Mál 10 2011

Ár 2011, fimmtudaginn 29. desember, var haldinn fundur í úrskurðarnefnd lögmanna í húsnæði Lögmannafélags Íslands að Álftamýri 9, Reykjavík.

Fyrir var tekið málið nr. 10/2011:

M

gegn

O hdl.

 og kveðinn upp svofelldur

Ú R S K U R Ð U R :

Úrskurðarnefnd lögmanna  barst þann 25. júlí 2011 erindi M, sóknaraðila, þar sem krafist er endurgreiðslu 132.010 króna, en þetta fé dró lögmannsstofa O hdl., varnaraðila, frá bótum sóknaraðila við uppgjör.

Varnaraðili sendi nefndinni greinargerð um málið þann 16. september 2011 og var sóknaraðila gefinn kostur á að gera athugasemdir við hana. Athugasemdir sóknaraðila við greinargerð varnaraðila bárust fyrst 13. október, en að fengnum leiðbeiningum skilaði sóknaraðili nýjum athugasemdum 15. október 2011. Varnaraðili skilaði lokaathugasemdum vegna þeirra 18. nóvember 2011.

Málsatvik og málsástæður.

I.

Eftir því sem fram kemur í erindi sóknaraðila, greinargerð varnaraðila og öðrum gögnum málsins eru málsatvik þau að sóknaraðili varð fyrir alvarlegri líkamsárás um mitt ár 2008. Hann leitaði til varnaraðila í janúar 2010 og fól honum skömmu síðar að gæta hagsmuna sinna vegna málsins.

Ákæra í sakamálinu vegna líkamsárásarinnar var gefin út í maí 2010 og var varnaraðili skipaður réttargæslumaður sóknaraðila í september sama ár. Lauk aðalmeðferð í sakamálinu í desember 2010. Lagði varnaraðili fram málskostnaðarreikning að fjárhæð 427.328 að meðtöldum virðisaukaskatti, vegna 28,05 stunda vinnu sinnar að málinu. Dómur var kveðinn upp þar sem sakfellt var [...]. Voru hinir sakfelldu dæmdir til að greiða sóknaraðila 500.000 krónur í miskabætur og til að greiða kr. 338.850 vegna þóknunar varnaraðila sem réttargæslumanns.

Samkvæmt uppgjöri varnaraðila stóðu þá eftir óuppgerðar 88.478 vegna mismunar á áskilinni þóknun hans og þess 10.000 króna tímagjalds sem dómurinn reiknaði með, auk 3,05 klst. vinnu að málinu frá því sóknaraðili leitaði til varnaraðila og fram að þingfestingu málins.

Í framhaldi af þessari dómsniðurstöðu hóf varnaraðili að innheimta miskabæturnar hjá bótasjóði, auk þess sem hann kveðst hafa unnið að því að láta meta varanlegt tjón sóknaraðila vegna árásarinnar. Er því ómótmælt af sóknaraðila. Þann 11. janúar 2011 krafði lögmannsstofa varnaraðila bótasjóð skv. lögum nr. 69/1995 um 500.000 krónur vegna dæmdra miskabóta, 86.303 krónur vegna útlagðs lækniskostnaðar auk vaxta og dráttarvaxta.

Í maí 2011 greiddi bótasjóður kr. 600.000 inn á fjárvörslureikning lögmannsstofu varnaraðila. Við þetta tímamark gaf varnaraðili út reikning sinn nr. 3015 að fjárhæð kr. 132.010 að meðtöldum virðisaukaskatti og greiddi eftirstöðvarnar, kr. 467.990 til sóknaraðila. Ágreiningur um þetta uppgjör er sakarefni þessa máls.

II.

Krafa sóknaraðila er að varnaraðila verði gert að endurgreiða sér 132.010 kr. , sem varnaraðili hafi tekið af miskabótum sóknaraðila. Þessa kröfu styður sóknaraðili fyrst og fremst við að vinnu varnaraðila í sína þágu hafi verið ábótavant. Athugasemdir sóknaraðila eru einkum þessar:

Í fyrsta lagi hafi varnaraðili fengið í sínar hendur upplýsingar um sóknaraðila og líðan hans eftir árásina. Þessar upplýsingar hafi ekki skilað sér til saksóknara og það kunni að hafa valdið því að brotamennirnir fengu mildari dóm en ella. Litið er svo á að sóknaraðili eigi þá m.a. við að þeir hafi hugsanlega verið dæmdir til að greiða lægri bætur en ella hefði orðið.

Í öðru lagi er sóknaraðili ósáttur við að samkvæmt tímaskýrslum séu gjaldfærðir tímar fyrir símtöl sem hann þurfti sjálfur að hringja til að fá upplýsingar um hvar mál hans væri statt. Honum hafi ekki verið gert ljóst að þessar athuganir yrðu sér dýrar og varnaraðili hafi ekki hirt um að sinna þeirri skyldu sinni að halda sér upplýstum um málið að fyrra bragði.

Í þriðja lagi hafi máli sóknaraðila verið ýtt á milli fjögurra lögmanna á lögmannsstofu varnaraðila. Hafi þeir stundum ekki vitað um hvað málið snerist þegar sóknaraðili ræddi við þá.

Í fjórða lagi finnur sóknaraðili að því að við innheimtu hjá bótanefndinni hafi varnaraðili ekki gætt að því að afla gagna og leggja þau gögn fram við bótanefndina sem honum bárust.

Í fimmta lagi telur sóknaraðili að eftir að dómur féll í héraði hefði varnaraðili átt að vinna að því að fá ríkissaksóknara til að áfrýja málinu til Hæstaréttar.

Telur sóknaraðili, að öllu samanlögðu, að varnaraðili hafi ekki haft hagsmuni sína að leiðarljósi við meðferð málsins og verður erindi hans skilið svo að hann telji ekki sanngjarnt að sóknaraðili taki til sín 132.010 af útgreiddum miskabótum auk þeirrar greiðslu sem hann hafi þegið sem skipaður réttargæslumaður.

III.

Varnaraðili krefst þess að úrskurðarnefndin staðfesti að þóknun hans fyrir störf sín hafi verið hófleg og í samræmi við gjaldskrá kærða, lög um lögmenn og reglur lögmanna. Þá krefst hann þess að sóknaraðila verði gert að greiða sér málskostnað vegna reksturs máls þessa að mati nefndarinnar.

Varnaraðili kveður reikning sinn nr. 3015 vera í samræmi við kafla 4.1. í gjaldskrá lögmannsstofu sinnar. Samkvæmt henni skuli grunngjald innheimtuþóknunar vera kr. 30.000 en þar við bætist 25% af fyrstu kr. 80.000, en 10% af næstu 750.000. Þóknunin fyrir innheimtuna hafi því verið kr. 102.000.  Er því ljóst að varnaraðili hefur reiknað sér þessa innheimtuþóknun af kr. 600.000.

Varnaraðili bendir á að ef þóknun fyrir innheimtuna hefði verið reiknuð eftir gjaldskrá lögmannsstofunnar á grundvelli tímaskráninga hefði þóknun fyrir hana numið 169.425 fyrir 7,5 tíma vinnu

Varnaraðili kveðst hafa veitt sóknaraðila ríflega afslætti af vinnu fyrir hann. Hann hafi ekki krafið sóknaraðila um 3,05 klst. vinnu áður en kom til þingfestingar sakamálsins. Hann hafi ekki krafið sóknaraðila um 88.478 króna mismun á málskostnaðarreikningi og þóknunarinnar sem ákveðin var með dómi. Hann hafi auk þess gefið sóknaraðila eftir kröfu vegna 3,5 klst vinnu sem unnin var á lögmannsstofu hans í þágu sóknaraðila vegna riftunar á bifreiðaviðskiptum. Í þessu ljósi telur varnaraðili að hann hafi sýnt sóknaraðila sanngirni varðandi þóknun og hafi hún verið í samræmi við gjaldskrá lögmannsstofu sinnar, siðareglur lögmanna og lög um lögmenn.

Varnaraðili bendir á að störf sín fyrir sóknaraðila hafi, í samræmi við umboðið sem sóknaraðili veitti honum, snúið að allri hagsmunagæslu vegna afleiðinga umræddrar líkamsárásar, þ.á.m. ráðgjöf á öllum stigum málsins. Störf sín fyrir dómi hafi aðeins verið lítill hluti af allri þeirri vinnu sem fram fór á skrifstofunni í þágu sóknaraðila.

Varnaraðili hafnar því að hann hafi innheimt óhóflega vegna símtala við sóknaraðila. Þóknunin hafi verið hagsmunatengd og umtalsvert lægri en hún hefði verið ef greitt hefði verið tímagjald, m.a. fyrir símtöl. Þetta breyti því ekki að skráning símtala hafi verið í samræmi við þá vinnu sem í þau fór, en ýmist hafi verið skráðar 6 eða 15 mínútur vegna símtalanna.

Varnaraðili hafnar því að nokkuð athugavert hafi verið við að fjórir lögmenn kæmu að málinu. Hann hafi sjálfur stjórnað því frá upphafi og annast málflutning. Telur varnaraðili að vegna þess að fleiri lögmenn komu að málinu hafi verið unnt að rækja samskipti við sóknaraðila betur en hægt hefði verið ef hann hefði einn annast málið.

Niðurstaða.

Samkvæmt 1. mgr. 24. gr. lögmannalaga, nr. 77/1998, er lögmanni rétt að áskilja sér hæfilegt endurgjald fyrir störf sín og skal umbjóðanda hans, eftir því sem við verður komið, gert ljóst hvert það gæti orðið í heild sinni. Þar á meðal getur lögmaður áskilið sér hluta af þeirri fjárhæð sem umbjóðandi fær greitt í máli, svo og hærra endurgjald ef mál vinnst en ef það tapast. Loforð um ósanngjarnt endurgjald fyrir starf lögmanns bindur ekki umbjóðanda hans sbr. 2. mgr. 24. gr.

Hægt er að skjóta ágreiningi um rétt lögmanns til endurgjalds og fjárhæð þess til úrskurðarnefndar lögmanna, sbr. 26. gr. lögmannalaga.

Sóknaraðili byggir mál sitt ekki síst á athugasemdum sem hann hefur við störf varnaraðila fyrir dómi. Þau störf voru gerð upp að fullu með tildæmdri greiðslu réttargæslumanns úr ríkissjóði og hefur varnaraðili ekki sett fram frekari kröfur vegna þessara starfa en dómurinn ákvarðaði. Úrskurðarnefnd lögmanna endurskoðar ekki dómsniðurstöðuna um tildæmda þóknun varnaraðila sem réttargæslumanns. Telur nefndin að í þessu máli verði aðeins lagt mat á það álitaefni hvort þóknunin sem dregin var frá miskabótum sóknaraðila við uppgjör fól í sér sanngjarnt endurgjald fyrir þau störf sem innheimt var fyrir, þ.e. fyrir störf varnaraðila á tímabilinu 7. janúar - 6. maí 2011. Af þessu leiðir að ekki verður fjallað um athugasemdir sóknaraðila við störf varnaraðila við meðferð héraðsdómsmálsins.

Ekkert hefur komið fram um að varnaraðili hafi átt þess kost að fá ríkissaksóknara til að áfrýja málinu til Hæstaréttar.

Ekki hefur verið sýnt fram á að verkaskipting lögmanna á lögmannsstofu varnaraðila hafi skaðað hagsmuni sóknaraðila eða hafi leitt til hækkunar á gjaldtöku varnaraðila.

Sóknaraðili byggir á því að varnaraðili hafi ekki gætt að því að afla gagna og leggja þau gögn fram við bótanefndina sem honum bárust. Þessi málsástæða fær ekki stoð í gögnum málsins. Ekki er ljóst hvaða gagna sóknaraðili telur að rétt hefði verið að afla. Fyrir liggur að bótanefnd ákvað að greiða þær bætur vegna miska sem héraðsdómur ákvarðaði auk vaxta að fjárhæð kr. 100.000.- Verður ekki séð að ákvæði laga nr. 69/1995 hafi heimilað nefndinni að greiða neinar frekari bætur. Þá virðist vinna vegna athugunar á varanlegu líkamstjóni hafa verið hafin þegar mál þetta var stofnað, en ekkert er fram komið um að með réttu hefði hún átt að vera lengra komin þegar krafan á bótasjóð var gerð.

Af málatilbúnaði varnaraðila er nú ljóst að reikningur hans nr. 3015 fól í sér hagsmunatengda innheimtuþóknun fyrir störf hans að máli sóknaraðila á tímabilinu 7. janúar - 6. maí 2011, en það athugast að þetta verður ekki ráðið af reikningnum sjálfum eða þeim gögnum sem honum fylgdu. Þá styður varnaraðili fjárhæðina við samantekt á vinnustundum sem samkvæmt gjaldskrá hefðu kostað meira en hagsmunatengda þóknunin. Gjaldtakan er þó ekki reiknuð á grundvelli þessarar tímaskráningar.

Vegna þessa tekur nefndin fram að hún telur ekki rétt að áskilja hagsmunatengda innheimtuþóknun samkvæmt gjaldskrá lögmannsstofunnar vegna kröfu sem hefur verið dæmd og aðeins þarf að innheimta með einföldu bréfi til bótasjóðs. Eins og máli þessu er háttað telur nefndin rétt að úrskurða um fjárhæð þóknunarinnar á grundvelli þess sem fyrir liggur um störf varnaraðila og umfang þeirra á þeim tíma sem reikningurinn tekur til. Eins og varnaraðili hefur háttað reikningagerð sinni verður á hinn bóginn ekki fallist á að við þetta mat eigi að líta til 6,55 vinnustunda sem varnaraðili kveðst hafa unnið í þágu sóknaraðila án þess að innheimt væri fyrir þær, annars vegar áður en sakamálið var þingfest og hins vegar vegna bifreiðaviðskipta. Þá getur nefndin ekki fallist á að við matið á þessari þóknun beri að líta til þess sem munaði á málskostnaðarreikningi og tildæmdri þóknun réttargæslumanns við meðferð héraðsdómsmálsins.

Samkvæmt því umboði sem sóknaraðili veitti varnaraðila í febrúar 2010 náði umboðið til hagsmunagæslu vegna afleiðinga umræddrar líkamsárásar. Það kemur fram í gögnum málsins að í samræmi við þetta hélt varnaraðili áfram að afla gagna um tjón sóknaraðila eftir að niðurstaða héraðsdóms lá fyrir, enda tók sú niðurstaða eingöngu til miskabóta vegna árásarinnar. Eftir að krafa hafði verið send á bótasjóðinn þann 11. janúar 2011 er þó ekki að sjá að unnið hafi verið frekar að þeirri innheimtu. Á hinn bóginn liggur fyrir að M, kona hans og móðir voru öll í sambandi við lögmannsstofuna, einkum til að fá upplýsingar um gang málsins. Er ekki unnt að fallast á að lögmannsstofunni hafi borið að annast þau samskipti án endurgjalds, en sú skylda hvílir á lögmönnum að sýna öguð vinnubrögð í slíkum samskiptum eins og öðrum störfum. Þá liggur fyrir að eftir þetta tímamark var unnið að því að afla gagna um varanlegt líkamstjón sóknaraðila og verður málatilbúnaður varnaraðila skilinn svo að hann telji sig hafa fengið greitt fyrir þá vinnu með greiðslu reiknings nr. 3015.

Þegar litið er til tímaskráningarinnar á þessum tíma, þ.á.m. þess tímafjölda sem var ráðstafað í annað en fundi og símtöl við varnaraðila og fjölskyldu hans, telur úrskurðarnefnd rétt að ákvarða að hæfilegt endurgjald fyrir störf sóknaraðila í þágu varnaraðila sé nálægt 5 tímum samkvæmt gjaldskrá eða 112.010 kr. að meðtöldum vsk.

Rétt þykir að málskostnaður falli niður.

Ú R S K U R Ð A R O R Ð :

Hæfileg verklaun varnaraðila, O hdl., vegna vinnu fyrir sóknaraðila, M á tímabilinu 7. janúar - 6. maí 2011, í skilningi 1. mgr. 24. gr. lögmannalaga nr. 77/1998, eru kr. 112.500 að meðtöldum Vsk. Varnaraðili greiði sóknaraðila kr. 20.000.

ÚRSKURÐARNEFND LÖGMANNA