Mál 12 2012
Ár 2013, fimmtudaginn14. mars, var haldinn fundur í úrskurðarnefnd lögmanna í húsnæði Lögmannafélags Íslands að Álftamýri 9, Reykjavík.Fyrir var tekið málið nr. 12/2012:
K
gegn
og kveðinn upp svofelldur
Ú R S K U R Ð U R :
Úrskurðarnefnd lögmannabarst þann 26. október 2012 erindi K þar sem kvartað er yfir brotum P hdl. gegn ákvæðum 24. og 27. gr. laga um lögmenn og 10. , 42., og 44. gr. siðareglna lögmanna auk 17. gr. laga um eftirlit með markaðssetningu og viðskiptaháttum og reglum settum samkvæmt þeim. Brotin telur kærandi felast í því að kærða hafi áskilið sér allt of háa þóknun fyrir störf sín og eru því í málinu hafðar uppi kröfur sem varða bæði fjárskiptin og agaviðurlög svo sem nánar greinir hér að neðan.
Við vinnslu málsins kom í ljós að þau störf sem um ræddi, hafði kærða P unnið sem fulltrúi á lögmannsstofu D hrl. og var umræddur reikningur gefinn út af lögmannsstofunni, en P lét af störfum þar um sama leyti og stofnað var til málsins. Var talið að ágreiningur um fjárskipti yrði ekki útkljáður án aðkomu D að málinu. Í samræmi við þetta var óskað eftir greinargerðum frá bæði P og D, að höfðu samráði við málshefjanda, með bréfi dagsettu 28. nóvember 2012.
Kærðu sendu nefndinni greinargerðir sínar um málið, sem mótteknar voru þann14. desember 2012 og var kæranda gefinn kostur á að gera athugasemdir við þær. Athugasemdir kæranda við greinargerðirnar bárust 7. febrúar 2013, og var kærðu boðið að gera lokaathugasemdir við þær, en þær hafa kosið að gera það ekki.
Málsatvik og málsástæður.
I.
Eftir því sem fram kemur í kvörtun kæranda, greinargerð kærða og gögnum málsins eru málsatvik þau að kærandi hafði samband við kærðu P 13. ágúst 2012. Var erindi hans að fá hana til að fara með sér yfir drög að samningi um fjárgreiðslur og umgengni, sem hann hafði fengið í hendur frá barnsmóður sinni. Þótti honum halla á sig í þessum drögum. Ágreiningur er með aðilum um hvort rætt var um kostnað í þessu símtali. Kærðu halda því fram að gjaldskrá hafi verið kynnt og það rætt sérstaklega að gerð samnings um sambúðarslit tæki venjulega um 3 stundir, en það færi eftir umfangi og væri ekki unnt að segja til um það að svo stöddu.
Í framhaldi af þessu sendi kærandi tölvupóst til kærðu P, með þessum samningsdrögum og athugasemdum sínum við þau. Þá skiptust aðilar á tölvuskeytum og mæltu sér mót á skrifstofu kærðu þann 27. ágúst þar sem þau fóru yfir málið. Ágreiningslaust er að mál þetta snerist um að kærandi var að slíta óskráðri sambúð við barnsmóður sína og að það var í samræmi við niðurstöðu fundarins að kærða gerði í framhaldi hans drög að samningi um sambúðarslit og sendi kæranda. Þá er ágreiningslaust að í lok þessa fundar var rætt um gjaldtöku kærðu og kom þar fram að tímagjald væri 18.500 kr.
Í þeim sem drögum kærða P sendi kæranda, benti hún á að í þeim væru enn nokkur útistandandi atriði, sem gera þyrfti frekari skil eða taka afstöðu til. Í framhaldi af þessu hafði kærandi á ný samband símleiðis við kærðu P og tjáði henni að hann myndi sjálfur ljúka við þessi drög og óskaði eftir að fá sendan reikning fyrir þessa vinnu. Var reikningur gefinn út þann 12. september 2012. Með reikningnum er innheimt fyrir 5 klst vinnu samkvæmt tímaskýrslu og er tímagjald 18.500 krónur. Fjárhæð reikningsins er því 92.500 krónur auk 23.588 kr. í vsk., eða alls 116.088 krónur.
Tímaskýrsla sú sem reikningurinn byggði á er svohljóðandi:
13. ágúst 0,25 Símtal vegna forsjár og umgengni
17. ágúst 0,25 tp samskipti við K
22. ágúst 0,25 tp samskipti við K vegna samkomulags
27. ágúst 0,5 farið yfir samningsdrög frá gagnaðila
28. ágúst 1 viðtal á skrifstofu
7. september 2,5 Samningur útbúinn + samningur sendur K til yfirlestrar
12. september 0,25 símtal móttekið frá K vegna samnings.
Kærandi gerði þegar athugasemdir við þennan reikning og taldi hann of háan. Eftir samskipti í tölvupósti og samráð kærðu P og D var kæranda boðinn afsláttur sem næmi 0,75 tíma vinnu. Var fyrrgreindur reikningur afturkallaður og nýr reikningur gefinn út þann 21. september þar sem færður var inn afsláttur að fjárhæð 13.875, en heildarupphæð þess reiknings án virðisaukaskatts nam þá kr. 78.625, en með virðisaukaskatti 98.674. Kærandi sætti sig ekki heldur við þennan reikning. Urðu nokkur tölvupóstsamskipti á milli aðila um reikning þennan, sem í grófum dráttum snerust um sömu athugasemdir og kærandi hefur uppi í máli þessu. Beindi kærandi sem fyrr greinir ágreiningi sínum við kærðu til úrskurðarnefndar lögmanna með erindi sem barst nefndinni 26. október 2012.
II.
Kærandi krefst þess að reikningur kærðu verði felldur úr gildi, en ella að hann verði lækkaður niður í þá fjárhæð sem nefndin telji eðlilegt endurgjald fyrir þá vinnu sem unnin var eftir að honum var kynnt tímagjald kærðu í lok fundar 28. ágúst 2012. Til þrautavara krefst kærandi þess að þóknunin verði ákvörðuð m.v. hvað eðlilegt megi teljast vegna verksins. Þá krefst kærandi þess að kærða P verði áminnt fyrir brot á lögum og siðareglum lögmanna.
Kærandi gerir ítarlegar athugasemdir við tímaskýrslu kærðu. Hann hefur útbúið og lagt fram yfirlit yfir símtöl úr síma sínum til kærðu. Byggir hann á því að frá 10. ágúst til 17. ágúst hafi hann átt 6 símtöl við kærðu og lögmannsstofuna, sem öll hafi verið innan við 1,5 mínúta að lengd. Telur hann rangt að skráð sé 0,25 klst vinna við eitt svo stutt símtal þar sem kannað sé hvort kærðu geti tekið að sér málið, en þarna sé um að ræða upphaflegt samband við þjónustusala vegna kaupa á þjónustu.
Kærandi telur tímaskráningu 17. ágúst einnig ranga og úr hófi þar sem um hafi verið að ræða örstutta tölvupósta sem aðeins taki nokkrar sekúndur að skrifa.
Þá telur kærandi það óhóflega og ranga tímaskráningu að taka 0,5 klst 27. ágúst í að yfirfara drög gagnaðila að samningi, sem aðeins telji 211 orð á einni blaðsíðu. Hann gerir hins vegar ekki athugasemd við tímaskráningu vegna fundar 28. ágúst.
Kærandi telur það úr hófi að það hafi tekið kærðu 2,5 klst að stilla upp nýjum samningsdrögum. Drögin hafi verið ónákvæm og ekki í samræmi við það sem fram hafði komið í tölvupóstum og á fundi hans með P. Aðeins hafi verið óskað eftir aðstoð við að semja um umgengni og að meta tiltekna muni sem framlag kæranda til gagnaðila. Telur kærandi einsýnt að umrædd drög hafi ekki verið unnin frá grunni, heldur hafi verið notuð önnur fyrirmynd og hún aðlöguð að einhverju leyti að verkinu.
Kærandi byggir á því að sér hafi aldrei verið gerð grein fyrir gjaldskrá eða viðmiðunarreglum um tímaskráningu kærðu. Hann hafi aðeins fengið upplýsingar um tímagjald þegar hann innti eftir því og þá hafi ekki verið getið um að á það ætti eftir að leggja virðisaukaskatt. Kærandi telur að samningsdrögin sem unnin voru fyrir hann séu af staðlaðri og einfaldri gerð. Umrædd verkefni séu á sérsviði kærðu og tímagjaldið hátt. Hljóti að mega reikna með því að þau séu unnin með skilvirkum hætti og eingöngu innheimtir þeir tímar sem í raun fari í þau.
Kærandi telur að öllu samanlögðu að of margir tímar hafi verið skráðir á verkið og m.a. hafi verið skráðar á það fastar tímaeiningar í stað rauntíma. Verkið hafi verið unnið á háu tímagjaldi án þess að honum væri kynnt það fyrirfram eða hvernig endurgjald væri talið saman og reiknað, auk þess sem upplýsingar sem fengust um fjárhæð tímagjaldsins hafi verið án virðisaukaskatts.
Kærandi telur brot kærðu Pvarða við ákvæði 24. og 27. gr. laga um lögmenn og 10. , 42., og 44. gr. siðareglna lögmanna auk 17. gr. laga um eftirlit með markaðssetningu og viðskiptaháttum og reglum settum samkvæmt þeim.
III.
Kærða, P lýsir upphafi starfa sinna fyrir kæranda svo, að eftir að kærandi hafði fyrst samband við hana símleiðis og tekið sér tíma til að hugsa hvort hann vildi óska eftir þjónustu hennar, hafi hannhaft samband við hana á nýjan leik og tekið ákvörðun um að gera það. Kærandi hafi sent henni drög að samningi, sem hún hafi farið yfir og punktað niður athugasemdir til að bera undir kæranda á fundinum. Málið hafi verið nokkuð vandasamt þar sem það snerist um aðila sem voru að slíta sambúð sem aldrei hefði verið skráð. Kærandi hafi verið ósáttur við tillögur móður að umgengni og talið að um hana þyrfti að semja með nákvæmari hætti. Þá hafi aðila greint á um framfærslu barnsins og um uppgjör framfærslu sín á milli en konan hafi verið í fæðingarorlofi við sambúðarslitin og viljað fá framfærslu eða leigugreiðslur frá kæranda. Hafi kærandi ekki viljað fallast á þessar kröfur, en þó hafa viljað koma til móts við kröfur um að jafna tekjumun aðila á meðan á fæðingarorlofi stæði. Hafnar kærða því alfarið að málið hafi ekki snúist um framfærslu eða að hún hafi ekki verið rædd á fundi þeirra.
Kærða kveðst hafa talið mikilvægt að að skýrt kæmi fram í samningnum að verið væri að slíta sambúð, enda gæti slíkt haft áhrif á niðurstöðu, ef síðar þyrfti að úrskurða um umgengni. Samningurinn hafi verið skrifaður frá grunni, enda hafi verið um að ræða flókið umgengnisfyrirkomulag vegna ungs aldurs barnsins. Hafi þessi samningsgerð tekið um 3 klst og telji kærða það hóflegt m.v. efni málsins.
Kærða kveðst hafa átt í tölvupóstsamskiptum við kæranda. Samkvæmt hefðum og venjum við tímaskráningu sé skráð 0,25 klst fyrir hvert sinn sem viðskiptavinur hringi eða tölvupóstsamkipti eigi sér stað. Á hinn bóginn hafi verið komið til móts við athugasemdir kæranda að þessu leyti og honum veittur afsláttur sem nam 0,75 tímum.
Telur kærða að þóknun fyrir 4,25 klst. vinnu hafa verðið hóflega vegna þeirrar vinnu sem innt var af hendi í þágu kæranda. Hún hafnar því að kæranda hafi ekki verið kynnt þóknun fyrir þjónustuna og telur að hún hafi unnið verkið af alúð með hagsmuni kæranda að leiðarljósi. Sé ekki um að ræða brot á siðareglum lögmanna.
IV.
Kærða,D kveðst hafa gert kæranda reikning í samræmi við tímaskýrslu P fyrir 5 tíma vinnu. Kærandi hafi mótmælt reikningnum sem of háum. Hún hafi ákveðið að gefa afslátt af þeim reikningi í því skyni að koma til móts við kæranda. Hún kveðst telja reikning sinn hóflegan og í samræmi við umbeðið og unnið verk.
Niðurstaða.
I.
Sá sem telur lögmann hafa í störfum sínum gert á sinn hlut með háttsemi sem stríðir gegn lögum eða siðareglum lögmanna getur sent kvörtun til úrskurðarnefndar lögmanna, sbr. 1. mgr. 27. gr. lögmannalaga, nr. 77/1998. Í afgreiðslu á erindi sem berst nefndinni getur hún fundið að vinnubrögðum lögmanns eða veitt honum áminningu, ef um stórfelld eða ítrekuð brot er að ræða, sbr. 2. mgr. 27. gr. lögmannalaga. Ef sakir eru miklar eða lögmaður hefur ítrekað sætt áminningu getur nefndin í rökstuddu áliti lagt til við ráðherra að réttindi lögmannsins verði felld niður tímabundið eða hann sviptur réttindum.
Samkvæmt 1. mgr. 24. gr. lögmannalaga, nr. 77/1998, er lögmanni rétt að áskilja sér hæfilegt endurgjald fyrir störf sín og skal umbjóðanda hans, eftir því sem við verður komið, gert ljóst hvert það gæti orðið í heild sinni.
Í 17. gr. laga nr. 57/2005 um eftirlit með viðskiptaháttum og markaðssetningu kemur fram að fyrirtæki, sem selur vörur eða þjónustu til neytenda, skuli merkja vöru sína og þjónustu með verði eða sýna það á svo áberandi hátt á sölustaðnum að auðvelt sé fyrir neytendur að sjá það. Neytendastofa getur samkvæmt ákvæðinu sett nánari ákvæði um verðmerkingar með opinberri tilkynningu og hefur gert það með reglum nr. 537/2011. Í þeim reglum kemur m.a. fram í 3. gr. að á sölustað, sé skylt að gefa upp verð fyrir þjónustu með endanlegu söluverði í íslenskum krónum en endanlegt söluverð sé verð með virðisaukaskatti og öðrum opinberum gjöldum. Þá kemur fram í 4. gr. að verðskrá yfir alla framboðna þjónustu eða úrdráttur úr henni skuli ávallt vera birt með áberandi hætti þar sem þjónustan er veitt.
Samkvæmt 28. gr. laga um þjónustukaup, nr. 42/2000 skal neytandi greiða það verð sem telja má sanngjarnt með hliðsjón af því hve vinnan er mikil og hvers eðlis hún er, hafi ekki verið samið um verð fyrir keypta þjónustu. Samkvæmt 33. gr. sömu laga er seljanda þjónustu sem að beiðni neytanda hefur tekið að sér undirbúningsvinnu, m.a. í þeim tilgangi að skilgreina hve vinna væri mikil, heimilt að krefjast greiðslu fyrir hana.
Samkvæmt 2. mgr. 10. gr. siðareglna lögmanna ber lögmanni að gera skjólstæðingi grein fyrir áætluðum verkkostnaði og öðrum málskostnaði eftir föngum. Lögmanni ber að gera skjólstæðingi grein fyrir á hvaða grundvelli þóknunin er reiknuð.
Samkvæmt 42. gr. siðareglnanna má lögmaður auglýsa og kynna þjónustu sína svo sem samrýmist góðum lögmannsháttum, en óheimilt er að veita rangar, ófullnægjandi eða villandi upplýsingar í auglýsingum eða með öðrum hætti, svo og að afla sér viðskipta með öðrum aðferðum, sem sama marki eru brenndar.
Í 44. gr. siðareglnanna kemur fram að þær má ekki skoða sem tæmandi taldar um góða lögmannshætti.
II.
Rétt þykir að fjalla fyrst um kröfu kæranda um að kærða P verði beitt áminningu á grundvelli 27. gr. lögmannalaga, en síðan um álitamál um fjárhæð reiknings.
Varðandi fyrrgreinda atriðið er til þess að líta að þegar metið er hvort kærða verði beitt viðurlögum á grundvelli aðfinnslna kæranda, á kærandi almennt sönnunarbyrðina um þessi atriði, en aðfinnslur verða ekki gerðar við aðrar yfirsjónir kærða en þær sem tekist hefur að sanna. Ágreiningur er með aðilum um hvernig staðið var að kynningu á gjaldtöku í upphafi samskipta þeirra. Verða aðfinnslur ekki reistar á einhliða yfirlýsingum kæranda um þau efni.
Þá fæst ekki séð að það hafi haft nokkra þýðingu fyrir kæranda hvort gjaldskrá kærðu var nægilega sýnileg á skrifstofunni, en kærandi stofnaði til viðskiptanna með símtölum og tölvupóstsendingum, en ágreiningslaust er að hann fékk uppgefið tímagjald á fyrsta og eina fundi sínum með kærðu. Enda þótt ágreiningur hafi orðið um áskilda þóknun kærðu fæst ekki séð að hún hafi farið í bága við lög eða siðareglur. Verður því að hafna kröfum kæranda um að beitt verði áminningu í málinu.
III.
Að framan eru rakin þau ákvæði sem gilda um skyldur lögmanna til að upplýsa viðskiptavini almennt og sérstaklega neytendur, um gjaldtöku sína. Verður sú ályktun ekki af þeim dregin að sérhver misbrestur á að farið sé ítarlega yfir gjaldtöku í upphafi viðskipta, leiði til þess að greiðsluskylda falli með öllu niður. Slíkt getur þó haft áhrif á mat nefndarinnar á því hvort áskilin þóknun teljist hæfileg.
Þær athugasemdir sem kærandi gerir við áskilda þóknun kærðu, eru af fleiri en einum toga og er nauðsynlegt að gera þeim öllum nokkur skil.
Að því er varðar gæðin á vinnu kærðu, þá fæst ekki annað séð en að drög að samningi vegna sambúðarslita séu í ásættanlegu horfi svo langt sem þau ná, en um er að ræða drög sem ætlunin var að yrðu unnin áfram af kærðu eða kæranda og eftir atvikum gagnaðila hans.
Þær athugasemdir sem kærandi gerði við að tímaskráningar kærðu hafi verið skráðar sem 0,25 stundir að lágmarki hverju sinni, kunna að hafa átt nokkurn rétt á sér. Þegar sá reikningur sem kærða D gerir nú kröfu um að fá greiddan er metinn, verður hins vegar að líta til þess að kærða hefur þegar fellt niður 3 af fjórum stundarfjórðungum sem þannig voru skráðir. Virðist hóflegt að innheimta einn stundarfjórðung samtals fyrir öll samskipti lögmannsstofunnar við kæranda fram til 27. ágúst auk samskipta við hann eftir að honum voru send samningsdrög.
Jafnvel þótt samningsdrög gagnaðila, sem kærandi sendi til kærðu, hafi verið einföld, er til þess að líta að kærandi sendi henni jafnframt sínar hugmyndir og athugasemdir í 8 tölusettum liðum þann 16. ágúst. Þegar þessi gögn eru metin saman virðist það mjög hóflegt að ætla hálfa vinnustund til að fara yfir þessar mismunandi hugmyndir aðila að samningi og undirbúa fund með kæranda. Með vísan til þessara framlögðu gagna verður jafnframt að hafna þeirri málsástæðu kæranda að málið sem hann fól kærðu að vinna hafi nær eingöngu snúið að umgengni hans og barnsins.
Við matið á því hve langan tíma var eðlilegt að það tæki að skrifa fyrirliggjandi drög að sambúðarslitasamningi verður að horfa til alls samhengis málsins. Kærandi var búinn að senda kærðu hugmyndir gagnaðila að umgengni, en einnig sínar eigin hugmyndir og spurningar um ýmis atriði sem hann taldi að semja þyrfti um. Um þetta hafði verið fjallað á fundi hans með kærðu P. Við gerð samningsins hefur þurft að taka nokkurt tillit til þess hvað úrskurðað er um í sambærilegum málum. Umgengnissamningurinn er ítarlegri en títt er, því í honum er leitast við að laga vaxandi umgengni að hækkandi aldri barnsins. Á hinn bóginn er ekki um að ræða langt skjal og í því er enn nokkuð um lausa enda. Þegar á allt er litið virðist ekki ósanngjarnt að miða við að það hafi tekið 2,5 klst að semja skjalið, burtséð frá því hvort það er að nokkru leyti samið upp úr eldra skjali eða ekki.
Að þessu virtu verður að fallast á að kærðu geti áskilið sér þóknun fyrir 4,25 útseldar vinnustundir í þágu kæranda.
Þegar metið er hvaða tímagjald er rétt að miða við, er óhjákvæmilegt að byggja á þeirri frásögn kæranda að honum hafi verið kynnt 18.500 króna tímagjald og að hann hafi staðið í þeirri trú að það verð innifæli virðisaukaskatt. Hefur þessari staðhæfingu ekki verið mótmælt af hálfu kærðu og felur slík gjaldtaka ekki í sér óeðlilega lágt tímagjald. Verður því við það miðað í úrskurðarorði.
Ú R S K U R Ð A R O R Ð :
Kærðu, P hdl. og D hrl. hafa í störfum sínum ekki gert á hlut kæranda, K, með háttsemi sem stríðir gegn lögum eða siðareglum lögmanna.
Hæfilegt endurgjald, vegna vinnu kærðu fyrir kæranda að sambúðarslitamáli hans í skilningi 1. mgr. 24. lögmannalaga nr. 77/1998 eru kr. 78.625 að virðisaukaskatti meðtöldum.
ÚRSKURÐARNEFND LÖGMANNA
Valborg Þ. Snævarr, hrl., formaður
Einar Gautur Steingrímsson, hrl.
Kristinn Bjarnason, hrl.
Rétt endurrit staðfestir
________________________
Haukur Guðmundsson