Mál 30 2013
Ár 2014, þriðjudaginn 15. apríl, var haldinn fundur í úrskurðarnefnd lögmanna í húsnæði Lögmannafélags Íslands að Álftamýri 9, Reykjavík.
Fyrir var tekið málið nr. 30/2013:
A og
B
gegn
R hdl.
og kveðinn upp svofelldur
Ú R S K U R Ð U R :
Úrskurðarnefnd lögmanna barst þann 22. nóvember 2013 erindi kærenda, A og B, þar sem kvartað var yfir störfum kærða, R hdl., með því að hafa sent Fiskistofustjóra tölvupóst þann 24. september 2013.
Óskað var eftir greinargerð frá kærða um erindið þann 25. nóvember 2013. Greinargerð kærða barst með bréfi, dagsettu 17. desember 2013. Kærendum var gefinn kostur á að tjá sig um greinargerð kærða þann 2. janúar 2014. Athugasemdir kærenda bárust þann 21. janúar 2014. Kærða var gefinn kostur á að koma á framfæri athugasemdum sínum þann 23. janúar 2014. Athugasemdir bárust þann 17. febrúar 2014.
Málsatvik og málsástæður.
I.
Kærendur starfa hjá Fiskistofu. Þau komu að rannsókn máls á grundvelli laga nr. 37/1992, um sérstakt gjald vegna ólögmæts sjávarafla. Rannsókn málsins fólst í því að heimsækja fyrirtækið C ehf. og fá upplýsingar um birgðastöðu í upphafi tiltekins tímabils, kanna fiskkaup og vinnslu fyrirtækisins og bera saman við seldar afurðir fyrir það tímabil sem rannsakað var.
Að mati Fiskistofu sýndi rannsóknin að misræmi var á aðkeyptu hráefni og seldum afurðum og var fyrirtækinu gert að greiða gjald, sem reiknað var á grundvelli þess hráefnismagns sem mismunur sýndi. Þessa ákvörðun sætti fyrirtækið sig ekki við og kærði málið til Fiskistofu sem kvað upp sérstakan úrskurð. Þeim úrskurði skaut fyrirtækið áfram til sérstakrar úrskurðarnefndar skv. framangreindum lögum. Sú úrskurðarnefnd féllst á úrskurð Fiskistofu. Þessum úrskurði undi fyrirtækið ekki og skaut málinu til dómstóla. Við aðalmeðferð gáfu kærendur vitnaskýrslur og kveðast hafa vitnað um málsatvik eins og þau mundu réttust.
Við upphaf rannsóknar Fiskistofu á vettvangi var kærendum afhent af hálfu fyrirtækisins umbeðið blað með upplýsingum um birgðir þess. Var það gert á skrifstofu fyrirtækisins. Er það ágreiningslaust. Fyrir dómi báru kærendur um að framkvæmdastjóri fyrirtækisins hefði afhent umrætt blað en vitni, D, starfsmaður C hf., taldi að það hefði hún gert.
Þann 24. september 2013, eða ellefu dögum eftir aðalmeðferð málsins fyrir héraðsdómi, barst Fiskistofustjóra tölvupóstur frá kærða varðandi misræmi í framburði kærenda og framangreinds vitnis fyrir dómi. Í lok tölvupóstsins kemur eftirfarandi fram: „Nú er svo komið að umbjóðandi minn vill kæra B og A fyrir lögreglu vegna rangs framburðar og meinsæris fyrir dómi og um leið brots í opinberu starfi. Vil ég hér með gefa þeim kost á að leiðrétta framburði sína ef þeim hefur misminnt þetta eitthvað áður en kæra verður send til lögreglu."
Dómur var kveðinn upp í héraðsdómi Reykjavíkur þann XX í máli nr. X. Felldur var úr gildi úrskurður úrskurðarnefndar um ólögmætan sjávarafla sem upp var kveðinn Y í máli nr. Z: C hf. gegn Fiskistofu.
Kærði kveður forstjóra C hf. hafa ákveðið að kæra kærendur til lögreglu vegna framburðar þeirra fyrir dómi.
II.
Kærendur krefjast þess að kærði verði áminntur og honum verði gert vegna reksturs máls þessa fyrir nefndinni að greiða kærendum málskostnað skv. mati nefndarinnar og/eða skv. síðar framlögðum málskostnaðarreikningi.
Kærendur vísa til þess að kröfur þeirra byggist á því að kærði hafi með ámælisverðum og vítaverðum hætti brotið gegn siðareglum LMFÍ og gegn góðum lögmannssiðum með því að senda framangreindan tölvupóst, þann 24. september 2013, til Fiskistofustjóra með fullyrðingu um refsiverða háttsemi kærenda. Jafnframt með því að hafa í frammi hótanir um að ef framburði yrði ekki breytt ættu kærendur á hættu að vera kærðir til lögreglu. Með sendingu þessa tölvupósts hafi líka verið brotið gegn æru kærenda en það mál verði væntanlega sótt á öðrum vettvangi.
Kærendur taka fram að þau hafi ekki verið beðin um að staðfesta framburð sinn með eiði eða drengskaparheiti er þau hafi borið vitni fyrir héraðsdómi, sbr. 2. mgr. 57. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála, með síðari breytingum. Gefi menn rangan vitnisburð eftir að hafa staðfest framburð sinn með þeim hætti sé það meinsæri. Af framangreindum tölvupósti megi draga þá ályktun að lögmaðurinn hafi ekki hugað að mismuni þess að bera rangt fyrir dómi og að sverja rangan eið, nema tilgangurinn hafi verið að sverta mannorð kærenda í augum forstjóra Fiskistofu með því að hnykkja á því að þeir hafi framið meinsæri. Það hafi hingað til verið álitinn svívirðilegur verknaður.
Í annan stað benda kærendur á að kærði hafi ekki nýtt sér úrræði 3. mgr. 56. gr. laga nr. 91/1991 um samprófun vitna, hafi hann talið það nauðsynlegt.
Kærendur telja að framburður þeirra hafi ekki gefið nokkra ástæðu til að kærði færi fram hjá lögmanni gagnaðila og sneri sér milliliðalaust til forstjóra Fiskistofu með ávirðingar á undirmenn hans, með hótunum um lögreglurannsókn gagnvart þeim breyttu þeir ekki framburði sínum og með ásakanir um meinsæri, rangan framburð og brot í opinberu starfi. Kærendur telja þetta framferði kærða almennt andstætt góðum lögmannssiðum og að það feli í sér brot á 26. og 35. gr. siðareglna Lögmannafélags Íslands.
Með vísan til 27. gr. laga nr. 77/1998 og 3. gr. stafliðar b í reglum um meðferð mála fyrir úrskurðarnefnd lögmanna er kvörtun þessi send nefndinni til meðferðar. Málskostnaðarkrafan styðst við heimildarákvæði í 3. mgr. 28. gr. laga nr. 77/1998.
III.
Kærði krefst þess að kröfum kærenda verði hafnað. Þá er þess krafist að kærendum verði gert að greiða kærða málskostnað vegna reksturs málsins fyrir úrskurðarnefndinni.
Kærði vísar til þess að það sé mjög alvarlegt mál, ef satt reynist, að opinberir starfsmenn beri rangt fyrir dómi. Svo mikill hafi hamagangur hjá kærendum verið að standa á röngum ásökunum á hendur umbjóðanda kærða að þau hafi aldrei tekið til greina nein gögn, skýringar eða annað sem fram hafi komið í bréfum umbjóðanda kærða til þeirra á tveggja ára tímabili sem hefði átt að breyta niðurstöðu málsins. Í stað þess hafi þau haldið sem fastast í vinnubrögð sín við rannsókn málsins en á grundvelli þeirra hafi umbjóðanda kærða verið gert að greiða kr. 20.000.000 í sekt. Vinnubrögðin hafi verið slík að til vansa séu fyrir Fiskistofu.
Kærði hafnar því að hann hafi fullyrt að kærendur hafi borið rangt fyrir dómi, framið meinsæri og gerst brotleg í opinberu starfi og hóta kærendum kæru til lögreglu breyttu þau ekki framburði sínum. Kærði telur þessa framsögn kærenda skrumskælingu á tölvupósti þeim sem hann hafi sent Fiskistofustjóra þann 24. september 2013. Sé þetta einungis sett fram til að sverta hann og láta málið líta verr út en það geri og væri nær að víta lögmann kærenda fyrir tilhæfulausar sakir.
Kærði kveður tölvupóstinn hafa verið sendan vegna þess að E, forstjóri C hf., hafi beðið kærða um að kæra kærendur til lögreglu vegna rangs framburðar þeirra fyrir dómi, þegar þau hafi sagt E hafa afhent handskrifað blað, sem D hafi afhent. Þegar E hafi hlustað á framburð kærenda fyrir dómi hafi hann orðið æfur af reiði í þeirra garð fyrir rangan framburð, sem hann taldi vera lygi og algjöra þvælu. E hafi ekki séð blaðið áður en það hafi verið afhent, eins og fram hafi komið í framburði hans fyrir dómi. E hafi heimtað að kærði kærði kærendur til lögreglu. Þetta hafi verið áður en dómur hafi fallið í málinu.
Kærði vísar til þess að lögmenn komi jafnan fram fyrir hönd umbjóðenda sinna en ekki í eigin nafni. Upplýsingagjöf um ætlun umbjóðanda verði að líta á sem upplýsingagjöf umbjóðanda í gegnum viðkomandi lögmann en ekki upplýsingar sem lögmaðurinn veiti að undangenginni sjálfstæðri athugun á málefninu. Kærði hafi ekki vissu um málið nema í gegnum umbjóðanda sinn, enda hafi tölvupósturinn verið sendur fyrir höndC hf.
Kærði bendir á að hann sé gamall Fiskistofumaður. Hann hafi unnið þar á árunum 2004-2007 og hafi allar götur síðan átt gott samstarf við Fiskistofu og borið hlýjan hug til stofnunarinnar og starfsmanna hennar, sem sé ástæða þess að hann hafi sent tölvupóstinn. Hafi hann gert það til þess að þurfa ekki að fara að kæra kærendur til lögreglu fyrir rangan framburð eins og umbjóðandi hans hafi krafist. Kærði telur það kaldhæðni örlaganna að hann hafi sent tölvupóstinn til að koma í veg fyrir að hann þyrfti að kæra kærendur og hann skuli nú vera kærður af þeim til úrskurðarnefndar lögmanna.
Bendir kærði á að sé farið yfir tölvupóst hans komi annað fram en kærendur vilji vera láta í kvörtun sinni, þar sem algerlega sé farið offari í skrifum og túlkunum á þessum tölvupósti. Í upphafi tölvupóstsins komi fram að fyrir dómi hafi komið upp „sérstakar aðstæður" þar sem framburðir hafi stangast á. Síðan sé farið í gegnum það hver hafi afhent blaðið. Vissulega hafi kærði nefnt það í tölvupóstinum að framburðir kærenda fyrir dómi hafi verið ótrúverðugir og sérstaklega framburður kæranda A.
Kærði kveðst hafa haft það í huga að mögulega gætu kærendur lent í vandræðum vegna þess að málið yrði kært til lögreglu. Hafi hann því sent kurteislegan og tiltölulega varfærinn tölvupóst til Fiskistofustjóra til að forða því að hann þyrfti að kæra kærendur til lögreglu. Hafi hann með tölvupóstinum verið að upplýsa Fiskistofustjóra um það hvað umbjóðandi hans hygðist gera. Ekki hafi falist í honum fullyrðing af hans hálfu um það að kærendur hafi borið rangt fyrir dómi, framið meinsæri og gerst brotleg í starfi heldur einungis það sem umbjóðandi hans hafi talið. Hafi hann gefið kærendum tækifæri á að leiðrétta framburð sinn, teldu þau sig hafa misminnt um hver hafi afhent hverjum hið handskrifaða blað.
Kærði telur samkvæmt framangreindu að hann hafi ekki brotið gegn siðareglum LMFÍ eða gegn góðum lögmannssiðum, þar sem engin fullyrðing um refsiverða háttsemi af hans hálfu hafi átt sér stað eða hótanir af nokkru tagi.
Kærði telur það fráleitt að hann hafi brotið gegn æru kærenda en þau hafi sjálf séð um það með rannsóknum mála og framburðum sínum fyrir dómi. Tölvupóstinum hafi einungis verið beint til Fiskistofustjóra sem hafi verið eðlilegt í stöðunni þar sem kærendur hafi komið fram sem vitni og starfsmenn Fiskistofu fyrir dómi en tölvupósturinn hafi ekki komið fyrir almenningssjónir og muni ekki gera það. Því sé mótmælt að tilgangur tölvupóstsins hafi verið að sverta æru kærenda enda hafi engin sönnun verið lögð fram um slíkt og sé því vísað til föðurhúsanna.
Kærði bendir á að íslenska ríkið og/eða úrskurðarnefnd um ólögmætan sjávarafla hafi verið aðili að dómsmálinu. Fiskistofa hafi því ekki verið beinn aðili að málinu. Kærendur heyri undir Fiskistofu sem sé sjálfstæð stofnun. Hafi því ekki verið óeðlilegt að tölvupóstinum væri beint til yfirmanns þeirra hjá Fiskistofu. Að auki hafi málinu verið lokið fyrir héraðsdómi og ekki hafi verið um frekari vitnaleiðslur að ræða. Megi því segja að brýn nauðsyn hafi borið til þess að beina þessu strax til Fiskistofustjóra þar sem umbjóðandi kærða hafi verið búinn að krefjast þess að hann kærði kærendur til lögreglu og því hafi hann þurft að hafa hraðann á. Telur kærði að 26. gr. siðareglna Lögmannafélags Íslands eigi ekki við í þessu sambandi.
Hvað varði tilvísun kærenda til 35. gr. siðareglna Lögmannafélags Íslands tekur kærði það fram að nefndur tölvupóstur hafi ekki verið sendur til framdráttar málum því búið hafi verið að flytja málið fyrir héraðsdómi. Málið hafi verið dæmt C í vil að öllu leyti. Hafi kærendur ekki verið beitt ótilhlýðilegum þvingunum en þau hafi komið fyrir dóm sjálfviljug sem vitni en ekki sem gagnaðili og því eigi ákvæði 35. gr. siðareglna ekki við í málinu. Að öðru leyti hafi engar hótanir verið hafðar uppi eins og kærendur vilji vera að láta.
Kærði byggir á því að með tölvupóstinum hafi ætlunin ekki verið að brjóta gegn siðareglum Lögmannafélags Íslands eða æru aðila gagnvart Fiskistofustjóra eða öðrum. Kærendur verði að bera ábyrgð á gerðum sínum en kærði telur að kannski hefði verið heppilegast að sleppa því að senda tölvupóstinn og kæra þau frekar strax til lögreglu eins og fyrir hann hafi verið lagt af umbjóðanda hans. Í stað þess sitji kærði undir ásökunum um brot gegn siðareglum Lögmannafélags Íslands og ærumeiðandi ummæli.
IV.
Í athugasemdum kærenda við greinargerð kærða sem bárust nefndinni þann 21. janúar 2014 kveðast þau ekki fá annað séð en að kærði haldi í greinargerð sinni áfram að sveigja að æru og heiðri kærenda með því að fullyrða að vinnubrögð þeirra hafi verið til vansa fyrir Fiskistofu, að hamagangur þeirra hafi verið svo mikill að standa að röngum ásökunum á hendur umbjóðanda kærða að þau hafi ekki tekið til greina gögn eða skýringar. Þá segi kærði að það sé fráleitt að hann hafi brotið gegn æru kærenda, „þau hafa sjálf séð um það með rannsóknum mála og framburði sínum fyrir dómi". Verði ekki annað séð af þessum orðum kærða en að hann staðhæfi enn, eða a.m.k. gefi fyllilega í skyn að kærendur hafi borið rangt fyrir dómi, framið meinsæri og gerst sek um brot í starfi. Kærendur krefjast þess að kærði verði sérstaklega áminntur fyrir slíkt orðaval og dylgjur í málsvörn sinni.
Kærendur benda á að ákvarðanir Fiskistofu hafi sætt kæru til sérstakrar úrskurðarnefndar skv. 6. gr. laga nr. 37/1992 um sérstakt gjald vegna ólögmæts sjávarafla. Úrskurðarnefndin hafi komist að sömu niðurstöðu og Fiskistofa og málsmeðferð Fiskistofu hafi þar engum athugasemdum sætt. Framangreint orðaval kærða sé því fjarri faglegri orðræðu. Þótt héraðsdómur hafi komist að annarri niðurstöðu en Fiskistofa og úrskurðarnefnd sé það ekki til umfjöllunar í þessu máli heldur lögmannshættir kærða.
Kærendur benda á að kærði fullyrði að frásögn kærenda hafi verið skrumskæling á tölvupósti þeim sem kæra lúti að. Kærendur treysta siðanefndinni fullkomlega til að lesa téðan tölvupóst. Rétt sé þó að árétta að kærði geri ásakanir í garð kærenda um rangan framburð, meinsæri og brot í starfi að sínum þegar hann segi í tölvupósti sínum til Fiskistofustjóra: „Vil ég hér með gefa þeim kost á að leiðrétta framburði sína..." „... áður en kæra verður send til lögreglu."
Kærendur telja það fjarri lagi að lögmaður geti skotið sér á bak við umbjóðanda sinn um framgöngu hans sjálfs í málafylgju sinni, eins og kærði leitist við að gera í greinargerð sinni. Lögmaðurinn verði sjálfur að bera ábyrgð á málflutningi sínum.
Kærendur kveðast ekki geta lagt annan skilning í eftirfarandi orð í margnefndum tölvupósti en að um hótun hafi verið að ræða: „Vil ég hér með gefa þeim kost á að leiðrétta framburði sína ef þeim [svo] hefur misminnt þetta eitthvað áður en kæra verður send til lögreglu." Framangreind setning verði skilin á þann veg að breyti kærendur framburði sínum sé ekki lengur ástæða til að kæra athæfið til lögreglu, en ella verði kæra send. Í slíkri orðræðu felist ekkert annað en þvingun á þá leið að kærendur skuli eiga það á hættu að verða sakaðir um alvarlegt refsivert brot breyti þeir ekki framburði sínum. Ásökun um refsiverða háttsemi sé grafalvarleg gjörð og sá sem fullyrði slíkt í garð samborgara sinna verði að hafa lögfullar sannanir fyrir staðhæfingum sínum.
Kærendur telja þá aðferð sem kærandi beiti í þessu sambandi sérstaklega ámælisverða. Í fyrsta lagi hafi það staðið honum næst að grípa til viðeigandi réttarfarsúrræða hafi hann viljað láta hnekkja eða styrkja vitnisburði kærenda, eftir atvikum með samprófun. Í annan stað hefði hann átt að beina athugasemdum sínum til lögmanns íslenska ríkisins, sem hafi leitt kærendur fyrir dóminn sem vitni, teldi hann eitthvað athugavert við framburði þeirra. Í þriðja lagi hefði verið eðlilegra, ef á annað borð sé hægt að nota það orðalag, að hann beindi hótun sinni milliliðalaust til kærenda. Það hafi verið sérstaklega ámælisvert að beina þessari ógeðfelldu hótun til Fiskistofustjóra vegna kærenda og ljóslega til þess fallið að sverta mannorð þeirra fyrir honum. Í fjórða lagi telja kærendur það ámælisverða framkomu kærða að nota ekki rétt hugtök í klögun sinni til Fiskistofustjóra. Eins og augljóst megi vera verði að telja meinsæri mun alvarlegri ásökun en ásökun um rangan framburð, en hvoru tveggja sé sérstaklega meiðandi fyrir kærendur.
Kærendur ítreka að framganga kærða sé talin andstæð góðum lögmannssiðum, sbr. I kafla Codex ethicus og brot á IV. og V. kafla siðareglnanna. Þess sé krafist að úrskurðarnefnd lögmanna beiti kærða viðeigandi viðurlögum í samræmi við 2. mgr. 27. gr. laga nr. 77/1998 um lögmenn.
Kærendur byggja kæruna m.a. á 2. tölul. 3. gr. málsmeðferðarreglna úrskurðarnefndar lögmanna. Að mati kæranda hafi framganga kærða með téðum tölvupósti m.a. verið brot á 1. gr. siðareglna LMFÍ. Þá hafi lögmaðurinn brotið gegn 26. gr. siðareglna með því að sniðganga lögmann gagnaðila í málinu og síðast en ekki síst hafi kærði einnig brotið gegn 34. gr. siðareglnanna. Kærði sé talinn hafa verið beint eða óbeint að hóta vitnum gagnaðila málsins (íslenska ríkisins) og beita ótilhlýðilegum þvingunum, sem heimfæra megi undir 34. gr.
Kærendur vísa til ákvörðunar úrskurðarnefndar LMFÍ í máli nr. 8/2013 þar sem lögmanni hafi verið veitt áminning vegna framgöngu og háttsemi sem að mati kærenda hafi verið miklu léttvægari en framganga kærða í þessu máli.
V.
Í lokaathugasemdum kærða kemur fram að vinnubrögð kærenda hafi verið dæmd ómerk með dómi héraðsdóms Reykjavíkur í máli nr. X. Af því leiði að vinnubrögð þeirra hljóti að vera til vansa fyrir Fiskistofu. Með því að verja þessi ófullnægjandi vinnubrögð fyrir dómi hafi umbjóðandi kærða talið að þau væru að verja sig með því að segja ekki rétt frá fyrir dómi. Þetta séu staðreyndir sem komi fram í dómsniðurstöðu um slæleg vinnubrögð kærenda og hafnar kærði alfarið þeirri kröfu kærenda að hann verði áminntur fyrir slíkt orðaval.
Kærði vísar til máls úrskurðarnefndar lögmanna nr. 10/2012 máli sínu til stuðnings.
Kærði bendir á að kærendur hafi í athugasemdum frá 20. janúar 2014, bætt við lagagreinum og málsástæðum sem hann telji framferði kærða falla undir. Nú sé vísað til IV. og V. kafla siðareglna lögmanna og 2. mgr. 27. gr. laga nr. 77/1998. Ennfremur sé vísað til 1. gr. og 34. siðareglna LMFÍ. Kærði mótmælir framangreindum eftir á tilgreindum lagarökum og málsástæðum þar sem þau séu of seint fram komin og hefðu átt að koma fram í upphaflegri kæru.
Niðurstaða.
I.
Samkvæmt 1. gr. siðareglna lögmann ber lögmanni að efla rétt og hrinda órétti.Skal lögmaður svo til allra mála leggja, sem hann veit sannast eftir lögum og sinni samvisku.
Í 26. gr. reglnanna er lagt bann við því að lögmaður snúi sér beint til aðila um málefni, sem annar lögmaður fer með, án hans samþykkis, nema brýn nauðsyn krefji. Skal þá viðkomandi lögmanni þegar um það tilkynnt.
Samkvæmt 34. gr. siðareglnanna skal lögmaður sýna gagnaðilum skjólstæðinga sinna fulla virðingu í ræðu, riti og framkomu og þá tillitssemi sem samrýmanleg er hagsmunum skjólstæðinganna.
Í 35. gr. kemur fram að lögmaður má ekki til framdráttar málum skjólstæðings síns beita gagnaðila ótilhlýðilegum þvingunum, en það telst meðal annars ótilhlýðilegt:
‑ að kæra eða hóta gagnaðila kæru um atferli, sem óviðkomandi er máli skjólstæðings,
‑ að ljóstra upp eða hóta gagnaðila uppljóstrun um atferli, er getur valdið gagnaðilahneykslisspjöllum,
‑ að leita án sérstaks tilefnis til óviðkomandi venslamanna gagnaðila með mál skjólstæðings síns eða hóta gagnaðila slíku.
II.
Af tölvupósti þeim sem kvörtun þessi sprettur af, telur nefndin að megi glögglega ráða að hann er sendur f.h. umbjóðanda kærða. Verður lagt til grundvallar að þegar tölvupósturinn var sendur hafi umbjóðandinn talið að kærendur hafi með ósannindum freistað þess að gera málsstað sinn verri í umræddu héraðsdómsmáli. Hafi umbjóðandinn haft vilja til að kæra þau til lögreglu vegna þessa, en kærði talið rétt að freista þess að láta á það reyna hvort þau vildu draga þann framburð sinn til baka sem umbjóðandinn taldi rangan.
Þótt kærði hafi þannig komið fram fyrir hönd umbjóðanda síns og einstakar fullyrðingar í skeytinu hafi verið settar fram fyrir hans hönd, var hann allt að einu bundinn við siðareglur lögmanna við framkvæmd starfa sinna. Þarf því að taka afstöðu til þess hvort háttsemi hans fór í bága við siðareglurnar, en við mat á því er kærunefndin ekki bundin við tilvísanir kærenda til einstakra ákvæða. Reynir hér fyrst og fremst á V. kafla reglnanna um skyldur lögmanns við gagnaðila, einkum fyrrgreindar 34. og 35. gr., en einnig er í málinu byggt á 26. gr.
Kærendur komu í umræddu dómsmáli fram sem starfsmenn Fiskistofu og gáfu vitnaskýrslu um framkvæmd starfa sinna á vegum stofnunarinnar. Sá lögmaður sem kom fram fyrir hönd gagnaðila kærða í héraðsdómsmálinu gætti hagsmuna ríkisins og starfaði á vegum ríkislögmanns. Verður ekki talið hann hafi farið með það málefni sem hugsanleg kæra til lögreglu fól í sér og er því ekki unnt að líta svo á að kærði hafi brotið gegn 26. gr. siðareglnanna með því að beina erindi sínu ekki til hans.
Skylda lögmanns til að sýna gagnaðila fulla virðingu og tillitssemi girðir að sjálfsögðu ekki fyrir að lögmaður aðstoði umbjóðanda sinn í málum þar sem hann vill bera sakir á gagnaðila.
Kærendur byggja á því að með því að senda yfirmanni þeirra umræddan tölvupóst hafi kærði brotið gegn 35. gr. siðareglnanna og freistað þess að beita þau ótilhlýðilegum þvingunum.
Áréttað skal að eins og mál þetta liggur fyrir, verður að leggja til grundvallar þá frásögn kærða að umbjóðandi hans hafi sannarlega talið framburð kærenda um afhendingu skjalsins rangan og haft vilja til að kæra þau til lögreglu þessa vegna. Ef satt væri, myndi það atferli ekki teljast máli skjólstæðingsins óviðkomandi. Ekki er heldur um það að ræða að kærði hafi hótað að ljóstra upp einhverju sem leynt átti að fara og gæti valdið þeim hneykslisspjöllum ef upp kæmist.
Með því að beina erindi sínu til yfirmanns kærenda setti kærði málið í sérkennilegan farveg.Yfirmaðurinn gat eðli málsins samkvæmt ekkert vitað um hver hafði afhent umrætt skjal og þar með hvort framburður kærenda var efnislega réttur. Fæst ekki séð að hann hefði með réttu átt að skipta sér af framburði þeirra. Með því að beina hótun sinni um lögreglukæru að yfirmanni kærenda gat kærða þó ekki gengið neitt annað til en hlutast til um að hann hefði áhrif á kærendur í krafti stöðu sinnar. Fyrrgreind upptalning 35. gr. siðareglnanna á dæmum um ótilhlýðilegar þvinganir er ekki tæmandi og er það mat nefndarinnar að það falli undir þá háttsemi að fá yfirmann stofnunar til að hafa áhrif á framburð starfsmanna fyrir dómi. Er óhjákvæmilegt að gera aðfinnslu við þessa framgöngu kærða.
Rétt þykir að hvor aðili beri sinn kostnað af máli þessu.
Ú R S K U R Ð A R O R Ð :
Sú háttsemi kærða, R hdl., að senda yfirmanni kærenda orðsendingu um að lögreglukæra yrði send ef þau breyttu ekki framburði sínum, er aðfinnsluverð.
ÚRSKURÐARNEFND LÖGMANNA
Kristinn Bjarnason, hrl., formaður
Einar Gautur Steingrímsson, hrl.
Valborg Þ. Snævarr, hrl.
Rétt endurrit staðfestir
________________________
Haukur Guðmundsson