Mál 9 2013
Ár 2013, föstudaginn 11. október, var haldinn fundur í úrskurðarnefnd lögmanna í húsnæði Lögmannafélags Íslands að Álftamýri 9, Reykjavík.
Fyrir var tekið málið nr. 9/2013:
F
gegn
S hrl.
og kveðinn upp svofelldur
Ú R S K U R Ð U R :
Úrskurðarnefnd lögmanna barst þann 5. apríl 2013 erindi sóknaraðila, F, þar sem kvartað er yfir því að ekki hafi borist uppgjör vegna bótamáls sem varnaraðili, S hrl., vann að fyrir sóknaraðila. Kemur í kvörtuninni fram að varnaraðili hafi greitt út kr. 8.640.691 af þeim 10.174.833 kr., sem hann hafi móttekið f.h. sóknaraðila.
Óskað var eftir greinargerð frá varnaraðila með bréfi, dags. 9. apríl 2013. Þann 20. maí 2012 bárust ákveðnar upplýsingar frá varnaraðila, um leið og hann óskaði eftir fresti til frekari gagnaöflunar. Þann 27. maí sendi varnaraðili svo yfirlit viðskiptareiknings sóknaraðila hjá sér. Þann 1. júlí sendi varnaraðili nefndinni nótu og upplýsti að hann hefði fundið gögn málsins og myndi skila þeim og greinargerð. Í kjölfarið bárust gögn þeirra mála sem varnaraðili hefur unnið að fyrir sóknaraðila og greinargerð hans vegna máls þessa.
Sóknaraðila var gefinn kostur á að gera athugasemdir við greinargerð varnaraðila og bárust þær 13. ágúst 2013.
Varnaraðila var gefinn kostur á að gera lokaathugasemdir vegna þeirra með bréfi þann 20. ágúst 2013. Um leið var athygli vakin á því að í málinu hefði ekki verið gerð grein fyrir því hvernig áskilin þóknun er reiknuð eða samningssambandi aðila að þessu leyti. Þá hefðu engar tímaskýrslur verið lagðar fram. Varnaraðili hefur ekki gert neinar frekari athugasemdir vegna málsins.
Málsatvik og málsástæður.
I.
Hvorki sóknaraðili né varnaraðili hafa gert grein fyrir atvikum málsins með heildstæðum hætti en af framlögðum gögnum og málatilbúnaði þeirra má ráða að sóknaraðili varð fyrir líkamstjóni við starf sitt í mars 2010. Hafði varnaraðili með höndum innheimtu slysabóta fyrir sóknaraðila og rekstur dómsmála sem því tengdist. Virðast afskipti varnaraðila af málinu hafa hafist í maí 2010, en um sama leyti fluttist sóknaraðili frá Íslandi. Varnaraðili rak málið fyrir úrskurðarnefnd í vátryggingamálum og sótti það einnig hjá Sjúkratryggingum. Varnaraðili fékk gjafsókn vegna bótamálsins fyrir héraðsdómi og rak það á þeim vettvangi gegn atvinnurekanda sóknaraðila og tryggingafélagi hans, en þar tapaðist málið. Ekki fékkst gjafsókn til áfrýjunar. Varnaraðili áfrýjaði þó málinu og var bótaskylda viðurkennd með dómi Hæstaréttar í mars 2012. Af viðskiptareikningi þeim sem varnaraðili hefur lagt fram má ráða að hann hafi móttekið kr. 627.500 vegna gjafsóknar fyrir héraðsdómi og kr. 750.000 úr hendi stefndu fyrir Hæstarétti. Eru þessar greiðslur í samræmi við tildæmdar fjárhæðir.
Þegar viðurkenning á bótaskyldunni lá fyrir lét varnaraðili meta líkamstjón sóknaraðila. Á grundvelli matsgerðarinnar var gerð krafa á tryggingafélagið og fékkst greiðsla þaðan að fjárhæð kr. 10.174.833 í júní 2012. Þar af voru 500.000 vegna lögmannskostnaðar. Gerði varnaraðili fyrirvara við ákveðinn frádrátt frá kröfunni sem tryggingafélagið reiknaði með við uppgjörið og undirritaði skaðabótakvittun „með fyrirvara um tímabundið atvinnutjón". Kveður varnaraðili þennan frádrátt hafa verið í athugun þegar mál þetta var sent nefndinni.
Varnaraðili greiddi sóknaraðila út kr. 8.640.691 þegar eftir móttöku greiðslunnar frá tryggingafélaginu og afhenti þá skjal með yfirskriftinni Hluta/Loka Skilagrein. Í skilagreininni er gerð grein fyrir því að af fjárhæðinni kr. 10.174.833 hafi kr. 310.517 runnið í greiðslu fyrir örorkumat. Þá dregst frá þóknun að fjárhæð kr. 975.000 auk kr. 248.625 í virðisaukaskatt. Eftirstöðvarnar, kr. 8.640.691, er sú fjárhæð sem sóknaraðili fékk greidda út. Fyrir liggur reikningur frá varnaraðila fyrir þessari þóknun og virðisaukaskatti.
Af framlögðum tölvuskeytum er ljóst að haustið 2012 hafði sóknaraðili samband við tryggingafélag þar sem hann naut tryggingar fyrir lögfræðikostnaði og óskaði í framhaldi af því eftir skýringum á þeim kostnaði sem dreginn væri frá bótafénu, m.a. í ljósi gjafsóknar. Óskaði sóknaraðili eftir lokauppgjöri. Varnaraðili svaraði ítrekuðum erindum sóknaraðila á þá vegu að hann myndi „klára þetta" eða hafa samband „fljótlega"
II.
Sóknaraðili lýsti ekki sérstökum kröfum í kvörtun sinni, en kveður kvörtun sína beinast að greiddum bótum vegna uppgjörs á greiðslu - þóknun lögmanns. Þá kemur fram að krafist sé uppgjörs á skaðabótamáli vegna vinnuslyss 18.03.2010. Er litið er svo á að þess sé krafist að sú þóknun sem varnaraðili hefur áskilið sér og haldið eftir af bótafénu verði lækkuð.
Sóknaraðili kveður engan samning hafa verið gerðan um þóknun fyrir störf varnaraðila
III.
Í greinargerð sinni og athugasemdum hefur varnaraðili rakið í grófum dráttum þann feril sem mál sóknaraðila fór undir hans stjórn. Varnaraðili bendir á að gjafsókn hafi aðeins fengist fyrir héraðsdómi. Hann hafi sjálfur lagt út kostnað fyrir áfrýjun málsins til Hæstaréttar, en jafnframt bent sóknaraðila á að hann áskildi sér rétt til greiðslna miðað við vinnuframlag. Þá kveðst varnaraðili hafa sent sóknaraðila bréf og óskað eftir innágreiðslu, en hún hafi ekki borist.
Varnaraðili telur að reikningur sinn að fjárhæð kr. 975.000 fyrir vinnu geti ekki talist ósanngjarn miðað við þá miklu vinnu sem lögð var fram í málinu, bæði í héraði og fyrir Hæstarétti. Bendir hann á að auk rekstrar dómsmálanna á tveimur dómstigum hafi hann sótt um gjafsókn á báðum dómsstigum og m.a. rekið málið fyrir Sjúkratryggingum Íslands og úrskurðarnefnd almannatrygginga.
Þá bendir varnaraðili á að í bótamálum hafi verið talið heimilt að lögmenn bættu 30% við þau innheimtulaun sem tryggingafélög ákvarði þeim. Í ljósi þess að greiddar hafi verið 500.000 kr. vegna matsmálsins í lögmannskostnað og að heimilt hafi verið að leggja við þá fjárhæð 150.000, sé ekki unnt að telja að 300.000 kr. í viðbót við það vegna hæstaréttarmálsins sé ámælisverð fjárhæð, m.a. með tilliti til erindisrekstrar fyrir sjúkratryggingum og úrskurðarnefnd almannatrygginga. Varnaraðili telur að í sjúkratryggingamálið og Hæstaréttar hafi farið a.m.k. 60.-70 tímar sem hann verðleggur á 20.000 kr. Geri það kr. 1.400.000.
Niðurstaða.
I.
Samkvæmt 1. mgr. 24. gr. lögmannalaga, nr. 77/1998, er lögmanni rétt að áskilja sér hæfilegt endurgjald fyrir störf sín og skal umbjóðanda hans, eftir því sem við verður komið, gert ljóst hvert það gæti orðið í heild sinni. Þar á meðal getur lögmaður áskilið sér hluta af þeirri fjárhæð sem umbjóðandi fær greitt í máli, svo og hærra endurgjald ef mál vinnst en ef það tapast. Loforð um ósanngjarnt endurgjald fyrir starf lögmanns bindur ekki umbjóðanda hans sbr. 2. mgr. 24. greinar.
Samkvæmt 28. gr. laga um þjónustukaup, nr. 42/2000 skal neytandi greiða það verð sem telja má sanngjarnt með hliðsjón af því hve vinnan er mikil og hvers eðlis hún er, hafi ekki verið samið um verð fyrir keypta þjónustu.
Hægt er að skjóta ágreiningi um rétt lögmanns til endurgjalds og fjárhæð þess til úrskurðarnefndar lögmanna, sbr. 26. gr. lögmannalaga.
II.
Ekki er annað komið fram en að mál sóknaraðila hafi verið vel unnið og fylgt eftir af festu af varnaraðila. Með því að leggja út í áfrýjun málsins á eigin kostnað, gekk varnaraðili raunar lengra í hagsmunagæslu fyrir hönd sóknaraðilia en með sanngirni var unnt að ætlast til af honum. Naut sóknaraðili afraksturs þess.
Í máli þessu liggur ekki fyrir neinn samningur um þá þjónustu sem varnaraðili veitti sóknaraðila eða gjaldtöku vegna hennar og raunar er ómótmælt fullyrðinum sóknaraðila um að ekkert hafi verið samið um endurgjald varnaraðila. Varnaraðili hefur ekki lagt fram gjaldskrá eða tímaskrá en í athugasemdum hans kemur fram að hann miðar a.m.k. hluta vinnunnar við 20.000 króna tímagjald.
Varnaraðili hefur lýst því að hann telji áskilda þóknun að fjárhæð 975.000 hóflega miðað við umfang málsins. Í málatilbúnaði sínum fyrir nefndinni hefur hann hins vegar ekki fjallað um þær 1.377.500 kr., sem hann hafði móttekið í gjafsóknarkostnað vegna héraðsdómsmálsins og málskostnað fyrir Hæstarétti.
Það má ráða m.a. af þeirri fullyrðingu varnaraðila að hann hafi við áfrýjun málsins áskilið sér „ákveðinn kostnað mv. vinnuframlag" að hann miði gjaldtöku sína við umfang þeirrar vinnu sem var lögð í það. Sem fyrr segir liggur þó ekki fyrir nein tímaskráning, en varnaraðili hefur lagt fram þau gögn sem unnið var með fyrir dómstólum og við matsmálið. Bera þau með sér að um var að ræða nokkuð umfangsmikið slysabótamál, þar sem saman fóru töluvert miklir hagsmunir og snúin álitamál, sem m.a. áttu þátt í því að Hæstaréttur sneri við niðurstöðu héraðsdóms um bótaskyldu.
Að framan eru rakin þau ákvæði sem gilda um skyldur lögmanna til að upplýsa viðskiptavini almennt og sérstaklega neytendur, um gjaldtöku sína. Enda þótt oft sé mjög vandasamt og jafnvel útilokað að áætla fyrirfram umfang vinnu við að ljúka uppgjörum eða deilumálum við gagnaðila, virðist sérstaklega brýnt að tekið sé skýrt fram ef gerður er áskilnaður um þóknun umfram t.d. dæmd gjafsóknarlaun eða innheimtulaun sem greidd eru af innheimtum slysabótum.
Hefur í fyrri úrskurðum nefndarinnar verið við það miðað að án slíks áskilnaðar sé ekki heimilt að innheimta þóknun umfram það sem fæst hjá gagnaðila. Er óhjákvæmilegt að leggja til grundvallar að kr. 627.500 sem varnaraðili fékk vegna gjafsóknar fyrir héraðsdómi og 500.000 sem hann tók við vegna vinnu við að meta tjón varnaraðila og innheimta bætur, feli í sér fullnaðargreiðslu vegna þeirra verkþátta.
Ekki hefur hins vegar verið litið svo á að málskostnaður sem dæmdur er úr hendi gagnaðila fyrir dómstólum feli í sér fullnaðargreiðslu vegna vinnu lögmanns. Verður hér að meta að álitum þá fjárhæð sem varnaraðila ber að fá í málflutningslaun fyrir Hæstarétti. Við það mat þykir mega hafa hliðsjón af fyrrgreindu ákvæði 24. gr. lögmannalaga sem heimilar að áskilin sé hærri fjárhæð ef mál vinnst en ef það tapast. Með hliðsjón af þessu þykir sanngjarnt að ætla varnaraðila kr. 1.000.000 vegna flutnings Hæstaréttarmálsins
Þá verður ekki fram hjá því litið að varnaraðili hafði rekið erindi sóknaraðila hjá sjúkratryggingum og úrskurðarnefnd almannatrygginga. Þar sem varnaraðili hefur ekki lagt fram neinar tímaskráningar vegna þessara verka verður að meta þóknun hans vegna þeirra að álitum. Verður þá einkum litið til framlagðra gagna um umfang þessa erindisrekstrar, en varnaraðili verður við það mat að bera hallann af því að hafa ekki haldið saman nákvæmum upplýsingum um umfang starfans.
Þegar gögn málsins eru virt heildstætt er það niðurstaða nefndarinnar að það sé hóflegt að ætla varnaraðila kr. 225.000 vegna vegna þeirrar vinnu hans sem fellur utan við rekstur dómsmálsins og innheimtu slysabótanna.
Þessi niðurstaða felur í sér að sú þóknun sem varnaraðili áskildi sér vegna starfa sinna í þágu sóknaraðila og hefur þegar innheimt, var hæfileg. Það var hins vegar ámælisvert af varnaraðila að standa þannig að viðskiptum sínum við sóknaraðila að hann var aldrei upplýstur um væntanlega gjaldtöku og fékk aldrei í hendur neitt uppgjör þar sem grein var gerð fyrir mótteknum greiðslum, kostnaði við einstaka verkliði eða á hvaða grunni þóknun væri reiknuð. Var þetta í brýnni andstöðu við 14. og 15. gr. siðareglna lögmanna.
Ú R S K U R Ð A R O R Ð :
Hæfilegt endurgjald fyrir vinnu varnaraðila að bótamáli sóknaraðila er kr. 2.352.500 að meðtöldum virðisaukaskatti. Endurgjaldið er að fullu greitt.
ÚRSKURÐARNEFND LÖGMANNA
Valborg Þ. Snævarr, hrl., formaður
Einar Gautur Steingrímsson, hrl.
Kristinn Bjarnason, hrl.
Rétt endurrit staðfestir
________________________
Haukur Guðmundsson