Mál 12 2015
Ár 2015, föstudaginn 9. október, var haldinn fundur í úrskurðarnefnd lögmanna í húsnæði Lögmannafélags Íslands að Álftamýri 9, Reykjavík.
Fyrir var tekið málið nr. 12/2015:
B f.h. dánarbús V
gegn
Þ, hrl.
og kveðinn upp svofelldur
Ú R S K U R Ð U R :
Í erindi B, kæranda, til úrskurðarnefndar lögmanna þann 29. maí 2015, var kvartað yfir reikningsgerð Þ hrl., kærðu, vegna málareksturs fyrir föður kæranda. Kærða sendi nefndinni greinargerð um málið þann 2. júlí 2015 og var kæranda gefinn kostur á að gera athugasemdir við hana með bréfi, dags. 20. júlí 2015. Athugasemdir kæranda við greinargerðina bárust 14. ágúst 2015 og voru kynntar kærðu með bréfi nefndarinnar 18. ágúst 2015. Lokaathugasemdir kærðu vegna málins bárust nefndinni 14. september 2015 og voru kynntar kæranda með bréfi 18. september 2015. Með bréfi málshefjanda, sem barst 21. september 2015 mótmælti hann sönnunargildi framlagðs bréfs kærðu. Voru þau andmæli kynnt kærðu með bréfi 29. september 2015.
Málsatvik og málsástæður.
I.
Málsatvik eru þau, eftir því sem fram kemur í kvörtun kæranda, greinargerð kærðu og gögnum málsins, að faðir kæranda, V, festi kaup á fasteign við X í Hveragerði árið 2005. Á fasteigninni hvíldi þinglýst kvöð um skyldu fasteignareiganda til að vera aðili að þjónustusamningi við Heilsustofnun NLFÍ. Var kvöðin ótímabundin og óuppsegjanleg án samþykkis þjónustuveitandans. Jafnframt kaupunum undirritaði hann þjónustusamning við Heilsustofnun NLFÍ. Fól þjónustan í sér öryggishnappa, aðgang að baðhúsi, íþróttasal og starfsmönnum og ýmsu innra starfi þjónustuveitandans, auk garðsláttar og hirðingu grassvæða. Fast mánaðargjald fyrir þessa þjónustu var bundið vísitöluhækkunum. Þessi samningur var síðan endurnýjaður árið 2011.
V var ósáttur við þennan samning. Hann taldi samninginn ósanngjarnan, enda gæti gagnaðili hans einhliða ráðið umfangi þeirrar þjónustu sem veitt væri. Þá hefðu ekki verið veittar fullnægjandi upplýsingar við samningsgerðina. Leitaði hann til kærðu í ársbyrjun 2012, en þá hafði hann áður borið málið undir kærunefnd húsamála. Þá bar hann mál sitt einnig undir umboðsmann Alþingis, en hann taldi að kærunefndin hefði farið eftir þeim reglum sem giltu um störf hennar. Taldi umboðsmaður jafnframt að um einkaréttarlegan ágreining væri að ræða. Í mars 2012 sendi kærða talsmanni neytenda ítarlega ábendingu f.h. V þar sem vakin var athygli talsmannsins á aðstæðum sem eldri borgarar á borð við hann væru komnir í með óuppsegjanlega þjónustusamninga.
Nokkuð liggur fyrir af samskiptum umbjóðandans við lögmannsstofu kærðu, þ.á m. bréf dagsett 8. apríl 2013. Þar kemur fram að hann hafi fullan hug á að fylgja kröfum sínum eftir með því að fara í dómsmál og spyr hvort kærða telji einhverjar líkur á jákvæðri niðurstöðu í héraðsdómi. Jafnframt spyr hann þá hve miklum kostnaði kærða telji að gera megi ráð fyrir í sambandi við málarekstur fyrir héraðsdómi. Fram lagt svar frá fulltrúa kærðu frá 7. maí er á þá leið að ekki sé mögulegt að segja hverjar séu líkur á jákvæðri niðurstöðu, sýni dómar þar sem reyni á ósanngirni í samningsskilmálum að á brattann sé að sækja. Líklegt sé að kostnaður við rekstur dómsmáls gæti numið allt að 1.000.000, auk þess sem til þess geti komið að greiða þurfi málskostnað gagnaðila.
Kærða sendi Heilsustofnun NLFÍ uppsögn á samningnum í nóvember 2013, en félagið hafnaði uppsögninni. V hætti greiðslu á þjónustugjöldunum og sendi félagið greiðsluáskorun vegna þeirra. Eftir bréfaskipti við kærðu, stefndi félagið V til greiðslu þjónustugjaldanna í nóvember 2014. Fyrir liggur reikningur kærðu, dagsettur 1. október 2014, vegna málsins þar sem gjaldfærðar eru „vegna máls gegn HNLFÍ, alls 3,9 klst samkvæmt meðfylgjandi vinnutímaskýrslu" 97.890 krónur að meðtöldum vsk.
Leitað var eftir þátttöku tryggingafélags V í málskostnaði á grundvelli fjölskyldutryggingar. Félagið hafnaði greiðsluskyldu. Með úrskurði úrskurðarnefndar í vátryggingamálum var sú niðurstaða félagsins staðfest.
Héraðsdómsmálið var málið flutt í febrúar 2015 og héraðsdómur kveðinn upp í mars. Urðu úrslit málsins þau að V var dæmdur til að greiða þjónustugjöldin auk 500.000 króna í málskostnaðar.
Í málinu liggur fyrir reikningur kærðu nr. 4139, dags. 13. apríl 2015. Auk útlagðs kostnaðar að fjárhæð kr. 30.772 eru þar gjaldfærðar 1.300.000 krónur auk vsk. vegna málskostnaðar í málinu. Er í reikningnum vísað til vinnutímaskýrslu auk þess sem fram kemur að tilgreind fjárhæð er „að frádregnum afslætti" og að tímagjald sé kr. 20.000.
V lést 14. apríl 2015, þá 88 ára gamall. Fengu erfingjar í búinu leyfi til einkaskipta þann 22. júní 2015 og fékk B jafnframt umboð til að koma fram í nafni dánarbúsins af hálfu erfingja.
II.
Kærandi krefst þess að kærða sæti áminningu. Þá krefst kærandi þess að kærðu verði gert að fella niður „stóran hluta" af þeirri upphæð sem hún hefur sent reikning fyrir vegna málsins. Telur kærandi að hámark þeirrar fjárhæðar sem kærða geti áskilið sér sé 500.000, þ.e. sama fjárhæð og lögmanni gagnaðila var dæmd af héraðsdómi.
Í erindi kæranda kemur fram að hann telur kærðu hafa brotið gegn 8. og 10. gr. siðareglna lögmanna með því að láta undir höfuð leggjast að gæta hagsmuna þessa skjólstæðings síns. Hafi störf lögmannsins fyrir umbjóðandann raunar verið algjörlega andstæð hagsmunum hans í ljósi þess mikla kostnaðar sem augljóst var að myndi hljótast af málinu og þess óverulega ávinnings sem stefnt var að. Liggi ekkert fyrir að umbjóðandanum hafi verið kynnt að að kostnaður yrði hár að tiltölu við þá hagsmuni sem í húfi voru, enda þótt augljóst hafi verið frá upphafi að hugsanlegur sigur í dómsmálinu myndi ekki skila honum neinum fjárhagslegum ávinningi sem dygði fyrir málskostnaði. Telur kærandi að hagsmunir sem aðrir aðilar kunni að hafa haft af niðurstöðu málsins breyti engu í þessu efni. Verður málatilbúnaður kæranda skilinn svo að hann telji að umbjóðandinn hafi tæplega haft greiðslugetu til að standa í svo dýrum málaferlum, þegar tillit sé tekið til tekna hans og fastra útgjalda.
Telur kærandi að kærðu haf borið að ráðleggja umbjóðandanum að fara ekki í málið vegna þessa, enda hafi verið á brattann að sækja í málinu eins og niðurstöður umboðsmanns Alþingis og kærunefndarinnar hafi sýnt. Í ljósi hás aldurs hans hefði hún átt að segja sig frá málinu ef hann féllist ekki á það. Ekkert skriflegt liggi hins vegar fyrir um neinar leiðbeiningar í þessa veru. Bendir kærandi í þessu samhengi á að í greinargerð kærðu til héraðsdóms hafi hún m.a. byggt á því að V hafi verið tæplega áttræður við fasteignakaupin 2005 og því ekki getað gert sér grein fyrir eðli þjónustusamningsins eða kostnaði honum tengdum. Kærandi telur það vægast sagt ótrúverðugt að kærða leggi ásamt lokaathugasemdum sínum vegna málsins fram afrit bréfs til V, dags. 7. maí 2013, þar sem farið sé yfir hugsanlegan kostnað af fyrirhuguðu dómsmáli. Áréttar kærandi að bréfið sé ekki að finna á meðal gagna dánarbúsins og að kærða hafi aldrei minnst á bréfið við aðstandendur V.
Kærandi bendir á að samkvæmt tímaskýrslunni hafi um 25 tímar verið ógreiddir við útgáfu fyrri reikningsins í október 2014. Þrátt fyrir það beri tímaskýrslan ekki með sér að um innágreiðslu hafi verið að ræða og aðeins séu gjaldfærðir 3,9 tímar. Hafi umbjóðandinn mátt ætla að með þessum reikningi væri hann að gera upp þann kostnað sem fallinn væri á málið. Telur kærandi einsýnt að ef mánaðarlegir reikningar hefðu verið sendir hefði umbjóðandinn getað gert sér grein fyrir þeim kostnaði sem væri að falla til. Þessi í stað hafi kærða kosið að senda ekki kostnaðaráætlun og engan reikning sem bar með sér áfallandi kostnað. Hafi því umbjóðandinn flotið sofandi að feigðarósi og dánarbúið sitji uppi með reikning upp á 1,6 milljónir auk 500 þúsund króna kröfu gagnaðila. Áréttar kærandi að börn V hafi ekkert um þennan málarekstur vitað.
Þá liggi ekkert fyrir um að umbjóðandanum hafi verið kynnt á hvaða grundvelli þóknunin væri reiknuð. Reikningurinn hafi verið gefinn út degi fyrir andlát V og hafi hann aldrei séð reikninginn eða gert sér neina grein fyrir fjárhæð hans.
III.
Kærða svarar í greinargerð sinni þeim aðfinnslum sem kærandi gerir við störf hennar í þágu V.
Í frásögn kærðu kemur fram að V hafi verið virkur í starfi eldri borgara og talið mál sitt hafa breiða skírskotun, þar sem margir eldri borgarar sætu uppi með óuppsegjanlega þjónustusamninga á íbúðum sínum sem kostuðu þá mikið fé, án þess að þjónustan nýttist þeim. Valgarði hafi verið hagsmunamál eldri borgara mjög hugleikin og hafi séð í hendi sér að mál sitt gæti verið prófmál varðandi réttindi eldri borgara sem neytenda í fasteignakaupum.
Kærða kveðst hafa ráðið honum frá því að stofna til ágreiningsmáls um kostnað vegna þjónustusamninginn og gert honum grein fyrir hver kostnaður af slíku máli gæti orðið. Hafi kostnaðurinn margsinnis verið áætlaður og ræddur á tíðum fundum á lögmannsstofunni, meðal annars í tengslum við tilraunir til að fá kostnað greiddan frá tryggingafélagi eða úr gjafvörn. Auk þess liggi fyrir gróf kostnaðaráætlun frá apríl 2013, sem miðuð hafi verið eingöngu við málsvörn í innheimtumáli gagnaðila. Þar ofan á hafi svo bæst við ritun riftunarbréfs og samskipti við lögmann gagnaðila, samskipti við viðskiptabanka umbjóðandans, beiðni um greiðslu kostnaðar til tryggingafélags og kæra til úrskurðarnefndar í vátryggingamálum, umsókn um gjafsókn o.fl. Þá hafi samskipti við umbjóðanda reynst tímafrekari en áætlað hafi verið.
V hafi ítrekað falið henni að andmæla greiðsluskyldu sinni, sem hann hafi alls ekki sætt sig við. Hafi það alfarið verið hans ákvörðun að hætta að greiða og taka áhættu af því að gagnaðilinn myndi höfða mál, en hann hafi verið ákveðinn í því að taka til varna ef til þess kæmi, hvað sem ráðleggingum kærðu leið. Hann hafi verið vel meðvitaður um áhættuna og kostnaðinn, en hafi talið harðlega á sér brotið, svo sem ráða megi af erindum hans til kærunefndarinnar og fleiri erindum. Fullt traust hafi ríkt um þessa þætti á milli kærðu og umbjóðandans, enda persónulegur kunningsskapur fyrir hendi.
Kærða kveður V hafa óskað sérstaklega eftir því að bíða með greiðslu kostnaðar þar til dómur lægi fyrir og hafi það verið auðsótt. Þá hafi kærða leitast við að fá kostnað hans greiddan að einhverju leyti úr tryggingu hans eða sem gjafvarnarkostnað. Hafi því ekki verið tímabært að gefa út reikning fyrr en eftir það tímamark að héraðsdómur féll. Þá hafi þau rætt um að V fengi að greiða kostnaðinn á lengri tíma. Hafi ekkert tilefni verið til að reikningsfæra þennan kostnað fyrr en gert var. Hafi V ýtt á að dómi héraðsdóms yrði áfrýjað, en samkomulag hafi verið um að fyrst yrði að ganga frá greiðslu á áföllnum kostnaði.
V hafi verið fullljóst á hvaða grundvelli þóknun væri reiknuð, enda hafi hann sjálfur greitt reikning þar sem tímagjald kom fram. Hann hafi sjálfur talið að niðurstaða málsins skipti miklu fyrir söluverð eignar sinnar, auk þess sem hún skipti miklu máli fyrir fjölda annarra einstaklinga í svipaðri stöðu.
Kærða áréttar að V hafi verið með fulla andlega getu til að átta sig á þeim hagsmunum sem um var að tefla og þeirri áhættu sem hann tók með því að neita að greiða umrætt þjónustugjald. Hann hafi verið mjög skýr og ákveðinn í sinni afstöðu. Andmælir kærða því að aldur hans hafi getað haft áhrif á rétt hans til að ráðstafa hagsmunum sínum sjálfur og áréttar að fullt samkomulag hafi verið á milli þeirra um gjaldtökuna eins og aðra þætti málsins, á meðan hans naut við. Sé ekkert samhengi á milli þessa atriðis og þeirra málsástæðna sem hún hafi teflt fram í dómsmálinu og lutu að því að eðli þjónustusamningsins og hvernig staðið var að samningsgerð þá, hafi gert öldruðum umbjóðandanum erfitt fyrir að átta sig á skuldbindingum sínum.
Að því er reikninginn sjálfan varðar telur kærða að hann sé eðlilegur miðað við eðli og vinnslu málsins á lögmannsstofu hennar. Tímafjöldinn nái til allrar aðstoðar sem óskað hafi verið eftir vegna málsins, þ.á m. við gjafsóknarbeiðni og vegna réttaraðstoðartryggingar. Alls hafi verið skráðar 70,1 vinnustundir á málið, en 65,9 verið gjaldfærðir. Ástæða þess að aðeins 3,9 stundir af 15 hafi verið reikningsfærðar hafi aðeins verið til að lækka greiðsluna, en umbjóðandanum hafi verið fullljós hver staðan væri á tímaskráningum. Kærða áréttar að V hafi haft fulla getu til að greiða reikninga vegna málsins eftir því sem hún vissi gerst. Honum hafi verið synjað um gjafsókn þar sem tekjur hans námu um 7 milljónum króna árið 2014, hafi átt bæði eignir og lausafé.
Niðurstaða.
Í máli þessu þarf í fyrsta lagi að taka afstöðu til þess hvort kærða hafi gerst brotleg við lög eða siðareglur lögmanna þannig að rétt þyki að beita agaviðurlögum og í öðru lagi að fjalla um fjárhagslegt uppgjör aðila vegna lögmannsstarfa kærðu.
I.
Sá sem telur lögmann hafa í störfum sínum gert á sinn hlut með háttsemi sem stríðir gegn lögum eða siðareglum lögmanna getur sent kvörtun til úrskurðarnefndar lögmanna, sbr. 1. mgr. 27. gr. lögmannalaga, nr. 77/1998. Í afgreiðslu á erindi sem berst nefndinni getur hún fundið að vinnubrögðum lögmanns eða veitt honum áminningu, ef um stórfelld eða ítrekuð brot er að ræða, sbr. 2. mgr. 27. gr. lögmannalaga. Ef sakir eru miklar eða lögmaður hefur ítrekað sætt áminningu getur nefndin í rökstuddu áliti lagt til við sýslumann að réttindi lögmannsins verði felld niður tímabundið eða hann sviptur réttindum.
Samkvæmt 8. gr. siðareglna lögmanna skal lögmaður leggja sig fram um að gæta hagsmuna skjólstæðinga sinna í samræmi við þá meginreglu 1. gr. að lögmanni ber að efla rétt og hrinda órétti og leggja svo til allra mála, sem hann veit sannast eftir lögum og sinni samvisku.
Í 10. gr. siðareglnanna segir að lögmaður skuli ætíð gefa skjólstæðingi hlutlægt álit á málum hans. Er sérstaklega áréttað í 2. mgr. ákvæðisins að lögmanni ber að gera skjólstæðingi grein fyrir áætluðum verkkostnaði og öðrum málskostnaði eftir föngum, og vekja athygli hans, ef ætla má, að kostnaður verði hár að tiltölu við þá hagsmuni, sem í húfi eru. Þá ber lögmanni ber að gera skjólstæðingi grein fyrir á hvaða grundvelli þóknunin er reiknuð.
Í þessum þætti málsins ber kærandi sönnunarbyrðina, en kærða verður ekki beitt viðurlögum vegna annarra yfirsjóna en þeirra sem sannað þykir að hún hafi gerst sek um. Gögn málsins styðja frásögn kærðu um að umbjóðandi hennar hafi verið mjög áfram um þann málarekstur sem hann fól henni. Ekkert er fram komið sem hnekkir eða grefur undan þeirri frásögn hennar að það hafi verið gagnstætt sínum ráðleggingum þegar hann ákvað að hætta að greiða þjónustugjaldið og taka til varna í dómsmálinu um kröfuna. Þá hefur engu verið teflt fram sem gerir sennilegt að andlegri heilsu umbjóðandans hafi verið svo farið að kærðu hafi borið að víkjast undan málarekstri fyrir hann við þessar aðstæður. Þvert á móti benda fram lagðar skeytasendingar til hins gagnstæða. Fær það ekki haggað niðurstöðunni að þessu leyti að kærða hafi teflt fram aldri umbjóðandans sem málsástæðu í máli hans. Verður að leggja frásögn kærðu um leiðbeiningar sínar til grundvallar og hafna því að beita hana viðurlögum vegna brota á 8. eða 10 . gr. siðareglna lögmanna.
II.
Ef ágreiningur lögmanns og umbjóðanda hans varðar rétt til endurgjalds fyrir störf lögmannsins eða fjárhæð þess, getur annar þeirra eða þeir báðir lagt málið fyrir úrskurðarnefnd lögmanna, sbr. 1. mgr. 26. gr. laganna.
Í máli þessu nýtur ekki við neinna staðhæfinga umbjóðandans um hvað honum og kærðu fór á milli um gjaldtöku, reikningagerð eða kostnað af málinu. Hins vegar hefur verið lagt fram bréf, dags. 7. maí 2013, þar sem fyrirspurn hans um líklegan kostnað var svarað á þá leið með bréfi að líklegur kostnaður vegna héraðsdómsmáls um kröfu gagnaðilans væri allt að einni milljón króna. Þessa bréfs er sérstaklega getið í tímaskýrslu kærðu og verður lagt til grundvallar að það hafi verið sent. Með hliðsjón af þeim aukastörfum sem kærða sinnti vegna málsins verður ekki talið að reikningsgerð hennar eigi að sæta lækkun vegna þessarar áætlunar. Þá verður að fallast á það með kærðu að fyrri reikningur hennar hafi borið tímagjald nægilega skýrlega með sér til að ganga verði út frá að það hafi verið lagt til grundvallar í samskiptum aðila um gjaldtöku.
Kærða hefur veitt trúverðugar skýringar á því af hverju reikningur var fyrst gefinn út eftir að dómur héraðsdóms gekk. Er ekkert komið fram sem gerir ótrúverðugt að viðskiptamaður hennar hafi viljað greiða inn á málið í upphafi, en síðan hafi átt að gera upp að héraðsdómi gengnum.
Ú R S K U R Ð A R O R Ð :
Kærða, Þ hrl., hefur ekki brotið gegn lögum eða siðareglum lögmanna í störfum sínum fyrir V.
Kröfu kæranda, dánarbús V, um að reikningur kærðu nr. 4139 sæti lækkun er hafnað.
ÚRSKURÐARNEFND LÖGMANNA
Kristinn Bjarnason hrl., formaður
Einar Gautur Steingrímsson hrl.
Valborg Þ. Snævarr hrl.
________________________
Haukur Guðmundsson