Mál 10 2012

Ár 2013, föstudaginn 23. ágúst, var haldinn fundur í úrskurðarnefnd lögmanna í húsnæði Lögmannafélags Íslands að Álftamýri 9, Reykjavík.

Fyrir var tekið málið nr. 13/2012:

A

gegn

B hrl.

og kveðinn upp svofelldur

Ú R S K U R Ð U R :

Úrskurðarnefnd lögmanna barst þann 24. apríl 2013 erindi kæranda, A, þar sem kvartað er yfir broti B hrl. gegn góðum lögmannsháttum og siðareglum lögmanna með skjalagerð og misvísandi og beinlínis röngum upplýsingum um umbjóðanda sinn í lögskiptum við kæranda.

Kærði sendi nefndinni greinargerð um málið þann 17. maí 2012 og var kæranda gefinn kostur á að gera athugasemdir við hana. Athugasemdir kæranda við greinargerðina bárust 8. júní 2013. Kærða var gefinn kostur á að gera loka athugasemdir við andsvör kærenda með bréfi nefndarinnar 12. júní 2013, en hann kaus að gera ekki frekari athugasemdir vegna málsins.

Málsatvik og málsástæður.

I.

Málsatvik eru þau að kærandi lánaði í árslok 2007 umtalsverða fjármuni inn í hótelrekstur í Danmörku til skamms tíma. Vanskil urðu á þessum lánum og leysti kærandi til sín fasteign hótelsins. Sá maður sem verið hafði í forsvari fyrir rekstrinum freistaði þess í framhaldinu að semja við kæranda um að kaupa eignina. Þessi fyrirsvarsmaður leitaði til kærða um aðstoð við þessi viðskipti. Samskipti kærða við kæranda f.h. þessa umbjóðanda eru sakarefni máls þessa.

Umbjóðandinn lagði fram kauptilboð þann 19. október 2010 í nafni einkahlutafélagsins C. Var tilboðið í allt hlutafé D ehf. sem átti allt hlutafé í dönsku félagi sem var skráður eigandi fasteignarinnar.

Af málatilbúnaði aðila má skilja að tilboðið hafi verið samþykkt af kæranda, en um þetta hafa ekki verið lagðar fram afdráttarlausar upplýsingar. Í því var gert ráð fyrir kaupsamningsfundi og að kaupsamningur yrði undirritaður ekki síðar en 22. október 2010. Ekki varð af því og er ágreiningur með aðilum um hvernig stóð á því. Kærandi kveður umbjóðandann hafa fært fundinn en síðan ekki mætt og hafi hann þá litið svo á að tilboðið væri fallið niður. Kærði kveður kæranda aldrei hafa boðað til kaupsamningsfundarins.

Kærði kveður umbjóðandann hafa leitað til sín í framhaldi af þessu þann 22. október 2010, en kærandi byggir á því að kærði hafi komið að málinu miklu fyrr. Kærði sendi kæranda þann 22. október 2010 bréf þar sem þrýst er á um að kaupsamningsfundur vegna tilboðsins verði haldinn. Í þessu bréfi segir m.a.

„Tekið skal fram að [umbjóðandinn] f.h. tilboðsgjafa er og hefur verið reiðubúinn með kaupsamningsgreiðslu í samræmi við hið samþykkta kauptilboð og því ekkert því til fyrirstöðu af hans hálfu að ganga frá kaupsamningi."

Þá er skorað á kæranda í bréfi þessu að boða til kaupsamningsfundar og boðað að ella muni kærði sjálfur boða til fundarins og eftir atvikum grípa til lögfræðilegra ráðstafana til að halda kaupunum upp á hann. Kærði fylgdi þessu eftir með því að boða þann 10. desember 2010 til kaupsamningsfundar 21. desember 2010.

Úr varð að gerður var kaupsamningur á grundvelli tilboðsins og hann undirritaður af kæranda og umbjóðanda kærða 16. febrúar 2011. Ágreiningur er með aðilum um hver samdi kaupsamninginn, en í honum er m.a. gert ráð fyrir að tiltekin fasteign í Reykjavík standi til fullnustu greiðslum samkvæmt honum. Síðar kom í ljós að fasteignin var í nauðungarsölumeðferð, umbjóðandinn hafði ekki heimildir til að veðsetja hana og fullyrðing í samningnum um að hún yrði seld félagi í eigu nafngreindra aðila á 330 milljónir reyndist haldlaus.

Meðfram þessum samskiptum samdi kærandi í október 2010 við fjárfestingarbanka um aðstoð við að finna annan kaupanda að eigninni. Leiddi það til þess að í marslok 2011 fékk hann annað tilboð í eignina. Kærði hélt hins vegar kaupunum upp á kæranda og varð því ekki af þessari sölu til þriðja manns að sögn kæranda.

Óumdeilt er að kaupsamningur umbjóðandans við kæranda var aldrei efndur af hans hálfu. Þá er því ómótmælt af kærða að hann hafi ekki svarað erindum kæranda þegar greiðslufall varð.

Fasteignin í Danmörku fór í uppboðsmeðferð vegna áhvílandi lána og kærandi leysti til sín fasteignina í Reykjavík, en hún var einnig boðin upp 20. mars 2012. Rifti kærandi kaupsamningnum við kærða með áskilnaði um skaðabætur þann 26. apríl 2012.

II.

Kærandi krefst þess að nefndin úrskurði um hvort kærði hafi brotið af sér gegn góðum lögmannsháttum sem lesa megi úr þeim meginreglum sem fram komi í Codex ethicus lögmanna, sbr. lög um lögmenn nr. 77/1998. Verður þessi krafa skilin svo að þess sé krafist að kærði verði beittur viðurlögum á grundvelli 27. gr. laganna.

Þá krefst kærandi þess að nefndin úrskurði um hvort kærði kunni að hafa skapað sér bótaábyrgð vegna framgöngu sinnar í málinu og skjalagerð.

Kærði byggir á því að kærði hafi með villandi hætti og að því er virðist ráðnum hug blekkt kæranda til samninga undir þvingun og eyðilagt söluferli með þriðja aðila sem hafi verið á lokastigi. Hafi hann þannig skaðað kæranda stórkostlega.

Aðfinnslur kæranda beinast sérstaklega að tveimur atriðum varðandi framgöngu kærða. Í fyrsta lagi að hann hafi ranglega fullyrt að kaupsamningsgreiðsla umbjóðanda hans væri til reiðu, þegar reyndin hafi greinilega verið sú að svo var ekki. Í öðru lagi að í þeim kaupsamningsdrögum sem kærandi byggir á að kærði hafi samið og sent honum, hafi komið fram ákveðnar fullyrðingar um þá tryggingu efnda sem boðin var fram með afsali á fasteign í Reykjavík. Þessi trygging hafi orðið hluti af endanlegum kaupsamningi, en í raun hafi enginn fótur verið fyrir þessum fullyrðingum.

III.

Kærði hafnar fullyrðingum kæranda í þá veru að kærði hafi blekkt hann til samninga við umbjóðanda sinn sem hugarórum og blekkingum. Er litið svo á að hann krefjist þess að öllum kröfum kæranda verði hafnað. Þá krefst hann þess að kærandi, sem er lögmaður, verði víttur fyrir tilhæfulausar sakir og fyrir að reyna að blekkja úrskurðarnefndina.

Kærði gerir það í greinargerð sinni að umtalsefni hvernig kærandi eignaðist umrædda fasteign í Danmörku. Hann kveður umbjóðanda sinn hafa leitað til sín 22. október 2010 þar sem kærandi hafði þá ekki boðað til kaupsamningsfundar. Hann hafi því sent kæranda þau bréf og tölvuskeyti sem lögð hafa verið fram og lúta að því að halda kaupunum upp á kæranda.

Kærði kveðst annars ekki hafa haft frekari afskipti af viðskiptum kæranda og umbjóðanda síns fyrr en 16. febrúar 2011, en þá hafi umbjóðandinn beðið hann að mæta með sér á kaupsamningsfund hjá kæranda. Kærði hafi þá lesið samninginn yfir og vottað hann. Hafi efni samningsins verið nokkuð frábrugðið því sem ákveðið hafi verið í október. Kærði hafnar því að hann hafi komið nálægt gerð samningsins eða þeim tryggingum sem settar voru fram í honum.

Auk þess sem hér hefur verið rakið kveður kærði aðkomu sína að þessum viðskiptum hafa falist í því að hitta fulltrúa dansks lögmanns og fulltrúa fasteignasala, sem umbjóðandi hans og kærandi ákváðu sameiginlega að leita til í því skyni að selja umræddar fasteignir. Þá hafi hann fyrir hönd umbjóðanda síns sent kæranda skeyti þar sem hann var inntur eftir fyrirætlunum sínum, eftir að kærandi tilkynnti um innlausn trygginga samkvæmt samningnum og um riftun hans.

Niðurstaða.

I.

Sá sem telur lögmann hafa í störfum sínum gert á sinn hlut með háttsemi sem stríðir gegn lögum eða siðareglum lögmanna getur sent kvörtun til úrskurðarnefndar lögmanna, sbr. 1. mgr. 27. gr. lögmannalaga, nr. 77/1998. Í afgreiðslu á erindi sem berst nefndinni getur hún fundið að vinnubrögðum lögmanns eða veitt honum áminningu, ef um stórfelld eða ítrekuð brot er að ræða, sbr. 2. mgr. 27. gr. lögmannalaga. Ef sakir eru miklar eða lögmaður hefur ítrekað sætt áminningu getur nefndin í rökstuddu áliti lagt til við ráðherra að réttindi lögmannsins verði felld niður tímabundið eða hann sviptur réttindum.

Nefndin hefur á hinn bóginn engar heimildir til að mæla fyrir um bótaábyrgð eða til að gefa út álit þar um. Verður að vísa þeirri kröfu kæranda frá nefndinni.

Í málatilbúnaði aðila fyrir nefndinni er töluverð umfjöllun um ýmis atriði sem eru þess eðlis að þau hafa ekki þýðingu fyrir niðurstöðu þess. Ræðir hér einkum um aðdraganda þess að kærandi eignaðist umræddar fasteignir í Danmörku og ýmis atriði varðandi samskipti umbjóðanda kærða við kæranda. Verða þessum atriðum engin skil gerð hér.

II.

Í kvörtun kæranda kemur ekki fram hvaða ákvæði siðareglna lögmanna hann telur kærða hafa brotið. Ekki fæst séð að nein ákvæði V. kafla reglnanna um skyldur lögmanns við gagnaðila eigi við um þá háttsemi sem kærða er borin á brýn. Koma einkum til álita ákvæði í I. kafla reglnanna um góða lögmannshætti almennt, sérstaklega svofelld ákvæði 1. gr. 

Lögmanni ber að efla rétt og hrinda órétti.

Skal lögmaður svo til allra mála leggja, sem hann veit sannast eftir lögum og sinni samvisku.

Kærði hefur ekki borið á móti því að fullyrðingar hans um að umbjóðandi hans væri reiðubúinn með kaupsamningsgreiðslu reyndust rangar. Hann hefur hins vegar hafnað því að hafa samið texta í endanlegum kaupsamningi þar sem ýmslegt er fullyrt um tilteknar tryggingar sem ekki reyndist rétt.

Við mat á því hvort kærði gerðist brotlegur við siðareglurnar verður að hafa í huga að lögmenn koma jafnan fram fyrir hönd umbjóðenda sinna en ekki í eigin nafni. Þegar veittar eru upplýsingar um fjárhagsleg málefni umbjóðandans, verður að líta svo á að þar sé yfirleitt um að ræða eigin upplýsingagjöf umbjóðandans í gegn um lögmanninn, en ekki upplýsingar sem lögmaðurinn veitir um umbjóðanda sinn að undangenginni eigin, sjálfstæðri athugun á málefninu. Hið sama gildir ef lögmaður býður fram tilteknar tryggingar fyrir hönd umbjóðanda síns. Ekki er unnt að ganga út frá eða gera kröfu um að lögmaðurinn hafi lagt sjálfstætt mat á gildi þeirra. Án frekari staðfestingar frá kærða gat kærandi því ekki treyst á að lögmaðurinn væri að staðfesta upplýsingar sem hann hefði sjálfur staðreynt. 

Af þessu leiðir að kærði verður ekki beittur viðurlögum á grundvelli aðfinnslna kæranda, nema sannað sé að hann hafi með framgöngu sinni gengið gegn því sem hann vissi sannast. Á kærandi sönnunarbyrðina um þetta, en aðfinnslur verða ekki gerðar við aðrar yfirsjónir kærða en þær sem tekist hefur að sanna. Ekkert liggur fyrir um að kærði hafi þekkt svo gjörla til fjárhags umbjóðanda síns að honum hafi verið ljóst að umbjóðandinn gæti ekki greitt umrædda kaupsamningsgreiðslu eða staðið við að leggja fram umræddar tryggingar. Skiptir því ágreiningur aðila um það hver samdi þau samningsákvæði sem lutu að tryggingunni ekki máli fyrir niðurstöðu málsins.

Ú R S K U R Ð A R O R Ð :

Kröfu kæranda um álit á bótaskyldu kærða er vísað frá nefndinni.

Kærði, B hrl., hefur í störfum sínum ekki gert á hlut kæranda, A, með háttsemi sem stríðir gegn lögum eða siðareglum lögmanna.

ÚRSKURÐARNEFND LÖGMANNA

Valborg Þ. Snævarr, hrl., formaður

Einar Gautur Steingrímsson, hrl.

Kristinn Bjarnason, hrl.

Rétt endurrit staðfestir

________________________

Haukur Guðmundsson