Mál 28 2014

 

 

Ár 2015, föstudaginn 22.maí, var haldinn fundur í úrskurðarnefnd lögmanna í húsnæði Lögmannafélags Íslands að Álftamýri 9, Reykjavík.

Fyrir var tekið málið nr. 28/2014:

A

gegn

B hdl. og lögmannsstofu X.

og kveðinn upp svofelldur

 

Ú R S K U R Ð U R :

Í erindi A til úrskurðarnefndar lögmannavar kvartað yfir háttsemi B hdl. o.fl. lögmanna vegna verkefnis sem kærandi kvað kærðu hafa tekið að sér án þess að því hefði verið réttilega sinnt.

I.

Erindið barst skrifstofu LMFÍ 3. nóvember 2014 og fylgdu því ýmis gögn sem félaginu bárust í nokkrum tölvupóstum frá 13. nóvember til 4. desember s.l. Umrædd gögn telja mörg hundruð blaðsíður, en þeim fylgdi ekkert efnisyfirlit eða greinargerð.

Kæranda var sent bréf þann 22. janúar 2015, þar sem farið var fram á að tiltekin atriði yrðu skýrð, svo unnt yrði að taka málið til efnislegrar afgreiðslu. Í bréfinu kemur m.a. eftirfarandi fram:

  • Úrskurðarnefnd lögmanna starfar samkvæmt lögmannalögum, nr. 77/1998. Samkvæmt 27. gr. laganna getur hver sá sem telur að lögmaður hafi í starfi sínu gert á sinn hlut með háttsemi sem stríði gegn lögum eða siðareglum lögmanna lagt fyrir úrskurðarnefnd lögmanna kvörtun á hendur lögmanninum. Nefndin vísar kvörtun frá sér ef lengri tími en eitt ár er liðið frá því að kostur var á að koma henni á framfæri. Það sama gildir um mál sem snúast um fjárhagslegan ágreining eingöngu.
  • Í erindinu kemur fram að það beinist annars vegar að B hdl. en hins vegar að lögmannsstofunni X. Oftast beinast mál að lögmönnum persónulega jafnvel þótt þeir hafi sjálfir eða í félagi við aðra stofnað fyrirtæki um rekstur sinn. Í framkvæmd hafa mál um fjárhagslegan ágreining á milli einstaklinga og lögmannsstofa þó einnig komið fyrir nefndina og á það einkum við ef viðkomandi stofa hefur fengið umboð til að vinna að málum viðkomandi og hefur á grundvelli slíks umboð gert honum reikning í eigin nafni. Þess er óskað að þér upplýsið hverjum þér veittuð umboð og fóluð að koma fram fyrir yðar hönd og eftir atvikum hvort þér viljið í því ljósi beina kærunni að X lögmannsstofu eða einstökum lögmönnum og þá hverjum.
  • Erindi yðar fylgdi ekki heilsteypt atvikalýsing þar sem gerð væri grein fyrir því hvenær þau atvik urðu sem kvartað er yfir. Af þessu tilefni er yður gefinn kostur á að upplýsa úrskurðarnefnd lögmanna um hvenær þau störf vöru unnin sem kvartað er yfir. Er í þessu ljósi sérstaklega bent á tölvuskeyti B hdl. til yðar, dags. 4. nóvember sl., þar sem fram kemur að hann hafi lokið afskiptum af máli yðar á árinu 2012.
  • Af erindi yðar má annars ráða að kvörtunin snúi í fyrsta lagi að því að umræddum lögmönnum hafi verið falið að fara með mál yðar gegn Íbúðalánasjóði fyrir dóm, en það hafi þeir ekki gert. Þess er farið á leit að þér staðfestið að þetta sé réttur skilningur á erindinu og jafnframt að þér leggið fram sérgreind gögn sem styðja þetta ef þeim er til að dreifa.
  • Kvörtunin virðist í öðru lagi snúast um að innheimt hafi verið of hátt gjald vegna vinnunnar þar sem fleiri tímar hafi verið skráðir en raunverulega hafi verið unnir. Þess er óskað að þér staðfestið að þetta sé réttur skilningur á erindinu og að þér leggið fram sérgreint umræddar tímaskrár ef þeim er til að dreifa og gerið grein fyrir athugasemdum yðar við þær.
  • Loks er þess óskað að þér staðfestið að það sé réttur skilningur á kröfugerð yðar að þér viljið fá endurgreidda að fullu 700.000 kr. sem þér hafi greitt fyrir þjónustu þeirra lögmanna sem kvörtunin beinist gegn,.

Var þess farið á leit að kærandi sendi nefndinni umbeðnar upplýsingar fyrir 15. febrúar 2015. Kærandi fékk í framhaldi af því frekari frest til að svara bréfinu, m.a. vegna þess að hann taldi sér nauðsynlegt að afla aðstoðar við það.

 

Þann 1. apríl 2014 barst svar kæranda. Í svarinu er fullyrt að kærðu hafi tekið að sér mál kæranda. Verður ráðið af svarinu að um hafi verið að ræða dómsmál sem kærandi vildi að yrði rekið, en jafnframt virðist málsmeðferð hjá Umboðsmanni skuldara (UMS) og nauðungarsala á fasteign hafa komið við sögu. Aðal umkvörtunarefnið er að kærandi telur að kærðu hafi aldrei unnið neitt að máli hans, en jafnan krafið hann um greiðslur þegar hann forvitnaðist um hvar mál hans væri statt. Hafi þetta leitt til þess að traust hans til kærðu hafi horfið. Þá má ráða af svarinu að kærandi telur sig hafa greitt kærðu yfir 800.000 kr. vegna málsins og telur hann að lögmannafélagið eigi að athuga hver eigi posa sem notaður hefur verið til að gjaldfæra greiðslukort hans vegna vinnu kærðu. Annars var spurningum í bréfi nefndarinnar ekki svarað sérstaklega.

 

II.

Það er mat úrskurðarnefndar að henni sé fullkomlega ókleift að leggja nokkurt mat á málatilbúnað kæranda. Enda þótt kærandi hafi kvartað yfir að máli hans hafi ekki verið sinnt nægilega vel og að of mikið hafi verið innheimt fyrir vinnslu þess, skortir svo mikið á að botn fáist í kröfur hans, aðild að málinu varnarmegin og umkvörtunarefnin að engan vegin er unnt að taka til varna í málinu eða leggja mat á umkvartanir hans. Bætir það ekki úr að málsgögnin eru geysilega yfirgripsmikil og óskipulega fram sett. Tilraunir nefndarinnar til að varpa ljósi á málið að þessu leyti hafa engan árangur borið. Verður ekki hjá því komist að vísa máli þessu frá nefndinni.

 

Ú R S K U R Ð A R O R Ð :

Máli kæranda, A, er vísað frá úrskurðarnefnd lögmanna.

 

ÚRSKURÐARNEFND LÖGMANNA

Valborg Þ. Snævarr, hrl., formaður

Einar Gautur Steingrímsson, hrl.

Kristinn Bjarnason, hrl.

Rétt endurrit staðfestir

________________________

Haukur Guðmundsson