Mál 7 2010
Ár 2010, mánudaginn 15. nóvember,var haldinn fundur í úrskurðarnefnd lögmanna í húsnæði Lögmannafélags Íslands að Álftamýri 9, Reykjavík. Mættir voru undirritaðir nefndarmenn.
Fyrir var tekið málið nr. 7/2010:
X
gegn
Y, hdl.
og kveðinn upp svofelldur
Ú R S K U R Ð U R :
Í erindi X, kæranda, til úrskurðarnefndar lögmanna, mótteknu þann 3. maí 2010, var kvartað yfir vinnubrögðum Y, hdl., kærða, vegna vörslusviptingar á bifreið úr lokaðri bílageymslu. Kærði sendi nefndinni greinargerð um málið þann 19. júlí 2010 og gerði kærandi athugasemdir við hana í bréfi, dags. 10. ágúst 2010. Kærði hefur ekki tjáð sig frekar um málið.
Málsatvik og málsástæður.
I.
Samkvæmt lýsingu kæranda fyrirskipaði kærði, sem starfar hjá fjármögnunarfyrirtækinu Z hf., vörslusviptingu á bifreið, sem kærða gerði kaupleigusamning um í desember 2005, úr lokaðri bílageymslu vinnuveitanda kæranda. Kærða kveður ýmsa persónulega muni sína hafa verið í bifreiðinni, svo og eignir vinnuveitanda síns.
Kærandi telur atburðinn hafa átt sér stað mánudaginn 12. apríl 2010, á vinnutíma, líklega fyrir hádegið. Kveðst kærandi, sem var í nokkrum vanskilum með greiðslur, hafa mótmælt afhendingu bifreiðarinnar án dómsúrskurðar. Kærandi kveðst hafa ákveðið að stöðvar greiðslur samkvæmt kaupleigusamningnum 1. janúar 2010 þegar hún hafi komist að því að bílalánið hafi verið útfært á annan hátt en samningur sinn sagði til um. Kærandi kveðst hafa sent erindi vegna þessa til Þ og kveðst bíða úrskurðar þaðan.
Kærandi telur að fyrirskipun kærða um vörslusviptingu bifreiðarinnar, úr aðgangsstýrðri bílageymslu vinnuveitanda, án dómsúrskurðar eða atbeina sýslumanns, standist ekki siðareglur lögmanna. Við báðar innkeyrslur bílageymslunnar, sem staðsett sé að P-túni x, séu áberandi skilti þar sem á stendur: „Varúð óviðkomandi umferð bönnuð". Til þess að opna hliðin þurfi fjarstýringu eða aðgangskóða. Kærandi kveður A, eiganda B hf., hafa hringt til sín síðar um daginn og tilkynnt sér að bíllinn hefði verið dreginn úr geymslunni fyrr um daginn, en hann hafi þó ekki viljað gefa upp hvernig hann og bílstjóri dráttarbílsins hefðu komist inn í geymsluna. Húsverðir hefðu þó ekki opnað fyrir þeim, en gengið hefði verið úr skugga um það.
Kærandi krefst þess að úrskurðarnefndin skeri úr um það hvort þessi aðgerð, fyrirskipuð af kærða, standist siðareglur lögmanna. Kærandi spyr hvort eðlilegt sé að lögmaður, fyrir hönd fyrirtækis, hunsi kröfu um dómsúrskurð til að taka bifreið og panti þess í stað þjónustu einhvers konar handrukkara á dráttarbíl?
II.
Í greinargerð sinni til úrskurðarnefndar kveður kærði rökstuðning kæranda fyrir erindi sínu lúta að því að hann hafi fyrirskipað vörslusviptingaraðila að sækja umrædda bifreið inn í aðgangsstýrða bílageymslu, eftir að kærandi mótmælti afhendingu bifreiðarinnar án dómsúrskurðar.
Athugasemdir kærða lúta í fyrsta lagi að því að það sé ekki innan verksviðs hans, sem starfsmanns Z hf., að fyrirskipa vörslusviptingar á einstökum málum, heldur sé það innheimtuferli sem innheimtusvið félagsins sjái alfarið um. Nánar tilgreindur starfsmaður sjái um að ráðstafa einstaka málum einstaklinga til vörslusviptingaraðila. Kærði kveðst, í þessu ákveðna tilfelli, hafa samþykkt, að beiðni innheimtusviðsins, að mál kæranda færi í þann farveg, að því gefnu að allar forsendur að baki væru réttar. Kærði kveður ástæðu þess hafa verið þá að hann hefði haft umtalsverð samskipti við kæranda vegna samnings hennar þar á undan, auk samskipta við ýmsar stofnanir, svo sem Þ og ríkislögreglustjóra.
Kærði kveður í öðru lagi verklag við vörslusviptingar á bifreiðum ekki vera hluta af verksviði innheimtusviðs, heldur sjái vörslusviptingaraðilar alfarið um það verklag sjálfir, en það skal þó vera innan þess ramma sem samningur þeirra við Z hf. kveður á um.
Kærði kveður það þá standa eftir hvort krafa kæranda um dómsúrskurð haldi gegn meginreglu samningaréttar um frelsi til samninga, venju og samningsákvæði aðila um vörslusviptingar. Þeirri spurningu sé enn ósvarað af dómstólum.
Kærði kveður verklag þetta hafa verið viðhaft hjá fjölmörgum lögaðilum hér á landi um langa tíð. Í samningi kæranda og Z sé kveðið á um þessa heimild í 15. gr. samningsins, þar sem fjallað sé um afhendingu hins leigða við riftun, en þar segi svo:
„Sé samningi þessum sagt upp eða honum rift skal bifreiðinni skilað á þann stað sem Z tiltekur. Leigutaki skal standa straum af öllum útgjöldum vegna flutnings bifreiðarinnar á þann stað, svo og vátryggingu vegna flutnings auk alls kostnaðar við að þrífa, yfirfara og gera við bilanir og skemmdir á bifreiðinni. Leigutaki ber ábyrgð á því ef bifreiðin eyðileggst af tilviljun, skemmist eða rýrnar, uns Z hefur tekið við henni. Neiti leigutaki að afhenda bifreiðina eftir riftun er Z, eða öðrum þeim aðila sem Z vísar til, heimilt að færa bifreiðina úr vörslum hans án atbeina sýslumanns."
Kærði kveður ástæðuna að baki því að innheimtusvið félagsins hafi sent samning kæranda til vörslusviptingar, hafa verið þá að kærandi hafi ekki staðið við greiðslur samkvæmt samningi um alllangan tíma. Við mat á því hvort um veruleg vanskil hafi verið að ræða hafi verið miðað við samninginn í íslenskum krónum. Kærði telur ljóst vera að greiðsluskyldan hefði ekki fallið niður þrátt fyrir að önnur ákvæði samningsins kynnu að verða dæmd ólögmæt. Dómar Hæstaréttar Íslands í málunum nr. 92 og 153/2010 hafi fallið stuttu síðar.
Kærði vísar til meðfylgjandi Excel-skjals með útreikningi á greiðslum kæranda, þar sem miðað sé við að gengistryggði hluti samningsins hafi verið í íslenskum krónum, með lægstu almennum óverðtryggðum seðlabankavöxtum á hverjum tíma. Skjalið sýni að kærandi hafi verið nálægt fjögurra mánaða vanskilum þrátt fyrir breyttar forsendur, þegar samningnum var rift 9. mars 2010 og hann sendur til vörslusviptingar.
Kærði kveðst hafa leitað sátta við kæranda áður en að vörslusviptingu kom, svo hún gæti haft bifreiðina í sínum umráðum þar til skorið yrði úr þeirri réttaróvissu sem þá lá fyrir, en án árangurs.
III.
Kærandi gerði nokkrar athugasemdir við greinargerð kærða og gagnrýndi meðal annars ákvörðun um vörslusviptingu, gegn mótmælum sínum og þrátt fyrir ágreining þeirra um lögmæti vörslusviptinga, beiðni kæranda um rökstuðning á meintum vanefndum og kröfu um dómsúrskurð. Þá telur kærandi, í umfjöllun um vörslusviptingar, ekki hægt að semja sig frá skýrum ákvæðum aðfararlaga.
Kærandi telur kærða eiga að sjá til þess að ólöglærður starfsmaður Z hf. vinni ekki verk sem eiga að vera unnin af lögmönnum, sbr. 4. gr. siðareglna lögmanna.
Kærandi telur kærða hafa samþykkt að bifreiðin sem keypt var á kaupleigu í lok árs 2005 yrði tekin án úrskurðar dómstóla. Gæti kærði ekki fríað sig ábyrgð á þeim aðferðum sem handrukkarar nota við þau verkefni, sem þeim eru falin og þeir frá greitt fyrir.
Þá gerði kærandi athugasemdir við þau tilboð sem hún fékk um greiðslujöfnun eða höfuðstólslækkun og önnur úrræði, svo og einhliða riftun og forsendur hennar.
Niðurstaða.
Sá sem telur lögmann hafa í störfum sínum gert á sinn hlut með háttsemi sem stríðir gegn lögum eða siðareglum lögmanna getur sent kvörtun til úrskurðarnefndar lögmanna, sbr. 1. mgr. 27. gr. lögmannalaga, nr. 77/1998.
Samkvæmt upplýsingum frá skrifstofu Lögmannafélags Íslands er kærði ekki sjálfstætt starfandi lögmaður eða starfsmaður á lögmannsstofu, heldur hefur hann verið tilkynntur félaginu sem starfsmaður Z hf. Hann er þannig í ráðningarsamningssambandi við vinnuveitanda sinn og nýtur samningsbundinna réttinda og skyldna í því starfi. Hann lýtur meðal annars boð- og skipunarvaldi yfirmanns eða yfirmanna á vinnustað, í samræmi við það skipulag er þar gildir.
Siðareglur lögmanna fela einkum í sér ákvæði er varða réttindi og skyldur sjálfstætt starfandi lögmanna og starfsmanna þeirra sem hafa lögmannsréttindi. Lúta reglurnar að störfum og framkomu lögmanna í samskiptum þeirra við skjólstæðinga sína, dómstóla, aðra lögmenn og gagnaðila skjólstæðinga sinna. Eðli málsins samkvæmt eiga fæst ákvæði siðareglnanna við um lögmenn sem eru í ráðningarsamningssambandi við fyrirtæki,að lögmannsstofum frátöldum, stofnanir og aðra lögaðila. Eru það helst nokkur ákvæði í I. kafla reglnanna sem koma til álita, og eftir atvikum ákvæði III. kafla, þegar lögmaður rekur mál vinnuveitanda síns fyrir dómi. Ákvæði III. kafla eru ekki til skoðunar í þessu máli.
Samkvæmt því sem fram er komið í málinu hafði kærði nokkur afskipti af máli kæranda hjá Z hf., meðal annars vegna samskipta við opinberar stofnanir. Hann kveðst hafa falið innheimtusviði fyrirtækisins að setja mál kæranda í tilgreindan farveg, sem kynni að enda með afhendingu bifreiðarinnar eða vörslusviptingar hennar. Samkvæmt lýsingu kærða byggðust þær aðgerðir á samningi kæranda og Z hf., en samkvæmt 15. gr. samningsins var fyrirtækinu heimilt að færa bifreiðina úr vörslum kæranda, án atbeina sýslumanns, ef til riftunar samningsins kæmi. Ekki verður séð að aðgerðirnar hafi stuðst við ákvæði aðfararlaga nr. 90/1989 eða nauðungarsölulaga nr. 90/1991, enda ekki um fullnustuaðgerð að ræða. Ekkert hefur komið fram í gögnum málsins um að kærði hafi gefið vörslusviptingaraðila fyrirmæli um framkvæmd vörslusviptingarinnar.
Að virtum öllum gögnum málsins er það mat úrskurðarnefndar að kærði hafi ekki gert á hlut kæranda með háttsemi sem stríðir gegn lögum eða siðareglum lögmanna.
Ú R S K U R Ð A R O R Ð :
Kærði, Y, hdl., hefur í störfum sínum ekki gert á hlut kæranda, X, með háttsemi sem stríðir gegn lögum eða siðareglum lögmanna.