Mál 15 2010
Ár 2011, fimmtudaginn 23. júní, var haldinn fundur í úrskurðarnefnd lögmanna í húsnæði Lögmannafélags Íslands að Álftamýri 9, Reykjavík.
Fyrir var tekið málið nr. 15/2010:
B hf.
gegn
F hdl.
og kveðinn upp svofelldur
Ú R S K U R Ð U R :
Í erindi B hf., kæranda, til úrskurðarnefndar lögmanna, mótt. 11. október 2010, var kvartað yfir ummælum kærða, F hdl., á opinberum vettvangi. Lýtur kvörtunin sérstaklega að því að kærði hafi viðhaft óréttmæt ummæli um kæranda í fréttatíma RÚV 1. júlí 2010, en af kvörtuninni verður ráðið að hún lúti einnig að því að önnur samskipti kærða við fréttamenn hafi orðið til þess að birtar voru rangar, einhliða og ósanngjarnar fréttir um starfsemi kæranda.
Kærði sendi nefndinni greinargerð um málið þann 8. desember 2010 og var kæranda gefinn kostur á að gera athugasemdir við hana. Athugasemdir kæranda við greinargerð kærða bárust 10. febrúar 2011 og voru kynntar kærða með bréfi 20. maí 2011.
I. Málsatvik
Málsatvik eru þau, eftir því sem fram kemur í kvörtun kæranda, greinargerð kærða og meðfylgjandi gögnum, að með stefnum birtum 4. mars 2009 höfðaði kærandi tvö mál fyrir Héraðsdómi [...]á hendur sama lántakanda vegna bílalánasamninga. Kærði skilaði greinargerð í málunum f.h. stefnda og byggði m.a. á því að það verðmat á bifreið sem stefnandi byggði stefnukröfu á stæðist ekki og að samningurinn væri í raun í íslenskum krónum og bæri að miða uppgjör aðila við það. Þá vísaði stefndi til vitneskju um að umrædd bifreið hefði þá þegar verið seld fyrir 5 milljónir króna.
Málin voru tekin fyrir samhliða og úthlutað til héraðsdómara. Var boðað til fyrstu fyrirtöku í málunum 15. júní 2009. Aðalmeðferð var í framhaldi af því ákveðin 4. nóvember 2009.
Dómarinn hafði samband við aðila áður en til aðalmeðferðar kæmi og tjáði þeim að hann íhugaði að segja sig frá málunum vegna vanhæfis. Daginn fyrir fyrirhugaða fyrirtöku málsins tilkynnti stefnandi að lögð yrði fram ný kröfugerð í báðum málunum á grundvelli söluuppgjörs sem lagt yrði fram ásamt fleiri gögnum. Með tölvupósti þar sem þetta var boðað, fylgdu umrædd söluuppgjör. Ekki kom til aðalmeðferðar 4. nóvember, heldur frestaði dómarinn málunum og ákvað síðan 18. nóvember að víkja sæti án kröfu. Á meðan á þessu stóð freistuðu lögmenn aðila þess að sætta málið og var breytt kröfugerð ekki lögð fram við fyrirtökuna þann 4. nóvember.
Nýr dómari tók málin fyrir 10. janúar 2010 og var ákveðið að fresta aðalmeðferð þeirra í tæplega hálft ár vegna væntinga um að þá lægi fyrir afstaða Hæstaréttar til gengisviðmiðana í bílalánum. Þetta gekk eftir því með dómum Hæstaréttar 16. júní 2010 var tekin sú afstaða að lánasamningur með gengisviðmiðun hefði verið um skuldbindingu í íslenskum krónum og félli hann því undir ákvæði vaxtalaga nr. 38/2001 um verðtryggingu. Ákvæði lánasamningsins um gengistryggingu væru í andstöðu við fyrirmæli laganna og því óskuldbindandi fyrir lántakann.
Í fyrirtöku málanna 30. júní 2010 óskaði stefnandi eftir fresti til að ákveða hvert framhald þeirra yrði, enda ljóst að þau yrðu ekki rekin í óbreyttri mynd. Stefndi vildi ekki fallast á slíka frestun og varð úr að málin voru felld niður í fyrirtöku 9. september 2010.
Í kvöldfréttum ríkissjónvarpsins þann 30. júní 2010 var fjallað um málið. Þar var því haldið fram að B hf., kærandi í þessu máli, hefði í umræddu skuldamáli brotið eigin lánaskilmála með því að verðmeta á eigin vegum á tvær milljónir, bíl sem tekin hefði verið af viðskiptamanni. Bíllinn hefði svo skömmu síðar verið seldur fyrir 5 milljónir en krafan á hendur viðskiptamanninum miðaðist þó enn við verðmatið. Með fréttinni birtust myndir af skjölum umræddra héraðsdómsmála. Þessi fréttaflutningur var í einhverjum mæli endurtekin á öðrum fréttamiðlum.
Kærandi hafði samband við fréttastofuna og leiðrétti þetta. Benti kærandi á að dómara og lögmanni umrædds skuldara (kærða í máli þessu) hefði verið tilkynnt um að kröfugerð yrði breytt á grundvelli söluuppgjörs.
Kvöldið eftir, 1. júlí 2010, var á ný fjallað um málið í kvöldfréttum ríkissjónvarpsins. Þar kom fram að stefnandi hyggðist láta lántakann njóta mismunarins á matsverði og söluverði, en að lögmaður lántakans segði þá nýju kröfugerð hvergi hafa komið formlega fram þótt 16 mánuðir væru liðnir frá sölu bifreiðarinnar. Forsvarsmenn stefnanda hefðu sagt fréttastofunni að lögð hefði verið fram ný kröfugerð í málinu. Lauk fréttinni á stuttu innskoti með ummælum lögmanns lántakans, kærða í máli þessu. Orðrétt eru ummæli kærða svohljóðandi:
„Í dag eru komnir um 16 mánuðir frá því bifreiðin var seld og það var komin, komið kaupverð á bifreiðina, fimm milljónir. Kröfugerðin hefur ekki ennþá verði leiðrétt formlega fyrir dómi og sá dómari sem fékk þennan tölvupóst á sínum tíma er ekki sá dómari sem er með málið í dag. Þannig að það, sá tölvupóstur er algjörlega óviðkomandi málinu eins og það liggur fyrir Héraðsdómi Reykjavíkur í dag."
Kærandi hafði á ný samband við fjölmiðla og fór yfir staðreyndir málsins. Fréttastofa ríkissjónvarpsins leiðrétti umfjöllun sína um málið og baðst velvirðingar á því sem missagt var í frétt 6. júlí 2010.
II. Málsástæður kærenda
Kærandi telur að kærði geti ekki vikið sér undan ábyrgð á framsetningu umræddra frétta, enda hafi hann lýst því við meðferð máls þessa að það hafi verið ætlun hans að vekja fólk til umhugsunar um uppgjör á gengislánum í framhaldi af dómum Hæstaréttar um þau.
Kærandi telur að ummæli kærða í fréttum þann 1. júlí 2010 í þá veru að kröfugerðin hefði ekki verið leiðrétt formlega séu óréttmæt og látin falla til þess eins að hnekkja orðspori og atvinnurekstri kæranda. Hafi kærði með þessum ummælum látið í veðri vaka að það væri rangt að kærandi ætlaði sér að láta lántaka njóta mismunarins á söluverði og matsverði, enda hafi það orðið ofan á í framsetningu fréttamannsins að kærandi hafi ekki breytt kröfugerð sinni þrátt fyrir sölu bifreiðarinnar. Enda þótt ummælin hafi ekki beinlínis falið í sér rangfærslur hafi kærða verið fullkunnugt um söluuppgjör og breytingar á kröfugerð vegna þeirra. Þá hafi kærða verið jóst að ástæðan fyrir drætti málsins var bið eftir niðurstöðu Hæstaréttar um gengistryggða lánasamninga. Málið hafi í raun verið fryst og breyting á kröfugerð fyrir dómi, hafi engu skipt í þeirri stöðu, enda búið að kynna hana fyrir kærða og dómara málsins. Er ummælin voru látin falla hafði málunum verið frestað daginn áður til ákvörðunar um framhald þeirra, en öllum hafi verið ljóst að þau yrðu ekki rekin áfram án breytinga á málatilbúnaði nema með samþykki kærða sjálfs. Framsetning kærða hafi verið til þess fallin að vekja hjá almenningi þá skoðun að kærandi og lögmenn hans stunduðu óréttmæta viðskiptahætti og skeyttu ekkert um hagsmuni viðsemjenda sinna.
Kærandi byggir á því að kærði hafi gerst brotlegur við 2. mgr. 1. gr. siðareglna lögmanna, sbr. 2. mgr. 5. gr. laga um lögmenn, þar sem segir að lögmaður skuli svo til allra mála leggja, sem hann veit sannast eftir lögum og sinni samvisku. Þá hafi lögmaðurinn ekki sýnt gagnaðila sínum í umræddu dómsmáli þá virðingu sem áskilin er í 34. gr. siðareglna lögmanna
Kröfur kærenda eru þær að kærði sæti viðeigandi viðurlögum samkvæmt 5. mgr. 43. gr. siðareglna lögmanna.
III. Málsástæður kærða
Í greinargerð kærða kemur fram að hann hafi ekkert komið að gerð eða flutningi þeirra frétta sem kærandi vísar til í kvörtun sinni og hafi ekki séð þær fyrr en þær voru sýndar opinberlega. Fréttastofa RÚV hafi haft samband við hann og þá haft undir höndum ákveðnar upplýsingar um þau dómsmál sem hér um ræðir. Hafi hann rætt við fréttastofuna m.a. um gengistryggingar lánanna, en einnig vakið máls á þeim þætti þessara mála sem varðaði skilmála þeirra um uppgjör við riftun af hálfu lánveitanda. Hefði kærði talið að þessir skilmálar væru skýrir, en þverbrotnir af kæranda. Hefði hann viljað undirstrika að lánveitendur almennt virtust iðka það að byggja uppgjör á verðmötum sem þeir öfluðu einhliða, en skuldarar hefðu af því ríka hagsmuni að byggt væri á upplýsingum sem aflað væri í samræmi við skilmála lánanna. Umfjöllun fréttastofu RÚV um að kærandi hygðist hirða söluhagnað umræddrar bifreiðar eða ætlaði að hlunnfara lántakendur sé ekki frá honum komin.
Kærði kveður fréttastofuna hafa haft undir höndum tillögu að nýrri kröfugerð. Hefði hann aldrei hafnað því að slík tillaga lægi fyrir og raunar staðfest að breyting á kröfugerðinni hefði verið boðuð.
Kærði telur að ummæli sín um að breytt kröfugerð hefði ekki verið lögð fram í málinu séu rétt. Framsetning fréttarinnar og efnistök séu hins vegar ekki á hans ábyrgð.
IV. Niðurstaða.
Sá sem telur lögmann hafa í störfum sínum gert á sinn hlut með háttsemi sem stríðir gegn lögum eða siðareglum lögmanna getur sent kvörtun til úrskurðarnefndar lögmanna, sbr. 1. mgr. 27. gr. lögmannalaga, nr. 77/1998. Í afgreiðslu á erindi sem berst nefndinni getur hún fundið að vinnubrögðum lögmanns eða veitt honum áminningu, ef um stórfelld eða ítrekuð brot er að ræða, sbr. 28. gr. lögmannalaga. Ef sakir eru miklar eða lögmaður hefur ítrekað sætt áminningu getur nefndin í rökstuddu áliti lagt til við ráðherra að réttindi lögmannsins verði felld niður tímabundið eða hann sviptur réttindum.
Í 34. gr. siðareglna lögmanna kemur fram að lögmaður skal sýna gagnaðilum skjólstæðinga sinna fulla virðingu í ræðu, riti og framkomu og þá tillitssemi sem samrýmanleg er hagsmunum skjólstæðinganna. Í þessu felst meðal annars að þeir skulu ekki draga upp ranga eða villandi mynd á opinberum vettvangi af þeim málum sem þeir starfa að.
Í kvörtun kærenda kemur fram að hún snúi að fjölmiðlaumfjöllun sem átti sér stað 30. júní og 1. júlí 2010 í kjölfar fyrirtöku þeirra dómsmála sem hér um ræðir. Verður kvörtunin ekki skilin öðruvísi en svo að hún lúti að því að samskipti kærða við fréttamenn hafi orðið til þess að birtar voru rangar, einhliða og ósanngjarnar fréttir um starfsemi kæranda, einkum í fréttum RÚV 30. júní og 1. júlí 2010. Þá sé sérstakleg kvartað yfir því að kærði hafi viðhaft óréttmæt ummæli um kæranda í fréttatíma RÚV 1. júlí 2010.
Gegn andmælum kærða verður ekki byggt á því að hann hafi átt annan þátt í þeim fréttaflutningi sem hér um ræðir en að svara spurningum fréttamanns, sem þá þegar hafði undir höndum gögn málsins. Þegar af þeirri ástæðu verður ekki lögð á hann ábyrgð á því að í fréttaflutningi RÚV 30. júní 2010 var því haldið fram að kærandi hygðist hlunnfara viðskiptamenn sína.
Ágreiningslaust er að þau ummæli kærða sem sérstaklega er vísað til í kærunni fela ekki í sér rangfærslur. Kærandi telur hins vegar að með þeim sé hallað réttu máli, því þau verði að skoðast í því ljósi að þegar þau féllu hafi kærða verið fullljóst að þau gæfu mjög ranga mynd af stöðu málsins og fyrirætlunum kæranda.
Þegar umræddur fréttaflutningur er skoðaður í samhengi virðist ljóst að fullyrðingar sem settar voru fram í fréttatíma 30. júní 2010 fá ekki staðist, enda voru þær að nokkru dregnar til baka í frétt 6. júlí. Fréttaflutningurinn 1. júlí felur í sér viðbrögð við athugasemdum sem kærandi hafði þá sett fram við RÚV. Í stað þess að leiðrétta það sem ofsagt hafði verið, fólu þau viðbrögð einkum í sér að undirstrika að lántakandanum hafði ekki verið greint frá sölu bifreiðarinnar og kröfugerð í dómsmálinu hafði ekki verið breytt með formlegum hætti. Það verður ekki lagt kærða til lasts að málinu hafi verið stillt upp með þessum hætti af fréttastofunni á þessum tímapunkti og ummæli hans, skoðuð í þessu samhengi, fara ekki út fyrir mörk eðlilegrar umfjöllunar. Verða ekki gerðar athugasemdir við störf kærða í máli þessu.
Ú R S K U R Ð A R O R Ð :
Kærði, F hdl., hefur í störfum sínum ekki gert á hlut kæranda, B hf., með háttsemi sem stríðir gegn lögum eða siðareglum lögmanna.