Mál 18 2013
Ár 2013, fimmtudaginn 14. nóvember, var haldinn fundur í úrskurðarnefnd lögmanna í húsnæði Lögmannafélags Íslands að Álftamýri 9, Reykjavík.
Fyrir var tekið málið nr. 18/2013:
H
gegn
K hdl.
og kveðinn upp svofelldur
Ú R S K U R Ð U R :
Í erindi kæranda, H, til úrskurðarnefndar lögmanna, sem barst nefndinni þann 6. september 2013, var kvartað yfir framgöngu kærðu, K hdl., en hún kom fram fyrir hönd barnsmóður kæranda í forsjármáli gegn kæranda. Með bréfi, dags. 11. september 2013, var óskað eftir greinargerð kærða um málið og barst hún nefndinni 4. október 2013. Var kæranda gefinn kostur á að gera athugasemdir við hana. Athugasemdir kæranda við greinargerð kærða bárust 28. október 2013, Var kærðu gefinn kostur á að koma að lokaathugasemdum vegna þeirra, en í tölvupósti til nefndarinnar 5. nóvember 2013, kom fram að kærða teldi ekki þörf á að gera frekari athugasemdir vegna málsins.
Málsatvik og málsástæður.
I
Málsatvik eru í stuttu máli þau, að haustið 2011 kom upp missætti á milli kæranda og barnsmóður hans. Stafaði missættið af því að barnsmóðirin tók upp samband við dæmdan kynferðisbrotamann og kærandi sætti sig alls ekki við að börn hans væru hjá móður sinni með manninn inni á heimilinu. Veturinn 2012 höfðaði kærandi forsjármál á hendur barnsmóðurinni, en kærða gætti hagsmuna hennar í málinu. Kærandi krafðist þess að fá fulla forsjá. Samhliða þessu sendi kærandi erindi til barnaverndaryfirvalda, þar sem hann taldi dóttur sinni hættu búna á heimili móðurinnar. Málsmeðferð barnaverndaryfirvalda vegna þessarar kvörtunar var síðar skotið til Barnaverndarstofu. Kom kærða einnig fram fyrir hönd konunnar í samskiptum við barnaverndaryfirvöld.
Undir rekstri málsins hugðist kærandi þiggja ráðgjöf frá félagi einstæðra foreldra, en hætti við það þegar honum varð ljóst að kærða var lögmaður félagsins. Samskipti hans við stjórnarmenn félagsins vegna þessa, munu hafa orðið til þess að kærða var beðin að gera grein fyrir málinu gagnvart stjórn félagsins. Í framhaldi af þessu ritaði kærða tölvupóst til matsmanns í forsjármálinu og lögmanns kæranda. Þar sakaði hún kæranda um að hafa vegið að starfsheiðri sínum með því að tengja hana við umræddan brotamann og með því að láta að því liggja við stjórnina að annarleg sjónarmið stýrðu vinnu hennar fyrir umrædda konu. Óskaði hún í skeytinu eftir því að lögmaður kæranda upplýsti hann um að kærandi væri einungis að vinna sitt starf og að aðdróttanir af þessu tagi gætu varðað við lög.
Kröfum kæranda um forsjá var hafnað í bráðabirgðarúrskurði í júní 2012 og að lokum í efnisdómi fyrir héraði í júlí 2013.
II.
Kærandi lýsir ekki sérstökum kröfum í kæru, en litið er svo á að kæran sé borin fram á grundvelli 27. gr. laga um lögmenn og að þess sé krafist að kærða verði beitt agaviðurlögum á grundvelli þess ákvæðis.
Kærandi gerir ýmsar athugasemdir við framgöngu og afskipti kærða í málinu og telur hana hafa ítrekað ógnað öryggi og velferð dóttur kæranda. Virðast athugasemdir kæranda eiga það sammerkt að hann telur kærðu hafa gengið lengra í að bera blak af umræddum brotamanni og tengslum síns umbjóðanda við viðkomandi, en réttlætanlegt geti talist og samrýmist störfum hennar sem lögmaður.
Kærandi kveður sáttafundi hafa verið haldna haldnir um málefni barnsins, sá fyrri þann 10. nóvember 2011 þar sem viðstödd voru kærandi, lögmaður kæranda, barnsmóðir hans og hin kærða og sá síðari haldinn 22. nóvember þar sem einungis hafi verið viðstödd kærandi og barnsmóðir hans. Á þessum fundum og í greinagerð varnaraðila í seinna forsjármáli kveður kærandi skýrt fram hafa komið að S, dæmdur kynferðisbrotamaður hafi verið kominn inn á heimili barnsmóður hans. Í greinagerð varnaraðila í fyrra forsjámáli hafi aftur á móti þessum staðhæfingum verið hafnað og þau sögð ósönn. Kærandi kveður þar af leiðandi greinagerð kærða hafa verið fulla af rangfærslum og þá hafi kærða m.a. dregið þennan framburð sinn til baka í lokarræðu og fellt hann niður í seinni greinagerð í forsjármáli
Kærandi telur ákveðin persónuleg tengsl hafi verið á milli kærðu og S. Þau hafi áður verið nágrannar og hafi kærða verið vitni í máli ákæruvaldsins gegn honum frá 1998 þar sem vitnisburður kærðu hafi verið honum til málsbóta.
Kærandi telur að tölvupóstur sem kærða sendi á dómkvaddan matsmann í forsjámáli kæranda og barnsmóður hans hafi einungis verið sendur í þeim tilgangi að sverta orðspor kæranda og þar hafi m.a. komið fram hótun um lögsókn á hendur honum.
Kærandi greinir frá því að hann telur að kærða hafi gert allt sitt til að stöðva könnun barnaverndarstofu á högum barnsins þrátt fyrir að engin lagaskilyrði né fordæmi séu fyrir frestun könnunar.
Kærandi felur úrskurðarnefnd lögmanna að kanna hvort framferði kærða brjóti í bága við lög um lögmenn og siðareglur lögmanna, einkum 1., 3., og 5. kafla þeirra og vísar sérstaklega til 2. mgr. 35. gr. varðandi hótun kærðu.
III.
Kærða hafnar í greinagerð sinni þeim ásökum sem koma fram í kvörtun kæranda.
Kærða kveður frásagnir kæranda af sáttafundi þeirra með lögmönnum byggjast á hans eigin túlkun og hafi þeim nú þegar verið svarað í greinagerð og í málflutningi fyrir dómi.
Kærða hafnar því að persónuleg tengsl séu á milli hennar og S. Einu samskipti þeirra hafi falist í því að hafa búið í sama húsi og hún hafi verið kölluð fyrir sem vitni í máli hans. Kærðu hafi á þeim tíma verið alls ókunnugt um brot hans eða eðli þeirra
Kærða mótmælir því að tölvupóstur hennar til dómskvadds matsmanns hafi verið persónulegt bréf. Kærða vísar til athugasemda með 34. gr. barnalaga nr. 76/2002 þar sem fram kemur að við mat á persónulegum eiginleikum foreldra komi til skoðunar geðræn heilsa foreldra og heilsufar almennt. Kærandi hafi verið að blanda sér í persónulegt líf kærðu og hafi því verið mikilvægt að þessar upplýsingar kæmu fram. Kærða mótmælir jafnframt því að í tölvupósti hafi falist hótun um lögsókn.
Kærða hafnar þeim rökum kæranda að hún hafi haft furðuleg afskipti af störfum barnaverndanefndar Reykjavíkur og kveður tölvupóst hafa verið sendan í þeim tilgangi að hlífa barninu fyrir sífelldu áreiti í ljósi þess að um svipað leyti var matsmaður að hefja rannsókn sína og væri hún mun ítarlegri en könnun barnaverndanefndar.
Niðurstaða.
Sá sem telur lögmann hafa í störfum sínum gert á sinn hlut með háttsemi sem stríðir gegn lögum eða siðareglum lögmanna getur sent kvörtun til úrskurðarnefndar lögmanna, sbr. 1. mgr. 27. gr. lögmannalaga, nr. 77/1998. Í afgreiðslu á erindi sem berst nefndinni getur hún fundið að vinnubrögðum lögmanns eða veitt honum áminningu, ef um stórfelld eða ítrekuð brot er að ræða, sbr. 2. mgr. 27. gr. lögmannalaga. Ef sakir eru miklar eða lögmaður hefur ítrekað sætt áminningu getur nefndin í rökstuddu áliti lagt til við ráðherra að réttindi lögmannsins verði felld niður tímabundið eða hann sviptur réttindum.
Samkvæmt 35. gr. siðareglna lögmanna má lögmaður ekki til framdráttar málum skjólstæðings síns beita gagnaðila ótilhlýðilegum þvingunum, en það telst meðal annars ótilhlýðilegt að kæra eða hóta gagnaðila kæru um atferli, sem óviðkomandi er máli skjólstæðings.
Kærandi telur kærðu hafa farið rangt með staðreyndir máls, - sérstaklega að hún hafi ruglað því saman sem fram kom á einstökum sáttafundum - í greinargerð sinni til héraðsdóms, en dregið í land við málflutning. Eins og fram kemur í kærunni sjálfri er það „ekki frágangssök að ruglast á því hvenær hvað var sagt", enda virðist kærandi einkum benda á þetta til að varpa ljósi á málið að öðru leyti.
Úrskurðarnefndin telur að það verði ekki lagt kærðu til lasts, eða gert hana óhæfa til að gæta hagsmuna umbjóðanda síns með eðlilegum hætti, þótt hún hafi áður búið í sama húsi og umræddur ofbeldismaður og borið vitni í sakamáli hans. Er því raunar hvergi haldið fram í máli þessu að hún hafi farið út fyrir það sem vilji umbjóðanda hennar stóð til.
Nefndin getur ekki fallist á að kærða hafi brotið gegn siðareglum lögmanna eða góðum lögmannsháttum með því að rekja í tölvupósti til lögmanns gagnaðila að hún hafi verið kölluð fyrir stjórn umrædds félags eftir að kærandi hafði komið sjónarmiðum á sínum á framfæri við stjórnina. Var kærðu frjálst að bera hönd fyrir höfuð sér, en óumdeilt virðist að í samskiptum sínum við stjórnina, eins og í þessu máli, hélt kærandi fram athugasemdum sínum við störf kærðu. Ábendingar hennar um að aðdróttanir vörðuðu við lög voru innan eðlilegra marka í þessu samhengi og skal sérstaklega áréttað að þær voru ekki settar fram til framdráttar skjólstæðingi hennar með óeðlilegum hætti. Þvert á móti var um að ræða eðlilega ábendingu til lögmanns kæranda að virtum þessum atvikum. Þótt efni tölvupóstsins hafi ekki átt sjáanlegt erindi við matsmanninnn, verður ekki talið að sending hans sé nægt tilefni til viðurlaga.
Kærða hefur gefið skýringar á því hvers vegna hún vildi stöðva könnun barnaverndarnefndar Reykjavíkur á högum barnsins á sama tíma og könnun dómkvadds matsmanns var að hefjast.
Samantekið er það niðurstaða nefndarinnar að kærða hafi haft málstað að verja sem kærandi var mjög andsnúinn. Virðist þar hafa ráðið mestu umhyggja hans fyrir brýnum hagsmunum dóttur sinnar. Þótt kærandi hafi þannig talið að starf kærðu beindis beinlínis gegn þessum brýnu og lögvörðu hagsmunum dótturinnar, fæst ekki séð að kærða hafi í raun gert annað en að rækja það starf sem barnsmóðir kæranda fól henni að rækja. Verður því að hafna því að hún verði beitt agaviðurlögum á grundvelli 27. gr. laga um lögmenn.
Ú R S K U R Ð A R O R Ð :
Kærða, K hdl., hefur í störfum sínum ekki gert á hlut kæranda, H, með háttsemi sem stríðir gegn lögum eða siðareglum lögmanna.
ÚRSKURÐARNEFND LÖGMANNA
Valborg Þ. Snævarr, hrl., formaður
Einar Gautur Steingrímsson, hrl.
Kristinn Bjarnason, hrl.
Rétt endurrit staðfestir
________________________