Mál 34 2013

Ár 2014, þriðjudaginn 15. apríl, var haldinn fundur í úrskurðarnefnd lögmanna í húsnæði Lögmannafélags Íslands að Álftamýri 9, Reykjavík.

Fyrir var tekið málið nr. 34/2013:

A hdl.

gegn

R hrl.

 og kveðinn upp svofelldur

Ú R S K U R Ð U R :

Úrskurðarnefnd lögmanna barst þann 6. janúar 2014 erindi kæranda, A hdl., þar sem kvartað var yfir störfum kærða, R hrl.

Óskað var eftir greinargerð frá kærða um erindið þann 6. janúar 2014. Sama dag bárust frekari gögn frá kæranda. Greinargerð kærða barst þann 10. janúar 2014. Kæranda var gefinn kostur á að tjá sigum greinargerð kærða þann 13. janúar 2014. Athugasemdir kæranda bárust þann 30. janúar 2014. Kærða var gefinn kostur á að koma á framfæri athugasemdum sínum þann 4. febrúar 2014. Athugasemdir bárust þann 10. febrúar 2014.

Málsatvik og málsástæður.

I.

Þann 6. júní 2013 hafði B samband við kæranda símleiðis og bað hana um að fá mætingarmann í máli sem þingfesta átti gegn honum þann 11. júní 2013. Upplýsti hann kæranda um að stefnandi væri C. Kærandi kveðst ekki hafa fengið nánari upplýsingar um umrædda stefnu að svo stöddu en fékk mætingarmann til að mæta í þinghaldið 11. júní. Þegar taka átti málið fyrir í september 2013 hafði kærandi samband við B sem upplýsti kæranda um að þess væri ekki óskað að hún myndi sjá um frekari mætingar í málinu.

Þann 27. september 2013 áritaði héraðsdómur Reykjavíkur stefnu C á hendur B um aðfararhæfi, sem gefin var út 29. maí 2013. Í stefnunni var þess krafist að B greiddi C skuld á grundvelli sjálfskuldarábyrgðar að fjárhæð kr. 7.328.119. Þann 30. september 2013 krafðist C þess að gert yrði fjárnám hjá B til tryggingar skuldinni.

Þann 23. október 2013 hafði B aftur samband við kæranda og bað hana að útbúa afsal vegna 50% hlutar hans í fasteigninni að D. Fasteignamat var kr. 49.250.000. Fyrir lá verðmat, dags. 20. október 2013, þar sem fram kom að fasteignin væri metin á kr. 46.000.000 en eftirstöðvar áhvílandi veðskulda fasteignarinnar stóðu þá í kr. 46.544.462. Kærandi útbjó kaupsamning og afsal, þar sem B afsalaði hlut sínum í fasteigninni til eiginkonu sinnar, E. Fyrir liggur nýtt verðmat, dags. 17. janúar 2014, þar sem fasteignin er metin á kr. 50.000.000.

Þann 25. nóvember 2013 bað B kæranda um að útbúa veðskuldabréf fyrir dóttur sína, F, vegna skuldar móður hennar, E, við hana. Veðskuldabréfið var útbúið og undirritað samdægurs. Veðskuldabréfið var án vaxta og með veði í fasteigninni að D.

Þann 12. desember 2013 hafði B samband við kæranda og upplýsti hana um að lögmaður C, kærði, hefði haft samband við hann. Kveður kærandi B hafa táð sér að lögmaðurinn hefði haft uppi hótanir um hugsanlegar kærur og málsóknir á hendur honum og fjölskyldu hans vegna framangreindra gerninga.

Kæranda barst þann 12. desember 2013 tölvupóstur frá kærða þar sem hann upplýsti kæranda um fyrirhugaða fjárnámsfyrirtöku C þann 9. janúar 2014 og tilkynnti jafnframt að kært yrði fyrir skilasvik ef framangreindar ráðstafanir yrðu ekki látnar ganga til baka.

Kærandi hafði samband við B sama dag og sagði hann að það væri honum að meinalausu að umræddir gerningar yrðu dregnir til baka enda væru engin verðmæti í fasteigninni. Einnig upplýsti hann kæranda um að lögð hefði verið fram krafa um gjaldþrotaskipti á búi hans. Í kjölfarið sendi kærandi tölvupóst á kærða og lét hann vita að til stæði að draga gerningana til baka ásamt því að upplýsa hann um að krafa um gjaldþrotaskipti hefði verið tekin fyrir deginum áður eða þann 11. desember 2013. Einnig sendi kærandi beiðni á L um upplýsingar um stöðu áhvílandi lána.

Þann 16. desember 2013 sendi kærði kæranda tölvupóst þar sem hann benti á að einfaldast væri að afsalið og skuldabréfið yrðu látin ganga til baka og að eiginkona B gæti síðan keypt eignarhlutinn undir skiptum búsins. Kærandi svaraði umræddum tölvupósti sama dag og lét kærða vita að B ætlaði að koma á fund hjá kæranda daginn eftir eða þann 17. desember 2013. Þann 17. desember 2013 sendi kærði annan tölvupóst og krafðist þess fyrir hönd umbjóðanda síns, C, að umræddir gerningar yrðu tafarlaust dregnir til baka. Þann 18. desember 2013 sendi kærandi tölvupóst til kærða og upplýsti hann um að búið væri að sækja veðskuldabréfið til sýslumanns og að kröfueigandi myndi undirrita það daginn eftir og aflýsa því ásamt því að kærandi ætlaði að útbúa afsal. Þann 20. desember 2013 sendi kærði kæranda tölvupóst og óskaði svara við því hvort búið væri að aflýsa veðskuldabréfinu og þinglýsa afsali. Þann 23. desember 2013 kl. 14: 25 sendi kærði kæranda tölvupóst þar sem fram kom að bankinn vænti mjög skjótra aðgerða, ella yrði gripið til lagalegra úrræða milli jóla og nýárs. Fyrst væri til að taka kæru til sérstaks saksóknara. Kærða svaraði þessum tölvupósti um hæl og sagðist ekki vera búin að ná í umbjóðanda sinn til að fá það staðfest að búið væri að skila umræddum gögnum inn (til þinglýsingar). Hún myndi senda staðfestinguna á kærða um leið og hún bærist. Jafnframt benti hún á að hún fengi vart séð að hún væri brotleg með því einu að útbúa veðskuldabréf og afsal fyrir einstakling. Þá áréttaði hún að umbjóðandinn hefði samþykkt að láta umrædda gerninga ganga til baka og að hún vonaði að það væri gengið í gegn. Þessu svaraði kærði með öðrum tölvupósti kl. 17:16 þar sem hann rakti að úrskurður um gjaldþrot umbjóðandans yrði væntanlega kveðinn upp 8. eða 9. janúar. Jafnframt fór hann yfir gang fullnustugerða á hendur honum og aðkomu kæranda að skjalagerð fyrir hann og kvaðst ekki fá betur séð en að kærandi væri hlutdeildarmaður í broti gegn skilasvikaákvæði almennra hegningarlaga.

Kærandi hafði samband við B 25. desember 2013 og fór í gegnum næstu skref. Gerði kærandi honum grein fyrir því að kærði hefði sagst myndu kæra framangreindar ráðstafanir til sérstaks saksóknara. Þá fóru kærandi og B yfir möguleika í stöðunni. Komust þau að þeirri niðurstöðu að kærandi myndi fara með framangreint veðskuldabréf í aflýsingu 27. desember 2013, sem kærandi gerði.

Kærði ritaði kæranda bréf, dags. 27. desember 2013, og veitti henni frest til mánudagsins 6. janúar 2014 til að tjá sig um fyrirhugaða kæru á hendur henni til sértaks saksóknara fyrir hlutdeild í skilasvikum, sbr. 22. og 250. gr. almennra hegningarlaga. Sama dag barst úrskurðarnefndinni mál þetta, sem fyrr greinir.  Kærandi sendi kærða greinargerð, dags. 3. janúar 2014.

Þann 10. janúar 2014 sendi kærði, fyrir hönd C, kröfu um rannsókn og opinbera ákæru vegna gruns um brot gegn 4. tölul. 1. mgr. 250. gr. og 254. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940 til sérstaks saksóknara. Gerði C kröfu um að B, E og kærandi sættu rannsókn og opinberri ákæru.

II.

Kærandi krefst þess að úrskurðarnefnd lögmanna beiti kærða viðeigandi viðurlögum í samræmi við 2. mgr. 27 gr. laga nr. 77/1998 um lögmenn, VII. kafla siðareglna LMFÍ og 15. gr. málsmeðferðarreglna úrskurðarnefndar lögmanna, vegna þeirra ávirðinga sem hafðar eru uppi.

Kærandi vísar til þess að kærði haldi því fram að hún hafi gerst sek um hlutdeild í skilasvikum sbr. 22. gr. og 250. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940. Samkvæmt tölvupósti frá kærða, dags. 23. desember 2013, byggi hann framangreint á því að kærandi hafi kynnt sér stefnu C á hendur umbjóðanda hennar, þ.m.t. fjárhæð stefnunnar og tilurð kröfunnar. Ennfremur byggi hann á því að kærandi hafi mætt við þingfestingu og óskað eftir fresti til þess að skila inn greinargerð. Í kjölfarið hafi kærandi haft vitneskju um að stefnan hafi verið árituð þann 27. september 2013 og aðfararbeiðni send sýslumanni þann 30. september 2013. Kærandi hafi þrátt fyrir framangreinda vitneskju útbúið afsal þar sem umbjóðandi hennar hafi afsalað 50% eignarhlut sínum í fasteigninni að D til eiginkonu sinnar án þess að nokkuð endurgjald kæmi í staðinn. Ennfremur staðhæfi kærði að fasteignamat fasteignarinnar sé kr. 52.500.000 og að markaðsverð sé alltaf hærra en fasteignamat. Taki hann einnig fram í framangreindum tölvupósti að kærandi hafi útbúið veðskuldabréf án vaxta þar sem kröfuhafi sé dóttir B og eiginkona hans skuldari og að engin skuld hafi verið að baki umræddu skuldabréfi en kærandi hafi í raun verið að aðstoða við undanskot verðmæta með umræddu veðskuldabréfi.

Kærandi kveður það beinlínis rangt sem kærði haldi fram að kærandi hafi kynnt sér efni og stefnufjárhæð í stefnu C á hendur B. Hið rétta sé að B hafi haft samband símleiðis við kæranda kvöldið 6. júní 2013 og hafi beðið kæranda um að fá mætingarmann í máli C á hendur honum þar sem hann hygðist taka til varna í málinu. Þar sem fleiri lögmenn en kærandi starfi fyrir B hafi kærandi ekki gengið að því vísu að hún myndi sjá um skrif á greinargerð fyrir hann. B hafi svo upplýst kæranda um að ekki þyrfti að mæta fyrir hans hönd í september og hafi kærandi því engin frekari afskipti haft af málinu.

Kærandi kveðst ekki fá séð hvernig hún hafi átt að hafa haft vitneskju um að stefnan hafi verið árituð þann 27. september 2013 og aðfararbeiðni send frá G til sýslumanns þann 30. september 2013.

Kærandi kveður það rétt að hún hafi útbúið afsal fyrir skjólstæðing sinn þann 30. september 2013, enda hafi legið fyrir verðmat sem sýnt hafi fram á að ekki væri um að ræða undanskot verðmæta. Til að kóróna rangfærslur kærða komi fram í tölvupósti hans, dags. 23. desember 2013, að fasteignamat á fasteigninni hafi verið kr. 52.500.000 og að markaðsverð sé alltaf hærra en fasteignamat. Hefði kærði haft fyrir því að kynna sér fasteignamat fasteignarinnar árið 2013 hefði hann komist að því að rétt fasteignamat hafi verið kr. 49.250.000. Sú staðhæfing að markaðsverð sé alltaf hærra en fasteignamat standist ekki heldur skoðun þar sem alkunna sé að fasteignamat geti oft á tíðum verið hærra en markaðsvirði fasteigna. Ráðist slíkt t.d. af staðsetningu og byggingarefni fasteigna. Hefði kærði ekki þurft annað en að hafa samband við einn löggiltan fasteignasala til að verða sér út um þær upplýsingar. Vert sé að hafa í huga að sú fasteign sem hér um ræði sé staðsett í útjaðri Mosfellsbæjar og byggð úr forsniðnum timbureiningum, auk þess sem enn eigi eftir að ganga frá lóð hússins að mestu leyti.

Kærandi telur ennfremur langsótt hjá kærða að byggja á því að tillögur hagræðingarhóps ríkisstjórnarinnar komi til með að verða að veruleika og skapa verðmæti í fasteigninni að D líkt og hann hafi haldið fram í samskiptum við kæranda. Fyrir það fyrsta sé enn um tillögur að ræða en ekki úrræði sem komin séu til framkvæmda. Í öðru lagi nái tillögurnar eingöngu til verðtryggðra húsnæðislána vegna kaupa á fasteign til eigin nota en líkt og kærandi hafi gert kærða grein fyrir séu umbjóðandi hennar og eiginkona ekki með lögheimili í fasteigninni. Það eitt sé nóg til þess að þau eigi ekki rétt á umræddri leiðréttingu, sé miðað við tillögurnar eins og þær séu í dag.

Kærandi bendir á að kærði sé búinn að ákveða að dóttir skjólstæðings kæranda hafi aldrei lánað eiginkonu skjólstæðings kæranda umrædda fjárhæð og að í raun sé um málamyndagerning að ræða. Sé þetta einnig til háborinnar skammar. Að mati kæranda er sú staðhæfing ekki svaraverð en lýsi ef til vill best hvernig kærandi hafi leitast við að ásaka alla sem komi að málinu um refsiverða háttsemi án þess að hafa fyrir því að afla sér fullnægjandi upplýsinga.

Kærandi telur að líta beri til þess ákvæðis sem kærði vitni til, þ.e. 250. gr. laga nr. 19/1940, en telja verði fremur ólíklegt að kærði hafi haft fyrir því að kynna sér inntak ákvæðisins áður en hann hafi hafið hótanir í garð kæranda á grundvelli þess. Það sé grundvallaratriði þegar ákvæðinu sé beitt að ásetningur nái til allra verknaðarþátta afbrotsins eins og því sé lýst í verknaðarlýsingu, sbr. 18. gr. laga nr. 19/1940. Auk þess sé nauðsynlegt að auðgunarásetningur hins brotlega komi til, sbr. 243. gr. laga nr. 19/1940. Þegar litið sé til þeirrar staðreyndar að um hafi verið að ræða eign sem hafi verið veðsett upp í topp, ásamt þeirri staðreynd að fyrir hafi legið verðmat á fasteigninni og að kærandi hafi engan hag haft af ráðstöfuninni, sé auðséð að ekki sé fótur fyrir ásökunum á hendur kæranda. Þvert á móti sýni þessar tilhæfulausu ásakanir sem hafi verið rauði þráðurinn í málinu frá upphafi að kærði hafi treyst á að kæranda þætti óþægilegt að fá stöðu sakbornings hjá sérstökum saksóknara og hafi reynt af fremsta megni að nýta sér það skjólstæðingi sínum, C, til framdráttar.

Kærandi bendir á að séu staðhæfingar kærða réttar og verðmæti felist í eignarhlut B í fasteigninni að D, verði ekki annað séð en að ef gengið yrði að kröfum kærða og umbjóðanda hans, C, um að umræddir gerningar yrðu dregnir til baka svo bankinn gæti gert fjárnám í fasteigninni, þá fæli slíkt í sér brot C gegn 2. mgr., sbr. 4. tölul. 1. mgr. 1. gr. 250. gr. laga nr. 19/1940. Grundvallist þetta á því að C og kærði hafi þá fengið umbjóðanda kæranda til að ívilna sér sem kröfuhafa á kostnað annarra kröfuhafa þrátt fyrir að kærði og C hefðu vitneskju um að gjaldþrot vofi yfir umbjóðanda kæranda. Með sömu rökum og málatilbúnaður kærða byggi á því þá yrði kærði jafnframt hlutdeildarmaður í slíku broti, sbr. 22. gr. laga nr. 19/1940.

Kærandi telur með öllu óeðlilegt ef sú skylda yrði lögð á lögmenn að ef einstaklingar ætluðu að fá útbúið skuldabréf þá þyrftu þeir að leggja fram sönnunargögn hjá lögmönnum um tilurð skuldarinnar. Einnig verði að telja að það sé ansi hart gengið að lögmönnum ef þeim yrði í öllum tilfellum gert að kynna sér ítarlega fjárhagslega stöðu allra þeirra sem leituðu til þeirra í þeim tilgangi að fá afsal fyrir fasteignum. Ef til vill sé hægt að leggja þá skyldu á lögmenn að þeir skoði gerninga betur ef augljóst væri að fasteignir væru seldar langt undir verðmæti en sú sé ekki raunin í þessu tilfelli. Framganga og háttsemi kærða í þessu máli verði því að teljast með eindæmum harkaleg og tilefnislaus gagnvart kæranda og umbjóðanda hennar. Ljóst sé að kærandi hafi einungis útbúið umrædda gerninga fyrir umbjóðanda sinn sem lögmaður, og vegna kunnáttu sinnar sem slíkur. Hins vegar virðist málatilbúnaður kærða byggja á því að kærandi sé einn af aðilum máls og hafi með fullri vitund og vilja verið að fremja lögbrot. Telur kærandi slíkar ásakanir vítaverðar og með öllu tilefnislausar og eigi ekki að líðast í samskiptum milli lögmanna.

Kærandi telur að í háttsemi kærða felist margþætt brot, annars vegar sé háttsemin brot á þeim hátternisreglum sem gildi um samskipti lögmanna innbyrðis, sbr. IV. kafla siðareglna lögmanna og hins vegar sé háttsemin í andstöðu við góða lögmannshætti, sbr. I. kafla siðareglna.

Kærandi telur að í samskiptum hennar og umbjóðanda hennar við kærða hafi kærði haft í hótunum við hana í þeim tilgangi að hún myndi leggja til hliðar hagsmuni umbjóðanda síns til að vernda eigin æru. Í tölvupósti, dags. 23. desember 2013, hafi kærði veitt kæranda frest til 27. desember 2013, til að fá umbjóðanda sinn og fjölskyldu hans til að ganga frá umræddum gerningum en gengi það ekki eftir yrði kærandi kærð til sérstaks saksóknara. Sé það mat kæranda að það teljist brot gegn 27. og 30. gr. siðareglna LMFÍ.

Kærandi telur að sú gagnrýni sem fram komi í tölvupóstum kærða, báðum dags. 23. desember 2013, sé ómálefnaleg og sett fram með þeim hætti að kærði muni leitast við að valda kæranda álitsspjöllum umfram það sem málefni gefi tilefni til. Þannig hafi kærði haft í hótunum í þeim tilgangi einum að fá umrædda gerninga dregna til baka til hagsbóta fyrir umbjóðanda sinn, C.

Kærandi byggir á því hvað varðar brot gegn I. kafla siðareglna lögmanna um góða lögmannshætti, á því að með háttsemi sinni hafi kærði reynt að hindra kæranda í að gæta hagsmuna umbjóðanda síns. Þá sé það mat kæranda að sú vanvirðing sem kærði hafi sýnt fagmennsku og heilindum kæranda sé með ólíkindum. Láti kærði sér koma til hugar að hagsmunagæsla kæranda gagnvart umbjóðanda sínum nái ekki lengra en svo að þeim hagsmunum verði kastað fyrir róða til þess eins að forðast kæru til sérstaks saksóknara væri slíkt fásinna. Með háttsemi sinni hafi kærði í rauninni gengið gegn því sem hann hafi sannast vitað og brotið gróflega gegn 1. gr., ennfremur hafi hann í raun verið lögmannsstéttinni til skammar með því að hagræða sannleikanum, líta fram hjá staðreyndum sem honum hafi verið bent á og halda fram hlutum sem hann hafi vitað að væru ekki réttir. Telja verði að fyrrgreint teljist brjóta gegn 2. gr. Kærði gæti þess ekki að vera óháður í starfi, heldur hafi hann eftir fremsta megni reynt að fá kæranda til að brjóta gegn 2. mgr. 3. gr. og 1. mgr. 8. gr. í þeim tilgangi að ná fram sem bestri niðurstöðu fyrir umbjóðanda sinn. Sé það mat kæranda að með þessum athöfnum sínum hafi kærði jafnvel brotið gegn lögum nr. 19/1940.

Kærandi telur að kærði hafi brotið gróflega gegn 25. gr. og 27. gr. með því að hóta kæranda, líta ekki til þeirra útskýringa sem kærandi hafi veitt og þess í stað ásaka kæranda um brot gegn lögum nr. 19/1940. Hótun sem kærði hafi sent kæranda í tölvupósti þann 23. desember 2013 sé einnig ótvírætt brot gegn 30. gr. Kærandi telur ákvæði 30. gr. skýrt og falli háttsemi kærða óneitanlega undir það þar sem hann hóti að kæra kæranda til sérstaks saksóknara verði ekki gripið til þeirra ráðstafana sem hann krefjist. Sé kærði með þessu að beita hótunum í þeim tilgangi að fá undirritaða til að hafast með þeim hætti að hún ráðleggi umbjóðanda sínum að fara að kröfum kærða. Hefði kærði ekki ætlað að fá undirritaða til að aðhafast á neinn hátt í máli umbjóðanda síns heldur umbjóðandann sjálfan hefði eðli málsins samkvæmt verið með öllu tilgangslaust hjá honum að senda kæranda umræddan tölvupóst. Í þessu tilliti sé einnig vert að hafa hugfast að lögmaðurinn hafi ítrekað hótanir sem hann hafi viðhaft við kæranda og umbjóðanda hennar símleiðis.

Kærandi telur fyrrgreind brot kærða sérstaklega gróf og ámælisverð í ljósi þess að með úrskurði úrskurðarnefndar lögmanna, dags. 16. maí 2013 í máli nr. 8/2013, hafi nefndin áminnt lögmanninn Ö hrl. fyrir sömu háttsemi og kærði hafi haft uppi í þessu máli. Kærendur í fyrrgreindu máli hafi verið lögmannsstofa sú sem kærði starfi á og sé meðeigandi að, auk þriggja lögmanna og meðeiganda lögmannsstofunnar. Útilokað sé annað en að kærði hafi vitað af þeim úrskurði og verði því að telja í meira lagi sérkennilegt að kærði hafi viðhaft slíka háttsemi svo stuttu eftir að umræddur úrskurður hafi verið kveðinn upp.

Telur kærandi að kærði hafi gerst brotlegur við 34. gr. með því að ausa yfir skjólstæðing kæranda svívirðingum og hótunum. Það athæfi að hafa samband við skjólstæðing kæranda og greina honum frá því að ef hann myndi ekki sjá til þess að umrætt veðskuldabréf og afsal yrði dregið til baka án tafar myndi hann kæra dóttur hans og eiginkonu falli að mati kæranda undir brot gegn 4. mgr. 35. gr.

Að öllu ofangreindu virtu telur kærandi ljóst að kærði hafi brotið gróflega gegn siðareglum lögmanna. Öll framganga kærða hafi verið því marki brennd að reyna að fá kæranda til að taka eigin hagsmuni fram yfir hagsmuni umbjóðanda síns í beinni andstöðu við m.a. II. kafla siðareglna lögmanna. Að mati kæranda séu hin margvíslegu brot kærða alvarleg og óhjákvæmilegt að hann sé beittur viðurlögum.

III.

Varðandi brot gegn 27. gr. siðareglna LMFÍ vísar kærði til þess að umbjóðandi hans telji að kærandi hafi verið hlutdeildarmaður í skilasvikum. Verknaðurinn sé alvarlegur og viðbrögðin í samræmi við það. Umfjöllunin í tölvupóstum sem gengið hafi á milli kæranda og kærða og í bréfi, dags. 27. desember 2013, hafi verið í samræmi við hið alvarlega tilefni og í engu ómálefnaleg. Hafi kærandi orðið fyrir álitsspjöllum vegna þessa sé það vegna aðkomu hennar sjálfrar að verknaðinum.

Kærði hafnar því alfarið að hafa brotið gegn 30. gr. siðareglna LMFÍ. Það sem í orðsendingum hans til kæranda hafi falist, sjá m.a. bréfið 27. desember 2013, hafi verið tilkynning en ekki hótun um að áskilinn væri réttur af hálfu umbjóðanda hans til að kæra hana til lögreglu vegna hlutdeildar í skilasvikum. Bréfið 27. desember 2013 hafi verið ítarlegri útfærsla á hinum stuttaralega tölvupósti 23. desember 2013. Í bréfinu komi m.a. fram að óháð því hver viðbrögð umbjóðanda hennar yrðu, væri áskilinn réttur til að kæra kæranda fyrir hlutdeild í skilasvikum. Þá hafi í þaula verið fylgt ákvæði 31. gr. siðareglna LMFÍ, um að gefa kæranda og stjórn LMFÍ færi á að tjá sig áður en kært yrði. Í öðru lagi eigi ákvæðið hreinlega ekki við samkvæmt efni sínu þar sem það sé bundið við að meint hótun sé sett fram í því skyni að fá lögmanninn til að „aðhafast eitthvað eða láta eitthvað ógert í máli gagnaðila". Skólabókardæmið um það sé úrskurður úrskurðarnefndar 16. maí 2013 í máli nr. 8/2013. Í tilviki kæranda sé ekkert „mál" til meðferðar, hvorki hjá stjórnvöldum né dómstólum sem hún sé beðin um að gera eitthvað eða láta eitthvað ógert í. Ennfremur sé ekki verið að óska eftir því að hún geri eitthvað heldur að umbjóðandi hennar, eiginkona hans og dóttir vindi ofan af þeim gerningum sem fram hafi farið og hafi falið í sér skilasvik að mati umbjóðanda kærða, enda hafi þessir aðilar verið einir til þess bærir, en ekki kærandi.

Kærði bendir á að kærandi haldi því í þriðja lagi fram að hann hafi brotið gegn 1. gr. siðareglna LMFÍ þar sem mælt sé fyrir um að lögmanni beri að efla rétt og hrinda órétti, sem og að hann skuli til allra mála leggja það sem hann viti sannast eftir lögum og sinni sannfæringu. Kærði kveðst hafa gert nákvæmlega það. Þegar hann hafi áttað sig á því hinn 12. desember 2013 að maður sem honum hafi verið falið að innheimta kröfu hjá, hafi með aðstoð lögmanns skotið undan verðmætum örskömmu fyrir gjaldrot sitt, hafi það blasað við kærða að á ferðinni væru skilasvik og ekkert annað. Með því að fara þess á leit að undið væri ofan af þessu broti hafi kærði verið að „efla rétt og hrinda órétti". Kærði hafi lagt til málsins það sem hann hafi talið „sannast eftir lögum og [hans] samvisku". Hafi hann því í hvívetna fylgt 1. gr. siðareglna LMFÍ. Hefði hann veigrað sér við því að viðhafa þessa málafylgju hefði skjólstæðingur hans mátt gagnrýna hann, enda hefði hann þá ekki verið að vinna vinnu sína sem lögmaður.

Kærði telur með vísan til þess sem að framan greini að hann hafi í hvívetna fylgt 2. gr. siðareglna LMFÍ.

Kærði telur sig hafa fylgt 25. gr. siðareglna LMFÍ, með vísan til framangreinds miðað við það alvarlega tilefni sem undir hafi verið. Þannig hafi farið ítrekaðir tölvupóstar milli hans og kæranda í eina 10 daga, þar sem kærandi hafi staðhæft að B, eiginkona hans og dóttir myndu vinda ofan af umræddum gerningum. Efndir á þessu hafi hins vegar orðið engar. Kærði heldur því fram að kærandi hafi vísvitandi sagt honum ósatt um þessi efni. Aldrei hafi staðið til að vinda ofan af þessu. Staðfestist það með því að 10. janúar 2014 hafi ekki verið búið að vinda ofan af afsalsgerningnum. Þegar kærða hafi verið farið að leiðast þófið verulega hafi hann sent bréfið 27. desember 2013 þar sem hann hafi m.a. gefið kæranda færi á, með vísan til 31. gr. siðareglna LMFÍ, að tjá sig áður en kæru hafi verið beint til sérstaks saksóknara vegna aðkomu hennar að nefndum gerningi.

Kærði kveðst hafa sýnt gagnaðilum skjólstæðinga sinna fulla virðingu í ræðu, riti og framkomu og þá tillitssemi sem samrýmanleg sé hagsmunum skjólstæðinganna, sbr. 34. gr. siðareglna LMFÍ. Hafi hann spurt B í símtali 12. desember 2013 hvort kærandi væri enn hans lögmaður. Hafi B svarað því játandi. Í kjölfarið hafi kærði leitað til kæranda eins og tölvupóstur 12. desember kl. 11.41 beri með sér. Þar segi m.a. „Vinsamlegast heyrðu í mér hið allra fyrsta vegna máls B. Hann benti mér á að tala við þig sem sinn lögmann." Staðhæfingar kæranda um að kærði hafi í þessu símtali ausið yfir B „svívirðingum og hótunum" séu rangar.

Kærði bendir á að kærandi haldi því fram að hann hafi brotið gegn 4. mgr. 35. gr. siðareglna LMFÍ. Nú sé það svo að þátttakendur í þeim gerningum sem umbjóðandi kærða telji undanskot og málamyndagerninga séu ásamt B, þær E eiginkona hans og F dóttir hans. E hafi tekið við þeim verðmætum sem afsalað hafi verið og útbúið hafi verið veðskuldabréf án vaxta til málamynda með tryggingu í umræddri fasteign til hagsbóta fyrir F sem kröfuhafa, örskömmu fyrir gjaldþrot B, á kostnað annarra kröfuhafa B. Ofan af síðastnefndum gerningi hafi verið undið eftir að lokaaðvörunin 27. desember 2013 hafi verið send. Þannig hvíli veðskuldabréfið ekki lengur á eigninni. Afsalsgerningurinn standi hins vegar enn óhaggaður. Að kærði hafi í samtalinu við B 12. desember 2013 viðhaft hótanir í garð eiginkonu hans og dóttur sé rangt. Hins vegar hafi eiginkonu hans og dóttur vitaskuld verið send aðvörunin 27. desember 2013 enda hafi þær verið fullir þátttakendur í þeim gerningum sem hér um ræði og hafi þannig sjálfar talist vera „gagnaðilar" skjólstæðings kærða. Þannig hafi í engu verið brotið gegn 4. mgr. 35. gr. siðareglna LMFÍ, svo sem kærandi haldi fram.

Kærði vísar til þess að siðareglur LMFÍ geti aldrei verið skálkaskjól fyrir lögmenn sem viðhafi háttsemi líkt og þá sem kærandi hafi viðhaft með aðkomu sinni að þeim gerningum sem að framan hafi verið raktir og varði m.a. undanskot eignarhlutar í fasteigninni að D. Í kæru til sérstaks saksóknara, dags. 10. janúar 2014, hafi verið ítarlega rökstutt það mat umbjóðanda kærða að í þeirri háttsemi hafi falist brot gegn 250. gr., sbr. 22. gr. laga nr. 19/1940. Verði það niðurstaða ákæruvalds að svo hafi ekki verið hafi aðkoma kæranda að málinu engu að síður verið mjög ámælisverð og í algerri andstöðu við það sem lögmenn eigi að standa fyrir. Um þetta efni hafi m.a. verið fjallað í pistli formanns LMFÍ í Lögmannablaðinu, 4. tbl. 2013, bls. 12. Kærði kveðst hvorki sjálfur né umbjóðandi hans, hafa uppi kæru á hendur kæranda til úrskurðarnefndar lögmanna af þessum sökum, þótt tilefni sé eflaust til.

Niðurstaða.

I.

Sá sem telur lögmann hafa í störfum sínum gert á sinn hlut með háttsemi sem stríðir gegn lögum eða siðareglum lögmanna getur sent kvörtun til úrskurðarnefndar lögmanna, sbr. 1. mgr. 27. gr. lögmannalaga, nr. 77/1998. Í afgreiðslu á erindi sem berst nefndinni getur hún fundið að vinnubrögðum lögmanns eða veitt honum áminningu, ef um stórfelld eða ítrekuð brot er að ræða, sbr. 2. mgr. 27. gr. lögmannalaga. Ef sakir eru miklar eða lögmaður hefur ítrekað sætt áminningu getur nefndin í rökstuddu áliti lagt til við ráðherra að réttindi lögmannsins verði felld niður tímabundið eða hann sviptur réttindum.

Í 1. gr.  siðareglna lögmanna kemur fram að lögmanni ber að efla rétt og hrinda órétti. Skal lögmaður svo til allra mála leggja, sem hann veit sannast eftir lögum og sinni samvisku.

Samkvæmt 2. gr. siðareglna skal lögmaður gæta heiðurs lögmannastéttarinnar, jafnt í lögmannsstörfum sínum sem öðrum athöfnum.

Í IV. kafla siðareglnanna er fjallað um samskipti lögmanna innbyrðis. Þar kemur m.a. fram í 25. gr. að lögmenn skuli hafa góða samvinnu sín á milli og sýna hver öðrum fulla virðingu í ræðu, riti og framkomu. Skulu þeir sýna hver öðrum þá tillitssemi, sem samrýmanleg er hagsmunum skjólstæðings.

Í 27. gr. reglnanna segir að lögmaður megi einungis hafa uppi gagnrýni á störf annars lögmanns á málefnalegum grundvelli, og skuli forðast að valda honum álitsspjöllum umfram það, sem málefnið gefur ástæðu til.

Þá segir í 30. gr. siðareglnanna að lögmaður megi ekki hóta lögmanni gagnaðila kæru eða lögsókn í því skyni að fá hann til að aðhafast eitthvað eða láta eitthvað ógert í máli gagnaðila.

Í V. kafla siðareglnanna um skyldur lögmanns við gagnaðila er einnig kveðið á um að lögmaður megi ekki til framdráttar málum skjólstæðings síns beita gagnaðila ótilhlýðilegum þvingunum. Telst í því samhengi meðal annars ótilhlýðilegt að kæra eða hóta gagnaðila kæru um atferli, sem óviðkomandi er máli skjólstæðings,

II.

Við matið á því hvort kærði hafi gerst sekur um brot gegn ofangreindum ákvæðum siðareglna lögmanna eða öðrum sem máli skipta, verður að líta til þess hvernig málið horfði við honum þegar hann, seint í desember 2013, setti fram þær hótanir um kæru til sérstaks saksóknara sem hér um ræðir.

Verður að leggja til grundvallar að hann hafi talið kæranda koma fram fyrir hönd gagnaðila í máli, þar sem hún hafði fengið mætingamann til að mæta, en til grundvallar málinu lá áskorunarstefna kærða. Er ekki annað fram komið en að umbjóðandi kæranda hafi staðfest það við kærða þann 12. desember að svo væri. Mátti kærði samkvæmt þessu ætla að kæranda væri kunnugt um stefnuna og þá vísbendingu sem hún fól í sér um að fjárhagur umbjóðanda hennar væri bágur auk þess sem kærði hlaut að ætla að kæranda væri kunnugt um útivist umbjóðandans í september 2013 og áritun stefnunnar í framhaldi af því. Gerði kærandi engar athugasemdir við að sér hefði verið ókunnugt um útivistina eða önnur atvik sem máli skiptu þegar hún móttók tölvupóst kærða 12. desember, þar sem upplýst var um þau.

Verður í þessu ljósi ekki lagt kærða til lasts að hafa brugðist harkalega við því að kærandi aðstoðaði umbjóðanda sinn og fjölskyldu hans við að útbúa fyrst  afsal fyrir eignarhluta hans í fasteign yfir til eiginkonu sinnar, en veðsetja svo eignina til hagsbóta fyrir dóttur þeirra. Skiptir í því samhengi ekki máli þótt óvíst sé um þau verðmæti sem í eignahlutnum fólust.

Áréttað skal að í fyrsta tölvupósti kærða til kæranda 12. desember er fyrst og fremst ósk um að kærandi hafi samband við kærða vegna málsins svo vinda megi ofan af gerningunum.  Eftir að kærandi hafði gefið til kynna  að það yrði gert, þann 16. og 18. desember virðist þó ekki hafa orðið af því að afsalinu yrði aflýst eða eignarhlutinn færður aftur á B. Hlaut kærði að fylgja því eftir að þessi fyrirheit yrðu efnd.

Þrátt fyrir þetta er það niðurstaða nefndarinnar að með tilvitnuðum tölvupóstum sínum til kæranda þann 23. desember 2013 hafi kærði farið yfir þau mörk sem 25. gr. siðareglna lögmanna áskilur. Er óhætt að lýsa umræddum samskiptum svo að þau hafi hvorki einkennst af samvinnu né virðingu. Fæst ekki séð að hagsmunir skjólstæðings kærða hafi krafist þess að hann gengi fram með þeim hætti gagnvart kærðu að senda í dagslok á Þorláksmessu áréttingu á hótun um að hún yrði kærð fyrir hegningarlagabrot ef hún fengi ekki umbjóðanda sinn til þeirra athafna sem kærði krafðist á milli jóla og nýárs. Þar ræddi um tvo vinnudaga, en kærða hafði þegar upplýst kæranda um að hún hefði þegar haft samband við umbjóðandann og biði staðfestingar hans á að hann hefði skilað umræddum skjölum inn til þinglýsingar.

Þykir rétt að gera aðfinnslu við þessa framgöngu kærða.

Ú R S K U R Ð A R O R Ð :

Sú háttsemi kærða, R hrl. að hóta kæranda því á Þorláksmessu 2013 að hún yrði kærð fyrir hegningarlagabrot ef hún fengi ekki umbjóðanda sinn til þeirra athafna sem kærði krafðist á milli jóla og nýárs, er aðfinnsluverð.

ÚRSKURÐARNEFND LÖGMANNA

Kristinn Bjarnason, hrl., formaður

Einar Gautur Steingrímsson, hrl.

Valborg Þ. Snævarr, hrl.

Rétt endurrit staðfestir

________________________

Haukur Guðmundsson