Mál 11 2013

Ár 2013, föstudaginn 23. ágúst, var haldinn fundur í úrskurðarnefnd lögmanna í húsnæði Lögmannafélags Íslands að Álftamýri 9, Reykjavík.

Fyrir var tekið málið nr. 2/2013:

A

gegn

B hdl.

og kveðinn upp svofelldur

Ú R S K U R Ð U R :

Úrskurðarnefnd lögmanna barst þann 26. apríl 2013 erindi sóknaraðila, A, þar sem kvartað er yfir því að varnaraðili, B hdl., hafi ekki upplýst sóknaraðila um kostnað vegna hjónaskilnaðarmáls hennar né framvísað verðskrá. Hafi varnaraðili ekki fengið nægilegar og réttar upplýsingar í upphafi og kvartar hún yfir umframkostnaði á reikningi, en þar mun átt við þann kostnað sem reikningsfærður hefur verið umfram tildæmd gjafsóknarlaun.

Varnaraðili skilaði greinargerð vegna málsins 4. júní 2013. Óskað var eftir athugasemdum sóknaraðila við greinargerðina og bárust þær 15. júlí 2013. Lokaathugasemdir varnaraðila vegna málsins bárust 31. júlí.

Málsatvik og málsástæður.

I.

Eftir því sem fram kemur í greinargerð varnaraðila, athugasemdum sóknaraðila og gögnum málsins eru málsatvik þau aðsóknaraðili leitaði til varnaraðila 7. apríl 2011 vegna hjónaskilnaðarmáls. Hún var þá ólétt og með ungt barn og hafði leitað til Kvennaathvarfsins.

Á fundi þeirra þennan dag undirritaði sóknaraðili skjal sem ber yfirskriftina verkbeiðni/umboð. Þar veitir hún varnaraðila umboð til að gæta hagsmuna sinna varðandi skilnaðinn og skilnaðarkjör og nær umboðið m.a. til þess að höfða forsjármál.

Í skjalinu er sérstakur kafli um þóknun, svohljóðandi:

Undirritaður skuldbindur sig til að greiða lögmannsstofunni fyrir umbeðna og veitta þjónustu samkvæmt gjaldskrá stofunnar á hverjum tíma á grundvelli tímaskráningar á verkinu. Útprentun úr tímaskýrslu skal fylgja reikningum hverju sinni. Gjaldskráin hefur verið kynnt mér. Ég hef jafnframt verið upplýstur um áætlaðan heildarkostnað af verkinu, þ.e. þóknun og útlagðan kostnað. Verkið skuldbind ég mig til að greiða þegar þess er krafist þó eigi síðar en í verklok samkvæmt reikningi frá stofunni. Ég hef falið lögmanni að sækja um gjafsókn til að standa straum af kostnaði við málareksturinn, en skuldbind mig til að greiða mismun á kostnaði vegna málsins.

Svo fór að á grundvelli umboðsins rak varnaraðili ýmsa þætti hjónaskilnaðarmálsins fyrir hönd sóknaraðila. Var forsjármál flutt, bæði um meginefni og um bráðabirgðaforsjá undir rekstri málsins. Þá var höfðað dómsmál um sjálfa skilnaðarkröfu sóknaraðila og krafist opinberra skipta til fjárslita og er síðasttalda málinu ólokið.

Á meðan vinnu varnaraðila fyrir sóknaraðila stóð var deilt um fjölmarga þætti málsins við eiginmann hennar og þess freistað að semja um suma þeirra. M.a. virðast harkalegar uppákomur hafa orðið í tengslum við barn þeirra hjóna og var barnaverndarnefnd beðin að hafa milligöngu vegna umgengni. Þá var málið lagt til hliðar um sinn á meðan sóknaraðili freistaði þess að ná sáttum við manninn.

4. febrúar 2013 gaf varnaraðili út reikning nr. 2071 fyrir störf sín í þágu sóknaraðila á tímabilinu 7. apríl 2011 - 21. september 2012. Hljóðar reikningurinn upp á 135,05 klst vinnu samkvæmt meðfylgjandi tímaskýrslu og er hver stund verðlögð á kr. 18.500, eða samtals kr. 2.506.706. Frá þessari upphæð dragast svo kr. 1.800.000 sem varnaraðili fékk greiddar vegna gjafsóknar. Að meðtöldum virðisaukaskatti hljóðar reikningurinn því upp á kr. 886.972, sem eru ógreiddar.

II.

Sóknaraðili krefst þess að reikningur varnaraðila verði lækkaður um kr. 886.972.

Sóknaraðili byggir á því að hún hafi ekki verið upplýst um kostnað vegna málsins og engri verðskrá hafi verið framvísað.  Einu upplýsingarnar sem hún hafi fengið, hafi verið að hún þyrfti ekki að hafa áhyggjur því gjafsóknin myndi sennilega duga fyrir öllum kostnaði og ef einhver umframkostnaður  kæmi til, yrði hann smávægilegur. Hún hafi verið í erfiðri stöðu, nýkomin í kvennaathvarf, ólétt með ungt barn með sér og hafi skrifað undir umboð til lögmannsins án þess að lesa það. Það hafi verið mistök af sinni hálfu.

Sóknaraðili kveður sér ekki hafa verið ljóst að innheimt væri gjald fyrir hvert símtal sem hún hringdi í lögmannsstofuna. Hún telur að nauðsynlegt hefði verið að upplýsa sig þegar bókfærður kostnaður stefndi í að fara verulega fram úr gjafsókninni.

Auk þessa gerir sóknaraðili athugasemdir við allnokkur einstök atriði í tímaskráningu:

  • 1. Hún hafi fengið upplýsingar um að fyrsti tími væri ókeypis. Þó séu innheimtar 2 klst. vegna hans.
  • 2. Bókfærð sé 1 klst. fundur með skýringunni „A... þarfnast stuðnings, fundur" 2. maí 2011. Sóknaraðili kveðst ekki sækja stuðning til lögmanns.
  • 3. Rukkað sé um 3 klst vinnu við að sækja um bráðabirgðameðlag, en það hafi verið gert án samráðs við hana.
  • 4. Sóknaraðili kveðst hafa sent varnaraðila gögn til mætingamanns vegna fyrirtöku 1. júní 2012. Fyrir mistök hafi þau ekki verið afhent mætingamanninum og ekki komist að í málinu. Þó sé innheimt vegna þessa 0,5 klst með merkingunni „gögn til mætingamanns"
  • 5. Sóknaraðili kveðst sjálf hafa aflað verðmats frá bifreiðaumboðum vegna tveggja bifreiða og komið upplýsingum um þau til varnaraðila. Þrátt fyrir það sé innheimt fyrir tvö símtöl í þessi umboð.
  • 6. Innheimt sé fyrir 0,25 klst. fyrir að „afla gagna frá skattinum" 19. ágúst 2011. Síðar hafi hún sjálf verið beðin að afla skattframtala og hafi hún gert það. Hafi hún þá verið rukkuð bæði fyrir tölvupóst varnaraðila með beiðni þessari og fyrir tölvupóstinn þegar hún sendi skattframtölin til hennar.
  • 7. Mikið sé innheimt fyrir opinber skipti í ljósi þess að eignir séu ekki aðrar en 2 bílar og íbúð og hafi varnaraðili sjálf útvegað flestar upplýsingar um þessar eignir. Sé skiptum þó enn ekki lokið.
  • 8. Varnaraðili hafi beðið barnaverndaryfirvöld um milligöngu við að láta umgengni ganga. Hún hafi þó ekki upplýst sóknaraðila um þetta og hafi sóknaraðili því hringt ítrekað í varnaraðila til að fá aðstoð í þessu efni. Stundum hafi hún ekki náð í varnaraðila sjálfa og þá hringt ítrekað sama daginn og sé innheimt vegna hvers símtals 0,25 klst. Samkomulag sem náðist um umgengni hafi verið samið af barnaverndaryfirvöldum og hafi varnaraðili ekki séð það fyrr en hún bað sóknaraðila um það í mars 2011. Vegna þessarar vinnu innheimti varnaraðili kr. 304.093.
  • 9. Lögmaður í sveitarfélagi sóknaraðila hafi mætt f.h. varnaraðila í viðtal hjá barnaverndaryfirvöldum á staðnum en ekki vitað neitt um málið. Þó sé innheimt 1 klst „talað við lögmann vegna fundar " og 0,7 klst. vegna „talað við lögmann um afdrif fundar"
  • 10. Innheimt sé 0,25 klst fyrir hvert símtal, en í sumum þeirra hafi hún aðeins rætt við aðstoðarmann sem engar upplýsingar gat gefið. Þessum símtölum hefði hún getað hagað með öðrum hætti ef hún hefði fengið upplýsingar um þessa gjaldtöku.
  • 11. Óhóflegt sé að innheimta 15 tíma vegna stefnugerðar og leiðréttinga auk 7,5 tíma til að funda með sóknaraðila

III.

Varnaraðili krefst þess að kröfum sóknaraðila verði hafnað. Varnaraðili bendir á að skilnaðarmálið hafi verið umfangsmikið og kallað á málarekstur á mörgum vígstöðvum og mikil samskipti við fjölda aðila.

Varnaraðili kveður sóknaraðila hafa verið upplýsta um tímagjald stofunnar á fyrsta fundi þeirra auk þess sem henni hafi verið gerð grein fyrir því að erfitt gæti verið að meta umfang forsjármáls og bent á fjölda atriða sem þar gætu haft afgerandi áhrif. Þá hafi hún verið upplýst um að sótt yrði um gjafsókn fyrir hana en óvíst væri hvort hún fengist. Hafnar varnaraðili því alfarið að sóknaraðili hafi ekki verið upplýst um gjaldskrána og að kostnaður hennar gæti orðið hærri en dæmdur málskostnaður fengist gjafsóknarbeiðnin samþykkt.

Varnaraðili vísar til undirritaðrar verkbeiðni þar sem sóknaraðili viðurkennir að hafa verið upplýst um gjaldskrána o.fl. Hún bendir á að sóknaraðili sé vel menntuð og hafi fullt vald á íslensku. Hún hafi því mátt átta sig á þeim samningi sem hún undirritaði og hafi ekki getað vænst þess að lögmannsstofan starfaði endurgjaldslaust í hennar þágu.

Þá byggir varnaraðili á því að framganga sóknaraðila sjálfrar hafi haft mikil áhrif á kostnað vegna málsins. Sóknaraðili hafi leitað mikið til lögmannsstofunnar með símtölum og tölvupóstum. Allur ágreiningur hennar við eiginmanninn hafi verið mjög tilfinningasamur og útheimt mörg símtöl í hvert sinn sem aðilum laust saman. Hafi ekki verið skráð nema brotabrot allra þessara símtala. Hún hafi gert hlé á málinu í því skyni að ná sáttum við manninn þegar vinna matsmanna í forsjármálinu var langt komin og margítrekað viljað reyna sjálf að semja við manninn. Þetta hafi oft leitt til tvíverknaðar og sé ástæða þess að eignaskiptum sé enn ekki lokið. Oftar en ekki hafi sóknaraðili talið sig ná samningi við manninn, en það hafi svo ekki reynst á rökum reist.

Þá hafnar varnaraðili öllum athugasemdum sóknaraðila vegna tímaskráningar:

  • 1. Aldrei hafi verið boðið upp á frían fyrsta tíma á lögmannsstofu hennar.
  • 2. Fundur 2. maí 2011 hafi væntanlega verið vegna undirbúnings ritunar stefnu.
  • 3. Umboð varnaraðila til að krefjast meðlags hljóti að ná einnig til þess að krefjast bráðabirgðameðlags.
  • 4. Varnaraðili kveðst ekki átta sig á athugasemdum vegna tímaskráningar 1. júní 2012
  • 5. Upp hafi komið ágreiningur um markaðsvirði eignanna. Haft hafi verið samband við matsmenn vegna þessa.
  • 6. Sótt hafi verið um gjafsókn og síðar um viðbótargjafsókn. Í bæði skiptin hafi þurft að afla nýjustu gagna um tekjur umsækjanda.
  • 7. Láðst hafi að innheimta 15.000 kr. útlagðan kostnað vegna opinberra skipta. Þá hafi verið unnið meira í þessum þætti málsins eftir að reikningurinn var gefinn út, m.a. hafi sóknaraðili verið í samskiptum við varnaraðila eftir að stofnað var til þessa máls. Hún hafi sjálf viljað sjá um eignaskiptin til að spara vinnu skiptastjóra en varnaraðili telur að þetta verði henni kostnaðarsamara en ef hún hefði falið varnaraðila að ljúka málinu.
  • 8. Misskilnings gæti hjá varnaraðila í athugasemdum hennar við kostnað vegna milligöngu um umgengni. Barnavernd hafi vissulega verið beðin að hafa milligöngu. Hins vegar hafi lögmannsstofan haft töluverð samskipti við barnavernd, einkum í þeim tilgangi að gæta hagsmuna sóknaraðila gagnvart þeim starfsmönnum barnaverndar sem þær hafi talið að drægju taum eiginmannsins. Þá hafi hann kyrrsett barnið á heimili sínu og það kallað á samskipti, m.a. við lögmann á staðnum.
  • 9. Varnaraðili vísar til andsvara sinna undir 8. lið varðandi athugasemd sóknaraðila um kostnað við samskipti við lögmann sem mætti á fund vegna umgengninnar.
  • 10. Varnaraðili kveður alls ekki innheimt fyrir öll símtöl við sóknaraðila.

Niðurstaða.

I.

Ágreiningur aðila um reikning sóknaraðila nr. 2071 og fjárhæð hans er sakarefni máls þessa. Engin gögn hafa hins vegar verið lögð fram um vinnu varnaraðila fyrir sóknaraðila eftir 21. september 2012 eða áskilda þóknun vegna hennar og eru engar kröfur gerðar vegna þeirrar vinnu í þessu máli.

Samkvæmt 1. mgr. 24. gr. lögmannalaga, nr. 77/1998, er lögmanni rétt að áskilja sér hæfilegt endurgjald fyrir störf sín og skal umbjóðanda hans, eftir því sem við verður komið, gert ljóst hvert það gæti orðið í heild sinni.  Samkvæmt 2. mgr. skuldbindur loforð um ósanngjarnt endurgjald fyrir starf lögmanns ekki umbjóðanda hans.

Samkvæmt 2. mgr. 10. gr. siðareglna lögmanna ber lögmanni að gera skjólstæðingi grein fyrir áætluðum verkkostnaði og öðrum málskostnaði eftir föngum. Lögmanni ber að gera skjólstæðingi grein fyrir á hvaða grundvelli þóknunin er reiknuð.

Hægt er að skjóta ágreiningi um rétt lögmanns til endurgjalds og fjárhæð þess til úrskurðarnefndar lögmanna, sbr. 26. gr. lögmannalaga.

II.

Í máli þessu liggur fyrir skjal, undirritað af sóknaraðila, þar sem hún felur varnaraðila að vinna í sína þágu. Í skjali þessu kemur skýrt fram að við uppgjör fyrir starfann skuli miðað við gjaldskrá stofunnar á grundvelli tímaskráningar á verkinu. Gjaldskráin hafi verið kynnt sóknaraðila og einnig áætlaður heildarkostnaður af verkinu. Er sérstaklega tekið fram að sóknaraðili skuldbindi sig til að greiða mismun á tildæmdum málskostnaði og kostnaði samkvæmt gjaldskránni. Með hliðsjón af þessu skjali er útilokað að leggja til grundvallar fullyrðingar sóknaraðila um að henni hafi ekki verið kynnt neitt af þessu. Verður að byggja á því að í gildi sé samningur á milli aðila um gjaldtöku á þessum grunni. Fullyrðingar sóknaraðila um að hún hafi ítrekað óskað upplýsinga um kostnaðinn, en aðeins fengið þau svör að hann yrði óverulegur vegna gjafsóknarinnar, eru ekki studdar neinum gögnum.

Hvorugur aðila hefur lagt fram gögn þeirra mála sem varnaraðili vann að í þágu sóknaraðila. Þó liggur fyrir af lýsingum þeirra að um var að ræða langvinnar og umfangsmiklar deilur við eiginmann sóknaraðila vegna skilnaðar þeirra. Rak varnaraðili dómsmál um bráðabirgðaforsjá og forsjá auk dómsmáls um útgáfu skilnaðarleyfis. Þá var krafist opinberra skipta á búi hjónanna. Er ekkert fram komir sem hnekkir yfirliti varnaraðila að neinu verulegu leyti eða gefur tilefni til þess að hnekkja gjaldtöku hennar sem óhæfilegri eða ósanngjarnri í skilningi þeirra ákvæða 24. gr. lögmannalaga, nr. 77/1998 sem áður var vitnað til.

III.

Að því er varðar athugasemdir sóknaraðila við einstaka liði verður að fallast á andsvör varnaraðila að öllu verulegu leyti. Ekki eru efni til að hafna tímaskráningum vegna stefnugerðar. Enda þótt ekki sé fyllilega í ljós leitt hvað er á bak við 0,5 klst. vinnu undir lið 4 í athugasemdunum og þótt orðalag á bak við einnar klst. tímaskráningu sem gerð er athugasemd við í 2. lið sé ekki nákvæmt, verður hér að líta til þess að um er að ræða tímaskýrslu vegna umfangsmikils verkefnis sem staðið hefur í meira en tvö ár. Er við því að búast að við skráningu á 135 klst. vinnu geti komið til einstakar skráningar sem vandasamt er að rekja ítarlega hvernig var varið. Verður að telja að í þessu tilviki sé um að ræða svo óveruleg tilvik að reikningur varnaraðila verði ekki færður niður vegna þeirra.

Að öllu þessu athuguðu verður að hafna kröfum sóknaraðila um lækkun reiknings varnaraðila.

Ú R S K U R Ð A R O R Ð :

Kröfu sóknaraðila um lækkun reiknings varnaraðila nr. 2071 er hafnað.

ÚRSKURÐARNEFND LÖGMANNA

Valborg Þ. Snævarr, hrl., formaður

Einar Gautur Steingrímsson, hrl.

Kristinn Bjarnason, hrl.

Rétt endurrit staðfestir

________________________