Mál 21 2010

Mál 21 2010

Ár 2011, föstudaginn 7. október, var haldinn fundur í úrskurðarnefnd lögmanna í húsnæði Lögmannafélags Íslands að Álftamýri 9, Reykjavík.

Fyrir var tekið málið nr. 21/2010:

K

gegn

Þ

 og kveðinn upp svofelldur

Ú R S K U R Ð U R :

Í erindi S, f.h. K til úrskurðarnefndar lögmanna, sem barst nefndinni þann 1. desember 2010, var kvartað yfir störfum Þ hrl., kærðu, að skilnaðarmáli kæranda, sérstaklega að því er varðar meðferð hennar á kröfu um framfærslueyri og athugasemdir gerðar við reikning hennar vegna málsins.

Kærða sendi nefndinni greinargerð um málið þann 27. janúar 2011 og var kæranda gefinn kostur á að gera athugasemdir við hana. Athugasemdir kæranda við greinargerð kærðu bárust 1. júní 2011, en lokaathugasemdir kærðu vegna málsins bárust 15. júlí 2011.

Málsatvik og málsástæður.

I.

Málsatvik eru þau að í október 2009 fól kærandi kærðu að annast hjónaskilnaðarmál sitt, en áður hafði annar lögmaður annast það fyrir hennar hönd. Staða málsins var sú að fyrrum eiginmaður kæranda hafði flutt úr fasteign þeirra nokkru áður og hafði sett fram kröfu um skilnað. Hafði hann jafnframt hætt öllum stuðningi við framfærslu kæranda en hún bjó í fasteigninni ásamt 4 börnum þeirra og hafði óverulegar tekjur. Er óumdeilt að kærandi lagði vegna þessa áherslu á að fá framfærslu úr hendi mannsins sem fyrst.

Þann 30. október samdi kærða fyrstu drög að skilnaðarkjarasamningi og lagði fyrir lögmann gagnaðila, sem gerði við hann nokkrar athugasemdir. Voru samningurinn og athugasemdirnar sendar til systur kæranda [S], en hún virðist hafa aðstoðað kæranda í málinu. Þann 8. desember 2009 athugaði kærandi hver staða málsins væri hjá kærðu og fékk þau svör að því miðaði hægt, enda væri lítill samningsvilji til staðar hjá gagnaðilum. Í framhaldi af þessum samskiptum, sendi kærða sýslumanninum í Reykjavík þann 10. desember 2009 kröfu um að úrskurðað yrði um framfærslueyri á grundvelli 49. gr. hjúskaparlaga, um lífeyri samkvæmt 51. gr. hjúskaparlaga og um meðlagsgreiðslur með börnum á grundvelli 57. gr. barnalaga.

Mál þetta dróst nokkuð í meðförum sýslumanns, en var þó tekið fyrir nokkrum sinnum eftir að krafan var lögð fram að sögn kærðu. Reyndi kærða að ýta á eftir málinu 9. mars 2010 en komst þá að því að viðkomandi fulltrúi var í fríi til 20. mars. Freistaði kærða þess að fá annan fulltrúa settan í málið, en án árangurs.

Kærða sendi jafnframt sýslumanni athugasemdir sínar við greinargerð mannsins þann 11. mars 2010, en ekki liggur fyrir hvenær henni barst sú greinargerð. Í athugasemdum þessum rakti hún hvaða tekjur konan hafði haft, m.a. af íhlaupastörfum við ræstingar og afgreiðslu auk reksturs snyrtistofu og greiðslna frá velferðarsviði Reykjavíkurborgar. Athugasemdunum fylgdi staðgreiðsluyfirlit skatta vegna konunnar fyrir árið 2009 og fyrstu 3 mánuði ársins 2010.  Ágreiningslaust virðist að þá var málið á úrskurðarstigi og ekkert því til fyrirstöðu að úrskurða um kröfur kæranda hjá sýslumanni.

Ágreiningslaust er einnig að fyrrverandi eiginmaður kæranda kom að nokkru marki fram fyrir eigin hönd í málinu og hafði bein samskipti við kærðu, enda þótt hann hefði á þessum tíma falið starfandi lögmanni málið fyrir sína hönd. Mætti maðurinn m.a. einn í fyrirtökur málsins hjá sýslumanni.

Það dróst enn að úrskurður væri kveðinn upp hjá sýslumanni og fór svo að aðilar náðu samkomulagi um meðlagsgreiðslur og skilnaðakjör að flestu öðru leyti með skilnaðarkjarasamningi, dags 13. apríl 2010. Í þeim samningi var þó vísað til væntanlegrar niðurstöðu sýslumanns varðandi kröfur kæranda um framfærslu og lífeyri.

Þann 29. apríl 2010 tilkynnti systir kæranda kærðu að umbjóðandi hennar hefði greinst með æxli í heila og tók um leið fram að þetta kynni að hafa áhrif á skilnaðarmálið, annars vegar vegna þess að kærandi þyrfti aukinn sveigjanleika við afhendingu fasteignarinnar og hins vegar vegna lífeyrisgreiðslna, en kærandi yrði óvinnufær um einhvern tíma. Kærða svaraði póstinum daginn eftir, en í svari hennar kom fram að hún myndi doka við áður en hún ræddi þetta við gagnaðilann þar sem hún gerði ráð fyrir að hann myndi fyrst fá að frétta af þessu eftir öðrum leiðum. Um leið sendi kærða tölvupóst til sýslumanns vegna málsins og bað um að úrskurðurinn yrði aðeins sendur sér þar sem umbjóðandi hennar hefði greinst með illkynja höfuðmein.

Fulltrúi sýslumanns brást við 5. maí með því að spyrja hvort kærða óskaði eftir að koma að frekari upplýsingum og/eða gögnum vegna þessa, en kærða kvaðst ekki óska eftir frekari fresti.

Systir kæranda sendi sýslumanni einnig upplýsingar um vanheilsu kæranda þann 7. maí, en tók fram að hún hefði ekki umboð til að koma fram fyrir hennar hönd. Vísaði hún á kæranda en ekki kærðu, en tók þó fram að kærandi hefði skert minni og getu til að annast praktísk mál. Framsendi sýslumaður kærðu þennan tölvupóst ásamt ítrekun á þeirri fyrirspurn hvort óskað væri eftir fresti til að leggja fram gögn eða frekari upplýsingar, en kærða svaraði um hæl að ekki væri óskað eftir slíkum fresti.

Úrskurður sýslumanns var kveðinn upp 17. maí 2010 og var hann kærður f.h. kæranda í máli þessu til dómsmálaráðuneytisins 26. maí. Skömmu síðar óskaði kærandi eftir því að kærða léti af störfum sínum fyrir hana. Hafði kærða þá þegar gert kæranda reikning vegna málsins að fjárhæð alls 845.431.- að meðtöldum vsk og dregið hann frá fjárgreiðslu frá fyrrum eiginmanni hennar, en kærða móttók greiðsluna. Er reikningurinn dagsettur 20. maí og felur í sér greiðslu fyrir alla vinnu kærðu fram að kærunni til ráðuneytisins. Hefur kærða ekki gert kröfur um frekari greiðslur vegna málsins.

Sem fyrr greinir barst úrskurðarnefndinni kvörtun vegna málsins þann 10. desember 2010.

II.

Í kvörtuninni er þess krafist að kærðu verði gert að endurgreiða kæranda þá þóknun er hún innheimti hjá kæranda og til að sæta þeim viðurlögum sem úrskurðarnefndin telur viðeigandi og hæfileg.

Aðfinnslur kæranda lúta að fjórum atriðum:

Í fyrsta lagi að kærða hafi vanrækt að leggja fram gögn sem ætla mátti að hefðu úrslitaþýðingu fyrir niðurstöðu úrskurðarmálsins hjá sýslumanni. Leggur kærandi áherslu á að það hafi einkum verið á ábyrgð kærðu að afla nauðsynlegra gagna og hafa samband við lækna, fjölskyldu eða aðra sem hefðu getað útvegað þau. Er þar bæði átt við gögn sem vörðuðu vanheilsu kæranda og skert aflahæfi af þeim sökum og einnig gögn sem gæfu mynd af réttri fjárhagsstöðu konunnar. Bendir kærandi á að sýslumaður hafi í tvígang gefið  kærðu kost á að leggja fram gögn vegna veikinda kæranda. Það hafi verið á ábyrgð kærðu að afla slíkra gagna en það hafi hún ekki gert. Í úrskurði sýslumanns segi um þetta atriði „Lögmaður konunnar óskaði ekki eftir að leggja fram frekari gögn í málinu og verður því í úrskurði þessum byggt á því að aflahæfi konunnar sé óskert."

Þá hafi engin gögn legið fyrir í málinu um tekjur eða fjárhagsstöðu konunnar á árinu 2010 og takmarkaðar upplýsingar um fjárhagsstöðu hennar á árinu 2009. Kærandi hafi verið heimavinnandi nær allan sinn hjúskap, en hafi í janúar 2010 opnað litla snyrtiaðstöðu á hárgreiðslustofu en kostnaður við þetta verið töluvert meiri en þær tekjur sem henni tókst að vinna sér inn þangað til hún þurfti að hætta að vinna vegna veikinda. Hafi sýslumaður vegna þessa kosið að leggja til grundvallar reiknað endurgjald löggiltra iðnaðarmanna skv. stuðli ríkisskattstjóra við áætlun á tekjum kæranda, en þær hafi í raun nær engar verið

Í öðru lagi hafi kærða með töfum á málarekstrinum valdið kæranda réttarspjöllum. Frá upphafi hafi verið lögð áhersla á að leggja strax fram kröfu um lífeyri og meðlag vegna bágrar fjárhagsstöðu kæranda. Kærða hafi hins vegar tekið þann kost að gera þetta ekki heldur verja mánuðum í samningsumleitanir sem gengu hægt vegna lítils samningsvilja að mati hennar sjálfrar. Hafi farið svo að þessi dráttur hafi valdið kæranda réttarspjöllum því í úrskurði sýslumanns segir „Þá styður það ekki kröfur konunnar eða sýni brýna þörf, þrátt fyrir yfirlýsingar hennar um að hún hafi þurft að leita til hjálparstofnunar og félagsþjónustu vegna framfærslu í desember 2009 vegna vanrækslu mannsins á framfærslu fjölskyldunnar, að hún mætti fyrst hjá sýslumanni vegna skilnaðarmálsins og samþykkti skilnaðarkröfuna þann 19. janúar 2010 en krafa lögmanns hennar um framfærslu- lífeyri barst embættinu fyrst þann 14. desember 2009 og ljóst að henni hefði verið unnt samþykkja skilnaðarkröfu mannsins að leggja fram kröfu um framfærslueyri mun fyrr"(svo)

Enda þótt niðurlag þessa texta sé ekki fyllilega skýrt, sé þó ljóst að sýslumaður telji að haldið hafi verið á málinu f.h. kæranda með þeim hætti að það hafi áhrif á matið á þörf hennar fyrir framfærslueyri.

Í þriðja lagi finnur kærandi að því að vinnubrögð kærðu hafi verið hroðvirknisleg. Segir kærandi að leiðrétta hafi þurft villur af ýmsu tagi í samningum sem kærða sendi kæranda til yfirlestrar. Þá hafi kærða dregið að svara símtölum og tölvupóstum frá kæranda, sérstaklega í desember 2009 þegar hún átti við verulega fjárhagsörðugleika að stríða.

Í fjórða lagi gerir kærandi athugasemd við að kærða hafi brotið gegn 26. gr. siðareglna lögmanna með því að hafa bein samskipti við gagnaðilann, þrátt fyrir að hann hafi falið lögmanni að koma fram fyrir sína hönd.

Kærandi telur að kærða hafi brotið gegn 8. gr. siðareglna lögmanna við meðferð skilnaðarmálsins, en þar segir að lögmaður skuli leggja sig fram um að gæta hagsmuna skjólstæðinga sinna, sbr. einnig 2. mgr. 19. gr. þar sem fram kemur að lögmaður skal [...]gæta hagsmuna skjólstæðings síns fyrir dómi af fullri einurð og heiðarleika og án tillits til eigin hagsmuna eða hagsmuna annarra. Þá byggir kærandi á 22. gr. siðareglnanna, en hún leggur þá skyldu á lögmenn að kappkosta að vanda málatilbúnað sinn fyrir dómstólum og stuðla á annan hátt að greiðri og góðri málsmeðferð af sinni hálfu.

Einnig byggir kærandi á 12. gr. siðareglnanna, þar sem segir að lögmanni, sem tekur að sér verkefni, beri að reka það áfram með hæfilegum hraða. Skuli hann tilkynna skjólstæðingi sínum ef verkið dregst eða ætla má að það dragist. Loks telur kærandi að meðferð kærðu á máli sínu brjóti í bága við ákvæði 41. gr., en samkvæmt því ákvæði skal lögmaður  án ástæðulauss dráttar svara bréfum og öðrum erindum, er honum berast í lögmannsstarfi hans. Sé ekki unnt að svara bréfi eða öðru erindi innan hæfilegs tíma, ber lögmanni að tilkynna það viðkomandi og að erindinu verði svarað, þegar fært verður.

Að því er varðar samskipti kærðu við gagnaðilann vísar kærandi til ákvæða 26. gr. siðareglnanna, en þar er kveðið á um að lögmaður má ekki snúa sér beint til aðila um málefni, sem annar lögmaður fer með, án hans samþykkis, nema brýn nauðsyn krefji. Ávallt skal þá viðkomandi lögmanni þegar um það tilkynnt.

Telur kærandi að kærða hafi sýnt af sér sinnu- og ábyrgðarleysi við meðferð málsins. Umbjóðandi hennar hafi verið varnarlítil og skort alla þekkingu á fjármála- og lagaatriðum málsins, en með mikla hagsmuni í húfi. Sé innheimta kærðu á reikningi að fjárhæð 845.431 ótæk eftir jafn hroðvirknislega meðferð á málinu og raun bar vitni. Byggir kærandi á því að við mat á því hvað er hæfileg þóknun verði að taka tillit til þess hve mjög skorti á að kærða veitti kæranda fullnægjandi þjónustu.

III.

Kærða krefst þess að kvörtun kæranda verði hafnað.

Kærða kveðst ekki hafa haft nein gögn um heilsufar kæranda undir höndum þegar hún tilkynnti fulltrúa sýslumanns um þau veikindi sem uppgötvast höfðu. Engin læknisvottorð hafi verið til staðar á þessum tíma, og þau læknisvottorð sem kærandi leggi nú fram séu frá því í ágúst 2010, þ.e. löngu eftir það tímamark sem hér um ræðir. Upplýsingar um tekjur kæranda hafi fylgt kærunni til sýslumanns í formi útskriftar úr staðgreiðsluskrá ríkisskattstjóra en engin gögn hafi legið fyrir um rekstur snyrtistofu.

Kærða hafnar ásökunum um að hún hafi sýnt af sér seinlæti við meðferð málsins. Það hafi verið með samþykki kæranda að því var frestað að setja fram kröfu um framfærslu við sýslumann og þess freistað að ná samkomulagi um skilnaðarkjör en á þeim tíma hafi samningsvilji virst vera fyrir hendi. Þegar ljóst varð að samningar næðust ekki hafi krafan verið sett fram við sýslumann og hafi kærða rekið á eftir málinu þar allan tímann sem það var til meðferðar.

Kærða hafnar því að hún hafi sýnt af sér hroðvirkni. Villur í dagsetningum og upphæðum, sem kærandi nefnir, hafi verið í drögum sem hún fékk til yfirlestrar. Það sé einmitt einkenni á drögum að þau séu ekki fullunnin. Kærða kveðst vegna athugasemda um að hún hafi verið sein til svars talið saman að tölvupósta sína til kæranda og hafi þeir verið 72 á tímabilinu október 2009 - apríl 2010. Sýni þetta að kærða hafi sinnt umbjóðandanum vel að þessu leyti.

Kærða byggir á því að samskipti hennar við gagnaðilann hafi verið með fullu samþykki lögmanns hans. Svo hafi háttað til að umræddur lögmaður gagnaðila hafi verið mjög upptekinn í öðrum verkum og hafi gagnaðilinn því mætt sjálfur í einhverjum tilvikum og haft samskipti  við kærðu. Öll samskipti við gagnaðilann hafi verið með vitund og vilja lögmanns hans.

Kærða telur að það megi teljast hóflegt að innheimta 50 tíma vinnu fyrir þetta mál, en það hafi innifalið sáttatilraunir, bréfaskriftir til sýslumanns, undirbúning þess að krefjast opinberra skipta á búinu, kæru til ráðuneytisins og samskipti við umbjóðanda. Þá sé tímagjaldinu, (13.500 krónur) í hóf stillt miðað við gjaldtöku annarra lögmanna. Þá telur kærða að krafa um endurgreiðslu eigi ekki undir úrskurðarnefnd lögmanna og verður kröfugerð hennar skilin svo að hún krefjist frávísunar á þessum lið málsins.

Niðurstaða.

I.

Sá sem telur lögmann hafa í störfum sínum gert á sinn hlut með háttsemi sem stríðir gegn lögum eða siðareglum lögmanna getur sent kvörtun til úrskurðarnefndar lögmanna, sbr. 1. mgr. 27. gr. lögmannalaga, nr. 77/1998. Í afgreiðslu á erindi sem berst nefndinni getur hún fundið að vinnubrögðum lögmanns eða veitt honum áminningu, ef um stórfelld eða ítrekuð brot er að ræða, sbr. 2. mgr. 27. gr. lögmannalaga. Ef sakir eru miklar eða lögmaður hefur ítrekað sætt áminningu getur nefndin í rökstuddu áliti lagt til við ráðherra að réttindi lögmannsins verði felld niður tímabundið eða hann sviptur réttindum.

Aðilar máls þessa virðast sammála um að úrskurður sýslumanns hafi verið kæranda óhagstæðari en efni stóðu til. Að því er varðar gögn um tekjur kæranda eða skort á þeim, má fallast á með kærðu að það hafi verið í samræmi við tíðkanleg vinnubrögð að leggja fram gögn úr staðgreiðsluskrá um tekjur kæranda, en ekki hafi mátt gera ráð fyrir því fyrir fram að sýslumaður myndi leggja til grundvallar reiknað endurgjald löggiltra iðnaðarmanna, án þess að óska eftir raunverulegum gögnum um rekstur kæranda eða gera aðilum ljóst með öðrum hætti á hvaða tekjuáætlun niðurstaða hans yrði byggð. Verður ekki talið að kærða hafi vanrækt málið að þessu leyti.

Áður er rakið hvernig kærðu bárust þau tíðindi að kærandi hefði greinst með æxli í höfði og hvernig embætti sýslumanns beindi til hennar fyrirspurnum um hvort óskað væri eftir fresti til framlagningar gagna vegna þessa. Má taka undir það með kæranda að sú ákvörðun kærðu að óska eftir að úrskurðað yrði um málið án þess að afla slíkra gagna getur orkað tvímælis. Virðist líklegt að slíkt höfuðmein gæti haft svo afgerandi áhrif á aflahæfi kæranda að það réði úrslitum um fjárhæð lífeyris, jafnvel þótt litið yrði til tekna samkvæmt skattframtölum við ákvörðun um fjárhæð hans.

Áður en aðfinnslur eru gerðar við störf lögmannsins að þessu leyti verður þó að líta til þess hvernig málið horfði við kærðu á þessum tíma. Umbjóðandi hennar hafði þrýst fast á um að málið hjá sýslumanni yrði klárað sem allra fyrst og var að eigin sögn mjög fjár vant, en málið hafði dregist umfram væntingar í meðförum sýslumanns. Hún hafði nú einnig orðið fyrir alvarlegum heilsubresti en þurfti um leið að framfæra sig og börn sín. Jafnvel eftir að upp kom að hún væri haldin meini í höfði sendu aðstandendur hennar sýslumanni fyrirspurn um hvort úrskurðarins væri að vænta fljótlega. Vel er þekkt að mjög tímafrekt getur reynst að afla læknisvottorða, ekki síst um framtíðaraflahæfi og mátti allt eins gera ráð fyrir því að læknar vildu ekkert fullyrða um það fyrr en kærandi jafnaði sig eftir fyrirhugaða aðgerð. Á sama tíma lá fyrir að úrskurður sýslumanns þyrfti ekki að fela í sér endanlega niðurstöðu um fjárhæð lífeyris og nýjum gögnum um heilsubrest mætti koma að á kærustigi. Að öllu þessu virtu, virðist úrskurðarnefndinni að of langt væri seilst með því að gera aðfinnslur við það mat kærðu á þessum tíma, að réttast væri að leggja höfuðáherslu á að flýta málinu hjá sýslumanni, í samræmi við þá áherslu sem umbjóðandi hennar hafði lagt á það.

Þær aðfinnslur kæranda sem lúta að seinagangi við meðferð málsins verður að meta með hliðsjón af gangi þess í heild sinni. Kærða fullyrðir í greinargerð sinni að kærandi hafi samþykkt að fresta því að setja fram kröfur við sýslumann á meðan þess var freistað að ná samningi við gagnaðilann um skilnaðarkjör. Gegn andmælum hennar verða aðfinnslur að þessu leyti ekki reistar á því að hún hafi vanrækt að setja þessa kröfu fram, án samráðs við kæranda. Fyrir liggur að kærða setti kröfuna fram mjög fljótt eftir samskipti þeirra í desemberbyrjun og ekkert er fram komið sem styður að dráttur málsins hjá sýslumanni verði rakið til hennar. Tíminn frá októberlokum og fram í desemberbyrjun virðist heldur ekki sérlega langur til að reyna að ná samningum í jafn umfangsmiklu máli. Fá óskýr ummæli í tilvitnuðum úrskurði sýslumanns um að kærandi hefði getað hagað málatilbúnaði sínum öðruvísi ekki haggað þessari niðurstöðu.

Fullyrðingar kæranda um hroðvirknisleg vinnubrögð kærðu eru ekki studd gögnum, né heldur umkvartanir vegna þess að kærða hafi dregið að svara símtölum og tölvupóstum frá kæranda. Gegn andmælum kærðu verða ekki gerðar athugasemdir við störf hennar vegna þessa.

Það leiðir af almennri skýringu á ákvæði 26. gr. siðareglna lögmanna, að það hefur afgerandi áhrif þegar metið er hvort brotið hafi verið gegn henni hvort lögmaður gagnaðilans hefur veitt samþykki sitt fyrir því að umbjóðandi hans tæki þátt í þeim. Því er ómótmælt að samskipti kærðu við fyrrum eiginmann kærðu voru vegna þess að lögmaður hans var mjög upptekinn í öðrum verkum og hafi það verið með vitund og vilja lögmannsins að hann mætti og ræddi þá beint við kærðu. Þegar af þessari ástæðu verða ekki gerðar aðfinnslur við þetta.

II.

Hægt er að skjóta ágreiningi um rétt lögmanns til endurgjalds og fjárhæð þess til úrskurðarnefndar lögmanna, sbr. 26. gr. lögmannalaga. Nefndin vísar frá sér ágreiningsmáli um endurgjald ef lengri tími en eitt ár er liðinn frá því að kostur var á að koma því á framfæri.

Samkvæmt 1. mgr. 24. gr. lögmannalaga, nr. 77/1998, er lögmanni rétt að áskilja sér hæfilegt endurgjald fyrir störf sín og skal umbjóðanda hans, eftir því sem við verður komið, gert ljóst hvert það gæti orðið í heild sinni. Þar á meðal getur lögmaður áskilið sér hluta af þeirri fjárhæð sem umbjóðandi fær greitt í máli, svo og hærra endurgjald ef mál vinnst en ef það tapast. Loforð um ósanngjarnt endurgjald fyrir starf lögmanns bindur ekki umbjóðanda hans sbr. 2. mgr. 24. greinar.

Af þessum ákvæðum leiðir að kærandi getur borið ágreining um það endurgjald sem kærða áskildi sér fyrir störf sín undir úrskurðarnefndina, en frestur til þess var ekki liðinn þegar nefndinni barst kvörtunin, sbr .1. mgr. 26. gr. lögmannalaga i.f.

Heildarfjárhæð þóknunar kærða fyrir meðferð skilnaðarmálsins er kr. alls 845.431.- að meðtöldum virðisaukaskatti. Byggist sú fjárhæð á samtals 50 klst. færslum, en hver klst. er verðlögð á 13.500 kr. Hvorki tímafjöldinn né tímagjaldið eru umfram það sem vænta mátti miðað við umfang málsins.

Ú R S K U R Ð A R O R Ð :

Kærða, Þ hrl., hefur í störfum sínum ekki gert á hlut kæranda K með háttsemi sem stríðir gegn lögum eða siðareglum lögmanna.

Áskilin verklaun kærðu, vegna vinnu fyrir kæranda að skilnaðarmáli hennar, eru hæfilegt endurgjald í skilningi 1. mgr. 24. lögmannalaga nr. 77/1998.