Mál 13 2010

Ár 2011, fimmtudaginn 23. júní, var haldinn fundur í úrskurðarnefnd lögmanna í húsnæði Lögmannafélags Íslands að Álftamýri 9, Reykjavík.

Fyrir var tekið málið nr. 13/2010:

M og D f.h. T ehf.

gegn

B hdl.

og kveðinn upp svofelldur

Ú R S K U R Ð U R :

Í erindi T, kæranda, til úrskurðarnefndar lögmanna þann 25. ágúst 2010, var kvartað yfir störfum B hdl., kærðu, vegna starfa hennar sem skiptastjóra þrotabús TT ehf. Bárust viðbótargögn frá kærendum 31. ágúst 2010.

Kærða sendi nefndinni greinargerð um málið þann 17. september 2010 og var kæranda gefinn kostur á að gera athugasemdir við hana með bréfi, dags. 12. janúar 2011. Athugasemdir við greinargerð kærðu hafa ekki borist, en með bréfi dagsettu 21. september 2010, sem barst nefndinni sama dag, sendu kærendur nefndinni viðbótarathugasemdir vegna málsins.

Málsatvik og málsástæður.

I.

Málsatvik eru þau, eftir því sem fram kemur í kvörtun kæranda, greinargerð kærðu og gögnum málsins, að [vorið] 2010 skipaði Héraðsdómur [...] kærðu skiptastjóra í búi TT ehf., sem hafði rekið [...]verslun að [...]. Fyrirsvarsmenn hins gjaldþrota félags höfðu þá þegar stofnað nýtt hlutafélag ásamt fleiri aðilum, sem hafði tekið yfir verslunarreksturinn. Atvik varðandi þá yfirtöku eru samkvæmt gögnum málsins umdeild, m.a. hvaða fjárhagslegu réttindi tilheyrðu í raun hinu nýja félagi og hver þrotabúinu. Þann 30. apríl tók skiptastjóri í sínar vörslur þá muni sem voru í versluninni og lét skipta um lása í henni. Þessum aðgerðum hefur verið mótmælt af kærendum sem ólögmætum. 

Þann 20. maí 2010 sendi lögmaður kærenda Héraðsdómi [...] aðfinnslur við störf kærðu við skiptastjórnina, auk þess sem hann gerði athugasemdir við boðunarbréf skiptastjóra (kærðu) til M sem kemur fram í máli þessu f.h. kæranda. Var boðað til þinghalds vegna málsins 14. september 2010. Úrskurðarnefndin hefur ekki verið upplýst frekar um framgang skiptamálsins. 

II.

Í kvörtun kæranda til úrskurðarnefndar og síðar framlögðum gögnum kemur fram að kvörtunin er til komin vegna starfa kærðu sem skiptastjóra þrotabús TT ehf. Það félag hafi misst umráðarétt sinn að húsnæði því er það starfaði í árið 2009 og frá þeim tíma hafi annað félag, T ehf., starfað í húsnæðinu. Kærða hafi í hlutverki sínu sem skiptastjóri tekið muni úr eignum þess félags og eiganda þess með ólögmætum hætti. Er í kvörtuninni fundið að því hvernig kærða stóð að því f.h. þrotabús TT ehf. að fá umráð umdeildra eigna og aðgang að húsnæði. Þá er kvartað yfir því hvernig kærða boðaði fyrirsvarsmann þrotabúsins til skýrslutöku.

Í rökstuðningi með kvörtuninni er einnig rakið að kærða hafi reynt að grafa undan viðskiptasambandi kæranda og aðalbirgja þess, danska fyrirtækisins [...]með því að senda hinu danska fyrirtæki tölvupóst 30. júlí 2010 í nafninu „XX" þar sem fjallað er um kæranda og hvernig hann stendur að sölu á umræddum vörum. Kvörtun kæranda beinist þó ekki að þessum atvikum og ekki eru gerðar neinar kröfur vegna þeirra.

Krefst kærandi þess að kærða verði áminnt fyrir brot á lögum við störf sín í þágu þrotabús TT ehf. Þá er þess krafist að munum kæranda verði skilað úr vörslum þrotabúsins.

III.

Kærða krefst þess að málinu verði vísað frá úrskurðarnefndinni og að kærendum verði gert að greiða henni málskostnað vegna kærumálsins. Byggir hún kröfu sína um frávísun á því að skiptastjóri lúti agavaldi þess héraðsdóms sem skipaði hann. Samkvæmt málsmeðferðarreglum úrskurðarnefndar lögmanna beri að vísa máli frá, ef í því er réttarágreiningur sem fellur ekki undir valdsvið nefndarinnar. Ágreiningur kæranda og kærðu hafi þegar verið lagður fyrir dómstóla. Þá sé kvörtunin órökstudd og ekki studd nauðsynlegum sönnunargögnum.

Kærða hefur lagt fram ýmis gögn sem varða þrotabúið og deilur sem tengjast skiptamálinu, m.a. um leiguréttindi búsins. Að því er varðar þá umkvörtun sem lýtur að tölvupóstsendingum til danska fyrirtækisins [...] hefur kærða lagt fram yfirlýsingu X, sem starfar á skrifstofu kærðu. Í yfirlýsingunni kemur fram að X sé þekkt undir nafninu XX og hafi hún sent umræddan póst í eigin nafni og að eigin frumkvæði. Óheppilegt hafi verið að hún skyldi senda umræddan póst úr tölvu lögmannsstofunnar, en það hafi hún gert í eigin nafni sem neytandi þar sem henni hafi ekki líkað hvernig staðið var að auglýsingu á umræddum vörum.

Niðurstaða.

Í kæru eru kærendur tilgreindir sem M og D fyrir hönd T ehf. M hefur síðan lagt fram viðbótarathugasemdir í eigin nafni auk gagna frá [...] hdl. sem kveðst koma fram fyrir hönd T og eigenda fyrirtækisins. Telur nefndin rétt að halda sig við þá tilgreiningu á kærendum sem fram kemur í kvörtun þeirra.

Sá sem telur lögmann hafa í störfum sínum gert á sinn hlut með háttsemi sem stríðir gegn lögum eða siðareglum lögmanna getur sent kvörtun til úrskurðarnefndar lögmanna, sbr. 1. mgr. 27. gr. lögmannalaga, nr. 77/1998. Í afgreiðslu á erindi sem berst nefndinni getur hún fundið að vinnubrögðum lögmanns eða veitt honum áminningu, ef um stórfelld eða ítrekuð brot er að ræða, sbr. 28. gr. lögmannalaga. Ef sakir eru miklar eða lögmaður hefur ítrekað sætt áminningu getur nefndin í rökstuddu áliti lagt til við ráðherra að réttindi lögmannsins verði felld niður tímabundið eða hann sviptur réttindum.

Í samræmi við þessa afmörkun verður að vísa frá kröfum kæranda um að honum verði skilað ótilgreindum munum, enda hefur úrskurðarnefndin ekki valdheimildir til að kveða upp úrskurði um það sakarefni.

Um gjaldþrotaskipti er kveðið í lögum nr. 21/1991, um gjaldþrotaskipti o.fl. (GÞL). Þar er m.a. fjallað um skipun skiptastjóra, hlutverk þeirra, samskipti við kröfuhafa, meðferð hagsmuna og skyldna búsins og skiptalok.

Í 81. og 82. gr. GÞL kemur m.a. fram að þeim sem hafa eignir þrotabús í umráðum sínum er skylt að veita skiptastjóra þær upplýsingar og láta honum í té þau gögn um málefni búsins sem hann krefst. Má skiptastjóri fara þess skriflega á leit við héraðsdómara að hlutaðeigandi verði kvaddur fyrir dóm til að gefa skýrslu um málefnið sem vitni.

Neiti þrotamaðurinn eða forráðamaður félags eða stofnunar, sem er til gjaldþrotaskipta, að afhenda skiptastjóra eignir þrotabúsins eða synjar honum um aðgang að húsnæði þar sem ástæða væri til að ætla að eignir eða gögn búsins sé að finna, getur skiptastjóri krafist þess skriflega að héraðsdómari kveði upp úrskurð um skyldu hlutaðeiganda til að láta eign af hendi eða veita aðgang að húsnæði. Tekur héraðsdómari afstöðu til kröfunnar með úrskurði, en ef ágreiningur verður um hana skal farið með hann eftir ákvæðum 170. gr.

í 76. gr. GÞL er fjallað um heimild þeirra sem eiga kröfu á hendur búinu til að bera upp skriflegar aðfinnslur um störf skiptastjóra við héraðsdómara sem hefur skipað hann. Komi slíkar aðfinnslur fram skal hann kveðja skiptastjóra og þann sem kann að hafa haft aðfinnslur uppi á sinn fund til að tjá sig um málefnið. Fyrir liggur að kærendur hafa þegar fellt ágreining sinn við kærðu um störf hennar fyrir þrotabúið í þennan farveg.

Að mati úrskurðarnefndar verður ekki annað ráðið af orðalagi framangreindra ákvæða GÞL en að löggjafinn marki þar ákveðnum ágreiningsmálum og álitaefnum, er varða m.a. ágreining um afhendingu muna til skiptastjóra og störf hans, þann farveg að fela skuli eingöngu hlutaðeigandi héraðsdómstóli úrlausn þeirra.

Samkvæmt 1. mgr. 27. gr. lögmannalaga nr. 77/1998 getur sá sem telur að lögmaður hafi í starfi sínu gert á sinn hlut með háttsemi sem stríði gegn lögum eða siðareglum lögmanna lagt fyrir úrskurðarnefnd lögmanna kvörtun á hendur lögmanninum

Skiptastjórar í þrotabúum hafa opinberu hlutverki að gegna í samræmi við ákvæði GÞL og mótast samskipti þeirra við kröfuhafa og aðra sem tengjast skiptunum af því hlutverki. Þeir eru ekki ráðnir til verksins af kröfuhöfum og milli þeirra er þannig ekki samningssamband eins og er milli lögmanns og umbjóðanda hans.

Kærða  var skipuð skiptastjóri í þrotabúi TT ehf. í Héraðsdómi Reykjaness þann 15. apríl 2010. Um stöðu hennar og hlutverk, réttindi og skyldur, fer því samkvæmt GÞL. Kærandi er samkvæmt framangreindu ekki umbjóðandi kærðu og verður ágreiningur milli þeirra um vörslur einstakra eigna og ráðstöfun þeirra, ekki lagður fyrir úrskurðarnefnd á grundvelli 1. mgr. 27. gr. lögmannalaga.

Með vísun til þeirra sjónarmiða er hér hafa verið rakin, fellur ágreiningur sóknaraðila og varnaraðila um skiptastjórn kærðu, utan lögbundins valdsviðs úrskurðarnefndar lögmanna. Ber því að vísa málinu frá, sbr. 3. mgr. 10. gr. málsmeðferðarreglna nefndarinnar.

Eftir atvikum þykir rétt að málskostnaður falli niður.

Ú R S K U R Ð A R O R Ð :

Erindi kærenda, M og D f.h. T ehf., vegna ágreinings um ráðstafanir kærðu, B, hdl., við skiptastjórn í þrotabúi TT ehf., er vísað frá.