Mál 21 2014
Ár 2015,föstudaginn 13. mars, var haldinn fundur í úrskurðarnefnd lögmanna í húsnæði Lögmannafélags Íslands að Álftamýri 9, Reykjavík.
Fyrir var tekið málið nr. 21/2014:
A
gegn
R hdl.
og kveðinn upp svofelldur
Ú R S K U R Ð U R :
Úrskurðarnefnd lögmanna barst þann 26. ágúst 2014 erindi kæranda, A, þar sem kvartað var yfir störfum kærða, R hdl. að skilnaðarmáli kæranda, og áskilinni þóknun hans.
Upphaflega beindist kæran einnig að skiptastjóranum í umræddu búi, sem var til opinberra skipta, en með bréfi nefndarinnar, dags. 1. september 2014, var þeim hluta kvörtunarinnar vísað frá á þeim grundvelli að löggjafinn hafi markað ágreiningsmálum er varða ágreining um störf skiptastjóra þann farveg að fela skuli eingöngu hlutaðeigandi héraðsdómstóli úrlausn þeirra. Ekki gæti komið til greina að um störf skiptastjóra væri jafnframt fjallað fyrir nefndinni, jafnvel þótt um sé að ræða starfandi lögmenn.
Óskað var eftir greinargerð frá kærða um erindið þann 1. september 2014. Greinargerð kærða barst þann 17. september 2014. Kæranda var gefinn kostur á að tjá sig um greinargerðina þann 22. september 2014 og bárust athugasemdir hennar þann 10. október. Þann 15. október var kærða gefinn kostur á að koma á framfæri lokaathugasemdum sínum og bárust þær þann 21. október 2014.
Málsatvik og málsástæður.
I.
Aðilar hafa ekki lagt fram heildstæðar málsatvikalýsingar og er margt óljóst um málsatvik. Af gögnum málsins má þó ráða að kærandi og þáverandi eiginmaður hennar skildu og var bú þeirra tekið til opinberra skiptaí febrúar 2013. Um var að ræða harðar deilur og kærði kærandi eiginmanninn m.a. fyrir langvarandi ofbeldi í sinn garð. Af málatilbúnaði kæranda má ráða að gagnaðilinn í málinu hafi verið bæði drykkfelldur og ofbeldisfullur.
Á meðal eigna voru bæði fasteignir, lausafjármunir og fyrirtækið T ehf. sem eiginmaðurinn hafði rekið undanfarin ár. Að sögn kæranda skráði skiptastjóri félagið til sölu, en engir sölumenn fengu þó nokkurn tíma að skoða félagið að neinu leyti. Félagið var verðmetið af endurskoðendaskrifstofunni E og liggur fyrir verðmatsútreikningur, dags. 3. júní 2013, þar sem félagið er metið til tæpra 30 milljón króna. Þá liggur fyrir samningur um þessa þjónustu þar sem gert er ráð fyrir að kærandi og eiginmaður hennar séu verkkaupar en hún ein skrifar undir. Ber þessi útreikningur þannig með sér að hafa verið framkvæmdur einhliða á hennar vegum, en kærandi kveður skiptastjóra hafa haft forgöngu um að hans væri aflað.
Kærandi hefur lagt fram ódagsett skjal, undirritað af henni sjálfri, þar sem saman eru teknar kröfur hennar að fjárhæð 27.521.356 kr. Er þar um að ræða kröfur vegna rekstrar fasteignar búsins[...]á árunum 2012 og 2013, kröfur á fyrirtækið T ehf. vegna bæði launa og ógreiddra arðgreiðslna og kröfur sem virðist beint að eiginmanninum, þ.e. vegna lífeyris og móðurarfs.
Þá liggja fyrir í málinu drög skiptastjóra, dags. 8. apríl 2014, að frumvarpi til úthlutunar vegna opinberra skipta hjónanna. Samkvæmt drögunum hefur önnur fasteign búsins verið seld þriðja manni, en hin er lögð út til eiginmannsins, sem jafnframt hefur yfirtekið veðlán á eigninni. Bifreið hefur verið afsalað til kæranda, en fram kemur að hún hefur selt hjólhýsi í eigu búsins án heimildar skiptastjóra. Hvort hjónanna heldur samkvæmt frumvarpinu sínum hlut í fyrirtækinu T ehf. Ekki er ljóst hvort þetta frumvarp hefur verið samþykkt eða hvort skiptum er lokið.
Í málinu liggur fyrir reikningur kærða að fjárhæð 1.920.000 auk vsk., dags. 18. febrúar 2014. Um er að ræða 120 tíma vinnu á tímagjaldi sem nemur 16.000 kr. Þá hefur kærði lagt fram tímaskýrslu sína vegna málsins frá 15. febrúar 2013 til 8. apríl 2014 þar sem gerð er grein fyrir 120 vinnustundum.
II.
Kærandi telur að langverðmætasta eign búsins hafi verið félagið um atvinnurekstur eiginmannsins. Fljótt hafi legið fyrir að eiginmaður hennar ætlaði sér ekkert annað en að tæma félagið af eignum yfir í nýtt félag og gera þessa hjúskapareign sína þannig verðlausa. Hafi skiptastjórinn í engu brugðist við. Hafi það viðgengist að eiginmaðurinn fyrrverandi mætti ölvaður á skiptafundi, en skiptastjórinn hafi ekki tekið yfir fyrirtækið eða gert neinar ráðstafanir til að tryggja hagsmuni búsins. Kærði hafi ekki gert neinar athugasemdir vegna þessa. Hafi skiptum lokið þannig að skiptastjóri hafi skilið við hana sem helmingseiganda að umræddu félagi, en það hafi verið markmið sitt við skiptin að koma félaginu í verð. Telur kærandi félagið hafa verið um 100 milljóna króna virði.
Kærandi telur kærða lítt hafa unnið að málinu. Hann hafi eingöngu verið í tölvupóstsamskiptum við hana og mætt á nokkra skiptafundi, þar sem hann hafi ekki gert annað en að hlusta.
III.
Greinargerð kærða verður skilin svo að hann hafni öllum kröfum kæranda. Hann vísar til tímaskýrslu sinnar varðandi framgang málsins. Hann kveður skiptin hafa verið tímafrek þar sem djúpur ágreiningur hafi verið með aðilum um nánast allt er laut að skiptunum. Hafi mikill tími farið í að reyna að ná sáttum, sem svo hafi ekki tekist og hafi skiptastjóri að lokum ákveðið að leysa upp þær eignir búsins sem unnt var að leysa upp. Kærði kveðst hafa unnið í samræmi við óskir kæranda. Þó hafi sumar óskir hennar verið þess eðlis að þær hafi tæplega verið til framgöngu skiptunum. Þannig hafi kærandi óskað eftir því að hann setti fram kröfu um að skiptastjóri væri leystur frá störfum, en kærði hafi ekki talið neinar forsendur til þess. Bendir kærandi á að undirrót þessarar kröfu virðist vera skeyti frá öðrum lögmanni, sem aðstoðaði kæranda í öðru máli, þar sem þetta er lagt til án rökstuðnings. Kveðst kærði hafa stillt upp slíkri kröfu og farið yfir hana með kæranda og hafi kærandi þannig séð að slíkt væri án málefnalegra raka og líklega erindisleysa.
Kærði kveður kæranda hafa tafið skiptin með framferði sínu. Hún hafi selt hjólhýsi í eigu búsins í óþökk skiptastjóra og neitað að afhenda honum kaupverðið. Þá hafi hún neitað að sýna fasteign búsins eða að leyfa skiptastjóra að skoða hana. Loks hafi hún neitað að víkja úr fasteigninni eftir að skiptastjóri ráðstafaði henni. Kveðst kærði hafa ráðið kæranda frá þessum ráðstöfunum og leggur fram tölvupósta sem hann telur staðfesta það.
Niðurstaða.
I.
Sá sem telur lögmann hafa í störfum sínum gert á sinn hlut með háttsemi sem stríðir gegn lögum eða siðareglum lögmanna getur sent kvörtun til úrskurðarnefndar lögmanna, sbr. 1. mgr. 27. gr. lögmannalaga, nr. 77/1998. Í afgreiðslu á erindi sem berst nefndinni getur hún fundið að vinnubrögðum lögmanns eða veitt honum áminningu, ef um stórfelld eða ítrekuð brot er að ræða, sbr. 2. mgr. 27. gr. lögmannalaga. Ef sakir eru miklar eða lögmaður hefur ítrekað sætt áminningu getur nefndin í rökstuddu áliti lagt til við ráðherra að réttindi lögmannsins verði felld niður tímabundið eða hann sviptur réttindum.
Samkvæmt 1. gr. siðareglna lögmann ber lögmanni að efla rétt og hrinda órétti. Skal lögmaður svo til allra mála leggja, sem hann veit sannast eftir lögum og sinni samvisku. Í II. kafla siðareglnanna er fjallað um skyldur lögmanna gagnvart skjólstæðingum sínum. Þar segir m.a. í 8. gr. að að í samræmi við meginreglu 1. gr. skuli lögmaður leggja sig fram um að gæta hagsmuna skjólstæðinga sinna og í 12. gr. að lögmanni, sem tekur að sér verkefni, beri að reka það áfram með hæfilegum hraða. Skal hann tilkynna skjólstæðingi sínum ef verkið dregst eða ætla má að það dragist.
Í 3. mgr. 8. gr. siðareglnanna er jafnframt mælt fyrir um að lögmaður skuli ekki taka að sér verkefni, sem hann veit eða má vita að hann er ekki fær um að sinna af kunnáttu og fagmennsku, nema verkið sé unnið í samstarfi við hæfan lögmann á viðkomandi sviði.
Sem fyrr greinir er meginumkvörtunarefni kæranda að gagnaðili hennar í skiptamáli þeirra hafi komist upp með að tæma félag sitt af eignum án þess að skiptastjóri brygðist við og án þess að kærði gætti hagsmuna sinna að þessu leyti.
Fyrir liggur að E ehf. var fengið til að meta umrætt fyrirtæki og það er óumdeilt að því var komið í sölumeðferð á vegum skiptastjóra. Að öðru leyti liggur ekkert fyrir um samskipti aðila vegna þess. Kærandi hefur lagt fram tölvupósta sem hún telur sýna fram á að ekkert hafi komið frá lögmanninum eftir ítrekaða fundi þeirra. Umræddir tölvupóstar eru allir frá tímabilinu frá 20. mars - 1. apríl 2014, þ.e. á stuttu tímabili meira en ári eftir upphaf skipta. Veita þeir enga vísbendingu um gang málsins eða samskipti kærða við kæranda eða aðra utan þessa tímabils.
Hefur þannig í engu verið sýnt fram á að framganga kærða hafi verið óeðlileg eða aðfinnsluverð. Það athugast í þessu samhengi að enda þótt skiptastjóra og lögmanni kæranda hafi ekki tekist að ná þeim tökum á fyrirtæki gagnaðilans við skiptin sem óskað var, er ekki þar með sagt að aðgerða- eða kunnáttuleysi sé um að kenna. Við skipti á búi hjóna og sambúðarfólks er unnt að setja fram kröfu um að eigandi sé sviptur vörslum hjúskapareignar sinnar, sbr. 107. gr. lag nr. 20/1991, en engin gögn hafa verið lögð fyrir nefndina um að það hafi yfirleitt komið til greina, en ljóst er að slík vörslusvipting getur haft afdrifarík áhrif á söluverð fyrirtækis í rekstri.
Í ljósi alls ofangreinds verður því hafnað að beita kærða viðurlögum samkvæmt 27. gr. laga nr. 77/1998.
Ú R S K U R Ð A R O R Ð :
Kærði, R hdl., hefur í störfum sínum ekki gert á hlut kæranda, A, með háttsemi sem stríðir gegn lögum eða siðareglum lögmanna.
ÚRSKURÐARNEFND LÖGMANNA
Kristinn Bjarnason hrl., formaður
Einar Gautur Steingrímsson hrl.
Valborg Þ. Snævarr hrl.
________________________
Haukur Guðmundsson