Mál 9 2010
Ár 2011, föstudaginn 3. júní, var haldinn fundur í úrskurðarnefnd lögmanna í húsnæði Lögmannafélags Íslands að Álftamýri 9, Reykjavík.
Fyrir var tekið málið nr. 9/2010:
B
gegn
S hdl.
og kveðinn upp svofelldur
Ú R S K U R Ð U R :
Í erindi B, kæranda, til úrskurðarnefndar lögmanna, mótt. 9. júní 2010, var kvartað yfir vinnubrögðum af hendi S, kærðu,við skiptastjórn á þrotabúi H. Lýtur kvörtunin sérstaklega að því að kærða hafi ráðstafað eignum kæranda við skiptin, nánar tiltekið hlut í K ehf., lóðarskika sem þeim eignarhlut tengdist og hjólhýsi sem þar stóð.
Kærða sendi nefndinni greinargerð um málið þann 18. ágúst 2010 og var kæranda gefinn kostur á að gera athugasemdir við hana. Athugasemdir við greinargerð kærðu bárust 10. september 2010 og voru kynntar kærðu með bréfi 12. janúar 2011. Að fengnum fresti vegna sérstakra aðstæðna svaraði kærða þessum athugasemdum með bréfi mótteknu 10. maí 2011.
Málsatvik og málsástæður.
I.
Málsatvik eru þau, eftir því sem fram kemur í kvörtun kæranda, greinargerð kærðu og gögnum málsins, að bú H var tekið til gjaldþrotaskipta með úrskurði héraðsdósms [í] júlí 2008. Innköllun var birt í Lögbirtingablaðinu [í] júlí 2008 og rann kröfulýsingafrestur út [í] september. Við eignakönnun í búinu komst skiptastjóri, kærða í máli þessu, m.a. að því að tveir eignarhlutar í K ehf. voru taldir eign þrotamannsins á skattframtali.
Kröfuskrá lá fyrir [í] október 2008 og féllst kærða á allar kröfur utan eina. Var skiptafundur haldinn [í] október þar sem m.a. var upplýst um mögulega eign búsins í K ehf.
Þann 18. febrúar 2009 ritaði kærða fyrirsvarsmanni K bréf þar sem leitað var svara við því hvort félagið myndi leysa til sín hluti þrotamannsins í félaginu, en félagið átti forkaupsrétt samkvæmt samþykktum sínum. Í símtali við kærðu kvað stjórnarformaður félagsins þrotamanninn aðeins hafa átt einn hlut. Til hefði staðið að hann keypti annan hlut, en af því hefði ekki orðið. Félagið svaraði erindi skiptastjórans að öðru leyti með því að bjóða 1.250.000 krónur fyrir hlut þrotamannsins með tölvupósti 27. febrúar. Samþykkti kærða það boð með tölvupósti 10. mars, en á skiptafundi [í] febrúar hafði kröfuskrá verið samþykkt. Með tölvupóstinum sendi kærða drög að kaupsamningi til yfirlestrar og eftir atvikum undirritunar.
Kærðu barst í framhaldi af þessu tölvupóstur frá fyrirsvarsmanni K ehf. þann 12. mars 2009 þar sem upplýst var um frekari flækjur sem eignarhlutnum tengdust. Kom þar fram að hverjum eignarhlut í félaginu fylgdi leiguréttur að einni lóð og skyldi þá gerður leigusamningur þar um. Slíkan leigusamning hefði þrotamaðurinn aldrei gert, en „á hinn bóginn nýtt lóðina undir jarðfast hjólhýsi" Væri félaginu ókunnugt um skilmála eldri samninga sem þrotamaðurinn kynni að hafa gert við fyrri eigendur vegna þessarar landspildu. Þá þyrfti að koma fram hvað ætti að verða um hjólhýsið og hver ætti að fjarlægja það, en það væri þarna jarðfast í óleyfi. Í símtölum kærðu við fyrirsvarsmann félagsins í framhaldi af þessu kom fram að hjólhýsi þetta væri gamalt og verðlaust og vildi félagið að það yrði fjarlægt af þrotamanninum eða fyrri eiganda, B, kæranda í máli þessu. Kom í ljós við könnun kærðu að kærandi var skráður fyrir umræddri lóð hjá Fasteignamati ríkisins. Virðist óumdeilt að allt fram að þessu tímamarki var kærðu alls ókunnugt um umræddan lóðarskika og hjólhýsi og viðskipti kæranda og þrotamannsins.
Kærða ræddi við þrotamanninn um þessi mál í símtali 24. mars 2009 og liggur fyrir skrifleg símaskýrsla sem kærða ritaði um efni símtalsins. Kemur þar fram að þrotamaðurinn hafi verið upplýst um ofangreind samskipti við K ehf., þ.á.m. um að hvorki fyrri eigandi, kærandi í máli þessu né hún sjálf hefðu haft skriflegan leigusamning um landspilduna. Þar væri gamalt og verðlaust hjólhýsi og hefði þrotamaður upplýst að bæði hún og kærandi ættu þar persónulega muni. Þá hefði þrotamaður verið upplýst um að líklegast þyrfti hún eða kærandi að fjarlægja þessa persónulegu muni og hjólhýsið. Í framhaldi af þessari símaskýrslu aflaði kærða þeirra upplýsinga hjá Fasteignamati að kærandi hefði á sínum tíma verið tilkynntur þangað sem umráðamaður lóðar og þannig væri skráningin enn. Fyrir liggur að þrotamaður véfengir þessa skýrslu um símtalið og að hún sendi kærðu tölvupóst tveimur dögum eftir símtalið. Kærða fylgdi umræddu símtali eftir með tölvupósti til þrotamannsins þar sem hún óskaði eftir upplýsingum um málavexti og atvik að baki því að B væri skráður fyrir lóðinni í fasteignaskrá. Þrotamaðurinn svaraði póstinum án þess að veita umbeðnar upplýsingar en í svari hans segir að enn sé „vafamál með eignarréttinn á þessu".
Kærða hóf þegar tilraunir til að ná tali af kæranda með símtölum og tölvupóstum. Ber aðilum málsins ekki að fullu saman um samskipti sín í framhaldi af því.
Kærða kveður kæranda hafa hringt í sig stuttu eftir að hún sendi honum tölvupóst 25. mars 2008. Þá hafi kærandi upplýst að hann hefði selt þrotamanninum hlutinn í K ásamt lóðinni og hjólhýsinu. Þrotamaðurinn hefði vanefnt kaupin. Kærandi hafi ekki haldið því fram að hann væri eigandi að hlutnum í K, lóðinni eða hjólhýsinu eða gert athugasemdir við að um væri að ræða gamalt jarðfast hjólhýsi sem lítil verðmæti væru í. Kærða kveðst hafa leiðbeint kæranda um að fá sér lögmann til aðstoðar og um að lýsa eftir atvikum síðbúinni kröfu í búið. Þessu símtali hafi verið fylgt eftir með framlögðum tölvupóstum 6. og 16. apríl þar sem sérstaklega er kallað eftir svari við því hvort kærandi geri tilkall til hjólhýsisins, en kærandi hafi ekki sinnt málinu frekar og hafi hún litið svo á að hann hefði ákveðið að hafast ekki frekar að í málinu.
Kærandi byggir hins vegar á því að kærða hafi ekkert aðhafst til að senda sér formlegt erindi vegna málsins og hann hafi ekkert af því vitað fyrr en hann sá tölvupóstana frá apríl 2008 alllöngu síðar. Hafi hann þá haft samband við kærðu og m.a. tjáð henni að til hefði staðið að hann seldi þrotamanninum eignarhlutinn í K og hjólhýsið en af því hefði ekki orðið. Hins vegar hafi sér verið að meinalausu að hún notaði það. Hafi kærða ekki rætt við sig um sölu þessara eigna úr búinu.
Kærða seldi K ehf. sjálfu eignarhlut þrotamannsins í félaginu ásamt rétti „til lóðarleigu lóðar með landnúmer [...]. Á tilgreindri lóð er gamalt jarðfast hjólhýsi og fylgir það einnig með í kaupum" eins og greinir í kaupsamningi og afsali, dags. 3. júní 2009.
Þann 16. júlí 2009 fóru menn að sækja hjólhýsið, en var meinað að fjarlægja það og var lögregla kvödd til. Við athugun lögreglu kom fram að hjólhýsið var skráð í ökutækjaskrá og var kærandi þar tilgreindur sem eigandi. Hafði lögreglan samband við kærðu og urðu lyktir þær að flutningurinn var stöðvaður og hjólhýsið innsiglað. Kveður kærandi umrædda menn hafa verið á sínum vegum og hafi hann aflað bráðabirgðaskráningar eftir að hafa frétt að búið væri að selja hlutinn í K. Kærða ber í greinargerð sinni brigður á þetta og bendir á að þarna hafi m.a. verið á ferð sambýlismaður þrotamannsins og börn hennar. Hafi þau hvorki getað sýnt fram á eignarheimild né framvísað umboði frá kæranda. Er í greinargerðum aðila nokkuð fjallað um tengsl kæranda og þrotamannsins en þau þykja ekki hafa þýðingu í þessu máli eins og það horfir við úrskurðarnefndinni.
Þann 14. september 2009 ritaði N hrl. kærðu bréf f.h. kæranda og krafðist tafarlausrar afhendingar umrædds hjólhýsis. Ella yrði leitað atbeina dómstóla. Bar kærða þá málaleitan undir fyrirsvarsmann K ehf., en hann svaraði því til 23. september að fjalla þyrfti um málið á stjórnarfundi en ólíklegt væri að fallist yrði á kröfuna. Kærða svaraði svo umræddu bréfi 8. mars 2010 og rakti þar gang málsins. Lýsti hún jafnframt þeirri afstöðu að kærandi hefði selt þrotamanninum eignarhlut sinn ásamt lóðarskikanum og hjólhýsinu og skipti þar engu þótt eigendaskiptin hafi ekki verið tilkynnt til umferðarstofu. Kærandi hafi ekki gert tilkall til hjólhýsisins né gert kröfu í búið og sé kröfu kæranda (um afhendingu hjólhýsins úr hendi þrotabúsins) því hafnað, en bent á að kærandi kunni að eiga kröfu á hendur núverandi umráðamanni hjólhýsisins.
II.
Í kvörtun sinni lýsir kærandi því hvernig málið horfir við honum. Þrotamaðurinn hafi í raun hvorki átt hlutinn í K og tilheyrandi leiguréttindi né hjólhýsið og hafi bæði kærandi og þrotamaðurinn upplýst kærðu um það. Hafi hann enga ástæðu haft til að ætla að kærða myndi sem skiptastjóri í búi þrotamannsins ráðstafa þessum eignum sínum. Kvartanir hans beinast að því að eignirnar hafi verið seldar þótt kærðu hafi verið ljóst að um umdeildar eignir væri að ræða og að hún hafi auk þess aðeins byggt á mati þess sem ætlaði sér að kaupa eignirnar um verðmæti þeirra. Hafi hún því ráðstafað nýlegu hjólhýsi sem í fólust veruleg verðmæti endurgjaldslaust í hendur forráðamanna K ehf., en þeir hafi svo samstundis selt það áfram fyrir nokkrar milljónir. Þá hafi verðmatið á hlutnum og meðfylgjandi landsskika verið fráleitt, m.a. með tilliti til gróðursetningar í landinu undanfarin ár. Hafi vanræksla og handvömm kærðu leitt til þeirrar niðurstöðu að hann hafi misst milljónaverðmæti í hendur K ehf.
Þá kvartar kærandi yfir því að sér hafi gengið erfiðlega að fá nokkur svör frá kærðu og þau hafi verið misvísandi. Hafi kærða dregið lappirnar við að leysa úr málinu og bendir kærandi í því samhengi á að erindi lögmanns síns frá 14. september 2009 hafi fyrst verið svarað hálfu ári eftir að það barst kærðu
Kröfur kæranda, eins og þær koma fram í kvörtun hans eru þær eru að kærða sæti vítum og verði gerð bótaskyld persónulega. Þá krefst kærandi þess að sér verði skilað bæði hlut sínum í K ehf. og umræddu hjólhýsi, „saman eða sitt í hvoru lagi, í sama ástandi og þeir voru þegar þeim var ráðstafað með þessum makalausa hætti", auk þess sem hann krefst afhendingar muna sem hann eigi í hjólhýsinu. Geti kærða ekki afhent þessa hluti er þess krafist að hún standi skil á raunverulegu andvirði þeirra til kæranda, þannig að hann verði eins settur og ef hann hefði fengið hlutina í hendur í júní 2009.
Loks gerir kærandi kröfu um allan kostnað vegna málareksturs síns fyrir nefndinni úr hendi kærðu.
III.
Kærða krefst þess aðallega að erindi kæranda verði vísað frá kærunefndinni þar sem umfjöllunarefnið eigi ekki undir nefndina. Kæran beinist að meintri ráðstöfun á eign þriðja manns úr þrotabúi, en um réttarúrræði þess sem telur sig verða fyrir slíku sé fjallað í lögum um gjaldþrotaskipti. Úrskurðarnefndin hafi engar valdheimildir til að fallast á kröfur kæranda um að fella ábyrgð á kærðu. Auk þessa sé kröfugerð kæranda svo vanreifuð að ekki sé unnt að átta sig á því hvaða háttsemi kærðu kærandi telji stríða gegn lögum eða siðareglum lögmanna.
Til vara krefst kærða þess að úrskurðarnefndin kveði upp úrskurð um að hún hafi ekki sýnt af sér háttsemi sem kunni að stríð gegn lögum eða siðareglum lögmanna. Rekur kærða í greinargerð sinni málsatvik eins og þau horfa við henni.
Ljóst sé af gögnum að kærandi hafi í raun selt umræddum þrotamanni hlut sinn í K ehf. ásamt umræddu hjólhýsi, enda hafi þau bæði gengist við því í samtölum sínum við kærðu og þrotamaðurinn í raun farið með umráð eignanna.. Hvorki þrotamaðurinn, né kærandi hafi hreyft því við kærðu að kærandi ætti þessar eignir þegar búið var tekið til skipta. Leggur kærða áherslu á að hvorki þrotamaðurinn né kærði, hafi í samtölum sínum við hana borið brigður á að þrotamaðurinn ætti umræddan hlut í K ehf. eins og fram komi á skattframtölum þrotamannsins, né að á umræddum lóðaskika væri gamalt verðlaust hjólhýsi. Hafi kærandi aldrei gert neina kröfu í þrotabúið og ekki gert neina kröfu um afhendingu hjólhýsisins fyrr en með bréfi N hrl. í september 2009 þegar frestur til þess var löngu liðinn. Krafa um afhendingu hlutarins í K ehf. hafi hins vegar fyrst verið sett fram í kvörtunarmáli þessu.
Kærða mótmælir fullyrðingum kæranda um verðmæti þeirra eigna sem hér um ræðir. Hún kveður ljóst að ágreiningur sé um eignarhald á umræddu hjólhýsi, en of seint sé að gera kröfu um afhendingu þess úr þrotabúinu og um það verði kærðu ekki kennt og ágreiningur um það ekki leystur fyrir úrskurðarnefnd lögmanna.
Kærandi hafi aldrei beint nema einu erindi til sín, þ.e. bréfinu frá sept 2009 og því hafi verið svarað. Sé því ekki rétt að kæranda hafi gengið illa að fá svör frá sér eða þau verið misvísandi.
Loks krefst kærða málskostnaðar úr hendi kæranda, að mati úrskurðarnefndarinnar.
Niðurstaða.
Sá sem telur lögmann hafa í störfum sínum gert á sinn hlut með háttsemi sem stríðir gegn lögum eða siðareglum lögmanna getur sent kvörtun til úrskurðarnefndar lögmanna, sbr. 1. mgr. 27. gr. lögmannalaga, nr. 77/1998. Í afgreiðslu á erindi sem berst nefndinni getur hún fundið að vinnubrögðum lögmanns eða veitt honum áminningu, ef um stórfelld eða ítrekuð brot er að ræða, sbr. 28. gr. lögmannalaga. Ef sakir eru miklar eða lögmaður hefur ítrekað sætt áminningu getur nefndin í rökstuddu áliti lagt til við ráðherra að réttindi lögmannsins verði felld niður tímabundið eða hann sviptur réttindum.
Í samræmi við þessa afmörkun verður að vísa frá kröfum kæranda um að honum verði skilað tilgreindum hlutum og um bætur úr hendi kærðu að öðrum kosti, enda hefur úrskurðarnefndin ekki valdheimildir til að kveða upp úrskurði um það sakarefni.
Um gjaldþrotaskipti er kveðið í lögum nr. 21/1991, um gjaldþrotaskipti o.fl. (GÞL). Þar er m.a. fjallað um skipun skiptastjóra, hlutverk þeirra, samskipti við kröfuhafa, meðferð hagsmuna og skyldna búsins og skiptalok.
2. og 3. mgr. 123. gr. GÞL fjalla um eignir sem tilheyra ekki þrotabúið eða óvissa er um. Þar segir:
- Ef eign er í vörslum þrotabúsins og óvissa er um réttindi yfir henni eða vitað er að hún tilheyri því ekki, en enginn gefur sig fram innan kröfulýsingarfrests til að krefjast hennar, má skiptastjóri ráðstafa henni að undangenginni birtingu áskorunar í Lögbirtingablaði til eigandans um að gefa sig fram. Ef eignin liggur undir skemmdum eða meiri kostnaður væri af varðveislu hennar á kröfulýsingarfresti en ætla má að andvirði hennar nemi má skiptastjóri þó ráðstafa henni á kröfulýsingarfresti að undangenginni áskorun samkvæmt áðursögðu. Fé sem fæst fyrir slíka eign rennur til þrotabúsins ef enginn kallar eftir því.
-
Nú stendur ekki svo á sem í 2. mgr. segir, skiptastjóri selur eða ráðstafar eign eða réttindum sem þriðji maður var með réttu eigandi að og skiptastjóri vissi eða mátti vita um rétt hans, og getur þá þriðji maður krafið þrotabúið um bætur ef hann fær ekki tjón sitt bætt með kröfu skv. 2. mgr. 109. gr. Slík bótakrafa nýtur stöðu skv. 3. tölul. 110. gr. Hafi sala eða ráðstöfun átt sér stað eftir lok kröfulýsingarfrests og þriðji maður hefur ekki lýst tilkalli sínu áður en hún fór fram getur hann ekki haft uppi kröfu á hendur kaupanda sem hvorki vissi né mátti vita um réttindi hans.
Í XXII. kafla laganna er fjallað um skiptalok. Þar kemur m.a. fram að þegar frumvarp hefur verið gert til úthlutunar skal skiptastjóri boða til skiptafundar til að fjalla um það með auglýsingu í Lögbirtingablaði. Í auglýsingunni skal m.a. koma fram að frumvarpið verði til sýnis fyrir lánardrottna og aðra sem eiga lögmætra hagsmuna að gæta síðustu tvær vikurnar fyrir fundinn og að vænta megi að frumvarpið verði lagt óbreytt til grundvallar sem úthlutunargerð ef engin andmæli koma fram gegn því.
Komi fram mótmæli gegn frumvarpinu á skiptafundinum skal skiptastjóri krefja þann sem hefur mótmælin uppi svara um hverjar breytingar hann telji eiga gera á frumvarpinu. Ef aðeins er krafist breytinga sem skiptastjóri telur efni til að fallast á getur hann breytt frumvarpinu samkvæmt því og lokið skiptum, ef eingöngu eru leiðréttar augljósar eða óverulegar skekkjur eða fundurinn er sóttur af hálfu allra sem breytingin varðar og þeir samþykkja hana. Verði það ekki gert skal skiptastjóri boða til nýs fundar eftir 1. mgr. 159. gr. um frumvarpið svo breytt. Verði mótmælum ekki sinnt með þessum hætti skal skiptastjóri kveðja þá sem mótmælin varða til fundar, séu þeir ekki staddir á skiptafundinum, og leitast við að jafna ágreininginn. Takist það ekki skal skiptastjóri beina málefninu til héraðsdóms eftir 171. gr. GÞL.
Óumdeilt er að frumvarp til úthlutunar úr búi þrotamannsins lá fyrir [í] mars 2009 og að þá var boðað til skiptafundar til að fjalla um frumvarpið.
Að mati úrskurðarnefndar verður ekki annað ráðið af orðalagi framangreindra GÞL en að löggjafinn marki þar ákveðnum ágreiningsmálum og álitaefnum, er varða m.a. ágreining um eignarhald á réttindum eða munum sem búinu kunna að tilheyra, þann farveg að fela skuli eingöngu hlutaðeigandi héraðsdómstóli úrlausn þeirra.
Samkvæmt 1. mgr. 27. gr. lögmannalaga nr. 77/1998 getur sá sem telur að lögmaður hafi í starfi sínu gert á sinn hlut með háttsemi sem stríði gegn lögum eða siðareglum lögmanna lagt fyrir úrskurðarnefnd lögmanna kvörtun á hendur lögmanninum
Skiptastjórar í þrotabúum hafa opinberu hlutverki að gegna í samræmi við ákvæði GÞL og mótast samskipti þeirra við kröfuhafa og aðra sem tengjast skiptunum af því hlutverki. Þeir eru ekki ráðnir til verksins af kröfuhöfum og milli þeirra er þannig ekki samningssamband eins og er milli lögmanns og umbjóðanda hans.
Kærða var skipuð skiptastjóri í þrotabúi H í Héraðsdómi Reykjaness þann [í] júlí 2008. Um stöðu hennar og hlutverk, réttindi og skyldur, fer því samkvæmt GÞL. Kærandi er samkvæmt framangreindu ekki umbjóðandi kærðu og verður ágreiningur milli þeirra um einstakar eignir og ráðstöfun þeirra, ekki lagður fyrir úrskurðarnefnd á grundvelli 1. mgr. 27. gr. lögmannalaga.
Með vísun til þeirra sjónarmiða er hér hafa verið rakin, fellur ágreiningur sóknaraðila og varnaraðila um ráðstöfun kærðu á réttindum sem kærandi gerir tilkall til, utan lögbundins valdsviðs úrskurðarnefndar lögmanna. Ber því að vísa málinu frá, sbr. 3. mgr. 10. gr. málsmeðferðarreglna nefndarinnar.
Eftir atvikum þykir rétt að málskostnaður falli niður.
Ú R S K U R Ð A R O R Ð :
Erindi kæranda, B, vegna ágreinings um ráðstafanir kærðu, S hdl., við skiptastjórn í þrotabúi H, er vísað frá.