Mál 14 2010

Ár 2011, fimmtudaginn 23. maí, var haldinn fundur í úrskurðarnefnd lögmanna í húsnæði Lögmannafélags Íslands að Álftamýri 9, Reykjavík.

Fyrir var tekið málið nr. 14/2010:

J, félag [...]

gegn

S hrl.

og kveðinn upp svofelldur

Ú R S K U R Ð U R :

Í erindi J, kæranda, til úrskurðarnefndar lögmanna, dags. 7. október 2010, var kvartað yfir vinnubrögðum S hrl., kærða, við meðferð máls, þar sem kærandi lánaði einum félagsmanna sinna fé, sem skyldi endurgreiðast af slysabótum sem hann átti von á að fá greiddar fyrir milligöngu kærða og lögmannsstofu hans. Lýtur kvörtunin nánar tiltekið að því að kærði hafi ásamt kæranda og lántakandanum skrifað undir þríhliða samkomulag sem fól í sér að kærði endurgreiddi kæranda lánið af slysabótunum. Kærði hafi hins vegar ekki tryggt að þetta gengi eftir heldur greitt allar slysabæturnar til lántakandans. Þá hafi kærði ekki svarað erindum kæranda vegna málsins.

Kærði sendi nefndinni greinargerð um málið þann 4. febrúar 2011 og var kæranda gefinn kostur á að gera athugasemdir við hana. Athugasemdir kæranda við greinargerð kærða bárust 27. maí apríl 2011 og lokaathugasemdir kærða vegna þeirra bárust nefndinni 20. júní 2011.

I. Málsatvik

Ekki er deilt um málsatvik, en þau eru, eftir því sem fram kemur í kvörtun kæranda, greinargerð kærða og gögnum málsins, að kærði fór með skaðabótamál fyrir T, félagsmann í kæranda. Í byrjun árs 2008 kom T til starfsmanns styrktar- og sjúkrasjóðs kæranda og óskaði eftir því að sjóðurinn lánaði honum peninga, þar sem hann hefði orðið fyrir líkamstjóni vegna umferðarslyss, en ætti von á bótagreiðslum vegna slyssins. Sjóðurinn samþykkti að veita T lán að fjárhæð kr. 1.175.000 á þeirri forsendu að hann myndi endurgreiða lánið þegar slysabæturnar væru greiddar út. Var vegna þessa gert þríhliða samkomulag, dags. 15. janúar 2008. Er efni samkomulagsins svohljóðandi:

Komi til greiðslu [...] á skaðabótum til T vegna líkamstjóns hans af völdum umferðarslyss þann 28. febrúar 2007, þá skuldbindur T sig til að endurgreiða styrktar- og sjúkrasjóðnum þær greiðslur, sem hann hefur fengið greiddar úr sjóðnum vegna þessa slyss.

Þar sem greiðslur skaðabótanna ganga til S hf [svo]., sem rekur skaðabótamálið fyrir hönd  T, þá skuldbindur lögmannsstofan sig til að kalla eftir upplýsingum um fjárhæð greiðslna úr styrktar og sjúkrasjóðnum til T og skila þeirri fjárhæð strax til sjóðsins, þegar S ehf. fær í hendur skaðabótagreiðslurnar vegna umferðarslyssins.

Undir þetta þríhliða samkomulag rituðu, fulltrúi Styrktar og sjúrkrasjóðs J fyrir hönd sjóðsins, T sjálfur og kærði fyrir hönd S ehf.

Þegar sjóðinn tók að lengja eftir endurgreiðslu fóru starfsmenn hans að kanna málið. Kom þá í ljós að tryggingafélagið var búið að greiða S ehf., lögmannsstofu kærða, út bæturnar og hafði lögmannsstofan þegar greitt T bæturnar út. Ekki liggur fyrir í gögnum málsins hvenær kæranda varð þetta ljóst, en með bréfi, dags. 6. apríl 2010 var T krafinn um endurgreiðslu lánsins. Sinnti hann því erindi ekki. Þann 6. júlí 2010 sendi kærandi kærða tölvupóst og spurðist fyrir um stöðu skaðabótamálsins og endurgreiðslu lánsins. Þeim tölvupósti svaraði kærði ekki. Var tölvupósturinn ítrekaður 28. júlí s.á. og enn daginn eftir. Var þá jafnframt rifjað upp að starfsmaður lögmannsstofunnar hefði verið að kanna málið í febrúar 2010 samkvæmt beiðni frá þáverandi framkvæmdastjóra kæranda en engin svör borist. Var þessum starfsmanni sent skeyti 26. ágúst 2010 og aftur 6. október s.á. en engin svör bárust frá kæranda eða lögmannsstofu hans.

Þann 21. janúar 2011 gaf kærandi út einhliða yfirlýsingu vegna málsins. Þar er vísað til málsatvika, sérstaklega þess að lögmannsstofan S hafi tekið að sér að halda eftir fjármunum sem næmi skuld T við Styrktar og sjúkrasjóðinn, en ekki staðið við það. Með yfirlýsingunni fellst kærandi á beiðni T um að fella niður skuld hans vegna bágrar fjárhagsstöðu hans og aðtæðna að öðru leyti. Þá kemur fram að kærandi hafi ekki tekið ákvörðun um framhald málsins gagnvart lögmannsstofunni „vegna samningsbrota lögmanns hennar".

II. Kröfur og málsástæður kæranda

Kærandi telur ljóst að kærði hafi svikið það samkomulag sem hann skrifaði undir í janúar 2008, en samkomulagið hafi verið algjör forsenda umræddrar lánveitingar. Þá hafi kærði og starfsmenn hans hunsað allar fyrirspurnir kæranda um stöðu mála og endurgreiðslu lánsins. Muni féð væntanlega tapast, en það hafi verið lánað á þeirri forsendu að kærða mætti treysta eins og öðrum lögmönnum. Þetta mál muni væntanlega leiða til þess að kærandi treysti sér ekki til að veita sambærileg lán á grundvelli trausts til þess að lögmenn efni samninga af þessu tagi. Þurfi sjóðurinn væntanlega að kosta nokkru til að fá féð endurgreitt frá kærða og T. Telur kærandi að kærði hafi sýnt af sér ámælisverð vinnubrögð þegar hann sveik umrætt samkomulag.

Af hálfu kæranda hefur verið lögð áhersla á að kvartað sé yfir ámælisverðum vinnubrögðum kærða, en ekki sé í þessu máli krafist endurgreiðslu eða byggt á kröfuréttarlegum sjónarmiðum. Starfsleg ábyrgð kærða á gjörðum sínum eða athafnaleysi standi óhögguð og geti kærði ekki vikið sér undan henni með því að bera fyrir sig handvömm starfmanna á lögmannsstofu sinni eða benda á hlutafélagið um lögmannsstofureksturinn. Það hvort kærandi hafi lögvarða fjárhagslega hagsmuni af því að fá kröfu sína innheimta og hvort félagið hafi fellt hana niður gagnvart skuldaranum skipti ekki máli þegar starfsleg ábyrgð kærða sé metin.

Verður kröfugerð kærenda skilin svo að þess sé krafist að kærði sæti viðurlögum samkvæmt 2. mgr. 27. gr. laga um lögmenn nr. 77/1998.

III. Kröfur og málsástæður kærða

Kærði krefst þess aðallega að málinu verði vísað frá úrskurðarnefnd lögmanna.

Er frávísunarkrafa kærða studd þeirri röksemd að kærði sé ekki aðili að samkomulaginu frá 15. janúar 2008. Undirritun kærða undir samkomulagið sé ekki í eigin nafni heldur f.h. S ehf. Ágreiningur vegna efnis samkomulagsins eða efnda á því hljóti að vera á milli þeirra sem aðild eigi að því og kröfum vegna þess verði ekki beint að öðrum. Mat á því hvort S ehf. hafi gerst brotleg við efni samkomulagsins sé kröfuréttarlegs eðlis og yrðu eingöngu aðilar að samkomulaginu bundnir við hugsanlega dómsúrlausn um það álitaefni. Á lögmannsstofunni S starfi fjöldi lögmanna og komi oftast fleiri en einn lögmaður að hverju máli. Hafi svo verið í þessu máli. Beri kærði enga persónulega skuldbindingu samkvæmt efni samkomulagsins og geti því ekki orðið brotlegur í skilningi þess. Sé úrskurðarnefndin því hvorki í aðstöðu né rétti til að úrskurða um hvort starfshættir kærða kunni að hafa strítt gegn lögum eða siðareglum LMFÍ.

Frávísunarkrafa kærða er einnig byggð á þeirri málsástæðu að með yfirlýsingu kæranda frá 21. janúar 2011 hafi kærandi fellt samkomulagið frá 15. janúar 2008 úr gildi og hafi það engin réttaráhrif. Sé ljóst að þar sem kærandi hafi ekki látið reyna á greiðslugetu T hafi hann í raun gefið honum umrætt fé. Þá sé ekki unnt að líta á lögmannsstofuna sem ábyrgðarmann vegna greiðslufalls T.

Til vara krefst kærði þess að nefndin úrskurði að kærði hafi í stöfum sínum ekki gert á hlut kæranda með háttsemi sem stríði gegn lögum eða siðareglum lögmanna. Byggir sú krafa á því að kærandi eigi sönnunarbyrði um að kærandi hafi sýnt af sér háttsemi sem stríði gegn lögum eða siðareglum lögmanna. Þetta hafi kæranda ekki tekist að sýna fram á. Eina aðkoma kærða hafi verið að undirrita skjal f.h. lögmannsstofunnar S ehf., en það hafi hann gert sem framkvæmdastjóri stofunnar. Telur kærði að kærandi misskilji efni samkomulagsins, en kærði verði ekki krafin um neinar efndir á því. Sé því ekki unnt að byggja kröfur á hendur honum á því að samkomulagið hafi ekki verið efnt.  Þess utan hafi kærði ekki sýnt fram á að neitt í vinnubrögðum kærða hafi brotið gegn efni umrædds samkomulags.

IV. Niðurstaða.

Sá sem telur lögmann hafa í störfum sínum gert á sinn hlut með háttsemi sem stríðir gegn lögum eða siðareglum lögmanna getur sent kvörtun til úrskurðarnefndar lögmanna, sbr. 1. mgr. 27. gr. lögmannalaga, nr. 77/1998. Í afgreiðslu á erindi sem berst nefndinni getur hún fundið að vinnubrögðum lögmanns eða veitt honum áminningu, ef um stórfelld eða ítrekuð brot er að ræða, sbr. 28. gr. lögmannalaga. Ef sakir eru miklar eða lögmaður hefur ítrekað sætt áminningu getur nefndin í rökstuddu áliti lagt til við ráðherra að réttindi lögmannsins verði felld niður tímabundið eða hann sviptur réttindum.

Frávísunarkrafa kærða byggir á því að þar sem hann hafi skrifað undir samkomulagið frá janúar 2008 f.h. hlutafélags, sé hann ekki sjálfur við það bundinn heldur hlutafélagið. Vanefndir á samkomulaginu geti því ekki haft réttarverkanir fyrir hann heldur hlutafélagið.

Ekki er unnt að fallast á þessa röksemdafærslu. Kærði er lögmaður. Hann hefur málflutningsréttindi og heyra lögmannsstörf hans undir úrskurðarnefndina, sbr. 3. mgr. 3. gr. lögmannalaga. Enda þótt kærði hafi kosið að stofna hlutafélag um rekstur lögmannsstofu sinnar, ásamt fleiri lögmönnum, leysir það hann ekki undan úrskurðarvaldi nefndarinnar. Er ekki unnt að líta svo á að þær skuldbindingar sem kærði tekur á sig í rekstri stofunnar séu að þessu leyti sambærilegar við það að hann riti undir samninga f.h. óskyldra aðila á grundvelli umboðs. Hlutu viðsemjendur hans að treysta því að hann tæki sem lögmaður ábyrgð á vinnubrögðum lögmannsstofunnar.

Nefndin fjallar í máli þessu um kvörtun kærenda vegna þess að kærði hafi tekið að sér að sjá um endurgreiðslu láns, en hann hafi síðan brotið gegn starfsskyldum sínum með því að standa ekki við samkomulagið. Á hinn bóginn fjallar nefndin ekki um fjárskiptagrundvöll aðila að samkomulaginu frá janúar 2008 og skiptir því engu fyrir mál þetta hvaða kröfur aðilar þess kunna að hafa gefið eftir eða eiga hver á hendur öðrum.

Að þessu athuguðu er frávísunarkröfu kærða hafnað.

Samkvæmt 18. gr. lögmannalaga ber lögmönnum í hvívetna að rækja af alúð þau störf sem þeim er trúað fyrir. Fyrir liggur að kærði tók að sér að kalla eftir upplýsingum um fjárhæð greiðslna úr styrktar og sjúkrasjóðnum til T og skila þeirri fjárhæð strax til sjóðsins, þegar S ehf. fengi í hendur skaðabótagreiðslurnar vegna umferðarslyssins. Sem fyrr greinir þykir ekki skipta máli fyrir starfsskyldur kærða að hann skrifaði undir samkomulagið fyrir hönd þess hlutafélags sem hann hefur stofnað um rekstur lögmannsstofu.

Óumdeilt er í máli þessu að við þetta samkomulag var ekki staðið. Hefur kærði enga tilraun gert til að útskýra hvernig á því stendur, en líta verður svo á að honum hafi borið að fylgja því eftir í störfum sínum að staðið yrði við samkomulagið. Er óhjákvæmilegt að gera aðfinnslur við þetta.

Ú R S K U R Ð A R O R Ð :

Þau vinnubrögð kærða, S hrl., að sjá ekki til þess að staðið yrði við samkomulag um að skila til kæranda, fé af skaðabótum sem lögmannsstofa hans hafði til innheimtu, eru aðfinnsluverð.