Mál 7 2012
Ár 2012, fimmtudaginn 23. ágúst, var haldinn fundur í úrskurðarnefnd lögmanna í húsnæði Lögmannafélags Íslands að Álftamýri 9, Reykjavík.
Fyrir var tekið málið nr. 7/2012:
F
gegn
G hdl.
og kveðinn upp svofelldur
Ú R S K U R Ð U R :
Í erindi Ftil úrskurðarnefndar lögmanna, sem barst nefndinni þann 2. apríl 2012, var kvartað yfir háttsemiG hdl., kærða, en kærði kom fram fyrir hönd kynföður barna sem kærandi hefur í fóstri á vegum barnaverndaryfirvalda í H.
Með bréfi, dags. 18. apríl var óskað eftir greinargerð kærða um málið og barst hún nefndinni 3. maí. Var kæranda gefinn kostur á að gera athugasemdir við hana. Athugasemdir kæranda við greinargerð kærða bárust 30. maí, en lokaathugasemdir kærða vegna málsins bárust 29. júní 2012.
Málsatvik og málsástæður.
I
Eftir því sem fram kemur í kvörtun kæranda, greinargerð kærða og gögnum málsins eru málsatvik þau að kærandi hefur börn í fóstri fyrir barnaverndaryfirvöld í H. Kynforeldrar barnanna njóta umgengni við börnin á grundvelli barnaverndarlaga. Kærði gætti hagsmuna kynföður þeirra. Mikil átök hafa verið um málefni barnanna og hefur kynfaðir þeirra m.a. gert athugasemdir við að kynmóðir þeirra njóti mun betri aðgangs að þeim í gegn um kæranda en hann sjálfur. Fósturforeldrar barnanna hafa á hinn bóginn talið sig búa við yfirgang og áreiti af hálfu kynföðurins.
Fundur var haldinn þann 8. september um málefni barnanna. Þar mættu starfsmenn barnaverndaryfirvalda í H og kynfaðir þeirra ásamt kærða. Á fundinum komu fram athugasemdir kynföður við að jafnræðis væri ekki gætt á milli kynforeldra í umgengni við börnin.
Á þessum fundi voru starfsmönnum barnaverndaryfirvalda sýndar útprentanir af Facebook síðu sem sýndu að kynmóðir og fósturmóðir barnanna væru í samskiptum sín á milli.
Þessar útprentanir hafa ekki verið lagðar fram í máli þessu. Telur kærandi að umræddar útprentanir hafi stafað af hennar Facebook síðu sem brotist hafi verið inn á og hefur hún kært kynföður barnanna til lögreglu fyrir þá háttsemi.
II.
Kærandi krefst þess að kærði verði áminntur í starfi og gert að starfa eftir siðareglum lögmanna og almennum siðareglum samfélagsins. Þá krefst kærandi afsökunarbeiðnar, en litið er svo á að sú krafa beinist ekki að nefndinni heldur að kærða. Lítur nefndin lítur svo á að þess sé krafist, að kærði verði beittur viðurlögum samkvæmt 27. gr. laga um lögmenn.
Kærandi telur einsýnt að þær útprentanir sem málið snýst um hafi umbjóðandi kærða komist yfir með ólögmætum hætti, þ.e. með því að brjótast inn á Facebook síðu hennar. Hafi hún ítrekað orðið vör við að brotist hafi verið inn á síðuna allt frá júlí 2011 þótt hún hafi breytt lykilorðum.
Kærandi telur að kærða hljóti að hafa verið það ljóst að þessi gögn væru fengin með ólögmætum hætti. Þurfi ekki glöggt auga til að sjá að umrædd gögn séu prentuð út úr lokuðu skilaboðakerfi Facebook, sem eigendur einir hafa aðgang að, en ekki af opinberri forsíðu.
Þrátt fyrir þetta hafi kærði lagt gögnin fram á fundi með barnaverndaryfirvöldum. Séu þessi vinnubrögð hans til skammar og ekki sæmandi manni í hans stöðu.
III.
Kærði hafnar því alfarið að nefndin veiti honum áminningu. Málatilbúnaður hans fyrir nefndinni verður skilinn svo að hann krefjist þess aðöllum kröfum kæranda verði hafnað.
Kærði segist ekki muna nema mjög óglöggt eftir umræddum gögnum. Þau hafi þó ekki borið með sér að hafa verið fengin með ólögmætum hætti og hafi heldur ekki verið sýnt fram á að svo hafi verið. Um hafi verið að ræða útprentanir af Facebook síðu, sem séu í eðli sínu opinberar hverjum sem er, þótt hægt sé að læsa þeim að einhverju leyti. Sjálfur hafi hann enga hugmynd um hvort Facebook síður kæranda eða kynmóður barnanna séu læstar að meira eða minna leyti.
Hafi skjólstæðingur sinn tjáð sér að þessar útprentanir hefðu borist sér í ómerktu umslagi. Sjálfur kveðst kærði mjög efins um að skjólstæðingur hans sé fær um að brjótast inn á Facebook síður.
Kærði segir þessar útprentanir ekki hafa verið lagðar fram, heldur sýndar starfsmönnum barnaverndaryfirvalda í trúnaði.
Niðurstaða.
Sá sem telur lögmann hafa í störfum sínum gert á sinn hlut með háttsemi sem stríðir gegn lögum eða siðareglum lögmanna getur sent kvörtun til úrskurðarnefndar lögmanna, sbr. 1. mgr. 27. gr. lögmannalaga, nr. 77/1998. Í afgreiðslu á erindi sem berst nefndinni getur hún fundið að vinnubrögðum lögmanns eða veitt honum áminningu, ef um stórfelld eða ítrekuð brot er að ræða, sbr. 2. mgr. 27. gr. lögmannalaga. Ef sakir eru miklar eða lögmaður hefur ítrekað sætt áminningu getur nefndin í rökstuddu áliti lagt til við ráðherra að réttindi lögmannsins verði felld niður tímabundið eða hann sviptur réttindum.
Í máli þessu háttar svo til að kvartað er yfir þeirri háttsemi kærða að sýna starfsmönnum barnaverndaryfirvalda tiltekin gögn. Fær nefndin ekki séð að það skipti hér máli hvort gögnin voru lögð fram eða sýnd yfirvöldum, en kvörtunin lýtur að því að kærða hafi mátt vera ljóst að þau væru illa fengin. Þessi gögn telur kærandi að stafi af Facebook síðu sinni. Hún hefur ekki lagt þau fram og fram kemur í kvörtun hennar að hún hafi eytt öllum þeim samskiptum sem hér um ræðir af síðunni. Kærði hefur ekki lagt þessi gögn fram og verður málatilbúnaður kærða skilinn svo að sjálfur hafi hann ekki haft þessi gögn undir höndum og hafi þau ekki nú.
Er til þess að líta að þegar metið er hvort kærði verði beittur viðurlögum á grundvelli aðfinnslna kæranda, á kærandi almennt sönnunarbyrðina um þessi atriði, en aðfinnslur verða ekki gerðar við aðrar yfirsjónir kærða en þær sem tekist hefur að sanna. Án þeirra gagna sem hér um ræðir, getur nefndin ekki borið brigður á þær fullyrðingar kærða að þau hafi ekki borið með sér að vera fengin með ólögmætum hætti.
Með vísan til þessa verður að hafna því að kærandi teljist hafa gerst brotlegur við lög eða siðareglur lögmanna í störfum sínum fyrir umræddan umbjóðanda sinn.
Ú R S K U R Ð A R O R Ð :
Kærði, G hdl., hefur í störfum sínum ekki gert á hlut kæranda, F, með háttsemi sem stríðir gegn lögum eða siðareglum lögmanna.
ÚRSKURÐARNEFND LÖGMANNA
Einar Gautur Steingrímsson, hrl., formaður
Kristinn Bjarnason, hrl.
Valborg Þ. Snævarr, hrl.
Rétt endurrit staðfestir
________________________