Mál 16 2013
Ár 2013, föstudaginn 6. desember, var haldinn fundur í úrskurðarnefnd lögmanna í húsnæði Lögmannafélags Íslands að Álftamýri 9, Reykjavík.
Fyrir var tekið málið nr. 16/2013:
M
gegn
X, hdl.
og kveðinn upp svofelldur
Ú R S K U R Ð U R :
Í erindi kæranda, M, til úrskurðarnefndar lögmanna, sem barst nefndinni þann 15. júlí 2013, var kvartað yfir framgöngu X hdl., kærðu, en kærða gætti hagsmuna kæranda við innheimtu kröfu.
Í samráði við kæranda var málið lagt til hliðar á meðan hún aflaði frekari gagna um málið. Eftir að gögn höfðu borist var óskað eftir greinargerð kærðu um málið með bréfi, dags. 7. október 2013 og barst hún nefndinni 17. október 2013. Athugasemdir kæranda við greinagerð kærða bárust 5. nóvember 2013 en lokaathugasemdir kærðu vegna þeirra bárust svo 13. nóvember 2013.
I.
Málsatvik eru í stuttu máli þau að kærðu var falið að innheimta verklaun sem kærandi taldi H vera í vanskilum með. Var gjaldandanum fyrst send innheimtuviðvörun, en greiðsla barst ekki. Kærandi gaf þá út reikning fyrir kröfunni, en það reyndist ekki hafa verið gert fyrr. Útgáfa reikningsins leiddi ekki til greiðslu. Var gefin út stefna í málinu sem þingfest var þann 13. desember 2012. Tekið var til varna af hálfu stefnda. Eftir að greinargerð var skilað, var málið tekið fyrir í héraðsdómi 20. febrúar og 6. mars 2013. Var þá orðið ljóst að sáttatilraunir væru fullreyndar og að flytja þyrfti málið um frávísunarkröfu stefnda. Krafðist kærðaþess í kjölfarið að kærandi setti fram tryggingu fyrir málskostnaði að fjárhæð 60.000 krónur og tilkynnti henni ekki yrði unnið frekar í máli hennar fyrr en trygging hefði borist. Kærandi óskaði þess að sótt yrði um gjafsókn fyrir hennar hönd vegna málsins en kærða neitaði að vinna frekar í málinu án tryggingar. Í kjölfarið óskaði kærandi eftir því að kærða tæki kröfuna úr innheimtu og hætti rekstri máls. Kærða varð við þeirri beiðni 7. mars 2013.
II.
Kærandi krefst þess að kærða sæti að lágmarki áminningu vegna slælegra vinnubragða í sína þágu og framkomu sinnar. Með athugasemdum þeim sem kærandi gerði við greinargerð kærðu og nefndin móttók 5. nóvember óskaði kærandi jafnframt eftir því að nefndin úrskurðaði um hvort og þá hvað mikið hún skyldi greiða fyrir þjónustu kærðu. Lagði hún fram afrit innheimtuseðils kærðu að fjárhæð kr. 38.100 auk vanskilakostnaðar að fjárhæð kr. 12.600.
Kærandi telur að við rekstur dómsmálsins sem kærða höfðaði fyrir hennar hönd hafi hún ekki starfað með hagsmuni sína að leiðarljósi. Kærða hafi m.a. neitað að leggja fram mikilvæg gögn í málinu. Gögnin sem um ræðir hafi verið um hundruðir tölvupósta og verkbeiðna á milli kæranda og stefnda. Kærða hafi tjáð kæranda að hún teldi að dómari myndi ekki nenna að fara yfir svona mikið af gögnum og þau yrðu henni ekki til framdráttar í málinu. Kærandi telur þau gögn sem kærða hafi ákveðið að leggja fram ekki standast skoðun, en þau gögn líti mjög illa út í samanburði við þau skjöl sem kærandi færði kærðu við undirbúning málsins.
Kærandi kveður kærðu hafa neitað að ræða við vitni til að meta mikilvægi þess, en þetta vitni væri máli kæranda mjög til framdráttar. Það hefði lent í svipuðum atvikum og kærandi og lagði kærandi mikla áherslu á að það myndi mæta fyrir dóm sér til stuðnings.
Þá hafi kærða ekki sótt um gjafsókn fyrir hönd kæranda þrátt fyrir beiðni þar um.
Kærandi telur það einnig vera óviðunandi að kærða hafi, að sér forspurðri, ákveðið að senda fulltrúa í dómssal fyrir sína hönd.
Kærandi telur að framferði kærða brjóti í bága siðareglur lögmanna og jafnvel lög um lögmenn, auk þess sem framganga kærðu hafi skaðað lögvarin réttindi kæranda samkvæmt 1. mgr. 70. gr. stjórnarskrár lýðveldisins Íslands.
III.
Kærða hefur ekki lýst sérstökum kröfum fyrir nefndinni. Hún hafnar kröfum kæranda í greinargerð sinni til úrskurðarnefndar og kveður hagsmuni kæranda hafi verið gætt hvívetna á meðan krafa hennar var til innheimtu. Kærða hafnar því að láðst hafi að leggja fram mikilvæg gögn í málinu eða að hún hafi hunsað að leiða vitni fyrir dóm enda hafi það ekki verið frekar rökstutt af hálfu kæranda. Kærða kveðst hafa ákveðið í samráði við kæranda að leggja aðeins hluta af umfangsmiklum tölvupóstsamskiptum fram við þingfestingu en gera áskilnað um frekari gagnaframlagningu eftir því sem tilefni yrði til. Ekki hafi verið komið að því að boða vitni fyrir dóm þegar störfum hennar fyrir kæranda lauk.
Kærða kannast heldur ekki við að hafa látið hjá líða að mæta fyrir dóm og sent fulltrúa í sinn stað, þvert á móti hafi málið verið tekið fyrir í dómi í tvígang og hafi kærða mætt í bæði skiptin.
Kærða bendir á að umkrafinn kostnaður vegna málsins sé aðeins útlagður kostnaður vegna birtingar stefnu, þingfestingargjalds og móts við þingfestingu, samtals 25.500 krónur.
Niðurstaða.
Í kæru er kvörtunin sögð beinast að kærðu, X hdl. og framkvæmdastjóra G, D. Umkvartanir kæranda beinast þó allar að kærðu, X og er litið svo á að hún ein sé varnaraðili. Jafnframt að hún sé til þess bær að reka málið um ágreining um gjaldtöku, en ágreiningslaust að gjaldtakan er til komin vegna starfa hennar að máli kærðu og útlagðs kostnaðar sem þeim tengist.
Rétt þykir að fjalla fyrst um þær kvartanir sem kærða hefur fært fram vegna kærðu, en síðan um ágreining þeirra um endurgjald kærðu
I.
Sá sem telur lögmann hafa í störfum sínum gert á sinn hlut með háttsemi sem stríðir gegn lögum eða siðareglum lögmanna getur sent kvörtun til úrskurðarnefndar lögmanna, sbr. 1. mgr. 27. gr. lögmannalaga, nr. 77/1998. Í afgreiðslu á erindi sem berst nefndinni getur hún fundið að vinnubrögðum lögmanns eða veitt honum áminningu, ef um stórfelld eða ítrekuð brot er að ræða, sbr. 2. mgr. 27. gr. lögmannalaga. Ef sakir eru miklar eða lögmaður hefur ítrekað sætt áminningu getur nefndin í rökstuddu áliti lagt til við ráðherra að réttindi lögmannsins verði felld niður tímabundið eða hann sviptur réttindum.
Samkvæmt 18. gr. lögmannalaga, nr. 77/1998, ber lögmönnum í hvívetna að rækja af alúð þau störf sem þeim er trúað fyrir og neyta allra lögmætra úrræða til að gæta lögvarinna hagsmuna umbjóðenda sinna.
Samkvæmt 70. gr. stjórnarskrárinnar ber öllum réttur til að fá úrlausn um réttindi sín og skyldur eða um ákæru á hendur sér um refsiverða háttsemi með réttlátri málsmeðferð innan hæfilegs tíma fyrir óháðum og óhlutdrægum dómstóli.
Rétt er að geta þess að nítján tölusett dómsskjöl vegna umrædds innheimtumáls hjá héraðsdómi hafa ekki verið lögð fyrir nefndina í heild sinni, en fyrir liggur að kærandi fékk afrit þeirra afhent 7. mars 2013.
Nefndin telur að fram lögð gögn sýni alls ekki fram á að mat kærðu á því hvaða gögn væri nauðsynlegt að leggja fram vegna málsins við þingfestingu þess hafi verið rangt. Þá liggur ekkert fyrir um að það vitni sem kærandi vildi leiða, hafi getað varpað ljósi á málið eða verið málstað kæranda til framdráttar. Raunar bendir sú lýsing kæranda að vitnið hafi lent í svipuðum atvikum og kærandi fremur til að þetta mat kærðu hafi verið rétt. Hér skiptir þó mestu að ekkert liggur fyrir um ágreining um þetta mál við vinnslu málsins, en ekki var komið að aðalmeðferð þess þegar vinnu kærðu lauk.
Fram lögð endurrit úr þingbók sýna að eftir að málinu var úthlutað til dómara var það tekið fyrir í febrúar og mars 2013 og var kærða viðstödd í bæði skiptin. Eru athugasemdir kæranda við að kærða hafi ekki mætt sjálf á dómþing ekki studdar neinum gögnum. Rétt er að árétta að við þingfestingu og skil greinargerða á reglulegum dómþingum er alvanalegt að öðrum lögmönnum sé falið að mæta, enda er það til þess fallið að spara tíma og óþarfan kostnað.
Kæranda og kærðu ber ekki að fullu saman um af hverju kærða neitaði að sækja um gjafsókn. Kærandi segir að kærða hafi stutt það við að það félli ekki undir verklagsreglur lögmannsstofunnar að gera slíkt. Kærða segir á hinn bóginn að vinna við gjafsókn hafi eins og önnur störf fyrir kæranda strandað á því að hún legði fram umkrafða tryggingu að fjárhæð 60.000. Fyrir liggur tölvupóstur, dags. 5. mars 2013 þar sem kærða fer fram á þessa tryggingu. Ekki er unnt að fallast á að kærðu hafi borið að sækja um gjafsókn f.h. kæranda án þess að fá neina tryggingu fyrir greiðslu áfallins kostnaðar. Verða ekki gerðar athugasemdir við synjun kærðu á að sækja um gjafsókn við þessar aðstæður.
Að öllu samanlögðu verður því hafnað að byggja niðurstöðu þessa máls á því að kærða hafi ekki unnið að máli kæranda af heilindum, enda ekkert fram komið um að svo hafi verið. Verður kröfu kæranda um að kærða sæti áminningu því hafnað.
II.
Samkvæmt 1. mgr. 24. gr. lögmannalaga, nr. 77/1998, er lögmanni rétt að áskilja sér hæfilegt endurgjald fyrir störf sín og skal umbjóðanda hans, eftir því sem við verður komið, gert ljóst hvert það gæti orðið í heild sinni. Þar á meðal getur lögmaður áskilið sér hluta af þeirri fjárhæð sem umbjóðandi fær greitt í máli, svo og hærra endurgjald ef mál vinnst en ef það tapast. Loforð um ósanngjarnt endurgjald fyrir starf lögmanns bindur ekki umbjóðanda hans sbr. 2. mgr. 24. greinar.
Hægt er að skjóta ágreiningi um rétt lögmanns til endurgjalds og fjárhæð þess til úrskurðarnefndar lögmanna, sbr. 26. gr. lögmannalaga.
Kærða hefur ekki lýst sérstökum kröfum vegna ágreinings um endurgjalds, en hafnað kröfu kæranda. Þegar litið er til fram lagðra samskipta kæranda og kærðu og því sem fyrir liggur um umfang umrædds dómsmáls, verður að fallast á með kærðu að gjaldtöku hennar í málinu sé mjög í hóf stillt. Innheimta utan réttar var fyrst reynd. Málinu var síðan stefnt og var það tekið fyrir eftir greinargerð var skilað og frestað til sáttatilrauna. Lögð voru fram 19 tölusett dómsskjöl vegna málsins. Þrátt fyrir þetta hefur kærða ekki krafið kæranda um nein laun vegna vinnu sinnar og ekkert annað en útlagðan kostnað. Er með öllu útilokað að fallast á kröfu kæranda um að þessi verklaun verði lækkuð frekar.
Ú R S K U R Ð A R O R Ð :
Kærða, X hdl., hefur í störfum sínum ekki gert á hlut kæranda, M , með háttsemi sem stríðir gegn lögum eða siðareglum lögmanna. Áskilið endurgjald kærðu, kr. 25.500 vegna útlagðs kostnaðar fyrir kæranda vegnainnheimtumálshennar, telst hæfilegt í skilningi 1. mgr. 24. lögmannalaga nr. 77/1998.
ÚRSKURÐARNEFND LÖGMANNA
Valborg Þ. Snævarr, hrl., formaður
Einar Gautur Steingrímsson, hrl.
Kristinn Bjarnason, hrl.
Rétt endurrit staðfestir