Mál 11 2010

Ár 2011, föstudaginn 23. júní, var haldinn fundur í úrskurðarnefnd lögmanna í húsnæði Lögmannafélags Íslands að Álftamýri 9, Reykjavík.

Fyrir var tekið málið nr. 11/2010:

K

gegn

F, hrl.

og kveðinn upp svofelldur

Ú R S K U R Ð U R :

Í erindi K, kæranda, til úrskurðarnefndar lögmanna þann 4. ágúst 2010, var kvartað yfir reikningsgerð F, hrl., kærðu, vegna  reksturs ýmissa mála sem vörðuðu dánarbú föður kæranda fyrir hana. Kærða sendi nefndinni greinargerð um málið þann 7. október 2010 að fengnum fresti og var kæranda gefinn kostur á að gera athugasemdir við hana með bréfi, dags. 12. janúar 2011. Athugasemdir við greinargerð kærðu hafa ekki borist.

Málsatvik og málsástæður.

I.

Málsatvik eru þau, eftir því sem fram kemur í kvörtun kæranda, greinargerð kærðu og gögnum málsins, að faðir kæranda, L, lést í janúar 2004. Leitaði kærandi til lögmannsstofu kærðu, þar sem fulltrúi kærðu aðstoðaði kæranda við að fá dánarbúið afhent. Fulltrúinn lét af störfum í ágúst 2004, en mál kæranda voru áfram unnin á stofunni. Á árunum 2004 og allt fram til apríl 2007 var unnið að skiptum dánarbúsins og málum sem því tengdust, en ýmislegt kom fram sem þótti kalla á frekari skoðun m.t.t. veiknda hins látna og stöðu. Var endurskoðunarstofunni PWC falið að rannsaka fjárreiður hins látna auk þess sem efnt var til rannsóknar á rithönd á bankaskjölum. Þá var aflað gagna um heilsufar hins látna og var m.a. dómsmál gegn landlækni rekið um afhendingu gagna, en því lauk með dómssátt í árslok 2006. Meðferð fjármuna hins látna var kærð til lögreglu. Í ársbyrjun 2007 hófst undirbúningur að höfðun skaðabótamáls. Sótti kærða um gjafsókn í því máli og var sú umsókn samþykkt. Lágu drög að stefnu fyrir í apríl 2007.

Kærandi segir að allt frá því að kærða tók sjálf að reka málið, eftir að fulltrúi hennar lét af störfum í ágúst 2004 hafi sér gengið illa að fá fréttir af rekstri málsins og að málið hafi ekki verið rekið með eðlilegum hraða af kærðu. Hafi óánægja sín með störf lögmannsins vaxið, en tvö atvik sem varða umsókn um gjafsóknarleyfi og skattskil fyrir dánarbúið hafi að lokum valdið því að hún taldi óhjákvæmilegt að taka málið úr höndum kærðu og fela það öðrum. Þann 18. apríl 2007 sendi kærandi kærðu tölvupóst og afturkallaði umboð til hennar. Kærða svaraði tveimur dögum síðar og skrifaði kærðu þá m.a. „Það er fallinn kostnaður á málið nú þegar, bæði sem ég hef greitt sjálf, s.s. rithandarrannsóknar, og vegna vinnu við undirbúning málshöfðunar svo og við úrskurðarmálið gegn landlækni"

Þann 23. apríl 2007 áttu þær kærða og kærandi fund ásamt eiginmanni kæranda, þar sem gögn málanna voru afhent kæranda. Kæranda segist svo frá að á þeim fundi hafi kærða ítrekað kröfu sína um „einhvern óskilgreindan kostnað sem eftir stæði", en því hafi kærandi hafnað. Hafi kærða þá borið fram þá sáttatillögu að hún myndi sjá um að senda dómsmálaráðuneytinu  þennan reikning þannig að kærandi þyrfti ekki að hafa frekari áhyggjur af honum. Hafi kærandi fallist á þetta fyrirkomulag

Kærða segir svo frá þessum fundi að á meðal gagna málsins sem afhent voru hafi verið gjafsóknarleyfi sem þá hafði þegar verið aflað. Hafi kærða því gert ráð fyrir að nýr lögmaður kæranda myndi gera kröfu um málskostnað vegna vinnu kærðu á grundvelli leyfisins. Hafi hún rætt þetta sérstaklega við kæranda.

Kærða hafi á hinn bóginn ekki vitað hvert kærandi hygðist flytja málið og því ekki getað fylgt þessu sérstaklega eftir við viðkomandi lögmann. Hún hafi ekki talið ástæðu til að hafa áhyggjur af þessu þar sem reynsla hennar sé sú að í tilvikum sem þessum geri sá lögmaður sem tekur við gjafsóknarmáli jafnan kröfu um málskostnað fyrri lögmanns. Þá hafi þess vart verið að vænta að lokaniðurstaða fengist í skaðabótamálið fyrr en árið 2009.

Kærða kveðst svo hafa rekist á það haustið 2009 að búið var að dæma í umræddu skaðabótamáli og hafi lögmanni kæranda verið dæmdar kr. 900.000 í málskostnað. Þá hafi komið í ljós að í eldri frávísunarúrskurði héraðsdóms frá 2008 vegna málsins var gjafsóknarkostnaður ákveðinn kr. 1.200.000. Í hvorugri úrlausninni var tekið tillit til málskostnaðar kærðu. Kærða hafi því haft samband við þann lögmann sem tók við málinu, en þau samskipti hafi ekki leitt til lausnar málsins. Hafi kærða því gert kæranda reikning vegna vinnu sinnar að málinu í desember 2009.

Ágreiningur varð um greiðsluskyldu kæranda vegna þessa reiknings, en hún greiddi reikninginn með fyrirvara um niðurstöðu úrskurðarnefndar lögmanna um réttmæti reikningsins 9. júní 2010. Barst kæra hennar til úrskurðarnefndarinnar 4. ágúst 2010 sem fyrr greinir.

II.

Í greinargerð kæranda til úrskurðarnefndar kemur fram að kvörtunin er til komin vegna umrædds reiknings kærðu, svo og vegna vinnubragða kærðu við meðferð mála sem tengdust dánarbúi föður kæranda. Krefst kærandi þess að kærðu verði gert að endurgreiða sér umræddan reikning, þ.e. kr. 260.627. Þá er þess krafist að kærða sæti áminningu fyrir léleg vinnubrögð og vanrækslu í starfi. Eru í greinargerðinni raktar ýmsar aðfinnslur kæranda vegna reksturs málanna. Að því er varðar hinn umdeilda reikning gerir kærandi fimm tölusettar athugasemdir við vinnuskýrslu kærðu sem reikningurinn byggir á.

  • 1. Kærða hafi tafið málið með því að láta undir höfuð leggjast að sækja um gjafsókn, en talið kæranda trú um að umsóknin hefði þegar verið send.
  • 2. Innheimt sé fyrir kæru til ríkissaksóknara vegna niðurfellingar sakamáls hjá lögreglu. Kærða hafi sjálf lagt til að sleppa þessari kæru og reka málið sem einkamál. Hafi því ekki farið vinna í kæruna.
  • 3. Innheimt sé fyrir að skrifa stefnu í einkamáli sem kærða skilaði ekki af sér fyrr en nokkrum dögum eftir að kærandi hafði tekið málið úr hennar höndum. Þessa stefnu hefði kærða lofað að klára fyrst í sept. 2006 og svo aftur í febrúar 2007. Stefnan sé að nokkru leyti byggð á texta frá kæranda sjálfri. Ekki sé forsvaranlegt að innheimta fyrir að vinna stefnu í flýti eftir að málið var tekið úr höndum kærðu.
  • 4. Innheimt sé vegna samskipta við Tollstjóraembættið vegna misskilnings á milli kærðu og embættisins varðandi skil á skattskýrslum fyrir dánarbúið. Svo virðist sem kærða hafi skilað skattskýrslum fyrir árið 2005 á tilsettum tíma en Tollstjóraembættið ekki skráð það. Óeðlilegt sé að kærða innheimti fyrir vinnu við að leysa úr þessum misskilningi.
  • 5. Kærandi fullyrðir, auk þessara athugasemda við tímaskýrsluna, að kærða hafi fengið reikning PWC að fjárhæð 205.332 vegna bókhaldsrannsóknar endurgreiddan tvisvar sinnum, þ.e. einu sinni frá kæranda og einu sinni frá dómsmálaráðuneytinu 16. júlí 2007.

III.

Kærða svarar í greinargerð sinni þeim aðfinnslum sem kærandi gerir við störf hennar að málefnum dánarbúsins. Að því er varðar hinn umdeilda reikning leggur hún áherslu á að reikningurinn hafi fyrst verið gefinn út eftir að hún hafði freistað þess að ná samstarfi kæranda í gegn um þann lögmann sem tók við máli hennar um greiðslu eftirstöðva kostnaðar vegna vinnu kærðu að máli kæranda. Gjafsóknarleyfi hafi fylgt með þeim gögnum sem kærandi tók við í apríl 2007 og hafi kærða mátt gera ráð fyrir að vinna hennar yrði greidd með öðrum kostnaði við málssóknina. Kærða hafi ekki vitað hvert kærandi fór með málið og því ekki getað fylgt því eftir við viðkomandi lögmann. Eftir að kærða varð þess áskynja að búið væri að dæma í skaðabótamálinu í héraðsdómi, án þess að krafa hefði verið gerð um þennan kostnað, hafi hún rætt við þann lögmann sem tók við málinu, m.a. um að það yrði kannað hvort unnt væri að leiðrétta kröfugerðina að þessu leyti. Svar lögmannsins hafi hins vegar ekki leitt til frágangs á umræddum kostnaði og hafi kærða því gefið út og innheimt reikninginn.

Kærða bendir á að það hafi falið í sér sérstaka ívilnun umfram skyldu að fallast á málið yrði fært til annars lögmanns án þess að áfallinn kostnaður væri gerður upp. Þetta hafi hún gert m.a. vegna þess að hún taldi engan ágreining vera á milli sín og kæranda um að kærandi ætti eftir að greiða nokkurn kostnað en að það yrði væntanlega greitt af gjafsóknarkostnaði.

Hún hafi veitt kæranda langan greiðslufrest, en allar tímaskriftir vegna málanna hafi verið í lágmarki eins og sjáist af samanburði á þeim við tildæmdan gjafsóknarkostnað í héraðsdómi vegna hluta þessara mála, en í úrlausnum héraðsdóms sé vísað til gagna sem aflað var af kærðu.

Þá leggur kærða áherslu á að auðvelt hefði verið að koma í veg fyrir þetta ágreiningsmál og tryggja að kærandi bæri engan kostnað af rekstri skaðabótamálsins. Þótt það hafi misfarist í upphafi að gera kröfu vegna þeirrar vinnu sem hér um ræðir hefði mátt bæta henni við síðar, t.d. við flutning málsins í Hæstarétti haustið 2009, eftir að kærða benti lögmanni kæranda á það. Það sé alfarið á ábyrgð kæranda að hún hafi þurft sjálf að bera hluta af sínum kostnaði við málið, en þessi kostnaður hafi legið fyrir þegar málið var flutt frá kærðu, hann hafi ítrekað verið ræddur og áminnt um hann í tölvupóstsendingu. Hafi kærandi ekki getað vænst þess að kærða sinnti lögmannsstörfum fyrir hana án þóknunar.

Að því er varðar einstaka liði í athugasemdum kæranda við tímaskráningar og hinn umdeilda reikning gerir kærða svofelldar athugasemdir.

  • 1. Málsókn kæranda hafi ekki tafist vegna seinkaðrar meðferðar á gjafsóknarbeiðni. Kærandi sjálf hafi þurft að afla gagna, bæði fyrir gjafsóknarnefnd og eftir að niðurstaða hennar lá fyrir.
  • 2. Kærða hafi útbúið kæru til ríkissaksóknara. Það sé á hinn bóginn rétt að hún hafi sagt kæranda að það væri ólíklegt að slík kæra skilaði árangri og ráðlagt henni að fara í einkamál.
  • 3. Kærandi hafi vissulega, að eigin ósk, útbúið greinargerð um líf og ástand föður síns til að nýta við ritun stefnunnar. Það hafi tekið hana nokkurn tíma að gera þá greinargerð en hún hafi borist kærðu 14. febrúar 2007. Þá þegar hafði kærða lagt fram umfangsmikla vinnu við stefnuna, enda þurfti m.a. að fara í gegn um öll fjárhagsskjöl varðandi meintan fjárdrátt stefndu í málinu. Drög að stefnu lágu fyrir í aprílbyrjun 2007 en þá ákvað kærandi að taka málið úr höndum kærðu. Stefnan hafi ekki verið unnin í flýti. Vinnsla hennar hafi þvert á móti tekið alllangan tíma eins og skýrist af umfangi málsins.
  • 4. Óverulegar tímaskriftir vegna eðlilegrar hagsmunagæslu fyrir kæranda gagnvart tollstjóra, eigi rætur í mistökum skattstjóra. Rekur kærandi þessi samskipti og vísar til gagna málsins.
  • 5. Rangt sé að kærða hafi fengið reikning frá PWC endurgreiddan tvisvar. Hið rétta sé að kærandi hafi sjálf lagt út fyrir þessum reikningi með greiðslu til kærðu í apríl 2005, þ.e. þó nokkru eftir eindaga reikningsins og hafi kærða greidd dráttarvexti vegna þessa án þess að innheimta þá hjá kæranda. Þegar kærða sótti um og fékk greiddan útlagðan kostnað í málinu frá dómsmálaráðuneytinu í júlí 2007, hafi það verið tilkynnt kæranda fyrirfram. Hafi þeirri fjárhæð sem ráðuneytið greiddi verið ráðstafað inn á málskostnað í málinu, í þágu kæranda og þannig gengið til hluta af áföllnum kostnaði. Hafi kærða haft fulla heimild til að ráðstafa endurgreiðslunni með þessum hætti, enda beri umbjóðandi hverju sinni ábyrgð á greiðslu alls kostnaðar gagnvart lögmanni.

Kærða mótmælir kröfum kæranda og er litið svo á að hún krefjist þess að þeim verði hafnað.

Niðurstaða.

Sá sem telur lögmann hafa í störfum sínum gert á sinn hlut með háttsemi sem stríðir gegn lögum eða siðareglum lögmanna getur sent kvörtun til úrskurðarnefndar lögmanna, sbr. 1. mgr. 27. gr. lögmannalaga, nr. 77/1998. Ber nefndinni að vísa kvörtun frá sér ef lengri tími en eitt ár er liðið frá því að kostur var á að koma henni á framfæri.  Í máli þessu liggur fyrir að kærandi afturkallaði umboð kærðu 18. apríl 2007 vegna óánægju með störf hennar. Verður ekki miðað við annað og síðara tímamark varðandi upphaf þess frests sem kærandi hafði til að knýja fram skoðun nefndarinnar á vinnubrögðum kærðu. Var sá frestur því löngu liðin þegar kvörtun barst nefndinni 4. ágúst 2010. Er kröfu kæranda um að kærða sæti áminningu vegna vinnubragða sinna við málarekstur hennar vísað frá nefndinni.

Ef ágreiningur lögmanns og umbjóðanda hans varðar rétt til endurgjalds fyrir störf lögmannsins eða fjárhæð þess, getur annar þeirra eða þeir báðir lagt málið fyrir úrskurðarnefnd lögmanna, sbr. 1. mgr. 26. gr. laganna. Sama skylda hvílir á nefndinni til að vísa frá sér slíku ágreiningsmáli um endurgjald ef lengri tími en eitt ár er liðinn frá því að kostur var á að koma því á framfæri. Eins og hér háttar til verður fresturinn til að bera ágreining um endurgjald ekki miðaður við fyrra tímamark en þegar kærða gaf út reikning sinn í desember 2009. Er kvörtun kæranda að þessu leyti því nægilega snemma fram komin og verður í úrskurði þessum fjallað um rétt kærðu til endurgjalds, fjárhæð reikningsins og athugasemdir kæranda sem lúta að útgáfu hans.

Verður nú vikið að tölusettum athugasemdum kæranda við tímaskýrslu kærðu í sömu röð og þær eru settar fram og raktar hér að framan

  • 1. Ekki verður séð að þessi athugasemd varði tímaskráningu eða umfang verksins
  • 2. Af gögnum málsins er ljóst að upphaflega var reynt að fella meintan fjárdrátt í farveg lögreglurannsóknar og hefur m.a. verið rætt um að kæra niðurfellingu málsins hjá lögreglu til ríkissaksóknara. Aðeins er skráð ein vinnustund á þá kæru, en aðilum ber saman um að hún hafi aldrei verið send. Í ljósi þess hve umrædd vinna er lítil, verður greiðsluskylda kæranda ekki felld niður þótt ákveðið hafi verið að fara aðra leið með málið og sækja það sem skaðabótamál.
  • 3. Vinna við stefnugerð virðist hafa hafist í febrúarbyrjun 2007 samkvæmt tímaskráningu kærðu og er síðast skráður vinnutími vegna hennar 17. apríl 2007, daginn áður en kærandi afturkallaði umboð sitt til kærðu. Fær þannig ekki staðist að kærða hafi unnið að stefnunni eftir að umboð hennar var afturkallað. Miðað við umfang málsins virðist tímaskráning við stefnugerð vel innan ásættanlegra marka
  • 4. Kærða hefur gefið skýringar á því hvers vegna embætti tollstjóra beindi innheimtukröfum ranglega að dánarbúinu vegna skattskila. Verður að fallast á útskýringar hennar á því hvers vegna lögmannsstofa hennar sinnti mjög óverulegum samskiptum við skattayfirvöld og innheimtumann ríkissjóðs fyrir hönd kæranda.
  • 5. Óumdeilt virðist að reikningur frá PWC vegna bókhaldsrannsóknar að fjárhæð 205.332 var á meðal þess sem kærða fékk greitt frá dómsmálaráðuneytinu 16. júlí 2007. Þá er óumdeilt að kærandi hafði þegar greitt þennan kostnað til kærðu 13. júlí 2005. Af fram lögðum gögnum málsins er þó ljóst að innborgunin frá dómsmálaráðuneytinu kom að fullu til frádráttar skuld kæranda og fæst ekki séð að kærða hafi með nokkrum hætti staðið óeðlilega að innheimtum eða reikningshaldi sínu að þessu leyti.

Í heild virðist umfang vinnu kærðu hæfilegt miðað við umfang málsins og ekki er ágreiningur um tímagjaldið, enda er það sambærilegt við það sem almennt tíðkaðist á því tímabili sem hér um ræðir. Telst því áskilin þóknun hennar hæfilegt endurgjald í skilningi 1. mgr. 24. lögmannalaga nr. 77/1998

Ekki verður talið að kærða hafi fyrirgert rétti sínum til greiðslu með því að senda kæranda ekki reikning eða yfirlit yfir störf sín í ljósi skyldna þess lögmanns sem við málinu tók eftir að hagsmunagæslu kærðu fyrir kæranda lauk.

Ú R S K U R Ð A R O R Ð :

Kröfu kæranda, K,  um að kærða, F hrl., sæti áminningu vegna vinnubragða sinna við málarekstur hennar er vísað frá nefndinni.

Áskilin verklaun kærðu, vegna vinnu fyrir kæranda að málum sem tengjast dánarbúi föður hennar, eru hæfilegt endurgjald í skilningi 1. mgr. 24. lögmannalaga nr. 77/1998.