Mál 27 2013

Ár 2014, föstudaginn 14. febrúar, var haldinn fundur í úrskurðarnefnd lögmanna í húsnæði Lögmannafélags Íslands að Álftamýri 9, Reykjavík.

Fyrir var tekið málið nr. 27/2013:

A

gegn

R hrl.

 og kveðinn upp svofelldur

Ú R S K U R Ð U R :

Úrskurðarnefnd lögmanna barst þann 13. nóvember 2013 erindi kæranda, A, þar sem kvartað var yfir trúnaðarbroti kærða, R hrl., í samskiptum við kæranda í B.

Óskað var eftir greinargerð frá kærða um erindið þann 19. nóvember 2013. Kærði skilaði greinargerð vegna málsins þann 6. desember 2013. Kæranda var boðið að koma að sjónarmiðum sínum þann 10. desember 2013. Greinargerð barst frá kæranda þann 12. desember 2013. Kærða var gefinn kostur á að gera athugasemdir við bréf kæranda þann 19. desember 2013. Athugasemdir kærða bárust þann 27. desember 2013. Þann 6. janúar 2013 voru kæranda sendar athugasemdir kærða og hann upplýstur um að nefndin liti svo á að gagnaöflun væri lokið. Þann 6. janúar barst frá kæranda eintak af forsíðu og útdrætti úrskurðarnefndar B í máli kæranda gegn kærða.

Málsatvik og málsástæður.

I.

Hvorki kærandi né kærði hafa gert grein fyrir atvikum málsins með heildstæðum hætti en af framlögðum gögnum og málatilbúnaði þeirra má ráða að málið varðar samskipti þeirra innan B.

Kærandi og kærði eru meðlimir í B. Kærandi kveður kærða hafa verið fenginn til að reyna að ná sáttum í kæru sem kærandi hafði lagt fram innan B á hendur C. Kærandi kveður kærða hafa komið fram sem lögmann í málinu. Hann hafi upplýst sig um skyldur sínar sem lögmanns og hafi heitið fyllsta trúnaði. Hafi kærði í framhaldinu ekki virt trúnað við kæranda. Fyrir liggur tölvupóstur, dags. 1. nóvember 2013, frá kærða til kæranda þar sem hann kveðst ekki tilbúinn til að veita kæranda umbeðinn trúnað.

Fyrir liggur að kærandi kærði kærða til úrskurðarnefndar B þann 2. desember 2013, m.a. fyrir að hafa í skeyti til kæranda þann 1. nóvember 2013, lýst því yfir að hann teldi sig ekki bundinn trúnaði við kæranda lengur þrátt fyrir að hafa áður lýst fyrir kæranda skyldum sínum sem lögmanns, þ.á.m. 100% trúnaði, jafnræði og hlutleysi. Með úrskurði úrskurðarnefndar B, dags. 3. janúar 2014, var komist að þeirri niðurstöðu að þar sem kæruliðurinn varðaði hegðun kærða sem lögmanns en ekki stórritara félli umfjöllun um þá hegðun utan valdsviðs úrskurðarnefndarinnar.

II.

Kærandi krefst þess að kærða verði veitt áminning Lögmannafélagsins fyrir trúnaðarbrest, fyrir að veiða upp úr honum upplýsingar í nafni menntunar sinnar, leka þeim og senda götustrákaleg smáskilaboð.

Kærandi kveður kærða hafa lagt hart að honum að láta mál á hendur C innan B niður falla enda hafi hinn kærði verið mágur vinar hans. Kveðst kærandi ekki hafa samþykkt sátt og hafi viljað senda málið í rannsókn. Kærða hafi verið falið að ganga frá kærunni í rannsókn en það hafi dregist ótæpilega og upplýsingar hafi verið illfáanlegar.

Kærandi kveðst hafa gert athugasemdir við gang málsins. Hafi hann óskað trúnaðar um það mál enda hafi kærði upplýst hann um skyldur sínar sem lögmanns og að allt sem á milli þeirra færi væri bundið trúnaði. Seinna hafi kærði upplýst að hann virti ekki trúnað við kæranda.

Kærandi telur kærða hafa brotið gegn 2. gr., 6. gr., 17. gr., 21. gr., 31. gr. og 41. gr. með framkomu sinni. Kærandi óskar eftir því að úrskurðarnefndin taki af málinu af festu.

III.

Kærði krefst þess að nefndin vísi frá erindi kæranda. Kærði telur umrædda kvörtun algjörlega tilefnislausa og að enginn réttmætur grundvöllur sé henni til staðar. Af þeim sökum telur kærði rétt að gera þá kröfu með vísan til fyrri málsliðar 3. mgr. 15. gr. málsmeðferðarreglna fyrir nefndina að kærandi verði skyldaður til að greiða honum málskostnað að mati nefndarinnar vegna reksturs málsins fyrir nefndinni.

Vísar kærði til 1. málsl. 1. mgr. 27. gr. laga nr. 77/1998 um lögmenn. Bendir hann á að eins og kvörtunin og gögn henni meðfylgjandi beri með sér varði erindi kæranda atriði í samskiptum hans og kæranda sem snerti á engan hátt störf hans sem lögmanns, sbr. 1. gr. laga nr. 77/1998. Kærði kveðst ekki hafa tekið að sér lögmannsstörf fyrir kæranda og hafi á engan hátt gætt hagsmuna hans sem lögmaður, hvorki án né gegn lögmannsþóknun. Telur kærði því að umkvörtunarefni kæranda falli ekki undir valdsvið úrskurðarnefndar lögmanna og hún hafi ekki lögsögu yfir kærða vegna þeirra, sbr. 1. og 2. málsl. 3. mgr. 3. gr. laga nr. 77/1998, sbr. 3. gr. laga nr. 93/2004 um breyting á þeim lögum.

Kærði bendir á að skv. 1. mgr. 7. gr. reglna um meðferð mála fyrir úrskurðarnefnd lögmanna skuli m.a. í erindi til nefndarinnar koma fram hvaða kröfur séu gerðar. Svo sé ekki gert í kvörtuninni heldur einungis óskað eftir því að úrskurðarnefndin „taki af máli þessu af festu". Þá sé í erindi kæranda engin grein fyrir því gerð með hvaða hætti kærði eigi að hafa brotið gegn lögum eða siðareglum lögmanna í lögmannsstarfi sínu. Kærði kveðst engin lögmannsstörf hafa tekið að sér fyrir kæranda, hvorki fyrr né síðar, og aldrei í samskiptum við kæranda vísað til þagnarskyldu sinnar sem lögmanns á einn eða annan hátt. Erindi kæranda varði einkamálefni vegna frjálsra félagsstarfa sem kærði telur sér hvorki rétt né skylt að reifa eða upplýsa úrskurðarnefndina um, hvorki í heild né í einstökum atriðum. Kærði tekur fram að umrædd samskipti við kæranda sem D séu til komin vegna starfa hans og stöðu með embættisheitinu stórritari í stjórn B.

Kærði bendir á að í kvörtun kæranda sé vísað til þess að kærði hafi brotið gegn tilteknum greinum, þ.á.m. 2. gr., án þess að tiltekið sé til hvaða reglna þar sé vísað. Væntanlega megi þó ráða af kvörtuninni og ummælum í greindu bréfi kæranda að hér sé vísað til 2. gr. siðareglna lögmanna. Kærði vísar því á bug að hann hafi í samskiptum við kæranda ekki gætt heiðurs lögmannastéttarinnar.

Niðurstaða.

I.

Sá sem telur lögmann hafa í störfum sínum gert á sinn hlut með háttsemi sem stríðir gegn lögum eða siðareglum lögmanna getur sent kvörtun til úrskurðarnefndar lögmanna, sbr. 1. mgr. 27. gr. lögmannalaga, nr. 77/1998. Í afgreiðslu á erindi sem berst nefndinni getur hún fundið að vinnubrögðum lögmanns eða veitt honum áminningu, ef um stórfelld eða ítrekuð brot er að ræða, sbr. 2. mgr. 27. gr. lögmannalaga. Ef sakir eru miklar eða lögmaður hefur ítrekað sætt áminningu getur nefndin í rökstuddu áliti lagt til við ráðherra að réttindi lögmannsins verði felld niður tímabundið eða hann sviptur réttindum.

Samkvæmt 2. gr. siðareglna skal lögmaður gæta heiðurs lögmannastéttarinnar, jafnt í lögmannsstörfum sínum sem öðrum athöfnum.

II.

Kærði hefur alfarið hafnað því að hafa komið fram sem lögmaður í samskiptum sínum við kæranda. Verður málatilbúnaður hans skilinn svo að hann hafni því að hafa tekið við upplýsingum í trúnaði.

Kæranda hefur ekki tekist sönnum um þessi tvö atriði. Skiptir í því samhengi ekki máli þótt fyrrnefnd kærunefnd B hafi talið að ákveðin atriði í kæru kæranda á þeim vettvangi beindust að því að kærandi teldi kærða hafa brotið gegn lögmannsskyldum sínum.

Með því að ekkert liggur fyrir um að kærði hafi komið fram sem lögmaður í samskiptum við kærða þykir rétt að vísa málinu frá nefndinni.

Ú R S K U R Ð A R O R Ð :

Máli þessu er vísað frá nefndinni.

ÚRSKURÐARNEFND LÖGMANNA

Kristinn Bjarnason, hrl., formaður

Einar Gautur Steingrímsson, hrl.

Valborg Þ. Snævarr, hrl.

Rétt endurrit staðfestir

________________________

Haukur Guðmundsson