Mál 2 2013
Ár 2013, föstudaginn 18. apríl, var haldinn fundur í úrskurðarnefnd lögmanna í húsnæði Lögmannafélags Íslands að Álftamýri 9, Reykjavík.
Fyrir var tekið málið nr. 2/2013:
Þ
gegn
F hdl.
og kveðinn upp svofelldur
Ú R S K U R Ð U R :
Úrskurðarnefnd lögmannabarst þann 14. janúar2013 erindi Þþar semkvartað er yfir „of háum greiðslum og of löngum tíma".
Þar sem málatilbúnaður sóknaraðila var nokkuð óskýr, m.a. um kröfur og sakarefni, var leitað eftir skýringum hans. Lágu þær fyrir 23. janúar 2013. Var þann sama dag óskaðeftir greinargerð frá varnaraðila.
Upphaflegabárustþau skilaboð frá varnaraðila að sættir hefðu náðst í málinu og vænta mætti afturköllunar þess. Til þess kom þó ekki. Barst greinargerð varnaraðila þann 31. janúar.
Að fengnum fresti skilaði lögmaður sóknaraðila athugasemdum vegna greinargerðarinnar þann 18. mars 2013. Var varnaraðila boðið að gera lokaathugasemdir við þær og bárust þær 21. mars 2013.
Málsatvik og málsástæður.
I.
Eftir því sem fram kemur í greinargerð varnaraðila, athugasemdum sóknaraðila og gögnum málsins eru málsatvik þau aðsóknaraðilileitaði til varnaraðila 7. september 2012 vegna gengistryggðs láns sem tekið hafði verið af fyrrverandi sambýliskonu hans, en hvíldi á húsi hans. Hittust aðilar á fundi þennan dag og fóru yfir stöðu þess máls.
Ágreiningslaust er að þegar á þessum fyrsta fundi var sóknaraðila kynnt tímagjald og farið fram á að hann greiddi fyrirfram fyrir 10 tíma vinnu, alls 155.000 kr. auk VSK. Greiddi sóknaraðili þessa fjárhæð.
Sóknaraðili var á þessum tímapunkti að slíta sambúð og setti varnaraðili sig þegar í samband við sambýliskonuna og lögmann hennar, auk þess að ræða við kröfuhafa lánsins sem um ræddi. Fólst vinna hans í því að koma fram fyrir hönd sóknaraðila við sambúðarslit þessi.
Varnaraðili kveður fljótlega hafa orðið ljóst að sambúðarslitamál þetta var erfitt viðureignar að því leyti að ekkert samkomulag var með aðilum. Deildu þau m.a. um skiptingu innbús og eignarhluti í fasteign. Var gerð tilraun til að gera samning um sambúðarslitin í heild sinni að loknum fjölmörgum fundum með sóknaraðila og gagnaðila hans og eru óundirrituð drög að þeim samningi dagsett 16. október 2012
Fyrir liggur yfirlýsing varnaraðila um málið, dags. 13. nóvember, þar sem fram kemur að hann aðstoði sóknaraðila við uppgjör við fyrrverandi sambýliskonu sína og að fyrir liggi samkomulag um að sóknaraðili taki yfir fasteign þeirra og áhvílandi veðskuldir.
Lögmenn aðila voru eftir þetta í samskiptum fram eftir ári 2013 við að jafna ágreining aðila um skiptingu innbús og matsverð íbúðarinnar auk fleiri atriða, jafnframt því sem sótt var um greiðslumat fyrir sóknaraðila í því skyni að hann gæti keypt eignarhlut sambýliskonunnar. Bera þessi samskipti með sér að gagnaðilum þótti allt of hægt ganga.
Ágreiningslaust virðist að varnaraðili gerði sóknaraðila 4 reikninga fyrir vinnu sína frá því í september 2012 og til áramóta. Þeir fyrstu þrír voru fyrir störf í september og október. Eftir það hugðist varnaraðili ekki innheimta frekar fyrr en niðurstaða sambúðarslitamálsins lægi fyrir. Fyrir mistök var þó fjórði reikningurinn sendur, en hann var kreditfærður með öðrum reikningi þegar mistökin komu í ljós.
Sóknaraðili hefur lagt fram tímaskýrslur varnaraðila vegna september og október 2012, samtals 36,5 vinnustundir sem voru reikningsfærðar með þremur reikningum á tímagjaldi sem er um 15.500 kr. Alls nema þessir þrír reikningar 566.128 kr. án virðisaukaskatts, eða 798.027 krónur með virðisaukaskatti. Þá hefur hann lagt fram fjóra reikninga vegna vinnu varnaraðila fram til áramóta 2012/2013.
Nánar tiltekið eru fyrirliggjandi tímaskrár og reikningar sem hér greinir:
Tímabil |
Tímar |
Fram lögð tímaskrá |
Reikn nr. |
Dags reikn |
fjárh |
m vsk |
sept |
20,75 |
já |
1690 og 1725 |
11.9 og 27.9 2012 |
322.003 |
404.114 |
okt |
15,75 |
já |
1818 |
30.10.2012 |
244.125 |
306.377 |
? - des |
4,5 |
nei |
1993 |
2.1.2013 |
69.750 |
87.536 |
Samtals |
41 |
0 |
635.878 |
798.027 |
Ekki er annað að sjá en að málið hafi enn verið í vinnslu þegar kvörtun barst úrskurðarnefndinni.14. janúar 2013.
II.
Sóknaraðili krefst þess að reikningar varnaraðila verði lækkaðir að mati nefndarinnar og varnaraðila gert að endurgreiða það sem ofgreitt hafi verið. Reikningarnir séu að fullu greiddir.
Sóknaraðili telur að fyrirliggjandi gögn málsins beri með sér að vinna varnaraðila hafi einkum falist í einstökum samtölum og tölvupóstum sem hafi aðeins getað tekið lítið brot af þeim tíma sem rukkaði hafi verið fyrir. Sóknaraðili kveðst hafa átt lítil samskipti við varnaraðila vegna málsins, hann hafi ekki fengið send um það gögn og lítið vitað um gang þess. Gögn málsins sýni að þessi samskipti hafi verið minni háttar og mest snúist um smáatriði.
Sóknaraðili kveðst ekkert samkomulag hafa gert við varnaraðila um tímafjölda vegna starfa hans, en greitt fyrirfram fyrir 10 tíma.
III.
Varnaraðili krefst þess aðallega að máli þessu verði vísað frá nefndinni. Í fyrsta lagi vegna þess að ekki liggi fyrir hvort ágreiningur sé í raun til staðar, enda hafi hann ekkert heyrt frá sóknaraðila um að hann væri ósáttur við reikningagerð sína fyrr en með bréfi nefndarinnar. Í öðru lagi telur varnaraðili að vísa verði málinu frá nefndinni vegna vanreifunar. Erindi sóknaraðila til nefndarinnar sé ekki tækt til meðferðar og uppfylli ekki kröfur 7. gr. málsmeðferðarreglna hennar.
Þrátt fyrir þetta telur varnaraðili rétt í greinargerð sinni að rekja málið efnislega eins og það horfir við honum og verður málatilbúnaður hans skilinn svo að hann krefjist þess til vara að kröfum sóknaraðila verði hafnað.
Varnaraðili telur að mál það sem hann vann að fyrir sóknaraðila hafi verið erfitt viðfangs og tímafrekt. Mikil heift hafi verið í málinu og tekist á um alla þætti þess.
Varnaraðili telur að það hafi mjög aukið við tímafjölda og kostnað að sóknaraðili vildi undir engum kringumstæðum ræða við gagnaðila sinn í skilnaðarmálinu eða lögmann hennar. Hafi varnaraðila því verið nauðugur kostur að ræða við umbjóðanda sinn og lögmann gagnaðila sitt á hvað auk þess sem gagnaðilinn sjálfur hafi viljað ræða við hann og lögmaður hennar lítt ráðið við það. Umrædd drög og öll atriði varðandi sambúðarslitin hafi því verið rædd fram og til baka en í nóvember hafi orðið ljóst að engir samningar næðust. Hafi sóknaraðili í engu viljað gefa eftir gagnvart sambýliskonunni fyrrverandi. Þá hafi sóknaraðili veikst og það hafi tafið málið.
Varnaraðili kveður þá sóknaraðila hafa farið yfir málið í nóvember, þ.á.m. kostnað við það og telur að yfirlýsing sem hann gaf þá út sýni að sátt hafi verið um kostnaðinn.
Varnaraðili hefur ekki lagt fram frekari tímaskýrslur vegna málsins en telur ljóst að mikil vinna hafi farið í mál sóknaraðila og mun meiri en hann hafi verið rukkaður fyrir. Hafi hann enda viljað koma til móts við sóknaraðila, bæði með hófsemd í gjaldtöku og greiðslufresti, í ljósi þess að hann hafði ekki mikið fé milli handa.
Niðurstaða.
I.
Samkvæmt 1. mgr. 24. gr. lögmannalaga, nr. 77/1998, er lögmanni rétt að áskilja sér hæfilegt endurgjald fyrir störf sín og skal umbjóðanda hans, eftir því sem við verður komið, gert ljóst hvert það gæti orðið í heild sinni. Samkvæmt 2. mgr. skuldbindur loforð um ósanngjarnt endurgjald fyrir starf lögmanns ekki umbjóðanda hans.
Samkvæmt 28. gr. laga um þjónustukaup, nr. 42/2000 skal neytandi greiða það verð sem telja má sanngjarnt með hliðsjón af því hve vinnan er mikil og hvers eðlis hún er, hafi ekki verið samið um verð fyrir keypta þjónustu.
Samkvæmt 2. mgr. 10. gr. siðareglna lögmanna ber lögmanni að gera skjólstæðingi grein fyrir áætluðum verkkostnaði og öðrum málskostnaði eftir föngum. Lögmanni ber að gera skjólstæðingi grein fyrir á hvaða grundvelli þóknunin er reiknuð.
Hægt er að skjóta ágreiningi um rétt lögmanns til endurgjalds og fjárhæð þess til úrskurðarnefndar lögmanna, sbr. 26. gr. lögmannalaga.
Samkvæmt 7. gr. málsmeðferðarreglna úrskurðarnefndar lögmanna skal erindi til nefndarinnar vera skriflegt og í því skal greint frá nafni, kennitölu og heimilisfangi þess sem sendir erindið. Einnig skal koma fram hvaða lögmaður á í hlut, málsatvik þau, sem eru tilefni erindisins og hvaða kröfur séu gerðar. Erindi skulu fylgja sönnunargögn þau, sem á er byggt.
II.
Fallast má á það með varnaraðila að í upphaflegu erindi sóknaraðila hafi kröfugerð verið mjög áfátt. Úr þessu var þó bætt áður en erindið var sent til varnaraðila með ósk um greinargerð.
Þá er engin eiginleg málsatvikalýsing í erindi sóknaraðila, heldur látið við þá lýsingu sitja að hann telji allt of langan tíma hafa farið í að ganga frá skiptum og of marga tíma hafa verið skrifaða á málið. Enda þótt erindið sé þannig mjög knappt er til þess að líta að nefndinni er í 26. gr. lögmannalaga. ætlað að leggja mat á ágreining viðskiptamanns við lögmann sinn. Tilgangur þessa úrræðis er að gefa mönnum kost á að leiða slíkan ágreining til lykta án þess að þurfa að stefna máli og efna til enn frekari lögfræðikostnaðar. Er aðstaðan líka oft á þann veg að viðskiptamaðurinn hefur ekki nema takmarkaðar upplýsingar um þau störf sem lögmaðurinn hefur innt af hendi. Þá er til þess að líta að við vinnslu málsins hafa atvik orðið skýrari og athugasemdir sóknaraðila hnitmiðaðri.
Þeirri fullyrðingu varnaraðila að enginn ágreiningur hafi verið gerður við gjaldtöku vegna málsins fyrr en með erindi til úrskurðarnefndar hefur ekki verið mótmælt. Sú staðreynd leiðir hins vegar ekki til frávísunar málsins, enda er ljóst að ágreiningur er með aðilum um gjaldtökuna.
Með vísan til alls þessa verður ekki fallist á að vísa málinu frá nefndinni.
III.
Í máli þessu háttar svo til, að sóknaraðili hefur lagt fram tímaskrár og reikninga varnaraðila fyrir tímabilið september - október 2012. Tímaskrár hafa að öðru leyti ekki verið lagðar fram og nær ekkert liggur fyrir um hvaða þóknun varnaraðili áskilur sér fyrir þá vinnu sem unnin var eftir þetta tímamark. Reikningur nr. 1993 virðist eingöngu vera fyrir desember. Fram lögð gögn bera þó með sér að varnaraðili hefur unnið að málinu í nóvember og einnig í janúar og m.a. sótt um greiðslumat fyrir sóknaraðila vegna yfirtöku láns. Við þessar aðstæður er nefndinni ómögulegt að fjalla heildstætt um verkefni varnaraðila og ágreining um gjaldtöku fyrir hana. Verður að láta við það sitja að fjalla um gjaldtökuna í september og október 2012, en engin afstaða verður þá tekin til þeirra krafna sem varnaraðili kann að eiga vegna vinnu í þágu sóknaraðila eftir 1. nóvember 2012.
Að því er varðar tímaskráningu varnaraðila, verður ekki hjá því komist að fallast á með sóknaraðila að í einstökum liðum er tímafjöldinn verulega umfram það tilefni virðist til miðað við fram lögð gögn. Jafnvel þótt umtalsverður tími hafi farið í samskipti við aðila sambúðarslitamálsins og lögmann konunnar réttlætir það ekki þann tímafjölda sem það tók að koma saman drögum að samningi. Er það afstaða nefndarinnar að ekki verði byggt á umræddri tímaskráningu við úrlausn málsins, heldur sé óhjákvæmilegt að leggja heildstætt mat á þá vinnu sem varnaraðili hefur innt af hendi. Við það mat verði litið til fram lagðra gagna, en taka ber tillit til þess að fullyrðingar varnaraðila um hve erfið samskipti voru við vinnslu sambúðarslitamálsins fá stoð í gögnum og hefur þeim raunar ekki verið sérstaklega mótmælt.
Þegar atvik eru þannig metin heildstætt er það mat nefndarinnar að þóknun varnaraðila fyrir störf í þágu sóknaraðila í september og október 2012 sé hæfilega metin kr. 300.000 auk virðisaukaskatts. Varnaraðili hefur haldið því fram að reikningur nr. 1993 hafi ekki verið greiddur og hefur raunar lagt fram kreditreikning vegna hans. Verður því miðað við að sóknaraðili hafi fengið kr. 333.991 ofgreiddar vegna þessa tímabils að virðisaukaskatti meðtöldum.
Ú R S K U R Ð A R O R Ð :
Hæfilegt endurgjald, vegna vinnu varnaraðila fyrir sóknaraðilaá tímabilinu september og október 2012í skilningi 1. mgr. 24. lögmannalaga nr. 77/1998 eru kr. 376.500 að virðisaukaskatti meðtöldum. Varnaraðili greiði sóknaraðila kr. 333.991.
ÚRSKURÐARNEFND LÖGMANNA
Valborg Þ. Snævarr, hrl., formaður
Einar Gautur Steingrímsson, hrl.
Kristinn Bjarnason, hrl.
Rétt endurrit staðfestir
________________________