Mál 16 2010

Mál 16 2010

Ár 2011, föstudaginn 7. október, var haldinn fundur í úrskurðarnefnd lögmanna í húsnæði Lögmannafélags Íslands að Álftamýri 9, Reykjavík.

Fyrir var tekið málið nr. 16/2010:

S

gegn

F hrl.

 og kveðinn upp svofelldur

Ú R S K U R Ð U R :

Í erindi S til úrskurðarnefndar lögmanna, sem barst nefndinni þann 19. október 2010, var kvartað yfir tveimur reikningum kærða, F hrl., vegna vinnu að bótamálum kæranda vegna tveggja umferðarslysa.

Með bréfi nefndarinnar, dags. 14. nóvember 2010, var óskað eftir greinargerð kærða vegna málsins. Með bréfi mótteknu 18. nóvember 2010, óskaði kærði eftir því að nefndin aflaði upplýsinga um þá lögmannsþóknun sem viðkomandi tryggingafélag hefði greitt vegna slysanna og um þá reikninga sem önnur lögmannsstofa hefði gert kæranda vegna vinnu sinnar að málinu. Með bréfi nefndarinnar, dags. 12. janúar 2011 var ítrekað óskað eftir greinargerð kærða vegna málsins og sú afstaða sett fram að ekki fengist séð hvernig umbeðnar upplýsingar vörðuðu á beinan hátt erindið. Með bréfi mótteknu 25. janúar 2011 bárust nefndinni frekari skýringar og rökstuðningur kærða fyrir því að þessar upplýsingar væru nauðsynlegur fyrir hann til að geta skilað greinargerð og varð úr að nefndin gaf kæranda kost á því að leggja fram umbeðin gögn með bréfi, dags.  20. maí 2011. Með bréfi, mótteknu 13. júní, sendi kærandi tvo reikninga þeirrar lögmannsstofu sem tók við málinu. Voru þessi gögn send kærða og barst greinargerð hans nefndinni 14. júlí 2011. Athugasemdir kæranda við greinargerðina bárust 6. september 2011. Var kærða gefinn kostur á að gera lokaathugasemdir við þær með bréfi nefndarinnar, dags. 16. sept. 2011, en engar slíkar athugasemdir hafa borist.

Málsatvik og málsástæður.

I.

Töluvert ber á milli frásagna aðila um málsatvik. Þó liggur fyrir að upphaf máls þessa má rekja til þess að kærandi lenti í tveimur umferðarslysum 12. febrúar 2008 og 21. apríl 2009 og leitaði til lögmannsstofu kærða. Hitti hún kærða á fundi þann 24. apríl 2009 og fól lögmannsstofunni að annast innheimtu bóta fyrir sig.

Það liggur einnig fyrir að þann 6. nóvember 2009 sendi kærandi kærða tölvupóst þar sem hún rekur að hún hefði verið í sambandi við tryggingafélagið T og fengið þær upplýsingar þar að hún hefði þurft að fylla út tjónaskýrslu innan árs frá því að fyrra slysið varð. Þar sem hún hefði ekki gert það spurði kærandi kærða hvort hún hefði nokkuð möguleika á að krefjast bóta vegna þessa fyrra umferðarslyss. Kærði svaraði kæranda samdægurs með því að hringja í hana, en þeim ber í veigamiklum atriðum ekki saman um það sem þeim fór á milli í því símtali.

Þann 9. desember 2009 hafði kærandi verið í samband við annan lögmann, Þ hrl. hjá lögmannsstofunni ÞL. Mætti kærandi til kærða þann dag og afhenti honum afturköllun umboðs.

Þann 14. desember 2009 ritaði kærði Þ tölvupóst og kvað gagnaöflun fyrir örorkumat því sem næst lokið. Næmi áfallinn kostnaður samtals kr. 119.000 auk vsk. Spurði kærði Þ hvort hann myndi hlutast til um að þessi kostnaður yrði greiddur. Svar Þ barst kærða 15. desember 2009 og var á þá leið að Þ kvaðst mundu annast að kærandi greiddi reikning vegna vinnu kærða. Væri óskað eftir reikningi með sundurliðun á umræddum kostnaði.

Daginn eftir, þann 16. desember 2009, gaf kærði út tvo reikninga á hendur kæranda. Annar reikningurinn er vegna slyssins 12. febrúar 2008 og hinn vegna slyssins 24. apríl 2009. Í hvoru málinu er innheimt tveggja tíma vinna hæstaréttarlögmanns og þriggja tíma vinna fulltrúa. Heildarfjárhæð hvors reiknings er 59.500 kr., en 74.077 kr. að meðtöldum virðisaukaskatti, svo heildarfjárhæðin nemur 148.154. Reikningarnir voru sendir kæranda og fylgdi þeim sú skýring að þegar umboðið var afturkallað 9. desember hafi gagnaöflun verið sem næst lokið og ekkert því til fyrirstöðu að örorkumat yrði framkvæmt í apríl 2010 að liðnu ári frá seinna slysinu. Þá kom fram að útlagður kostnaður kærða að fjárhæð 44.975 hefði verið endurgreiddur af viðkomandi tryggingafélagi.

Kærandi sendi kærða tölvupóst 3. febrúar 2010 og óskaði eftir því að fá nákvæma sundurliðun reikninganna. Sendi kærði henni svofellt svar daginn eftir:

Skv. gjaldskrá okkar er þóknun í slysamálum ákveðið hlutfall af innnheimtum bótum. Ef mál eru færð frá okkur til annars lögmanns áður en kemur að uppgjöri skal þóknun vera á bilinu 50-175 þkr. eftir því hvar málið er statt hverju sinni. Gagnaöflun var lokið í þínum málum. Tímavinna mín er vegna funda með þér og samskipta við tryggingafélagið, en ég gekk m.a. frá umboði og tilkynningum til tryggingafélagsins. Aðrir starfsmenn sáu um gagnaöflum og samskipti við lækna, sjúkraþjálfara, tryggingafélagið og annað sem því fylgir.

Þóknun í hvoru máli fyrir sig var 59.500, sem er við lægri mörk þess sem gjaldskrá ráðgerir.

Ég minni á að reikningarnir voru á gjalddaga 16. janúar sl.

Kærandi svaraði með því að senda kærða tölvupóst 16. febrúar 2010 og gera athugasemdir við þetta. Helstu athugasemdirnar eru.

  • Að kærði hefði ekki gert henni grein fyrir þessu á fyrsta fundi þeirra, en á heimasíðu lögmannsstofunnar komi fram að öll hugsanleg gjöld séu útskýrð á fyrsta fundi.
  • Að kærði hefði ekki átt að innheimta gjald fyrir fyrsta fund þeirra þar sem hann eigi að vera frír samkvæmt gjaldskránni.
  • Að ekki geti verið rétt að gagnaöflun vegna fyrra slyssins hafi verið nærri lokið þar sem hún hefði aldrei skilað viðeigandi gögnum um það.
  • Að kærði hefði nefnt á fundi þeirra að viðeigandi væri að lögmennirnir deildu málskostnaðinum vegna málsins ef það myndi vinnast. Hafi kærði sagst ætla að ræða þetta við Þ en síðan sent henni „þennan himinháa reikning".

Kvaðst kærandi ekki ætla að borga reikningana fyrr en hún fengi nákvæma sundurliðun og í öllu falli ekki fyrr en hún hefði fengið niðurstöðu út úr tjónamáli sínu.

Kærði svaraði þessu samdægurs með því að hafna því að unnt væri að nýta þjónustu lögmannsstofu hans í 7 eða 8 mánuði og færa svo afrakstur þeirrar vinnu nýjum lögmanni endurgjaldslaust. Kvaðst hann auk þess ekki hafa sagt að það væri viðeigandi að deila kostnaði með viðtakandi lögmanni við þessar aðstæður, aðeins að það væri vel þekkt. Kvaðst hann tilbúinn til að deila þóknuninni jafnt með ÞL en benti á að það væri kæranda að ræða það við þá stofu.

Kærandi sendi kærða enn tölvupóst 30. ágúst 2010 og ítrekaði beiðni sína um nákvæma sundurliðun á reikningunum. Mun það hafa verið í framhaldi af ítrekun reikninganna. Þá óskaði hún staðfestingar á því sem fram kemur á heimasíðu kærða „Fyrsta viðtal við lögmann þar sem lagt er mat á réttarstöðu tjónþola er honum alltaf að kostnaðarlausu."

Kærandi greiddi reikningana 3. september 2010 með fyrirvara um réttmæti þeirra og áskilnaði um að leita réttar síns vegna þeirra. Barst kærunefndinni erindi þetta, sem fyrr greinir, 19. október 2010.

II.

Aðalkrafa kæranda er að kærða verði gert að endurgreiða henni báða reikningana og standa þannig við loforð sem þeir hafi gefið á heimasíðu sinni um að allur mögulegur kostnaður sem fallið geti til sé útskýrður á fyrsta fundi. Til vara krefst kærandi þess að kærða verði gert að endurgreiða henni fyrri reikninginn, en til þrautavara að kærði geri nýja reikninga með lægri upphæð. Verður þessi síðasta krafa skilin svo að þess sé krafist að úrskurðarnefnd ákvarði kærða aðra og lægri upphæð en hann hafi innheimt.

Loks krefst kærandi þess að kærði afhendi nákvæma sundurliðun á reikningunum svo hún geti farið betur yfir þá og gert frekari athugasemdir ef þörf er á og verður þessi síðasttalda krafa skilin svo að skorað sé á kærða að veita slíka sundurliðun undir rekstri málsins.

Kærandi segir kærða hafa útskýrt fyrir sér á fyrsta fundi þeirra að hún þyrfti ekkert að greiða nema málið ynnist.

Kærðu segist svo frá að eftir að hún greindi kærða frá því að tryggingafélagið vildi ekki greiða bætur fyrir fyrra slysið þar sem tjónstilkynning hefði ekki verið fyllt út, hefði kærði hringt í hana og sagt henni að þetta væri rétt og þau skyldu einbeita sér að bótum vegna seinna slyssins. Hún hefði hins vegar fengið þær upplýsingar frá öðrum lögmanni að hún ætti enn fullan rétt á bótum úr fyrra slysinu og hefði hún þess vegna dregið umboð kærða til baka.

Þá hefði kærði skipt um skoðun og sagst geta sótt bæði málin. Að öðrum kosti þyrfti að greiða allt að 30.000 krónur fyrir hvert vottorð sem aflað hefði verið, en þau væru orðin 3 talsins. Kærandi segir þetta eina kostnaðinn sem kærði minntist á á þessum fundi, en hann hefði fengið þennan kostnað vegna vottorða endurgreiddan frá tryggingafélaginu. Kærandi hafi svo fengið senda reikninga að fjárhæð 148.154.

Skýringarnar á bak við þessa reikninga séu ófullnægjandi. Kærði segi að tímavinna sín (4 klst) sé vegna funda með henni og samskipta við tryggingafélagið en hún hafi aðeins átt einn fund með honum sem eigi að vera að kostnaðarlausu samkvæmt auglýsingum, kærða sjálfum og upplýsingum á heimasíðu stofunnar.

Kærandi byggir á því að kærði hafi sagt sér að hún ætti ekki rétt á bótum úr fyrra slysinu en innheimti samt fyrir vinnu við það. Hún byggir einnig á því að kærði hafi brotið 10. gr. siðareglna lögmanna með upplýsingagjöf sinni, þar sem hann hafi ekki gert sér með fullnægjandi hætti grein fyrir þeim kostnaði sem á kæranda gæti fallið, hvorki við upphaf málsins, né þegar hún afturkallaði umboð hans.

Þá byggir kærandi á því að með því að innheimta með öðrum hætti þegar umboð er afturkallað, hafi kærði komið sér upp aukagjaldskrá, án þess að geta um það í auglýsingum sínum eða í upphafi viðskipta. Kveðst kærandi telja upphæð reikninganna allt of háa og þeir endurspegli neikvæð viðbrögð kærða við því þegar hún tók málið úr hans höndum og fól það samkeppnisaðila hans.

Aðalkröfu sína um niðurfellingu reikninganna styður kærandi við að þannig efndi kærði það loforð sitt að upplýsa um allan mögulegan kostnað sem fallið geti til á fyrsta fundi. Með því að láta hjá líða að upplýsa um sérstaka gjadtöku sem færi fram við afturköllun umboðs hafi kærði leynt mikilvægum upplýsingum, sem hefðu áhrif á hvort kærandi vildi eiga viðskipti við hann. Hafi kærði þannig brotið gegn 42. gr. siðareglna lögmanna auk 29. og 34. gr. laga um þjónustukaup þar sem hann fari ekki eftir umsamdri verðáætlun og neiti að afhenda sundurliðaðan reikning til þess að kærandi fái séð út frá hvaða vinnu verð þjónustunnar sé reiknað.

Varakröfu sína um endurgreiðslu fyrri reikningsins styður kærandi við að kærði hafi alls ekki ætlað sér að fara í bótamál vegna fyrra slyssins auk þess sem fyrsti fundurinn átti að vera frír samkvæmt gjaldskránni.

Þrautavarakröfu um lækkun reikninga styður kærandi þeim rökum að gagnaöflun hafi verið ólokið og að ekki sé unnt að innheimta fyrir vinnu hæstaréttarlögmanns á fyrsta fundinum þar sem hann sé frír samkvæmt gjaldskrá, auk þess sem gagnaöflun hafi ekki verið lokið eins og reikningurinn byggi á.

Kærandi leggur áherslu á rétt sinn til að fá sundurliðaðan reikning fyrir þjónustu kærða. Í stað þess að  slík sundurliðun á tímum hafi fengist undir rekstri málsins telur kærandi að málatilbúnaður kærða fyrir nefndinni staðfesti að upphæð reikninganna byggi á geðþóttaákvörðun hans.

III.

Kærði krefst þess að kvörtun og öllum kröfum kæranda verði hafnað og að staðfest verði að áskilið endurgjald kærða fyrir rekstur tveggja skaðabótamála teljist vera hæfilegt.

Kærði kveður kæranda hafa verið kynnt ítarlega þjónusta lögmannsstofunnar á fyrsta fundi þeirra, þ.á.m. hafi henni verið kynnt hvaða vinna og gagnaöflun færi af stað í framhaldi af því að stofan tæki mál hennar að sér. Þá hafi henni verið veittar ítarlegar upplýsingar um gjaldtöku stofunnar og m.a. verið afhentur einblöðungur um það efni. Eitt meginatriði í því samhengi er að þegar um umferðarslys er að ræða er öll þóknun gerð upp þegar lokið er uppgjöri bóta við viðkomandi tryggingafélag. Greiðir þá tryggingafélagið jafnan meginhluta innheimtuþóknunar en umbjóðandi hlutdeild í þóknun.

Þegar tekið hafi verið við umboði fari af stað ákveðið vinnuferli innan stofunnar. Málið sé skráð í gagnagrunn, gengið frá tilkynningum um slysin til tryggingafélaga, kallað eftir öllum upplýsingum um slysin og aflað læknisvottorða o.fl..

Kærði byggir á því að þegar hann móttók tölvupóst frá kæranda 6. nóvember 2009 þar sem fram komu spurningar um hvort bótarétti hefði verið fyrirgert með því að skila ekki inn tjónstilkynningu innan árs, hafi hann útskýrt fyrir kæranda að um þetta væri ágreiningur. Bendir kærði á að lögmannsstofa hans hafi á þessum tíma rekið mál fyrir úrskurðarnefnd vátryggingamála þar sem tekist var á við tryggingafélög um þennan skilning þeirra. Hafi bæði mál hennar enda verið rekin áfram með fullum þunga og vottorða aflað vegna þeirra.

Þegar kærandi kom til fundar við kærða 9. desember 2009 hafi hún haft meðferðis afturköllun umboðs sem Þ hrl. hafi verið búinn að útbúa fyrir hana. Hafi kærði farið yfir hvað búið væri að gera í málum hennar og sýnt henni gögn sem hafði verið aflað. Hafi hann áréttað að hún gæti ekki vænst þess að nýta vinnu lögmannstofunnar án endurgjalds. Hafi hann rálagt kæranda að skipta ekki um lögmann í málunum því það gæti leitt til viðbótarkostnaðar.

Kærandi hafi haldið sig við afturköllun umboðsins og hafi hann sent henni umbeðna reikninga þann 16. desember, samkvæmt beiðni sem honum barst daginn áður frá Þ. Þeir reikningar hafi loks fengist greiddir 3. september 2010, án vaxta og kostnaðar.

Að því er varðar fjárhæð reikningana byggir kærði á svofelldu ákvæði í gjaldskrá lögmannsstofu sinnar: 

Í þeim tilvikum sem umboð lögmannsstofunnar er afturkallað og mál fært í hendur nýs lögmanns áður en komið er að upgjöri skal þóknun vera á bilinu kr. 50.000 til kr. 175.000 allt eftir því hvert hefur verið umfang málsins, hagsmunir og vinna starfsmanna lögmannsstofunnar.

Þegar kærandi afturkallaði umboð sitt hafi starfsmenn stofunnar verið búnir að vinna í málunum í meira en 7 mánuði. Búið hafi verið að tilkynna slysin til tryggingafélaganna og vera í samskiptum við þau, afla allra helstu gagna um þau, þ.á.m. læknis- og heilsufarsvottorða auk þess sem stofan hafði lagt út umtalsverðar fjárhæðir vegna gagnaöflunar og endurheimt hjá tryggingafélögunum. Í hvoru máli hafi verið færðar tvær tímaeiningar lögmanns og þrjár tímaeiningar annarra starfsmanna, samtals 59.000 kr., en það sé við lægstu mörk þess sem gjaldskrá ráðgeri þegar umboð eru afturkölluð.

Kærði bendir á, að í framhaldi af áskorunum sínum hafi kærandi lagt fram reikninga lögmannsstofunnar ÞL á hendur tryggingafélögunum vegna málanna og nemi þeir samtals kr. 523.158, en kærandi hafi ekki upplýst um heildarþóknun vegna málanna. Við innheimtu slysabóta áskilji lögmannsstofur sér álag á innheimtuþóknun og nemi hún gjarnan 30 - 100%. Megi af reikningum ÞLráða að heildarþóknun hafi líklega numið tæpum 800.000 kr. Í öllu falli virðist ljóst að ÞLhafi tekið fulla innheimtuþóknun af kæranda þó að stór og jafnvel stærri hluti vinnunnar í slysamálinu hafi verið unnin af lögmannsstofu kærða. Virðist líklegt að hin umdeilda þóknun í þessu máli nemi aðeins 18% af þóknun ÞL vegna málanna.

Kærði hafnar því að endurgreiða reikningana á þeim grunni að kæranda hafi ekki verið kynnt þetta ákvæði gjaldskránnar á fyrsta fundi, en miðað sé við að allur mögulegur kostnaður sé þá kynntur umbjóðanda. Kæranda hafi verið kynnt hvernig gjaldtöku væri háttað, auk þess sem gjaldskrá stofunnar sé aðgengileg. Kærði geti ekki gert ráð fyrir að þurfa ekki að greiða neinn áfallinn kostnað þegar hún tekur mál úr vinnslu hjá stofunni.

Þóknunin sé lág, hvort sem litið sé til gjaldskrárinnar eða þeirrar vinnu sem innt var af hendi. Í því sambandi bendir kærði á að stofan sé rekin af 13 - 15 starfsmönnum. Til að standa undir rekstrarkostnaði þurfi hvert mál að gefa af sér 175.000 kr. í þóknun og sé hærri fjárhæðin í gjaldskrárákvæðinu miðuð við það. Telur kærði að ÞL hefði með réttu átt að lækka sinn reikning vegna þeirrar vinnu sem unnin hafði verið af lögmannsstofu hans.

Kærði bendir á að á heimasíðu [lögmannsstofu sinnar,] FL komi fram að fyrsta viðtal við lögmann, þar sem lagt er mat á réttarstöðu tjónþóla, er honum alltaf að kostnaðarlausu, en að á sama stað segi einnig:

Þegar um umferðarslys er að ræða þá greiðir viðkomandi tryggingafélag lögmannsþjónustuna að stærstum hluta. Sé um annarskonar slys að ræða kann að vera að tryggingarfélagið beri ekki þann kostnað.

Á fyrsta fundi fara lögmenn FL yfir réttarstöðuna og allan mögulegan kostnað sem fallið getur til og er hann skoðaður í samhengi við hugsanlegar bótagreiðslur.

Í þessu felist að viðskiptamaður geti ávallt snúið sér til FL og fengið mat á réttarstöðu sinni, sér að kostnaðarlausu. Hann sé þá laus allra mála ef niðurstaðan verður sú að ekkert framhald verði. Feli viðskiptamaðurinn hins vegar FL gæslu hagsmuna sinna, fari um kostnað eftir gjaldskrá.

Kærði hafnar ýmsum staðhæfingum kæranda um málsatvik, þ.á.m. að henni hafi verið kynnt að hún þyrfti að greiða 30.000 fyrir hvert vottorð, að lögmannsstofan beiti tvöfaldri gjaldskrá í rekstri sínum, að hún hafi aðeins átt einn fund með starfsmönnum stofunnar og að hún hafi engar útskýringar fengið á reikningum stofunnar.

Niðurstaða.

I.

Sá sem telur lögmann hafa í störfum sínum gert á sinn hlut með háttsemi sem stríðir gegn lögum eða siðareglum lögmanna getur sent kvörtun til úrskurðarnefndar lögmanna, sbr. 1. mgr. 27. gr. lögmannalaga, nr. 77/1998. Í afgreiðslu á erindi sem berst nefndinni getur hún fundið að vinnubrögðum lögmanns eða veitt honum áminningu, ef um stórfelld eða ítrekuð brot er að ræða, sbr. 2. mgr. 27. gr. lögmannalaga. Ef sakir eru miklar eða lögmaður hefur ítrekað sætt áminningu getur nefndin í rökstuddu áliti lagt til við ráðherra að réttindi lögmannsins verði felld niður tímabundið eða hann sviptur réttindum.

Samkvæmt 1. mgr. 24. gr. lögmannalaga, nr. 77/1998, er lögmanni rétt að áskilja sér hæfilegt endurgjald fyrir störf sín og skal umbjóðanda hans, eftir því sem við verður komið, gert ljóst hvert það gæti orðið í heild sinni. Þar á meðal getur lögmaður áskilið sér hluta af þeirri fjárhæð sem umbjóðandi fær greitt í máli, svo og hærra endurgjald ef mál vinnst en ef það tapast. Loforð um ósanngjarnt endurgjald fyrir starf lögmanns bindur ekki umbjóðanda hans sbr. 2. mgr. 24. greinar.

Hægt er að skjóta ágreiningi um rétt lögmanns til endurgjalds og fjárhæð þess til úrskurðarnefndar lögmanna, sbr. 26. gr. lögmannalaga.

Samkvæmt 2. mgr. 10. gr. siðareglnanna ber lögmanni að gera skjólstæðingi grein fyrir áætluðum verkkostnaði og öðrum málskostnaði eftir föngum, og vekja athygli hans, ef ætla má, að kostnaður verði hár að tiltölu við þá hagsmuni, sem í húfi eru. Lögmanni ber að gera skjólstæðingi grein fyrir á hvaða grundvelli þóknunin er reiknuð.

Samkvæmt 42. gr. siðareglnanna má lögmaður auglýsa og kynna þjónustu sína svo sem samrýmist góðum lögmannsháttum, en óheimilt er honum að veita rangar, ófullnægjandi eða villandi upplýsingar í auglýsingum eða með öðrum hætti, svo og að afla sér viðskipta með öðrum aðferðum, sem sama marki eru brenndar.

Sem fyrr greinir eru málsatvik að nokkru leyti umdeild í málinu, einkum varðandi aðdraganda þess að kærandi afturkallaði umboð sitt til kærða. Þá er deilt um hvaða upplýsingar kærandi fékk um áfallinn kostnað þegar hún afturkallaði umboðið og um hvaða upplýsingar hún fékk varðandi það hvort gagnaöflun væri lokið. Ekki verður séð að þessi atriði hafi úrslitaáhrif á málið og verður ekki tekin afstaða til sönnunar um þau.

Þegar kærandi óskaði eftir nákvæmri sundurliðun reikninganna, svaraði kærði með því að vísa til gjaldskrár lögmannsstofunnar og tiltók þá að samkvæmt henni sé þóknun í slysamálum ákveðið hlutfall af innheimtum bótum. Ef mál séu færð frá stofunni áður en kemur að uppgjöri skuli þóknun vera á bilinu 50-175 þúsund kr. eftir því hvar málið er statt hverju sinni. Þá tilgreindi kærði að gagnaöflun hafi verið lokið í umræddum  málum.

Þá hélt kærði útskýringum áfram og kvað tímavinnu sína vera vegna funda með kæranda og samskipta við tryggingafélagið, en hann hafi  m.a. gengið frá umboði og tilkynningum til tryggingafélagsins. Aðrir starfsmenn hafi séð  um gagnaöflum og samskipti við lækna, sjúkraþjálfara, tryggingafélagið og annað sem því fylgir.

Kærandi virðist hafa skilið þennan síðari helming af svari kærða þannig að byggt væri á tímavinnu sem unnin væri af tilteknum starfsmönnum á tilteknum tímum og hefur óskað eftir sundurliðun á þeim. Úrskurðarnefndin lítur hins vegar svo á, að þegar tilvitnað svar kærða 4. febrúar 2010 er skoðað í heild sinni sé ljóst að kærði byggir reikninginn á ákvæði gjaldskrárinnar um afturkölluð umboð en styðst þó í mati sínu á umfangi málsins við tiltekinn tímafjölda sem miða megi við að málið hafi tekið, að teknu tilliti til þess hversu langt það var komið í vinnslu.

Umboð það sem kærandi veitti kærða til að gæta hagsmuna sinna hefur ekki verið lagt fram í máli þessu. Ekki er þó um það deilt að í því samningssambandi hafi verið á því byggt að kærði reiknaði þóknun sína á grundvelli gjaldskrár lögmannsstofu sinnar.

Nefndin telur að úr því að kærandi var búinn að semja við kærða um hagsmunatengda þóknun, hefði kærða almennt verið stætt á því að krefjast þóknunar á þeim grunni. Með því að fara þá leið sem kærði gerir í gjaldskrá sinni sé hann að ganga skemmra í gjaldtöku sinni. Þá telur nefndin að sú aðferð sem kærði beitir í gjaldskrá sinni við að reikna þóknun þegar umboð er afturkallað sé eðlileg, þótt hún hljóti jafnan að takmarkast af ákvæðum 24. gr. lögmannalaga.

Úrskurðarnefndin getur ekki fallist á aðalkröfu kæranda á þeim forsendum að þar sem ekki var fjallað um þennan lið gjaldskrárinnar á fyrsta fundi með kæranda, sé engin greiðsluskylda fyrir hendi. Augljóst er að fyrirhuguð gjaldtaka byggir á ákveðnum forsendum þar sem miðað er við að málið sé rekið til enda og kostnaður þá gerður upp. Kærandi á hins vegar kröfu til þess að við afturköllun umboðs sé gjaldtakan hæfileg og að hún fái útskýringar á því á hvaða grunni hún byggi.

Fullyrðingum kæranda um að kærði hafi ekki viljað vinna neitt í öðru slysamáli hennar er mótmælt af kærða. Þar sem ekkert er fram komið sem styður þessar fullyrðingar verður að byggja á því að unnið hafi verið í báðum málunum eins og lagt var upp með. Verður því hafnað þeirri kröfu hennar að annar reikningurinn verði felldur niður.

Miðað við þau gögn sem aðilar hafa lagt fyrir nefndina, telur nefndin sýnt að umrædd gjaldtaka sé hæfileg. Gagnaöflun vegna beggja slysanna virðist hafa verið nokkurn veginn lokið og þau tilbúin til að kærandi undirgengist örorkumat

Rétt þykir að málskostnaður fyrir nefndinni falli niður.

Ú R S K U R Ð A R O R Ð :

Kærði, F hrl., hefur í störfum sínum ekki gert á hlut kæranda, S, með háttsemi sem stríðir gegn lögum eða siðareglum lögmanna.

Áskilin verklaun kærða, vegna vinnu fyrir kæranda að skaðabótamálum hennar eru hæfilegt endurgjald í skilningi 1. mgr. 24. lögmannalaga nr. 77/1998.

Málskostnaður fellur niður.