Mál 32 2013
Ár 2014, föstudaginn 14. febrúar, var haldinn fundur í úrskurðarnefnd lögmanna í húsnæði Lögmannafélags Íslands að Álftamýri 9, Reykjavík.
Fyrir var tekið málið nr. 32/2013:
A
gegn
R hrl.
og kveðinn upp svofelldur
Ú R S K U R Ð U R :
Úrskurðarnefnd lögmanna barst þann 6. desember 2013 erindi kæranda, A, þar sem kvartað var yfir störfum kærða, R hrl., í þágu kæranda vegna líkamsárásar sem kærandi varð fyrir á geðdeild Landspítalans 3. ágúst 2010.
Óskað var eftir greinargerð frá kærða um erindið þann 10. desember 2013. Viðbótargögn bárust frá kæranda sem send voru kærða með bréfi, dagsettu 19. desember 2013. Kærði skilaði greinargerð vegna málsins þann 7. janúar 2014.
Kæranda var gefinn kostur á að tjá sig um greinargerð kærða en kaus að gera það ekki.
Málsatvik og málsástæður.
I.
Kærði hefur ekki lýst málsatvikum með heildstæðum hætti. Verður málavaxtalýsing kærða lögð til grundvallar, enda er hún studd ítarlegum gögnum og hefur ekki sætt andmælum af hálfu kæranda.
Þann 6. ágúst 2010 leitaði systir kæranda, B, til kærða vegna líkamsárásar sem kærandi hafði orðið fyrir á geðdeild Landspítalans þann 3. ágúst 2010. Kærandi veitti C, systur sinni, umboð til að annast málið fyrir sína hönd en hún framseldi umboðið til kærða þann 9. ágúst 2010. Samdægurs var óskað eftir skýrslum lögreglu um atvikið og vottorði frá slysadeild Landspítalans. Lögregluskýrsla barst þann 12. ágúst og þann 13. ágúst var tjónið tilkynnt til bótanefndar skv. lögum nr. 69/1995. Jafnframt var málið tilkynnt til D hf. þar sem kærandi hafði keypt slysatryggingu. Auk þess að óska eftir vottorði frá slysadeild Landspítalans var óskað eftir upplýsingum frá heilsugæslunni á [...] þar sem kærandi hafði verið með heimilislækni. Svar barst frá heimilislækni kæranda þann 6. október 2010 og benti hann á að rétt væri að afla vottorða frá E taugasérfræðingi og F geðlækni vegna málsins. Var óskað eftir vottorðum frá þeim báðum.
Vottorð slysadeildar um afleiðingar árásarinnar er dagsett 27. október 2010. Svar barst frá E, dags. 31. október 2011, þar sem hann upplýsir að hann geti ekki veitt neinar upplýsingar um mögulegar afleiðingar árásarinnar á tíðni flogaveikikasta hjá kæranda. Kærandi var upplýstur um þetta með bréfi, dags. 2. nóvember 2011. Ekki barst svar frá F. C, systir kæranda, hringdi á lögmannsstofu kærða þann 11. mars 2011 og upplýsti að F væri hættur sem geðlæknir kæranda en G hefði tekið við starfinu. G var send beiðni um vottorð vegna kæranda og er vottorð hans dagsett 23. mars 2011.
Kærandi var ítrekað í sambandi við lögmannsstofu kærða. Var honum gerð grein fyrir því að gera yrði bótakröfu í opinberu máli sem væntanlega yrði höfðað á hendur tjónvaldi þegar rannsókn lögreglu lyki. Einnig yrði gerð bótakrafa á vátryggingafélagið D vegna bóta úr slysatryggingarþætti heimilistryggingar svo og á hendur ríkissjóði en mögulega þyrfti að höfða sérstakt einkamál ef ekki tækist að afla allra gagna áður en dæmt yrði í opinbera málinu. Kæranda var jafnframt gerð grein fyrir því að öll læknisvottorð um afleiðingar slyssins yrðu að liggja fyrir áður en hægt væri að meta tjón hans og gera kröfu um bætur. Læknar teldu að ekki væri ráðlegt að meta tjón vegna höfuðáverkans fyrr en víst væri að allar afleiðingar væru komnar í ljós. Kærandi hafði kvartað um aukna tíðni flogaveikikasta í kjölfar árásarinnar og ráðfærði kærði sig við lækna vegna þessa. Það var álit þeirra að tvö ár þyrftu að líða áður en tímabært væri að meta tjónið. Fjárhagur kæranda var mjög þröngur og hafði hann ekki efni a því að leggja út fé til að standa undir kostnaði við öflun matsgerðar skv. skaðabótalögum.
Þar sem kærandi var ósáttur við þann tíma sem rannsókn lögreglu á málinu tók var lögreglustjóranum á höfuðborgarsvæðinu ritað bréf þann 7. mars 2011 og spurst fyrir um stöðu rannsóknarinnar. Vegna mikils þrýstings frá kæranda um að bótakrafa yrði lögð fram hjá lögreglu var embætti lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu send bótakrafa þann 11. mars 2011, þrátt fyrir að ljóst væri að öll gögn lægju ekki fyrir. Varð því að byggja bótakröfuna á 26. gr. skaðabótalaga en áskilnaður gerður um að gera kröfu skv. 1. - 7. gr. skaðabótalaga á síðari stigum og eftir atvikum höfða sérstakt einkamál að undangengnu mati á afleiðingum árásarinnar. Kæranda var gerð grein fyrir því af hálfu starfsmanna stofu kærða að þessi háttur yrði hafður á. Þegar vottorð G læknis um stöðu kæranda barst var það sent áfram til lögreglu þann 7. apríl 2011. Þann 20. september 2011 barst svar frá lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu í kjölfar ítrekunar á fyrirspurn um stöðu málsins. Þar sagði að málið yrði sent ríkissaksóknara á næstunni.
Ákæra á hendur árásarmanninum var gefin út af ríkissakskóknara þann 3. febrúar 2012. Skrifstofa kærða fékk engar upplýsingar um meðferð málsins hjá ríkissaksóknara, útgáfu ákærunnar né heldur um þingfestingu málsins fyrir héraðsdómi. Láðst hafði að boða kærða í þinghald við þingfestingu málsins. Úr því var síðan bætt og mætti K hdl. við aðalmeðferð málsins þann 29. maí 2012 og flutti málið varðandi bótakröfu kæranda. Ekki var á þessum tímapunkti enn orðið tímabært að meta varanlegar afleiðingar árásarinnar að mati lækna og því var ekki hægt að gera rökstudda kröfu um bætur fyrir tímabundið tjón, þjáningar, varanlegan miska og varanlega örorku. Endanlegt vottorð Landspítalans um afleiðingar árásarinnar er dagsett 2. júlí 2012.
Dómur var kveðinn upp þann 4. júní 2012 og voru kæranda dæmdar miskabætur skv. 26. gr. skaðabótalaga að fjárhæð kr. 400.000. Fulltrúa kærða voru tildæmdar kr. 200.000 með virðisaukaskatti í þóknun fyrir þennan þátt málsins. Kærandi var látinn vita af niðurstöðu dómsins og strax daginn eftir var í samráði við kæranda send krafa á bótanefnd um uppgjör á tildæmdum bótum. Þann 11. júlí 2012 barst greiðsla frá bótanefnd að fjárhæð kr. 421.807.
Á þessum tímapunkti nam útlagður kostnaður vegna gagnaöflunar í málinu kr. 44.100 vegna vottorðs frá Landspítalanum. Kæranda var gerð grein fyrir því að halda þyrfti eftir af bótagreiðslunni vegna væntanlegrar greiðslu á kostnaði vegna matsgerðar, þóknunar matsmanna og vinnu skrifstofunnar í hans þágu, en til stóð að gera bótakröfu á hendur D hf. vegna slysatryggingar og ríkissjóði. Þann 17. júlí 2012 voru kæranda í samræmi við þetta greiddar kr. 77.687. Á þessum tímapunkti var því haldið eftir um kr. 300.000. Gert var ráð fyrir því að reikningur matsmanna yrði á bilinu 200.000 til 230.000 en mismunurinn færi til greiðslu á lögmannsþóknun vegna vinnu sem þegar hafði verið innt af hendi vegna gagnaöflunar, samskipta við bótanefnd og D hf. Jafnframt var reiknað með að halda þyrfti eftir greiðslum vegna vinnu við kröfugerð á hendur ríkissjóði og hugsanlegs þingfestingargjalds í slíku máli. D endurgreiddi síðan vottorðið frá Landspítalanum kr. 44.100.
Þegar ljóst var að til staðar voru fjármunir til að standa undir greiðslu vegna útlagðs kostnaðar vegna matsgerðar var matsbeiðni strax send læknunum H og I þann 11. júlí 2012.
Kærandi var boðaður til viðtals og skoðunar hjá matsmönnum þann 16. ágúst 2012 en hann kom áður til viðtals á skrifstofu kærða. Þann 1. nóvember 2012 var matsmönnum send fyrirspurn um stöðu málsins og rekið á eftir skilum á matsgerðinni. Matsgerð barst síðan 7. nóvember 2012 ásamt reikningum matsmanna kr. 105.600 frá hvorum þeirra um sig, samtals kr. 211.200. Kærandi var látinn vita og sótti hann matsgerðina til skrifstofunnar þar sem hann ræddi við fulltrúa kærða sem gerði honum grein fyrir því að ekki væri búið að reikna mögulega bótakröfu þar sem matsgerðin hefði borist þá fyrr um daginn.
Kærandi brást illa við niðurstöðu matsgerðinarinnar. Hélt hann því fram í símtali að lögmannsstofan væri ekki að gæta hagsmuna hans í málinu og að lögmenn hennar sem og matsmennirnir H og I væru óheiðarlegir. Í framhaldi af símtalinu var kæranda ritað bréf, dags. 14. nóvember 2012, þar sem honum var gerð grein fyrir því að lögmannsstofan myndi ekki sinna frekari störfum fyrir hann vegna málsins. Í bréfinu var gerð grein fyrir útlögðum kostnaði vegna málsins, greiðslu frá D vegna útlagðs kostnaðar og reikningur lögmannsstofunnar skv. vinnuskýrslu. Eftirstöðvar voru kr. 27.662. Bréfið ásamt gögnum málsins var sent kæranda samdægurs í ábyrgðarpósti og kvittaði hann fyrir móttöku þess þann 22. nóvember 2012.
Þegar kærði kom til landsins og fór yfir málið kom í ljós að vinna í þágu kæranda hafði ekki öll verið talin í þeirri tímaskýrslu vegna bótamálsins sem miðað hafði verið við þegar bréfið til kæranda var sent þann 14. nóvember 2012. Hafði láðst að taka tillit til þeirrar vinnu sem fór í tvö önnur verkefni sem unnin höfðu verið fyrir kæranda. Annars vegar vegna innbrots í íbúð hans þann 30. júní 2010 en vegna þess máls var ritað bréf til D hf., dags. 17. nóvember 2010, og gagna aflað frá lögreglu vegna innbrotsins. Kærði og fulltrúi hans áttu umtalsverð samskipti við kæranda sem og tryggingafélagið vegna þess máls. Hins vegar vinna vegna umsóknar um bætur úr sjúklingatryggingu hjá Sjúkratryggingum Íslands vegna meints tjóns kæranda vegna aðgerðar á öxl sem fram fór á Landspítalanum 17. desember 2009. Vinna vegna þessara mála, auk vinnu vegna undirbúnings kröfugerðar í skaðabótamáli á hendur ríkissjóði nam miklu hærri fjárhæð en inneign kæranda hjá lögmannsstofunni að fjárhæð kr. 27.662.
Eftir heimkomu kærða í desember 2012 var gerður reikningur vegna heildarvinnu lögmannsstofu kærða í þágu kæranda.
Kærði ræddi seinna við móður kæranda. Eftir það voru málsskjölin aftur ljósrituð og afhent móður kæranda þann 12. febrúar 2013 skv. umboði frá kæranda. Þann sama dag var gerður kreditreikningur á skuld kæranda hjá stofunni og hann ekki krafinn um greiðslu þeirrar fjárhæðar.
Í samskiptum við móður kæranda benti kærði henni á að óuppgerð væri krafa hans á hendur D hf. vegna réttar úr frítímaslysatryggingu. Jafnframt upplýsi kærði hana um það að hann myndi ekki koma að því uppgjöri, þótt stofa hans hefði aflað þeirra gagna sem nota mætti til að krefjast greiðslu, en kærandi gæti sjálfur haft samband við D vegna frágangs málsins. Það mun hann hafa gert í janúar 2013.
II.
Kærandi krefst þess að kærði verði látinn upplýsa af hverju kærandi hafi aðeins fengið kr. 77.687 af þeim bótum sem hann hafi fengið frá bótanefnd. Kærði hafi fengið tildæmdan málskostnað, sem hann hafi átt að fá greiddan hjá ríkinu.
Kærandi vísar til þess að kærði hafi einungis gert kröfu um greiðslu miskabóta skv. 26. gr. skaðabótalaga. Kærandi telur að með réttu hefði hann einnig átt að fá bætur fyrir miska skv. 4. gr. skaðabótalaga og bætur fyrir varanlega örorku.
Kærandi kveður sig gruna að kærði hafi tekið af bótum hans meira en hann hafi átt rétt til. Kærði sé einungis að rukka miskabætur hjá bótanefndinni er dragi frá þeim bótum kostnað við öflun vottorða vegna kröfunnar á D hf.
Kærandi kveðst hafa skýrt kærða frá því að hann teldi mat matsmanna ekki rétt og hafi síðar fengið að vita að annar matsmanna væri I læknir, sem sé trúnaðarlæknir J. Telur kærandi að hann geti ekki verið hlutlaus matsmaður, þar sem hann gæti hagsmuna tryggingafélags. Hafi kærandi ekki verið sáttur við matið og hafi ekki viljað að gengið yrði til uppgjörs á grundvelli þess.
Kærandi bendir á að málið hafi tekið um tvö og hálft ár hjá kærða uns kærandi hafi sagt honum upp.
Kærandi bendir á að kærði hafi einnig gætt hagsmuna hans vegna kröfu á D vegna áverka eftir frístundaslys og hafi hann ekki gert kæranda fyllilega grein fyrir því hvernig því máli hafi lokið með skilagrein frekar en vegna kröfunnar á bótasjóðinn. Hafi kærði ekki fengið skilagrein eða uppgjör frá kærða vegna þessa máls.
III.
Kærði krefst þess að öllum umkvörtunum kæranda verði hafnað.
Í tilefni af kvörtun kæranda varðandi það að kærði geri betri grein fyrir þeim kostnaði sem tekinn hafi verið af kæranda vísar kærði til þess að á fundi með kæranda þann 17. júlí 2012 hafi verið farið yfir með honum hvernig greiðslu frá bótanefnd yrði ráðstafað í hans þágu vegna fyrirhugaðrar kröfugerðar á hendur annars vegar D hf. og hins vegar á hendur ríkissjóði. Honum hafi verið gerð full grein fyrir þessum atriðum, enda sé augljóst þegar hann fái kr. 77.687 af kr. 421.807 að honum hafi verið gerð grein fyrir því í hvað eftirstöðvunum yrði ráðstafað.
Bendir kærði á að kæranda hafi ennfremur í bréfi lögmannsstofunnar frá 14. nóvember 2012 verið gerð ítarleg grein fyrir því hvernig greiðslum vegna gagnaöflunar og lögmannsþóknunar hafi verið háttað. Þá hafi umboðsmanni hans snemma árs 2013 verið gerð grein fyrir því hvernig uppgjöri við kæranda hafi verið háttað og að honum yrði ekki gerður reikningur fyrir allri þeirri vinnu sem unnin hafi verið í hans þágu.
Kærði hafnar því alfarið að kæranda hafi verið gerður hærri reikningur en heimilt hafi verið. Í þessu sambandi nefnir kærði það að ef beitt hefði verið hagsmunatengdri gjaldskrá vegna innheimtu þeirra fjárhæða sem í hendi hafi verið í kjölfar vinnu lögmansstofu hans, þ.e. greiðslu frá bótanefnd kr. 421.807 og frá D kr. 910.876, samtals kr. 1.332.683 hefði sú þóknun numið kr. 226.997 m/vsk.
Kærði bendir í annan stað á að umfang málsins hafi verið mikið og ljóst að tímaskráning sú sem miðað hafi verið við í bréfi stofunnar frá 14. nóvember 2012 hafi alls ekki verið tæmandi enda hafi staðið til að byggt yrði á hagsmunatengdri þóknun í kröfugerð gagnvart tjónvaldi og ríkissjóði.
Þá bendir kærði í þriðja lagi á að þær kr. 27.662 sem út af hafi staðið, hafi engan veginn hrokkið fyrir þeirri vinnu sem unnin hafi verið í þágu kæranda vegna tveggja annarra mála, en umbjóðanda kæranda hafi verið gerð grein fyrir því að hann yrði ekki krafinn um þann kostnað sem til hafi verið fallinn umfram þá fjárhæð.
Varðandi kvörtun kæranda um skilagrein vegna bótamáls á hendur D vísar kærði til þess að í bréfinu frá 14. nóvember 2012 hafi verið gerð grein fyrir greiðslu útlagðs kostnaðar vegna gagnaöflunar í málinu sem m.a. hafi beinst að D. Hins vegar sé bent á að skrifstofa kærða hafi ekki tekið við neinum bótagreiðslum frá D í nafni eða umboði kæranda. Hann hafi sjálfur gengið frá uppgjöri við félagið í janúar 2013.
Varðandi kvörtun kæranda um niðurstöðu matsgerðar þá kveðst kærða hafa orðið ljóst að kærandi hafi ekki verið sáttur við niðurstöðu matsmanna H og I. Í samtölum við kæranda hafi kærði reynt að gera honum grein fyrir þeim úrræðum sem í boði væru, þ.e. að afla álits örorkunefndar eða dómkvaddra matsmanna til endurskoðunar á matsgerð H og I og þeim kostnaði sem væri slíku samfara. Þess beri að geta að mjög erfitt hafi verið að gera kæranda grein fyrri þessum atriðum vegna ástands hans.
Kærði bendir á að þrátt fyrir að kærandi hafi lýst yfir mikilli óánægju með niðurstöðu matsgerðarinnar hafi hann gert upp bætur úr slysatryggingu hjá D hf. á grundvelli matsgerðarinnar án þess að gera nokkurn fyrirvara vegna niðurstöðu matsgerðarinnar.
Varðandi meint vanhæfi I bendir kærði á að þó hann sé ráðgefandi læknir J sé hann ekki vanhæfur til matsstafa vegna krafna sem beinist að öðrum tryggingafélögum. I sé einn af þeim læknum á Íslandi sem hafi hvað víðtækasta og mesta reynslu í að meta tjón í samræmi við ákvæði skaðabótalaga og fjöldi lögmannsstofa leiti til hans sem matsmanns í málum sem þessum. Dómar sem gengið hafi um hæfi matsmanna hafi byggt á því að vanhæfi sé einvörðungu til staðar hjá matsmanni, hafi hann komið að mati í máli sem varði það tryggingafélag sem hann hafi starfað fyrir, en slíkt eigi ekki við í því máli sem hér sé til umfjöllunar.
Kærði kveðst ekki átta sig á umkvörtunarefni kæranda varðandi það að hann sé ekki sáttur við matið og að hann hafi ekki viljað að gengið yrði til uppgjörs á grundvelli þess. Fyrir liggi að kærði hafi aldrei gengið til uppgjörs á grundvelli þess mats sem kærandi vísi til.
Varðandi bótakröfu á hendur ríkissjóði bendir kærði á að gagnaöflun í málinu hafi miðað að því að farið yrði í skaðabótamál á hendur tjónvaldi og ríkissjóði vegna þess tjóns sem kærandi hafi orðið fyrir í árásinni. Einmitt þess vegna hafi verið aflað mats á grundvelli skaðabótalaga. Það sé ekki við kærða að sakast hversu langan tíma málsmeðferð í opinbera málinu hafi tekið né heldur hve langan tíma tekið hafi að fá lokavottorð frá slysadeild Landspítalans í júlí 2012. Þá verði að horfa til þess að kærandi hafi talið sig búa við mikla aukningu flogaveikikasta í kjölfar árásarinnar en slíka aukningu einkenna geti tekið töluverðan tíma að staðreyna. Af þessum sökum hafi í málinu verið farið að ráðleggingum læknisfróðra manna um að varhugavert væri að láta meta tjón vegna höfuðáverka, eins og kærandi hafi orðið fyrir, fyrr en um það bil tveimur árum eftir slys.
Varðandi kvörtun kæranda er lýtur að miskabótakröfu í opinberu máli skv. 26. gr. skaðabótalaga vísar kærði til þess að þegar bótakrafa hafi verið sett fram í opinbera málinu hafi ekki verið talið tímabært að láta meta afleiðingar árásarinnar á grundvelli skaðabótalaga. Lokavottorð hafi ekki legið fyrir og ekki hafi verið talið að það væri tímabært að láta vinna matsgerð skv. skaðabótalögum fyrr en um tveimur árum eftir árásina, vegna eðlis hennar og þeirra einkenna sem kærandi hafi talið koma fram í kjölfar hennar. Áskilnaður hafi verið gerður fyrir hönd kæranda um frekari bótarétt og hafi hann fulla heimild til að sækja kröfu sína á hendur tjónvaldi og ríkissjóði.
Kærði leggur áherslu á það að það hafi ekki verið kærandi sem óskað hafi eftir því að kærði léti af störfum í hans þágu heldur hafi honum verið tilkynnt það með bréfi þann 14. nóvember 2012 að skrifstofa kærða sæi sér ekki fært að aðstoða hann frekar í málinu. Þrátt fyrir það hafi kærði verið þrábeðinn af umboðsmanni kæranda að halda áfram að vinna fyrir hann, en að höfðu samráði við starfsmenn skrifstofunnar hafi kærði ekki getað orðið við þeirri beiðni þar sem starfsfólk skrifstofunnar hafi ekki treyst sér til að eiga frekari samskipti við kæranda vegna framgöngu hans og framkomu.
Niðurstaða.
Rétt þykir að fjalla fyrst um þær kvartanir sem kærði hefur fært fram vegna starfa kærða, en síðan um ágreining þeirra um endurgjald kærða.
I.
Sá sem telur lögmann hafa í störfum sínum gert á sinn hlut með háttsemi sem stríðir gegn lögum eða siðareglum lögmanna getur sent kvörtun til úrskurðarnefndar lögmanna, sbr. 1. mgr. 27. gr. lögmannalaga, nr. 77/1998. Í afgreiðslu á erindi sem berst nefndinni getur hún fundið að vinnubrögðum lögmanns eða veitt honum áminningu, ef um stórfelld eða ítrekuð brot er að ræða, sbr. 2. mgr. 27. gr. lögmannalaga. Ef sakir eru miklar eða lögmaður hefur ítrekað sætt áminningu getur nefndin í rökstuddu áliti lagt til við ráðherra að réttindi lögmannsins verði felld niður tímabundið eða hann sviptur réttindum.
Samkvæmt 18. gr. lögmannalaga, nr. 77/1998, ber lögmönnum í hvívetna að rækja af alúð þau störf sem þeim er trúað fyrir og neyta allra lögmætra úrræða til að gæta lögvarinna hagsmuna umbjóðenda sinna.
Að framan er rakið hvernig kærði stóð að innheimtu bóta fyrir kæranda. Úrskurðarnefndin telur að kærði hafi rækt störf sín fyrir kærða af samviskusemi og fylgt bótamáli hans eftir af festu. Ekkert er fram komið um að val kærða á matsmanni hafi verið óeðlilegt eða andstætt hagsmunum kæranda. Sú staðreynd að bótagreiðslur bárust ekki hratt, orsakaðist alfarið af atriðum sem ekki voru á valdi kærða. Verður að hafna því að gera aðfinnslur við störf kærða eða beita hann viðurlögum á grundvelli 27. gr. lögmannalaga.
II.
Samkvæmt 1. mgr. 24. gr. lögmannalaga, nr. 77/1998, er lögmanni rétt að áskilja sér hæfilegt endurgjald fyrir störf sín og skal umbjóðanda hans, eftir því sem við verður komið, gert ljóst hvert það gæti orðið í heild sinni. Þar á meðal getur lögmaður áskilið sér hluta af þeirri fjárhæð sem umbjóðandi fær greitt í máli, svo og hærra endurgjald ef mál vinnst en ef það tapast. Loforð um ósanngjarnt endurgjald fyrir starf lögmanns bindur ekki umbjóðanda hans sbr. 2. mgr. 24. greinar.
Hægt er að skjóta ágreiningi um rétt lögmanns til endurgjalds og fjárhæð þess til úrskurðarnefndar lögmanna, sbr. 26. gr. lögmannalaga.
Kærði hefur ekki lýst sérstökum kröfum vegna ágreinings um endurgjalds, en látið uppi sjónarmið um að það sé of hátt.
Það virðist mega ráða af kærunni að kærandi hafi ekki áttað sig til fulls á því að verulegum hluta af 400.000 króna miskabótagreiðslu var varið til að undirbyggja væntanlegt skaðabótamál hans. Telur nefndin að ráða megi af gögnum málsins að kærða verði ekki um þetta kennt.
Þegar metin er sú vinna sem innt hafði verið af hendi þegar kærði hætti störfum í þágu kærða og litið til fram lagðra gagna, verður að fallast á með kærða að gjaldtöku hans í málinu sé mjög í hóf stillt.
Ú R S K U R Ð A R O R Ð :
Kærði, R hrl., hefur í störfum sínum ekki gert á hlut kæranda, A, með háttsemi sem stríðir gegn lögum eða siðareglum lögmanna. Áskilið endurgjald kærða vegna starfa hans í þágu kæranda, telst hæfilegt í skilningi 1. mgr. 24. lögmannalaga nr. 77/1998.
ÚRSKURÐARNEFND LÖGMANNA
Kristinn Bjarnason, hrl., formaður
Einar Gautur Steingrímsson, hrl.
Valborg Þ. Snævarr, hrl.
Rétt endurrit staðfestir
________________________
Haukur Guðmundsson