Mál 33 2013

Ár 2014, þriðjudaginn 13. maí 2014, var haldinn fundur í úrskurðarnefnd lögmanna í húsnæði Lögmannafélags Íslands að Álftamýri 9, Reykjavík.

Fyrir var tekið málið nr. 33/2013:

A

gegn

R hdl.

 og kveðinn upp svofelldur

Ú R S K U R Ð U R :

Úrskurðarnefnd lögmanna barst þann 23. desember 2013 erindi kæranda, A, þar sem kvartað var yfir störfum kærða, R hdl., í tengslum við kröfu umbjóðanda kærða um sviptingu fjárræðis föður hans.

Óskað var eftir greinargerð frá kærða um erindið þann 16. janúar 2014. Greinargerð kærða barst þann 12. febrúar 2014. Kæranda var gefinn kostur á að tjá sig um greinargerð kærða og bárust athugasemdir hans þann 31. mars 2014. Kærða var gefinn kostur á að koma á framfæri lokaathugasemdum sínum þann 3. apríl 2014. Kærði tilkynnti þann 7. apríl 2014 að hann hefði ekki frekari athugasemdir vegna málsins.

Málsatvik og málsástæður.

I.

Mál þetta varðar kröfu um sviptingu fjárræðis föður kærða. Kærandi setti kröfuna fram fyrir hönd umbjóðanda síns, sem er bróðir kæranda. Faðir bræðranna sat í óskiptu búi eftir andlát konu sinnar B. Faðir bræðranna hafði hafið skipti á búi sínu. Faðir þeirra hafði leitað til lögmanns sem kom í framhaldinu með tillögur um greiðslur úr búinu.

Krafa um sviptingu fjárræðis föður kæranda virðist í grunninn hafa byggst á aðkomu kæranda að skiptum búsins og því að kærandi sinnti málum fyrir hönd föður kæranda og umbjóðanda kærða.

Þann 22. janúar 2014 var mál um fjárræðissviptingu föður kæranda fellt niður, á grundvelli læknisvottorðs þar sem læknir mælti ekki með fjárræðissviptingunni. Lögmanni föður kæranda var tilkynnt um niðurfellingu málsins með bréfi, dagsettu 21. febrúar 2014.

II.

Kærandi krefst þess að kærði fái þyngstu ávítur eða viðurlög og greiði kæranda málskostnað og skaðabætur.

Kærandi telur kærða hafa borið sig þungum ærumeiðandi og refsiverðum sökum í greinargerð varðandi kröfu um sviptingu fjárræðis föður hans. Um grafalvarlegar ávirðingar sé að ræða af hálfu kærða.

Kærandi bendir á að ásakanir á hendur honum séu um að hafa beitt aldraðan föður hans ofbeldi og þvingunum. Sé hann þar með gerður að afgerandi fremjanda í málatilbúnaði lögmannsins án þess að fá komið nokkrum vörnum við þar sem hann hafi ekki aðild að málinu.

Kærandi mótmælir ávirðingum kærða harðlega. Þá mótmælir hann þeim ávirðingum sem eru ómaklega bornar á föður hans, þótt það hafi ekki beint með þessa kvörtun að gera. Þá mótmælir hann þeim ávirðingum sem bornar séu á lögmann þann sem aðstoðaði föður þeirra bræðra.

Kærandi kveður málatilbúnað og framsetningu kærða hafa sett hann í óþarfa og umfangsmikla vinnu við að verja æru sína, að ógleymdum kostnaði, vinnu við að leiðrétta ályktanir og atriði sem séu úr samhengi og vel hefði mátt sannreyna með eðlilegum vinnubrögðum. Hér sé ekki um að ræða eitthvað léttvægt ágreiningsmál sem gott væri að fá úrskurð dómstóla til að leysa úr heldur aðför að frelsi og æru einstaklings, föður kæranda, sem á sínu ævikvöldi vill ganga frá einkabússkiptum áður en hann fellur frá.

Kærandi telur kærða ekki hafa leitað sér upplýsinga og staðreynda um aðstæður föður kæranda frá láti eiginkonu hans 28. nóvember 2010. Greinargerð og fylgiskjöl kærða með fjárræðissviptingarkröfunni gefi ekki heildstæða mynd af gangi mála og gefi því villandi mynd af framvindu mála, þá sérstaklega á tímabilinu 7. október til 20. nóvember. Málatilbúnaður kærða byggi nánast einvörðungu á mati eins aðila, þ.e. skjólstæðings hans.

Kærandi telur að draga megi þá ályktun af ýmsum missögnum og misvísunum í greinargerðartexta og af dagsetningu kröfugerðarinnar 18. nóvember 2013 að krafan hafi verið sett fram í flýti án staðreyndakönnunar og eðlilegs yfirlestrar.

Kærandi bendir á að af greinargerð og framlögðum gögnum verði ekki séð að neinar sannanir séu færðar fram sem geti réttlætt svo ærumeiðandi fullyrðingar og kröfu á hendur föður kæranda og ærumeiðandi ásakanir á hendur kæranda og lögmanns föður kæranda. Kærði virðist ekki hafa talið sig þurfa að sannreyna nokkrar af framkomnum staðhæfingum skjólstæðings síns þótt honum hafi verið bent á að hann væri kannski ekki með nákvæmar upplýsingar um atriði er málið varði. Kærði hafi ekki reynt að fá læknisvottorð til staðfestingar mats umbjóðanda síns. Við svona aðstæður verði lögmaður að ráða skjólstæðingi sínum heilt og gera siðferðilegar kröfur til sjálfs sín, ekkert síður en kröfur lögfræðilegs eðlis.

Kærandi telur að ásakanir á hendur honum sem tíundaðar séu í fjárræðissviptingarkröfunni séu augljóslega málatilbúnaðar sem settur sé inn í kröfuna sem einhvers konar rökstuðningur fyrir vanhæfi og vangetu föður kæranda til að ráða eignum sínum. Þessi framgangsmáti sýni vanhæfi kærða til að leggja fram eins afgerandi kröfu fyrir dómstóla og um ræði, þar sem kæranda sé ekki ætlað að koma neinum vörnum við. Framganga kærða hafi valdið búinu tilhæfulausum kostnaði og þar með valdið föður kæranda, sem og kæranda, tjóni og óþarfa áþján, með alvarlegum ásökunum um ofbeldi.

Kærandi kveður þá spurningu vakna hvort kærði gangi svo langt að setja fram kröfu um sviptingu fjárræðis í von um að faðir kæranda muni ganga að kröfum bróður kæranda um búskiptin, þar sem hann viti að faðir hans sé ekki gefinn fyrir átök. Að beita þvingun til sátta sé andlegt ofbeldi.

Kærandi telur að þegar málið sé skoðað í heild sinni þá sé varla hægt að segja annað en að um sé að ræða grimmúðlega aðför að heiðvirðum manni sem vilji aðeins með einkabúskiptum eigna sinna og eiginkonu sinnar heitinnar ljúka sviptum svo að börn hans megi njóta góðs af.

Kærandi telur lögræðissviptingarmálið hið mesta óþarfa mál, gert af vanhugsun og í fljótræði. Ábyrgð kærða sé mikil þar sem lögmannsréttindi leggi honum skyldur á herðar um faglega og heiðarlega framsetningu mála.

Kærandi rekur í kjölfarið hverja málsgrein í greinargerð með kröfu um sviptingu fjárræðis, og gerir ýtarlegar athugasemdir við afmörkuð atriði.

III.

Kærði krefst þess að málinu verði vísað frá nefndinni þar sem kærandi hafi ekki verið aðili að þeim málum sem kvartað sé yfir. Til vara krefst kærði þess að hann hafi í störfum sínum ekki gert á hlut kæranda sem stríði gegn lögum eða siðareglum lögmanna. Einnig gerir kærði í báðum tilvikum kröfu um að kærandi verði úrskurðaður til að greiða kæranda sanngjarnan málskostnað fyrir nefndinni.

Kærði byggir á 1. gr., 3. mgr. 3. gr., 8. gr. 10. gr., 15. gr., 2. mgr. 19. gr., 25. gr. og 34. gr. siðareglna lögmanna kröfum sínum til stuðnings.

Kærði gerir alvarlegar athugasemdir við þær alvarlegu eða óþörfu athugasemdir sem kærandi setur fram á kærða í löngu máli. Í málatilbúnaði kæranda megi finna ýmsar athugasemdir sem séu bæði ósmekklegar og kæranda óviðkomandi. Þá sé kvörtunin á engan hátt skýr heldur sé leitast við að finna að störfum kærða fyrir umbjóðanda hans, hvort sem þau komi kæranda við eða ekki. Þannig séu ýmis atriði tilgreind sem alls sé óljóst hvernig tengst geti kvörtun kæranda til nefndarinnar.

Kærði bendir á að hann sé samsamaður með málstað umbjóðanda síns og auk þess ásakaður um mögulega refsiverða háttsemi með því að hafa ásakað kæranda um að hafa beitt föður hans ofbeldi og þvingunum. Því hafi alls ekki verið haldið fram af hálfu kærða heldur vísi kærði í mat umbjóðanda síns í kröfu um fjárræðissviptingu. Þannig hafi umbjóðandi kærða talið að heilsa og aldur föður kæranda væri með þeim hætti að kærandi færi í raun með stjórn fjármála hans. Hafi umbjóðandi kærða talið að greiðslur til kæranda og tillögur sem lægju fyrir í málinu bæru það með sér.

Kærði byggir á því að það hafi verið tilfinning umbjóðanda hans að kærandi hafi mikið haft að segja um tillögur þær sem fram hafi komið í skiptamálinu enda hafi það legið fyrir að kærandi hafi sjálfur farið með gögn til lögmanns föður kæranda enda hafi faðir hans ekki verið í aðstöðu til þess. Þannig hafi umbjóðandi kærða talið að verið væri að draga taum kæranda umfram sinn og systur sinnar við skipti á búinu. Kærði kveðst hafa tekið þessa fullyrðingu trúanlega og hafi ekki talið ástæðu til að draga hana í efa.

Kærði telur að kröfur um ávítur og skaðabætur séu lítt eða órökstuddar. Kærði hafi lagt trúnað á orð skjólstæðings síns og farið með mál hans eftir lögum.

Kærði vísar til þess að hann sé ásakaður um að draga fram villandi mynd af kringumstæðum og aðstæðum s.l. þrjú ár. Kærði hafi stutt kröfu um sviptingu fjárræðis við frásögn umbjóðanda síns og fyrirliggjandi skattframtöl og færslur á bankareikningum sem lögmaður föður kæranda hafi afhent honum. Hvernig þetta hafi sett kæranda í kostnað og vinnu við að verja æru sína sé kærða ekki kunnugt um en sú vinna og kostnaður sé alls kostar óþarfur og á ábyrgð kæranda sjálfs. Þess beri að geta að þinghöld í fjárræðissviptingarmálum séu lokuð sbr. 5. mgr. 10. gr. lögræðislaga nr. 71/1997 og ekki sé annað birt opinberlega um slíka úrskurði en að tiltekinn maður hafi verið skiptur fjárræði, sbr. lögbirtingarblaðið og 2. mgr. 76. gr. laga nr. 71/1997. Því komi málavextir og annað úr slíkum málum hvergi til opinberrar birtingar. Engin óviðkomandi geti fengið afrit af úrskurðum í heild sinni nema hafa af því lögvarða hagsmuni og því alls kostar óljóst hvernig krafa um fjárræðissviptingu geti vegið að æru kæranda.

Kærði bendir á að í kvörtuninni segi að hann hafi ekki reynt að fá læknisvottorð til staðfestingar á mati sóknaraðila um tilefni til fjárræðissviptingar á föður kæranda. Kærði kveðst ekki sjá á hvaða heimildum umbjóðandi sinn gæti byggt slíka beiðni enda sé um að ræða viðkvæmar persónuupplýsingar. Í lögum nr. 71/1997 sé jafnframt gert ráð fyrir því að ekki sé í öllum tilvikum kostur á að afla læknisvottorða enda sé í 2. mgr. 8. gr. mælt fyrir um að það skuli fylgja kröfu sé þess kostur. Kærði kveðst ekki hafa talið það í þágu umbjóðanda síns og upplýsa aðila máls um fyrirætlan umbjóðanda síns áður en krafan væri sett fram, enda mætti túlka slíkt sem nokkurs konar þvingun sem ekki sé sæmandi að setja fram í ágreiningsmáli um fyrirframgreiðslu arfs.

Kærði vísar til þess varðandi athugasemdir um að hann hafi ekki hitt föður kæranda að hann hafi enga menntun, þekkingu né reynslu í læknisfræðilegu mati. Kærði sér ekki hverju slíkur fundur hefði breytt um tilefni umbjóðanda síns til að krefjast fjárræðissviptingar. Umbjóðandi kærða sé sonur föður kæranda og hafi kærði talið að hann hefði forsendur umfram kærða til að meta andlegt og líkamlegt hæfi föður kæranda. Því til stuðnings hafi umbjóðandi kærða bent á að faðir sinn hefði alltaf skrifað allt samviskusamlega hjá sér í bók þegar þeir hafi rætt um fjármál. Við eftirgrennslan um bókina hjá lögmanni föður kæranda hafi verið sagt að hún hafi aldrei verið til en það hafi umbjóðanda kærða fundist afar ósennilegt.

Kærði telur afar sérstakt hvernig allar upplýsingar og meðfylgjandi gögn með kvörtun hafi komist í hendur kæranda. Kærði sjái ekki hvernig hann hafi valdið kæranda tjóni eða álitshnekki í samningaviðræðum við lögmann vegna fyrirframgreiðslu arfs eða með kröfu sem sett sé fram í máli sem sé í lokuðu þinghaldi enda hafi kærandi ekki verið aðili þeirra mála. Í kvörtun séu settar fram ómaklegar og ósmekklegar ávirðingar á störf kæranda í mjög löngu máli og fundið að flestu sem ritað hafi verið í beiðni um fjárræðissviptingu. Gengið hafi verið svo langt að finna að orðalagi og innsláttarvillum að því er virðist í því skyni að hæðast að kærða. Kærða sé gert að sök að ásaka annan lögmann um óheilindi, að vilja hafa fé úr opinberum sjóðum og sé ítrekað samkenndur umbjóðanda sínum. Kærða hafi ekki gengið annað en gott til og trúað orðum umbjóðanda síns. Kærði kveðst ekki hafa haft ástæðu til annars en að trúa honum enda hafi ekki verið orðið við neinum athugasemdum sem fram hafi verið færðar né orðið við áskorunum um afhendingu gagna. Þá fari tvennum sögum af tilvist gagna og kærði hafi m.a. hvorki fengið í hendur afrit af erfðaskrá né minnisbók. Að þessu virtu ítrekar kærði gerðar kröfur og mælist til að honum verði úrskurðaður málskostnaður með hliðsjón af umfangi og tilefni kvörtunar en um 15 klst. hafi farið í að verjast ásökunum kæranda sem settar hafi verið fram á 28 þéttskrifuðum blaðsíðum.

IV.

Í kjölfar athugasemda kærða var kæranda gefinn kostur á að koma á framfæri athugasemdum sínum.

Kærandi mótmælir kröfum kærða um frávísun þar sem málatilbúnaður hans rökgeri kæranda gegn föður sínum. Kærandi mótmælir harðlega fullyrðingu kærða um að hann sé ekki aðili að málinu. Fullyrðingin sé einvörðungu byggð á lagatæknilegum málatilbúnaði um að um lokað þinghald væri að ræða, sem réttara væri að nefna verðandi lokað þinghald. Kærandi mótmælir harðlega kröfu um málskostnað þar sem hann sé ekki upphafsmaður þessarar kvörtunar.

Kærandi fer þess á leit, sem leikmaður á sviði lögfræði, að atriði kvörtunar hans verði felld undir viðeigandi ákvæði siðareglna LMFÍ sem honum hafi sést yfir í greinargerð sinni.

Kærandi telur að ábyrgð kærða á málatilbúnaði og skriflegum málflutningi og greinargerðum, val á rökum, röksemdafærslu og sönnunum hljóti að vera mikil og ekki á ábyrgð skjólstæðings kærða. Skjólstæðingurinn sé ekki verseraður í lögfræði frekar en kærandi og geti því ekki verið ráðgjafi kærða um lögfræðileg atriði, framsetningu mála eða gerð krafna fyrir héraðsdómi. Kærði verði að taka ábyrgð á því að hafa varpað ábyrgðinni yfir á kæranda með því að ásaka hann um að vera að draga inn í málið eitthvað sem komi því ekki við.

Niðurstaða.

I.

Sá sem telur lögmann hafa í störfum sínum gert á sinn hlut með háttsemi sem stríðir gegn lögum eða siðareglum lögmanna getur sent kvörtun til úrskurðarnefndar lögmanna, sbr. 1. mgr. 27. gr. lögmannalaga, nr. 77/1998. Í afgreiðslu á erindi sem berst nefndinni getur hún fundið að vinnubrögðum lögmanns eða veitt honum áminningu, ef um stórfelld eða ítrekuð brot er að ræða, sbr. 2. mgr. 27. gr. lögmannalaga. Ef sakir eru miklar eða lögmaður hefur ítrekað sætt áminningu getur nefndin í rökstuddu áliti lagt til við ráðherra að réttindi lögmannsins verði felld niður tímabundið eða hann sviptur réttindum.

Samkvæmt 1. gr. siðareglna lögmann ber lögmanni að efla rétt og hrinda órétti. Skal lögmaður svo til allra mála leggja, sem hann veit sannast eftir lögum og sinni samvisku.

Samkvæmt 34. gr. siðareglnanna skal lögmaður sýna gagnaðilum skjólstæðinga sinna fulla virðingu í ræðu, riti og framkomu og þá tillitssemi sem samrýmanleg er hagsmunum skjólstæðinganna.

Í 35. gr. kemur fram að lögmaður má ekki til framdráttar málum skjólstæðings síns beita gagnaðila ótilhlýðilegum þvingunum, en það telst meðal annars ótilhlýðilegt:

‑ að kæra eða hóta gagnaðila kæru um atferli, sem óviðkomandi er máli skjólstæðings,

‑ að ljóstra upp eða hóta gagnaðila uppljóstrun um atferli, er getur valdið gagnaðila hneykslisspjöllum,

‑ að leita án sérstaks tilefnis til óviðkomandi venslamanna gagnaðila með mál skjólstæðings síns eða hóta gagnaðila slíku.

II.

Kærandi í máli þessum tengdist með beinum hætti fjármálum föður síns og því uppgjöri sem unnið var að og varðaði dánarbússkipti. Í þeirri kröfu sem kærði gerði um lögræðissviptingu föður hans var vikið að kæranda með beinum hætti. Telur nefndin í þessu ljósi að játa verði kæranda rétt til að gera athugasemdir við framgöngu kærða, enda þótt hann hafi ekki sjálfur átt aðild að lögræðissviptingarmálinu. Er frávísunarkröfu kærða því hafnað.

III.

Í kvörtun kæranda kemur ekki fram hvaða ákvæði siðareglna lögmanna hann telur kærða hafa brotið. Nefndin telur að í ljósi þeirra athugasemda sem hann gerir, komi einkum til álita fyrrgreint ákvæði 1. gr. reglnanna um góða lögmannshætti almennt, ásamt þeim ákvæðum sem fyrr eru rakin og varða skyldur lögmanns gagnvart gagnaðila. Verður ekki fallist á það með kærða að kærandi njóti ekki stöðu gagnaðila í skilningi siðareglnanna, þar sem augljóst virðist að deilur kæranda og umbjóðanda kærða voru undirrót þeirra starfa sem kærði tók að sér að sinna. 

Við mat á því hvort kærði gerðist brotlegur við siðareglurnar verður að hafa í huga að lögmenn koma jafnan fram fyrir hönd umbjóðenda sinna, en ekki í eigin nafni. Þegar lögmenn staðhæfa um málsatvik og önnur atriði sem varða dómsmál sem þeir reka, verður að líta svo á að þar sé yfirleitt um að ræða eigin upplýsingagjöf umbjóðandans í gegn um lögmanninn, en ekki upplýsingar sem lögmaðurinn veitir um málsatvik og staðreyndir að undangenginni eigin, sjálfstæðri athugun á málefninu.  Þá er rétt að taka fram að í málatilbúnaði sínum gætti kærði sérstaklega að því að setja einstakar staðhæfingar jafnan fram í þeim búningi að um væri að ræða staðhæfingar og skoðanir umbjóðandans.

Skylda lögmanns til að sýna gagnaðila fulla virðingu og tillitssemi girðir að sjálfsögðu ekki fyrir að lögmaður aðstoði umbjóðanda sinn í málum þar sem hann vill bera sakir á gagnaðila. Þá kemur þessi skylda ekki í veg fyrir að lögmenn aðstoði umbjóðendur sína við að gera kröfu um lögræðissviptingu, sem umbjóðendurnir telja eiga rétt á sér. Verður auk þess að taka undir með kærða að ekki fæst séð að hann hafi átt þann kost að synja umbjóðandanum um aðstoð sína nema að undangenginni sjálfstæðri athugun á högum föður hans.

Er ekkert fram komið sem bendir til þess að kærði hafi sett lögræðissviptingarbeiðnina fram gegn betri vitund, í þeim tilgangi að þvinga fram niðurstöðu í umræddum deilumálum með ótilhlýðilegum hætti.

Verður, með hliðsjón af öllu ofangreindu að hafna því að gera athugsemdir við störf kærða eða beita hann viðurlögum. Nefndin telur ekki efni til þess að kæranda verði gert að greiða kærða málskostnað þótt hann hafi neytt lögvarins réttar síns til að fá skorið úr um það sakarefni hvort kærði hafi gert á hans hlut með ólögmætum hætti eða í trássi við siðareglur lögmanna.

Ú R S K U R Ð A R O R Ð :

Kærði, R hdl., hefur í störfum sínum ekki gert á hlut kæranda, A, með háttsemi sem stríðir gegn lögum eða siðareglum lögmanna.

ÚRSKURÐARNEFND LÖGMANNA

Kristinn Bjarnason, hrl., formaður

Einar Gautur Steingrímsson, hrl.

Valborg Þ. Snævarr, hrl.

Rétt endurrit staðfestir

________________________

Haukur Guðmundsson