Mál 11 2012

 

Ár 2012, föstudaginn 14.desember, var haldinn fundur í úrskurðarnefnd lögmanna í húsnæði Lögmannafélags Íslands að Álftamýri 9, Reykjavík.

Fyrir var tekið málið nr. 11/2012:

N

gegn

L hrl.

og kveðinn upp svofelldur

Ú R S K U R Ð U R :

Í erindi kæranda, N,til úrskurðarnefndar lögmanna, sem barst nefndinni þann 28. ágúst 2012, voru gerðar athugasemdir vegna viðskipta kæranda við L hrl., kærða, vegna kostnaðar sem kærandi hafði af dómsmáli sem kærði rak fyrir son hennar að fengnu gjafsóknarleyfi.

Þar sem málatilbúnaður kæranda var nokkuð óskýr, m.a. um kröfur og sakarefni, var leitað eftir skýringum kæranda. Lágu þær fyrir 5. september 2012.

Kærði sendi nefndinni greinargerð um málið þann15. október 2012 og var kæranda gefinn kostur á að gera athugasemdir við hana. Athugasemdir kæranda við greinargerð kærða bárust 30. október 2012og var kærða boðið að koma á framfæri sjónarmiðum sínum vegna þeirra, en hann tilkynnti nefndinni með tölvupósti þann 15. nóvember 2012 að teldi ekki tilefni til að gera frekari athugasemdir. Þann sama dag bárust enn viðbótarathugasemdir kæranda vegna málsins.

Málsatvik og málsástæður.

I.

Eftir því sem fram kemur í kvörtun kæranda, greinargerð kærða og gögnum málsins eru málsatvik þau að kærði tók að sér að gæta hagsmuna sonar kæranda, vegna forsjárágreinings. Er umboð sonarins til kæranda dagsett 28. september 2009 og m.a. vottað af kæranda, en hún mun hafa fylgt honum á fundi til kærða.

Í umboðinu er svofelldur texti um þóknun:

Ég skuldbind mig til þes að greiða lögmanninum fyrir umbeðna og veitta þjónustu samkvæmt gjaldskrá [Lögmannsstofunnar H]. Gjaldskráin hefur verið kynnt mér og ég fengið eintak hennar. Ég hef jafnframt verið upplýstur um áætlaðan heildarkostnað af verkinu, þ.e. þóknun og útlagðan kostnað. Verkið skuldbind ég mig til að greiða í verklok samkvæmt reikningi frá lögmannastofunni. Standi verkið lengur en 1 mánuð er stofunni heimilt að kalla eftir greiðslu upp í verkið og er mér skylt að greiða slíka áfangareikninga.

Er ágreiningslaust að sonur kæranda hafði mjög takmarkað fjárhagslegt bolmagn til málarekstrarins en kærandi tók að sér gagnvart kærða að standa honum skil á kostnaði vegna málsins.

Kærði sendi kæranda og syni hennar báðum afrit stefnu þann 10. nóvember 2009. Um leið gerði hann þeim grein fyrir að reikningur sinn næmi þá kr. 340.000 kr. sem óskuðust greiddar. Kærandi svaraði honum um hæl að gengið yrði frá greiðslu innan nokkurra daga og gekk það eftir.

Þann 20. nóvember 2009 sendi kærði kæranda annað tölvuskeyti þar sem fram kemur að hann undirbúi að sækja um gjafsókn. Eru í skeytinu raktar stuttlega nokkrar reglur sem um gjafsókn gilda, þ.á.m. að gjafsókn vegna efnahags sé almennt ekki veitt ef tekjur eru umfram 1.600.000 kr. á ári, en tekjur sonar hennar hafi verið aðeins umfram þessi mörk. Þá eru rakin ýmis atriði sem leitt geta til þess að gjafsókn sé veitt þótt tekjur séu umfram mörkin og sérstaklega vakin athygli á ákvæði 7. gr. rglg. 45/2008 um að hækka skuli þessi mörk af tilliti til barna umsækjanda að uppfylltum tilteknum skilyrðum. Beinir kærði því til þeirra mæðgina að þau vinni sameiginlega að því að afla gagna og undirbyggja þann málstað að þetta eigi við.

Kærði sótti um gjafsókn vegna málsins þann 3. maí 2010. Sendi hann kæranda og syni hennar báðum umsóknina til upplýsingar. Með tölvuskeyti til kærða 9. maí 2010 ritaði kærandi vegna þessa:

„Vonandi fær hann eitthvað út úr þessu, þó svo verði ekki ber nú ekki að örvænta, við munum kljúfa þennan kostnað með sóma, því máttu treysta"

Gjafsókn var veitt 26. maí 2010, en takmarkaðist við kr. 400.000. Kærði sendi kæranda og syni hennar gjafsóknina með tölvuskeyti þann 5. júní. Í því skeyti vekur kærandi sérstaklega athygli á því að hún sé takmörkuð við kr. 400.000 og komi ekki til greiðslu fyrr en að loknu dómsmálinu. Þá greinir kærði frá því að síðan honum hafi borist greiðsla inn á sinn kostnað hafi fallið til 33 viðbótarvinnustundir, en þóknun vegna þess sé kr 616.275 með VSK, en þar við bætist einhver útlagður kostnaður. Segir kærði í skeytinu þessi útlagði kostnaður megi bíða en óskar eftir að annað verði greitt eða greiðslur umsamdar. Þá vekur kærði athygli á því að afla þurfi mats vegna málsins. Kostnaður matsmanns verði líklegast a.m.k. 500.000 kr., en tryggt þurfi að vera að þennan kostnað verði unnt að greiða þegar matið liggi fyrir.

Í svarskeyti kæranda 7. júní segir hún að það sé gott að sonur hennar hafi fengið „þó þetta í gjafsókn" en biður um nokkurra daga frest til að ganga frá greiðslu til kærða. Þá lagði kærandi 616.275 krónur inn á reikning kærða þann 10. júní.

Málið var rekið áfram og matsmaður dómkvaddur. Kærandi sendi fyrirspurn til kærða þann 21. október 2010 þar sem hún innti hann eftir því hvort unnt væri að fá frekari gjafsókn í málinu vegna matsins.

Reikningur matsmannsins var að fjárhæð kr. 813.500. Með tölvuskeyti 9. nóvember óskaði kærði eftir því við kæranda að hún legði þá fjárhæð inn hjá sér og varð hún við því. Með bréfi dags. 20. desember 2010 sótti kærði um endurskoðun á þeirri takmörkun gjafsóknarinnar sem fyrr er greint frá. Nýtt gjafsóknarleyfi var gefið út þann 20. janúar 2011. Í því er gjafsókn ekki takmörkuð við ákveðna fjárhæð, heldur eingöngu við „réttargjöld, þóknun lögmanns og undirmatsgerð"

Dómsmálinu lauk með réttarsátt um miðjan mars 2001, eftir aðalmeðferð í febrúarlok, en úrskurðað var um málflutningsþóknun.

Á framlögðu,ódagsettu málskostnaðaryfirliti kemur eftirfarandi fram:

Kostnaður vegna 145,5 vinnustunda við rekstur málsins og aksturs er kr. 3.350.850.

Ýmis útlagður kostnaður vegna málsins er kr. 97.165

Kostnaður við 9 vinnustunda lögfræðilega aðstoð og akstur eftir marslok 2011 er kr. 214.605.

Á yfirlitinu er ekki gerð sérstök grein fyrir útlögðum matskostnaði, en fyrir liggur að hann nam kr. 813.500. Er hér gengið út frá því að matskostnaður hafi verið greiddur beint af gjafsókninni.

Heildarreikningur kærða nam samkvæmt þessu kr. 3.662.620. Honum til frádráttar á yfirlitinu eru greiðslur vegna gjafsóknar að fjárhæð kr. 2.008.000 og þrjár greiðslur frá kæranda að fjárhæð kr. 1.769.775. Inneign er því 115.155.

Þann 24. október sendi kærandi tölvupóst til kærða þar sem hún grennslaðist fyrir um hvort ekki ætti að afgreiða gjafsóknina fyrst málinu væri lokið. Í framhaldi af þessu kom kærandi á fund kærða ásamt syni sínum. Þar var upplýst að búið væri að greiða út vegna gjafsóknar, en að inneign kæranda næmi kr. 115 þúsund. Kærandi var ósátt við að fá ekki allan kostnað vegna málsins greiddan úr gjafsókninni. Kærði greiddi henni kr. 400.000.

Kærandi leitaði til umboðsmanns Alþingis og kvartaði yfir uppgjöri á gjafsókninni. Umboðsmaður svaraði kæranda á þá leið með bréfi 18. apríl 2012 að sér virtist gjafsóknin hafa verið gerð réttilega upp en ágreiningur kæranda ætti með réttu að vera við lögmanninn, því hann virtist snúa að því hvort greiðslur hefðu verið réttilega dregnar frá við uppgjör. Benti umboðsmaður Alþingis kæranda á að snúa sér til kærunefndar lögmanna. Þá mun kærandi hafa átt símtal við umboðsmann þar sem þetta var áréttað.

II.

Upphaflega taldi kærandi að ekki væri yfir öðru að kvarta en því, að ríkið firrti sig ábyrgð á réttilega gerðum reikningum kærða, þrátt fyrir veitta gjafsókn. Kvaðst hún ekki hafa áttað sig á því að þrátt fyrir gjafsóknina stæði upp á hana að greiða verulegan hluta kostnaðar af málinu. Hún hefði fjármagnað inngreiðslur með yfirdráttarláni í trausti þess að reikningar fengjust að lokum endurgreiddir að fullu af gjafsókninni. Taldi hún sig ekki hafa neinar forsendur til að efast um að reikningar kærða væru fyllilega eðlilegir.

Kvörtun kæranda lýtur að því að henni og syni hennar hafi ekki verið kynnt fyrirfram hver kostnaður hennar yrði af málsókninni yrði og hvernig hann myndi endanlega skiptast, en hún hafi verið í góðri trú um að fá endurgreitt að fullu það sem hún hefði lagt út fyrir til áfallandi kostnaði.

Kærandi byggir á því að þegar rætt var um væntanlegan kostnað í upphafi hafi m.a. verið spurt hvort kostnaður gæti náð heilli milljón og kærði svarað því að slíkar upphæðir hafi heyrst. Hins vegar hafi aldrei verið rætt um jafn háar fjárhæðir og raun varð á.

Kærandi byggir á því að frá upphafi hafi hún reiknað með að fá fulla gjafsókn, þótt hún hafi í fyrstu verið takmörkuð við kr. 400.000. Hafi kærða verið gerð fyllilega grein fyrir því að sonur hennar yrði að fá gjafsókn vegna málsins

Þá óskar kærandi úrskurðar nefndarinnar um hvort gjaldtaka lögmannsins hafi verið hæfileg í ljósi þess hve hún var miklu hærri en tildæmd gjafsóknarlaun.

III.

Kærði hafnar því í greinargerð sinni að þeim mæðginum hafi ekki verið leiðbeint um hugsanlegan kostnað af málinu og að ágreiningur sé um fjárhæð endurgjalds. Er litið svo á að kærði krefjist þess að öllum kröfum kæranda verði hafnað.

Kærði kveðst hafa kynnt þeim mæðginum áætlaðan heildarkostnað af verkinu eins og þau hafi raunar viðurkennt og kvittað fyrir með undirritun umboðsins. Hins vegar skuli fúslega viðurkennt að heildarkostnaðurinn hafi reynst meiri en áætlað var þegar upp var staðið. Málskjöl hafi hlaðist utan á málið og ýmislegt í því hafi þurft að endurtaka og frestast. Rétt sé þó að undirstrika að enginn ágreiningur sé um tímaskýrslu vegna málsins.

Kærði bendir á að kærandi hafi þekkt gjaldskrá lögmannsstofu sinnar og berum orðum ítrekað ábyrgst honum greiðslu alls kostnaðar að fullu, án tillits til þess hvort málssókn fengist. Hafi verið borgað inn á þóknun sína án nokkurs tillits til gangs gjafsóknarumsóknar.

Niðurstaða.

I.

Sá sem telur lögmann hafa í störfum sínum gert á sinn hlut með háttsemi sem stríðir gegn lögum eða siðareglum lögmanna getur sent kvörtun til úrskurðarnefndar lögmanna, sbr. 1. mgr. 27. gr. lögmannalaga, nr. 77/1998. Í afgreiðslu á erindi sem berst nefndinni getur hún fundið að vinnubrögðum lögmanns eða veitt honum áminningu, ef um stórfelld eða ítrekuð brot er að ræða, sbr. 2. mgr. 27. gr. lögmannalaga. Ef sakir eru miklar eða lögmaður hefur ítrekað sætt áminningu getur nefndin í rökstuddu áliti lagt til við ráðherra að réttindi lögmannsins verði felld niður tímabundið eða hann sviptur réttindum.

Samkvæmt 1. mgr. 24. gr. lögmannalaga, nr. 77/1998, er lögmanni rétt að áskilja sér hæfilegt endurgjald fyrir störf sín og skal umbjóðanda hans, eftir því sem við verður komið, gert ljóst hvert það gæti orðið í heild sinni. Þar á meðal getur lögmaður áskilið sér hluta af þeirri fjárhæð sem umbjóðandi fær greitt í máli, svo og hærra endurgjald ef mál vinnst en ef það tapast. Loforð um ósanngjarnt endurgjald fyrir starf lögmanns bindur ekki umbjóðanda hans sbr. 2. mgr. 24. greinar.

Samkvæmt 1. mgr. 127. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála skuldbindur gjafsókn ríkið til að greiða þann málskostnað sem gjafsóknarhafi hefur sjálfur af máli. Þó má takmarka gjafsókn þannig að hún nái aðeins til tiltekinna þátta málskostnaðar eða geti hæst numið tiltekinni fjárhæð. Í 2. mgr. 127 gr. segir að ef þóknun umboðsmanns gjafsóknarhafa fyrir flutning máls er ekki undanskilin gjafsókn, skuli hún ákveðin í dómi. Takist sátt í máli ákveði dómari þóknunina í úrskurði.

Hægt er að skjóta ágreiningi um rétt lögmanns til endurgjalds og fjárhæð þess til úrskurðarnefndar lögmanna, sbr. 26. gr. lögmannalaga.

Fyrir liggur að kærandi var í beinu sambandi við kærða vegna dómsmálsins sem hann rak fyrir son hennar. Sérstaklega skiptust þau á ýmsum yfirlýsingum varðandi kostnað málsins, en ekki er deilt um að kærandi greiddi hann að verulegu leyti. Verður að líta svo á að kærandi geti með réttu stofnað til máls þessa í eigin nafni.

II.

Kvörtun kæranda lýtur að því að henni hafi ekki verið leiðbeint nægilega um heildarkostnað málsins, m.a. að teknu tillits til gjafsóknar. Hún hafi frá upphafi talið að sonur hennar fengi gjafsókn og gert kærða grein fyrir að svo yrði að vera.

Með vísan til þeirra skriflegu samskipta sem fyrr eru rakin, sérstaklega umboðsins frá september 2009 og tölvuskeytis kæranda frá 9. maí 2010 er ekki hægt að gera aðfinnslur við að kærði hafi ranglega haldið kæranda í þeirri trú að gjafsókn myndi greiða allan lögmannskostnað vegna málsins. Tölvupóstur hans frá 20. nóvember 2009 ber með sér að hann hafi lagt sig fram um að leiðbeina kæranda um þær reglur sem giltu.

Þar sem athugasemdir verða ekki gerðar við önnur störf kærða en þau sem sannað er að hann hafi sýnt óvandvirkni í, verða ekki gerðar aðfinnslur við störf kærða á grundvelli 27. gr. lögmannalaga, nr. 77/1998.

III.

Kærandi fer í máli þessu fram á úrskurð nefndarinnar um hvort gjaldtaka lögmannsins hafi verið hæfileg í ljósi þess hve hún var miklu hærri en tildæmd gjafsóknarlaun.

Ekki eru gerðar sérstakar athugasemdir af hálfu kæranda við tímagjald kærða og ekki heldur við tímaskýrslur hans

Í fyrri úrlausnum nefndarinnar hefur verið á því byggt að fyrrgreint ákvæði 2. mgr. 127. gr. laga um meðferð einkamála feli í sér takmörkun á heimild lögmanns til að áskilja sér hærra endurgjald fyrir flutning gjafsóknarmáls en sem nemur tildæmdri málflutningsþóknun, nema viðkomandi lögmaður semji sérstaklega um annað við umbjóðanda sinn. Styðst sú niðurstaða við dóma Hæstaréttar um þetta efni.

Þegar gögn málsins eru metin heildstætt er ekki unnt að fallast á það með kæranda að ekki hafi verið samið um annað en að þóknun varnaraðili skyldi takmarkast við það sem fengist út úr gjafsókn. Í umboði því sem sonur kæranda veitti kærða var berum orðum fjallað um að þóknunin skyldi miðast við gjaldskrá lögmannsstofu hans. Í tölvuskeytum kæranda kom glögglega fram sá skilningur að það sem fengist út úr gjafsókn myndi aðeins dragast frá endanlegum reikningi kærða. Það fær ekki stoð í gögnum málsins að ávallt hafi mátt reikna með því að full gjafsókn fengist að lokum vegna forsjármálsins. Ekki er unnt að fallast á að eftir að nýtt gjafsóknarleyfi fékkst þann 20. janúar 2011, og takmörkun gjafsóknarinnar við 400.000 kr. var felld niður, hafi samningssamband aðila breyst og kærði eftir það tímamark orðið bundinn við allt aðra fjárhæð þóknunar, en áður hafði verið samið um.

Sem fyrr greinir hafa hvorki verið gerðar athugasemdir við tímafjölda né tímagjald kærða og raunar liggja fyrir yfirlýsingar kæranda um að hún geti ekki gert athugasemdir við gjaldtökuna. Er heldur ekki unnt að fullyrða af gögnum málins að þóknun kærða sé óhæfileg, metin eftir þeim mælikvörðum.

Ú R S K U R Ð A R O R Ð :

Kærði, L hrl., hefur í störfum sínum ekki gert á hlut kæranda, N, með háttsemi sem stríðir gegn lögum eða siðareglum lögmanna.

Áskilin verklaun kærða, vegna vinnu að dómsmáli sem kærandi greiddi, eruhæfilegt endurgjald í skilningi 1. mgr. 24. lögmannalaga nr. 77/1998.

ÚRSKURÐARNEFND LÖGMANNA

Einar Gautur Steingrímsson, hrl., formaður

Kristinn Bjarnason, hrl.

Valborg Þ. Snævarr, hrl.

Rétt endurrit staðfestir

________________________

Haukur Guðmundsson