Mál 2 2011

 

Ár 2011, föstudaginn 16. september, var haldinn fundur í úrskurðarnefnd lögmanna í húsnæði Lögmannafélags Íslands að Álftamýri 9, Reykjavík.

Fyrir var tekið málið nr. 2/2011:

D og

S

gegn

H hrl.

og kveðinn upp svofelldur

Ú R S K U R Ð U R :

Í erindi D og S, kærenda, til úrskurðarnefndar lögmanna, mótt. 1. febrúar 2011, var kvartað yfir skrifum kærða, H á opinberum vettvangi. Lýtur kvörtunin að því að kærði hafi viðhaft ósannindi og ósæmileg ummæli um kærendur á Facebook síðu sinni.

Kærði sendi nefndinni greinargerð um málið þann 21. júní 2011 og var kærendum gefinn kostur á að gera athugasemdir við hana. Athugasemdir kærenda við greinargerð kærða bárust 24. júní 2011.

I. Málsatvik

Málsatvik eru þau, eftir því sem fram kemur í kvörtun kæranda og meðfylgjandi gögnum, að kærandinn S ritaði leiðara í dagblaðið X [...] 2010, þar sem hún gagnrýndi viðhorf kærða til kynferðisbrotamála eins og þau birtust í tilgreindum ummælum hans en kærði hafði látið þau ummæli falla að hann upplifði það sem höfnun að hafa ekki verið áreittur kynferðislega af presti. Þá var í leiðaranum fjallað um tiltekinn héraðsdóm. Leiðarinn var jafnframt birtur á síðunni x.is. Kærði setti á Facebook síðu sína hlekk á þessi leiðaraskrif ásamt ummælum um að leiðarahöfundurinn skrumskældi og rangtúlkaði umræddan héraðsdóm og velti því fyrir sér hvort kærða tæki því persónulega að kærði hefði fengið hana dæmda fyrir meiðyrði í Hæstarétti. 

Kærandinn D gerði athugasemd við þessi ummæli kærða á síðunni, þar sem hann fjallar auk þess um nafngreinda einstaklinga úr „vinamengi" kærða. Spunnust í framhaldi af þessu deilur þar sem kærandinn D og kærði skiptust á ásökunum og móðgunum hvor í annars garð, auk þess sem fleiri blönduðu sér í umræðuna með því að færa inn athugasemdir. Þá nefndu bæði kærði og kærandinn D fleira fólk á nafn, án þess að efni séu til að rekja þau skrif öll. Í þessum deilum kallaði D kærða m.a. „endaþarm íslenskrar lögmennsku" og „smámenni" og líkti honum við „apa í frumskógi" en kærði uppnefndi kæranda „mannorðsmorðingja" og lét þau ummæli falla að „kannski verður þú einn daginn alvöru blaðamaður." 

Á meðal þeirra ummæla sem þannig féllu, voru eftirfarandi orð kærða:  Óþarfi að vera svona bitur og persónulegur þó að maður fái þig sí og æ dæmdan fyrir óvandaða blaðamennsku elsku kúturinn minn. Kærandinn D svaraði þessu með því að færa inn eigin athugasemd á þennan vettvang þar sem hann staðhæfði að kærði hefði aldrei fengið sig dæmdan fyrir meiðyrði. Það hefði kærði einu sinni reynt, en tapað. Við þetta bætti kærandi þeirri athugasemd að kærði væri í mesta lagi kvensterkur.

 Kærði svaraði þessu eingögnu með svofelldri fullyrðingu „Þau eru nú nokkur málin sem hafa safnast fyrir á þitt ágæta fyrrum útgáfufélag". D fullyrti að það væri einfaldlega ekki rétt að kærði hefði fengið hann dæmdan fyrir meiðyrði og skoraði á kærða að draga ummæli sín í þessa veru til baka eða upplýsa ella nánar um hvað átt væri við. Fleira fólk á þessum vettvangi skoraði á kærða að upplýsa frekar um umrædd meiðyrðamál, en hann lét við það sitja að vísa til fyrrgreindra ummæla sinna.

Um þessi samskipti kærða og kærenda var fjallað á vefmiðlum og slitrur úr ummælum þeirra birtar. Í einhverjum tilvikum voru tilvitnuð ummæli kærða um dóma fyrir óvandaða blaðamennsku birt, án þess að andmæla kæranda við þau væri getið.

II. Málsástæður kærenda

Í kvörtun sinni leggja kærendur áherslu á að það sé einfaldlega ósatt að kærði hafi nokkurn tíma fengið kærandann D dæmdan. Það sé auk þess líka rangt að kærði hafi fengið útgáfufélag sem D starfaði hjá dæmt, en jafnvel þótt svo væri gæti það ekki réttlætt fullyrðingar kærða um að D hafi persónulega verið dæmdur í einhverjum slíkum málum.

Þessi ummæli kærða hafi víða verið birt opinberlega, án þess að athugasemda D við þau væri getið og hafi kærði ekki orðið við áskorunum um að leiðrétta þessi ósannindi. Kærendur telja að kærði hafi með framangreindum skrifum um að hann hafi sí og æ fengið D dæmdan, brotið gegn góðum lögmannsháttum og vísa í því sambandi sérstaklega til 2. mgr. 1. gr. þar sem segir „Skal lögmaður svo til allra mála leggja, sem hann veit sannast eftir lögum og sinni samvisku." Þá vísa kærendur til 2. gr. þar sem segir að lögmaður skuli gæta heiðurs lögmannastéttarinnar í störfum sínum, sem og öðrum athöfnum. Loks telja kærendur að kærði hafi brotið gegn 8. gr. siðareglnanna þar sem kveðið er á um að lögmanni beri að forðast að samkenna sig skjólstæðingi sínum, en ljóst sé að lögmaðurinn sjálfur hafi engan mann fengið dæmdan fyrir eitt eða neitt.

Kærendur finna að því að kærði hafi kallað D „mannorðsmorðingja", en það sé særandi og meiðandi.

Kærendur kvarta einnig undan þeim ummælum kærða að hann hafi fendið kærandann S dæmda fyrir meiðyrði. Byggir kvörtunin á því að það hafi verið skjólstæðingur kærða sem fékk kærandann dæmdan, en lögmaðurinn hafi einungis flutt málið fyrir Hæstarétti. Fullyrðingin sé því ósönn og feli í sér brot gegn fyrrgeindri 8. gr. siðareglnanna auk þess sem fullyrðingin hafi brotið gegn 34. gr. siðareglnanna þar sem kveðið er á um að lögmaður skuli sýna gagnaðilum skjólstæðinga sinna fulla virðingu í ræðu, riti og framkomu.

Kærendur telja að kærði hafi sjálfur kosið að nálgast viðfangsefni sitt í umræddum ummælum sínum sem lögmaður. Hann hafi sagt að hann hafi fengið kærendur dæmda og telja kærendur að ekki verði litið öðruvísi á en að hann hafi verið að tjá sig í nafni umbjóðenda sinna, enda hafi hann sjálfur engan fengið dæmdan. Þá telja kærendur að kærði geti ekki afsakað sig með vísun til ummæla kærandans D. Bæði vegna þess að þau eigi ekki við um þann hluta kvörtunarinnar sem snýr að kærandanum S og vegna þessa að ummæli D hafi falið í sér gildisdóma en ummæli kærða hafi falið í sér hreinar rangfærslur um að D hafi verið dæmdur.

Kærendur telja að kærði hafi beitt ósannindum við rekstur máls þessa og freistað þess að slá ryki í augu úrskurðarnefndarinnar. Kærði haldi því fram í greinargerð sinni að ummælin hafi birst á lokaðri fésbókarsíðu og aðeins opin þeim sem hann hafi sérstaklega opnað fyrir aðgang með því að gera þá að „vinum" í þessu samskiptakerfi. Hið rétta sé að þótt síðan sé nú lokuð með þessum hætti hafi ummælin birst á þeim tíma þegar síðan var opin. Fara kærendur fram á að þessi málflutningur verði virtur kærða til sérstaks áfellis í úrskurði nefndarinnar.

Kröfur kærenda eru þær að  úrskurðað verði að kærði hafi brotið gegn góðum lögmannsháttum og með skrifum sínum gert á hlut kærenda þannig að stríði gegn siðareglum lögmanna og góðum lögmannsháttum.

III. Málsástæður kærða

Kærði fullyrðir í greinargerð sinni að ummælin hafi verið látin falla á lokaðri síðu í eigu eða undir stjórn hans. Þá feli ummæli hans um kærandann D aðeins í sér hógvær andsvör við svívirðingum hans. Í ljósi tilvitnaðra ummæla ritstjórans  D, og ofsókna hans á hendur kærða á síðum X sé með ólíkindum að hann hafi stofnað til þessa máls. Ummæli kærða í garð kærandans S  hafi verið andsvar við skrifum hennar um kærða, sem hún verði að þola. Feli skrif hans ekki í sér neinar rangfærslur. Loks byggir kærði á því að sú þátttaka hans í opinberum umræðum sem mál þetta snúist um, sé ekki hluti af lögmannsstörfum hans.

Krefst kærði þess að málinu verði vísað frá úrskurðarnefndinni.

IV. Niðurstaða.

Sá sem telur lögmann hafa í störfum sínum gert á sinn hlut með háttsemi sem stríðir gegn lögum eða siðareglum lögmanna getur sent kvörtun til úrskurðarnefndar lögmanna, sbr. 1. mgr. 27. gr. lögmannalaga, nr. 77/1998. Í afgreiðslu á erindi sem berst nefndinni getur hún fundið að vinnubrögðum lögmanns eða veitt honum áminningu, ef um stórfelld eða ítrekuð brot er að ræða, sbr. 28. gr. lögmannalaga. Ef sakir eru miklar eða lögmaður hefur ítrekað sætt áminningu getur nefndin í rökstuddu áliti lagt til við ráðherra að réttindi lögmannsins verði felld niður tímabundið eða hann sviptur réttindum.

Að því er varðar kærandann S og kvörtun kærenda yfir því að kærði hafi birt opinberlega ummæli um að hann hafi fengið hana dæmda fyrir meiðyrði, verður ekki séð að þau ummæli stangist á við lög um lögmenn eða siðareglur lögmanna. Ekki verður annað séð en að þessi ummæli eigi við rök að styðjast. Fyrir liggur að í störfum sínum sem lögmaður fékk kærði kæranda dæmda fyrir meiðyrði, en í orðalaginu felst ekki að kærði hafi sjálfur átt aðild að málinu.

Að því er varðar kærandann D og tilgreind ummæli um hann, er það álit úrskurðarnefndarinnar að samskipti af því tagi sem hér hefur verið lýst, séu hverjum þeim til minnkunar sem í hlut á. Það á undir dómstóla að taka afstöðu til meiðyrða, þ.á.m. um bótarétt og að hvaða marki hlutaðeigandi hafa fyrirgert rétti sínum til bóta með því að taka sjálfviljugir þátt í þvílíkum samskiptum. Ekkert er fram komið um að ummæli kærða hafi verið sett fram fyrir hönd umbjóðenda hans. Enda þótt vissulega sé óheppilegt að lögmenn skiptist á móðgunum við meðborgara sína á opinberum vettvangi, verður ekki talið að umrædd samskipti hafi þau tengsl við lögmannsstörf kærða að um það verði fjallað af úrskurðarnefnd lögmanna.

Ú R S K U R Ð A R O R Ð :

Erindi kæranda, D, er vísað frá. Kærði, H hrl., hefur ekki í störfum sínum gert á hlut kæranda, S, með háttsemi sem stríðir gegn lögum eða siðareglum lögmanna.