Mál 17 2012

Ár 2013, fimmtudaginn16. maí, var haldinn fundur í úrskurðarnefnd lögmanna í húsnæði Lögmannafélags Íslands að Álftamýri 9, Reykjavík.

Fyrir var tekið málið nr. 17/2012:

T

gegn

B hrl.

og kveðinn upp svofelldur

Ú R S K U R Ð U R :

Úrskurðarnefnd lögmannabarst þann 17. desember 2012 erindi T þar sem gerður er ágreiningur um áskilda lögmannsþóknun B hrl. fyrir innheimtu slysabóta.

Nefndin óskaði eftir greinargerð lögmannsins með bréfi dagsettu 27. desember 2012 og barst hún 13. febrúar 2013. Í greinargerðinni óskaði varnaraðili eftir samþykki sóknaraðila við að lögð yrðu fram gögn í umræddu slysamáli. Óskað var eftir athugasemdum sóknaraðila við greinargerðina og bárust þær 11. mars 2013 ásamt samþykki við því að umrædd gögn væru lögð fram. Varnaraðili sendi nefndinni umrædd gögn með bréfi, dags. 9. apríl. Var aðilum kynnt sú afstaðað nefndarinnar að gagnaöflun væri lokið og að reikna mætti með að úrskurður yrði lagður á málið á grundvelli fyrirliggjandi gagna eftir miðjan apríl. Frekari athugasemdir bárust ekki vegna málsins.

Málsatvik og málsástæður.

I.

Málsatvik eru þau að varnaraðili tók að sér í júní 2008 að innheimta skaðabætur fyrir sóknaraðila vegna umferðarslyss sem hún varð fyrir 20. desember 2010. Er ágreiningslaust að umboð vegna starfans var undirritað 26. júní 2008 en enginn skriflegur samningur um starfann eða gjaldtöku fyrir hann liggur annars fyrir. Ekkert liggur fyrir um hvort eitthvað var rætt um gjaldtöku í upphafi annað en einhliða yfirlýsing sóknaraðila um að varnaraðili hafi tjáð henni að hún þyrfti ekki að hafa neinar áhyggjur af lögmannskostnaði vegna slyssins. Hún myndi aðeins verða fyrir lágmarks lögmannskostnaði vegna slyssins vegna þess að tryggingafélagið myndi sjá um að greiða næstum allan lögmannskostnað.

Gangur innheimtumálsins var í grófum dráttum sem hér greinir: Aflað var gagna um slysið hjá lögreglu og gætt að hagsmunum sóknaraðila gagnvart vinnuveitanda sínum. Þá var óskað eftir örorkumati tveggja lækna og varð niðurstaða þeirra sú að sóknaraðili hefði orðið fyrir 25% varanlegri örorku og 15% varanlegum miska auk tímabundins atvinnutjóns og þjáningum.

Gerð var bótakrafa á vátryggjanda á grundvelli þessa mats. Tryggingafélagið gerði kröfu um að kannaður væri réttur til bóta hjá lífeyrissjóði og Tryggingastofnun ríkisins. Var ágreiningur við tryggingafélagið hvort meta ætti slíkar bætur til eingreiðslu og draga frá.

Úr varð að óskað var eftir örorkumati hjá TR og viðkomandi lífeyrissjóði, en ekki gengið til uppgjörs á grundvelli tveggja lækna matsins og frádráttar vegna þessara bóta heldur óskað eftir dómkvaðningu matsmanna til að meta alla bótaþætti og þá jafnfram að hve miklu leyti umrætt umferðarslysi hefði haft áhrif á að sóknaraðili var metin til örorku hjá TR og lífeyrissjóðnum. Matsgerð lá fyrir í júlí 2011 og var varanleg örorka sóknaraðila þar metin 70% og varanlegur miski 20%. Töldu matsmenn að metin örorka hjá TR og lífeyrissjóði orsakaðist að 2/3 af afleiðingum slyssins.

Eftir þetta var aftur gerð bótakrafa á viðkomandi tryggingafélag og aflað greiðsluyfirlita vegna greiðslna frá TR og lífeyrissjóði. Var tryggingastærðfræðingur fenginn til að meta þessar greiðslur til frádráttar bótum. Ágreiningur varð um fjárhæð viðmiðunarlauna o.fl. atriði, en samkomulag náðist að lokum um þau í uppgjöri og undirritaði sóknaraðili uppgjör 8. nóvember 2011, en í uppgjörinu kemur fram að varnaraðili fékk greiddar kr. 800.764 að meðtöldum virðisaukaskatti frá tryggingafélaginu. Á þeim sama fundi var rætt um lögmannskostnað vegna málsins en aðilum ber ekki saman um hvað var rætt eða hver niðurstaðan var. Byggir varnaraðili á því að á þessum fundi hafi  náðst samkomulag um að greiddar yrðu 2,1 milljón vegna verksins og sóknaraðili verið ánægð með niðurstöðuna. Sóknaraðili telur að henni hafi verið kynnt að verklaun yrðu 1,2 milljónir en hún hafi átt erfitt með að átta sig á þessu og raunar talið að þetta væri fjárhæð sem tryggingafélagið myndi greiða henni. Hafi hún óskað eftir kvittun fyrir því sem hún greiddi en ekki fengið, né heldur skilagrein eða önnur gögn.

Ágreiningslaust er þó að sóknaraðili gekk í bili ekki frekar eftir því að fá senda skilagrein, og það dróst að hún væri útbúin. Leitaði hún til annars lögmanns sem óskaði eftir henni. Var skilagrein útbúin og send sóknaraðila 20. ágúst 2012 ásamt tímaskýrslum vegna málsins.Í skilagreininni kemur fram að bætur vegna slyssins nema kr. 21.587.169. Frá því dragast kr. 4.618.725 sem greiddar voru af TR og lífeyrissjóði og kr. 4.993.583 sem áður höfðu verið greiddar. Þá dregst frá útgreiddum bótum reikningur varnaraðila að fjárhæð kr. 2.1 milljón að öðru leyti en þeim 450.000 krónum sem varnaraðili hafði þegar greitt inn á hann. Hafi því kr. 10.324.861 verið lagðar inn á reikning sóknaraðila þann 11. nóv 2011.

II.

Aðalkrafa sóknaraðila verður skilin svo að hún krefjist þess aðallega að þóknun varnaraðila verði takmörkuð við þá greiðslu sem hann fékk frá tryggingafélagini. Til vara krefst hún þess að þóknunin verði lækkuð umtalsvert.


Sóknaraðili telur að varnaraðili verði að bera ábyrgð á því að hafa ekki útbúið samning vegna verksins og eingöngu kynnt kostnað vegna málsins í upphafi þannig að ekki þyrfti að hafa af honum áhyggjur þar sem tryggingafélagið myndi greiða hann að langmestu leyti.

Sóknaraðili telur áskilda og innheimta þóknun varnaraðila allt of háa þegar hún er borin saman við gjaldskrá ýmissa lögmannsstofa sem innheimti slysabætur gegn hagsmunatengdri þóknun. Á hinn bógin hafi gjaldskrá varnaraðila ekki fengist þegar eftir því var leitað og ritari lögmannsstofunnar raunar staðfest að engin gjaldskrá væri til sýnis.

Verði ekki talið rétt að byggja á hagsmunatengdri þóknun heldur tímaskrá varnaraðila, gerir sóknaraðili athugasemdir við skrána. Séu þar margar færslur sem stafi af því einu þegar sóknaraðili skilaði af sér gögnum í afgreiðslu lögmannsstofunnar. Þá sé innheimt fullt gjald fyrir ýmis bréf sem ritari varnaraðila hafi skrifað.

Telur sóknaraðili að rekstur þessa innheimtumáls hafi ekki verið þyngri en almennt gerist og að innborganir til sín eða eftirfylgni hennar sjálfrar vegna málarekstursins hafi hvorki verið óvenjulegur né úr hófi. Þá hafi lögmaðurinn engin önnur störf unnið fyrir sig, utan að rita eitt bréf til banka til staðfestingar á því að hún ætti von á slysabótum.

III.

Varnaraðili krefst þess aðallega aðkröfum sóknaraðila verði hafnað, en til vara að úrskurðað verði hæfilegt endurgjald vegna vinnu hans í þágu sóknaraðila.

Varnaraðili kveður mál sóknaraðila hafa verið þungt í vinnslu og rekur í greinargerð sinni gang þess. Margs konar ágreiningur hafi verið uppi við vátryggingafélagið og ítrekað verið óskað eftir endurgreiðslu útlagðs en umdeilds kostnaðar og innborgunum á tjónabæturnar. Málið hafi kallað á mikil samskipti við sóknaraðila, meðferðaraðila hennar, vátryggingafélagið, vinnuveitanda, lögreglu, matsmenn líferyssjóð, Tryggingastofnun, tryggingastærðfræðing o.fl. Hafi sóknaraðili fylgst mjög vel með máli sínu og því að kröfubréf væru send og kröfur gerðar. Vísar varnaraðili til gagna málsins til stuðnings því að málið hafi verið mjög umfangsmikið og kallað á mikla vinnu.

Varnaraðili kveðst hafa farið yfir endanlegt bótauppgjör með varnaraðila á fundi þann 8. nóvember 2011. Hafi bótafjárhæðin orðið mun ásættanlegri vegna þeirrar vinnu sem lögð var í í kjölfar upphaflegs örorkumats. Hafi þau á þessum fundi orðið ásátt um að reikningur hans yrði kr. 2,1 milljónir. Hafi hann gert upp bæturnar til sóknaraðila í samræmi við það þann 11. nóvember 2011.

Niðurstaða.

I.

Það athugast að það umboð sem liggur fyrir í málinu virðist vera vegna annars umferðarslyss sóknaraðila því það er dagsett 14. janúar 2011 og lýtur að hagsmunagæslu gagnvart öðru tryggingafélagi vegna umferðarslyss sem sóknaraðili varð fyrir 20. desember 2010. Á meðal gagna málsins eru tilvísanir í þetta síðara slys en hvorugur aðila hefur þó fjallað um neina vinnu vegna þess. Verður að líta svo á að vinna vegna þess sé óviðkomandi því uppgjöri á milli aðila sem hér um ræðir.

Samkvæmt 1. mgr. 24. gr. lögmannalaga, nr. 77/1998, er lögmanni rétt að áskilja sér hæfilegt endurgjald fyrir störf sín og skal umbjóðanda hans, eftir því sem við verður komið, gert ljóst hvert það gæti orðið í heild sinni. Þar á meðal getur lögmaður áskilið sér hluta af þeirri fjárhæð sem umbjóðandi fær greitt í máli, svo og hærra endurgjald ef mál vinnst en ef það tapast. Loforð um ósanngjarnt endurgjald fyrir starf lögmanns bindur ekki umbjóðanda hans sbr. 2. mgr. 24. greinar.

Samkvæmt 28. gr. laga um þjónustukaup, nr. 42/2000 skal neytandi greiða það verð sem telja má sanngjarnt með hliðsjón af því hve vinnan er mikil og hvers eðlis hún er, hafi ekki verið samið um verð fyrir keypta þjónustu.

Hægt er að skjóta ágreiningi um rétt lögmanns til endurgjalds og fjárhæð þess til úrskurðarnefndar lögmanna, sbr. 26. gr. lögmannalaga.

II.

Í máli þessu liggur ekkert fyrir um hvort eitthvað var rætt um gjaldtöku í upphafi annað en einhliða yfirlýsing sóknaraðila um að varnaraðili hafi tjáð henni að hún þyrfti ekki að hafa neinar áhyggjur af lögmannskostnaði vegna slyssins. Hún myndi aðeins verða fyrir lágmarks lögmannskostnaði vegna slyssins vegna þess að tryggingafélagið myndi sjá um að greiða næstum allan lögmannskostnað. Hefur þessari frásögn sóknaraðila raunar ekki verið mótmælt sérstaklega. Þá má ráða af skilagrein varnaraðila, að sóknaraðili hafi einhvern tíma undir rekstri málsins greitt honum inn á kostnað hans 450.000 krónur, en ekki er að sjá að rætt hafi verið um gjaldtöku af því tilefni.

Að framan eru rakin þau ákvæði sem gilda um skyldur lögmanna til að upplýsa viðskiptavini almennt og sérstaklega neytendur, um gjaldtöku sína. Enda þótt oft sé mjög vandasamt og jafnvel útilokað að áætla fyrirfram umfang vinnu við að ljúka uppgjörum eða deilumálum við gagnaðila, virðist sérstaklega brýnt að tekið sé skýrt fram ef gerður er áskilnaður um þóknun umfram t.d. dæmd málflutningslaun eða þá innheimtuþóknun sem sátt næst um við gjaldanda skuldar. Hefur í fyrri úrskurðum nefndarinnar verið við það miðað að án slíks áskilnaðar sé ekki heimilt að innheimta þóknun umfram það sem fæst hjá gagnaðila.

Í bréfi til vátryggingafélagsins, dags. 20. júlí lagði varnaraðili til að sóknaraðili fengi greiddar um kr. 1.380.000 krónur auk virðisaukaskatts vegna lögfræðikostnaðar. Í uppgjörstillögu félagsins frá 25. ágúst s.á. var lagt til að greiddar yrðu um 765.000 krónur að meðtöldum virðisaukaskatti í innheimtuþóknun. Í endanlegu uppgjöri sem gengið var frá með skaðabótakvittun 8. nóv 2011 var þessi þóknun loks ákvörðuð kr. 800.764, svo sem fyrr greinir. Ekkert liggur fyrir um að sóknaraðila hafi nokkurn tíma verið kynnt að hún þyrfti samkvæmt þessu að taka á sig mjög verulegan hluta kostnaðar af innheimtu bótanna.

Varnaraðili hefur í raun enga tilraun gert til að útskýra fyrir nefndinni hvernig áskilin þóknun hans er reiknuð. Í bréfi hans til lögmanns sóknaraðila, dags. 20. ágúst 2012 kemur þó fram eftirfarandi: Eins og meðfylgjandi tímaskýrsla ber með sér fór mikill tími í málið en í tímaskýrsluna vantar fjölmörg samtöl við T. Fylgdist hún frá upphafi vel með máli sínu og stöðu sinnar vegna þurfti hún margoft á innborgunum að halda inn á tjón sitt frá [tryggingafélaginu]. Fór ég yfir þá vinnu við uppgjör með T og var hún mjög sátt við það endurgjald sem skrifstofa mín áskildi sér vegna málsins með hliðsjón af þeirri vinnu sem í það fór og endanlega niðurstöðu.

Þær tímaskýrslur sem fylgdu bréfinu bera með sér að miðað hafi verið við 14.000 króna tímagjald, (væntanlega án virðisaukaskatts) en að bókfærðir tímar hafi orðið um 134. Með hliðsjón af þessu verður litið svo á að áskilin þóknun varnaraðila í málinu sé reiknuð út frá tímaskýrslu, með álagi vegna ófærðra tíma, en þó þannig að einhver afsláttur sé jafnframt veittur. Engar kröfur eru hafðar uppi í málinu vegna útlagðs kostnaðar og ekki er annað að sjá, en að hann hafi verið greiddur af tryggingafélaginu.

III.

Ekki er annað að merkja en að innheimta bótamálsins hafi verið vel unnin og fylgt eftir af festu af varnaraðila. Þá bera gögn málsins með sér að deilt var um margvísleg atriði og að með því að leggja út í mat dómkvaddra matsmanna hafi töluvert verið lagt í málið .

Sóknaraðili ber sjálf að munnlegir samningar um þóknun hafi ekki verið nákvæmari en svo að rætt hafi verið um að hún myndi aðeins verða fyrir lágmarks lögmannskostnaði vegna slyssins vegna þess að tryggingafélagið myndi sjá um að greiða næstum allan lögmannskostnað. Með hliðsjón af þessari lýsingu þykir mega leggja til grundvallar þá algengu viðmiðun í samningum um innheimtu slysabóta að lögmanninum verði reiknað 30% álag ofan á greiðslu félagsins, enda þykir það hæfilegt með tilliti til umfangs málsins. Verður hæfileg heildargreiðsla að meðtöldum virðisaukaskatti því talin kr. 1.040.993.

Ú R S K U R Ð A R O R Ð :

Hæfilegt endurgjald fyrir vinnu varnaraðila að bótamáli sóknaraðila er kr. 1.040.993.að meðtöldum virðisaukaskatti.

 

ÚRSKURÐARNEFND LÖGMANNA

Valborg Þ. Snævarr, hrl., formaður

Einar Gautur Steingrímsson, hrl.

Kristinn Bjarnason, hrl.

Rétt endurrit staðfestir

________________________

Haukur Guðmundsson