Mál 4 2011

Ár 2011, fimmtudaginn 15. mars, var haldinn fundur í úrskurðarnefnd lögmanna í húsnæði Lögmannafélags Íslands að Álftamýri 9, Reykjavík.

Fyrir var tekið málið nr. 4/2011:

D

gegn

L hrl.

og kveðinn upp svofelldur

Ú R S K U R Ð U R :

Í erindi D til úrskurðarnefndar lögmanna, sem barst nefndinni þann 30. mars 2011, var kvartað yfir störfum L hrl., að áfrýjun að sakamáli kæranda, nánar tiltekið að kærði hefði tekið að sér að áfrýja málinu en ekki gert það.

Eftir ítrekuð tilmæli úrskurðarnefndarinnar sendi kærði nefndinni greinargerð um málið þann4. október 2011 og var kæranda gefinn kostur á að gera athugasemdir við hana með bréfi dags. 5. október 2011. Athugasemdir kæranda við greinargerð kærða bárust 12. október  2011, en þann 17. október  bárust viðbótarathugasemdir hans. Í þessum athugasemdum komu fram ávirðingar í garð kærða sem lutu ekki eingöngu að áfrýjun sakamálsins heldur að öllum störfum kærða fyrir kæranda við rannsókn málsins og meðferð þess fyrir héraðsdómi.

Vegna þessa var kæranda leiðbeint um að athugasemdir hans rúmuðust ekki innan sakarefnisins eins og hann hefði stillt því upp í kæru sinni og kærði fjallað um það í sinni greinargerð. Yrði hann því annað hvort að sætta sig við að reka málið áfram á upphaflegum málsgrundvelli eða að málsmeðferðin yrði hafin að nýju og óskað eftir nýrri greinargerð kærða. Með tölvupósti 1. nóvember 2011 óskaði kærði eftir því að málsgrundvöllurinn yrði víkkaður út til að rúma allar aðfinnslur hans. Var því óskað eftir nýrri greinargerð eða viðbótargreinargerð frá kærða og barst hún 24. janúar 2012. Athugasemdir kæranda vegna hennar bárust nefndinni þann 27. janúar 2012. Kærði hefur ekki gert frekari athugasemdir vegna málsins þrátt fyrir að hafa fengið kost á því.

Málsatvik og málsástæður.

I.

Hvorki kærandi né kærði hafa lagt fram heildstæða málsatvikalýsingu. Eftir því sem fram kemur í framlögðum gögnum og yfirlýsingum aðila eru atvik þau að kærði annaðist málsvörn fyrir kæranda þegar kærandi var ákærður fyrir ölvunarakstur. Má ráða af umkvörtunum kæranda að það hafi verið fyrir milligöngu lögreglu að kærði tók málsvörnina að sér. Málið var þingfest í október 2010 og lýsti kærandi lýsti sig þá saklausan af ölvunarakstri umrætt sinn. Var aðalmeðferð ákveðin í nóvember.

Samkvæmt því sem bókað var við aðalmeðferð málsins gaf kærandi þá skýrslu fyrir dóminum ásamt sex vitnum. Var málið að því loknu flutt og dómtekið. Dómur var svo kveðinn upp í nóvember 2010. Kveður kærandi að kærði hafi sagt sér að óþarfi væri að hann mætti til dómsuppkvaðningar og er þeirri staðhæfingu ómótmælt af kærða.

Niðurstaða dómsins var sú að kærandi var þar sakfelldur fyrir ölvunarakstur.  Er sá þáttur í niðurstöðu dómsins sem lýtur að sönnun á sekt kæranda varðandi það að hafa reynt að aka bifreiðinni svohljóðandi:

Tveir lögreglumenn bera að þeir hafi séð að ákærði reyndi að losa bifreiðina með því að bakka henni. Ákærði staðfestir þetta. Eftir að lögregla kom á vettvang drakk hann ekki áfengi.Með þessu er fram komin sönnun þess að ákærði hafi reynt að aka í skilningi 45. gr. umferðarlaga, en staðfest er með niðurstöðu blóðrannsóknar að hann var ölvaður.

Héraðsdómur taldi einnig sannað að kærandi hafi umrætt sinn ekið bifreiðinni ölvaður þar til hann festi hana.

Ákærði ber að hann hafi verið í og við bifreið sína þar sem hún sat föst lengi dags.  Hafi hann fyrst byrjað áfengisneyslu eftir að hafa fest bifreiðina og margreynt að losa hana.  Þessi framburður ákærða er ekki trúverðugur í ljósi framburðar starfs­manna S, sem töldu sig hafa átt að verða vara við ferðir ákærða, hafi hann komið áður en þeir gerðu hlé á vinnu sinni og fóru í kaffiskúr fyrirtækisins.  Þá gat ákærði ekki gefið trúverðuga skýringu á breyttum framburði sínum frá því sem haft er eftir honum í frumskýrslu lögreglu. 

Með þessu er fram komin sönnun þess að ákærði hafi ekið eins og lýst er í ákæru og að hann hafi verið undir áhrifum áfengis við aksturinn.  Þá er eins og áður segir sannað að hann hafi reynt að aka bifreiðinni eftir að hún sat föst.

Var ákærði dæmdur til að greiða 280.000 króna sekt  og var sviptur ökurétti í þrjú ár og sex mánuði

Aðilum ber ekki saman um samskipti sín eftir dómsuppkvaðninguna. Kæranda segist svo frá að þegar kærði kynnti honum niðurstöðu dómsins símleiðis hafi hann jafnframt sagt kæranda að hann myndi hringja til að boða kæranda til að skrifa undir áfrýjunina. Eftir þetta hafi ekkert heyrst frá kærða. Þegar kærandi hafi svo hringt til hans hafi verið ákveðið að kærandi skyldi mæta til að skrifa undir þann 29. desember 2010. Það hafi gengið eftir, en kærði þá sagt að áfrýjunin myndi taka einhverja mánuði í vinnslu. Kærandi hafi í framhaldi af þessu ekkert heyrt af málinu fyrr en í mars [2011] þegar hann forvitnaðist um stöðu málsins hjá ríkissaksóknara. Þar hafi hann fengið þau svör að kærði hafi ekki svarað þremur fyrirspurnum ríkissaksóknara um áfrýjun málsins, en orðið væri of seint að áfrýja málinu.

Kærði lýsir atvikum að þessu leyti svo, að hann hafi kynnt kæranda niðurstöðu dómsins eftir uppkvaðningu hans og það með að hann hefði 30 daga frest til að ganga frá formlegri tilkynningu um áfrýjun málsins. Kærandi hafi svo komið á skrifstofu sína þann 29. desember. Á því tímamarki hefði kærandi ekki verið viss um hvenær dómurinn hefði verið birtur honum og þar með hvenær áfrýjunarfrestur rynni út. Samdægurs hefði verið gengið frá skriflegri tilkynningu um áfrýjun dómsins, en þann 3. janúar hafi borist tölvupóstur frá ríkissaksóknara þar sem komið hafi fram að málinu yrði ekki áfrýjað nema með leyfi Hæstaréttar. Kærði hafi þá strax haft samband við kæranda og tjáð honum að ef hann vildi fylgja eftir áfrýjun málsins yrði hann að koma til kærða og undirrita beiðni þar að lútandi. Ekkert hafi heyrst í kæranda fyrr en með sms skilaboðum á laugardagskvöldi í mars 2011 sem hann hafi svo fylgt eftir með tölvupóstum 28. júlí og 15. ágúst 2011. Í þessum síðasttöldu skilaboðum lýsir kærandi þeirri ætlan sinni að höfða skaðabótamál gegn kærða eða „afgreiða þig á annan hátt" en lýsir síðan þeirri ætlan sinni að framfylgja sínum málum að heimili kærða ef annað gangi ekki upp.

Í málinu liggur fyrir skjal, dags. 29. desember 2010 þar sem kærandi lýsir yfir áfrýjun málsins og óskar eftir því að kærði annist um málsvörn sína fyrir Hæstarétti. Á skjalið er jafnframt ritað samþykki kærða.

II.

Kærandi krefst þess í kvörtun sinni „að úrskurðað verði í málinu fyrir Hæstarétt, eða málsókn gegn L".

Aðfinnslur kæranda, eins og þær hafa nú verið settar fram lúta að nokkrum atriðum varðandi meðhöndlun kærða á sakamálinu auk þeirra mistaka eða vanrækslu sem kærandi telur kærða hafa sýnt við áfrýjun málsins.

Kærandi telur óeðlilegt að kærði hafi ekki útbúið skriflega greinargerð til að leggja fram í sakamálinu. Hann hafi ekki gert athugasemd þegar dómarinn tók málið fyrir við þingfestingu og spurði kæranda að ýmsum spurningum sem hann hafi verið óviðbúinn.

Kærandi telur sína útgáfu af málsatvikum aldrei hafa komið fram fyrir héraðsdómi vegna þess að kærði hafi ekki skrifað neitt niður. Byggir kærandi raunar á því að ætlan kærða hafi alls ekki verið að fá kæranda sýknaðan. Þvert á móti hafi kærði, í viðleitni sinni við að viðhalda góðu sambandi við lögregluna, leitast við að fá kæranda sakfelldan. Kærði hafi einfaldlega viljað klárað málið sem hraðast

Auk þessa hefur kærandi teflt fram nokkrum atriðum sem hann telur að með réttu hefðu átt að leiða til sýknu í sakamálinu, en tengjast ekki störfum kærða með beinum hætti. Verður að skilja málatilbúnað kæranda svo að hann telji kærða ekki hafa komið þessum atriðum á framfæri með fullnægjandi hætti.

III.

Kærði vísar því á bug í greinargerð sinni að hann hafi ekki gætt réttar kæranda við meðferð sakamálsins eða að ávirðingar hans eigi að öðru leyti við rök að styðjast.

Hann telur ekkert í málinu hafa kallað á að skilað væri skriflegri greinargerð í því.

Kærði leggur áherslu á að sönnunarfærslan fyrir dómi sé milliliðalaus. Kærandi hafi sjálfur gefið skýrslu fyrir dómi ásamt vitnum í málinu og sé niðurstaða málsins byggð á þeim framburðum. Ekkert í gögnum málsins styðji fullyrðingar kæranda.

Niðurstaða.

I.

Sá sem telur lögmann hafa í störfum sínum gert á sinn hlut með háttsemi sem stríðir gegn lögum eða siðareglum lögmanna getur sent kvörtun til úrskurðarnefndar lögmanna, sbr. 1. mgr. 27. gr. lögmannalaga, nr. 77/1998. Í afgreiðslu á erindi sem berst nefndinni getur hún fundið að vinnubrögðum lögmanns eða veitt honum áminningu, ef um stórfelld eða ítrekuð brot er að ræða, sbr. 2. mgr. 27. gr. lögmannalaga. Ef sakir eru miklar eða lögmaður hefur ítrekað sætt áminningu getur nefndin í rökstuddu áliti lagt til við ráðherra að réttindi lögmannsins verði felld niður tímabundið eða hann sviptur réttindum.

Í samræmi við þetta verður í máli þessu fjallað um það álitaefni hvort kærði verði beittur þeim viðurlögum sem að ofan greinir. Kröfum um málssóknir eða meðferð sakamáls kærða fyrir Hæstarétti verður hins vegar að vísa frá nefndinni, enda hefur hún ekki lagaheimildir til að mæla fyrir um slík úrræði.

Kærandi hefur í máli þessu borið kærða þungum sökum vegna starfa hans að meðferð sakamáls hans fyrir héraðsdómi. Kæranda hefur á hinn bóginn ekki tekist að gera það sennilegt fyrir nefndinni að neinar þessara ávirðinga eigi við rök að styðjast. Ekkert í þeim gögnum sem lögð hafa verið fyrir nefndina styður fullyrðingar kæranda um að óeðlilega hafi verið haldið á máli hans. Það var þannig ekki í valdi kærða að koma í veg fyrir að dómari spyrði kæranda út í sakarefnið. Þá er ekki unnt að sjá að neitt í málinu hafi kallað á skriflega greinargerð af hálfu kæranda. Virðist málið hafa verið flutt með eðlilegum og venjubundnum hætti þar sem kærandi í máli þessu fékk fullt færi á að koma sinni lýsingu á málsatvikum að þegar tekin var af honum skýrsla fyrir dóminum. Ber dómurinn með sér að hann er ekki síst byggður á framburði kæranda sjálfs um meginatriði málsins, en í einstökum atriðum hefur dómari metið framburðinn ótrúverðugan svo sem að ofan greinir. Af þessum sökum verða ekki gerðar neinar aðfinnslur við störf kærða að sakamálinu fyrir héraðsdómi.

Með dómi héraðsdóms lauk verjandastörfum kærða fyrir kæranda. Eftir það áttu þeir í einhverjum samskiptum um áfrýjun málsins, en sem fyrr greinir ber aðilum ekki saman um hvernig samskiptum þeirra var háttað. Nefndin getur ekki byggt ákvarðanir um íþyngjandi viðurlög á öðru en því sem telja má sannað. Að því marki sem staðhæfing stendur gegn staðhæfingu um samskiptin er því ekki unnt að byggja á einhliða yfirlýsingum kæranda og verður hér miðað við að eftir að kærða varð ljóst að sækja þyrfti um áfrýjunarleyfi ef áfrýja ætti málinu, hafi hann tilkynnt kæranda um það.

Bent skal á að það virðist á misskilningi byggt að dráttur hafi valdið því að ríkissaksóknari hafnaði því að unnt væri að áfrýja málinu, sbr. fram lagðan tölvupóst hans frá 3. janúar 2011. Með dómi héraðsdóms var kærandi ekki dæmdur til frelsissviptingar og fjárhæð dæmdar sektar nam aðeins 280.000 krónum. Samkvæmt 1. mgr. 198. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála verður áfellisdómi aðeins áfrýjað ef ákærði hefur verið dæmdur í fangelsi ellegar til að greiða sekt eða sæta upptöku eigna sem nær áfrýjunarfjárhæð í einkamáli. Samkvæmt 2. mgr. sömu greinar má þó áfrýja héraðsdómi með leyfi Hæstaréttar,að uppfylltum ákveðnum skilyrðum, sem raunar er vandséð að gætu verið uppfyllt í þessu máli.

Ú R S K U R Ð A R O R Ð :

Kröfum kæranda, D ,um málsmeðferð fyrir Hæstarétti, eða málsókn gegn kærða, L hrl.,er vísað frá nefndinni.

Kærði hefur í störfum sínum ekki gert á hlut kæranda með háttsemi sem stríðir gegn lögum eða siðareglum lögmanna.

ÚRSKURÐARNEFND LÖGMANNA

Einar Gautur Steingrímsson, hrl., formaður

Kristinn Bjarnason, hrl.

Valborg Þ. Snævarr, hrl.

Rétt endurrit staðfestir

________________________