Mál 21 2013
Ár 2013, föstudaginn 6. desember, var haldinn fundur í úrskurðarnefnd lögmanna í húsnæði Lögmannafélags Íslands að Álftamýri 9, Reykjavík.
Fyrir var tekið málið nr. 21/2013:
Í
gegn
E hrl.
og kveðinn upp svofelldur
Ú R S K U R Ð U R :
Í erindi Í,kæranda, til úrskurðarnefndar lögmanna, sem barst nefndinni þann 27. september 2013, var kvartað yfir vinnubrögðum E hrl., kærða, við innheimtu ákröfu af lögbundinni brunatryggingu í fasteign í eign kæranda.
Með bréfi, dags. 3. október 2013 var óskað eftir greinargerð kærða um málið og barst hún nefndinni 22. október 2013 Var kæranda gefinn kostur á að gera athugasemdir við hana 24. október 2013 en hann kaus að gera það ekki.
I.
Málsatvik eru í stuttu máli þau að á nauðungaruppboði þann 9. apríl 2013 bauð kærandi hæsta boð í fasteign. Ekki liggja fyrir í málinu gögn um hver samþykkisfrestur var, en ómótmælt er þeirri fullyrðingu kærða að það hafi verið 23. apríl 2013. Nauðungarsöluafsal var gefið út 28. ágúst 2013 eftir að kærði hafði efnt skyldur sínar að fullu. Var því þinglýst 29. ágúst 2013.
Fyrri eigandi H, hafði áður tryggt eignina hjá T m.a. vegna lögboðinnar brunatryggingar. Var tryggingariðgjaldið í vanskilum og hafði T falið kærða að innheimta það
Þann 11. september 2013 barst kæranda innheimtubréf vegna vangoldinaiðgalda sökum lögbundinnar brunatryggingar. Í sundurliðaðri kröfu má finna útgjaldaliði vegna fyrri innheimtutilraunir kærða á hendur H, þ.e.a.s. innheimtuþóknun og dráttarvexti sem kærandi greiddi með fyrirvara.
II.
Kærandi telur að framferði kærða við innheimtu standist ekki innheimtulög nr. 95/2008. Kærandi vísar til 7. gr. þeirra laga þar sem kemur fram að sá sem sér um innheimtu eftir gjalddaga kröfu skuli senda skuldara eina skriflega viðvörun þess efnis að vænta megi frekari innheimtuaðgerða verði krafa eigi greidd innan 10 daga frá sendingu viðvörunar. Þá kemur einnig fram ef skuldari greiðir innan greiðslufrest samkvæmt 7. gr. verði hann einungis krafinn um kostnað vegna innheimutviðvörunar sbr. 12. gr. sömu laga.
Kærandi telur óeðlilegt að innheimtuferlið gagnvart honum sé styttra en lög kveða á um og hafi það í för með sér talsvert meiri kostnað en ella. Kærandi krefst þess að úrskurðarnefnd lögmanna taki afstöðu hvort ofangreindar innheimtuaðgerðir séu í samræmi við innheimtulög nr. 95/2008 og veiti kærða áminningu telji hún svo ekki vera.
III.
Kærði krefst þess að úrskurðarnefnd lögmanna kveði upp þann úrskurð að í tilvikum sem þeim sem hér um ræðir sé ekki skylt að senda innheimtuviðvörun til síðari eigenda, heldur einungis skráðs skuldara.
Kærði hafnar rökum kæranda og lýsir furðu sinni á þeirri kröfu kæranda að hann sé beittur áminningu vegna lögfræðilegs ágreinings. Sé krafan tilefnislaus og í engu samræmi við góða lögmannshætti. Kærði telur nokkrar rangfærslur vera að finna í greinagerð kæranda. Kærði telur þá fullyrðingukæranda að hann hafi ekki fengið greiðsluáskorun vera byggða á misskilningi, þar sem greiðsluáskorun sé gefin út að liðnum innheimtufresti, löngu eftir að löginnheimta er hafin. Kærði telur að kærandi hafi eignast íbúðina við samþykki tilboðs sem hafi verið 23. apríl 2013 og vísar því til stuðnings 1. mgr. 55. gr. laga um nauðungasölu nr. 90/1991. Kærði kveður fyrri eiganda H einungis hafa lent formlega í vanskilum þar sem að húsið varð eign kæranda í apríl 2013 og kærandi hafi lent í vanskilum vegna þess að hann keypti ekki vátryggingu fyrr en löngu síðar. Umrædd trygging hafi stofnast eftir að umrædd fasteign komst í eigu kæranda. Hafi kærandi því haft eignina í tryggingu í nafni fyrri eiganda, en það sé að mati kærða algjörlega óviðundandi. Kærði telur allt innheimtuferlið hafa verið venjubundið og innheimtuviðvörun hafi farið fram áður en lögfræðilega innheimta hafi farið af stað áður en kærandi tilkynnti um eignarhald sitt.
Kærði telur að þrátt fyrir að nýr eigandi komi að eign, leiði það ekki til þess að þurfi að hefja innheimuaðgerðir að nýju þannig að allur kostnaður sem lagður hafi verið í málið tapist. Þurfi því ekki að beina nýjum innheimuaðgerðum að nýjum skuldara til þess að fullnægja skilyrðum innheimtulaga nr. 95/2008. Kærði kveður kæranda ekki hafa keypt lögbundna brunatryggingu fyrr en við útgáfu afsals eða löngu eftir að hann er orðinn eigandi hinna seldu eignar en fasteignir eigiekki að geta verið ótryggðar lögboðinni brunatryggingu.
Kærði telur vandann sem hér sé fyrir höndum snúast um vinnuaðferðir kæranda og skapast í þeim tilvikum þegar trygging er endurnýjuð eftir að eigendaskipti verði með samþykki tilboðs, en áður en nauðungasöluafsal sé gefið út. Kærandi ástundi að hafa eigin eignir í tryggingu á nafni fyrri eiganda þrátt fyrir að einfalt sé að koma í veg fyrir það. Hér hafi einungis verið sinnt lagaskyldum um sendingu á innheimtu á skuldara eftir útgáfu afsals. Þá tekur kærði fram að það getur verið mismunandi og fari mjög eftir sýslumannsembættum hversu langur tími líður frá uppboði þar til afsal er gefið út og getur stundum verið um marga mánuði að ræða.
Að lokum óskar kærði eftir þvi að hann fái að koma fyrir lögmannanefnd og fjalla um málið munnlega þar sem mikilvægtsé að ekki verði um misskilning að ræða.
Niðurstaða.
Sá sem telur lögmann hafa í störfum sínum gert á sinn hlut með háttsemi sem stríðir gegn lögum eða siðareglum lögmanna getur sent kvörtun til úrskurðarnefndar lögmanna, sbr. 1. mgr. 27. gr. lögmannalaga, nr. 77/1998. Í afgreiðslu á erindi sem berst nefndinni getur hún fundið að vinnubrögðum lögmanns eða veitt honum áminningu, ef um stórfelld eða ítrekuð brot er að ræða, sbr. 2. mgr. 27. gr. lögmannalaga. Ef sakir eru miklar eða lögmaður hefur ítrekað sætt áminningu getur nefndin í rökstuddu áliti lagt til við ráðherra að réttindi lögmannsins verði felld niður tímabundið eða hann sviptur réttindum.
Í máli þessu greinir aðila á um réttmæti áskilinnar innheimtuþóknunar kærða. Fyrir liggur að ágreiningur þeirra er í raun víðtækari en svo að hann snúi að því eina nauðungarsölu- og innheimtumáli sem hér um ræðir. Kjarni þessa ágreinings snýr að því hver eigi almennt að bera hallann af því þegar ný trygging stofnast eftir að kærandi hefur fengið samþykkt tilboð í fasteign á nauðungarsölu en nauðungarsöluafsal hefur ekki verið gefið út og innheimtukostnaður fellur til áður en kröfuhafanum verður ljóst að nýr eigandi hefur komið til. Íbúðalánasjóður var ekki viðsemjandi tryggingafélagsins. Kærandi hefur ekki sýnt fram á að kærði hafi fengið upplýsingar um breytt eignarhald á fasteigninni fyrr en tilkynnt var um nýja vátryggingu.
Jafnvel þótt kærandi sé ósammála kröfum umbjóðanda kærða um innheimtukostnað, fæst ekki séð að sú kröfugerðfeli í sér brot á lögum eða siðareglum lögmanna. Verður samkvæmt þessu að hafna því að beita kærða viðurlögum í máli þessu.
Ú R S K U R Ð A R O R Ð :
Kærði, E hrl., hefur í störfum sínum ekki gert á hlut kæranda, Í, með háttsemi sem stríðir gegn lögum eða siðareglum lögmanna.
ÚRSKURÐARNEFND LÖGMANNA
Einar Gautur Steingrímsson, hrl.
Kristinn Bjarnason, hrl.
Grímur Sigurðsson, hrl.
Rétt endurrit staðfestir
________________________