Mál 5 2012

Ár 2012, fimmtudaginn27. desember, var haldinn fundur í úrskurðarnefnd lögmanna í húsnæði Lögmannafélags Íslands að Álftamýri 9, Reykjavík.

Fyrir var tekið málið nr. 5/2012:

Ö

gegn

G hdl.

og kveðinn upp svofelldur

Ú R S K U R Ð U R :

Úrskurðarnefnd lögmanna  barst þann 24. febrúar 2012 erindi Ö, sóknaraðila, þar sem krafist er endurgreiðslu á lögfræðikostnaði, en um er að ræða greiðslur sem sóknaraðili innti af hendi til varnaraðila vegna dómsmáls, en taldi sig eiga að fá endurgreiddan við uppgjör gjafsóknarkostnaðar.

Varnaraðili sendi nefndinni greinargerð um málið þann 16. maí 2012 og var sóknaraðila gefinn kostur á að gera athugasemdir við hana. Athugasemdir sóknaraðila við greinargerð varnaraðila bárust 14. júní 2012. Varnaraðila var gefinn kostur á að gera lokaathugasemdir vegna þeirra, en hefur kosið að gera það ekki.

Málsatvik og málsástæður.

I.

Ekki er ágreiningur um málsatvik í aðalatriðum. Eftir því sem fram kemur í erindi sóknaraðila, greinargerð varnaraðila og öðrum gögnum málsins eru málsatvik þau að sóknaraðili gekkst undir aðgerð á Borgarspítalanum í Reykjavík árið 1996. Hún hlaut slæma sýkingu við aðgerðina og taldi sig hafa hlotið varanlega örorku sem rekja mætti til mistaka sérfræðinga spítalans.

Sóknaraðili fól lögmanni að gæta hagsmuna sinna vegna málsins. Sá lögmaður leitaði eftir bótum innan almannatryggingakerfisins og komst úrskurðarnefnd almannatrygginga að þeirri niðurstöðu í júní 2005 að viðurkennd væri bótaskylda vegna aðgerðarinnar. Úrskurðurinn hefur ekki verið lagður fram í máli þessu. Lögmaðurinn sagði sig frá málinu á árinu 2007 án þess að hafa sótt skaðabætur á grundvelli mistaka við aðgerðina.

Sóknaraðili leitaði til varnaraðila í nóvemberlok 2007. Óumdeilt er að þá strax greindi varnaraðili sóknaraðila frá því að þrátt fyrir gjafsókn myndi alltaf einhver kostnaður lenda á henni. Ekki var gerð nein kostnaðaráætlun þá. Fóru þau yfir möguleika sóknaraðila og undirritaði hún, þann 7. desember 2007, yfirlýsingu. Í yfirlýsingunni kemur fram að sóknaraðili felur varnaraðila að sækja um gjafsókn fyrir sína hönd vegna málsins og að fá fjártjón hennar metið. Nauðsynlegt kunni að vera að höfða mál nú þegar til að freista þess að forða fyrningu kröfunnar. Þá kemur fram að sóknaraðila sé ljóst að bótaréttur hennar kunni að vera fyrndur og felur hún varnaraðila að krefja þann lögmann um bætur vegna þess, sem áður hafði gætt hagsmuna hennar. Þennan sama dag undirritaðu sóknaraðili umboð til varnaraðila þar sem m.a. kemur fram: Undirrituð skuldbindur sig til að greiða ofangreindum lögmanni fyrir umbeðna og veitta þjónustu samkvæmt gjaldskrá hans.

Í framhaldi af þessu höfðaði varnaraðili skaðabótamál til að forða fyrningu kröfunnar, þótt hvorki lægi fyrir mat á tjóni, né trygg sönnunarfærsla fyrir saknæmri háttsemi við aðgerðina. Var málið höfðað í janúar 2008. Þá sótti varnaraðili um gjafsókn í júní 2008, en beiðninni var synjaðí september sama ár með vísan til tekna sóknaraðila.

Varnaraðili ritaði sóknaraðila vegna þessa bréf 22. september 2008, sem lagt hefur verið fram. Þar vekur hann athygli á þeirri áhættu sem felist í því að halda áfram með málið án gjafsóknar. Kostnaður nemi þegar yfir 300 þúsundum. Reikna megi með að matskostnaður verði á bilinu 200 - 250 þúsund og áfallandi kostnað við framhald málsins fyrir héraðsdómi megi ætla 750 þúsund krónur. Bréfinu fylgdu drög að stefnu og upplýsingar um samskipti varnaraðila við fyrri lögmann sóknaraðila. Sóknaraðili óskaði eftir því að bótamálinu yrði fram haldið með bréfi dags. 29. september 2008.

Matsgerðar um afleiðingar aðgerðarinnar var aflað og lá hún fyrir 11. mars 2009 með þeirri niðurstöðu að sóknaraðili hefði hlotið 50% örorku og 20 miskastig vegna aðgerðarinnar. Brást varnaraðili við með því að fella hið fyrra skaðabótamál fyrir héraðsdómi niður og höfða nýtt á grundvelli matsgerðarinnar. Þá sótti sóknaraðili að nýju um gjafsókn til dómsmálaráðuneytisins og var gjafsókn þá veitt með bréfi dags. 3. apríl 2009.

Niðurstaða þessa síðara dómsmáls varð sú að því var vísað frá héraðsdómi með úrskurði [í] febrúar 2010 vegna vanreifunar, en dómnum þótti skorta á að gerð væri grein fyrir því í stefnu í hverju meint mistök starfsmanna stefnda lægju. Var úrskurðað að gjafsóknarkostnaður skyldi greiddur úr ríkissjóði, þ.á.m. málflutningsþóknun, sem var ákveðin 150.000 krónur.

Fremur en að kæra þennan frávísunarúrskurð til Hæstaréttar, varð úr að aflað var mats á því hvort eðlilega hefði verði staðið að aðgerðinni og umönnun sóknaraðila. Niðurstaða matsins varð sú, að læknar og starfsfólk sjúkrahússins hefðu að öllu staðið eðlilega að verki og engu verið ábótavant við aðgerð, meðhöndlun eða umönnun. Var þá aðgerðum hætt af hálfu aðila máls þessa.

Dráttur varð á því að gjafsóknarkostnaður væri gerður upp og gengið frá uppgjöri vegna málarekstursins. Í septemberbyrjun 2011 hóf dóttir sóknaraðila að ganga á eftir uppgjöri, bæði við ráðuneytið og varnaraðila. Varnaraðili krafði ráðuneytið um uppgjör á útlögðum kostnaði að fjárhæð 470.660 kr. með bréfi 9. september 2009, en óumdeilt er að sóknaraðili hafði lagt út 200.660 kr. af þeim kostnaði. Bauðst varnaraðili til að endurgreiða þá fjárhæð án tafar um leið og ljóst varð að ráðuneytið hafði greitt útlagðan kostnað þann 19. sept. 2011.  Dóttirin hreyfði þá athugasemdum við að ekki væru endurgreiddir reikningar, samtals að fjárhæð 1.251.132 kr. að meðtöldum vsk., en þar er um að ræða reikninga vegna lögmannskostnaðar, sem lagðir voru fram við rekstur dómsmálsins. Varnaraðili svaraði því til að í samræmi við það sem farið hefði verið yfir í upphafi, gæti sóknaraðili ekki vænst þess að verða ekki fyrir neinum fjárútlátum vegna málsins. Myndi ekki koma til frekari endurgreiðslna en þeirra sem stöfuðu af útlögðum kostnaði sóknaraðila vegna matsmanna.

II.

Krafa sóknaraðila er að varnaraðila verði gert að endurgreiða sér lögfræðikostnað. Varnaraðili hafi gert sér ljóst að einhver kostnaður myndi lenda á henni þrátt fyrir gjafsókn, en enginn samningur með kostnaðaráætlun hafi verið gerður. Hafi hún reiknað með að þessi kostnaður sinn yrði í lágmarki úr því gjafsókn hafi fengist. Hafi hún greitt 1.251.132 kr. í þeirri trú að hluti upphæðarinnar fengist endurgreiddur af gjafsóknarkostnaði þegar málinu lyki. Niðurstaðan hafi orðið sú, að ekkert af þessum lögmannskostnaði hafi fengist endurgreitt. Sóknaraðili bendir á að frávísunarúrskurðurinn séá því byggður að málið hafi ekki verið nógu vel unnið og sé fjárhæð málflutningsþóknunar metin í því ljósi kr. 150.000 kr.

III.

Afstöðu sinni til kröfu sóknaraðila lýsir varnaraðili svo: Því er hafnað að mér beri að endurgreiða [sóknaraðila] kostnað minn samkvæmt reikningum sem hún greiddi fyrir störf mín á tímabilinu desember 2007 til apríl 2009.Verður því lagt til grundvallar að varnaraðili krefjist þess að kröfum sóknaraðila verði hafnað og lagt til grundvallar að áskilin þóknun hans feli í sér hæfilegt endurgjald.

Varnaraðili kveður sig hafa gert sóknaraðila grein fyrir gjaldskrá sinni og væntanlegum kostnaði, sem réðist að verulegu leyti af fjölda vinnustunda. Sóknaraðili hafi undirritað umboð þar sem hún skuldbatt sig til að greiða þennan kostnað og hafi raunar staðfest við úrskurðarnefndina að sér hafi verið gerð grein fyrir því að hvað sem gjafsókn liði, myndi hún hafa kostnað af málinu. Tímagjaldið hafi á þessum tíma numið kr. 15.700, en nemi nú kr. 22.900. Sóknaraðili hafi sérstaklega óskað eftir því að haldið yrði áfram með málið eftir að varnaraðili gerði henni grein fyrir stöðu málsins og væntanlegum kostnaði með bréfi í september 2008.

Varnaraðili bendir á að samkvæmt gjafsóknarleyfinu hafi átt að gera kröfu um málskostnað eins og málið væri eigi gjafsóknarmál. Hafi hann hagað kröfugerð sinni í samræmi við þetta og niðurstaðan orðið sú að 150.000 fengust upp í lögmannskostnað sóknaraðila.

Varnaraðili kveður sóknaraðila hafa greitt að hluta alla reikninga fyrir störf fram að þeim tíma sem gjafsókn var veitt. Hún hafi ekki verið krafin um greiðslu þóknunar vegna þeirrar vinnu sem þá hafi tekið við. Um sé að ræða 66 vinnustundir, sem samkvæmt núgildandi gjaldskrá nemi kr. 1.511.400 auk vsk. Upp í þetta hafi aðeins greiðst 150.000 kr. úr gjafsókn. Bendir varnaraðili á að gjafsókn hafi aðeins tekið til þóknunar lögmanns innan réttar og til réttargjalda. Hafi matskostnaður verið talinn til réttargjalda. Hafi hann endurgreitt sóknaraðila þann hluta matskostnaðar sem hún hafði lagt út, þrátt fyrir að þóknun hans hafi þá verið ógreidd að verulegum hluta. Áskilur sóknaraðili sér rétt til að innheimta þessa kröfu, en hefur þó ekki uppi kröfur vegna hennar í máli þessu.

Niðurstaða.

Samkvæmt 1. mgr. 24. gr. lögmannalaga, nr. 77/1998, er lögmanni rétt að áskilja sér hæfilegt endurgjald fyrir störf sín og skal umbjóðanda hans, eftir því sem við verður komið, gert ljóst hvert það gæti orðið í heild sinni. Þar á meðal getur lögmaður áskilið sér hluta af þeirri fjárhæð sem umbjóðandi fær greitt í máli, svo og hærra endurgjald ef mál vinnst en ef það tapast. Loforð um ósanngjarnt endurgjald fyrir starf lögmanns bindur ekki umbjóðanda hans sbr. 2. mgr. 24. gr.

Samkvæmt 10. gr. siðareglna lögmanna skal lögmaður ætíð gefa skjólstæðingi hlutlægt álit á málum hans. Ber lögmanni að gera skjólstæðingi grein fyrir áætluðum verkkostnaði og öðrum málskostnaði eftir föngum, og vekja athygli hans, ef ætla má, að kostnaður verði hár að tiltölu við þá hagsmuni, sem í húfi eru. Lögmanni ber að gera skjólstæðingi grein fyrir á hvaða grundvelli þóknunin er reiknuð.

Samkvæmt 29. gr. laga um þjónustukaup, nr. 42/2000 má verð fyrir þjónustu ekki fara verulega fram úr verðáætlun, hafi seljandi þjónustu látið neytanda áætlun í té.

Hægt er að skjóta ágreiningi um rétt lögmanns til endurgjalds og fjárhæð þess til úrskurðarnefndar lögmanna, sbr. 26. gr. lögmannalaga.

Eins og mál þetta er lagt fyrir nefndina, verður í því að taka afstöðu til þess hvert sé hæfilegt endurgjald fyrir öll störf varnaraðila fyrir sóknaraðila.

Af öllu því sem að framan er rakið, er ljóst að sóknaraðili getur ekki krafist þess að þóknun varnaraðila verði einskorðuð við þær 150.000 kr. sem greiddar voru af gjafsókninni. Er þessari fjárhæð ætlað að greiða fyrir störf að dómsmálinu sjálfu, en ljóst er að ýmis gagnaöflun, samskipti við skjólstæðing o.fl.  fellur almennt utan við það sem greitt er af gjafsókn, auk þess sem varnaraðili taldi sig í þessu máli þurfa að stefna inn einu héraðsdómsmáli til að rjúfa fyrningu sem fyrst, en fella það síðan niður, án þess að neinn kostnaður af því máli væri greiddur af gjafsókn. Þá er óumdeilt að varnaraðili gerði sóknaraðila frá upphafi grein fyrir því að jafnvel þótt gjafsókn fengist, myndi alltaf einhver kostnaður lenda á henni.

Kemur þá næst til skoðunar hvort endurgjald varnaraðila er hæfilegt. Erfitt getur reynst að meta fyrir fram hve mikil vinna fer í dómsmál af því tagi sem hér um ræðir. Fæst ekki séð að varnaraðili hafi gert tilraun til að meta þann kostnað fyrr en með bréfinu frá 22. september 2008. Þar áætlar hann að kostnaður við málið fyrir héraðsdómi verði um 1.050.000 auk matskostnaðar að fjárhæð 200 - 250 þúsund. Virðist þá hafa verið átt við kostnað án virðisaukaskatts. Matskostnaður reyndist verða 470.660 og greiddist að fullu af gjafsókninni. Varnaraðili hefur hins vegar fengið 1,4 milljónir greiddar, að virðisaukaskatti meðtöldum, þar af 150.000 úr gjafsókninni og telur sig raunar eiga um 1,35 milljónir ógreiddar hjá sóknaraðila til viðbótar, þótt hann hafi ekki haft uppi kröfur vegna þess í málinu.

Við matið á því hvað sé hæfileg þóknun, verður að byggja á þeim gögnum sem lögð hafa verið fyrir nefndina. Um var að ræða skaðabótamál, þar sem reyndi á ýmsa þætti, ekki síst sönnun, bæði á tjóninu og sök. Varnaraðili tók við málinu í því horfi að bregðast þurfti skjótt við, vegna hættu á að málið myndi fyrnast og var m.a. í samskiptum við fyrri lögmann og ábyrgðartryggjanda hans.Varnaraðili hefur sinnt töluverðum samskiptum við sóknaraðila og fjölskyldu hennar eftir að frávísunarúrskurðurinn var kveðinn upp. Sóknaraðili hefur ekki gert athugasemdir við sjálfar tímaskriftirnar vegna málsins og borið við vankunnáttu til þess að fara yfir sjálfan málareksturinn.

Á hinn bóginn hefur héraðsdómur metið það svo, að málatilbúnaðurinn sjálfur hafi ekki kallað á sérlega umfangsmikla vinnu og varnaraðila hefur ekki tekist að hnekkja því mati eða sýna fram á atvik sem réttlæta að upphafleg áætlun hans um ríflega milljón krónur í þóknun fyrir málið hafi þurft á tvöföldun að halda áður en yfir lauk, þrátt fyrir að málið hefði þá aldrei verið flutt efnislega. Verður hér einnig að líta til fyrrgreinds ákvæðis laga um þjónustukaup.

Nefndin telur að þau vinnubrögð varnaraðila að höfða seinna héraðsdómsmálið án þess að nokkuð hafi legið fyrir um saknæma háttsemi orka tvímælis. Ekki verði fram hjá því litið, þegar umfang verksins er metið, að unnt hefði verið að afla matsgerðar án þess að stefna málinu.

Þegar litið er til alls framangreinds, auk tímaskráningar varnaraðila, telur úrskurðarnefnd rétt að miða hæfilegt endurgjald fyrir störf varnaraðilaí þágu sóknaraðila í heild sinni við u.þ.b. eina milljón króna, auk virðisaukaskatts, að meðtöldum þeim 150.000 króna, sem hann fékk greiddar af gjafsókn. Felur sú niðurstaða í sér að varnaraðila verður gert að sæta lækkun á áskilinni þóknun sinni og endurgreiða sóknaraðila kr. 150.000  af því sem hún hafði greitt honum inn á kröfu sína vegna þóknunarinnar.

Rétt þykir að málskostnaður falli niður.

Ú R S K U R Ð A R O R Ð :

Varnaraðili, G hrl., skal endurgreiða sóknaraðila, Ö, kr. 150.000 af þeim greiðslum sem hún hefur innt af hendi vegna starfa varnaraðila að skaðabótamáli hennar.

Greiðslur hennar, að teknu tilliti til þessarar endurgreiðslu, fela í sér sanngjarnt endurgjald, í skilningi 1. mgr. 24. gr. lögmannalaga nr. 77/1998, fyrir öll störf varnaraðila í hennar þágu.

ÚRSKURÐARNEFND LÖGMANNA

Einar Gautur Steingrímsson, hrl., formaður

Kristinn Bjarnason, hrl.

Valborg Þ. Snævarr, hrl.

Rétt endurrit staðfestir

________________________

Haukur Guðmundsson