Mál 16 2012

Ár 2013, fimmtudaginn18. apríl, var haldinn fundur í úrskurðarnefnd lögmanna í húsnæði Lögmannafélags Íslands að Álftamýri 9, Reykjavík.

Fyrir var tekið málið nr. 16/2012:

I ehf.

gegn

Lögmannsstofunni Z

og gefið út svofellt

Á L I T:

Úrskurðarnefnd lögmannabarst þann 27, nóvember 2012 erindi I ehf. þar sem kvartað var yfir innheimtu L hrl. á reikningum á hendur félaginu. Með bréfi, dags. 14. desember leiðbeindi nefndin málshefjanda um að ekki væri unnt að reka ágreining um gjaldtöku fyrir nefndinni, þar sem dómsmál hefði þegar verið höfðað um hann. Jafnframt leiðbeindi nefndin sóknaraðila um þann möguleika að afla álitsgerðar nefndarinnar til notkunar í dómsmálinu á grundvelli 3. mgr. 26. gr. laga um lögmenn nr. 77/1998.

Erindið barst nefndinni á ný 18. febrúar 2013. Sama dag barst staðfesting álitsbeiðanda á þeim skilningi nefndarinnar að óskað væri álitsgerðar nefndarinnar til notkunar í máli Héraðsdóms Reykjavíkur nr. [...]: Z gegn I ehf. á fyrrnefndum grunni. Nefndin óskaði eftir greinargerð lögmannsins með bréfi dagsettu 21. febrúar 2013 og barst hún 26. mars s.á. ásamt umbeðnum gögnum varðandi umfang starfa hans í þágu álitsbeiðanda.Álitsbeiðanda var boðið að gera frekari athugasemdir vegna málsins en hann kaus að gera það ekki.

Málsatvik og málsástæður.

I.

Eftir því sem fram kemur í erindisóknaraðila, greinargerð lögmannsins og gögnum málsins eru málsatvik þau að álitsbeiðandi leitaði til lögmannsins 10. febrúar 2009 vegna dómsmáls sem höfðað hafði verið á hendur félaginu með birtingu stefnu og þingfest 3. febrúar 2009. Var stefnufjárhæðin um 900.000. kr. en málið hafði risið vegna ágreinings um greiðsluskyldu stefnda á farmgjöldum og geymslugjöldum.

Úr varð að lögmaðurinn tók að sér að gæta hagsmuna álitsbeiðanda í þessu dómsmáli. Aðilar eru sammála um að rætt var um líklegan kostnað af málinu, en þá greinir á um þær fjárhæðir sem ræddar voru í því samhengi. Telur lögmaðurinn sig hafa upplýst að líklegur kostnaður við hagsmunagæsluna væri um 600.000 krónur, en álitsbeiðandi kveður þá hafa rætt um 250.000 krónur í þessu samhengi. Ágreiningslaust virðist hins vegar að sóknaraðili taldi sig ekki skulda stefnanda málsins neitt og að lögmaðurinn taldi hann hafa nokkuð til síns máls.

Lögmaðurinn reyndi að ljúka málinu með samkomulagi. Var haldinn fundur í því skyni og voru tölvupóstsamskipti með aðilum eftir þann fund. Það tókst þó ekki. Skilaði lögmaðurinn því greinargerð í dómsmálinu fyrir hönd álitsbeiðanda auk dómsskjala sem merkt voru nr. 37 - 100. Í greinargerðinni var gerð frávísunarkrafa. Henni var hafnað með úrskurði héraðsdóms í mars 2010. Héldu fyrirtökur og gagnaframlagningar áfram í málinu og urðu framlögð dómskjöl að lokum 139. Málið var munnlega flutt í. mars 2011 en endurupptekið og flutt að nýju í júní 2011. Var dómur kveðinn upp í júlí 2011 og álitsbeiðandi þá dæmdur til að greiða um 625.000 krónur auk 500.000 króna í málskostnað.

Þar sem kröfur álitsbeiðanda byggjast m.a. á því að kostnaður hafi orðið hærri en honum hafi verið gerð grein fyrir og samið hafi verið um, er rétt að reifa stuttlega málsatvik að því er varðar samskipti aðila um þetta efni.

Sem fyrr greinir er ágreiningur um hvaða fjárhæðir rætt var um í upphafi málsins. Fyrirliggjandi gögn eru hins vegar ótvíræð um eftirfarandi:

16. mars 2009 óskaði lögmaðurinn eftir því að álitsbeiðandi greiddi „innborgun á lögmannkostnað" kr. 250.000

6. apríl 2009 sendi lögmaðurinn áminningu til álitsbeiðanda þess efnis að hann hefði enn ekki greitt innborgun kr. 150.000

7. apríl 2009 dagsetti lögmaðurinn kvittun fyrir greiðslu 150.000 kr. vegna „innborgun á lögmannsþóknun". Fyrir liggur millifærslukvittun banka vegna þessarar greiðslu.

7. maí 2009, þegar ljóst var að dómsmálið myndi ekki leysast með samningum, kvaðst lögmaðurinn þurfa innborgun, kr. 150.000 til viðbótar við þær 150.000 sem þegar hefðu verið greiddar. Þessi skilaboð voru síðan ítrekuð

22. maí 2009  millifærði álitsbeiðandi kr. 150.000 á reikning lögmannsins. Í skýringu greiðslunnar í banka er ritað „Fyrirframgreitt lokauppgjör" Sama dag dagsetti lögmaðurinn aðra kvittun fyrir greiðslu 150.000 kr. vegna „innborgun á lögmannsþóknun"

Í framhaldi af synjun frávísunarkröfunnar vorið 2010 voru aðilar í samskiptum um framhald málsins. Spurði lögmaðurinn í tölvupósti 7. júlí 2010 hvort álitsbeiðandi ætlaði að halda áfram að halda uppi vörnum í málinu. Samdægurs svaraði álitsbeiðandi því til að „Ég hélt að ég hefði greitt þér fyrir að verja þetta í Héraðsdómi. Hafa forsendur eitthvað breyst? Hvernig stendur þetta mál?" Lögmaðurinn svaraði því til þann 11. júlí að vissulega hefði hann fengið greitt 300.000 sem innborgun. „En eigi að skilja orð þín [...] svo að þú hafir greitt mér að fullu fyrir rekstur málsins til dómtöku þá veistu að það er ekki rétt." Upplýsir lögmaðurinn síðan að kostnaður sé samtals orðinn kr. 692.000.

21. september 2010 sendi lögmaðurinn tölvupóst til álitsbeiðanda, þar sem segir m.a. „ Eigi ég að sinna þessu máli eitthvað frekar þarft þú að greiða innborgun til skrifstofunnar IKR 500.000."

27. september sendi álitsbeiðandi svohljóðandi svar við þessu „Já verðum við ekki að klára málið, en ég treysti á að þú klárir þetta fyrir þessa greiðslu". Þessari orðsendingu svaraði lögmaðurinn samdægurs svo „Varðandi niðurlagið í þínum pósti og þú treystir því að ég klári þetta fyrir þessa greiðslu tek ég fram, eins og þú veist, að þessi greiðsla, kr. 500.000 er vegna vinnu sem þegar er komin í málið og ég sagði við þig í símtali okkar aðspurður að þú gætir átt von á frekari reikningi. Mikil vinna er eftir í málinu, þ.m.t. aðalmeðferð þess, sem útheimtir mikla vinnu. Í símtali okkar sagði ég þér einnig að lögmaður [farmflytjandans] gerir ráð fyrir að lögmannskostnaður þeirra vegna aðalmeðferðar liggi nálægt kr. 500.000. Hins vegar sagði ég þér í símtalinu að ég myndi - gegn greiðslunni -  sem reyndar er ekki komin að ég myndi halda áfram að vinna í málinu."

14. október 2010 dagsetti lögmaðurinn reikning vegna dómsmálsins að fjárhæð 500.000. Á reikninginn er rituð skýringin „Innborgun á lögmannsþóknun" auk þess sem á hann er rituð kvittun um greiðslu hans 7. október 2010.

21. nóvember 2011 dagsetti lögmaðurinn reikning samkvæmt tímaskrá. Er reikningurinn alls að fjárhæð 2.248.270, en stærsti einstaki liðurinn er vegna 93 vinnustunda lögmanns (um 2.100.000 með vsk) . Ber reikningurinn með sér að fallið er frá gjaldtöku vegna ljósritunar og póstkostnaðar að fjárhæð 103.950 auk þess sem veittur er afsláttur lögmanns að fjárhæð 742.285. Stendur þá eftir að áskilin þóknun nemur alls 1.400.000 en af þeim hafði álitsbeiðandi þegar greitt 800.000. Eftirstöðvar þessa reiknings, kr. 600.000 að meðtöldum virðisaukaskatti, eru stefnukrafa þess máls sem lögmaðurinn hefur höfðað gegn álitsbeiðanda fyrir héraðsdómi.

II.

Álitsbeiðandi kveðst hafa haldið að hinn umdeildi reikningur hefði verið felldur niður eftir að honum var mótmælt 16. ágúst 2011. Hafi lögmaðurinn endurvakið kröfuna með stefnu í héraðsdómsmálinu.

Álitsbeiðandi byggir á því að hagsmunir þeir sem deilt var um í dómsmáli hans og [farmflytjandans] geti ekki réttlætt gjaldtöku af því tagi sem lögmaðurinn áskilji sér. Um hafi verið að ræða u.þ.b. 900.000 króna stefnukröfu. Lögmaðurinn hafi í upphafi kynnt sér að líklegur kostnaður vegna málsins væri um 250.000 krónur. Álitsbeiðandi hafi raunar látið þá athugasemd fylgja þegar hann greiddi öðru sinni 150.000 krónur að um væri að ræða fyrirframgreitt lokauppgjör. Þrátt fyrir þetta hafi lögmaðurinn síðar látið á sér skiljast að hann myndi ekki mæta til fyrirtöku málsins nema að fá greiddar 500.000 til viðbótar. Hafi þær verið greiddar, en sú orðsending látin fylgja að málið yrði klárað gegn þessari greiðslu. Frekari gjaldtöku er hafnað af hálfu álitsbeiðanda og telur hann innheimtu lögmannsins á áskilinni þóknun sinni fela í sér fjárkúgun.

Álitsbeiðandi hefur í málatilbúnaði sínum vísað til 2. mgr. 10. gr. siðareglna lögmanna um skyldu lögmanna til að gera skjólstæðingi grein fyrir áætluðum verkkostnaði og vekja athygli hans ef ætla má að kostnaður verði hár að tiltölu við þá hagsmuni sem í húfi eru. Telur álitsbeiðandi að lögmaðurinn hafi ekki sinnt þessari skyldu sinni í samskiptum þeirra. Hljóti  300.000 krónur, þriðjungur af stefnufjárhæð, að teljast nægileg málsvarnarlaun.

Álitsbeiðandi gerir athugasemd við að lögmaðurinn virðist hafa borið sig saman við lögmann gagnaðila við rekstur héraðsdómsmálsins um fjárhæð þóknunar. Þannig hafi lögmaðurinn vitnað til lögmanns gagnaðila um að þóknun vegna aðalmeðferðar væri um 500.000. Álitsbeiðandi gerir einnig athugasemdir við að lögmaðurinn hafi haldið áfram að reka málið fyrir héraðsdómi eftir að hafa fengið synjun frávísunarkröfu sem hann hafi ekki talið réttmæta.

Álitsbeiðandi telur að allan samhljóm skorti með þeim hagsmunum sem deilt var um, niðurstöðu málsins og áskilinni þóknun álitsbeiðanda.

III.

Lögmaðurinn andmælir harðlega ásökunum álitsbeiðanda um fjárkúgun af sinni hálfu og leggur í vald úrskurðarnefndar að bregðast við þeim með viðeigandi hætti, svo sem ómerkingu og vítum.

Lögmaðurinn kveður álitsbeiðanda hafa lagt áherslu á að reynt yrði að leysa málið og þá helst með samkomulagi utan réttar, en ella yrði tekið til fullra varna. Hafi álitsbeiðandi enda fullyrt að hann skuldaði stefnanda dómsmálsins ekkert.

Tilraunir til að sætta málið hafi ekki skilað árangri og þær vonir sem bundnar hafi verið við frávísun málsins hafi einnig brugðist. Hafi málið eftir það oft verið tekið fyrir. Allan þennan tíma hafi hann verið í samskiptum við álitsbeiðanda, bæði í tölvupósti, síma og á fundum.

Lögmaðurinn kveðst sammála því að málið hafi reynst kostnaðarsamara en ætla mátti í upphafi. Hann hafi í upphafi upplýst álitsbeiðanda um að gera mætti ráð fyrir u.þ.b. 600.000 króna heildarkostnaði við verkið. Málið hafi síðan stöðugt frestast, undið upp á sig og þurft að endurtaka.

Samningur þeirra um þóknun hafi hins vegar ekki verið bundinn tilteknu hámarki, hvorki 300.000 né 800.000 eins og byggt sé á af hálfu álitsbeiðanda. Tekur lögmaðurinn fram að hann hafi ekki séð millifærslukvittunina frá 22. maí 2009 fyrr en við rekstur þessa máls. Beri reikningar hans frá þeim tíma er unnið var að málinu skýrlega með sér að greitt var inn á þóknun hans, enda hafi hann aldrei gert kröfu um fullnaðarkröfu þóknunar sinnar fyrirfram, né álitsbeiðandi boðið fram slíkar fyrirframgreiðslur.

Lögmaðurinn bendir á að þegar sáttaumleitanir höfðu mistekist og búið var að rita greinargerð hafi hann varið 20,5 tímum og málflutningsþóknun þá staðið í kr. 463.095 að meðtöldum virðisaukaskatti. Að öllu jöfnu hafi þá mátt gera ráð fyrir að u.þ.b. 60% af vinnu vegna málsins væri þá lokið. Málið hafi hins vegar dregist og vaxið með ófyrirséðum hætti eftir það tímamark.

Niðurstaða.

I.

Samkvæmt 3. mgr. 26. gr. laga um lögmenn nr. 77/1998 getur úrskurðarnefnd lögmanna látið í té álitsgerð til afnota um ágreiningsefni sem dómsmál er rekið um, að ósk annars eða beggja aðila dómsmálsins. 26. gr. laganna fjallar um ágreining lögmanns við umbjóðanda sinn um rétt til endurgjalds fyrir störf sín. Lýtur álitsgerð þessi annars vegar að því að meta umfang starfa lögmannsins, en hins vegar að því álitaefni hvert er sanngjarnt endurgjald fyrir þau. Að því er síðarnefnda atriðið varðar skal áréttað að jafnan þegar nefndin úrskurðar hvert er hæfilegt endurgjald fyrir störf lögmanns, ræðst matið að einhverju leyti af því um hvað hefur verið samið og hvernig fjallað hefur verið um gjaldtökuna í samskiptum lögmanns og umbjóðanda hans. Eins og hér er í pottinn búið eiga dómstólar þó síðasta orðið um sönnun og túlkun þessara samskipta. Verður heldur ekki komið við fyrir nefndinni munnlegum framburði sem kann að hafa áhrif á þetta mat.

II.

Fyrir nefndina hafa verið lögð gögn í máli Héraðsdóms Reykjavíkur nr. E-1205/2009, sem lögmaðurinn flutti fyrir álitsbeiðanda, auk frávísunarúrskurðar og efnisdóms í málinu. Þá hafa verið lögð fram nokkur tölvupóstsamskipti aðila sem varpa ljósi á gang þess og tímaskrá lögmannsins.

Umrætt mál varðaði reikningsviðskipti [farmflytjanda] við álitsbeiðanda yfir alllangt tímabil. Í stefnu greinir frá einstökum reikningum sem krafist er greiðslu á og innborgunum álitsbeiðanda. Álitsbeiðandi taldi að þessi framsetning á heildarstöðu viðskiptanna væri röng og tæki ekki tillit til fyrri samskipta um niðurfellingu reikninga o.fl. Þá taldi hann framsetninguna á skjön við fyrri innheimtubréf stefnanda og að ógerlegt væri að átta sig á kröfunni vegna þess hve framsetning hennar væri óskýr.

Við meðferð málsins voru lagðir fram allir reikningar og greiðslukvittanir vegna viðskiptanna. Einnig útprentanir úr hreyfingayfirliti viðskiptamanna stefnanda og ýmis gögn varðandi flutning og geymslu bifreiða sem þessi viðskipti vörðuðu og stóðu að baki reikningunum sem mynduðu stefnukröfuna. Lögmaðurinn lagði fram töluvert af gögnum varðandi gagnkröfur sem hann taldi álitsbeiðanda eiga. Þá var lagt fram nokkuð af samskiptum aðila varðandi uppgjör þessara viðskipta, en þau bera með sér að mikið bar á milli og sérstaklega að ekki var fyrir hendi sameiginlegur skilningur um hvaða gögn og fjárhæðir ætti að leggja til grundvallar uppgjöri.

Reyndist málið ekki alveg jafn einfalt og lagt var upp með í stefnu, eins og  sést á því að stefnandi lækkaði stefnukröfu um rúmlega 125.000 krónur í þinghaldi 24. janúar 2011 að athuguðu máli og féll þannig frá einum reikningi sínum. Þá var einn reikningur stefnanda lækkaður óverulega í dómi héraðsdóms

Á hinn bóginn er ljóst af niðurstöðu héraðsdóms að samkomulag var um stöðu viðskiptareikningsins á ákveðnum tímapunkti og að stefnukrafan átti stoð í tilteknum framlögðum reikningum sem gefnir höfðu verið út eftir það tímamark auk þess sem tekið hafði verið tillit til greiðslna. Héraðsdómur leggur til grundvallar að samkvæmt farmskírteinum sem gildi um lögskiptin komist skuldajafnaðarkröfur ekki að og verður það til þess að sakarefnið takmarkast mjög þar sem þá er ekki fjallað um uppgjör ýmissa tjónamála sem teflt er fram í greinargerð.

Verður að leggja til grundvallar að í máli þessu hafi verið fjallað um umfangsmikil reikningsviðskipti sem vörðuðu mörg tilvik. Sóknaraðila hafði ekki tekist að búa til neina heildstæða mynd af þeim ágreiningi sem uppi var og meðferð málsins fyrir héraðsdómi virðist ekki hafa fært aðila nær neinum sameiginlegum skilningi á uppgjöri nema að óverulegu leyti.

Þrátt fyrir þetta veitir tímaskýrsla lögmannsins ekki fullnægjandi svör við því hvers vegna 66 vinnustundum var varið í málareksturinn eftir að frávísunarkröfu var hafnað með úrskurði. Það er mat úrskurðarnefndar að það hafi ekki verið forsvaranlegt í ljósi þeirra hagsmuna sem um var deilt að verja svo miklum tíma í málið. Hafi lögmaðurinn ekki með réttu getað ætlast til þess að álitsbeiðandi greiddi svo mikla vinnu þegar tillit er tekið til hagsmunanna sem í húfi voru og þeirra upplýsinga sem hann kveðst sjálfur hafa veitt um líklegan kostnað af málinu.

III.

Samkvæmt 1. mgr. 24. gr. lögmannalaga, nr. 77/1998, er lögmanni rétt að áskilja sér hæfilegt endurgjald fyrir störf sín og skal umbjóðanda hans, eftir því sem við verður komið, gert ljóst hvert það gæti orðið í heild sinni.

Samkvæmt 2. mgr. 10. gr. siðareglna lögmanna ber lögmanni að gera skjólstæðingi grein fyrir áætluðum verkkostnaði og öðrum málskostnaði eftir föngum. Lögmanni ber að gera skjólstæðingi grein fyrir á hvaða grundvelli þóknunin er reiknuð.

Fyrr er rakið það sem fyrir liggur um samskipti aðila varðandi kostnað af verkinu sem lögmaðurinn tók að sér, en enginn skriflegur samningur virðist hafa verið gerður um hann. Þykir mega draga þær ályktanir að aldrei hafi verið samið um fasta fjárhæð vegna verksins, heldur hafi það verið unnið í tímavinnu. Skráning álitsbeiðanda í skýringarreit við millifærslu 22. maí 2009 hefur ekki verið komið til lögmannsins með öruggum hætti og áskilnaði álitsbeiðanda um að lögmaðurinn myndi klára málið þegar hann hafði greitt 800.000 var samstundis mótmælt án þess að það leiddi til þess að álitsbeiðandi gerði ljóst að hann myndi ekki greiða frekari reikninga. Var lögmaðurinn afdráttarlaus um það í öllum fram lögðum samskiptum sínum við álitsbeiðanda að um væri að ræða tímavinnu.

Lögmaðurinn kveðst hins vegar sjálfur hafa greint álitsbeiðanda frá því í upphafi að líklegur kostnaður við verkið væri 600.000. Á meðan á rekstri málsins stóð kom glögglega fram að álitsbeiðandi hafði áhyggjur af því að hann væri orðinn kostnaðarsamur úr hófi. Þrátt fyrir það vann lögmaðurinn að verkinu þar til þessi kostnaður var kominn töluvert yfir tvær milljónir, en rétt er að árétta að með afslætti nemur heildarreikningur kr. 1.400.000, eða rúmlega tvöfaldri þeirri fjárhæð sem lagt var upp með.

Það er jafnan örðugt og oft útilokað að áætla fyrirfram hvert umfang málarekstrar verður. Í því máli sem hér um ræðir var vissulega teflt fram ýmsu af hálfu lögmannsins, sem virðist hafa komið fram eftir hann tók við málinu og setti þessa kostnaðarhugmynd fram. Allt að einu þykir ekkert í málsgögnum réttlæta að álitsbeiðandi, sem kom á framfæri því sjónarmiði að honum þætti málareksturinn orðinn dýr eftir að frávísunarkröfunni var hafnað, þurfi að sæta því að málskostnaður fari svo langt fram úr því sem lögmaðurinn kveðst hafa kynnt honum að í raun sé ekkert samræmi þar á milli.

Sú aðstaða getur komið upp að einhverjum þeim kröfum sé beint að mönnum, sem kostnaðarsamara er að verjast en nemur fjárhæð þeirra. Verður þó ekki talið að það sé ævinlega rangt að taka til varna í slíkum málum. Allt að einu verður hér ekki litið fram hjá því að áskilin þóknun lögmannsins var verulega umfram stefnufjárhæðina og nær þreföld sú fjárhæð sem héraðsdómur taldi málskostnað gagnaðilans í málinu nema.

Að öllu ofanrituðu samanlögðu verður hæfilegt endurgjald lögmannsins fyrir störf hans að héraðsdómsmáli nr. [...] talið nema kr. 900.000.

Nefndin hefur engar heimildir til að bregðast við þeim atriðum í málatilbúnaði álitsbeiðanda sem lögmaðurinn telur óviðurkvæmileg.

Ú R S K U R Ð A R O R Ð :

Það er álit úrskurðarnefndar lögmanna að hæfilegt endurgjald lögmannsins, L hrl., fyrir störf hans að héraðsdómsmáli nr. [...] í skilningi 1. mgr. 24. lögmannalaga nr. 77/1998 í þágu álitsbeiðanda, I ehf., sé kr. 900.000 að meðtöldum virðisaukaskatti.

ÚRSKURÐARNEFND LÖGMANNA

Valborg Þ. Snævarr, hrl., formaður

Einar Gautur Steingrímsson, hrl.

Kristinn Bjarnason, hrl.

Rétt endurrit staðfestir

________________________

Haukur Guðmundsson