Mál 2 2014

Ár 2014, fimmtudaginn 19. júní, var haldinn fundur í úrskurðarnefnd lögmanna í húsnæði Lögmannafélags Íslands að Álftamýri 9, Reykjavík.

Fyrir var tekið málið nr. 2/2014:

R hdl.

gegn

S hdl.

og kveðinn upp svofelldur

Ú R S K U R Ð U R :

Úrskurðarnefnd lögmanna barst þann 20. janúar 2014, erindi kæranda, R hdl., þar sem kvartað var yfir störfum S hdl., í tengslum við uppgjör á vangreiddum launum til umbjóðanda kæranda.

Óskað var eftir greinargerð frá kærðu um erindið þann 23. janúar 2014. Greinargerð kærðu barst með bréfi dagsettu 13. febrúar 2014. Kæranda var gefinn kostur á að tjá sig um greinargerð kærðu þann 19. febrúar 2014. Athugasemdir bárust ekki frá kæranda.

Málsatvik og málsástæður.

I.

Umbjóðandi kæranda var starfsmaður fyrirtækis. Honum var sagt upp vegna trúnaðarbrests með 3ja mánaða fresti og veitt starfslok. Hann fékk greiddan fyrsta mánuð uppsagnarfrestsins. Hann fékk ekki frekari greiðslur þar sem fyrirtækið taldi að þar sem hann hefði fengið aðra vinnu, þá ættu greiðslur fyrirtækisins að stöðvast. Umbjóðandi kæranda undi þessu ekki og stefndi kærandi sem lögmaður hans fyrirtækinu, og krafðist eftirstöðva launa í uppsagnarfresti. Kærða var lögmaður hins stefnda fyrirtækis. Niðurstaða héraðsdóms var sú að vísa meginhluta launakröfunnar frá dómi þar sem vantað hafði frá umbjóðanda kæranda upplýsingar um laun við fasteignasölu á uppsagnartíma, en sýknað var varðandi hluta launakröfunnar. Frávísunin var kærð til Hæstaréttar sem staðfesti niðurstöðu héraðsdóms. Með dómum þessum var þó ákveðnum atriðum slegið föstum varðandi það hvernig skyldi meðhöndla laun síðari atvinnurekanda við útreikning launa í uppsagnarfresti. Samkvæmt dómsorðum héraðsdóms og Hæstaréttar skyldi umbjóðandi kæranda greiða umbjóðanda kærðu samtals kr. 750.000 í málskostnað, sem enn hefur ekki verið greiddur.

Í kjölfar niðurstöðu Hæstaréttar lagði kærandi til að fyrirtækið greiddi kröfuna að frádregnum þegar dæmdum málskostnaði. Jafnframt að fyrirtækiðgreiddi umsaminn lögmannskostnað, eins og málinu hefði verið aftur stefnt inn og dómsátt gerð varðandi hann. Gengu ítarlegir tölvupóstar á milli kæranda og kærðu, án þess að það bæri árangur.

Þann 20. desember 2013 útbjó kærandi nýja stefnu í málinu með þingfestingardegi í janúar 2014. Umbjóðandi kæranda krafðist vangreiddra launa í uppsagnarfresti, þ.e. launa fyrir þrjá mánuði auk orlofs, orlofsuppbótar og desemberberuppbótar, að frádreginni greiðslu þann 1. febrúar 2012. Stefnan var birt þann 7. janúar 2014.

Þann 7. janúar 2014 gerði fyrirtækið upp við umbjóðanda kæranda, inn á reikning hans. Nokkur tölvupóstsamskipti áttu sér í framhaldinu stað á milli kæranda og kærðu. Kærandi tilkynnti kærðu þann 13. janúar 2014 að málið yrði látið niður falla, en eftir stæði ágreiningur um frádráttarliði og dráttarvaxtaútreikning sem metið yrði hvort hægt væri að halda áfram með.

II.

Kærandi krefst þess að kærða verði áminnt. Kærandi kveðst kvarta yfir broti kærðu gegn reglum IV. kafla siðareglna lögmanna, þ.e. 25. og 26. gr. og almennum og viðurkenndum reglum sem gilda um innbyrðis háttsemi lögmanna og almennum samskiptareglum um góða lögmannshætti.

Kærandi kveður kvörtunina lúta að því hvernig staðið hafi verið að lyktum dómsmáls af hálfu kærðu. Að gefnu tilefni hafi kærandi lagt áherslu á það við kærðu í tvígang að kærandi færi alfarið með málið fyrir hönd stefnanda, en framkvæmdastjóri stefnda hafi áður snúið sér beint til umbjóðanda kæranda. Þá hafi verið sérstök ástæða fyrir kærðu að virða siðareglur lögmanna og viðurkenndar samskiptareglur þeirra, þar sem kærða hafi haft þessa skoðun á heilindum umbjóðanda kæranda: „T braut af sér með vítaverðum hætti í starfi og hefur allar götur síðan gengið fram með ósannindum og óheiðarleika."

Kærandi bendir á að allan tímann frá upphafi máls hafi samskiptin verið á milli kæranda og kærðu í samræmi við góða lögmannshætti. Hafi kærðu einnig borið skylda til að klára þau samskipti til enda, ekki síst með tilliti til þess að búið hafi verið að stefna málinu inn á ný til þess að ljúka því vegna ágreinings um hugsanlegan frádrátt frá launum í uppsagnarfresti. Í stað þess hafi verið rokið til, þegar stefnan hafi verið komin í hendur kærðu og greitt beint til umbjóðanda kæranda án nokkurs samráðs. Sé því mótmælt sem röngu að framkvæmdastjóri stefnda hafi án nokkurs samráðs við kærðu greitt beint til umbjóðanda kæranda. Þá hafi komið fram hjá kærðu að framkvæmdastjóri stefnda ætlaði sér ekki að þurfa að greiða kæranda lögmannskostnað vegna framhalds málsins. Af þeim ástæðum hafi ekki síst verið gripið til þess að greiða beint til umbjóðanda kæranda, og þá fjárhæð sem stefndi hafi sjálfur talið hæfilega greiðslu til lúkningar málsins.

Kærandi vísar til þess að kærða beri fulla ábyrgð á því hverjar lyktir málsins hafi orðið. Þetta hafi leitt til þess að umbjóðandi kæranda hafi ekki séð ástæðu til að greiða kæranda, sem hafi tekið alla áhættu af rekstri málsins og borið allan kostnað af því, umsaminn hluta stefnufjárhæðarinnar í lögmannsþóknun. Þá mótmælir kærandi þeirri fullyrðingu sem fram komi í tölvuskeyti kærðu þann 9. janúar 2014, þar sem segi: „Mál þetta snýr ekki að uppgjöri við þig sem lögmann T, heldur við T sjálfan." Þarna komi fram mikill misskilningur á hlutverki lögmanna í samskiptum vegna málareksturs og spyrja megi, hvers vegna kærða hafi yfirhöfuð verið að hafa samskipi við kæranda allan tímann fram að því að greitt hafi verið beint til stefnda.

Kærandi bendir á að það muni koma í ljós hvort honum takist að fá þennan fyrrum umbjóðanda sinn til að skila sínum hluta greiddrar fjárhæðar, með eða án málaferla. Fyrir liggi að háttsemi kærðu muni valda kæranda fjárhagslegum skaða og ómældri fyrirhöfn. Hafi kærandi þegar staðið í útistöðum við umbjóðandann sem því miður hafi reynst jafn óheill og lýst hafi verið af hálfu kærðu í einum tölvupósta hennar.

III.

Kærða tekur fram að umbjóðandi hennar hafi tvívegis boðið fram sáttahönd undir rekstri málsins í héraði en kærandi hafi hafnað slíkum boðum fyrir hönd umbjóðanda síns.

Kærða bendir á að kærandi kveði kvörtun sína lúta af því „hvernig staðið var að lyktum dómsmáls" af hálfu kærðu. Þá segi kærandi að í kjölfarið af dómi Hæstaréttar hafi hann lagt til ákveðnar málalyktir á þeim grundvelli að úrslit málsins hafi legið fyrir umbjóðanda hans í hag. Af þessu tilefni telur kærða rétt að árétta að úrslitin hafi verið þau að sýkna umbjóðanda hennar að hluta og vísa málinu frá að öðru leyti á grundvelli vanreifunar af hálfu umbjóðanda kæranda. Slík niðurstaða verði tæpast talin umbjóðanda kæranda í hag.

Kærða bendir á að hvað sem framangreindu líði hafi það verið vilji umbjóðanda hennar að gera upp við umbjóðanda kæranda að gengnum dómi Hæstaréttar. Ástæðan hafi aðallega verið tvíþætt. Annars vegar hafi loksins verið komnar fram vísbendingar um það hvaða laun umbjóðandi kæranda hafi þegið annars staðar frá í uppsagnarfresti, sem unnt hafi verið að draga frá launakröfu hans og hins vegar hafi verið ljóst að gengnum dómnum að umbjóðandi kæranda hafi ekki ætlað að una niðurstöðu hans. Umbjóðandi kærðu hafi viljað leysa málið án frekari málaferla.

Kærða bendir á að umbjóðandi hennar hafi talið að þær tafir sem orðið hafi á málinu og sá kostnaður sem af málinu hafi hlotist skrifist alfarið á umbjóðanda kæranda sem hafi virt að vettugi ítrekaðar áskoranir um að leggja fram gögn um laun í uppsagnarfresti. Það hafi verið vegna skorts á þessum gögnum sem málinu hafi verið vísað frá.

Kærða vísar til þess að samskiptin milli hennar og kæranda að gengnum dómi Hæstaréttar sýni að kærandi hafi verið óhagganlegur með tillögu sína að uppgjöri, þ.á.m. um lögmannsþóknun sér til handa. Tillaga kæranda að uppgjöri hafi ekki falið í sér raunverulegt sáttaboð heldur afarkosti sem umbjóðandi kærðu hafi annað hvort átt að þiggja eða hafna. Þannig hafi t.d. sagt í tölvupósti kæranda þann 28. nóvember 2013: „Láttu mig vita, hvort heldur já eða nei við tillögu minni." Að sama skapi hafi kærandi sagt í tölvupósti daginn eftir, þann 29. nóvember: „Mér verður ekki haggað..." Fyrir umbjóðanda sinn hafi kærða áréttað að hann vildi gera upp við umbjóðanda kæranda og leysa málið utan dómstóla, en þó ekki með þeim hætti sem kærandi hafi lagt til.

Kærða bendir á að langir tölvupóstar kæranda hafi að öðru leyti farið í það að kenna henni og öðrum lögfræði. Kærandi hafi lýst þeirri skoðun sinni að það væri „herfileg rangtúlkun" hjá henni að Hæstiréttur hafi í kærumálinu staðfest skoðun héraðsdómarans, auk þess sem hann hafi talið aðrar túlkanir kærðu „út í hött" og „fjarstæðu". Þá hafi hann talið frávísunarkröfu hennar „gjörsamlega fráleita". Að auki hafi kærandi talið bæði héraðsdóm Reykjavíkur og Hæstarétt Íslands vera á algjörum villigötum. Afgreiðslu héraðsdóms hafi kærandi lýst sem „fáránlegri" og hafi talið að héraðsdómari hefði „að sjálfsögðu" átt að vísa allri launakröfunni frá í stað þess að sýkna að hluta.

Kærða kveður ástæðu þess að hún reki framangreint að kærandi vísi í kvörtun sinni til 25. gr. siðareglna lögmanna. Þar segi að lögmenn skuli „sýna hver öðrum fulla virðingu í ræðu, riti og framkomu". Kærða telur kæranda mögulega þurfa að líta sér nær í þessum efnum.

Kærða vísar til þess að í kvörtun sinni taki kærandi orð hennar úr tölvupósti beint upp og telji þau fela í sér misskilning á hlutverki lögmanna. Um sé að ræða orðin: „Mál þetta snýr ekki að uppgjöri við þig sem lögmann T, heldur við T sjálfan." Af þessu tilefni telur kærða rétt að benda á það samhengi sem orðin hafi verið fram sett, en í umræddum tölvupósti skrifi hún: „Þrátt fyrir þetta [þ.e. brot T] hefur umbjóðandi minn viljað leysa málið utan dómstóla og um það vitna m.a. fyrri tölvupóstar mínir til þín. Þú hefur hins vegar lagt á það ríka áherslu að greiða beri, ásamt uppgjöri til T, lögmannskostnað til þín, og það þrátt fyrir að T standi í skuld við umbjóðanda minn að fjárhæð 750.000 kr. Mál þetta snýr ekki að uppgjöri við þig sem lögmann T, heldur við T sjálfan."

Kærða byggir á því að í framangreindum orðum felist því ekki misskilningur á hlutverki lögmanna líkt og kærandi haldi fram heldur sé hún eingöngu að árétta að málið snúist um hagsmuni umbjóðanda kæranda, en ekki persónulegt uppgjör við kæranda sjálfan líkt og helst hafi mátt ráða af samskiptunum við hann. Þetta hafi kæranda átt að vera ljóst af samhengi orðanna.

Kærða vísar til þess að kærandi fullyrði að með launagreiðslu umbjóðanda hennar inn á reikning umbjóðanda kæranda hafi málsgrundvöllurinn verið eyðilagður. Af því tilefni bendir kærða á tölvupóst kæranda í framhaldi af greiðslunni þann 9. janúar 2014, en þar skrifi kærandi: „Að sjálfsögðu verður málinu haldið áfram, þótt meginhluti kröfunnar hafi verið greiddur, eins og raun ber vitni..." Því næst telji hann upp þau ágreiningsatriði sem hann telji að enn séu útistandandi í málinu í fjórum töluliðum. Að lokum skrifi hann: „Það sem snýr að mér og ég þarf eingöngu að taka ákvörðun um er það, hvor rétt sé að halda sér við óbreytta stefnuna, nú þegar búið er að greiða meginhluta kröfunnar beint til T, eða hvort ég verði ekki að endursemja hana og útbúa nýja stefnu með þessum ágreiningsatriðum." Í samræmi við þetta hafi kærða látið umbjóðanda sinn vita að umbjóðandi kæranda myndi ekki una uppgjörinu og málið færi að óbreyttu áfram.

Kærða vísar til þess að fjórum dögum síðar, eða þann 13. janúar, hafi hún hins vegar fengið annan póst frá kæranda þar sem kveðið hafi við annan tón. Þar fullyrði kærandi að hún hafi eyðilagt grundvöll málsins og möguleika umbjóðanda hans til að ná fram rétti sínum. Málið, sem hafi „að sjálfsögðu" átt að halda áfram aðeins nokkrum dögum áður, hafi skyndilega orðið ónýtt. Kærðu þyki líklegast að kærandi hafi loksins átt samtal við umbjóðanda sinn, sem ekki hafi kært sig um að fara með málið áfram, þó hún geti ekki fullyrt það.

Kærða byggir á því að sú fullyrðing kæranda að greiðslan hafi eyðilagt grundvöll málsins fái ekki staðist, enda hafi umbjóðandi kæranda alltaf getað krafist viðbótargreiðslu teldi hann sig eiga rétt á henni. Uppgjörið hafi því á engan hátt komið í veg fyrir það, líkt og kærandi bendi sjálfur á í fyrrgreindum tölvupósti frá 9. janúar 2014.

Kærða vísar til þess að ákvæði 26. gr. siðareglna lögmanna leggi bann við því að lögmaður snúi sér beint til aðila um málefni sem annar lögmaður fari með, án hans samþykkis nema brýn nauðsyn krefji. Kærða leggur áherslu á að hún hafi engin samskipti átt við umbjóðanda kæranda. Ef frá sé talin aðalmeðferð málsins í héraði, þar sem hún hafi lagt ákveðnar spurningar fyrir umbjóðanda kæranda, þá hafi hún aldrei hitt hann eða rætt við hann. Þá hafi hún hvorki millifært inn á hann fjárhæðir né fyrirskipað að slíkt skyldi gert. Hafi hún gefið umbjóðanda sínum hlutlægt álit á stöðu mála, að viðlagðri sérfræðiábyrgð, en hann hafi eftir sem áður haft frjálsan vilja og stjórni eigin athöfnum.

Kærðu kveðst þykja miður þurfi kærandi að standa í útistöðum við umbjóðanda sinn vegna umsaminnar lögmannsþóknunar. Hún hafni því hins vegar að það sé á hennar ábyrgð.

Niðurstaða.

I.

Sá sem telur lögmann hafa í störfum sínum gert á sinn hlut með háttsemi sem stríðir gegn lögum eða siðareglum lögmanna getur sent kvörtun til úrskurðarnefndar lögmanna, sbr. 1. mgr. 27. gr. laga nr. 77/1998 um lögmenn. Í afgreiðslu á erindi sem berst nefndinni getur hún fundið að vinnubrögðum lögmanns eða veitt honum áminningu, ef um stórfelld eða ítrekuð brot er að ræða, sbr. 2. mgr. 27. gr. laga nr. 77/1998. Ef sakir eru miklar eða lögmaður hefur ítrekað sætt áminningu getur nefndin í rökstuddu áliti lagt til við ráðherra að réttindi lögmannsins verði felld niður tímabundið eða hann sviptur réttindum.

Samkvæmt 25. gr. siðareglna lögmanna skulu lögmenn hafa góða samvinnu sín á milli og sýna hver öðrum fulla virðingu í ræðu, riti og framkomu. Þeir skulu sýna hver öðrum þá tillitssemi, sem samrýmanleg er hagsmunum skjólstæðings. Í 26. gr. siðareglnanna er mælt fyrir um að lögmaður megi ekki snúa sér beint til aðila um málefni, sem annar lögmaður fer með, án hans samþykkis, nema brýn nauðsyn krefji.

II.

Kærandi byggir á því að kærða hafi haft aðkomu að uppgjöri launa til umbjóðanda hans, eftir að ný stefna var birt fyrir umbjóðanda hennar. Kærða hefur hafnað því að hafa átt samskipti við umbjóðanda kæranda og að hafa millifært á hann fjárhæðir eða fyrirskipað að slíkt skyldi gert.

Ósannað er gegn neitun kærðu að hún hafi haft aðkomu að uppgjöri launa til umbjóðanda kæranda. Af þeim sökum verður hér ekki fjallað um það álitaefni hvort það hefði verið andstætt siðareglum lögmanna eða góðum lögmannsháttum, hefði kærða haft aðkomu að umræddu uppgjöri við umbjóðanda kæranda.

Verður, með vísan til ofangreinds, að hafna því að gera aðfinnslur við störf kærðu eða beita hana viðurlögum á grundvelli 27. gr. laga nr. 77/1998.

Ú R S K U R Ð A R O R Ð :

Kærða, S hdl., hefur í störfum sínum ekki gert á hlut kæranda, R hdl., með háttsemi sem stríðir gegn lögum eða siðareglum lögmanna.

ÚRSKURÐARNEFND LÖGMANNA

Kristinn Bjarnason, hrl., formaður

Einar Gautur Steingrímsson, hrl.

Valborg Þ. Snævarr, hrl.

Rétt endurrit staðfestir

________________________

Haukur Guðmundsson