afturköllun umboðsins að fram kæmi í yfirlýsingunni að ástæða afturköllunarinnar væri sú að sjómaðurinn hefði falið kærða að fara með mál sitt. Hafi yfirlýsing sú, sem lögð hafi verið fram í málinu, verið útbúin á lögmannsstofu kæranda.

Kærði bendir á að í 5. mgr. 21. gr. lögmannalaga nr. 77/1998 sé lögfest sú regla að umbjóðanda lögmanns sé ætíð heimilt að afturkalla umboð sitt sem hann hafi áður veitt lögmanni. Sömu reglu sé að finna í 28. gr. siðareglna lögmanna, en þar komi fram að sé lögmanni falið verkefni, sem annar lögmaður hafi áður sinnt, skuli hann ekki hefja vinnu við það fyrr en hann hafi fullvissað sig um að hagsmunagæslu fyrri lögmanns sé lokið eða verði lokið án tafar. Kærði kveður þessa reglu fela í sér að umbjóðendur hafi það alfarið í hendi sér hvort sá lögmaður, sem þeir upphaflega veittu umboð til að fara með mál, reki það til enda eða hvort nýr lögmaður sé fenginn til starfans. Eina skilyrðið, sem sett sé, varði innbyrðis samskipti lögmanna. Þannig megi nýr lögmaður ekki hefja störf fyrr en hann hafi fullvissað sig um að hagsmunagæslu fyrri lögmanns sé lokið. Öruggasta leiðin í þeim efnum sé að styðjast við afturköllun umboðs.

Kærði kveðst, í samræmi við ófrávíkjanlega verklagsreglu, sem ávallt sé fylgt, með engri undantekningu, hafa sett það sem skilyrði að áður en hann tæki slysamál sjómannsins að sér, þyrfti að liggja fyrir afturköllun á umboði sem hann veitti áður kæranda. Eftir að tryggt var að störfum þeirra feðga var lokið fyrir sjómanninn hafi kærði samþykkt að taka málið að sér. Kveður kærði vinnubrögð sín uppfylla í hvívetna skilyrði jafnt laga sem reglna sem gilda um störf lögmanna. Séu því engin efni til að taka kröfur kæranda til greina.

Kærði rökstyður kröfu sína um málskostnað úr hendi kæranda svo að nærri láti að við ákvörðun um málskostnað styðjist úrskurðarnefndin við þau almennu sjónarmið sem fram komi í ákvæðum laga um meðferð einkamála og sem miða að því að gera málsaðila skaðlausan af því að þurfa að standa að rekstri máls. Nánar tiltekið sé krafa kærða um málskostnað reist á þeirri reglu sem fram komi í 131. gr. laga nr. 91/1991 og sem markast af svonefndum refsisjónarmiðum er snúa einkum að þeim tilvikum þar sem mál hafi verið höfðað að ástæðulausu.

IV.

Í bréfi kæranda til nefndarinnar, dags. 25. júní 2009, eru gerðar nokkrar athugasemdir við greinargerð kærða, þar á meðal um það að ekki hafi verið tryggt að lögmannsstofa kæranda fengi greiddan kostnað vegna þeirrar vinnu sem innt hafði verið af hendi. Ekki þykir ástæða til að rekja að öðru leyti athugasemdir kæranda hér. Þá lýsti kærði því yfir í síðara bréfi sínu til nefndarinnar að hann teldi ekki þörf á að gera frekari athugasemdir í málinu.

Niðurstaða.

Í erindi kæranda til nefndarinnar er ekki vísað til einstakra ákvæða siðareglna lögmanna eða ákvæða lögmannalaga nr. 77/1998 vegna hinna meintu brota kærða, en kærandi vísar aftur á móti til 14. gr. lögmannalaga í tengslum við valdheimildir nefndarinnar. Í tveimur sambærilegum málum kæranda gegn kærða fyrir nefndinni (mál nr. 30/2006 og 18/2008) taldi kærandi hins vegar kærða hafa brotið gegn 1. mgr. 25. gr., 1. mgr. 26. gr., 1. mgr. 28. gr. og 2. mgr. 33. gr. siðareglna lögmanna.

Samkvæmt gögnum málsins afturkallaði A, sem hafði veitt lögmannsstofu kæranda umboð til að annast slysamál fyrir sig, það umboð og fól kærða að reka málið fyrir sig. A var að lögum heimil afturköllun umboðsins samkvæmt 5. mgr. 21. gr. lögmannalaga, nr. 77/1998. Að mati úrskurðarnefndar liggur ekkert fyrir í málinu sem bendir til þess að kærði hafi haft frumkvæði að afturköllun umboðsins eða að hann hafi að öðru leyti haft afskipti af þeirri ákvörðun A umfram þá eðlilegu ábendingu að A þyrfti að afturkalla umboð sitt til kæranda svo annar lögmaður gæti tekið við málinu.

Nefndin telur ekkert vera fram komið í málinu sem bendir til þess að kærði hafi í störfum sínum fyrir A og/eða í samskiptum sínum við kæranda, gert á hlut kæranda með háttsemi sem stríðir gegn lögum og siðareglum lögmanna. Þannig er ekkert í gögnum málsins sem bendir til þess að kærði hafi ekki sýnt kæranda fulla virðingu í ræðu, riti og framkomu, sbr. 1. mgr. 25. gr. siðareglna lögmanna. Ekki verður heldur séð að 1. mgr. 26. gr. eigi hér við, en í því ákvæði er spornað við þeirri háttsemi að lögmaður snúi sér beint til málsaðila, sem hefur falið öðrum lögmanni að gæta hagsmuna sinna. Að því er varðar 1. mgr. 28. gr. siðareglnanna tekur nefndin fram að ákvæðið leggur ekki þá skyldu á herðar lögmanni að hann tryggi að fyrri lögmaður sé búinn að fá greiðslu eða tryggingu fyrir greiðslu áður en viðtakandi lögmaður hefst handa. Viðtakandi lögmaður þarf einungis að gæta þess að afskiptum fyrri lögmanns sé lokið eða verði lokið án tafar. Loks telur nefndin ekkert liggja fyrir í málinu um að kærði hafi gerst brotlegur við 2. mgr. 33. gr. siðareglnanna.

Að öllu því virtu, sem fram er komið í málinu, telur úrskurðarnefnd lögmanna að kærði hafi í störfum sínum við slysamál og í samskiptum sínum við kæranda ekki gert á hlut hans með háttsemi sem stríðir gegn lögum eða siðareglum lögmanna.

Rétt þykir að málskostnaður falli niður.

Ú R S K U R Ð A R O R Ð :

Kærði, E, hrl., hefur í samskiptum sínum við kæranda, H, hdl., við vinnu að slysamáli fyrir A, ekki gert á hlut kæranda með háttsemi sem stríðir gegn lögum eða siðareglum lögmanna.

Málskostnaður fellur niður.

ÚRSKURÐARNEFND LÖGMANNA