Mál 19 2013
Ár 2014, föstudaginn 14. febrúar, var haldinn fundur í úrskurðarnefnd lögmanna í húsnæði Lögmannafélags Íslands að Álftamýri 9, Reykjavík.
Fyrir var tekið málið nr. 19/2013:
A
gegn
R hrl.
og kveðinn upp svofelldur
Ú R S K U R Ð U R :
Úrskurðarnefnd lögmanna barst þann 7. september 2013 erindi sóknaraðila, A, þar sem kvartað var yfir áskilinni þóknun varnaraðila, R hrl., vegna vinnu hans við gjafsóknarbeiðni sóknaraðila.
Óskað var eftir greinargerð frá varnaraðila um erindið þann 30. september 2013. Þann 18. nóvember 2013 ítrekaði nefndin tilmæli til varnaraðila um að hann gerði nefndinni grein fyrir málinu af sinni hálfu. Varnaraðili skilaði greinargerð vegna málsins þann 5. desember 2013.
Sóknaraðila var gefinn kostur á að tjá sig um greinargerð varnaraðila en kaus að gera það ekki.
Málsatvik og málsástæður.
I.
Hvorki sóknaraðili né varnaraðili hafa gert grein fyrir atvikum málsins með heildstæðum hætti en af framlögðum gögnum og málatilbúnaði þeirra má ráða að málið varðar kröfu sóknaraðila vegna áskilinnar þóknunar varnaraðila vegna vinnu hans við gjafsóknarbeiðni sóknaraðila.
Sóknaraðili slasaðist í umferðarslysi 12. nóvember 2003. Sóknaraðili leitaði til bæklunarlæknis vegna áverkanna í byrjun árs 2007. B greiddi sóknaraðila skaðabætur að fjárhæð kr. 2.279.213 árið 2007.
Þegar sóknaraðili fór að beita líkamanum við vinnu kveðst hann hafa farið að finna fyrir einkennum eftir slysið í hálsi, baki og hné. Leitaði hann m.a. aftur til bæklunarlæknis árið 2011.
Í upphafi árs 2011 tók varnaraðili að sér mál sóknaraðila vegna framangreinds slyss. Í málinu liggur fyrir umboð vegna starfans, dags. 9. febrúar 2011, en á hinn bóginn er ekkert fram komið um að samið hafi verið um gjaldtöku vegna verksins.
Í lok árs 2011 aflaði varnaraðili matsgerðar þeirra C og D fyrir hönd sóknaraðila á áverkum sem sóknaraðili varð fyrir í umferðarslysi þann 12. nóvember 2003. Matsgerðin er dagsett 4. apríl 2012. Verður að leggja til grundvallar að sóknaraðili hafi greitt kr. 250.000 fyrir matsgerðina.
Varnaraðili, fyrir hönd sóknaraðila, fór þess á leit við innanríkisráðuneytið, með bréfi, dags. 29. nóvember 2011, að sóknaraðila yrði veitt gjafsókn vegna máls sem hann hygðist höfða á hendur B og E til heimtu frekari bóta vegna afleiðinga umferðarslyss 12. nóvember 2003. Beiðninni var hafnað með bréfi innanríkisráðuneytisins, dags. 24. febrúar 2012.
Þann 4. apríl 2012 krafði varnaraðili B um viðbótargreiðslu að fjárhæð kr. 5.565.701 vegna afleiðinga umferðarslyssins, á grundvelli matsgerðarinnar.
Varnaraðili óskaði, f.h. sóknaraðila, eftir endurupptöku á beiðni sóknaraðila um gjafsóknarleyfi frá 29. nóvember 2011. Sóknaraðila var veitt gjafsókn þann 25. júní 2012. Gjafsóknin var takmörkuð við rekstur málsins fyrir héraðsdómi og við réttargjöld, þóknun lögmanns og kostnað við öflun matsgerðar C og D.
Varnaraðili hefur lagt fram ódagsetta tímaskýrslu og útreikning vegna vinnu við gjafsókn fyrir sóknaraðila. Í útreikningnum er sú villa að tímafjöldinn (9,5) hefur verið lagður við tímagjaldið (21.000) í stað þess að margfalda þessar stærðir saman og er tilgreind krafa vegna vinnu við gjafsókn því samtals kr. 26.366,92. með vsk. (Með réttu hefði þessi útreikningur átt að gefa niðurstöðuna 250.372) Við þennan útreikning hefur verið rituð svofelld athugasemd: Gerður reikningur nr. 1606 samtals 250.000 sbr. innborgun.
Varnaraðili gaf út reikning „vegna vinnu að gjafsóknarbeiðni skv. tímaskrá", samtals að fjárhæð kr. 250.000, sem dagsettur er 14. mars 2012. Sóknaraðili greiddi varnaraðila kr. 250.000 þann 14. febrúar 2012.
Sóknaraðili höfðaði mál aðallega á hendur B og F eiganda bifreiðarinnar G, með stefnu birtri 3. júlí 2012. Í varaaðild var ökumanni bifreiðarinnar G, E, einum stefnt.
Fyrir liggur málskostnaðarreikningur H, sem lagður var fram í héraðsdómi Reykjavíkur 12. mars 2013, að fjárhæð kr. 1.532.895. Í reikningnum er gerð grein fyrir 48 klst vinnu vegna málsins að fjárhæð kr. 1.204.800 að meðtöldum vsk, auk 328.095 kr vegna útlagðs kostnaðar, þar af 259.345 vegna sérfræðimats.
Hvorugur aðila hefur lagt fram dóm Héraðsdóms Reykjavíkur frá [...] í málinu, en hann er birtur opinberlega. Með dómnum var B sýknað af kröfum sóknaraðila og kveðið á um að gjafsóknarkostnaður hans skyldi greiðast úr ríkissjóði, þ.m.t. þóknun lögmanns hans að fjárhæð kr. 600.000 krónur.
II.
Sóknaraðili krefst endurgreiðslu á útlögðum kostnaði vegna matsgerðar. Sóknaraðili vísar til þess að honum hafi verið gert að greiða kr. 250.000 fyrir matskostnað vegna þess að gjafsókn hafi ekki fengist samkvæmt upplýsingum frá varnaraðila. Ári seinna hafi honum verið kynnt að gjafsókn hafi fengist og að hann fengi greiðsluna til baka. Þegar sóknaraðili hafi beðið um endurgreiðsluna hafi varnaraðili sagt að það væri kostnaður við að sækja um gjafsókn.
III.
Varnaraðili vísar til þess að reikningurinn í mars 2012 hafi eingöngu verið gerður vegna vinnu við gjafsóknarbeiðnirnar. Segja megi að um skriflegan málflutning sé að ræða. Verulega hafi verið hert á því að fá gjafsókn og megi segja að hún fáist ekki nema yfirgnæfandi líkur séu á því hjá nefndinni að mál muni vinnast.
Varnaraðili bendir á að eins og sjá megi af málskostnaðarreikningi sem lagður hafi verið fram fyrir dómi hafi ekki verið fallist á allan kostnað vegna reksturs málsins. Þá sé það svo að dæmdur gjafsóknarkostnaður nái aldrei til þeirrar vinnu sem fari í að biðja um gjafsóknarleyfi. Sú vinna standi fyrir utan þann kostnað sem lögmönnum sé dæmdur vegna viðkomandi málsóknar.
Varnaraðili telur ljóst af gögnum málsins að vinnan hafi verið veruleg, fyrir utan þá vinnu sem farið hafi í að fá gjafsókn. Kæranda hafi verið skýrt frá því að aldrei yrði stefnt í málinu nema gjafsókn fengist og að hann þyfti að greiða þann kostnað. Endurupptökumál væru erfið og tvísýn.
Niðurstaða.
I.
Samkvæmt 1. mgr. 24. gr. lögmannalaga, nr. 77/1998, er lögmanni rétt að áskilja sér hæfilegt endurgjald fyrir störf sín og skal umbjóðanda hans, eftir því sem við verður komið, gert ljóst hvert það gæti orðið í heild sinni. Þar á meðal getur lögmaður áskilið sér hluta af þeirri fjárhæð sem umbjóðandi fær greitt í máli, svo og hærra endurgjald ef mál vinnst en ef það tapast. Loforð um ósanngjarnt endurgjald fyrir starf lögmanns bindur ekki umbjóðanda hans sbr. 2. mgr. 24. greinar.
Samkvæmt 28. gr. laga um þjónustukaup, nr. 42/2000 skal neytandi greiða það verð sem telja má sanngjarnt með hliðsjón af því hve vinnan er mikil og hvers eðlis hún er, hafi ekki verið samið um verð fyrir keypta þjónustu.
Hægt er að skjóta ágreiningi um rétt lögmanns til endurgjalds og fjárhæð þess til úrskurðarnefndar lögmanna, sbr. 26. gr. lögmannalaga.
II.
Af hálfu varnaraðila eru ekki gerðar athugasemdir við að málið beinist gegn honum einum, en fyrir liggur að annar lögmaður á lögmannsstofu hans flutti héraðsdómsmálið f.h. kæranda.
Ekki er annað komið fram en að mál sóknaraðila hafi verið vel unnið og fylgt eftir af festu af varnaraðila. Á hinn bóginn verður að leggja til grundvallar að hann hafi aldrei samið við sóknaraðila um gjaldtökuna. Er ómótmælt þeirri fullyrðingu sóknaraðila að hann hafi reitt fram 250.000 kr. vegna kostnaðar við matsgerð á þeirri forsendu að gjafsókn hafi ekki fengist. Er ekki á því byggt af hálfu varnaraðila að sóknaraðili hafi verið upplýstur fyrirfram um væntanlegan kostnað við gjafsóknarbeiðni eða að hann tilheyrði ekki málskostnaði, en áréttað skal að varnaraðili gerði ekki sérstaklega grein fyrir vinnu við gjafsóknarbeiðni á málskostnaðaryfirliti því sem lagt var fram í héraðsdómi.
Að framan eru rakin þau ákvæði sem gilda um skyldur lögmanna til að upplýsa viðskiptavini almennt og sérstaklega neytendur, um gjaldtöku sína. Enda þótt oft sé mjög vandasamt og jafnvel útilokað að áætla fyrirfram umfang vinnu við að ljúka uppgjörum eða deilumálum við gagnaðila, virðist sérstaklega brýnt að tekið sé skýrt fram ef gerður er áskilnaður um þóknun umfram t.d. dæmd gjafsóknarlaun.
Hefur í fyrri úrskurðum nefndarinnar verið við það miðað að án slíks áskilnaðar sé ekki heimilt að innheimta þóknun umfram það sem fæst hjá gagnaðila. Er óhjákvæmilegt að leggja til grundvallar að kr. 600.000 sem varnaraðili fékk vegna gjafsóknar fyrir héraðsdómi feli í sér fullnaðargreiðslu vegna dómsmálsins.
Skjalagerð varnaraðila, einkum sá rangi útreikningur sem fyrr er vísað til, veitir glögga vísbendingu um að áskilin fjárhæð vegna gjafsóknarbeiðni , 250.000 kr.hafi í raun ráðist af þeirri fjárgreiðslu sem sóknaraðili hafði þegar reitt fram, en fengist endurgreidd af gjafsókn áður en yfir lauk.
Að öllu þessu athuguðu er útilokað að fallast á það með varnaraðila að honum sé rétt að áskilja sér rétt til 250.000 kr. greiðslu vegna gjafsóknarbeiðni, sem falli utan við gjafsóknarkostnað málsins. Verður því fallist á kröfu sóknaraðila.
Ú R S K U R Ð A R O R Ð :
Varnaraðili, R hrl., skal endurgreiða sóknaraðila, A kr. 250.000
ÚRSKURÐARNEFND LÖGMANNA
Kristinn Bjarnason, hrl., formaður
Einar Gautur Steingrímsson, hrl.
Valborg Þ. Snævarr, hrl.
Rétt endurrit staðfestir
________________________
Haukur Guðmundsson