Mál 25 2013
Ár 2014, föstudaginn 14. febrúar, var haldinn fundur í úrskurðarnefnd lögmanna í húsnæði Lögmannafélags Íslands að Álftamýri 9, Reykjavík.
Fyrir var tekið málið nr. 25/2013:
A
gegn
R hdl.
og kveðinn upp svofelldur
Ú R S K U R Ð U R :
Úrskurðarnefnd lögmanna barst þann 30. október 2013 erindi kæranda, A, þar sem kvartað er yfir störfum kærðu, R hdl., við innheimtu vangoldinna launa kæranda.
Kærða skilaði greinargerð vegna málsins þann 18. nóvember 2013. Kæranda var gefinn kostur á að koma á framfæri athugasemdum sínum vegna greinargerðar kærðu. Bárust þær þann 11. desember 2013. Kærðu var gefinn kostur á að gera lokaathugasemdir vegna málsins en kaus að gera það ekki.
Málsatvik og málsástæður.
I.
Hvorki kærandi né kærða hafa gert grein fyrir atvikum málsins með heildstæðum hætti en af framlögðum gögnum og málatilbúnaði þeirra má ráða að málið varðar kröfu kæranda vegna vangoldinna launa fyrir tímabilið frá 2009 til 2011, þegar hún starfaði sem flugfreyja hjá B. Hafði henni verið sagt upp með bréfi, dags. 31. október 2008. Óskaði hún eftir að vinna uppsagnarfrestinn og í kjölfarið voru gerðir voru við hana nokkrir tímabundir ráðningarsamningar til þriggja mánaða í senn.
Kærandi leitaði til Flugfreyjufélags Íslands í byrjun árs 2012 og óskaði eftir að mat yrði lagt á ítarleg gögn um vangoldin laun af hendi B. Flugfreyjufélag Íslands samþykkti að taka málið að sér og setti það í innheimtu hjá lögfræðingi. Málið var í kjölfarið sent til C ehf. Í upphafi sá D lögfræðingur hjá C ehf. um málið. Þann 17. október 2012 sendi hún innheimtubréf til B ehf. þar sem krafist var vangoldinna launa að fjárhæð kr. 1.959.207, auk vaxta skv. 4. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu. B hafnaði kröfunni þann 4. febrúar 2013.
Í byrjun febrúar 2013 tók kærða að sér mál kæranda. Þann 4. mars 2013 ítrekaði kærða fyrir hönd kæranda kröfu skv. innheimtubréfi, dags. 17. október 2012.
Bú B ehf. (B) var úrskurðað gjaldþrota þann [...]. Kærða tilkynnti kæranda þann 7. júní 2013 að hún myndi lýsa kröfu í búið fyrir hönd kæranda. Kærða lýsti kröfunni ekki í tæka tíð, þar sem röng dagsetning á lokum kröfulýsingarfrests var skráð í bækur lögmannsstofunnar. Skiptastjóri hafnaði því að taka kröfuna til greina. Samkvæmt tölvupósti kærðu, dags. 3. september 2013, sendi hún engan reikning hvorki á kæranda né Flugfreyjufélag Íslands vegna vinnu sinnar við málið.
II.
Kærandi krefst greiðslu frá kærðu að fjárhæð kr. 960.000. Kærandi telur seinagang kærðu vera veigamikinn þátt í því að C og Flugfreyjufélag Íslands hafi ekki náð að innheimta vangoldin laun kæranda hjá B. Kærandi kveðst sífellt hafa verið að reka á eftir málinu.
Kærandi vísar til þess að kröfur hennar um vangoldin laun og starfstengdar greiðslur séu byggðar á gildum kjarasamningi. Enginn vafi hafi verið um réttmæti þeirra hjá Flugfreyjufélaginu eða hjá öðrum lögfræðingum sem með málið fóru hjá C.
III.
Kærða krefst þess að málinu verði vísað frá þar sem kvörtunin snúi að háttsemi sem uppfylli ekki efnisskilyrði 27. gr. laga nr. 77/1998 um lögmenn.
Í greinargerð sinni viðurkennir kærða að þau mistök hafi orðið við vinnslu kröfu kæranda á þrotabú B, að röng dagsetning á lokum kröfulýsingarfrests hafi verið skráð í bækur lögmannsstofunnar, sem hafi orðið þess valdandi að kröfunni hafi ekki verið lýst í tæka tíð. Um þetta sé enginn ágreiningur og kveðst kærða hafa beðist afsökunar á því. Um álitshnekki sem slík mistök valdi þurfi ekki að fjölyrða. Kveðst kærða hafa reynt allt hvað hún hafi getað til að fá samþykki annarra kröfuhafa þrotabúsins fyrir því að kröfunni fengist lýst en hafi ekki haft erindi sem erfiði.
Kærða telur alls óvíst að skiptastjóri hefði samþykkt kröfugerð kæranda þótt hún hefði verið móttekin innan kröfulýsingarfrestsins þar sem réttur hennar til vangoldinna launa og annarra starfstengdra greiðslna hafi alls ekki verið óumdeildur og því töluverðar líkur á því að frekari málaferli hefði þurft til að fá skorið úr um lögmæti kröfunnar. Þó svo ólíklega hefði farið að skiptastjóri hefði samþykkt kröfulýsinguna, þ.e. samþykkt launakröfuna sem forgangskröfu sbr. 1. tölul. 112. gr. laga nr. 21/1991, utan kröfu vegna vaxta sem lýst hafi verið sem eftirstæðri kröfu sbr. 114. gr. sömu laga, þá hafi búið verið nær eignalaust og kærandi því ekkert fengið upp í kröfu sína. Þess megi geta í þessu samhengi að ákvæði laga nr. 88/2003 um ábyrgðarsjóð launa hefðu ekki tekið til krafna kæranda, þar sem ábyrgð sjóðsins taki einungis til launakrafna er fallið hafi í gjalddaga 18 mánuðum fyrir úrskurðardag eða réttur hafi unnist til á því tímabili, sbr. 4. og 5. gr. laganna.
Kærða vísar til þess að samkvæmt upplýsingum frá skiptastjóra þrotabús B ehf. hafi öllum forgangskröfum verið hafnað þar sem allar launakröfur hafi verið uppgerðar skv. bókhaldi félagsins fyrir gjaldþrotið. Þessi megi geta að lýstar kröfur í þrotabúið hafi numið alls kr. 1.180.478.455.
Kærða bendir á að tjón kæranda sé alls ósannað og málareksturinn hefði orðið afar áhættusamur fjárhagslega enda fallinn umstalsverður kostnaður á málið þegar hér hafi verið komið við sögu. Hins vegar megi benda á að lögmannsstofan sé með starfsábyrgðartryggingu sem ætlað sé að bæta viðskiptavinum lögmanns fjártjón sem leiði af gáleysi hans og um það sé heldur enginn ágreiningur.
Niðurstaða.
I.
Sá sem telur lögmann hafa í störfum sínum gert á sinn hlut með háttsemi sem stríðir gegn lögum eða siðareglum lögmanna getur sent kvörtun til úrskurðarnefndar lögmanna, sbr. 1. mgr. 27. gr. lögmannalaga, nr. 77/1998. Í afgreiðslu á erindi sem berst nefndinni getur hún fundið að vinnubrögðum lögmanns eða veitt honum áminningu, ef um stórfelld eða ítrekuð brot er að ræða, sbr. 28. gr. lögmannalaga. Ef sakir eru miklar eða lögmaður hefur ítrekað sætt áminningu getur nefndin í rökstuddu áliti lagt til við ráðherra að réttindi lögmannsins verði felld niður tímabundið eða hann sviptur réttindum.
Í II. kafla siðareglna lögmanna er fjallað um skyldur lögmanna gagnvart skjólstæðingum sínum. Ræðir þar m.a. um skyldu lögmanns til að leggja sig fram um að gæta hagsmuna skjólstæðinga sinna og kemur ítrekað fram skylda lögmanns til að gæta þess að valda umbjóðanda sínum ekki réttarspjöllum.
Með hliðsjón af þessu verður hafnað kröfu kærðu um frávísun málsins á þeim forsendum að umrædd mistök hennar teljist ekki til háttsemi sem fallið geti undir tilvitnað ákvæði 27. gr. lögmannalaga.
Það fellur utan lögbundins valdsviðs nefndarinnar að mæla fyrir um greiðsluskyldu lögmanns á þeim grundvelli að hann hafi valdið tjóni, eða að taka afstöðu til skaðabótaskyldu lögmanns. Er óhjákvæmilegt að vísa kröfu kæranda um greiðslu frá kærðu að fjárhæð kr. 960.000 frá nefndinni.
II.
Að mati nefndarinnar liggur fyrir að kærða var í villu um kröfulýsingarfrest í umræddu þrotabúi þegar hún tjáði kæranda 7. júní 2013 að hún myndi lýsa kröfu í búið fyrir hennar hönd. Af hálfu kærðu er enda viðurkennt að mistök hafi sannarlega átt sér stað, sem hún beri alfarið ábyrgð á. Að mati nefndarinnar eru þessi mistök aðfinnsluverð, burtséð frá vafa um hvort þau ollu kæranda fjártjóni, en ein grundvallarskylda lögmanns gagnvart skjólstæðingi er sem fyrr greinir að forðast að valda honum réttarspjöllum.
Ú R S K U R Ð A R O R Ð :
Þau mistök kærðu, R hdl., að gæta ekki að kröfulýsingarfresti í innheimtumáli kæranda, A eru aðfinnsluverð.
ÚRSKURÐARNEFND LÖGMANNA
Kristinn Bjarnason, hrl., formaður
Einar Gautur Steingrímsson, hrl.
Valborg Þ. Snævarr, hrl.
Rétt endurrit staðfestir
________________________
Haukur Guðmundsson