Mál 16 2014
Ár 2014, föstudaginn 21. nóvember, var haldinn fundur í úrskurðarnefnd lögmanna í húsnæði Lögmannafélags Íslands að Álftamýri 9, Reykjavík.
Fyrir var tekið málið nr. 16/2014:
A, B, C og D
gegn
R hrl.
og kveðinn upp svofelldur
Ú R S K U R Ð U R :
Úrskurðarnefnd lögmanna barst þann 30. maí 2014 erindi kærenda, A, B, C og D, þar sem kvartað var yfir störfum R hrl. við gerð erfðaskrár o.fl.
Óskað var eftir greinargerð frá kærðu um erindið þann 16. júní 2014. Greinargerð kærðu barst 1. ágúst 2014. Kærendum var gefinn kostur á að tjá sig um greinargerð kærðu og bárust athugasemdir þeirra þann 23. september 2014. Lokaathugasemdir kærðu bárust þann 16. október 2014.
Málsatvik og málsástæður.
I.
Málsatvik eru þau að 8. júlí 1997 gerðu hjónin F og E sameiginlega erfðaskrá með aðstoð kærðu, en þau höfðu þá nýlega gengið í hjúskap. Með erfðaskránni voru börn F, kærendur í máli þessu, gerð að erfingjum þeirra hjóna en E var barnlaus. Skyldi það hjónanna sem lengur lifði eiga rétt á setu í óskiptu búi. Í erfðaskránni var ákvæði þess efnis að hvorugt þeirra hjóna gæti breytt erfðaskránni án samþykkis hins. F lést árið 2001 og fékk E leyfi sýslumanns til setu í óskiptu búi sama ár. Hinn 9. ágúst 2005 gerði E nýja erfðaskrá og naut einnig við það liðsinnis kærðu. Með nýju erfðaskránni lýsti E vilja sínum til að breyta ákvörðun um erfingja sína hvað hennar eignarhlut af eignum búsins varðaði og gerði hún systkini sín að erfingjum sínum. Árið 2009 fóru fram einkaskipti á búi F og var eignum búsins skipt á milli barna hans og eftirlifandi eiginkonu. Veitti kærða aðstoð við þau einkaskipti. Þegar E lést í nóvember 2010 var dánarbú hennar tekið til opinberra skipta. Börn F, kærendur, töldu sig rétta erfingja hennar enda hefði E ekki verið heimilt að breyta erfðaskránni [frá 1997] einhliða. Sóttu kærendur rétt sinn fyrir dómi og féllst Hæstiréttur á kröfur þeirra með dómi sem kveðinn var upp í apríl 2012.
Þann 11. september 2012 ritaði lögmaður kærenda kærðu bréf og gerði kröfu um að hún bætti kærendum hluta af tjóni þeirra vegna málaferlanna, sem hann taldi á hennar ábyrgð. Byggði hann kröfuna á því að tjónið væri vegna erfðaskrárinnar frá 2005 og vegna gerninga kærðu á árinu 2009 en lögmaðurinn byggði á því sjónarmiði að kærðu hefði borið að upplýsa þau um hina síðari erfðaskrá við útgreiðslu arfs vegna dánarbússkipta eftir F.
Kærða svaraði bréfinu þann 20. september 2012 og hafnaði því afdráttarlaust að greiða nokkrar bætur. Kvaðst hún í bréfinu hafa upplýst E mjög nákvæmlega um þá réttaróvissu sem væri fyrir hendi um gildi hinnar síðari erfðaskrár. Kærendur gerðu kröfu um útgreiðslu úr starfsábyrgðartryggingu kærðu þann 9. nóvember 2012. Eftir að tryggingafélag kærðu hafði hafnað útgreiðslu ákváðu kærendur að láta reyna á þá afstöðu fyrir úrskurðarnefnd í vátryggingamálum. Móttók sú úrskurðarnefnd málskot þeirra þann 14. nóvember 2013. Með úrskurði 22. janúar kvað hún upp þann úrskurð að kærendur ættu ekki rétt á greiðslu bóta úr starfsábyrgðartryggingu kærðu.
Sem fyrr greinir barst úrskurðarnefnd lögmanna erindi kærenda þann 30. maí 2014.
II.
Kærendur óska eftir því að nefndin láti uppi álit á því hvort háttsemi kærðu þegar hún útbjó fyrir E seinni erfðaskrána, sé í samræmi við siðareglur lögmanna, hvort háttsemin samrýmist eðlilegum starfskyldum lögmanna og hvort háttsemin samrýmist trúnaðarskyldum lögmanna gagnvart skjólstæðingum sínum.
Byggja kærendur í máli þessu á sömu sjónarmiðum og þeir reistu skaðabótakröfur sínar á. Telja þeir kærðu hafa veitt E rangar leiðbeiningar með því að telja henni ranglega trú um að hún gæti ráðstafað sínum hluta búsins þrátt fyrir skýr ákvæði upphaflegrar erfðaskrár. Hafi framganga E sjálfar staðfest með ýmsum hætti að henni hefði ekki verið kynnt að nein réttaróvissa ríkti um gildi síðari erfðaskrárinnar. Þá telja þeir í athugasemdum sínum að kærða hafi brotið gegn þeim þegar hún hélt seinni erfðaskránni leyndri fyrir þeim við skipti dánarbús F árið 2009.
Kærendur hafna því að þeir hafi sýnt af sér nokkurn þann seinagang eða sinnuleysi að það valdi því að máli þeirra verði vísað frá. Þeir hafi þurft að hafa mikið fyrir því að halda fram rétti sínum, m.a. á vettvangi úrskurðarnefndar vátryggingarmála.
III.
Kærða krefst þess aðallega að málinu verði vísað frá. Til vara krefst kærða þess að öllum kröfum, kvörtunum og sjónarmiðum kærenda verði hafnað.
Kærða vísar til þess að í 1. mgr. 27. gr. laga nr. 77/1998 um lögmenn sé mælt fyrir um að nefndin vísi kvörtun frá ef lengri tími en eitt ár er liðið frá því kostur hafi verið á að koma henni á framfæri.
Frávísunarkröfu sína byggir kærða á því að þegar um áramótin 2012/2011 hafi einn kærenda séð hina umdeildu erfðaskrá og kynnt öðrum kærendum efni hennar. Hafi kærendum þá þegar verið í lófa lagið að beina kvörtun sinni til nefndarinnar. Hafi frestur þeirra til að bera málið undir nefndina því verið löngu liðin í maí 2014 þegar kvörtun þeirra kom fram. Í síðasta lagi við úrskurð héraðsdóms í mars 2012 eða við dóm Hæstaréttar í apríl 2012
Kærða kveðst hafa upplýst E mjög vandlega um þá réttaróvissu sem uppi væri varðandi ráðstöfunarrétt hennar með hinni síðari erfðaskrá. Beri erfðaskráin þetta glögglega með sér því þar sé sérstaklega vísað til dóms Hæstaréttar um ráðstöfunarheimildina.
Kærða hafnar því að hafa nokkurn tímann borið trúnaðarskyldur gagnvart kærendum.
Niðurstaða.
I.
Samkvæmt 1. mgr. 27. gr. laga nr. 77/1998 um lögmenn getur sá sem telur lögmann hafa í starfi sínu gert á sinn hlut með háttsemi, sem stríðir gegn lögum eða siðareglum lögmanna, lagt fyrir úrskurðarnefnd lögmanna kvörtun á hendur lögmanninum. Nefndin vísar kvörtun frá sér ef lengri tími en eitt ár er liðið frá því kostur var á að koma henni á framfæri, sbr. 2. málsl. 1. mgr. 27. greinar.
Samkvæmt 6. gr. reglna um meðferð mála fyrir úrskurðarnefnd lögmanna verður erindi til nefndarinnar samkvæmt 1. mgr. 26. gr. og 1. mgr. 27. gr. að berast henni eigi síðar en einu ári eftir að kostur var á að koma því á framfæri við nefndina. Að öðrum kosti vísar nefndin erindinu frá.
Það felst í þessum ákvæðum að nefndin hefur ekki heimildir til að fjalla um mál sem henni berast eftir að umræddur ársfrestur er liðinn. Reynir því hér á hvenær kostur var á að koma kvörtuninni á framfæri, sbr. fyrrnefndan 2. málsl. 1. mgr. 27. greinar laga nr. 77/1998.
II.
Sú háttsemi sem kærendur gera athugasemdir við var annars vegar ráðgjöf kærðu á árinu 2005 og hins vegar framganga hennar við útgreiðslu á arfi eftir F árið 2009, þegar hún upplýsti kærendur ekki um tilvist síðari erfðaskrárinnar.
Enda þótt kærendum hefði í sjálfu sér verið kostur á að koma kvörtun á framfæri um leið og þeim varð ljóst efni hinnar síðari erfðaskrár um áramótin 2010/2011, verður talið að málið hafi farið í eðlilegan farveg þegar umrætt dánarbú var tekið til opinberra skipta og ágreiningur um gildi seinni erfðaskrárinnar lagður í dóm. Kvörtunin styðst m.a. við endanlega dómsniðurstöðu um ógildi hennar og verður því ekki talið að ársfresturinn hafi byrjað að líða fyrr en við uppkvaðningu dóms Hæstaréttar í málinu [í]apríl 2012, þegar ljóst var orðið að umrædd erfðaskrá stóðst ekki ákvæði erfðalaga, en um það var deilt í málinu.
Á hinn bóginn verður að líta svo á að tilvitnað ákvæði 27. gr. laga nr. 77/1998 hafi skammtað kærendum ársfrest frá því tímamarki til að freista þess að ná sáttum við kærðu eða öðrum málalokum sem þeir gátu sætt sig við, eða bera upp kvörtun við úrskurðarnefnd lögmanna ella. Enda þótt ljóst sé að kærendur hafi haldið máli sínu á lofti bæði gagnvart kærðu sjálfri, tryggingafélagi hennar og úrskurðarnefnd vátryggingamála getur það ekki falið í sér að þeim sé veittur frekari réttur en lög mæla fyrir um til að bera kvörtun undir úrskurðarnefnd lögmanna. Verður því að vísa máli þessu frá nefndinni.
Ú R S K U R Ð A R O R Ð :
Erindi kærenda, A, B, C og D, er vísað frá.
ÚRSKURÐARNEFND LÖGMANNA
Kristinn Bjarnason, hrl., formaður
Einar Gautur Steingrímsson, hrl.
Valborg Þ. Snævarr, hrl.
Rétt endurrit staðfestir
________________________
Haukur Guðmundsson