Mál 18 2014
Ár 2014, föstudaginn 12. desember, var haldinn fundur í úrskurðarnefnd lögmanna í húsnæði Lögmannafélags Íslands að Álftamýri 9, Reykjavík.
Fyrir var tekið málið nr. 18/2014:
A
gegn
R hdl. og
S hdl.
og kveðinn upp svofelldur
Ú R S K U R Ð U R :
Úrskurðarnefnd lögmanna barst þann 25. júní 2014 erindi sóknaraðila, A, þar sem kvartað er yfir áskilinni þóknun varnaraðila, R hdl. og S hdl.
Óskað var eftir greinargerð frá varnaraðilum um erindið þann 30. júní 2014. Greinargerð barst frá varnaraðilum þann 4. júlí 2014. Sóknaraðila var gefinn kostur á að tjá sig um greinargerð varnaraðila þann 7. júlí 2014. Athugasemdir bárust þann 14. ágúst 2014. Varnaraðilum var gefinn kostur á að koma á framfæri lokaathugasemdum þann 25. ágúst. Athugasemdir varnaraðila bárust þann 29. ágúst 2014.
Málsatvik og málsástæður.
I.
Eftir því sem fram kemur í gögnum máls, athugasemdum og greinargerðum aðila eru málsatvik þau að Ríkisskattstjóri sendi fyrirspurn um skattskil sóknaraðila dags. 18. október 2012 vegna T hf., fyrirtækis sem sóknaraðili er framkvæmdastjóri og meirihlutaeigandi í, vegna fyrirhugaðrar endurákvörðunar gjalda fyrir árið 2007.
Þann 25. október 2012 veitti sóknaraðili lögmannsstofunni E, varnaraðilum og D hdl. umboð til þess að svara fyrirspurn Ríkisskattstjóra, gæta hagsmuna sinna fyrir skattayfirvöldum og leita úrræða þar um.
Í úrskurði Ríkisskattstjóra dags. 14. desember 2012 var ákveðið að endurákveða opinber gjöld í T hf. á gjaldárinu 2007. Sú breyting á skattframtali félagsins hafði einnig áhrif á skattskyldu félagsins á árunum 2008-2012. Varnaraðilar kærðu þá ákvörðun fyrir hönd sóknaraðila með kæru til yfirskattnefndar dags 4. mars 2013.
Þann 2. júní 2013 gáfu varnaraðilar út reikning upp á kr. 517.928 án vsk., en sóknaraðili hafði þá þegar greitt kr. 3.398.750 án vsk. Sóknaraðili andmælti reikningi þessum og varð að samkomulagi að hann var felldur niður og gefinn út kreditreikningur 4. júní 2013.
Í ágústmánuði 2013 setti sóknaraðili fram athugasemdir við reikningagerð af hálfu varnaraðila og fór fram á að sér yrði gerður kreditreikningur fyrir kr. 2.300.000 auk vsk vegna þess sem hann taldi ofreiknaða þóknun. Varnaraðili R hdl. svaraði þessu erindi, gerði grein fyrir hvernig málið horfði við sér og kvaðst vilja hitta sóknaraðila á fundi í því skyni að reyna að setja ágreining þeirra niður.
Sóknaraðili bar málið upp við úrskurðarnefnd lögmanna, sbr. mál nr. 23/2013, en kvartaði einungis undan áskilinni þóknun varnaraðila R. Málinu var vísað frá, með úrskurði, dags. 14. mars 2014, enda væri með öllu útilokað að fjalla um endurgreiðslukröfu án aðildar beggja varnaraðila.
II.
Sóknaraðili krefst þess að varnaraðili endurgreiði kr. 2.300.000 auk virðisaukaskatts og að gefinn verði út kreditreikningur fyrir upphæðinni.
Sóknaraðili kveðst hafa leitað til varnaraðila R hdl. vegna álagningar sem hann og félag í hans eigu fékk frá skattinum. Hafi hann falið varnaraðila R það verk að sinna hagsmunagæslu fyrir hann og félagið gagnvart skattyfirvöldum. Varnaraðili R hafi sannfært hann um að veita varnaraðila S hdl. einnig umboð vegna málsins, en sóknaraðili hafi einungis átt samskipti við varnaraðila R, þótt varnaraðili S hafi setið inni á einum eðatveimur fundum vegna málsins.
Sóknaraðili vísar til þess að líkt og fram komi í umboði hans og félagsins til lögmannanna hafi það náð til vinnu vegna skattamáls, en ekki annars. Því mótmæli hann að vera rukkaður vegna verka sem lögmennirnir hafi unnið eftir að kæra hafi verið lögð fram til skattyfirvalda, m.a. vegna aðstoðar við framtalsgerð. Sóknaraðili kveðst ekki hafa óskað eftir því og bókari sem starfi fyrir hann og félagið annist framtalsgerð.
Sóknaraðili bendir á að varnaraðili R hafi sannfært hann ranglega um að dráttarvextir vegna skattskulda yrðu felldar niður en það hafi reynst rangt.
Sóknaraðili vísar til þess að þar sem hann sé óreyndur í samskiptum við lögmenn hafi reikningar lögmannanna verið greiddir án athugasemda þótt þeir vektu spurningar vegna hárra fjárhæða, einkum þar sem varnaraðili R hafi greint sóknaraðila frá því við upphaf málsins að það myndi kosta um kr. 4-500.000. Þegar sóknaraðila hafi síðan borist enn einn reikningur frá varnaraðilum í júní 2013 að fjárhæð kr. 517.928 auk virðisaukaskatts, löngu eftir að varnaraðilar höfðu kært úrskurð ríkisskattstjóra til yfirskattanefndar, hafi sóknaraðili mótmælt reikningnum harðlega og óskað eftir skýringum á honum. Reikningurinn hafi verið felldur niður í kjölfarið.
Sóknaraðili greinir frá því að eftir að mál hans hafi verið komið til yfirskattanefndar, hafi varnaraðili rukkað hann um 978.125 án vsk, en sá kostnaður hafi komið til vegna stöðvunar á fjarnámi hjá sýslumanni og ráðstafana vegna einkaframtals og eignatilfærslu.
Sóknaraðili kveðst hafa kynnt sér hvað aðrir lögmenn taki fyrir sambærileg verk og þau sem hann hafi falið varnaraðilum og telur að um mikla ofrukkun sé að ræða af þeirra hálfu.
III.
Varnaraðilar telja ljóst að mál þetta sér fyrnt í skilningi 26. gr. laga nr. 77/1998 um lögmenn en þar sé kveðið á um eins árs fyrningu vegna ágreinings um endurgjald lögmanns. Síðasti reikningur hafi verið gefinn út vegna vinnu í apríl 2013 samhliða því sem reikningur hafi verið kreditfærður. Því sé ljóst að meira en ár sé liðið síðan sóknaraðili hafi verið krafinn um endurgjald fyrir störf varnaraðila.
Varnaraðilar telja að ekki sé hægt að líta svo á að fyrri kvörtun sóknaraðila hafi rofið fyrningu málsins, enda sé ekki kveðið á um slíkt í lögum nr. 77/1998. Þá gengi það þvert á tilgang reglunnar í 26. gr. laganna eins og henni hafi verið breytt með lögum nr. 93/2004. Í athugasemdum um 15. gr. í greinargerð þeirra laga segi að úrskurðarnefndin hafi þurft að fjalla um ágreiningsmál um endurgjald sem hafi verið orðin nokkurra ára gömul og að úrlausn gamalla mála geti verið erfið í framkvæmd, því sé eðlilegt að sambærilegt fyrningarákvæði sé til fyrir ágreiningsmál um endurgjald og gildi um kvartanir. Af þessu sé ljóst að tilgangur lagabreytingarinnar hafi verið að koma í veg fyrir að nefndin þyrfti að fjalla um gömul ágreiningsmál um endurgjald sem erfitt væri að skera úr um. Það stangist á við framangreint ef hægt væri að rjúfa fyrningu skv. 26. gr. laga nr. 77/1998 og halda þannig ágreiningsmálum um endurgjald gangandi í mörg ár.
Fallist úrskurðarnefndin ekki á framangreint þá telja varnaraðilar engu að síður ljóst að málið sé fyrnt gagnvart varnaraðila S, enda hafi sóknaraðili ekki beint ágreiningi sínum til hans fyrr.
Varnaraðilar telja að jafnframt þurfi að hafa í huga að fyrri kvörtun sóknaraðila hafi lokið með úrskurði nefndarinnar, dags. 14. mars 2014. Sóknaraðili hafi aftur á móti látið hjá líða að reyna aftur á rétt sinn fyrir nefndinni allt til 25. júní 2014 eða í rúma þrjá mánuði. Þá leggi hann loksins nákvæmlega sama mál fyrir nefndina með þeirri undantekningu að nýjum varnaraðila sé bætt við hlið varnaraðila í fyrra málinu. Engin ný gögn séu lögð fram né heldur nýjum málsástæðum tjaldað til. Verði sóknaraðili að bera hallann af þessum tilhæfulausa drætti.
IV.
Sóknaraðila var gefinn kostur á að koma á framfæri athugasemdum sínum við greinargerð varnaraðila.
Sóknaraðili kveðst gera verulegar athugasemdir við rangfærslur þær er fram komi í greinargerð varnaraðila. Líkt og varnaraðilum megi vera fullkunnugt um og meðfylgjandi gögn beri um, hafi þeir gefið út reikning þann 2. júní 2013, og hafi hann verið kreditfærður þann 4. júní 2013, en ekki í apríl líkt og þeir haldi fram.
Sóknaraðili vísar til þess hvað varðar tilvísun varnaraðila til 26. gr. laga nr. 77/1998 að fráleitt sé að halda því fram að mál fyrnist frá því að ár sé liðið frá útgáfu reikningsins, enda segi ekkert slíkt í lögunum. Sóknaraðili bendir jafnframt á að síðasti reikningur hafi verið gefinn út af varnaraðilum í júní 2013 og í kjölfarið hafi upphafist ágreiningur milli aðila.
V.
Varnaraðilum var gefinn kostur á að koma á framfæri athugasemdum sínum við greinargerð sóknaraðila.
Varnaraðilar benda á að sóknaraðili haldi því fram að kærufrestur 26. gr. laga nr. 77/1998 eigi ekki við í málinu og mótmæli því að miða skuli upphaf frestsins við útgáfu síðasta greidda reiknings. Sóknaraðili nefni afur á móti ekki annað tímamark sem hann telji að miða eigi við. Síðasti reikningur sem varnaraðilar hafi gefið út á hendur sóknaraðila hafi verið dagsettur 2. júní 2013. Hinn 4. júní 2013 hafi komið í ljós að sóknaraðili væri ósáttur og að ágreiningur væri risinn. Sama dag hafi reikningurinn verið bakfærður. Síðasti greiddi reikningur í málinu hafi verið gefinn út í 1. maí 2013.
Varnaraðilar benda á að orðalag ákvæðis 1. mgr. 26. gr. laga nr. 77/1998 sé skýlaust um að úrskurðarnefnd lögmanna skuli vísa frá sér ágreiningsmáli um endurgjald sé ár liðið frá því að kostur hafi verið að koma því á framfæri við nefndina. Í þessu felist m.a. að upphaf tímafrests ákvæðisins hefjist þegar sóknaraðili geti fyrst borið ágreininginn undir nefndina, þ.e.a.s. þegar hann fyrst telji sig hafa ástæðu til þess að efast um það endurgjald sem hann sé krafinn um. Hafi úrskurðarnefndin tekið af allan vafa um að ekki sé hægt að miða við annað seinna tímamark. Í þessu sambandi skipti ekki máli hvort sóknaraðili telji sig þurfa að afla frekari gagna til að styðja mál sitt fyrir nefndinni eða hvort hann vilji fyrst láta reyna á sáttaumleitanir. Þessu til stuðnings megi vísa í úrskurð nefndarinnar í máli nr. 29/2006.
Varnaraðilar vísa til þess að í ágreiningsmálum hjá nefndinni er varði endurgjald sé algengast að miða tímafrestinn við útgáfudag reiknings, sbr. t.d. úrskurð í máli nr. 11/2010, enda eðlilegt að ágreiningur um endurgjald skjóti upp kollinum þegar lögmaðurinn krefji umbjóðandann um þóknunina.
Varnaraðilar telja að í máli þessu eigi að miða upphaf tímafrests skv. 1. mgr. 26. gr. laga nr. 77/1998 við síðasta greidda reikning 1. maí 2013. Sóknaraðili hafi enga lögvarða hagsmuni af því að nefndin fjalli um reikning sem hafi verið bakfærður og sóknaraðili ekki krafinn um greiðslu á. Ágreiningur málsins hljóti því eðli málsins samkvæmt að standa um það endurgjald sem sóknaraðili hafi sannanlega verið krafinn um og það hafi verið síðast með reikningi 1. maí 2013.
Varnaraðilar vísa til þess að hvort heldur sem miðað sé við síðasta greiddan reikning eða síðasta útgefna reikning þá sé engum blöðum um það að fletta að meira en ár sé liðið þegar sóknaraðili hefji mál þetta með bréfi, dags. 25. júní 2014. Í millitíðinni hafi sóknaraðili kært annan varnaraðila, R, til úrskurðarnefndarinnar en málatilbúnaður sóknaraðila hafi ekki verið betri en svo að málinu hafi verið vísað frá. Varnaraðilar geti ekki borið hallann af lélegum málatilbúnaði sóknaraðila enda hafi sóknaraðili þá enn haft tíma til að lagfæra málatilbúnað sinn og bera málið undir nefndina á nýjan leik. Þann tíma hafi hann ekki nýtt heldur hafi hann haldið að sér höndum í rúma þrjá mánuði áður en hann hafi sent málið aftur inn í sama búningi með þeirri viðbót einni að lögmanninum S hafi verið bætt við varnarmegin í málinu. Verði sóknaraðili að bera hallann af þessum tilhæfulausa drætti. Það skuli sérstaklega áréttað að þetta sé í fyrsta sinn sem sóknaraðili beini málinu til varnaraðila S og því ætti að vera yfir allan vafa hafið að málið sé fyrnt gagnvart þeim lögmanni.
Niðurstaða.
Hægt er að skjóta ágreiningi um rétt lögmanns til endurgjalds og fjárhæð þess til úrskurðarnefndar lögmanna, sbr. 26. gr. lögmannalaga. Nefndin vísar frá ágreiningsmáli um endurgjald ef lengri tími en eitt ár er liðinn frá því kostur var að koma því á framfæri. Þessi lagaregla er áréttuð í 6. gr. reglna um meðferð mála fyrir úrskurðarnefnd lögmanna. Þar segir að erindi til nefndarinnar samkvæmt 1. mgr. 26. gr. og 1. mgr. 27. gr. lögmannalaga verði að berast henni eigi síðar en einu ári eftir að kostur var á að koma því á framfæri við nefndina. Að öðrum kosti vísi nefndin erindinu frá.
Ofangreind ákvæði eru afdráttarlaus um skyldu nefndarinnar til að vísa málum frá ef þau berast meira en ári eftir að kostur var að koma ágreiningi á framfæri. Í þessu tilviki verður ekki miðað við annað tímamark en útgáfudag þess reiknings sem gefinn var út í apríl 2013.
Verður að líta svo á að 26. gr. feli í sér sérstakt úrræði fyrir þá sem vilja gera ágreining um gjaldtöku lögmanna, en jafnframt að þetta sérstaka úrræði sæti skýrri takmörkun að þessu leyti. Verða menn því að sæta því að bera ágreining undir dómstóla eftir almennum reglum ef skilyrði ákvæðisins eru ekki uppfyllt. Enda þótt þessi niðurstaða sé ekki fyllilega sanngjörn í garð sóknaraðila, sem vissulega bar erindi vegna gjaldtökunnar upphaflega upp innan ársfrestsins, getur nefndin ekki farið út fyrir valdheimildir sínar með því að víkja frá ákvæðinu. Þá skal áréttað að sóknaraðili hafði svigrúm til að koma erindinu til nefndarinnar innan ársfrestsins eftir að fyrri frávísunarúrskurður var kveðinn upp.
Að þessu athuguðu er óhjákvæmilegt að vísa málinu frá nefndinni.
Ú R S K U R Ð A R O R Ð :
Máli þessu er vísað frá nefndinni.
ÚRSKURÐARNEFND LÖGMANNA
Kristinn Bjarnason hrl., formaður
Einar Gautur Steingrímsson hrl.
Valborg Þ. Snævarr hrl.
________________________
Haukur Guðmundsson