Mál 26 2014
Ár 2015, föstudaginn 27. mars, var haldinn fundur í úrskurðarnefnd lögmanna í húsnæði Lögmannafélags Íslands að Álftamýri 9, Reykjavík.
Fyrir var tekið málið nr. 26/2014:
A og B
gegn
R hrl.
og kveðinn upp svofelldur
Ú R S K U R Ð U R :
Úrskurðarnefnd lögmanna barst þann 23. október 2014 erindi kærenda, A og B vegna R hrl., þar sem kvartað var yfir áskilinni þóknun og störfum kærða, R hrl, að erfðamáli f.h. kærenda.
Óskað var eftir greinargerð frá kærða um erindið þann 27. október 2014. Kærði skilaði greinargerð vegna málsins þann 13. nóvember 2014.
Kærendum var gefinn kostur á að tjá sig um greinargerð kærða þann 21. nóvember 2014. Athugasemdir bárust frá kærendum þann 12. desember 2014. Þann 30. desember 2014 var kærða gefinn kostur á að gera athugasemdir við bréf kærenda og bárust lokaathugasemdir hans þann 21. janúar 2015. Voru þær kynntar kærendum með bréfi nefndarinnar þann 22. janúar 2015.
Málsatvik og málsástæður.
I.
D lést þann 18. febrúar 2014. Hann átti ekki niðja og hafði ekki gert erfðaskrá. Einkaerfingi var eftirlifandi eiginkona hans, E. Fékk hún leyfi til einkaskipta eftir D og lauk skiptum 5. maí 2014.
E lést 16. júní 2014. Hún var barnlaus og hafði ekki gert erfðaskrá. Eini lögerfingi hennar var systir hennar, F. Ágreiningslaust er að F var ókunnugt um 1. mgr. 6. gr. erfðalaga, sem mælir fyrir um að hafi það hjóna, sem lengur lifir, verið einkalögerfingi þess, sem fyrr lést, og það andast án þess að hafa gengið í hjónaband að nýju eða látið eftir sig arfgenga niðja, skuli eignir þess skiptast milli erfingja beggja hjóna að jöfnu, enda hafi maki ekki ráðstafað eignum sínum með erfðaskrá á annan hátt. Óskaði F eftir leyfi til einkaskipta hjá sýslumanninum í Reykjavík og fékk einkaskiptaleyfi 22. júlí 2014.
Kærendur eru systrabörn D. Þau gáfu sig fram við sýslumanninn í Reykjavík í ágúst 2014. Jafnframt óskuðu þau eftir opinberum skiptum á dánarbúi E.
Í framhaldi af þessu ræddu erfingjar saman og komust að þeirri niðurstöðu að hagfelldast væri fyrir þá að skipta dánarbúinu einkaskiptum. Óskuðu þeir eftir því við kærða þann 8. september 2014 að hann aðstoðaði þá við einkaskiptin. Daginn eftir var haldinn fundur á skrifstofu kærða með erfingjunum. Þar var gengið frá umboði til kærða þar sem honum var falið að óska einkaskipta á búinu.
Kærði afturkallaði svo beiðni um opinber skipti hjá héraðsdómi og lagði fram beiðni um einkaskipti hjá sýslumanni. Hélt hann erfingjum upplýstum um þessi samskipti sín með tölvupóstum til þeirra.
Þann 22. september barst kærða svo tölvupóstur frá kærendum ásamt gögnum, þ.á.m. erfðafjárskýrslu úr dánarbúi D, þar sem fram kom að lausafé í búi hans hafi numið ríflega 24 milljónum króna. Á dánardegi E átti hún hins vegar aðeins 1.8 milljónir af þessu fé. Boðaði kærði til fundar með erfingjum af þessu tilefni. Ekki liggur fyrir fundargerð af þeim fundi en eftir því sem ráða má af gögnum málsins kom þar fram af hálfu samerfingja kærenda að E hefði tekið mjög mikið af fé út af bankareikningum sínum mjög skömmu fyrir andlát og gefið það fé nákomnum. Ágreiningur er um hver viðbrögð kærða urðu við þessum tíðindum.
Í framhaldi af þessu ákváðu kærendur að óska opinberra skipta á dánarbúinu og afturkölluðu þau umboð sitt til kærða.
Fyrir liggur tímaskrá kærða vegna starfans, sem nemur samtals 16,75 tímum. Á tímaskránni eru alls 4 tímar skráðir á dagana 8. og 9. september vegna undirbúnings fundar, fundar með erfingjum, umboð, samskipti við héraðsdóm og erfingja.
Þann 10. september eru skráðir 6 tímar vegna bréfs til héraðsdóms, samsk við aðila - ath. hjá sýslum ofl. Daginn eftir, þann 11. september eru 3,5 stundir skráðar vegna bréfs til sýslumanns og tölvupóstsamskipta. Loks eru skráðir samtals 3,25 tímar á dagana 22. til 25 september vegna síðari fundarins, ástamt undirbúningi hans samsk við fasteignasala og samskipti við erfingja og lögmann þeirra.
Kærði gaf í framhaldi af þessu út reikning fyrir vinnu sína, byggðan á tímaskráningunni. Á reikningnum kemur hvorki fram á hvaða grunni þóknun er reiknuð, fjöldi tíma, né tímagjald. Af gögnum málsins verður þó ráðið að innheimt er fyrir 16,75 tíma vinnu á tímagjaldinu 22.900. Er umkrafin fjárhæð vegna starfans fyrir alla erfingja án virðisaukaskatts því kr. 383.575, en af henni eru kærendur krafin um helming, þ.e. kr. 191.788, eða kr. 240.693 að virðisaukaskatti meðtöldum.
II.
Kærendur gera í fyrsta lagi athugasemdir við það sem þeir telja ófullnægjandi hagsmunagæslu fyrir sína hönd. Byggja þeir á því að kærði hafi ekki væri tilefni til að aðhafast eða kanna sérstaklega mjög peningaúttektir af reikningi arfleifanda að fjárhæð á þriðja tug milljóna, örfáum dögum fyrir andlát hennar. Hafi þessi viðbrögð kærða verið óeðlilegt þar sem ekki hafi verið ljóst hvert var umboð þess sem tók féð út, hvernig fénu var ráðstafað og hver tók ákvörðun um ráðstöfun þeirra. Telja kærendur að kærði hefði átt að leiðbeina þeim um að mikilvægi þess að kanna betur þennan gerning.
Kærendur krefjast þess að reikningur kærða verði lækkaður um 2/3, þannig að aðeins komi til greiðslu kr. 63.929 auk virðisaukaskatts. Þá krefjast þau málskostnaðar fyrir nefndinni.
Kærendur gera margvíslegar athugasemdir við tímaskýrslu kærða. Telja þau kærða krefja um þriggja stunda vinnu vegna klukkustundar langs fundar þann 9. september. Sex klukkustunda vinna daginn eftir sé vegna eins bréfs og stuttlegra tölvupóstsamskipta. Þann 11. september séu svo enn unnar 3,5 stundir án þess að séð verði hvað búi að baki svo mörgum tímum. Þá sé tímaskráning vegna samskipta við lögmann þeirra þann 25. september fjarri lagi, því skráðar séu 45 mínútur vegna þriggja línu tölvupósts.
III.
Kærði kveðst hafnar öllum ásökunum kærðu og öllum athugasemdum þeirra við tímaskráningu sína og reikningsgerð. Er litið svo á að hann krefjist þess að öllum kröfum kærenda verði hafnað. Þá krefst kærði málskostnaðar fyrir nefndinni úr hendi kærenda.
Kærði hafnar því að hann hafi nokkru sinni lýst neinni skoðun á þeim frásögnum sem fram hafi komið um umræddar peningaúttektir og ráðstöfun þess fjár. Hafi hann heldur ekki lýst þeirri skoðun að ekki þyrfti að kanna þetta athæfi nánar eða að ekkert væri hægt að gera annað en að halda áfram með einkaskiptin. Hins vegar kemur fram í málatilbúnaði kærða að hann hafi leiðbeint kærendum um að E heitin hefði farið með fullt forræði á búi sínu og átt rétt á því að ráðstafa öllum sínum fjármunum í lifanda lífi.
Kærði telur að gjaldtakan sé einfaldlega í samræmi við það sem samið var um og í samræmi við tímaskráningu og það verk sem unnið var.
Kærandi telur að tímaskráningar sínar séu í hvívetna eðlilegar. Enda þótt fundur þann 9. september hafi aðeins tekið klukkustund, þá sé ótalin undirbúningsvinna fyrir fundinn, umboðsgerð, fundargerð og samskipti við héraðsdóm og erfingja eftir fundinn. Sé þriggja tíma skráning þennan dag síst um of.
Kærandi telur einnig að sex tíma vinna daginn eftir hafi farið í að skrifa bréf til héraðsdóms, vera í samskiptum við aðila, athugun á stöðu einkaskiptamálsins hjá sýslumanni ofl. svo sem rakið sé í tímaskráningu. Hér sé einnig um að ræða vinnu við skoðun á gögnum og eignum búsins, tölvupóstar og símtöl við erfingja. Þennan dag hafi bæði verið rætt við embætti sýslumanns í síma og farið á fund þangað vegna málsins. Hafi þetta tekið fullar sex stundir.
Loks telur kærandi að 45 mínútna færsla þann 25. september feli ekki aðeins í sér vinnu við að móttaka tölvupóst frá lögmanni kærenda og svara honum. Einnig sé um að ræða vinnu kærða við að tilkynna gagnaðila um afturköllun umboðs síns.
Niðurstaða.
Rétt þykir að fjalla fyrst um þá umkvörtun sem kærðu hafa fært fram vegna starfa kærða, en síðan um ágreining þeirra um endurgjald kærða. Áréttað skal að sönnunarbyrði vegna þess sem óljóst þykir verður ekki lögð með sama hætti á aðila í þessum tveimur þáttum málsins.
I.
Sá sem telur lögmann hafa í störfum sínum gert á sinn hlut með háttsemi sem stríðir gegn lögum eða siðareglum lögmanna getur sent kvörtun til úrskurðarnefndar lögmanna, sbr. 1. mgr. 27. gr. lögmannalaga, nr. 77/1998. Í afgreiðslu á erindi sem berst nefndinni getur hún fundið að vinnubrögðum lögmanns eða veitt honum áminningu, ef um stórfelld eða ítrekuð brot er að ræða, sbr. 2. mgr. 27. gr. lögmannalaga. Ef sakir eru miklar eða lögmaður hefur ítrekað sætt áminningu getur nefndin í rökstuddu áliti lagt til við sýslumann að réttindi lögmannsins verði felld niður tímabundið eða hann sviptur réttindum.
Samkvæmt 1. gr. siðareglnanna ber lögmanni að efla rétt og hrinda órétti. Skal lögmaður svo til allra mála leggja, sem hann veit sannast eftir lögum og sinni samvisku.Í 8. gr. siðareglnanna kemur fram að í samræmi við meginreglu 1. gr. skal lögmaður leggja sig fram um að gæta hagsmuna skjólstæðinga sinna. 10. gr. reglnanna mælir fyrir um að lögmaður skal ætíð gefa skjólstæðingi hlutlægt álit á málum hans.
Úrskurðarnefndin telur ekki að kærendur hafi sýnt fram á að kærði hafi brotið gegn siðareglum lögmanna eða veitt þeim ófullnægjandi ráðgjöf. Ekkert liggur fyrir um viðbrögð kærða í framhaldi af því að upplýst var um umræddar peningaúttektir og kærði andmælti þegar í stað fullyrðingum kærenda um að hann hefði talið rétt að aðhafast ekki vegna þeirra. Verða ekki gerðar aðfinnslur við störf kærðu eða beitt viðurlögum á grundvelli 27. gr. lögmannalaga vegna máls þessa.
II.
Hægt er að skjóta ágreiningi um rétt lögmanns til endurgjalds og fjárhæð þess til úrskurðarnefndar lögmanna, sbr. 26. gr. lögmannalaga.
Samkvæmt 1. mgr. 24. gr. lögmannalaga, nr. 77/1998, er lögmanni rétt að áskilja sér hæfilegt endurgjald fyrir störf sín.
Hvorki er ágreiningur um að gjaldtaka kærða grundvallast á tímavinnu né um fjárhæð tímagjalds. Þá virðist ágreiningslaust að kærendum ber að greiða kærða helming af umræddum kostnaði. Lýtur ágreiningurinn alfarið að tímaskráningu þeirri sem reikningur kærða byggir á.
Kærði hefur lagt fram töluvert af gögnum sem veita allgóða vísbendingu um umfang starfa hans vegna umræddra einkaskipta. Umfram það sem fram kemur í umræddum gögnum má svo gera ráð fyrir að eitthvað sé um símtöl, fundi, s.s. fram kemur í umræddum tímaskráningum og málatilbúnaði kærða.
Nefndin telur ekki óeðlilegt að það hafi tekið kærða 4 tíma að taka við erindi erfingjanna, undirbúa fund, útbúa umboð sitt, halda fundinn, rita og senda út fundargerð og hefja aðgerðir við að afturkalla opinber skipti á dánarbúinu.
Þá þurfti að ræða við embætti sýslumanns vegna þeirrar breyttu stöðu sem upp var komin frá því einkaskiptaleyfi hafði áður verið gefið út. Hins vegar bera gögn málsins ekki með sér að kærði hafi komið fasteign búsins í sölu eða gert að öðru leyti meira en að vera í sambandi við erfingja og yfirvöld til að undirbúa framkvæmd skiptanna. Telur nefndin ekkert í gögnunum eða málatilbúnaði kærða skýra að 9,5 stundir hafi verið unnar í þágu búsins dagana 10. og 11. september, jafnvel þótt tekið sé tillit til þess að kærði var í samskiptum við erfingja og upplýsti þá um framgang málsins. Verður gjaldtaka kærða vegna þessa lækkuð eins og í úrskurðarorði greinir.
Það er á hinn bóginn ekki ástæða til að gera athugasemd við að það hafi tekið kærða alls 3,25 stundir að ljúka málinu eftir að upplýst var um hinar umdeildu peningaúttektir í ljósi þess að kærði þurfti að fara yfir gögn og átta sig á þýðingu þeirra, boða til fundar og í framhaldi af þeim fundi barst kærða afturköllun umboðs sem gera þurfti gagnaðila grein fyrir.
Rétt þykir að hvor aðila um sig beri sinn kostnað af máli þessu.
Ú R S K U R Ð A R O R Ð :
Hæfilegt endurgjald kærða, R hrl., vegna starfa að einkaskiptum í þágu kærenda,A og B, í skilningi 1. mgr. 24. lögmannalaga nr. 77/1998, er kr. 145.987 auk virðisaukaskatts.
ÚRSKURÐARNEFND LÖGMANNA
Kristinn Bjarnason hrl., formaður
Einar Gautur Steingrímsson hrl.
Valborg Þ. Snævarr hrl.
________________________
Haukur Guðmundsson