Mál 20 2014

Ár 2014, föstudaginn 12. desember, var haldinn fundur í úrskurðarnefnd lögmanna í húsnæði Lögmannafélags Íslands að Álftamýri 9, Reykjavík.

Fyrir var tekið málið nr. 20/2014:

A f.h. T ehf.

gegn

R hdl.

og kveðinn upp svofelldur

Ú R S K U R Ð U R :

Úrskurðarnefnd lögmanna barst þann 26. ágúst 2014 erindi sóknaraðila, A, þar sem kvartað var yfir áskilinni þóknun varnaraðila, R hrl.

Óskað var eftir greinargerð frá varnaraðila um erindið þann 1. september 2014 og barst hún þann 18. september 2014. Sóknaraðila var gefinn kostur á að tjá sig um greinargerðina þann 30. september 2014. Athugasemdir sóknaraðila bárust þann 16. október 2014. Varnaraðila var gefinn kostur á að gera lokaathugasemdir við bréf sóknaraðila, þann 21. október 2014, en kaus að gera það ekki.

 

Málsatvik og málsástæður.

I.

Þann 31. október 2011 leitaði sóknaraðili til lögmannsstofu varnaraðila. Kvað hann eiginkonu sinni hafa verið stefnt vegna ábyrgðar á rekstri félags sem hætt væri starfsemi. Hittust aðilar á skrifstofu varnaraðila þann 6. eða 8. nóvember þar sem farið var yfir málið. Ekki nýtur við skráðra gagna af þeim fundi og aðilar eru ekki fyllilega sammála um hvað þar var rætt um gjaldtöku. Varnaraðili telur að af samræðum þar hafi mátt álykta að kostnaður yrði um 500.000. Í tölvupósti varnaraðila um þennan fund, sem sendur var rúmu ári síðar lýsir varnaraðili því sem aðilum fór á milli svo að rætt hafi verið um að kostnaður við vörn í málinu yrði á bilinu 500-700 þúsund, þ.e. 35 - 40 tímar með málflutningi. Þá hafi verið rætt um að ef málið ynnist kæmi þessi fjárhæð til baka - líklegast að öllu leyti.

Í málinu liggur fyrir tölvupóstur frá varnaraðila til sóknaraðila frá 8. nóvember 2011 þar sem hann vekur athygli sóknaraðila sérstaklega á því að „kostnaður gæti orðið hátt hlutfall af kröfunni. Hann kæmi að vísu allur til baka ef málið ynnist."Stefnukrafan í umræddu dómsmáli nam kr. 807.021

Í framhaldi af þessu var ákveðið að varnaraðili tæki að sér málið. Þann 13. nóvember veittu stefndu í umræddu héraðsdómsmáli varnaraðila og samstarfsmanni hans á lögmannsstofunni umboð til að koma fram fyrir sína hönd gagnvart bankanum E vegna meintrarábyrgðarskuldbindingar.Í umboðinu kemur fram að „auk greiðslu fyrir útlagðan kostnað mun félagið greiða lögmannstofunni G 16.500 kr. per klst., auk vsk." Sama dag tilkynnti sóknaraðili í þessu máli, A, að hann myndi ábyrgjast greiðslu kostnaðar og óskaði eftir því að reikningar vegna vinnunnar yrðu gefnir út á félagið T ehf.

Lögmannsstofa varnaraðila gaf út reikning nr. 807 þann 4. desember 2012 fyrir 11,5 klst. að fjárhæð 189.500 auk vsk. Reikningur nr. 836 var gefinn út 4. janúar 2013 fyrir 13,5 klst. vinnu auk móts í héraðsdóms, alls að fjárhæð kr. 230.154 auk vsk.

Fyrir liggur tölvupóstur sóknaraðila til varnaraðila þann 19. janúar 2013 þar sem hann lýsir áhyggjum af því að búið sé að skrifa 25 klst. vinnu á málið og fjárhæðin komin í 525.091. Nefnir sóknaraðili þarna að fram hafi komið á fyrsta fundi að greinargerðaskrif tækju 10 - 12 tíma. Gerir hann athugasemdir við að töluverður tími hafi farið í „rannsóknir og heimildaöflun" samkvæmt tímaskýrslu. Þá liggur fyrir svar sóknaraðila, dags. 21. janúar, þar sem hann hafnar fullyrðingum um að reiknað hafi verið með 10-12 vinnustundum til ritunar greinargerðar. Rekur sóknaraðili, sem fyrr greinir, í þessu skeyti að þeim hafi upphaflega farið á milli að kostnaður við vörn í málinu yrði á bilinu 500-700 þúsund, þ.e. 35 - 40 tímar með málflutningi. Þá bætir varnaraðili því við að „það er ekkert sem bendir til annars en að áætlun um heildarútgjöld vegna varnarinnar standist. Sú fjárhæð sem þú vísar til í póstinum er með vsk., sem er eins inn og út, og kemur ekki áætluninni við á annan hátt en þann að það þarf að leggja út fyrir honum og svo fæst hann endurgreiddur."

Málið var dómtekið að loknum flutningi 5. apríl 2013 og dómur kveðinn upp 24. apríl sama ár. Voru stefndu í málinu sýknuð og stefnandi dæmdur til að greiða þeim kr. 800.000 krónur í málskostnað.

Þriðji reikningur varnaraðila, nr. 1110, var gefinn út þann 4. september 2013. Með honum var innheimt fyrir 29 klst. lögmannsstörf á sama tímagjaldi og áður, alls kr. 478.500 auk vsk.

Varnaraðili innheimti tildæmdan málskostnað hjá stefnanda með dráttarvöxtum að fjárhæð 27.155 í septemberbyrjun 2013. Þá var ógreiddur síðasttaldi reikningur hans og var hann dreginn frá fjárhæðinni, en eftirstöðvarnar lagðar inn á reikning sóknaraðila.

Sóknaraðili gerði þegar athugasemd við þessa gjaldtöku og var fyrst í samskiptum við framkvæmdastjóra lögmannsstofuna en síðan varnaraðila. Ekki náðist samkomulag í þessum samskiptum og beindi sóknaraðili máli þessu til nefndarinnar, sem fyrr greinir, með erindi mótteknu 26. ágúst 2014.

 

II.

Sóknaraðili krefst þess að reikningur verði lækkaður til samræmis við þá áætlun sem fram komi í tölvuskeyti varnaraðila frá 21. janúar 2013 og farinn millivegur varðandi það svigrúm sem þar er nefnt (500-700 þúsund) þannig að þóknunin verði ákvörðuð kr. 600.000. Verður krafan skilin svo að sóknaraðili krefjist þess að þessi fjárhæð verði ákvörðuð sem heildarþóknun varnaraðila að virðisaukaskatti meðtöldum. Þá krefst sóknaraðili vaxta af oftekinni þóknun frá 4. september 2013 til greiðsludags. Til vara er krafist lækkunar að mati nefndarinnar á tímagjaldi aðstoðarmanna varnaraðila sem komu að málinu. Loks krefst sóknaraðili bóta vegna dráttarvaxta sem bankanum E hafi verið gefnir eftir við innheimtu þóknunarinnar.

Sóknaraðili vísar einkum til þess sem fram hafi komið um áætlaðan verkkostnað. Annars vegar á upphaflegum fundi aðila, en einkum í tilvitnuðu tölvuskeyti varnaraðila frá 21. janúar 2013. Bendir sóknaraðili á að á þeim tímapunkti sem skeytið var ritaði hafi þegar verið búið að innheimta 25 klst. vegna málsins. Þegar varnaraðili hafi vísað til upphaflegrar áætlunar um 500 - 700 þúsund króna kostnaðar og 35 - 40 tíma vinnu í heildina og talið að hún myndi standast, hafi sóknaraðili því mátt ætla að enn væri eftir að innheimta fyrir 5 - 15 klst. vinnu fyrir vinnslu málsins til loka. Hafi mátt ætla að svigrúmið í þessari áætlun upp á 40% myndi duga vegna ófyrirséðra verkefna við málið. Síðasti reikningur varnaraðila hafi hins vegar hljóðað upp á 54 stunda vinnu. Nemi heildarreikningur varnaraðila vegna málsins kr. 1.125.608.  Leggur sóknaraðili áherslu á að hann hafi ekki haft nein tök á að meta, hvorki fyrirfram né jafnóðum, hvaða tímafjölda væri nauðsynlegt að verja til málsins og hafi hann því einfaldlega þurft að reiða sig á orð varnaraðila í þessu efni. Hins vegar hafi mikill tímafjöldi til rannsókna og gagnaöflunar vakið hjá sér þá spurningu hvort aðstoðarmenn sem unnu að málinu hafi skort reynslu og þekkingu til að vinna málið áfram á eðlilegum hraða. Sé varakrafa sett fram í þessu ljósi.

Sóknaraðili telur að upphaflegar kostnaðaráætlanir varnaraðila verði að skoða í því ljósi að þær hafi verið settar fram áður en ákveðið var að T ehf. myndi greiða kostnað varnaraðila. Þær hljóti að hafa verið miðaðar við að stefndu sjálf greiddu fjárhæðina og þyrftu þá að greiða sjálf virðisaukaskattinn.

Sóknaraðili telur að varnaraðili hafi staðið rangt að innheimtu málskostnaðar hjá gagnaðila. Í stað þess að setja þegar fram kröfuna og krefjast dráttarvaxta frá 15. degi frá dómsuppsögu til greiðsludags, hafi varnaraðili haldið að sér höndum þar til áfrýjunarfrestur var liðinn. Hann hafi ekki krafist dráttarvaxta frá réttu tímamarki fyrr en varnaraðili benti á það og ekki til greiðsludags (3. september) heldur aðeins til 15. ágúst 2013.

 

III.

Varnaraðili hafnar málatilbúnaði sóknaraðila í greinargerð sinnisem tilhæfulausum. Verður hún skilin svo að þess sé krafist að kröfum sóknaraðila fyrir úrskurðarnefnd verði hrundið.

Varnaraðili bendir á, varðandi aðild málsins, að umbjóðendur hans í umræddu dómsmáli standi ekki að kvörtun þessari. Koma í greinargerð hans fram skýringar á því hvers vegna reikningar voru gefnir út á T ehf. samkvæmt beiðni A, sem hann kveður hafa komið fram fyrir hönd stefndu í öllum samskiptum við sig.

Varnaraðili bendir á að það sé jafnan með öllu útilokað að lögmaður geti með nokkurri nákvæmni áætlað endanlegan kostnað vegna máls á fyrsta fundi með umbjóðanda. Þá liggi yfirleitt ekkert fyrir um afstöðu eða mótrök gagnaðila, eingöngu einhliða lýsing umbjóðandans. Þrátt fyrir þetta leitist viðskiptamenn lögmanna oftast við að fá einhverja vísbendingu um líklegan kostnað. Þurfi lögmenn því jafnan að setja frá sér einhverjar viðmiðunartölur, en þá ætíð með fyrirvara, enda annað ómögulegt. Hafi þetta einnig átt við í þessu tilviki. Sé fráleitt að hann hafi gefið bindandi yfirlýsingu um um endanlegan kostnað málsins á þessum tímapunkti, eins og best sjáist á umboðinu. Hafi einfaldlega verið samið um tímagjald og reikningagerð samkvæmt tímaskráningu. Þá komi skýrlega fram í umboðinu bæði tímagjald og að á það leggist virðisaukaskattur.

Varnaraðili áréttar að allar kostnaðartölur sem hann hafi gefið upp séu án vsk. eins og fram komi í umboðinu og tölvuskeytinu frá 21. janúar 2013. Honum hafi alls ekki verið ljóst að T ehf. hefði ekki virðisaukaskattsnúmer og auk þess skipti það í þessu samhengi ekki máli.

Varnaraðili bendir á að stefnandi málsins hafi greitt málskostnað með dráttarvöxtum til greiðsludags. Hann hafi raunar þurft að ganga nokkuð hart fram við innheimtuna því bankinn hafi leitað leiða til að skuldajafna öðrum kröfum sínum á móti innheimtukostnaðinum.

Varnaraðili áréttar að tveir fulltrúar sínir hafi frá upphafi komið að málinu, setið alla fundi og tekið þátt í vinnu við málsvörnina. Hafi sóknaraðila verið þetta fullljóst en ekki gert neinar athugasemdir við það undir rekstri málsins að þær kæmu að því eða að innheimt væri tímagjald fyrir vinnu þeirra samkvæmt samningi þar um, en um væri að ræða lægsta taxta lögmannsstofunnar.

Varnaraðili bendir jafnframt á að veittur hafi verið langur greiðslufrestur á reikningum sínum. Þannig hafi tæplega fimm mánuðir liðið frá því dómur féll og þar til uppgjör á greiðslum átti sér stað. Engir vextir hafi verið innheimtir vegna þessa.

Varnaraðili vísar til þess að endanlegur kostnaður hafi verið kr. 891.000 auk útlagðs kostnaðar að fjárhæð 7.404. Innheimtur málskostnaður hjá gagnaðila hafi numið  kr. 827.155. Það sé óheppilegt að dómstólar skuli ekki dæma fullan málskostnað þegar stefndi er sýknaður af kröfum stefnanda, jafnvel þegar málskostnaðarreikningur er lagður fram, eins og hér hafi verið gert. Varnaraðili bendir á hinn bóginn á að krafa sóknaraðila veki nokkra furðu í ljósi þess að með þeirri vinnu sem lögð var í málið hafi tekist að vinna það. Þannig hafi sóknaraðila verið forðað frá verulegu fjártjóni. Það sé jafnan vandi lögmanna að meta hve mikilli vinnu skuli varið í mál. Hér hafi ekki notið við viðhlítandi dómafordæma til leiðbeiningar og málið reynst tímafrekara en svo að innheimt hafi verið fyrir allar unnar stundir í því. Telur varnaraðili að hófsemdar hafi verið gætt við tímaskráningu.

 

Niðurstaða.

I.

Kvörtun þessi er upphaflega send nefndinni, undirrituð af A, ásamt yfirlýsingu um að hún sé unnin fyrir hönd B og D, stefndu í umræddu héraðsdómsmáli. Undir rekstri málsins hefur komið fram að félag í fullri eigu A, T ehf. tók á sig ábyrgð á greiðslu þóknunar varnaraðila vegna málsins með yfirlýsingu hans fyrir þess hönd. Mun þetta hafa verið gert í ljósi ógjaldfærni stefndu í málinu. Varnaraðili hefur lýst því að A hafi að öllu leyti komið fram gagnvart sér fyrir hönd stefndu.Þá virðist liggja alveg ótvírætt fyrir að umrætt félag greiddi í raun allan kostnaðinn á grundvelli ábyrgðar sinnar. Þykir í þessu ljósi rétt að játa félagi þessu aðild að málinu og nefndum A fyrirsvar þess.

 

II.

Samkvæmt 1. mgr. 24. gr. laga nr. 77/1998 um lögmenn er lögmanni rétt að áskilja sér hæfilegt endurgjald fyrir störf sín og skal umbjóðanda hans, eftir því sem við verður komið, gert ljóst hvert það gæti orðið í heild sinni. Þar á meðal getur lögmaður áskilið sér hluta af þeirri fjárhæð sem umbjóðandi fær greitt í máli, svo og hærra endurgjald ef mál vinnst en ef það tapast. Loforð um ósanngjarnt endurgjald fyrir starf lögmanns bindur ekki umbjóðanda hans, sbr. 2. mgr. 24. greinar.

Í 2. mgr. 10. gr. siðareglna lögmanna kemur fram að lögmanni ber að gera skjólstæðingi grein fyrir áætluðum verkkostnaði og öðrum málskostnaði eftir föngum, og vekja athygli hans, ef ætla má, að kostnaður verði hár að tiltölu við þá hagsmuni, sem í húfi eru. Ber lögmanni að gera skjólstæðingi grein fyrir á hvaða grundvelli þóknun er reiknuð.

Með 17. og 18. gr. laga nr. 57/2005 um eftirlit með viðskiptaháttum og markaðssetninguer Neytendastofu veitt heimild til að setja ákvæði um verðmerkingar eða veita fyrirmæli um ráðstafanir til að auðvelda viðskiptavinum að meta verð og gæði. Á þessum grundvelli hefur Neytendastofa sett reglur nr. 537/2011 um verðupplýsingar við sölu á þjónustu, sbr. reglur nr. 860/2013. Í reglunum kemur m.a. fram skylda til að gefa upp endanlegt söluverð með endanlegu söluverði, en jafnframt segir í 3. gr. reglnanna að „ef annar kostnaður bætist við söluverðið þarf að taka það sérstaklega fram".

Samkvæmt 28. gr. laga um þjónustukaup, nr. 42/2000 skal neytandi greiða það verð sem telja má sanngjarnt með hliðsjón af því hve vinnan er mikil og hvers eðlis hún er, hafi ekki verið samið um verð fyrir keypta þjónustu. Í 29. gr. laganna segir að hafi seljandi þjónustu látið neytanda verðáætlun í té má verðið ekki fara verulega fram úr þeirri áætlun.

Hægt er að skjóta ágreiningi um rétt lögmanns til endurgjalds og fjárhæð þess til úrskurðarnefndar lögmanna, sbr. 26. gr. laga nr. 77/1998. Nefndin vísar frá sér ágreiningsmáli um endurgjald ef lengri tími en eitt ár er liðinn frá því kostur var að koma því á framfæri.

 

III.

Í máli þessu nýtur við skriflegs samkomulags um gjaldtöku fyrir þjónustu varnaraðila. Liggur samkvæmt því alveg skýrt fyrir að sóknaraðila ber að greiða 16.500 kr. auk virðisaukaskatts fyrir hverja vinnustund sem unnið var að málinu.

Almennt er lögmönnum heimilt að fela fulltrúum sínum að aðstoða við undirbúning mála án þess að til þess þurfi sérstakt samþykki umbjóðanda. Því er ómótmælt að sóknaraðila hafi frá upphafi verið ljóst að fleiri en varnaraðili sjálfur unnu að máli hans á stofunni og hafi m.a. athugasemdalaust greitt fyrstu tvo reikningana þrátt fyrir þetta. Verður gjaldtakan ekki lækkuð vegna þess.

Við mat á tímaskráningunni og yfirferð yfir það mál sem flutt var af varnaraðila, fæst ekki séð að óeðlilega mörgum stundum hafi verið varið til málarekstrarins. Í málinu reyndi á rétt fjármálastofnunar til að gjaldfæra bankareikning sem stefndu voru í ábyrgð fyrir, auk sönnunar um hvaða heimildir hefðu verið veittar til gjaldfærslunnar. Niðurstaða héraðsdóms um málskostnað ber ekki annað með sér en að gjaldtaka varnaraðila hafi verið innan þess sem við mátti búast, að teknu tilliti til umfangs málsins.

Bótakröfur komast almennt ekki að í málum fyrir nefndinni, en líta má á kröfu sóknaraðila þannig að hann krefjist þess að við ákvörðun um þóknun verði litið til þess að varnaraðili hafi ekki gengið nógu hart fram við innheimtu málsvarnarlauna og dráttarvaxta hjá gagnaðila. Þetta stenst ekki. Oft er skynsamlegt að bíða þess að áfrýjunarfrestur líði, áður en innheimta málskostnaðar er hafin. Ekki hefur verið sýnt fram á vaninnheimta dráttarvexti. Þá var það varnaraðili sem bar að öllu verulegu leyti hið meinta vaxtatap vegna þolinmæði sinnar í garð sóknaraðila við innheimtu þóknunar sinnar.

 

IV.

Í þessu máli liggur fyrir að varnaraðili hefur sjálfur lýst samskiptum sínum við sóknaraðila í upphafi málsins svo að þeim hafi upphaflega farið á milli að  kostnaður við vörn í málinu yrði á bilinu 500-700 þúsund, þ.e. 35 - 40 tímar með málflutningi. Í tölvuskeyti sem varnaraðili sendi sóknaraðila sérstaklega sem viðbrögð við áhyggjum sóknaraðila af því að kostnaður væri orðinn mikill, segir varnaraðili berum orðum að ekkert bendi til annars en að þessi áætlun um heildarútgjöld vegna varnarinnar standist. Af skeytinu er alveg ljóst að þar ræðir um krónutölur án virðisaukaskatts eins og í samningi um verkið.

Það liggur einnig fyrir að á þessum tíma hafði varnaraðili þegar innheimt rúmlega 400.000 kr. auk vsk., fyrir 25 tíma vinnu að málinu. Mátti varnaraðili í þessu ljósi gera ráð fyrir því að á uppgjörsreikningi vegna málsins færu viðbótarvinnustundir ekki að ráði fram yfir 15 og viðbótargjaldtaka (án vsk.) yrði vart mikið umfram 300.000 nema eitthvað sérstakt kæmi upp á. Í því samhengi er rétt að hafa í huga að á þessum tímapunkti virðist greinargerð hafa verið skilað og ekkert er komið fram um að upp hafi komið óvæntir fletir á málinu eftir það. Hefur varnaraðili ekki skýrt að þörf hafi verið á mikilli frekari rannsóknarvinnu eftir að greinargerð var skilað. Allt að einu fól skeytið ekki í sér fast tilboð í afgang verksins eða loforð um að gjaldtakan færi alls ekki umfram þessi mörk.

Þegar atvik málsins eru virt í heild sinni, verður varnaraðili að axla ábyrgð á umræddum yfirlýsingum með því að taka á sig nokkra lækkun á þeirri þóknun sinni sem ella yrði ekki talin úr hófi. Þykir hæfilegt að fjárhæð lokareiknings varnaraðila verði kr. 350.000 auk vsk.

Varnaraðila var í lófa lagið að leggja kröfu sína fram þegar við uppgjörið en kaus að bíða með það þar til ársfrestur til að bera erindi undir nefndina var nær allur liðinn. Vegna þessa og eins og málið er vaxið að öðru leyti,er ekki talið rétt að leggja vexti við þá fjárhæð sem varnaraðila ber að endurgreiða sóknaraðila.

 

Ú R S K U R Ð A R O R Ð :

Lokareikningur varnaraðila, R hdl., nr. 1110, gefinn út þann 4. september 2013 til sóknaraðila T ehf., sætir lækkun. Skal reikningurinn nema kr. 350.000 auk vsk.

 

ÚRSKURÐARNEFND LÖGMANNA

Kristinn Bjarnason hrl., formaður

Einar Gautur Steingrímsson hrl.

Valborg Þ. Snævarr hrl.

 

Rétt endurrit staðfestir

________________________

Haukur Guðmundsson